Neitar fyrir, hafa afskipti af og laxinn mættur í borgina
25.5.2020 | 13:56
Orðlof
Hráþýðingar
Í sjónvarpi mátti (20.1.16) sjá auglýsingu þar sem auglýst voru höfuðborð.
Enska heitið "headboard" er á íslenzku "rúmgafl" eða höfðagafl."
Hráþýðingar úr ensku færast ört í vöxt og það er ekki aðeins illa máli farið fjölmiðlafólk, sem iðkar þær heldur og ekki síður auglýsingastofur.
Hráþýðingar úr ensku og ensk setningaskipan er ein mesta vá, sem að móðurmálinu steðjar um þessar mundir. -
Kærar þakkir, Molavin. Þetta er góð ábending. Sumarauglýsingastofur eru stórhættulegar og gera hverja atlöguna að tungunni á fætur annarri, eins og stundum hefur verið nefnt í þessum pistlum. En skylt er að geta þess, að þar eiga ekki allir jafna sök.
Molar um málfar og miðla. Eiður Guðnason.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Bjarni neitar þó fyrir að það andi köldu þeirra á milli.
Frétt í dv.is.
Athugasemd: Hvað merkir að neita fyrir? Ekkert, þetta er bara merkingarlaust orðalag.
Líklega hefur blaðamaðurinn haft óljósan grun um að hægt sé að neita einhverju og þvertaka fyrir eitthvað. Þessu hefur síðan slegið saman í hausnum á honum og þetta orðið útkoman.
Tillaga: Bjarni neitar því að það andi köldu þeirra á milli.
2.
Flugfreyjur fá aldrei laun frá bandaríska fjárfestinum sem þær sætta sig við.
Frétt í dv.is.
Athugasemd: Beint liggur við að skilja málsgreinina á þann hátt að flugfreyjur sætta sig við bandaríska fjárfestinn en fá aldrei laun frá honum.
Þegar fréttin er lesin kemur í ljós að það er alls ekki þannig. Það eru launin sem þær sætta sig ekki við, ekki fjárfestirinn.
Annars er það furðuleg árátta blaðamanna að búa til fréttir úr texta sem birtur er á Facebook. Margar af þessum fréttum standa ekki undir nafni. Oft eru þeir sem skrifa færslurnar á FB langt frá því að vera aðilar máls, hafa jafnvel enga þekkingu á því sem þeir eru að skrifa um. Eru bara fyrirsagnahausar eins og liðið sem skrifar í athugasemdadálka fjölmiðla.
Tillaga: Flugfreyjur fá aldrei laun sem þær sætta sig við frá bandaríska fjárfestinum.
3.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur á árinu haft afskipti af nokkur hundruð ökumönnum vegna aksturs undir áhrifum.
Fyrirsögn í visir.is.
Athugasemd: Málfarslega er ekkert að fyrirsögninni. Hins vegar er hún og fréttin á dæmigerðri stofnanamállýsku, orðalagi sem er byggir á nafnorðum.
Orðalagið hafa afskipti af er löggumál í þeim flokki sem eflaust myndi flokkast sem veigrunarorðalag, það er undanfærsluorð sem milda það sem í raun er gert.
Blaðamenn og aðrir segja að löggan hafi haft afskipti af fólki þegar grunur leikur á að það sé drukkið eða dópað. Afskipti er hjáorð til að ekki þurfi að segja að fólkið hafi verið handtekið.
Í fréttinni er þetta haft eftir viðmælandanum sem starfar hjá Samgöngustofu:
Við hjá Samgöngustofu höfum áhyggjur af því þegar fólk er að blanda saman inntöku efna sem hafa ýmist slævandi eða örvandi áhrif vegna þess að það hefur áhrif á aksturshæfni og ákvarðanatöku undir stýri.
Þetta er nú meira hnoðið, dæmigert stofnanamál eins og löggan notar. Inntaka efna er neysla, á við drykki, sprautur og fleira. Orðið ákvarðanataka er ónýtt orð. Það er myndað af tveimur orðum, sögnunum að ákveða og taka. Hæfni er gott orð og felur í sér að sá sem er dópaður eða fullur getur ekki tekið réttar ákvarðanir í akstri.
Áhrif á aksturshæfni og ákvarðanatöku, segir viðmælandinn með undanfærsluorðalaginu. Auðvitað á hann við að þeir sem eru undir áhrifum geta ekki stjórnað bílum og séu hættulegir sé og öðrum.
Efnislega ætlaði viðmælandinn að segja þetta.
Við hjá Samgöngustofu höfum áhyggjur af því þegar ökumenn nota áfengi, lyf og dóp í akstri. Þeir eru stórhættulegir sér og öðrum.
Þetta er einnig haft eftir viðmælandanum:
Ef fólk er að taka lyf sem getur valdið einhvers konar skerðingu á aksturshæfni þá er það alltaf áhættuþáttur sem við hjá Samgöngustofu viljum fyrir alla muni biðja fólk um að hafa í huga.
Í stuttu máli: Liðið hjá Samgöngustofu vill að fólk hafi það í huga að lyf geta valdið skerðingu á aksturshæfni og það er áhættuþáttur. Dæmigert undanfærsluorðalag.
Aðalatriðið er þetta:
Mörg lyf eru slæm fyrir ökumenn. Ekki keyra eftir að hafa tekið þau. Lestu það sem segir á lyfjapakkningunum, þar stendur þetta skýrum stöfum. Að auki hefur læknirinn sem ávísaði lyfjunum ábyggilega lagt þunga áherslu á þetta.
Blaðamenn Vísis bæta við frá eigin brjósti:
Þá hefur verið nokkuð um það að fólk slasist í umferðinni vegna aksturs undir áhrifum löglegrar lyfjaneyslu en sautján slösuðust í fyrra, þar af fimm alvarlega.
Óskiljanlegt er þetta þá sem málsgreinin hefst á og er hér atviksorð. Sé því sleppt gerist ekkert:
Nokkuð er um það að fólk slasist í umferðinni vegna aksturs
Raunar er þessi málsgrein afar illa samin. Betra hefði verið að orða hana svona:
Fólk hefur slasist í umferðinni vegna aksturs undir áhrifum löglegrar lyfja. Sautján manns slösuðust í fyrra, þar af fimm alvarlega.
Fréttin er illa skrifuð, samt eru tveir blaðamenn skrifaðir fyrir henni.
Tillaga: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur á árinu tekið nokkur hundruð ökumenn vegna aksturs undir áhrifum.
4.
Laxinn er mættur í Elliðaárnar.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Sögnin að mæta merkir að hitta annan. Fólk mætir á einhvern stað, kemur saman og jafnvel mætist á förnum vegi.
Laxinn mætir hvergi, mætir engum. Hann kemur bara í Elliðaárnar.
Fyrirsögn fréttarinnar er engu skárri:
Laxinn mættur í borgina.
Samkvæmt þessu getur maður átt von á því að mæta laxi á Laugaveginum. Það yrði nú frétt í lagi, lagsmaður.
Út af fyrir sig er ekkert að því að skrifa léttan texta, grípa orð og orðalag sem oftast er notað um samskipti fólks og yfirfæra á dýraríkið. Vandinn er bara sá að maður veit aldrei hvort skrifarinn viti til dæmis muninn á sögnunum að mæta eða koma. Ótal dæmi er um slæmt málfar í fjölmiðlum.
Um daginn var til dæmis í fjölmiðli sagt frá fæðingu tvíbura og það orðað þannig að þeir hefðu mætt á svæðið Sjá hér. Ekki furða þótt kjánahrollurinn geri vart við sig.
Tillaga: Laxinn er kominn í Elliðaárnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.