Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Hvar eru peningarnir?

Hvar eru þessir peningar sem Bretar lánuðu bankanum? Ef ég greiði ekki af láninu mínu þá spyr bankinn ekki hvers vegna, honum dettur það ekki í hug. Hann hefur einfaldlega í hótunum við mig, krefst þess að ég borgi.

Það er auðvitað barbarismi á hæsta stigi ef banki á ekki peninga til að endurgreiða viðskiptavinum sínum. Maður hefði nú haldið að bankar gættu annarra peninga fram í rauðan dauðann. Síst af öllum hefði manni dottið í hug að innlánin færu í einhverja vafasamar tilfæringar í því skyni að hámarka ávöxtunina.

Fjöldi fólks skilur ekki hvernig komið er fyrir íslensku bönkunum. Menn geta endalaust kennt ríkisstjórninni um að hafa ekki sett lög og reglur sem takmarki ábyrgð hér innanlands, Seðlabankanum fyrir að hafa ekki verið nægilega vakandi eða stjórnendum bankanna fyrir að hafa ekki stjórnað þeim á heiðarlegan hátt. Endanleg ábyrgð hvílir hins vegar á eigendunum. Hvað í andskotanum voru þeir að gera?

Það þýðir hins vegar ekkert að kenna breskum stjórnvöldum um stöðuna, að þeir hafi verið of fljótir á sér, notað einhver hryðjuverkalög. Bankar eiga að hafa vaðið fyrir neðan sig, eignfjárstaðan á að vera svo sterk að þeir geti endurgreitt viðskiptavinum sínum. Til þess höfðu þeir peninga.


mbl.is Bretar settu 1% í Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver gæti verið staðan án íslensks landbúnaðar?

Margir hafa krafist þess að innflutningur matvæla verði gefinn frjáls. Nú eru hins vegar sú staða uppi að þó að innflutningur á landbúnaðarafurðum hafi verið frjáls þá gæti erlenda framboðið verið svo lítið að það dugi ekki fyrir eftirspurn hér innanlands.

Ekki gátu menn séð fyrir þessa efnahagskreppu sem nú er að fara illa með þjóðina og hugsið ykkur þá stöðu sem uppi væri núna ef ekki væri matvælaframleiðsla í landinu sem getur ráðið við að fæða þjóðina til lengri eða skemmri tíma. 

Ég er varkár, kannski íhaldssamur, og þó ég sé hlyntur frelsi leyfi ég mér að  staldra við og íhuga ýmis álitamál. Skoðum nokkur sem benda til þess að ekki skyldi gefa innflutning landbúnaðarafurða alveg frjálsan:    

  • Framleiðsla er dýrari hér á landi vegna náttúrulegra aðstæðna, uppskerur miklu færri en erlendis.
  • Framleiðsla hér á landi er „lífrænni" en víðast hvar annars staðar. Til dæmis má ekki nota fúkkalyf í fóður og hormónanotkun er bönnuð, varnir gegn skordýrum verða að vera náttúrlegar osfrv.
  • Vegna sjúkdómsvarna er innflutningur á erlendum dýrastofnum er miklum takmörkunum háður og þar með verður öll ræktun erfiðari.
  • Svokallað „matvælaöryggi" landsins byggist á því ef einhver ógn steðjar að annars staðar þá ætti þjóðin að geta brauðfætt sig. Nefna má styrjaldir, náttúruhamfarir af einhverju tagi, hrun í viðskiptum milli landa og fleira.
  • Landbúnaður er alls staðar niðurgreiddur og víðast deila menn um réttlæti slíkra styrkja. Verði slíkir styrkir lækkaðir eða aflagðir hækkar verðið að sjálfsögðu.

Mönnum verður eðlilega hverft við svona upplýsingar og þeir sem hæst hrópa um landbúnaðinn draga djúpt andann nokkrum sinnum og fara að hugsa.

Ég hef marga spurt hvort þeir séu þeirrar skoðunar að þessi fimm atriði hafi verið fundin upp til þess eins að hækka vöruverð hér á landi. Nei, að sjálfsögðu ekki.

Svo stendur alltaf einhver upp og heldur því blákalt fram að ekki sé hægt að stunda landbúnað hér á landi og best sé að leggja hann af nema sem frístundabúskap. Aldrei verði slíkar aðstæður í heiminum að við getum ekki flutt inn landbúnaðarafurðir, þetta sé allt tómt kjaftæði. Svona er ekki hægt að rökræða.

Ég hef lengi verið hugsi yfir þessum fimm atriðum og hef ekki enn komist að niðurstöðu.

Menn hafa margir haldið því fram að engin hætta sé á að framboð matvæla frá öðrum löndum geti stöðvast. Atburðir síðustu daga sýna svo ekki verður um villst að sú skoðun er alröng. (Sjá nánar þessa greinina „Matvælaöryggi er lífsnauðsynlegt“ á slóðinni http://sigsig.blog.is/blog/sigsig/?offset=10) 


mbl.is Krefjast staðgreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er kreppan virkilega alþjóðleg?

Nei, hvur fjandinn. Kreppan er þegar öllu er á botninn hvolft alþjóðleg. Af fjölda bloggsíðna mætti halda að hún sé Davíð Oddssyni að kenna.

Menn þurfa hér á landi að halda stillingu sinni og gleyma sér ekki í nornaveiðum. Ýmislegt bendir til þess að fjölmargir ætli nú aldeilis að slá sér upp og finna blórabögglanna og helst taka þá af lífi án dóms og laga.

Nornaveiðar og múgæsing hefur aldrei leitt neitt gott af sér, mannkynssagan sannar það. Mestu er um vert að halda stillingu sinni og beita gagnrýnni hugsun á allt sem valdið getur upphlaupi og óeirðum.


mbl.is Bandarískir bankar hugsanlega þjóðnýttir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Banki sem gerði meiri kröfur til annarra

Ýmsir eiga harma að hefna gagnvart Landsbankanum sem oft sýndi viðskiptavinum sínum litla linkinda í erfiðleikum þeirra. Bankinn lagði sig í líma við að muna allt, gleyma engu og snýtti aumum sparifjáreigendum hvenær sem hann gat. Landsbankinn var engin „félagsmálastofnun“ eins og stjórnendur þeirra sögðu oft.

Nú er hann kominn að fótum fram. Fáir gleðjast, flestir undrast hvernig komið er fyrir bankanum sem virðist ekki eiga fyrir skuldum. „Góðar líkur séu á að Landsbankinn í Bretlandi muni standa undir stærstum hluta innistæðnanna“, segir í yfirlýsingu forsætisráðherra.

Sé svo hefur bankinn hagað sér þveröfugt við það sem hann prédikaði yfir viðskiptavinum sínum. Það eitt kemur gríðarlega á óvart að Landsbankinn skuli hafa gert meiri kröfur til viðskiptavina sinna en sjálfs sín.

Verst er þó hversu illa Landsbankinn og raunar hinir bankarnir líka hafa leikið orðspor landsins í Bretlandi. Næst verst er sú staðreynd að Landsbankinn taldi okkur trú um að staða hans væri miklu betri en hún hefur reynst vera.


mbl.is Eignir standi undir Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað í fjandanum á þetta að þýða?

Almenningur er auðvitað fúll yfir hinni alþjóðlegu fjármálakreppu sem riðið hefur yfir heiminn en það er óhætt að segja að flestir séu ævareiðir yfir hrikalegri stöðu íslensku bankanna.

Einhvern veginn hefur maður staðið í þeirri trú að bankarnir hafi staðið mjög vel. Allar athugasemdir frá erlendum fjármálamönnum hafa í íslenskum fjölmiðlum verið afgreiddar sem öfund og rógur. Og ekki hafa fjölmiðlar dregið úr fréttaflutningi af hinum sigursælu og snjöllu íslensku bankamönnum.

Nú stendur hins vegar forsætisráðherra Stóra-Bretlands upp og segir að Bretar sem eigi sparifé sitt á reikningum Landsbankans eigi að fá það með skilum jafnvel þó íslensk stjórnvöld þurfi að blæða.

Hinir glæstu íslensku útrásavíkingar virðast ekki hafa staðið undir gylliboðum sínum. Fólk er einfaldlega ofsareitt, svekkt vegna ofurlauna, vonsvikið vegna svika og grautfúlt vegna þess að orstír lands og þjóðar hefur beðið gríðarlega hnekki og spyr hvað í fjandanum þetta allt saman eigi að þýða.

Undrar þá einhvern að þeirri skoðun vaxi nú fylgi að ríkisrekstur banka tryggi einfaldlega velferð almennings.


mbl.is Brown hótar aðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örfá „tilmæli“ Rússa

Rússar hafa engin skilyrði sett fyrir láninu, aðeins sett fram nokkur „tilmæli“:

 

  1.  Rússneskur „áheyranarfulltrúi“ mun sitja fundi ríkisstjórnar
  2. Allir ráðherrar íslensku ríkisstjórnarinnar fá rússneska „aðstoðarmenn“
  3. Rússneskir „áheyrnarfulltrúar“ munu setjast í allar sveitarstjórnir landsins
  4. Embætti ríkislögreglustjóra verður flutt til Moskvu
  5. Dönskukennslu verði hætti í skólum og rússneska kennd í staðinn
  6. Rússnesk sérnöfn verði viðurkennd sem íslensk nöfn
  7. Gengi krónunnar verði bundið við rúbluna
  8. Opnað verði fyrir erlenda endurfjármögnun íslenskra útgerða
  9. Embætti forseta Íslands verður flutt til Moskvu
  10. Alþingi verði Dúmunni til ráðgjafar í þeim málum sem varða Ísland 

 

Þetta er svo sem ekkert tiltökumál. Aðalatriðið er að horfa til framtíðar, sýna æðruleysi og trúa og treysta á það afl sem býr í föðurlandinu, framtíðin er björt.

Sagt er að málverkið af Bjarna Benediktssyni í Höfða hafi fallið í gólfið í morgun og ramminn brostið ... 

 


mbl.is Seðlabankinn fær lán frá Rússlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Korputorg er ekki Krepputorg

Hún ku víst vera ansi flott verslanamiðstöðin sem fengið hefur nafnið Korputorg. Nafnið ætti líka að venjast vel. Frændi minn einn spurði mig hins vegar hvort ég hefði litið inn í Krepputorg? Fattaði ekki alveg strax hvað hann átti við en skildi svo seint og um síðir. Þar ríkir þó engin kreppa, alltaf fullt hús ef marka má fjölmiðlafregnir.

Ómar vinur minn glotti líklega út í annað þegar hann skrifaði um mikilvægi réttrar tímasetningar og birti svo mynd af auglýsingu frá Krepputorgi ... (úbs) Korputorgi. 


Fjölmiðlar hamast enda ekkert PR

Auðvitað vantar þjóðina svör. Væntanlega er verið að vinna að þeim. Á meðan hamast fjölmiðlar eins og vitlausir væru og undan þeim ganga alls kyns upplýsingar, sumar réttar, aðrar rangar og enn aðrar tóm endemis þvæla. Sumt sjá flestir í gegnum en annað þarf sérþekkingu til að skilja.

Hvað á að gera meðan sögsagnirnar grassera? Auðvitað þurfa stjórnvöld að sinna almannatengslum, senda út upplýsingar, gæta þess að fjölmiðlar fari ekki offari með það litla sem þó er vitað. Einnig þurfa stjornvöld að samhæfa upplýsingamiðlun. Það er ekki nógu gott að Þorgerður segi eitt, Björgvin annað og Geir það þriðja.

Það er ekki heldur nógu gott að formenn stjórnarandstöðuflokkanna komi út og gefi sögusögnum undir fótinn, segi „ástandi miklu verra en þeir héldu“.

Það er ekki heldur jákvætt þegar ASÍ sendir stjórnvöldum tóninn vegna þess að ekkert hefur verið haft samband við þá í hálfan sólarhring.

Það er ekki heldur gott þegar fjármálastofnanir vinna ekki heimavinnuna sína og leyfa sögusögnum að komast á kreik t.d. að Landsbankinn í Bretlandi geti ekki borgað sparifjáreigendum.

Það er alls ekki traustvekjandi þegar upplýsingafulltrúi Glitnis í Noregi stendur á gati í sjónvarpsviðtali og gengur síðan út.

Að lokum er það alls ekki viðunandi hversu langan tíma þetta allt virðist ætla að taka, en það flokkast einfaldlega sem slæmt PR.


mbl.is Lífeyrissjóðir vilja svör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rakalaus gagnrýni á Davíð!

Herferðin gegn Davíð Oddsyni virðist engan endi ætla að taka. Fjöldi fólks telur sig þess umkominn að gagnrýna hann, ekki með rökum heldur með alls kyns upphrópunum. Enginn virðist geta rökstutt þessar ávirðingar.

Meðan Davíð var formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra mátti mómælendakórinn jarma eins og hann vildi því Davíð naut stuðnings flokksins og stórs hluta kjósenda. Eftir að Davíð varð seðlabankastjóri þá verður skynsamt fólk að gera greinarmun á honum og Seðlabankanum. Hann er einfaldlega einn af mörgum stjórnendum þar á bæ og varla mögulegt að hann fái þar öllu ráðið. Hins vegar er allt í lagi að gagnrýna bankann svo fremi sem það er gert með rökum.

Þeir sem ekki geta rætt um Davíð án þess að missa stjórn á skapi sínu eiga einfaldlega ekki að taka til máls. Þeir sem ekki fært rök fyrir sínu máli eiga að þegja ... eða ganga í flokk með ungum jafnaðarmönnum.


mbl.is Krefjast þess að Davíð víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glitnir fór að ráðum almannatengils

Hvað gera þeir sem eiga undir högg að sækja? Jú, þeir kalla til almannaráðgjafa sem gefur þeim línuna, hvernig eigi að lágmarka skaðann. Almannatengsl eru í raun ekkert annað en markaðssetning á skoðunum, viðhorfum eða stefnu. Að þeim er unnið á margvíslegan hátt og það veltur að öllu leyti á eðli máls.

Ljóst er að stjórnendur Glitnis hafa átt undir högg að sækja gagnvart stjórnvöldum og virðast vera að missa bankann úr höndum sér til Seðlabankans. Hvernig má það vera? spyrja allir, ekki síst hluthafar Glitnis. Hvernig gat stjórn og stjórnendur glutrað niður stöðu fyrirtækisins sem þó virðis ekki tæknilega gjaldþrota heldur þjáist af lausafjárskorti.

Í bankann var kallaður almannatengslaráðgjafi og hann virðist hafa veitt þó ráð sem duga. Þar sem ég hef nokkuð komið nálægt almannatengslum og lesið mér pínulítið til í þeim fræðum þá tel ég mig geta fullyrt nokkurn veginn hvaða ráð almannatengslaráðgjafinn veitti.

Ráðgjafinn sagði: 

1. Myndið ykkur eina skoðun og standið saman sem einn maður um hana.
2. Gefið út fréttatilkynningu um stöðu mála byggða á sjónarhorni ykkar.
3. Farið í fjölmiðla, viðtöl og umræðuþætti og rökræðið.
4. Haldið alltaf ró ykkar, endurtakið alltaf nokkur rök og látið ekki dreifa umræðunni um annað 

 

Svo virðist sem breyting hafi orðið á skoðunum fjölmargra um Glitnismálið frá því síðasta mánudag. Margir segjast hafa skipt um skoðun, verið fyrst sammála stjórnvöldum en núna hlustað á rök Glitnismanna og breytt um skoðun. Aðrir segjast núna vera orðnir beggja blands, ekki geta áttað sig á því hvernig málin standa eða hver hafi rétt fyrir sér.

Hvernig sem á málin er litið þá hafa Glitnismenn unnið verulega á. Fjöldi manns virðist telja að ríkið hafi klekkt á bankanum, fengið hann fyrir lítið og staðan sé núna námkvæmlega hins sama og hafi stjórnvöld tekið til þess ráðs að veita neyðarlán.

Fátt fer nú fyrir rökum ríkisstjórnar og Seðlabanka. Kannski er ástæðan sú að stjórnvöld notast ekki við ráðgjafa í almannatengslum, þau eru betri í flestu öðru en að gera staðreyndir máls skiljanlegar fyrir okkur, óbreyttum almúganum.

Því miður er sá tími liðinn að einstaklingar, stjórnvöld eða fyrirtæki geti „bara“ sagt það sem þau meina og ætlast svo til að allir skilji. Hlutverk almannatengla er meðal annars í því fólgið að gera flókna hluti skiljanlega, draga fram aðalatriði og svo ekki síst að koma þeim á framfæri við fjölmiðla.

Við sáum það svart á hvítu á Stöð2 í gærkvöldi er þau Agnes Bragadóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu og Sigurður Guðjónsson, lögmaður og stjórnarmaður í Glitni, vógust með rökum um yfirtöku ríkisins á bankanum.

Mættust þarna stálin stinn og var ljóst að Sigurður lögmaður mátti hafa sig allan við að svara hinum beinskeitta blaðamanni. Hann hélt þó ró sinni og gerði það sem rétt var, svaraði yfirleitt í einföldu máli en lét ekki Agnesi leiða sig til slátrunar.

Vandinn við sjónarmið þeirra Glitnismanna er nú einfaldlega sá að þeir hafa ekki talað einum rómi. Forstjóri bankans hefur virst vera sáttur við aðgerðir Seðlabankans en stjórnarmenn eru ósáttir. Það er líka aðeins ósannfærandi hversu seint þeir tóku við sér. 

Staðreyndin er sú að þegar fyrirtæki á undir högg að sækja þá þarf að bregðast mjög fljótt við. Raunar strax. Skaðinn er skeður þegar ávirðingarnar birtast einar í fjölmiðlum. Skárra er þó að sjónarmið beggja birtist.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband