Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Hryðjuverkalögin; réttmæt og nauðsynleg aðgerð

Þrátt fyrir „gagnrýni“ fjárlaganefndar breska þingisins um beitingu hryðjuverkalaga gagn Landsbankanum þá er nauðsynlegt að Íslendingar geri sér grein fyrir því að þessum aðgerðum verður ekki aflétt. Ástæðan er einfaldlega sú að þau náðu tilgangi sínum jafnvel þó deila megi um beitingu þeirra. 

Í ofanálag kemur fram í fréttinni að ekki er talið að aðgerðin gagnvart Landsbankanum hafi haft nein áhrif á Kaupþing annað en að flýta því óumflýjanlega. 

Niðurstaðan er engin gagnrýni heldur létt áminning á fjármálaráðherrann og mun ekki hafa neinar pólitískar áhrif á hann eða ríkisstjórn Bretlands.

Staðan í Bretalndi er einfaldlega sú að þar taka menn fjármálin alvarlega og eflaust mun skýrslan sem birt verður í dag benda á ýmislegt í rekstri Landsbankans og Kaupþingi sem Bretum mislíkar og líklega verður þá um harða gagnrýni að ræða.

Sættum okkur við það, Íslendingar. Bretar tóku á málunum að festu, jafnvel offorsi, raunar alltof seint, en stjórnvöld hér heima höfðu sáralítið gert. 

Hér heima þurfum við að einbeita okkur að því að byggja upp ákveðnara stjórnkerfi sem tekur fjármálalífið alvarlega og setur rekstri fjármálafyrirtækja skilyrði sem ætlast er til að farið sé eftir. 


mbl.is Hryðjuverkalög of harkaleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rosalegt atvinnuleysi og ráðþrota minnihlutastjórn

Ráðist skal í sértæk átaksverkefni með öflugum vinnumarkaðsaðgerðum til að vinna gegn atvinnuleysi.

Mjög áhugavert er að lesa þetta í ljósi fréttarinnar um að 18.000 manns eru á atvinnuleysisskrá á Íslandi.

Þetta er auðvitað úr stjórnarsattmála minnihlustastjórnarinnar sem situr með tilstyrk Framsóknarflokksins. 

Vinstri flokkana hefur aldrei skort stóru orðin en oftast hafa efndirnar verið lakari.

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur Sigfússon hafa hingað til talið sig málsvara allra minnihlutahópa í þjóðfélaginu og haft uppi stór orð þeim til varnar. Þegar á reynir eru þau bara bullarar og kjaftaskar (afsakið orðbragðið en hvað á maður að segja?), gjörsamlega getulaus.

Eftir tveggja mánaða starfstíma minnihlutastjórnarinnar er ljóst að loforðin hafa verið SVIKIN í atvinnumálum eins víðast annars staðar. Minnihlutastjórnin er gjörsamlega stefnulaus og ófær um að taka til hendinni.

Á meðan 18.000 Íslendingar eru atvinnulausir er ríkisstjórnin að berja á Sjálfstæðisflokknum fyrir að vera á öndverðri skoðun við vinstri flokkana í STJÓRNARSKRÁRMÁLINU.

Hvers konar bull er þetta að eyða dýrmætum tíma í pólitískan leikarskap í stað þess að vinna að því að leysa þjóðina úr viðjum atvinnuleysis.

Mesta böl þjóðarinnar er ATVINNULEYSIÐ, ekki stjórnarskráin, ekki verðtryggingin, ekki tónlistarhúsið, ekki Icesave reikningarnir, ekki hallarekstur ríkissjóðs, ekki krónan, ekki útrásarvíkingarnir, ekki súludansstaðir.

Skilja vinstri menn ekki alvöru málsins eða eru þeir bara sáttir með að hafa ráðherrastólana og vegtyllurnar? 

Hvar eru nú sértæku átaksverkefnin og öflugu vinnumarkaðsaðgerðir minnihlutastjórnarinnar?

Ég lýsi hér með eftir þeim.


mbl.is 17.944 á atvinnuleysisskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pressa á að Seðlabankinn lækki allhressilega

Pólitísk pressa er orðin svo mikil á Seðlabankann og svokallaða peningamálstefnunefndar hans (fjórsamsett orð!) að búast má við tíðindum þann 8. apríl.

Lítum aðeins á stöðuna.

Heilli ríkisstjórn var slitið og önnur sett á laggirnar til þess eins að koma einum manni úr embætti bankastjóra Seðlabankans. Verkefnið tók einn mánuð. Á meðan gerði ríkisstjórnin ekkert annað enda varla hægt að ætlast til þess. Ráðherrarnir gátu vart á sér heilum tekið meðan þessi óvættur var í embætti.

Nú, eftir að lög voru sett á manninn og hann hvarf á braut, náði minnihlutaríkisstjórnin heilsu og tóktil við að starfa eftir stjórnarsáttmálanum. Unnið var að mikilvægum tillögum í atvinnumálum sem enn bíða þess að líta dagsins ljós enda hafa æfingar í stjórnarskrármálinu forgang og hljóta allir að skilja það.

Svo gerist það í millitíðinni að fjallið tók jóðsótt ..., það er vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans rann upp og ... stýrivextir lækkuðu um 1%, hvorki meira né minni.

Ráðherrar minnihlutastjórnarinnar ærðust, ekki af fögnuði heldur reiði. Allt þeirra starf hafði miðast við að halda áfram verkefnum fyrri ríkisstjórnar og stefnumiði fyrri stjórnar í Seðlabankanum enda allt of skammur tími til að fatta upp á einhverju nýju. Vonast var til að vaxtalækkunin yrði svo vel útilátin að jafnvel búsáhaldabyltingarmenn myndu skilja að stórmenni ríktu í stjórnarráði Íslands. Það gekk nú ekki eftir og sem betur fer er aðeins vika næsta vaxtaákvörðunardag. 

Hin pólitíska pressa á Seðlabankann felst nú í heilagri reiði Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra gagnvart Seðlabankanum og nefndinni með fjórsamsetta nafnið. Steingrímur J. Sigfússona fjármálalandbúnaðarogsjávarútvegsyfirráðherra er líka voða reiður.

Samtök atvinnulífsins fóru að sjálfstögðu næstum því á límingunum við hina nánasalegu lækkun stýrivaxta og börðu á ríkisstjórninni sem hefði alveg áttað sig á vandamálinu jafnvel þó SA hefðu verið víðs fjarri.

Bloggarar vinstri flokkana misstu málið um stund en hafa nú fengið það aftur og beina athygli sinni að hinni „ólýðræðislegu“ afstöðu Sjálfstæðisflokksins sem ekki vill þýðast meirihlutann á Alþingi. 

Stjórnarþingmennirnir og stuðningsmenn þeirra úr hinum feiga Framsóknarflokki leggja nú ofuráherslu á að stýrivextir lækki nú niður í 7% hið minnsta. Mannorð þeirra er að veði enda töldu þeir flestir að fyrrum Seðlabankastjóri stæði einn gegn lýðræðislegri og sjálfsagðri kröfu þjóðarinnar um lægri stýrivexti. Hins vegar hefur það komið á daginn að önnur öfl en stjórnarþingmannavilji og líklega hagfræðilegri ráða för í þessu máli.

Um daginn mátti glöggt heyra á máli stjórnarþingmanna sem talaði hátt í farsíma að annað hvort færi nú Norðmaðurinn í Seðlabankanum og nefndin með langa nafninu að vinna vinnuna sína eða skipt verði aftur um sérfræðinga í bankanum. Það sé nú aldeilis komin hefð á slík mál ef menn makka ekki rétt.

Lendingin verður áreiðanlega sú að stýrivextirnir verða lækkaði í 12% því Seðlabankinn ræður í þessum málum og hann er sjálfstæði stofnun ... það er ef forsætisráðherra er ekkert voða mikið á móti því - eða þannig, ha ...


mbl.is Voru sammála um að lækka vexti um 1 prósentu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorrí, stóllinn frátekinn fyrir Má Guðmundsson

Af hverju ekki enn eina leiksýninguna? Nei, nei. Enga leiksýningu, allt fyrir opnum tjöldum. það eru bara ljóti Sjálfstæðismennirnir sem ákveða stöðuveitingar í „reykfylltum bakherbergjum“.

Fyrir löngu var ákveðið að Már Guðmundsson ætti að vera næsti Seðlabankastjóri -  þá var hann Davíð enn þarna inni og búsáhöldin óbarin.

Vinstri menn hafa sín á milli með mikilli velþóknun fagnað Má í starfið. Þegar þannig er staðið að málum er ekki kyn þó keraldið leki. Jú, það lak út fyrir margt löngu að svona ætti það að vera. 

Ætlunin er einni að Þorvaldur Gylfason verði aðstoðarseðlabankastjóri en nokkur andstaða er við hann innan minnihlutastjórnarinnar og telja sumir farsælla að Arnór Sighvatsson haldi áfram í þessari stöðu. Einn þeirra sem hvetur til þess að Arnór verði fyrir valinu er kratinn Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra, sem enn nýtur nokkurar virðingar meðal Samfylkingarmanna. Sú virðing fer þverrandi eftir því sem völd gömlu Allaballanna innan þessa lausgirta flokks hafa aukist.

Og nú verður gaman að fylgjast með lokaatriði leiksýningarinnar. Hvernig menn leggja ráðningarnar fyrir, hvernig orðfærið verður og í hvað vitnað. Þori að veðja að heilagleikinn leki af frösum eins og lýðræði, fólki í landinu, bylting fólksins og svo framvegis.


mbl.is Fimmtán sóttu um stöðu seðlabankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihluti þingsins verður sér til skammar

... óstöðug, pólitísk, misráðið, of skammur frestur, óljós merkin hugtaka og orða, þrætusamkoma, veikir efnahag, óskýr,engin umræða, of naumur tími, hringlandaháttur, óljós hugmyndafræði, óskiljanlegt,ólúyðræðislegt ...

Þetta eru orð umsagnaraðila um frumvarp fræðimanna og hagsmunaaðila um stjórnarskrármálið. Kaupin á Alþingi gera ekki ráð fyrir neinni sátt um málið, þvert ofan í venju. Ofan í kaupið er enginn tími lengur til að ræða þessi mál. Forsætisráðherra minnihlutastjórnarinnar er svo lýðræðislega þenkjandi að henni kemur ekki við álit annarra en þeirra sem standa að viðskiptunum um breytingarnar.

Vinstri grænir og Samfylkingin keyptu Framsóknarflokkinn til stuðnings við minnihlutastjórn með því skilyrði að tveir hinir fyrrnefndu styddu nýja löggjafarsamkundu og hinn þriðji leggðist ekki gegn neinu máli sem stjórnin leggði fram.

Fyrir vikið er Framsóknarflokkurinn í útrýmingarhættu og vinstri flokkarnir eygja samkvæmt skoðanakönnunum möguleika á meirihluta á þingi.

Lýðræðishallinn á umræðunni um stjórnarskránna er svo gríðarlegur að ætlunin er að gera hana þannig úr garði að á næstu árum verði henni breytt eftir því hvaða pólitísku vindar blása hverju sinni. Það er ekki tilgangurinn með grunnlögum. Málatilbúnaðurinn er meirihluta þingsins til skammar og honum væri nær að drullast til að vinna að þeim málum sem eru meira knýjandi en svona æfingum.


mbl.is Vilja vísa stjórnarskrármáli frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sættið ykkur við lýðræðislegar reglur

Styður Framsóknarflokkurinn ekki ríkisstjórnina? Hvaða bull er þetta í Siv Friðleifsdóttur um að Sjálfstæðisflokkurinn stjórni málum? Þetta er svo mikið bull sem mest má vera.

Nái meirihlutinn ekki fram sínum málum vegna minnihlutans þá verður bara að hafa það. Rétt eins og þegar minnihlutinn fær ekki næg atkvæði til að koma sínum málum fram.

Og til þess að kenna nú þessum áhugasömu þingmönnum sitt af hverjum um lýðræðislegan gang mála þá eru það atkvæðin á þingi sem telja en ekki grátur Sivjar eða hótanir Atla sem gilda.

Atli tók ósjaldan þátt í að tefja mál fyrir fyrrverandi ríkisstjórn með málþófi. Ekki flögraði annað að honum en að hann og hans nótar hefðu fullkomlega rétt fyrir sér. Þeim kom það ekkert við þó meirihlutinn kvartaði og kveinaði. En nú er kallinn í einhvers konar meirihluta og þá eru leikreglurnar allt aðrar.

Sættu þig bara við það, Atli, að aðrir brúki sömu meðul og þú! 

Og Siv Friðleifsdóttir ætti ekki að vaða upp á dekk. Hún sem var umhverfisráðherra og hélt því fram að Eyjabakkar væru ljótir og þar mætti virkja. Þjóðin var nú ekki á sömu skoðun en það skipti hana engu máli.

Og hversu oft brúkaði stjórnarandstaðan ekki málþóf þegar Siv varráðherra eða ekki-ráðherra? nóg kvartaði hún undan minnihlutanum en auðvitað breytast allar forsendur þegar maður kemst í pólitískan lífsháska enda ljóst að Siv og framsóknarmenn hafa veðjað á vitlausan hest sem er þessi minnihlutastjórn. Hún mun ganga af Framsóknarflokknum dauðum.

Sættu þig bara við þessar lýðræðislegu leikreglur, Siv, og hættu þessu væli! 


mbl.is Geta setið fram að kosningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sandkassaleikur minnihlutastjórnar

Gjaldþrot Egils Árnasonar ehf. er einfaldlega dæmi um hamfarir af mannavöldu. Í tvo mánuði hefur ríkisstjórn minnihlutans á Alþingi verið að velkjast í vandamálunum. Hið eina sem henni dettur í hug er að sinna einhvers konar pjattmálum sem engu skipta. Á meðan hrynur gott fyrirtæki eins og Egill Árnason ehf.

Birgir Þórarinsson nefnir að sjálfsögðu hrunið í byggingariðnaðinum en það eitt réði ekki úrslitum. Gengisvísitalan er yfir 200 stig, lánsfé er ekki fáanlegt hjá nýju bönkunum og ekki hefur verið reynt að byggja upp traust á íslenskum fjármálastofnunum erlendis.

Hafi einhver verið í vafa um næstu verkefni í endurreisn atvinnulífsins þá hafa stjórnmálamenn þau hér. Lausnin mun hins vegar koma allt of seint fyrir Egil Arnason ehf. rétt eins og restina af fyrirtækjum landsins og almennings. Minnihlutastjórnin hefur verið í sandkassaleik síðustu tvo mánuði.


mbl.is Ævistarfið farið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband