Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006
Séra biskupinn
27.12.2006 | 12:11
HONUM séra biskupi Sigurbirni Einarssyni er mikið hampað þessa dagana. Hvort tveggja er að maðurinn er orðinn 95 ára og þykir víst orðinn hinn spaki öldungur, viskubrunnur þess liðna. Svo er hann líka kennimaðurinn og þar af leiðandi hlýtur þekking hans að taka allri annarri fram og svo mikil er nándin við guð. Þetta fannst mér kannski.
Hann talar svo fallega," sagði konan og gerði sig guðsóttalega í andlitinu, kannski til að leggja meiri áherslu á orð sín. Þetta segja líka margir og bæta því við að hann sé skrifari góður og sannfærandi prédikari. Ég þekki sko góða ræðu þegar ég heyri hana," bætti konan við og henni leið áreiðanlega vel í sálinni sinni.
Alla mína ævi hef ég hlustað og horft á séra Sigurbjörn biskup úr fjarlægð og stundum undrast hann. Foreldrar mínir höfðu á honum svo mikið dálæti að þau létu börn sín ávallt hlusta á boðskap hans. Þei, þei," sagði faðir minn strangur á svip. Nú hlustum við á biskupinn." Jól, nýársdag, páska, hvítasunnudag, sautjánda júní og aðra helgidaga. Og þegar broddborgarar þjóðarinnar burtkölluðust var hann tilkallaður að kasta rekunum. Og ég hlustaði ... og ég hlustaði.
Og ég hlustaði líka á séra biskupinn þegar ég var drattaðist á fullorðinsár ...
Væri ég spurður, nákvæmlega á þessari stundu, hvað mér þætti nú merkilegast við prédikanir séra Sigurbjörns, hvað standi upp úr eftir alla þennan tíma myndi ég eflaust svara svona eins og þúsundir annarra Íslendinga: Hann talar bara svo fallega."
Væri ég krafinn frekari útskýringar um hvað væri svona fallegt við prédikanir hans stæði ég eiginlega á gati. Kannski myndi mér takast að stama því upp að hann væri svo sannfærandi.
Sannfærandi í hverju?"
...tja, í guðorðatali sínu," myndi ég kannski asnast til að segja, svolítið rauður í framan eins og þegar ég gataði í munnlegu prófi í MR í gamla daga.
Þarna er það loksins komið og best að viðurkenna það hér með. Í hreinskilni sagt veit ég eiginlega ekkert um hvað séra Sigurbjörn hefur verið að tala síðustu fjörutíu árin, þau og þó hefði ég átt að hafa nægilegt vit til skilnings, ... en maður lifandi hvað hann sagði þetta allt fallega!
Ef til vill segir þetta meira um mig heldur en séra biskupinn, en ég held því miður að hið sama gæti nú átt við um marga aðra Íslendinga. Staðreyndin er bara sú að svo ósköp fáir vita um hvað hann hefur verið að tala nema útvaldir leikmenn og svo kennimennirnir allir, þátttakendurnir í iðnaðinum, kallarnir í svörtu kjólunum sem allir sem reyna að tala svo fallega á sunnudögum og öðrum helgidögum í þeim tilgangi einum að láta manni líði vel í flakandi sálinni.
Já, mikill er máttur orðsins, hins talaða og ritaða.
Skiptir þá í raun og veru engu hvað sagt er svo fremi sem það er vel og mildilega flutt? Gengur bissnisinn út á það eitt að raða saman orðum í sennilega runu og bæta af og til guðræknisorðunum blessi þig og varðveiti þig og nokkrum amenum?
Þegar ég var svona í kringum tíu ára aldur hlustaði ég einu sinni sem oftar á messu í þvingunarútvarpi ríksins, þeim eina útvarpsmiðli sem þá var leyfilegur, og þá heyrði ég frægan prest bæta því við í stólræðu sinni um hina síðustu og verstu tíma, þar sem allir voru óalandi og óferjandi: ... og svo herma þeir líka eftir sjálfum prestunum."
Ó, þvílíkir tímar, þvílíkur lýður, hugsaði ég, barnið, án efa, og upp fyrir mér rann að það væri ljótt að gera grín að köllunum í svörtu kjólunum og ekki síður að guðsorðatal væri eitthvurt gamanmál. Ég sá samt í gegnum þetta og lagði engan trúnað á svona vitleysu.
Hvaða hefur svo séra biskupinn verið að boða alla sína tíð sem ekki hefur þegar verið framborið í einni mynd eða annarri? Ekkert veit ég um það. Kannski er engu við að bæta nema því sem einsetumaðurinn mælti af því að hann er einsetumaður og fjarri öllum lýðnum. Og þá sjaldan sem hann mælir hlusta allir opinmynntir. Og hver er leyndardómur lífsins, kæri spaki einsetumaður?"
Hann svarar svo undurmjúkt og fallega, horfir fjarlægum augum út fyrir skýin, himinhvolfið og líklega inn í næsta heim. Borða reglulega, sinna líkama sínum og anda." Og nærstaddir undrast og ljúka lofsorði á þann spaka sem allt eins gæti verið séra biskupinn, Jón Baldvin eða einhver annar sem ekki brúkar sig lengur í orrahríð stundarinnar. Um einhvern var sagt að hann væri elskaður og dáður af öllum þeim sem ekki þekktu hann".
Og hvað er þá það sem ég undrast? Er ég kannski ekki trúaður?
Sko, mennirnir eru í meginatriðum eins, hvert sem kyn þeirra er, litur, trúarbrögð eða starf. Eiginlega er munurinn þessi sérhæfing sem menn tileinka sér. Sumir eru bændur, aðrir, læknar, margir vinna við framleiðslu, sinna fjármálum og þeir eru til sem stunda ýmiskonar rannsóknir á mannslíkamanum, jarðarkringlunni eða alheiminum og svo framvegis og efla þannig þekkingu og visku mannkyns. Ég undrast hins vegar alla þá sem höndlað lífsviskuna, þá einu og sönnu alla saman í einum pakka, og telja sig geta jafnvel boðað hana án þess að stökkva bros á vör eða telja lífið svo súrt að smávegis grín skaði boðskapinn. Þetta kemur samt barnatrú minni ekkert við.
Ég skildi ekkert í biskupnum þegar ég var barn og enn er ég barn. Hitt skil ég ekki heldur og hef aldrei skilið hvers vegna biskupinn gat haft eitthvað þarfara að gera en að vitja konunnar sem lá banalegu sína. Var hann þó beðinn um það, sárbeðinn. Fyrir því hef ég bara orð hans sem talar svo fallega".
Og þannig er nú guðsorðaiðnaðurinn orðinn mikilvægur að æðsti presturinn sjálfur, forstjóri kirkjunnar, hafði svo mikið að gera að hann hafði ekki tíma fyrir eina sál. Skilja það nú fæstir því jafnvel forstjóri Icelandair má vera að því að sinna viðskiptavinum sínum, svo dæmi sé tekið úr öðrum bissniss. Þó ber að taka skýrt fram að markhópur Icelandair eru ekki þeir sem ætla að ferðast inn í eilífðina, ef svo væri hefði forstjóri fyrirtæksins örugglega kvatt hvern og einn með handabandi í brottfararsal, kannski án orða, því návistin ein myndi veita hverri sál öryggi.
Hann var elskaður og dáður af öllum þeim sem ekki þekktu hann." Doldið til í því.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hægri og grænt
21.12.2006 | 14:40
Líklega unna flestir Íslendingar landi sínu að mestu leyti óafvitandi á hógværa hátt, ferðast um það akandi eða gangandi. Ekki kunna allir að mæra landið svo í bundnu eða óbundnu máli að lesandinn falli í stafi af hrifningu og ekki er heldur allt fagurt sem ort er. Hafa þó margir reynt að lýsa tilfinningum sínum á þessum síðustu og verstu kárahnúkatímum.
Víst er þó að dýrasti óðurinn er saminn af þeim sem um landið ferðast af þörfinni einni saman og þá verða til síbreytilegar ferðasögur og hver og einn er ýmist sögumaður eða hlustandi. Veiðimaðurinn segir frá viðureign sinni við sterklegan laxinn eða fiman silunginn, fjallgöngumaðurinn greinir frá þungu skrefunum á tindinn og þeim sporléttu til baka, vélsleðamaðurinn básúnar víðátturnar, gönguskíðamaðurinn kyrrðina, sá í jeppanum dásamar fjölbreytnina, allir greina grósku mannlífsins, þakka fyrir og loka tjaldinu að kvöldi dags.
Óður hins almenna manns nær sjaldnast inn á blöð bóka, tímarita eða dagblaða enda er það sjaldnast markmiðið með ferðalögum. Stundum svigna þó vefir takmörkuðum hópi til skemmtunar og kátt er þegar ferðafélagar koma saman og rifja upp reynslusögurnar.
Tilgangurinn er að njóta, í því er fólgin hin fegursta og fullkomnasta tjáning sem til er.
Samskiptin við landið byggja ekki á stjórnmálum, búsetu, efnahag, menntun, jafnvel ekki þjóðerni, litarhætti eða kynferði. Þau eru um allt duldari og óræðari. Ef til vill má rekja ræturnar í auðmýktina þegar hún varð að fyrirstöðu í hálsi þess sem upplifði stórbrotna náttúruna og skildi að tilvera einstaklingsins skiptir sáralitlu samanborið við þúsund ára andartak eilífðarinnar. Augnablikum síðar kann hugsun að verða til á móti rauðu ljósi í eirðarleysi malbiksins ... já, þarna fæddist ég öðru sinni ... eða eitthvað á þá leið.
Í undraveröldinni stendur tíminn í stað hátt fyrir ofan ólgu og áreiti hversdagslífsins. Þar má lengi una sér, en fyrr eða síðar er ferðamanninum ekki stætt á öðru en að snúa aftur til síns fyrra lífs.
Hann sem veigraði sér við því að ganga í djúpum, grænum mosanum, stíga fæti á smágerðan gróðurinn eða raska umhverfinu, velur sporum sínum vandlega ígrundaðan stað. Hann er einn en aðrir hafa verið þarna áður og fleiri koma á eftir. Niður er troðinn stígur sem grefst æ meir, gróðurþekjan rofnar. Vatn og vindar sjá um eftirleikinn. Þetta er kallaður átroðningur" og hann fer vaxandi veldur áhyggjum en þó er hægt að koma í veg fyrir hann á einfaldan hátt.
Er þá ekki ástæða til að hafa áhyggjur af misnotkun á tækni, hinum tröllauknu átökum pælodera", búkollna" og annarra stórvirka vinnuvéla sem vaða yfir allt, eira engu og biðja engan afsökunar.
Fyrirgefðu litla blóm að ég skuli moka þér og átthögum þínum til.
Landinu hefur víða verið breytt til framtíðar. Daglega er ingólfsfjöllunum mokað í burtu, rauðhólunum veitt holundarsár, dimmugljúfrunum lokað, leirufirðirnir skornir, þjórsárnar aflitaðar, hellisheiðarnar mengaðar, hágöngunum drekkt, héðinsfjörðunum spillt, langasjóunum raskað, kolviðarhólarnir járnaðir, geysirarnir stíflaðir, sprengisandarnir kaffærðir, þinvallavötnin eitruð og öskurhverum einfaldlega sagt að þegja.
Þar sem áður var landið fagurt og frítt er nú víða haugur af járni og steinsteypu sem kallast mannvirki" svo mönnum líði nú betur og því lofað að haugurinn sé fyrir okkur og erfingja landsins. Af hrokanum einum saman skal auðvelt að greina mannvirkið" frá andstyggilegu landinu. Sjaldnar er reynt að fella það inn í landslagið.
Og haugbúarnir áreita okkur hin, láta sem við þurfum að velja á milli rafmagns og rafmagnsleysis, hita og kulda, framtíðar og fortíðar, tækni og forneskju jafnvel líf og dauða.
Sá sem ekki varla bót fyrir boruna á sér á sjaldnast mikinn möguleika til andsvara, málfrelsið er ekki ókeypis frekar en allt annað. En bíðum við, ekki fagna of fljótt þó aðeins fámennið þenji sig. Hver segir að hinn þögli meirihluti sé á bandi haugbúana?
Viljum við að mannvirkin " séu í hróplegu ósamræmi við náttúru landsins? Viljum við kosta öllu til fyrir það eitt að ekki hafa allir möguleikar verið kannaðir? Þeir vita sem vilja að Kárahnúkum var fórnað vegna þess að rannsóknir á orkumöguleikum landsins voru ónógar. Næg orka er til í iðrum jarðar og henni fylgja ekki landfórnir.
Svo undrast sumir að umhverfissinnað fólk vilji stofna með sér stjórnmálaflokk til að rödd þess heyrist hjá löggjafarvaldinu, sú rödd sem talar fyrir tilfinningum óháðum dægurþrasi.
Þó vekur það mesta undrun að innan Sjálfstæðisflokksins hafi ekki fyrir löngu risið upp hópur fólks sem leggur áherslu á stefnumótun í ljósi umhverfis- og náttúruverndarmála. Þar er fjöldi af fólks sem getur tekið undir allt það sem sagt hefur verið hér á undan.
Nú er tími kominn fyrir góða sjálfstæðismenn sem unna landi sínu og eru í hjarta sínu fylgjendur íhaldssamrar stefnu í landnýtingu að standa upp og mynda samtök sem gefa flokknum fagurgræna áferð.
Hinn kosturinn er sá að láta slag standa og leyfa Framtíðarlandinu að hirða fylgið.
Eins málefnis flokkur nær sjaldnast neinum áhrifum í stjórnmálum, það er staðreynd sem kann þó að breytast. Aldrei áður hefur neinn verið nauðbeygður til að leggja landið undir, umhverfis- og náttúruverndarmál.
Eins málefnis flokkur? Nafn Sjálfstæðisflokksins á rætur sínar að rekja í eitt mál. Hvað skyldi það nú hafa verið?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Orkuveitan viðurkennir mistök!
21.12.2006 | 13:18
Orkuveitan hefur nú opinberlega viðurkennt að hafa klúðrað umhverfismálum við Kolviðarhólsvirkjun neðan við Hellisheiði. Það má lesa úr auglýsingu fyrirtækisins um samkeppni um frágang á svokallaðri niðurrennslisæð", stóru, ljótu rörunum við suðurlandsveg fyrir neða Hveradali og víða umhverfis Kolviðarhól. Þetta eru rörin sem allir kvarta undan og Orkustofnun hafði ekki efni á að láta grafa í jörðu.
Batnandi mönnum er best að lifa eða ætti maður að segja að nú stjórnar greinilega nýr og betri meirihluti Orkuveitunni og hann gerir sér grein fyrir óánægju fólks með hina ljótu virkjun.
Með auglýsingunni viðurkennir Orkuveitan mistök sín:
Niðurrennslislögnin er í þjóðbraut og blasir við þegar ekið er eftir þjóðveginum. Sjálfsagt er fyrir Orkuveituna að reyna að lágmarka umhverfisáhrif lagnarinnar og leita eftir nýjum hugmyndum um frágang á yfirborði."
Sé þetta þýtt af hinu þunglamalega stofnanamáli er merkingin þessi á venjulegu alþýðumáli:
Sorrý, við klúðruðum þessu, rörin eru ljót og þó seint sé í rassinn gripið þá finnst okkur afar brýnt að fela þau einhvern veginn.
Þessi niðurrennslisæð" á það sammerkt með öllum öðrum að þær eru best geymdar þar sem enginn sér þær. Það var öllum augljóst nema Orkuveitunni þar til núna.
Skrýtið orð niðurrennslisæð". Læt það þó vera að gera grín að þessu nýyrði en bendi bara á gamla hugmynd um að renna svona rörum ofan í jörðu og moka snyrtilega yfir.
Ég er einn þeirra hundruða eða þúsunda sem hafa gagnrýnt Orkuveituna fyrir yfirgang og smekkleysi. Mikið ári hefði nú verið gaman að fá að vera í dómnefndinni. Þá hefði ég tekið fram í skilmálum að aðrar hugmyndir en að grafa niðurrennslisæðina" í jörðu munu ekki verða samþykktar.
Svo þori ég að veðja að viðbára Orkuveitunnar við kröfum um að grafa rörafjandana verði sú að það sé of dýrt! Það er rétt, þetta verður en dýrara núna vegna þess að í upphafi hugsaði enginn málin til enda. Þess vegna hefur Orkuveitan slæmt orð á sér og núna er ætlunin að spandera nokkrum peningum til að lagfæra vandann.
Það er hins vegar bara ein lausn til úr því sem komið er.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Afgangsstærðin
8.12.2006 | 14:10
Sjö hundruð manns eru á biðlista eftir gerviliðaaðgerð og sá listi lengist jafnt og þétt. Þrátt fyrir að allt sé til staðar, bæklunarsérfræðingar, tæki og aðstaða gerist fátt vegna þess að fjárveitingu vantar til að hægt sé að hefjast handa.
Eggert Hauksson, viðskiptafræðingur, skrifar um þetta í snjallri grein í Fréttablaðinu í dag, 8. desember. Hann bendir á að engir biðlistar eru eftir tannlækningum og spyr hvers vegna fólk megi ekki sjálft leita úrræða þegar það þjáist vegna ónýtra gerviliða rétt eins og það gerir þegar það fær tannpínu eða þarf á gervitönnum að halda.
Í öðru tilvikinu eru lífsgæðin komin undir örlæti þingmanna og velvilja þess sem er heilbrigðisráðherra hverju sinni. Hann segir ennfremur:
Fjárskorti er kennt um. Ég held að það skorti miklu fremur nýja hugsun, afstöðu og vinnubrögð í þessum efni þar sem sjúklingarnir (viðskiptavinirnir) endi ekki sem afgangsstærð. Slík úrræði eru þekkt og þrautreynd afar víða á öðrum sviðum.
Það sem Eggert á við er einfaldlega spurningin sem brennur á vöru margra. Hvers vegna er ekki meira um að heilbrigðiskerfið notfæri sér einkaframtakið? Svarið er að sjálfsögðu pólitískt, misjafnt hverju menn svara og veltur það á hvar í flokki þeir standa.
Sameiginlegir sjóðir landsmanna greiða fyrir heilbrigðisþjónustu, þannig hefur það verið hingað til og væntanlega er pólitísk sátt um að svo verði um nánustu framtíð. Þetta kerfi er í heildina gott, en það er dýrt og oft ekki neytendavænt eins og Eggert bendir réttilega á.
Óvíða annars staðar eru þeir sem nýta sér þjónustu afgangsstærð. Í heilbrigðismálunum fer mest fyrir þeim sem veita hana sem og þeim sem halda um budduna. Þannig er það ekki ef bíllinn bilar, reisa þarf hús, fara í ferðalag, kaupa fatnað eða mat. Sá aðili sem veitir þjónustuna veit að viðskiptavinurinn er mikilvægastur, hann er grundvöllur rekstrarins. Léleg þjónusta er einfaldlega dauðadómur.
Af hverju skyldi einkaframtakið ekki mega bjóða þjónustu í heilbrigðismálum? Verður fólk í heilbrigðisþjónustu verði eitthvað lakara ef það rekur fyrirtæki? Auðvitað mætti snúa þessari spurningu við og spyrja hvort læknar, hjúkrunarfólk og aðrir verði eitthvað verra við að starfa hjá ríkinu. Nei, síður en svo. En með viðsnúningnum gleymist mikilvæg staðreynd, hvatinn til eigin rekstrar, möguleikinn að gera betur en aðrir, veita góða þjónustu og hagnast um leið. Þetta er einfaldlega ástæðan fyrir því að tiltölulega fljótlegt er að fá gert við bílinn, byggja hús, kaupa farmiða í ferðalagið, sinna innkaupum og svo framvegis.
Sá sem fær tannverk fer umsvifalaust til tannlæknis. Þar er enginn biðlisti.
Sá sem þarfnast gerviliðar tekur sér númerið 701 og bíður og bíður og bíður og bíður
þangað til að eitthvað gerist eins og fyrir tilviljun. Getum við í einlægni sagt að ekki sé hægt að bjóða upp á betri þjónustu?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Eineygður öðru megin"
4.12.2006 | 17:07
Það vakti athygli mína hversu markviss Ólafur Hannibalsson er í flestum viðtölum um meintar hleranir á Hannibal föður sínum. Hann vill vita allt sem máli skiptir, hvers vegna Hannibal var hleraður, hver hleraði, hvenær, hvað var gert við skýrslur, hverjir lásu þær, hvenær, hvers vegna, hvað þeim fannst um þær og ekki síst hvernig þeim leist á. Gott ef hann vill ekki vita skóstærð þeirra sem hlut áttu að máli.
Hannibal Valdimarsson var fjölhæfur bardagamaður í stjórnmálum, verkalýðsmálum og án efa á fleiri sviðum og lét sér fátt fyrir brjósti brenna. Sumir nefndu þá pólitík sem hann studdi vera framar öllu "hannibalisma". Ólafur á ekki langt að sækja eldmóðinn, hann hefur átt snertilendingar í mörgum og ólíkum flokkum ekki síður en sá gamli.
Barátta Ólafs hefur ýtt við mér og þörf er á að ég standi líka upp og krefji stjórnvöld reikningsskila vegna eftirlits, njósna, áreitis og mannréttindabrota við föður minn.
Það gerðist síðla haustkvölds, líklega árið 1963, að hann faðir minn ók í sinni Volkswagen bjöllu austur Borgartúnið. Birtist þá all skyndilega lögreglumaður á miðri götunni þar sem Klúbburinn var og varnað vegarins svo faðir minn hefði hvorki komist lönd né strönd nema aka á hann, sem ég held að hafi nú ekki flögrað að honum.
Lögreglumaðurinn gekk nú þungum skrefum að bílum, hallaði sér upp að honum, lagði vinstri hönd upp á bílþakið, teygði álkuna inn um opna hliðarrúðuna og sagði djúpri röddu og alvarlegur: Heyrðu góði, veistu að þú ert eineygður öðru megin." Svo hvörfluðu augu hans að móður minni og síðan að mér þar sem ég sat í miðju aftursætinu og lét fara lítið fyrir mér.
Nokkuð kom á föður minn svo hann mátti vart mæla. Í þögn sinni lokaði hann vinstra auga í smá stund og síðan því hægra og komst að því að sjónin var ekki lakari en hún hafði verið fram að þessu. Nei, hann vissi ekkert um að hann væri eineygður.
Ég átti nú við bílinn þinn, góði," sagði lögreglumaðurinn, ögn óþolinmóður eftir að hafa horft á hin tíðu augnablik föður míns. Sko, þú ert ljóslaus öðru megin," bætti hann við hraðmæltur, ef ske skyldi að pabbi væri jafn sljór og hann leit út fyrir að vera.
Þegar þetta gerðist var ég aðeins rétt rúmlega átta ára og á þeim fjörutíu og tveimur árum sem síðan hafa liðið hefur fyrnast talsvert yfir atvikið í minni mínu. Veit ég þó það eitt að pabbi missti hvorki bílinn né mömmu og ég fékk að fylgja þeim heim. Hitt veit ég ekki hvaða áhrif þetta atvik hafði enda vart rætt á heimili mínu og þá sjaldan ég impraði á því var hlegið og mér sagt að hafa ekki áhyggjur. Þar sem foreldrar mínir eru nú látnir finnst mér ástæða til að krefjast svara af ríkisvaldinu og þeim sem þarna áttu hlut að máli.
Ég vil vita hvers vegna lögreglumaðurinn viðhafði þessi orð Heyrðu góði, veistu að þú ert eineygður öðru megin." Orðalagið er afar tortryggilegt. Hann hefði einfaldlega getað sagt si sona: Það vantar annað framljósið. Málið hefði legið skýrt við, pabbi hefði samstundis skilið hann og málið leyst.
Nei, lögreglumaðurinn beitti óvenjulegu málskrúði sem vekur grunsemdir vegna þess að það er einfaldlega rangt, pabbi var ekki eineygður og dauðir hlutir eins og bílar hafa ekki augu og geta því ekki verið eineygðir". Þess vegna krefst ég skýringa.
Hvað var lögreglumaðurinn að gera á þessum stað og þessari stundu? Getur verið að hann hafi verið starfandi í leyniþjónustu íslenska ríkisins og hafi verið að leita að innlendum eða erlendum vitorðsmönnum og lykilorðið hafi verið eineygður öðru megin".
Það vekur að minnsta kosti ákveðnar grunsemdir að nota þessi orð vegna þess að sá sem er eineygður er einfaldlega blindur á öðru auga en sjáandi á hinu. Sá sem er eineygður á báðum augum er hreinlega blindur. Menn geta hreinlega ekki verið eineygðir öðru megin". Sá sem er eineygður er blindur öðru megin. Meira að segja ég, átta ára krakkinn, fattaði þetta samstundis, raunar á undan pabba og mömmu þó barnið gerði sér eðlilega ekki grein fyrir alþjóðlegum tengslum orðalagsins, en á þessum tíma var kalda stríðið í blóma og því fylgdu njósnir, gagnnjósnir, morð, limlestingar og mannréttindabrot.
Það vekur líka athygli mína að við vorum stöðvuð fyrir framan Klúbbinn, sem á þessum árum var einn vinsælasti skemmtistaður unga fólksins og átti eftir að komast rækilega í umræðuna fimmtán árum síðar. Þar með er vegið að minningu föður míns enda tengist nafn Klúbbsins fjölmiðlafárviðri sem varð fimmtán árum síðar, tengingu við mafíu, ólöglegan innflutning á áfengi og mannshvörf. Sko, þetta hljóta allir að skilja.
Allt þetta hlýtur að krefjast skýringa. Ég vil vita hver þessi lögreglumaður var, hversu oft hann hafði farið í Klúbbinn fram að þeim tíma er hann stöðvaði föður minn, og ekki síður hversu oft hann fór eftir það. Ég vil vita hvort hann var framsóknarmaður, hvort hann hafi tengst einhverjum framsóknarmönnum eða hvort forfeður hans eða niðjar hafi verið í ætt með Ólafi Jóhannessyni, formanni Framsóknarflokksins, þeim hinum sama og barðist gegn Vísismafíunni og var dæmdur fyrir það.
Framar öllu vil ég vita hvort lögreglumaðurinn hafi tengst leyniþjónustunni sem sannað er að hafi verið í skáp í litlu herbergi á annarri hæð í lögreglustöðinni við Hlemm. Vitni hafa staðhæft að þar inni hafi verið skrifborð með tveimur símum, báðum svörtum að lit. Oft hafi þar verið möppur af tegundinni Leitz og í þeim fjöldi skjala, ýmist handskrifuð eða vélrituð. Á borðinu hafi líka verið skriffæri af ýmsu tagi, ritvél, heftari og gatari. Einn stóll var að jafnaði aftan við skrifborðið og tveir eða þrír fyrir framan það. Upp við vegg, undir mynd af Sveini Björnssyni, forseta, og Ásgeiri Ásgeirssyni, forseta, voru tveir skjalaskápar. Í þeim var raðað eftir stafrófsröð skýrslur um undirróðursmenn, æsingamenn og kommúnista hér á landi. Á öðrum vegg var landakort. Sem sagt, dæmigerð njósnadeild og jafnvel gagnnjósnadeild. Grunur minn er sá að nafn föður míns sé á einni möppunni enda hefur ekkert komið fram í umræðum um njósnir og undirferli stjórnvalda sem útilokar að svo sé ekki.
Ég hef staðfastan grun um að síminn heima í Barmahlíð hafi verið hleraður, 23521, minnir mig að hann hafi verið. Foreldrar mínir og systkini töluðu oft um óeðlilega smelli og skruðninga í símanum og eiginlega man ég oft eftir svoleiðis. Nokkrar sannanir aðrar höfum við um njósnirnar. Til dæmis hringdi mamma í Soffíu systur einu sinni, en hún bjó þá vestur á Bárugötu og sagði að pabbi ætlaði að sækja hana í hádegismat næsta sunnudag. Viti menn, þegar við pabbi ókum vestur eftir Hringbraut fylgdi okkur lögreglubíll alveg frá Miklatorgi og niður í Pósthússtræti, þar skildu leiðir. Hvernig vissi lögreglan hvert við ætluðum að fara? Ég tók bara si sona eftir þessu án þess að leggja dýpri meiningar í eftirförina, en ég sá að pabba var brugðið og ók hann ofur varlega hlýddi öllum umferðarreglum, enda var hann ekki stoppaður í þetta skipti frekar en oftast áður.
Margt er enn ósagt um þetta mál og enn get ég lagt fram frekari sannanir og jafnvel nefnt nokkur nöfn. Til dæmis gerðist það líka 1963 er Lyndon B. Johnson Bandaríkjaforseti kom til landsins að hann gekk inn í stjórnarráð Íslands við Lækjargötu. Þar kom faðir minn að en hundruð mann ef ekki þúsundir reyndu að koma í veg fyrir að hann tæki í hendina á Donna (eins og við kölluðum hann heima eftir þetta), en það tókst nú ekki. Héldu menn ef til vill að faðir minn væri launmorðingi? Hvers vegna var þá allur þessu fjöldi manna á Lækjartorgi einmitt þennan dag? Spyr sá sem ekki veit.
Það er kominn tími til að öll gögn um mannréttindabrot og njósnir stjórnvalda séu aðgengileg öllum. Það er nauðsynlegt fyrir öryggi borgaranna í landinu gagnvart ásælni ríkisvaldsins.
Ég krefst þess að hulunni verði svipt af þessum leyndarmálum og hyggst ganga alla leið í þeim efnum, þ.e. til hæstaréttar og út til Evrópu ef svo beri undir. Ég mun þó byrja á því að ræða við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, og krefjast þess að jafnræði verði sýnt öllum Íslendingum, þ.e. aðrir fái sama aðgang að njósnaskjölum ríksins og Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, hefur fengið. Samt á ég ekki von á öðru en neitun.
Ég geri ekki kröfu til refsingar og hvet til þess að um þetta mál verði rætt friðsamlega og fyrir hönd systkina minna get ég vottfest lofað því að við munum öngvar kröfur gera aðrar en þær að öll spilin verði á borðið lögð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Opinber rannsókn hafin
4.12.2006 | 14:17
Sæll og blessaður Sigurður!
Kæra þín vegna meintrar ólögmætrar girðingar á Orustuhólshrauni hefur verið móttekin og opinber rannsókn er hafin. Kveðja, Þorgrímur Óli Sigurðsson, lögreglufulltrúi.
Þessi kveðja frá lögreglunni á Selfossi barst mér 9. nóvember og er vegna kæru sem sendi Sýslumanninum í Árnessýslu þann 6. nóvember. Mér finnst þetta ansi skjótt og hressilegt viðbragð sýslumanns, enda vart við öðru að búast frá honum Ólafi Helga Kjartanssyni.
Kæran er á þessa leið:
Undirritaður kærir hér með til embættis Sýslumanns á Selfossi þá girðingu sem sett hefur verið upp á Orustuhólshrauni á Hellisheiði og liggur með hinni fornu þjóðleið yfir heiðina, stundum yfir hana. Uppsetning girðingarinnar hefur valdið skaða á þjóðleiðinni bæði eiginlegum sem og umhverfislegum.
Gerð er krafa til þess að hún verði fjarlægð. Friðlýstar minjar Þjóðleiðin forna yfir Hellisheiði er friðlýst samkvæmt "Skrá um friðlýstar fornleifar" sem Fornleifavernd ríkisins gefur út. Þar segir:
"ÖLFUSHREPPUR Afréttarland. Gamla sæluhúsið, Hellukofinn svonefndi, er stendur við hinn varðaða veg vestantil við miðja heiði.[(Hellisheiði).] Einnig vörðurnar og vegurinn, troðin hestaslóð sem víða markar fyrir í hrauninu. Skjal undirritað af ÞM 13.05.1971. Þinglýst 03.09.1971.106 106 (Hellisheiði) ekki þingl; bætt við síðar á eint. Þjms. af skjali. Sbr. ljósrit af eint. sýslum. og fasteignabók Árnessýslu.
Brot gegn þjóðminjalögum
Í þjóðminjalögum nr. 107 frá árinu 2001 segir í 9. gr meðal annars:
Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á,
Og ennfremur segir í 9. gr. d. lið:
gamlir vegir, stíflur, brýr, vatnsvöð, varir, hafnir og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og vitar og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum
Í 10. gr. sömu laga segir:
Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins.
Í sömu grein segir ennfremur:
Friðlýsingu fornleifa skal þinglýsa sem kvöð á landareign þá sem í hlut á. Þeim minjum, sem friðlýstar eru, skal fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifa og umhverfis nema kveðið sé á um annað.
Ljóst er að girðing sú sem hér er um rædd brýtur í bága við ofangreind þjóðminjalög þar sem hún er víða miklu nær hinni fornu þjóðleið en 20 metrar og sumstaðar á henni. Auk þess liggur hún á milli gamla Hellukofans og hinnar vörðuðu leiðar sem hvort tveggja er þó ein heild og ætti ekki að skilja á milli.
Brot gegn náttúruverndarlögum
Með girðingunni sem víða lokar hinni fornu þjóðleið er einnig brotið gegn lögum um náttúruvernd, nr. 44/199, III kafla þar sem segir í 12 grein:
Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Öllum er skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt.
Af þessu má draga þá ályktun að landeiganda sé beinlínis óheimilt að hindra umferð fólk um land sitt.
Brot gegn vegalögum
Í vegalögum nr. 45/1994 segir í 40. rein:
Nú liggur vegur, stígur eða götutroðningur yfir land manns og telst eigi til neins vegaflokks og er landeiganda þá heimilt að gera girðingu yfir þann veg með hliði á veginum en eigi má hann læsa hliðinu né með öðru móti hindra umferð um þann veg nema sveitarstjórn leyfi.
Á girðingu þeirri sem liggur á heiðinni og þvers og kruss yfir hina fornu þjóðleið er hvergi hlið. Þó er trappa yfir hana þar sem er Hellukofinn.
Undirritaður fer þess nú á leit við embætti Sýslumanns að rannsökuð verði staðsetningu á girðingunni á Orustuhólshrauni á Hellisheiði, eigandi hennar verði fundinn og honum gert skylt að taka girðinguna upp og færa hana þannig að hún raski á engan hátt hinni fornu þjóðleið, hvorki beinlínis né heldur verði hún svo nærri að hún skaði umhverfi hennar.
Sveitarfélagið Ölfus hefur lögsögu á Hellisheiði og því er óskað eftir að kannað verði hvernig aðkoma sveitarfélagsins var að málinu. Hvort það gaf leyfi fyrir uppsetningu girðingarinnar og þá með hvaða rétti og aukinheldur hvernig leyfið var út gefið og bókað. Embætti meti síðan hvort ástæða sé til að krefjast bóta eða sekta fyrir uppsetningu girðingarinnar.
Til viðbótar skal þess getið að skammt austan Hellukofans eru minjar um hinn fyrsta veg sem lagður var yfir heiðina og er ástæða til að varðveita það svæði ásamt þjóðleiðinni fornu.
Virðingarfyllst, Sigurður Sigurðarson
Fornminjar skemmdar
4.12.2006 | 14:08
Yfir Hellisheiði liggur ævaforn gata var áreiðanlega mjög snemma fjölfarin, allt frá landnámi til upphafs bílaaldar. Helluhraunið á heiðinni hefur víða látið á sjá, slitnaði við umferð manna og hesta, gatan grafist ofan í hraunið og enn má sjá hana hlykkjast milli varðanna sem líklega eru álíka fornar. Af ástæðum sem flestum hljóta að vera ljósar er hin forna gata hluti af fornminjum þjóðarinnar, "samgöngumannvirki" sem þjónaði tilgangi sínum meginhluta þess tíma sem Íslendingar hafa verið ein þjóð.
Af einhverjum undarlegum ástæðum hefur nú einhver ákveðið að raska þessum minjum með því að setja upp girðingu á miðju Orustuhólshrauni, eflaust til að minna á afréttar- eða landamörk. Hún þverar sums staðar hina fornu götu en annars staðar liggur hún samsíða henni. Gamli Hellukofinn, byggður 1830 sem skjól fyrir ferðalanga er afgirtur frá götunni og næstu vörðu en þó liggja tröppur yfir girðinguna. Vandað er til girðingarinnar, víða hefur verið borað niður í harða hraunhelluna til að koma staurum fyrir og annars staðar halda þeim keðjur sem eru festar við hæl sem rekinn hefur verið niður í grjótið. Athygli vekur að ekki er gaddavír í henni eins og oftast tíðkast við sauðfjárgirðingar.
Á umráðamönnum lands hlýtur að hvíla ábyrgð sem varla þarf að vera fest í lög eða reglur til að skiljist. Engum dettur til dæmis í hug að við varðveislu íslenskra fornrita megi brúka ráð sem valda skemmdum, slíkt væri óráð. Sama er með landsvæði, hús, náttúruvætti eða aðra þjóðardýrgripi og verðmæti, þá ber að vernda. Með girðingu þvers og kruss yfir Orustuhólshraun á Hellisheiði hlýtur að vera gengið gegn almannarétti, t.d. eins og honum er að minnst kosti lýst í lögum um náttúruvernd (44/1999, III. kafla). Þar segir í 12. grein:
"Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Öllum er skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt."
Gatan yfir Hellisheiði varð áreiðanlega til löngu áður en nokkur eignaréttur varð til heiðum og fjöllum og með girðingu er þarna hefðbundinni leið lokað. Af ofangreindri tilvitnun má án ef líka draga þá ályktun að landeiganda sé beinlínis óheimilt að hindra umferð fólks um land sitt.
Skemmdirnar á götunni og umhverfi hennar eru þeim sem hlut eiga að máli til skammar rétt eins og þeim sem eiga þarna lögsögu. Greinilega má fara sínu fram á heiðum uppi. Hellisheiði tilheyrir sveitarfélaginu Ölfusi og Orkuveita Reykjavíkur er með umfangsmiklar framkvæmdir á þessum slóðum en ég sé engin merki þess að girðingin hafi verið sett upp af þeim, a.m.k. finnst ekkert á heimasíðum þeirra. Hins vegar finnst mér ekki óeðlilegt en að leita hefði átt samþykkis sveitarfélagsins fyrir girðingunni. Ef til vill hefur það verið gert og samþykkið að finna í fundargerðum. Ég vil þó ekkert um það fullyrða en bendi á að sveitarfélaginu Ölfus hefur malarnámið í Ingólfsfjalli á samvisku sinni. Orkuveitan er þarna líka í slæmum málum og ljóst að framkvæmdir hennar á viðkvæmu landi eru í engu samræmi við loforð hennar í umhverfismálum. Yfir er þó minnisvarði skammsýnna mann sem hleyptu Landsvirkjun með þrjár tegundir af háspennulínum sem nú voka yfir fornri götu og hverfur eiginlega í samanburðinum.
"Óhamingju Íslands verður allt að vopni," sagði skáldið forðum og víst er að það er ekki aðeins sjónarmið umhverfis- og náttúruverndar sem eiga erfitt uppdráttar í þjóðfélaginu heldur nú einnig varðveisla fornra minja sem greinilega má nú ráðskast með og hluta niður eftir misskildum eignarétti.
Hvað er það eftir er við misförum bæði með land okkar og arfleið?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)