Filtera kjarnann í sér, upplifanir og hann krauf líkið

Orðlof

Skæruliði

Farið er að nota orðið skæruliði og samsetningar með því sem fyrri lið um miðja 20. öld.

Orðið skæra í merkingunni ’bardagi, deila, minni háttar vopnaviðskipti’ er miklu eldra og þekktist þegar í fornu máli. Skæruliðar taka þátt í skæruhernaði, en það orð er frá svipuðum tími og skæruliði.

Skæruhernaður er skilgreindur svo að áhersla sé lögð á margar aðgreindar árásir, sem óvinurinn veit ekki hvar er að vænta, og taka skæruliðarnir þátt í slíkum árásum.

Vísindavefurinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… og austurrísk stjórnvöld héldu áfram að neita fyrir tenginguna, ákvað Ísland að setja svæðið á lista áhættusvæða …“

Frétt á visir.is.                              

Athugasemd: Skrýtið þetta orðalag að „neita fyrir“. Ekki í fyrsta sinn sem blaðamaður notar það, sjá hér. Svona orðalag er annars óþekkt.

Betra hefði verið að segja að austurísk stjórnvöld hafi þrætt fyrir tenginguna.

Tillaga: … og austurrísk stjórnvöld héldu áfram að þræta fyrir tenginguna …

2.

„Þarf ég aft­ur að minna þig á að ekk­ert býr til meira klúður en að filtera kjarn­ann í sjálfri þér …“

Frétt á mbl.is.                              

Athugasemd: Hvað þýðir að „filtera í sér kjarnann“? Er verið að tala um hjartað, heilann eða botnlangann. Þetta er óskiljanlegt. Frásögnin er að mestu leiti furðuleg og illskiljanleg. Hún er greinilega ætluð konum en er ekki skárri þó svo sé.

Þarna segir:

Þú veist að blörrið býr til gervi­sam­bönd …

Þetta skilst ekki einu sinni þegar samhengið er skoðað. Enska nafnorðið „blur“ hjálpar ekkert en það merkir eitthvað sem er óskýrt.

Ekki er þetta skiljanlegra:

Stút­full­ur dag­ur af alls kon­ar fólki að dansa á borðum með þér af því þú ert svo sjúllað hvetj­andi karakt­er.

Eða þetta:

Upp á svið með þig og vertu fokk­ing fabjúlös. 

Það merkilega við þennan pistil er að málfarið er víða alveg ágætt en höfundurinn reynir viljandi að bæta inn furðulegum orðum og orðasamböndum sem hjálpa ekki. Hann er greinilega að tala eins og unglingur sem hefur ekki nægan orðaforða.

Má vera að skrifinu séu til þess að hvetja konur til dáða og sé svo hljóta að vera margar sem mislíkar svona bull.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Mótmælendur í grennd við kirkjuna voru beittir táragasi til þess að rýma svæðið fyrir myndatöku forsetans.“

Frétt á visir.is.                               

Athugasemd: Skynsamlegra er að segja að táragasi hafi verið beitt gegn fólkinu. Mótmælendurnir voru margir og kastaði lögreglan táragassprengjum að þeim. Á heimild fréttarinnar, vef CNN segir:

Peaceful protesters just outside the White House gates were dispersed with tear gas …

Þetta þýðir að táragasið hafi verið notað til að dreifa mannfjöldanum. Skrif blaðamannsins eru kjánaleg.

Tillaga: Táragas var notað til að leysa upp mótmæli í grennd við kirkjuna svo hægt væri að taka mynd af forsetanum.

4.

Upplifanir sem enginn má missa af.“

Fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins 3.6.2020.                               

Athugasemd: Upplifun er eintöluorð, er ekki til í fleirtölu. Mogginn virðir málfræðireglur að vettugi.

Á blaðsíðu 2 er „viðtal“ við fréttastjóra dægurmála Morgunblaðsins og hann segir:

Við tökum fyrir hótel, veitingastaði og upplifanir sem enginn má missa af.

Hvernig er hægt að „taka fyrir upplifanir“? Er til einhver upplifun annarra sem ekki má missa af? Þetta er bara þvæla.

Greinilegt er að viðmælandinn og blaðamaðurinn sem tók viðtalið eru ekki vel að sér í íslensku.

Iðulega eru í fjölmiðlum birt viðtöl við konur og karla sem segja frá reynslu sinni. Eflaust má kalla margt upplifun en það stendur ekki alltaf undir því heiti. Stundum er talað um „gjaldfellingu orða“ og er þá átt við að notkun þeirra sé svo tíð að merkingin verður æ minna virði. Allt er nú orðið upplifun þó betra væri að nota orðið reynsla eða álíka.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„… þegar lögreglulið í Minneapolis skirrðist ekki við að skjóta hana í götuna með gúmmíkúlu …“

Frétt á blaðsíðu 11 í Morgunblaðsins 3.6.2020.                               

Athugasemd: Blaðamaðurinn fer rétt með sögnina að skirrast. Orðið er eins í öllum persónum þátíðar, ég skirrðist, þú skirrðist, hann skirrðist. Sjá beygingarlýsinguna hér.

Ekki er ljóst hvar líkamshlutinn „götur“ er. Þó getur verið að hún hafi verið skotin og við það fallið í götuna. Sé svo, af hverju er það ekki sagt. 

Orðlagið „að skjóta einhvern í götuna“ er kjánalegt. Þekkt er orðalagið að fella einhvern og er þá því sleppt að segja að einhver hafi verið felldur í götuna eða til jarðar vegna þess að það liggur í orðanna hljóðan að þar endar sá sem fellur. Hvar annars staðar? Eins er með þann sem er skotinn, annað hvort fellur hann eða ekki.

Tillaga… þegar lögreglulið í Minneapolis skirrðist ekki við að skjóta hana niður með gúmmíkúlu …

6.

„Þetta kemur fram í lokaskýrslu réttarmeinafræðings sem krauf lík hans.“

Frétt á ruv.is.                               

Athugasemd: Sögnin að kryfja er hér ranglega beygt. „Krauf“ er ekki til. Í þátíð er það krufði. Samkvæmt málið.is merkir orðið:

skera upp lík, rista á kvið og taka út innyfli; rannsaka vendilega

Ótrúlegt er að fréttamaður á Ríkisútvarpinu skuli ekki geta farið rétt með veika beygingu sagnorðs.

Tillaga: Þetta kemur fram í lokaskýrslu réttarmeinafræðings sem krufði lík hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband