Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
Engin vandamál með Makka ...
16.12.2008 | 09:38
Nokkuð langt er síðan Microsoft hætti að uppfæra Explorer fyrir Makka. Líklega var það um svipað leyti að Apple gaf út Safari. Síðan hefur staðan á tölvu minni verið alveg ágæt enda nota ég Makka og á þar af leiðandi ekki í þeim vandamálum sem um getur í greininni.
Lengst af hef ég metið Microsoft að verðleikum þó ekki nema fyrir þá sök að hafa búið til nokkur góð forrit eins og Excel og Word. Á móti koma ýmsir vankantar hjá þessu ágæta fyrirtæki. Þau helstu varða viðmót forrita. Smám saman hafa þau orðið lakari, ekki síst með þessum óskapnaði sem blasir við manni með Office 2008. Engu líkar er en að þeir hjá Microsoft hafi eitthvað allt annað í huga við hönnun forrita en neytandann.
Ekki er úr vegi að lauma hér með gamalli tuggu sem engu að síður er klassísk. Þvílíkt góðgæti og skemmtun að eiga kost á afbragðs tölvu sem Makkinn er. Ég held að engar aðrar tölvur komist nálægt því að vera eins þægilegar og neytendavænar og Makkinn og sama er með fjölmörg makkaforrit, t.d. Pages, Keynote, iPhoto, Graphic Converter, Grab, iCal, Addressbook, iWeb og síðast en ekki síst iTunes.
Verstur fjandinn hvað krónan stendur illa. Það er ekki á færi venjulegs launamanns þessa daganna að endurnýja hjá sér rúmlega þriggja ára gamla tölvu.
Alvarlegur öryggisgalli í Internet Explorer | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt 19.12.2008 kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Líður Samfylkingunni betur í stjórnarandstöðu?
15.12.2008 | 11:29
Það getur vel verið að rétt sé að efna til kosninga í vor. Það er hins vegar ekki aðalmálið núna. Það er meira áhyggjuefni hversu ótraust Samfylkingin virðist vera í ríkisstjórnarsamstarfinu. Formaður flokksins er farinn að setja Sjálfstæðisflokknum skilyrði, ráðherrar flokksins eru farnir að tala út og suður og jafnvel farnir að tala þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar, þingmenn og varaþingmenn hafa ítrekað lagt stein í götu ríkisstjórnarinnar og opinberlega tekið afstöðu gegn henni.
Niðurstaðan virðist vera sú að Samfylkingunni sé hugsanlega ekki treystandi í samstarfi. Hún kunni betur að vinna í stjórnarandstöðu heldur en vera í því hlutverki að taka ábyrgð og byggja upp þjóðfélagið eftir hamfarir síðustu vikna.
Þetta er verulega sorglegt en ljósi punkturinn er þó alltaf sá að nauðsynlegt er að stjórnarandstaðan sé öflug en það hefur núverandi stjórnarandstaða ekki verið. Kannski þyrfti að efla hana með Samfylkingunni og það verði gert í kosningum næsta vor ...
UJ vilja jafnaðarstjórn sem sækir um aðild að ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölbreytni í atvinnulífi
12.12.2008 | 08:49
Það er fráleitt að þjóðin geti treyst á eina atvinnugrein umfram aðra. Mestu skiptir að hér sé fjölbreytni í atvinnulífi.
Um langan aldur byggðum við fyrst og síðast á sjávarútvegi og sveiflur í veiðum eða sölu afurða komu nær samstundis fram í efnhagslífi þjóðarinnar. Sveiflurnar gerðu það að verkum að nær ómögulegt var fyrir aðrar atvinnugreinar að þrífast. Markmiðið er að svo verði aldrei aftur hér á landi og því er óviðunandi hversu stór áliðnaðurinn er.
Margir hafa haldið því fram að ferðaþjónusta sé framtíðin en því miður er svo ekki. Náttúra Íslands á eftir að bera stóran skaða af fjölgun ferðamanna og gerir það í raun nú þegar. Menn eins og Ómar Ragnarsson hafa prédikað um nauðsyn þess að fjölga ferðamönnum. Þannig bílakallar ættu nú að ganga yfir Fimmvörðuháls, skoða Esjuna, Vífilsfell, Súlur, fara víða um Hornstrandir. Þeir munu þar sjá að ágangur ferðamanna hefur stórskaðað landið og afleiðingin er víðtækt rof á gróðurþekjunni og sem síðan skemmist enn meira vegna ágangs vatns.
Niðurstaðan er því fjölbreytni í atvinnulífi. Við þurfum að nýta landið á skynsamlegan hátt, varast að skaða það á óafturkræfan hátt. Víti til varnaðar eru hryðjuverk Orkuveitu Reykjavíkur á Kolviðarhóli og nágrenni, Skarðsmýrarfjalli og Hellisheiði.
Getum ekki treyst á álið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mótmælin að þynnast út í pólitík
11.12.2008 | 15:40
Með þessari uppákomu dvínaði heldur virðing mín fyrir Herði Torfasyni. Get ekki með nokkru móti séð hvernig hann getur tengt dómsmálaráðherra við fall Glitnis og þaðan af síður krafist afsagnar hans.
Annars er ánægjulegt að sjá hvernig Vinstri grænir skemmta sér og að þeir hafi hið forna merki sósíalista í hávegum. Og enn skemmtilegar er að sá hvað sumir taka sig alvarlega og hylja andlit sín. Það vekur alla vega spekúlasjónir og vangaveltur rétt eins og í spurningakeppnum.
Ekki geri ég ráð fyrir því að þessi hafi verið þverpólitískur.
Mér sýnist á öllu á góð mótmælaherferð sé að þynnast út í einhliða pólitískan áróður fólks á vinstri væng stjórnmálanna. Með þessu fólki á ég litla samleið þó svo að maður sé fúll út í ástandið.
Raddir fólksins hjá saksóknara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ungt, vinstra grænt og leikur sér
8.12.2008 | 15:21
Dreg í efa að nokkur þingmaður hafi drullað sér út en þingmenn Vinstri grænna hafa áreiðanlega setið manna fastast.
Allt er þetta nú hluti af lýðræðislega leiknum, líka þegar ungmennin munu berja einhvern vondan útrásarvíking eða embættismann sem gerir ekki það sem þjóðin vill.
Ólæti á þingpöllum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ósamstæð ríkisstjórn og einleikur ráðherra
6.12.2008 | 13:07
Ráðherrar þurfa að læra það að ríkisstjórnin er ein heild. Viðskiptaráðherra er ekki í stjórnarandstöðu, hann er í meirihluta. Það er engin ástæða að fara á taugum og fara eftir knýjandi hvöt að réttlæta sjálfan sig. Það er hins vegar ekki í þágu heildarinnar. Hafi ráðherrann einhverjar athugasemdir við framgang mála þá á hann að taka þær upp innan ríkisstjórnarinnar eða við formann flokksins og ræða þær þar. Þetta er sú aðferðafræði sem menn brúka í samvinnu.
Nú, svo getur það verið knýjandi nauðsyn að létta af hjarta sínu af því að ríkisstjórnin er ekki traust í sessi þrátt fyrir tuttugu manna þingmeirihluta. Auðvitað á Björgvin þá að rasa áfram og gera fyrirvara við allt og alla. Kannski það hafiverið seðlabankastjóra að kenna að hann og bankamálaráðherra funduðu ekki, kannski var það seðlabankastjóra að kenna að bankamálaráðherra leitaði ekki til seðlabankastjóra til að afla upplýsinga, kannski hafi bankamálaráðherra viljandi verið haldið utan við atburðarásina í upphafi atburðarásar sem leiddi til falls Glitnis og svo hinna bankanna, kannski að bankamálastjóri bíði alltaf eftir frumkvæði annarra í stjórnsýslu sinni. Þá er lýsir þetta miklu frekar eiginleikum ráðherrans en öllum öðrum.
Menn geta haft hvaða álit sem þeir vilja á almannatengslum eða PR. Þessi fræði ganga þó út á sameiginlega strategíu sem hefur það að leiðarljósi að koma upplýsingum á framfæri. Ríkisstjórnin virðist enn ekki hafa náð tökum á þessu þrátt fyrir að ráðherrar hafi fjölmarga aðstoðarmenn og ímyndarsérfræðinga í vinnu. Þar er meðal annars komin ástæðan fyrir því að þúsundir landsmanna mótmæla vikulega eða oftar og fylgi stjórnarinnar fellur með hverri viku.
Björgvin: Spurningarmerki við Glitnisatburðarás | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Afar jákvæðar fréttir fyrir almenning
5.12.2008 | 16:08
Hægt og hægt virðist krónan styrkjast. Sumir gleðjast en aðrir geta ekki leynt vonbrigðum sínum. Þeir ákalla allar vættir sem þeim dettur í hug og biðja þess að allt haldi áfram að vera í kalda koli. Fyrir slíkum er það versta sem fyrir getur komið að glæpurinn sé frá þeim tekinn, sumir bloggarar eru hreinlega frávita vegna þessara frétta
Fyrir okkur, venjulegt fólk, eru þessar fréttir afar jákvæðar. Maður vonast til þess að þetta haldi áfram. Hins vegar er búið að vara mann við því að afturhvarf geti orðið í gangi krónunnar. Þetta er svona eins og að horfa á landsliðið í handbolta spila. Allir búast við slæma leikkaflanum sem reyndar ræður alltaf úrslitum í leiknum - og leikurinn tapast.
Engin ástæða er að vera með bölbænir. Krónan er að vísu bæði með tryggð í bak og fyrir með lögum og reglugerðum, belti og axlaböndum, epli og appelsínum ...
Við fylgjumst bara með og vonum hið besta.
Styrkist áfram - 10,41% í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Frábær bók Guðmundar Andra Thorssonar
5.12.2008 | 08:51
Sá leiðinlegi pistlasmiður sem farið hefur hálfsmánaðarlega hamförum á forystugreinarsíðu Fréttablaðsins hefur nú skrifað sögu og fengið gefna út. Þá bregður svo við að sagan er að mínu mati verulega skemmtileg, afar vel skrifuð og sýnir aðra og betri hlið á rithöfundinum en ég hélt að hann ætti til.
Pólitískt er ég hreint ekki sammála Guðmundi Andra Thorssyni. Hann er miður hreinlyndur pólitískur skrifari, skautar oft fram hjá staðreyndum og lætur það vaða sem betur hljómar. Kannski er það vegna þess hversu góður skrifari hann er að mér líkar illa við pólitísku skrifin en held varla vatni yfir þeim fagurfræðilegu. Verð þó að viðurkenna að ég hef aldrei lesið neitt eftir Guðmund, en ákvað um daginn að gefa bókinni séns enda hefur henni verið mikið hampað.
Bókin Segðu mömmu að mér líði vel er yndisleg saga, nokkurskonar ævisaga. Hún hefur víðtæka skírskotun í nöfn fræga fólksins. Fær það raunar á tilfinninguna að nöfn þeirra séu dulnefni fyrir raunverulegt fólk sem var uppi á síðustu öld, maður kannast einhvern vegin við karakterana. Kannski er verið að tala þar um rithöfundana eins og Jón Trausta, Guðrúnu frá Lundi, tónlistarmanninn Hauk Mortens og svo framvegis.
Hvað um það. Eftir lestur bókarinnar líður manni vel. Sagan flýtur óskaplega vel áfram. Það truflaði mig þó lítið eitt að í upphafi bókarinnar fær maður það á tilfinninguna að ástkona söguhetjunnar sé horfin, jafnvel dáin. Það olli því að maður las hratt, of hratt, til að komast að örlögum konunnar. Þannig heldur sagan manni í helgreipum og samúðin með söguhetjunni er óskoruð.
Kannski ég fari nú að lesa pistla Guðmundar Andra Thorssonar í Fréttablaðinu með öðru hugarfari. Í það minnst hef ég breytt um skoðun, hann er ekki eins leiðinlegur og ég hélt, bara alls ekki svo slæmur ... En pólitískt er ég langt frá því sammála manninum.
Bækur | Breytt 19.12.2008 kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Óhollt að vera með Davíð á heilanum
4.12.2008 | 08:16
Fjölmargir bloggarar eru gjörsamlega með Davíð Odsson á heilanum. Það getur ekki verið hollt fyrir sálarlífið. Fjölmargir bloggarar og landsmenn kenna Davíð Oddssyni um allt sem miður hafi farið í efnahagsmálum og við liggur að þeir kenni manninum um allt sem miður hafi farið hér á landi og jafnvel erlendis. Það er ekki heldur hollt að einfalda svo málin.
Lífið er ekki svo einfalt að hægt sé að finna blóraböggul fyrir allt það sem miður fer. Búið er að magna upp alveg óskaplega heift gagnvart einum manni. Eflaust má margt út á hann setja og það sem hann hefur staðið fyrir bæði sem stjórnmálamaður og sem seðlabankastjóri. Það er bara svo yfirgengilegt rugl að halda því fram að Davíð sé holdgerfingur kreppunnar að það tekur ekki nokkru tali.
Persónulega sé ég ekkert því til fyrirstöðu að Davíð snúi aftur í stjórnmálin. Margir munu fagna því. Hins vegar held ég að ekki sé nokkur von til þess að hann komi aftur.
Davíð: Þá mun ég snúa aftur" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lítil uppskera stjórnarandstöðunnar þrátt fyrir allt
2.12.2008 | 11:42
Vitlaustasta tillaga stjórnarandstöðunnar í efnahagashremmingum undanfarinna vikna var líklega vantrauststillagan sem þó var felld, engum til undrunar. Stjórnarandstaðan var þó klofin í atkvæðagreiðslunni og kann það að hafa ráðið úrslitum enda leggja menn vart fram tillögu nema í þeirri vona að hún verði samþykkt.
Ekki hefur stjórnarandstaðan verið einbeitt í verkum sínum á Alþingi. Samstaðan innan hennar hefur verið lítil. Þingmenn Framsóknar hafa hrökklast í burtu, þingmaður Frjálslyndra greiddi atkvæði gegn vantraustinu og formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins þurfti nú síðast að biðjast afsökunar yfir því að hafa talað niður til fatlaðra.
Undarlegt er þó það að uppskera stjórnarandstöðunnar sé ekki meiri í skoðanakönnunum miðað við stöðuga gagnrýni og mótmæli gegn ríkisstjórninni.
Það breytir því ekki að von er á að miklar breytingar verði á mannaskipun stjórnmálaflokkanna fyrir næstu Alþingiskosningar af þeirri einföldu ástæðu að þeir bera allir mikla ábyrgð á stöðu þjóðarbúsins.
Ánægja með stjórnarandstöðu vex | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |