Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Óþægileg tilfinning grípur mann

Ósjálfrátt færist yfir mann óþægileg tilfinning við það eitt að forsætisráðherra boði til blaðamannafundar.

Í síðasta mánuði voru ekkert óskaplega uppörvandi tíðindi flutt á blaðamannafundum.

Við nánari umhugsun flögrar þó að manni að verra gæti það verið. Ætli maður fái ekki hjartaáfall ef boðað yrði að forsætisráðherra myndi ávarpa þjóðina í beinni útsendingu.

Kannski er þetta bara eitthvað smotterí eins og að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi hafnað því að lána þjóðinni smáaura. Jafnvel að breska stjórnin hafi lýst yfir hafnbanni á Ísland. Við hristum svoleiðis af okkur.


mbl.is Ráðherrar boða til blaðamannafundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnvöld virðast fatta

Þetta eru góðar fréttir. Gylfi Zoëga og Jón Daníelsson hafa lagt fram einfaldar og skýrar hugmyndir. Greinilegt er að þeir hafa náð athygli fleiri aðila en þeirra í efnahags- og skattanefnd. Í útvarpinu í morgunu nefndi félagsmálaráðherra að hún sé mjög hlynt tillögum þeirra.

Tillögurnar eru þessar:
  1. Sett verði lög sem tímabundið verndi einstaklinga og fyrirtæki í greiðsluerfiðleikum fyrir ágangi kröfuhafa.
  2. Skuldurum verði í ríkisbönkunum gefinn kostur á greiðsluaðlögun svo sem í formi greiðslufrests, lengingar lána og gjaldmiðilsbreytingar lána.
  3. Heimilin geti farið fram á færslu húsnæðislána í Íbúðalánasjóð með viðeigandi lagfæringu á greiðslukjörum.
  4. Ríkið bjóði fyrirtækjum upp á ódýrt lánsfé í krónum og/eða bjóðist til að leggja fram nýjan eignarhlut í fyrirtækin. Þeir Gylfi og Jón leggja til að ríkiðsvaldið prenti krónur „til þess að lána skuldsettum fyrirtækjum á lágum vöxtum. Þessi lán verði til nokkurra ára og ekki krafist afborgana fyrstu sex mánuðina.“
  5. Heimilunum verði gefinn kostur að Íbúðalánasjóður kaupi hlut í fasteignum þeirra sem þau gætu síðan keypt aftur á markaðsverði eða þegar fjárhagsstaðan hefur batnað.
Mestu skiptir að stjórnvöld taki ábendingum og enn betra væri ef þau teldu sig geta farið eftir þeim. Staðreyndin er bara sú að við komumst ekki úr kreppunni nema með því að nýta ráð hinna bestu manna sem tiltækir eru. Verkefni stjórnvalda er að fatta þetta.
mbl.is Ræða alvarlega efnahagsstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sum fyrirtæki hækka álagninguna í leiðinni

Fleiri fyrirtæki en IKEA hafa gripið til þess að hækka verð vegna óhagstæðs gengis. Sum þeirra, og raunar eru þau alltof mörg, hafa leyft sér að hækka líka á innlendum aðföngum. Þetta gera menn svona „í leiðinni“ í þeirri von að enginn taki eftir neinu. FÍB hefur fullyrt að olíufélögin hafi hækkað álagningu sína til mótvægis við lækkandi innkaupsverð á eldsneyti. Vitað er um fjölmörg önnur fyrirtæki.

Miðað við stöðuna í efnahagsmálum er þetta ekkert annað en glæpur. IKEA kemur þó alla vega hreint fram og tilkynnir um hækkun og er þar heiðarlega að verki staðið hvað svo sem mönnum finnst um gjörninginn.

Hins vegar eru alltaf tvær hliðar á hverju máli. Án efa freistast margir til að hækka frekar álagninguna og komast þannig hjá því að fækka starfsfólki.


mbl.is IKEA hækkar verð um 25%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikurinn gekk ekki út á ævilanga fjötra

Lánveitingar eru ekkert lottó þar sem annar aðilinn getur annað hvort stórgrætt eða tapað. Hugmyndin var einfaldlega sú að hægt væri að velja um ákveðna áhættu, myntkarfan gat verið áhætta. Hagstætt gengi krónunnar leiddi til lágra afborgana. Ef illa færi þá yrðu afborganirnar eitthvað hærri en þeirra sem sættu sig við einfalda vexti og verðtryggingu.

Leikurinn gekk aldrei út á það að skuldin gæti tvöfaldast. Höfuðstóllinn yrði hækkaði sífellt. Lánið yrði hærra en íbúðin, lánið yrði hærra en bíllinn. Leikurinn gekk aldrei út á ævilanga fjötra skuldarans og himinnháan gróða kröfueigandans

Enginn átti það á hættu að fá illar draumfarir vegna lána sinna. Sú hræðilega, dagsanna martröð sem leggst nú á stóran hluta landsmanna er eiginleg fráleit. Það er út í hött að fólk geti ekki losað sig við eignir sínar vegna þess að enn yrði eftir stór hluti af láninu. Hrikalegt að andvirði tryggingar bíls skuli ekki geta dekkað verðmæti hans að frádregnum árlegum afskriftum. Leikurinn gekk ekki út á það að eigandinn væri hlekkjaður um ókomna framtíð við eftirstöðvarnar af íbúðinni eða bílnum.

Hér hefur verið lýst þeim stóru vandamálum sem horfa að hinum almenna borgara, lánadrottnum og tryggingafélögum að ótöldum öllum öðrum sem beint eða óbeint geta komið að málum. Ljóst er að viðskipti geta ekki gengið með þessum hætti ekki frekar en verðbólga sé yfir þeirri sem viðgengst í nágrannalöndunum eða atvinnuleysi gerir heiðarlegu fólki vonlaust að standa við skuldbindingar sínar í einföldu lífi sínu.

Þó kreppan sé ekki nema mánaðargömul er atvinnuleysið óásættanlegt, þróun íslensku krónunnar sárari en tárum taki og varnir fyrir almenning virðast litlar og fálmkenndar.

Á sama tíma rugla stjórnmálamenn rétt eins og þeir væru drukknir í vinnunni og ekkert virðist vera gert til að laga aðstæður almennings. Mál er að þessari martröð linni. Ef stjórnmálamennirnir gera það ekki þá er kominn tími til að almenningur og fyrirtækin í landinu taki frumkvæðið í sínar hendur.

Við getum það ef við viljum.


Plís góði guð, gefðu að glæpur hafi verið framinn.

Fjöldi fólks les ekki, skilur ekki og vill ekki nota hausinn á sér. Þetta sama fólk á sér enga ósk heitasta en að nú finnist ærlegt undanskot í bönkunum, sannanir finnist fyrir því að fullt af peningum hafi verið millifærðir á einhverja peningaparadísir í Karabíahafinu. Engar sannanir hafa enn komið í ljós en fjöldi bloggara sem hafa tjáð sig um þessa frétt lætur sig ekki. Það skal vera maðkur í mysunni.

Plís góði guð, gefðu að glæpur sé framinn svo ég, hinn saklausi, hreinlyndi, heiðarlegi, geti nú tjáð mig um vondu kallanna

Ástæða er þó til þess að fólk fari sér hægt i skrifum. Nú þegar eru fjöldi dæma um að ein fjöður hafi orðið að fimm hænum eða álíka. Fólk verður að halda ró sinni þó svo að ástandið sé erfitt.

Það hlýtur að vera slæm líðan að vonast svo ákaflega heitt eftir glæp og þegar hann finnst ekki þá gengur maður bara hreinlega af göflunum.

Hver skyldi nú vera verri, sá sem krefst glæpsins eða sá sem fremur hann?


mbl.is Skoða meintar milljarðafærslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skapand hugsun og skilyrðin

Ef þjóðin á að geta komið sér út úr þessum efnahagsvanda þá þarf ríkisstjórnin án efa skapandi hugsun. Um það er enginn vafi. Grundvöllurinn er sá að koma í veg fyrir atvinnuleysi, hvetja til að ekki verði gengið harkalega gagnvart, skuldurm og ekki síður tryggja að þeir sem standa höllum fæti þurfi ekki að missa íbúðir sínar.

Því miður er kreppa sjaldnast móðir tækifæra fyrir þann sem er atvinnulaus. Fyrir þann sem missir vinnu sína er framtíðin aldrei möguleikar. Ástæðan er fyrst og síðast þær fjárhagslegu skuldbindingar sem hann og fjölskylda hans hefur tekið á sig. Svokallaðar atvinnuleysisbætur duga sjaldnast til afborgana af húsnæðislánum. Svo gripið sé til orðalags sem oft er notað í fréttum, þá er „rekstrarhæfi“ einstaklings á atvinnuleysisbótum afar lítið. Til viðbótar kemur hinn dimmi skuggi vonleysis og óöryggis.Við þessu þarf ríkisstjórnin að bregðast.

Hagfræðingarnir Gylfi Zoëga og Jón Daníelsson rituðu fyrir skömmu saman grein í Morgunblaðið sem nefnist „Yfir skuldasúpu“. Þeir taka þar á málum á svipaðan hátt og Þór Sigfússon formaður SA gerir. Leggja áherslu á skapandi hugsun við að koma þjóðinni upp úr vandanum.Hugmyndir þeirra eru ma. þessar:

  1. Sett verði lög sem tímabundið verndi einstaklinga og fyrirtæki í greiðsluerfiðleikum fyrir ágangi kröfuhafa.
  2. Skuldurum verði í ríkisbönkunum gefinn kostur á greiðsluaðlögun svo sem í formi greiðslufrests, lengingar lána og gjaldmiðilsbreytingar lána.
  3. Heimilin geti farið fram á færslu húsnæðislána í Íbúðalánasjóð með viðeigandi lagfæringu á greiðslukjörum.
  4. Ríkið bjóði fyrirtækjum upp á ódýrt lánsfé í krónum og/eða bjóðist til að leggja fram nýjan eignarhlut í fyrirtækin. Þeir Gylfi og Jón leggja til að ríkiðsvaldið prenti krónur „til þess að lána skuldsettum fyrirtækjum á lágum vöxtum. Þessi lán verði til nokkurra ára og ekki krafist afborgana fyrstu sex mánuðina.“
  5. Heimilunum verði gefinn kostur að Íbúðalánasjóður kaupi hlut í fasteignum þeirra sem þau gætu síðan keypt aftur á markaðsverði eða þegar fjárhagsstaðan hefur batnað.
Allt eru þetta mjög góðar hugmyndir sem vert er að hrinda í framkvæmd.
 
Hitt er ónefnt og á það minnist Þór ekki og það er að ríkisvaldið, sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðinn sinni kyningarmálum sínum á þann hátt að almenningur viti nákvæmlega hvað verið er að gera og hvaða lausnir standa til boða. Þetta er eiginlega grundvallaratriði.

 

 


mbl.is Mikilvægt að hugsa hlutina upp á nýtt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dixville Notch er 75 manna þorp

Þetta finnst mér skrýtið. Í Dixville Notch búa sjötiu og fimm manns og nærri þriðjungur þeirra eru kjörmenn. Miðað við hlutfallið þá ættu í Bandaríkjunum öllum að vera áttatíu og fjóra milljónir kjörmanna sem stenst nú bara ekki.

Annars eru fyrirkomulag forsetakosninga í Bandaríkjunum frekar undarlegt. Í mörgum ríkjum detta atkvæði dauð, því sá sem tapar fær enga kjörmenn en sigurvegarinn alla. Annars staðar er fjöldi kjörmanna í hlutfalli við fjölda atkvæða.

Að sjálfsögðu ætti hlutfallskosning að ríka. Þar með ætti hver kjósandi kost á því að eiga einhvern þátt í úrslitunum, hvern svo sem þeir hafa kosið.

Hvert land hefur þó sína lýðræðislegu „sérvisku“ og víst er að Bandaríkjamenn eru frekar fjarri því sem flestir Evrópubúa myndu sætta sig við.


mbl.is Obama sigraði í Dixville
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

Fæstum er hlátur í huga

Kjaftasagan reyndist þá vera sönn þrátt fyrir allt. Ég sem hélt að þetta hreinlega gæti ekki gerst.

Maður man eftir því þegar ábúðarfullir bankamenn komu fram í fjölmiðlum og sögðust hafa sett ákveðnar fjárhæðir í sérstakan afskriftasjóð. Þeir áttu þá við að tiltekinn hluti af útlánum til almennings og líklega fyrirtækja væri þannig metinn að óvíst væri um endurgreiðslu, jafnvel engar líkur.

Þannig mátu þessir skynsömu menn eigin aðstæður, ekki minna ábúðarfullir. Skuldum sínum debetfærðu þeir í endanlegan afskriftasjóð, Málið dautt, eins og grínararnir segja. Fæstum er þó hlátur í huga.

Er málið dautt? 


mbl.is Þurfa ekki að greiða fyrir hluti í Kaupþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjaftasagan sem reyndist vera frétt

Varla hefur nein „frétt“ vakið meiri reiði almennings en upplýsingar um niðurfellingu hlutafjárskuldar yfirmanna í KB banka. Sannast sagna hélt ég að þetta væri einfaldlega kjaftasaga sem engin stoð væri fyrir. En þessar síðustu vikur hefur svo margt hrannast upp sem dregur úr áliti mínu á því fólki sem stjórnað hefur bönkunum, embættismönnum og jafnvel þeim sem setið hafa við stjórnvöl landsins. Það er engin sanngirni fólgin í því að banki gangi hart að sumum skuldurum sínum en felli niður lán annarra af því að aðstæður hafa á einhvern hátt „breyst“. Já góðan daginn. Vita menn ekki að allt tekur breytingum. Forsendur breytast og þess vegna getur maður átt erfitt með að standa við fjárhagslegar skuldbindingar. Maður verður þó að reyna.

Sauðsvartur almúginn hefur hingað til ekki getað gengið inn í viðskiptabanka sinn og sagt:

Get ég ekki fengið skuldina einfaldlega fellda niður?

Nei takk. Þessi möguleiki hefur aldrei verið til eftir því sem best er vitað. Hitt vitum við gjörla að her lögfræðinga hefur unnið í þessum fjárans bönkum. Þeim er umsvifalaust sigað á okkur aumingjanna og miskunn þeirra og bankanna hefur yfirleitt verið lítil. 

Kjaftasagan var þá sönn eftir allt saman. Og hvernig skyldi standa á því að upplýsingar bárust út um málið? Það væri gaman að vita. Jú, einhverjum starfsmanni eða starfsmönnum ofbauð allt saman og ákvað að leka út í þjóðfélagið. Meðan stjórnendur KB banka voru blóðugir upp fyrir höfuð við uppsagnir höfðu fjölmargir af þessum sömu yfirmönnum fengið sérmeðferð, skuldir þeirra felldar niður. Nærri þúsund manns fengu svo sparkið. 

Ágæti lesandi, hverju getur maður trúað héðan í frá? Ég er ekki svo blár að ég geti kyngt öllu.

 

 


Sporin hræða ...

Hversu mörg fyrirtæki hafa ekki verið stofnuð um fjölmiðla hér á land? Hversu mörg hafa ekki farið á hausin? Í hversu mörgum hafa ekki orðið miklir bardagar um meirihlutaaðild? Allur þessi hamagangur hefur farið afar illa með frjálsa samkeppi á fjölmiðlamarkaði.

Hið eina sem stendur eftir er prentmiðillinn Morgunblaðið í eigu Árvakurs og þvingurarútvarpið í eigu ríkisins. Hvernig skyldi nú staðan verða ef Árvakur yrði vettvangur hildarleikja eins og háðir hafa verið um Stöð 2, Bylgjuna og Fréttablaðið? Maður þorir varla að hugsa þá hugsun til enda.

Ég vil bara hafa Moggann eins og hann er í dag, helst í eignarhaldi skynsamra aðila sem gefa ritstjórninni frjálsar hendur innan eðlilegs rekstrarlegs ramma.

Ef allt fer á versta veg, hvað eiga þeir að gera sem skemmta sér við að segja reglulega upp áskriftinni að Mogganum vegna einhvers sem sagt er í Staksteinum eða leiðara? Ekki segja þeir upp Fréttablaðinu eða hinu heilaga ríkisútvarpi. Nei framtíðin virðist dimm fari Árvakur á markað.


mbl.is Árvakur verði almenningshlutafélag á næstu árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband