Færsluflokkur: Menning og listir

Opinber rannsókn hafin

Sæll og blessaður Sigurður!

Kæra þín vegna meintrar ólögmætrar girðingar á Orustuhólshrauni hefur verið móttekin og opinber rannsókn er hafin. Kveðja, Þorgrímur Óli Sigurðsson, lögreglufulltrúi.

Þessi kveðja frá lögreglunni á Selfossi barst mér 9. nóvember og er vegna kæru sem sendi Sýslumanninum í Árnessýslu þann 6. nóvember. Mér finnst þetta ansi skjótt og hressilegt viðbragð sýslumanns, enda vart við öðru að búast frá honum Ólafi Helga Kjartanssyni.

Kæran er á þessa leið:

 

Undirritaður kærir hér með til embættis Sýslumanns á Selfossi þá girðingu sem sett hefur verið upp á Orustuhólshrauni á Hellisheiði og liggur með hinni fornu þjóðleið yfir heiðina, stundum yfir hana. Uppsetning girðingarinnar hefur valdið skaða á þjóðleiðinni bæði eiginlegum sem og umhverfislegum.

Gerð er krafa til þess að hún verði fjarlægð. Friðlýstar minjar Þjóðleiðin forna yfir Hellisheiði er friðlýst samkvæmt "Skrá um friðlýstar fornleifar" sem Fornleifavernd ríkisins gefur út. Þar segir:

"ÖLFUSHREPPUR Afréttarland. Gamla sæluhúsið, „Hellukofinn“ svonefndi, er stendur við hinn varðaða veg vestantil við miðja heiði.[(Hellisheiði).] Einnig vörðurnar og vegurinn, troðin hestaslóð sem víða markar fyrir í hrauninu. Skjal undirritað af ÞM 13.05.1971. Þinglýst 03.09.1971.106 106 „(Hellisheiði)“ ekki þingl; bætt við síðar á eint. Þjms. af skjali. Sbr. ljósrit af eint. sýslum. og fasteignabók Árnessýslu.“

Brot gegn þjóðminjalögum

Í þjóðminjalögum nr. 107 frá árinu 2001 segir í 9. gr meðal annars:

„Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, …“

Og ennfremur segir í 9. gr. d. lið:

„gamlir vegir, stíflur, brýr, vatnsvöð, varir, hafnir og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og vitar og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum …“

Í 10. gr. sömu laga segir:

„Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins.“

Í sömu grein segir ennfremur:

„Friðlýsingu fornleifa skal þinglýsa sem kvöð á landareign þá sem í hlut á. Þeim minjum, sem friðlýstar eru, skal fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifa og umhverfis nema kveðið sé á um annað.“

Ljóst er að girðing sú sem hér er um rædd brýtur í bága við ofangreind þjóðminjalög þar sem hún er víða miklu nær hinni fornu þjóðleið en 20 metrar og sumstaðar á henni. Auk þess liggur hún á milli gamla Hellukofans og hinnar vörðuðu leiðar sem hvort tveggja er þó ein heild og ætti ekki að skilja á milli.

Brot gegn náttúruverndarlögum

Með girðingunni sem víða lokar hinni fornu þjóðleið er einnig brotið gegn lögum um náttúruvernd, nr. 44/199, III kafla þar sem segir í 12 grein:

„Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Öllum er skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt.“

Af þessu má draga þá ályktun að landeiganda sé beinlínis óheimilt að hindra umferð fólk um land sitt.

Brot gegn vegalögum

Í vegalögum nr. 45/1994 segir í 40. rein:

„Nú liggur vegur, stígur eða götutroðningur yfir land manns og telst eigi til neins vegaflokks og er landeiganda þá heimilt að gera girðingu yfir þann veg með hliði á veginum en eigi má hann læsa hliðinu né með öðru móti hindra umferð um þann veg nema sveitarstjórn leyfi.“

Á girðingu þeirri sem liggur á heiðinni og þvers og kruss yfir hina fornu þjóðleið er hvergi hlið. Þó er trappa yfir hana þar sem er Hellukofinn.

Undirritaður fer þess nú á leit við embætti Sýslumanns að rannsökuð verði staðsetningu á girðingunni á Orustuhólshrauni á Hellisheiði, eigandi hennar verði fundinn og honum gert skylt að taka girðinguna upp og færa hana þannig að hún raski á engan hátt hinni fornu þjóðleið, hvorki beinlínis né heldur verði hún svo nærri að hún skaði umhverfi hennar.

Sveitarfélagið Ölfus hefur lögsögu á Hellisheiði og því er óskað eftir að kannað verði hvernig aðkoma sveitarfélagsins var að málinu. Hvort það gaf leyfi fyrir uppsetningu girðingarinnar og þá með hvaða rétti og aukinheldur hvernig leyfið var út gefið og bókað. Embætti meti síðan hvort ástæða sé til að krefjast bóta eða sekta fyrir uppsetningu girðingarinnar.

Til viðbótar skal þess getið að skammt austan Hellukofans eru minjar um hinn fyrsta veg sem lagður var yfir heiðina og er ástæða til að varðveita það svæði ásamt þjóðleiðinni fornu.

Virðingarfyllst, Sigurður Sigurðarson


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband