Fornminjar skemmdar

Yfir Hellisheiði liggur ævaforn gata var áreiðanlega mjög snemma fjölfarin, allt frá landnámi til upphafs bílaaldar. Helluhraunið á heiðinni hefur víða látið á sjá, slitnaði við umferð manna og hesta, gatan grafist ofan í hraunið og enn má sjá hana hlykkjast milli varðanna sem líklega eru álíka fornar. Af ástæðum sem flestum hljóta að vera ljósar er hin forna gata hluti af fornminjum þjóðarinnar, "samgöngumannvirki" sem þjónaði tilgangi sínum meginhluta þess tíma sem Íslendingar hafa verið ein þjóð.

Af einhverjum undarlegum ástæðum hefur nú einhver ákveðið að raska þessum minjum með því að setja upp girðingu á miðju Orustuhólshrauni, eflaust til að minna á afréttar- eða landamörk. Hún þverar sums staðar hina fornu götu en annars staðar liggur hún samsíða henni. Gamli Hellukofinn, byggður 1830 sem skjól fyrir ferðalanga er afgirtur frá götunni og næstu vörðu en þó liggja tröppur yfir girðinguna. Vandað er til girðingarinnar, víða hefur verið borað niður í harða hraunhelluna til að koma staurum fyrir og annars staðar halda þeim keðjur sem eru festar við hæl sem rekinn hefur verið niður í grjótið. Athygli vekur að ekki er gaddavír í henni eins og oftast tíðkast við sauðfjárgirðingar.

Á umráðamönnum lands hlýtur að hvíla ábyrgð sem varla þarf að vera fest í lög eða reglur til að skiljist. Engum dettur til dæmis í hug að við varðveislu íslenskra fornrita megi brúka ráð sem valda skemmdum, slíkt væri óráð. Sama er með landsvæði, hús, náttúruvætti eða aðra þjóðardýrgripi og verðmæti, þá ber að vernda. Með girðingu þvers og kruss yfir Orustuhólshraun á Hellisheiði hlýtur að vera gengið gegn almannarétti, t.d. eins og honum er að minnst kosti lýst í lögum um náttúruvernd (44/1999, III. kafla). Þar segir í 12. grein:

"Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Öllum er skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt."

Gatan yfir Hellisheiði varð áreiðanlega til löngu áður en nokkur eignaréttur varð til heiðum og fjöllum og með girðingu er þarna hefðbundinni leið lokað. Af ofangreindri tilvitnun má án ef líka draga þá ályktun að landeiganda sé beinlínis óheimilt að hindra umferð fólks um land sitt.

Skemmdirnar á götunni og umhverfi hennar eru þeim sem hlut eiga að máli til skammar rétt eins og þeim sem eiga þarna lögsögu. Greinilega má fara sínu fram á heiðum uppi. Hellisheiði tilheyrir sveitarfélaginu Ölfusi og Orkuveita Reykjavíkur er með umfangsmiklar framkvæmdir á þessum slóðum en ég sé engin merki þess að girðingin hafi verið sett upp af þeim, a.m.k. finnst ekkert á heimasíðum þeirra. Hins vegar finnst mér ekki óeðlilegt en að leita hefði átt samþykkis sveitarfélagsins fyrir girðingunni. Ef til vill hefur það verið gert og samþykkið að finna í fundargerðum. Ég vil þó ekkert um það fullyrða en bendi á að sveitarfélaginu Ölfus hefur malarnámið í Ingólfsfjalli á samvisku sinni. Orkuveitan er þarna líka í slæmum málum og ljóst að framkvæmdir hennar á viðkvæmu landi eru í engu samræmi við loforð hennar í umhverfismálum. Yfir er þó minnisvarði skammsýnna mann sem hleyptu Landsvirkjun með þrjár tegundir af háspennulínum sem nú voka yfir fornri götu og hverfur eiginlega í samanburðinum.

"Óhamingju Íslands verður allt að vopni," sagði skáldið forðum og víst er að það er ekki aðeins sjónarmið umhverfis- og náttúruverndar sem eiga erfitt uppdráttar í þjóðfélaginu heldur nú einnig varðveisla fornra minja sem greinilega má nú ráðskast með og hluta niður eftir misskildum eignarétti.

Hvað er það eftir er við misförum bæði með land okkar og arfleið?


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og átján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband