Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Halldór Blöndal talar niður til Davíðs Oddssonar

Þegar Davíð Oddsson tjáir sig missa andstæðingar hans oft alla sjálfstillingu. Þetta gerðist þegar síðasta Reykjavíkurbréf sunnudagsblaðs Morgunblaðsins kom út. Þeir sem lesa bréfið titra og bulla rétt og þeir sem aldrei lesa það en bulla þó hinum til samlætis.

Þeir sem telja sig eiga einhverra harma að hefna að vitna oftast til orða Davíðs í óbeinni ræðu, þá geta þeir túlkað orð hans að vild, venjulega þvert á það sem maðurinn sagði.

Alltaf, hreint alltaf, skrifar Davíð Oddsson yfirvegað og málefnalega en oftar en ekki felst broddur í orðum hans og þá hrína þeir sem fyrir verða en við hinir höfum ánægju af góðum skrifum, kristaltærri pólitíkinni, kaldhæðninni og skopinu. 

Svo ber það til tíðinda að Halldór Blöndal, fyrrum alþingismaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, reyndir í blaðagrein að setja niður í við Davíð. Hann segir:

Og auðvitað hefn­ir það sín, ef illa ligg­ur á manni, - þá mikl­ar maður hlut­ina fyr­ir sér og freist­ast til að fara ekki rétt með.

Eitthvað er að Halldóri sem talar niður til Davíðs, reynir að brúka föðurlegan umvöndunartón. Segir í fyrsta lagi að hann hafi skrifað þar síðasta Reykjavíkurbréf í slæmu skapi og í öðru lagi að hafi ekki farið rétt með. Þetta er allt svo skrýtið og furðulegt og auðvitað sprek fyrir óvinafagnað enda logaði vel hjá andstæðingum Sjálfstæðisflokksins sem ráða sér ekki fyrir kæti og tala um klofning. 

Mesta furðu vekur þó, að maður sem á mestalla sína upphefð í stjórnmálum Davíð Oddssyni að þakka, skuli telja sig þess umkominn að tala niður til hans. Þó hlakkað hafi í óvinum Sjálfstæðisflokksins og hælbítum Davíðs eftir þessi orð endurgalt Davíð ekki sendinguna á sama veg. Hann kann sig betur. Í umfjöllun sinni fékk Halldór samt dágóðan skammt af skopi og kaldhæðni, en meiðandi var umfjöllunin um hann ekki. 

Í stjórnmálum skiptir miklu að vera vel áttaður, hafa skýra stefnu. Halldór tekur meira mark á ættarvitanum, sem Davíð nefnir svo, en sjálfstæðri skoðanamyndun. Og Davíð segir:

Nú sýna kannanir að allur þorri flokksmanna er á móti orkupakkaruglinu. Enginn hefur fengið að vita af hverju forystan fór gegn flokknum í Icesave. Og nú fær enginn að vita „af hverju í ósköpunum“, svo notuð séu orð formannsins sjálfs, laskaður flokkurinn á að taka á sig enn meiri högg. Halldór Blöndal áttar sig ekki á þessu fremur en Icesave, sem hann hafði barist gegn þar til ættarvitinn tók öll völd. Þessi sami ættarviti sem núna er að ærast í segulstormunum.

Það vantaði ekki neitt upp á það að hann sendi þá gömlum vinum sínum kveðjurnar eftir krókaleiðum vegna þess að þeir mökkuðu ekki með. Þeirra svik voru að fara ekki kollhnís þegar kallið barst frá Steingrími og kröfuhöfum.

Enginn kali virðist vera í orðum Davíð gagnvart Halldóri því hann segir:

Nú hefur bréfritari ekki heyrt í Halldóri lengi. En hann hringir til manna allt í kringum þann með sama hætti og síðast og þeir segja að það liggi þetta líka óskaplega illa á honum núna. Það hlýtur að gera það, því að Halldór er innst inni drengur góður.

Við sem heima sitjum og stundum ekki pólitík nema í bloggum og af og til í heita pottinum erum doldið hissa á því að gamall samherji hafi ekki einfaldlega hringt í Davíð og spurt hvers vegna hann sé á móti þriðja orkupakkanum sem svo er kallaður. Má vera að virðingin fyrir fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins sé svo mikill, og blönduð ótta, að betra sé að kalla til hans úr fjarlægð og hlaup síðan á brott og fela sig eins og götustráka er siður.

Eða heldur Halldór Blöndal að enn liggi illa á ritstjóranum og Davíð í fýlu sé verri viðureignar en Davíð í góðu skapi. Hvor sem staðan er á Davíð er ekki víst að Halldór bjargi sér á hlaupum. Reykjavíkurbréfið hefur ábyggilega hitt hann vel. Má vera að hann standi upp aftur. Þá væri ráð að hann hringi í Davíð, ekki skrifa bréf, nema kannski vísnabréf.

Halldór veit ekki að opinbert bréf í fjölmiðli er yfirlýsing, ekki vingjarnleg ábending.

Eitt verður Halldór Blöndal að vita að Davíð Oddsson á mikið fylgi innan Sjálfstæðisflokksins. Þar erum við fjölmörg sem misvirðum það sé Davíð sýnd ókurteisi. Það er einmitt ástæðan fyrir þessum skrifum.


Fimm mestu jarðskjálftavæði landsins

Helstu jarðskjálftasvæði landsins virðast vera fimm.

  1. Norðaustan við Grindavík
  2. Norðan Laufafells á Fjallabaki
  3. Bárðarbunga
  4. Herðubreið
  5. Austan Grímseyjar 

Þetta þýðir þó ekki að von sé á eldgosi á þessum svæðum, og þó. Margar ástæður eru fyrir jarðskjálftum, meðal annars kvika sem er að brjóta sér leið upp á yfirborð.

GrindavíkAustan við Grindavík, það er norðan Hraunsvíkur og sunnan Fagradalsfjalls. Þarna hafa verið miklar jarðhræringar undanfarið ár. Flestir skjálftarnir eru frekar litlir, stórir. Raunar hefur verið mikil hreyfing á Reykjanesskaga og þá mest þarna og einnig suðvestan við Kleifarvatn, á Sveifluhálsi og í Móhálsadal. Raunar er það þannig að stórir skjálftar eru mjög sjaldgæfir á Reykjanesi enda er það svokallað fráreksbelti.

Undanfarin misseri hafa skjálftar norðan við Laufafell og austan við Rauðufossafjöll vakið athygli leikmanna. Þarna er tiltölulega stutt í Heklu en í kringum hana hafa orðið fjölmörg eldgos. Svo virðist sem að skjálftarnir teygi sig til austurs í áttina að Torfajökli. Ég hef hitt tvo mæta menn sem trúa því að þarna muni innan skamms hefjast eldgos. Annar þessara er draumspakur maður sem aldrei hefur haft rétt fyrir sér, hinn er áhugasamur landvörður sem vit sínu viti.Bárður

Bárðarbungu þekkja allir og þar er skelfilegt um að litast. Þar er gat ofan í tvöþúsund metra háan jökulinn og niður í hyldýpi þar sem bræðsluvatnið sýður og bullar og bíður þess sem verða vil.

Eldgosið í Holuhrauni varð þegar kvika braut sér leið til austur, snarsnéri svo til norðurs undan hallanum og kom síðan upp á yfirborðið á gamalkunnugum slóðum þar sem gosið hafði fyrir tvöhundruð árum.

Nú velta menn því fyrir sér hvort Bárði vaxi ásmegin og taki að dæla kviku af enn meiri þrýstingi en síðustu misserin. Verður þá aftur gos í Holuhrauni eða nær kvikan að brjótast til austurs í áttina til Kverkfjalla eða Grímsvatna? Hvað gerist þá?

HerðubreiðÍ kringum Herðubreið hefur verið mikil skjálftavirkni undanfarin ár, sérstaklega suðvestan við fjallið. Sumir telja að þarna undir sé kvika að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Fátt annað getur skýrt svona viðvarandi staðbundna skjálfta.

Austan Grímseyjar hafa verið miklir skjálftar á undanförnum árum. Fátt er hins vegar vitað um það, til þess vantar jarðskjálftamæla á sjávarbotni.

Athugið að kortin sem hér birtast er frá Loftmyndum, loftmyndir.is. Þau sýna jarðskjálfta frá síðasta sólarhring til síðustu sex mánaða.


Stoltenberg, viðhlæjandi eða vinur?

Jens Stoltenberg var forsætisráðherra Noregs þegar fjármálakreppan reið yfir heiminn og hér á Íslandi kölluðum við hana hrunið, sem er réttnefni. Lítið gagn hafði þjóðin þá af „frændum“ okkar á Norðurlöndum, nema auðvitað Færeyingum.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson segir um Stoltenberg í Fróðleiksmolum sínum í Morgunblaði dagsins:

Hvernig sýndi hann það, þegar hann var forsætisráðherra Noregs árin 2008-2009? Ólíkt Færeyingum og Pólverjum, sem veittu okkur í bankahruninu aðstoð án skilyrða, neituðu Norðmenn öllum okkar óskum um aðstoð. Stoltenberg, sem er jafnaðarmaður, lagði flokksbræðrum sínum í Bretlandi, Alistair Darling og Gordon Brown, lið á alþjóðavettvangi og beitti sér gegn því, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hlypi undir bagga, fyrr en við hefðum gengið að freklegum kröfum Darlings og Browns, sem þá þegar höfðu sett á okkur hryðjuverkalög. (Hryðjuverkalög! Á annað aðildarríki Atlantshafsbandalagsins!)

Norsk stjórnvöld aðstoðuðu síðan norska fjáraflamenn við að sölsa undir sig vænar eignir Glitnis á smánarverði, eins og ég lýsi nákvæmlega í skýrslu minni fyrir fjármálaráðuneytið, sem aðgengileg er á Netinu.

Minni okkar er hverfult og við gleymum því sem hendir. Segja má að nútímamaðurinn hafi ekkert annað en skammtímaminni. Sem betur fer getum við leitað heimilda víða, til dæmis á netinu. Svo eru til menn eins og Hannes sem eru einfaldlega minnugir og rifja á hvað gerðist á þessum örlagaríku árum þegar allt hrundi.

Stoltenberg er núna framkvæmdastjóri Nató. Hann þjáðist greinilega af skammtímaminni þegar hann kom í opinbera heimsókn til landsins fyrir örfáum dögum. Hann sagðist vera vinur Íslendinga en um það má deila. Hver er góður og traustur vinur? Varla sá sem grefur undan vini sínum með illu umtali. Þá farnast manni best vinalausum.

Eða eins og oft er sagt: Með slíkum vini fjölgar beinlínis í óvinaflokknum. Og ekki eru allir viðhlæjendur vinir.


Ragna og Kúbu-Gylfi til æðstu metorða

Vinstrið gleymir ekki veittum stuðningi á sínum verstu árum. Ríkisstjórn Steingríms núverandi forseta Alþingis, og Jóhönnu Sigurðardóttur, núverandi eldri borgara, hafði stuðst við Gylfa Magnússon, hagfræðiprófessor, og Rögnu Árnadóttur, núverandi aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar. Þeim verður nú veglega launuð liðveislan.

Fyrst voru gerð að ráðherrum. Tilgangurinn var sá að gefa ríkistjórninni þolanlegra yfirbragð en Vinstri grænir og Samfylkingarmenn gátu. Má vera að það hafi tekist. Hins vegar varð Gylfi Magnússon sér til minnkunar í harðsvíruðum áróðri sínum fyrir því að ríkissjóður Íslands greiddi skuldir einkafyrirtækis, það er Landsbankans gamla. Þótti flestum það ekki skynsamleg ráðstöfun á almannafé enda var þessi alræmda ríkisstjórn gerð afturreka með lögin með synjun forseta Íslands á þeim og tvær þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem öll þjóðin reyndist á móti því að skattfé væri notað til að greiða skuldir óreiðumanna.

Gylfi hótaði því að Ísland yrði „Kúba norðursins“ samþykktu landsmenn ekki að ríkissjóður ábyrgðist Icesave skuldirnar. Síðan hefur hann haft viðurnefnið Kúbu-Gylfi. Þá loksins að þjóðin losnaði við vinstri stjórnina hefur efnahagur landsins blómstrað og hefur aldrei verið betri en nú. Kúba er enn á sínum stað og betra væri að Gylfi væri áfram á sínum, en svo verður því miður ekki. Enn er samt hlegið að orðum Gylfa, nú góðlátlega.

Miklar ávirðingar hvíla á þeim sem sátu í ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, þeirri sem þóttist vera skjaldborg heimilanna í landinu en reyndist bara áþján og byrði fyrir þau og atvinnulífið.

Nú hefur Ragna Árnadóttir verið gerð að æðsta yfirmanni löggjafarþingsins, það er fyrir utan forseta þess. Á þingi sat hún aldrei með fullum réttindum en var með meirihlutanum í því að reyna að láta ríkissjóð greiða skuldir Landsbankans.

Hún og Gylfi voru líka fylgjandi því að landsdómsmál var höfðað gegn pólitískum andstæðingi ríkisstjórnarinnar. Þetta og fleira til er þeim báðum til ævarandi skammar.

Gylfi Magnússon verður innan skamms ráðinn seðlabankastjóri og þá má segja að allt sé fullkomnað. Vinstri menn sjái um sína. Þakklæti Steingríms, Jóhönnu, Katrínar og annarra vinstri manna fæst hér greitt úr ríkissjóði í formi bitlinga.


mbl.is Ragna nýr skrifstofustjóri Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Akkúrat núna og lekkerir tónar

Orðlof og annað

Betri íslenska

Þeim sem spyrja hvernig eigi að tala betri íslensku er venjulega bent á að lesa sem mest, og lestur er mikilvægur á margan hátt. 

Af lestri lærir fólk ný orð og orðasambönd og hvernig eigi að nota þau, áttar sig á ýmsum merkingarblæbrigðum orða og orðasambanda sem það þekkir fyrir, og fær tilfinningu fyrir málsniði – hvað á saman, hvað tilheyrir hverri stíltegund, hvað á við í tilteknum aðstæðum.

Kristinn Schram, Vísindavefurinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Rúss­neska of­ur­fyr­ir­sæt­an Ir­ina Shayak er stödd á Íslandi akkúrat núna.

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Ég er viss um að sami blaðamaðurinn og skrifaði ofangreinda setningu er sá sami og skrifaði „akkúrat núna“ í frétt í Morgunblaðinu 10. júní 2019, sjá hér (athugasemd númer 6). Í henni segir:

Akkúrat núna höfum við fundið 95 óbreytta borgara látna …“

Um svona vill skrifari segja þetta:

  1. Eitt er að bulla með slettu, annað er að gera það oft (athugið ég nota ekki tískuorðið „ítrekað). 
  2. Vont er þegar sá sem þetta gerir er blaðamaður. 
  3. Enn verra er að vera samstarfsmaður blaðamannsins og hafa ekki sagt honum til. 
  4. Verst af öllu er að vera ritstjóri eða ritstjórnarfulltrúi á fjölmiðlum og hafa ekki komið auga á bullið og veitt blaðamanninum vinsamlegt tiltal.

Já, það er vandratað í henni veröld. En hver þessi fyrirsæta er veit ég ekki né heldur hvað ofurfyrirsæta er. Hins vegar veit ég hvað hetja er og ofurhetja en sú vitneskja er úr „súpermanbíómyndum“.

Tillaga: Rúss­neska of­ur­fyr­ir­sæt­an Ir­ina Shayak er núna stödd á Íslandi.

2.

17 frum­vörp hafa verið af­greidd á Alþingi í dag …

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Af hverju getur blaðamaðurinn ekki skrifað töluna sautján með bókstöfum? 

Í Morgunblaðinu 13. júní 2109 segir á blaðsíðu 34, undir millifyrirsögn:

14 árum síðar, þegar Anna María var orðin þekkt leik- og söngkona …

Af hverju ekki fjórtán árum síðar eða um 14 árum síðar, rúmlega eða tæplega? Líklega eru sumarstarfmennirnir teknir til óspilltra málanna á Mogganum. Leiðbeinir enginn byrjendum? 

Hvergi tíðkast að byrja setningu á tölustöfum, í flestum tungumálum er varað við því. Af hverju: Vegna þess að þeir eru allt annars eðlis en bókstafir og oftast til annarra hluta nytsamlegri. Á eftir punkti kemur stór upphafsstafur, þetta er reglan í flestum tungumálum. Tölustafir eru alltaf eins, eru eins og aðskotahlutir, gefa ekki það sama til kynna og bókstafir.

Ég hef haft það fyrir reglu að skrifa lágar tölur í bókstöfum, það er aðrar en dagsetningar. Margir miða við lægri tölur en eitt hundrað en aðrar með tölustöfum. Þetta veltur á smekk.

Tillaga: Sautján frum­vörp hafa verið af­greidd á Alþingi í dag, öll með mikl­um meiri­hluta at­kvæða.

3.

„Þurrkur skapar vanda á vegum á Suðurlandi og rykið er eins og jóreykur í kúrekamynd.

Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 12. júní 2019.          

Athugasemd: Margir góðir blaðamenn starfa á Morgunblaðinu meðal þeirra er sá sem þekkir orðið jóreykur. Hann veit að jór er gamalt heiti og merkir hestur. Þegar einn eða fleiri hestar hlaupa á þurru landi þyrlast upp ryk. Forðum og jafnvel enn er það nefnt jóreykur, að vísu ryk, ekki reykur.

Alltaf ánægjulegt að lesa góðan texta.

Tillaga: Engin tillaga

4.

„Ljós­ir og lekk­er­ir tón­ar eru áber­andi í íbúðinni …

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Hér er ekki verið að tala um tónleika í íbúð, hugsanlega liti á veggjum og jafnvel húsgögnum. Því miður er engin skýring á „tónunum“. Svona er nú sérfræðitalið orðið sérfræðilegt að einfaldur lesandi áttar sig ekki á „fréttinni“.

Hér áður fyrr var allt „lekkert“, jafnvel „gasalega lekkert“. Sérstaklega föt og hárgreiðsla kvenna, húsgögn og annað mikilvægt. Síðan fór vegur þessarar slettu hnignandi sem og mörg önnur á sjöunda, áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Enginn amast við því. 

Þegar einhver segir eitthvað vera „lekkert“ þykir það ótrúlega gamaldags („retró“) og bendir aðallega til þess að sá sem notar orðið sé nokkuð við aldur.

Orðið hefur ábyggilega borist hingað úr dönsku. Á Wiktionary segir um ættfræði orðsins:

From Middle Dutch lecker, derived from the verb lekken (“lick”) (Dutch likken). Cognate to German lecker, Afrikaans lekker, Middle Low German lecker, Norwegian lekker, Swedish läcker and Danish lækker.

Líklega lifir þetta orð ágætu lífi í þessum tungumálum þó úr þrótti þess dragi hér.

Tillaga: Ljós­ir og snotrir tón­ar eru áber­andi í íbúðinni …


Álfar, dropasteinar, dropsteinar og strá

820804-40Í grein í Morgunblaðinu er þeim hótað kynferðislegri óáran sem skemma og brjóta í íslenskum hraunhellum. Greinarhöfundur hefur þetta að eigin sögn frá þremur forvitrum álfkonum sem þó vita ekki muninn á dropsteinum og dropasteinum.  

Höfundurinn hefur þetta eftir álfunum: 

Brjóti karl dropastein missir hann þegar reisn. Brjóti kona dropastein missir elskhugi hennar getuna til samræðis.

Í enn styttra máli, konan sem brýtur steininn fær enga refsingu en álfarnir hefna sín á elskhuga hennar. Ekki þykir þetta nú mikil speki úr álfheimum. Þess ber þó að gæta að hefndarþorsti álfa er mikill eins og glögglega kemur fram í þjóðsögum. Einnig eru mörg dæmi um gjafmildi þeirra og gæsku.

Þetta er þó ekki aðalmálið heldur að umgengni í hraunhellum er vandamál, og hefur verið það lengi. Við því þarf að bregðast og það verður aðeins gert með því að loka hellum, selja aðgang að þeim og ráða gæslufólk til starfa. Greinin er skrifuð til að vekja athygli á víðtæku vandamáli, þó má deila um framsetninguna.

Svo er það hitt. Sko ... dropsteinar og dropasteinar er sitthvað.

820804-5Dropasteinar þekkjast ekki hér á landi en víða annars staðar. Þar falla kalksteinsríkir dropar ofan úr lofti hella og á gólf þeirra og þar verða til á löngum tíma drangar, drýli eða kerti úr kalki, oft litfögur. Sama er með loftið, þar teygja sig niður mjó kalksteinskerti og rennur vatn niður með þeim og svo fellur dropinn niður. Þetta eru dropasteinar, með ´a´.

Dropsteinar eru hins vegar allt annað þó myndunin sé ekki ólík. Þeir fyrirfinnast í hraunhellum. og myndast aðeins þegar hraun hættir að renna. Þá er mikill hiti í hellinum, hann bræðir úr þaki hellisins og þá falla hraundropar. Þeir renna hægt niður úr loftinu, mynda þar kerti og falla svo á gólfið og þar verða til dropsteinar sem geta orðið ansi háir.

Fyrir þrjátíu og sjö árum var mér bent á svona hraunhelli og sagt frá dropsteinunum sem þar er að finna. Þeir væru afar fallegir en þá mætti alls ekki snerta enda afar viðkvæmir og ekki fara með þá út. Ég og kunningi minn leituðum lengi að hellinum og fundum hann loks. Opið var lítið og erfitt að komast inn í hann því niðri þurfti a skríða nokkra metra eftir örmjóum göngum þar til komið var í stærri hvelfingu. Þetta var stórkostleg upplifun en nokkuð skelfileg þegar maður skreið eftir þröngum göngum og finna að ekki var mikið pláss til að fylla lungun af lofti. Þegar maður andaði að sér fannst hvernig gólf og þak gangnanna þrýsti á móti, gaf ekkert eftir.

820804-29Í stóru hvelfingunni var fjöldi undurfagurra dropsteina og raunar dropstráa, örmjórra hraunstráa, sem glömpuðu í birtunni af vasaljósunum. Þetta var mikill fjársjóður, silfur í kílóatali. Þar sem hellirinn var hæstur er hann meira en mannhæðarhár. 

Einhverjir höfðu verið þarna á undan okkur. Nokkrir dropsteinar voru fallnir, annað hvort höfðu forverar okkar rekist í þá eða þeir hrunið í jarðskjálftum. Minnugir varnaðarorðanna gættum við vel að hreyfingum okkar, vildum ekki skemma neitt. Svo hégómlegur sem ég er gat ég ekki stillt mig um annað en að stinga inn á mig litlum dropsteini til minningar um ferðina.

Svo fórum við út og þar dró ég upp fjársjóðinn en álögin höfðu brostið. Ég hélt þarna bara á gráum steini sem var um flest líkur öðru hraungrjóti. Engin auðæfi, ekkert silfur. Og þarna skildi ég staðreyndir lífsins, njóta ber náttúrunnar með augunum, ekki skemma eða reyna að flytja hana til. Hún nýtur sín best við uppruna sinn.

Tvennu er við þetta að bæta. Hellirinn hefur verið tryggilega lokaður. Sem betur fer.

Svo er það hitt. Lög álfkvennanna höfðu líklega ekki tekið gildi þegar ég fór í hellinn. Mér hafði líklega verið refsilaust að fjarlægja brotið kerti úr hellinum. Að minnsta kosti hefur engin kona kvartað (svo ég viti).

Myndir:

Efsta myndin er af þéttum „skógi“ dropsteina. Þarna kemst enginn nema skemma þá.

Miðmyndin er í göngunum að hellinum. Þar var skelfilega þröngt og alls ekki fyrir þá sem þjást af innilokunarkennd.

Neðsta myndin er af dropsteinum og stráum. Takið eftir hversu mjóir dropsteinarnir eru og á miðri mynd tengist dropsteinn við hellisloftið með örmjóu hraunstrái. Stórkostlegt fyrirbrigði.


Stingandi stafur, öryggistékk og akkúrat núna

Orðlof og annað

Hundraðkall

Í óformlegu tali um peninga er oft notaður síðari liðurinn -kall, fimmkall, tíkall, fimmtíukall, hundraðkall og svo framvegis, -kall er framburðarmynd af karl. 

Þessi notkun þekkist í málinu að minnsta kosti frá því um aldamótin 1900. Hún er líklegast komin úr dönsku þar sem orðin femkarl og tikarl voru notuð áður um fimm- og tíukrónu peninga.

Vísindavefurinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„„Það er ekki stingandi stafur fyrir því sem hann skrifar um mig …““

Frétt á dv.is.          

Athugasemd: Hér er furðulega tekið til orða. Má vera að þetta sé samsláttur orðatiltækja. Flestir hafa heyrt um að á einhverjum stöðum sé ekki að finna „stingandi strá“, en „stingandi stafur“. Hvað er átt við?

Í bókinni Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson segir í aðalatriðum:

Öll strá stanga/stinga, allt er e-m andsnúið, allt snýst gegn e-m. […] Orðatiltækið er kunnugt frá síðari hluta 17. aldar: Öll strá stinga mig og á það sér fyrirmynd í forni máli.

Orðin „stingandi stafur“ eru höfð eftir viðmælanda blaðsins en ég dreg stórlega í efa að svona sé almennt tekið til orða. Miklu líklegra er að hann hafi ætlað að segja sem svo að enginn stafur sé fyrir skrifunum. Má vera að hann hafi blandað orðatiltækjunum ekki nokkur stafur og stingandi strá. Sem kemur á óvart, rétt eins og „þruma úr heiðskýrum læk“ svo notað sé orðalag kunningja míns. Ein af skyldum blaðamanns er að lagfæra orðalag viðmælandans, ekki dreifa villum.

Tillaga: „Það er enginn sannleikur í því sem hann skrifar um mig …

2.

„Sterkra vinda von í Bláa lóns keppni.

Frétt í dv.is.          

Athugasemd: Vel getur verið að eitt keppnisliðið í hjólreiðakeppninni sem kennd er við Bláa lónið kallist „Sterkir vindar“. Hitt veit ég að sterkir vindar kallast á íslensku hvassviðri eða jafnvel stormur.

Af hverju þarf að nota barnarmál, tala um mikinn eða lítinn vind? Af hverju má ekki nota gömul og góð orð sem tákna vind? Því miður þekkja æ færri þessu gömlu veðurorð þó eru til á annað hundrað íslensk orð um vindstyrk, sjá hér.

Tillaga: Búist við hvassvirðri í Bláa lóns keppni.

3.

„Tyrk­nesku leik­menn­irn­ir munu hafa verið afar óhress­ir með mikl­ar taf­ir í Leifs­stöð en þar þurftu þeir að fara í gegn­um sér­stakt ör­yggis­tékk

Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Þetta er ekki boðlegt. Hvað er „ör­yggis­tékk“? Líklega öryggisskoðun, leit sem allir flugfarþegar ganga í gegnum við brottför og komu.

„Tékk“ er sletta, er ekkert annað en framburðurinn á ensku sögninni eða nafnorðinu „check“. Í enskri orðabók segir um „security check“:

a search of an area or of a person and their baggage for concealed weapons or bombs.

„Öryggistékk“ er sletta sem afar fáir nota enda flestum tamara að segja öryggisskoðun. Ísavia nefnir á vefsíðu sinni öryggisskoðun og öryggisleit sem er hrein og klár íslenska.

Fyrir kemur að í talmáli sé talað um að „tékka“ á einhverju, flugmenn og fleiri tala um „tékklista“, jafnvel „tékka“ sumir á orðabókinni þegar þeir vita ekki hvernig eigi að stafsetja orð eða hvað það þýðir. Orðið er samt við það að hverfa sem er ágætt.

Hver skyldi nú vera munurinn á öryggisskoðun og „sérstakri öryggisskoðun“? Enginn, myndi ég halda, nema því aðeins að sú sérstaka væri útskýrð nánar.

Tillaga: Tyrk­nesku leik­menn­irn­ir munu hafa verið afar óhress­ir með mikl­ar taf­ir í Leifs­stöð en þar þurftu þeir að fara í gegn­um öryggisskoðun …

4.

„Lét­ust á vett­vangi slyss­ins.

Fyrirsögn á mbl.is.          

Athugasemd: Með sorg í huga verður skrifari að gera athugasemdir við frétt vefrits Moggans um banaslys á flugvelli í Fljótshlíð. Það er einfaldlega ekki hægt birta svona fyrirsögn. 

Í fréttinni segir þar að auki:

All­ir þrír sem lét­ust í flug­slys­inu í Múla­koti í gær lét­ust á vettvangi. 

„Vettvangur“ er ofnotað tískuorð sem á væntanlega að gefa frétt virðulegra yfirbragð. Hingað til hefur þó verið látið nægja að segja að fólk hafi látist í slysi. Af frásögninni leiðir hvar það gerðist. Annað mál er ef fólk deyr síðar vegna afleiðinga slyss.

Fleiri athugasemdir má gera við fréttina en þær eru aukaatriði því efni fréttarinnar er afar sorgleg. Þó er mikilvægt er að fjölmiðlar vandi orðalag í fréttaflutningi.

Tillaga: Létust í flugslysi

5.

38% hjúkrunarfræðinema töldu sig vera að miklu eða mjög miklu leyti útbrunnin vegna námsins …

Frétt á blaðsíðu 10 í Morgunblaðinu 11. júní 2019.          

Athugasemd: Ekki byrja setningu á tölustöfum. Þetta er regla sem höfð er í heiðri um allan heim og hefur oft verið nefnd hér. Ástæðan er einfaldlega sú að tölustafir eru annars eðlis en bókstafir.

Á vefnum Grammar Monster segir:

It is considered untidy to start sentences with figures. You should either reword your sentence or write the number in full.

Mjög auðvelt er að hafa hér annan hátt á en að byrja á tölustöfum, sjá tillöguna.

Tillaga: Um 38% hjúkrunarfræðinema töldu sig vera að miklu eða mjög miklu leyti útbrunnin vegna námsins …

6.

„„Akkúrat núna höfum við fundið 95 óbreytta borgara látna …““

Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 11. júní 2019.          

Athugasemd: Sérkennilegt að sjá svona forna slettu í frétt. Yfirleitt er orðið aðeins notað í talmáli. Í ritmáli dugar atviksorðið núna sem er miklu betra og eðlilegra. Þarna má sleppa „akkúrat“ án þess að merking setningarinnar breytist. 

Fréttin er illskiljanleg. Í henni segir:

Líkin eru brennd, við höldum áfram að leita að fleirum …

Ekki er ljóst hvort að þeir sem fundu líkin hafi brennt þau eða þau hafi fundist brennd. Heimildin virðist vera vefsíðan TRTWorld. Í henni segir:

"Right now we have 95 dead civilians. The bodies are burned. We are continuing to look for others," 

Ensku orðin „right now“ eru hér þýdd sem „akkúrat núna“. Þetta ber ekki gott vitni um málkennd blaðamannsins. Í fréttinni kemur fram að fólk hafi verið brennt lifandi. Ekkert er um það í frétt Moggans, reyndar er hún frekar lítil og takmörkuð en umfjöllunarefni er stærra en lesendur fá að vita.

Tillaga:Núna höfum við fundið 95 óbreytta borgara látna …“

 


Atvinnuviðtal vegna embættis Seðlabankastjóra

Gylfi atvinnuviðtal- Góðan dag.

- Góðan daginn.

- Fáðu þér sæti við borðið.

- Við hliðina á ykkur?

- Nei, góði. Á móti okkur. Þú ert umsækjandi um stöðuna, við eigum að meta þig.

- Já, ég skil.

- Og þú heitir ...?

- Ha? Þið vitið að ég er að sækja um djobbið, hafið boðað mig í viðtal en við ekki hvað ég heiti.

- Tja ... þetta er nú bara formsins vegna.

- Allt í læ ... Ég heiti Gylfi Magnússon.

- Þökk fyrir. Já, hér er umsóknin, neðst í bunkanum. Þú ert prófessor í Háskóla Íslands með reynslu sem ráðherra ...

- Frá mínu sjónarhorni séð er þetta ekki neinn bunki, bara þrjá umsóknir og ég sé héðan hvað hinir heita jafnvel þó allt sé á hvolfi.

- Við hérna í Seðlabankanum erum nú ekkert að fela hlutina, viljum helst starfa fyrir opnum tjöldum..

- Getur það verið? Enginn veit hvers vegna Már Guðmundsson réðst á Samherja, enginn veit hvers vegna vaxtastiginu hefur verið haldið hærra en í nágrannalöndunum, enginn veit hvers vegna ekki er ketófæði í mötuneytinu, enginn veit hvers vegna gúmmíbátur er í bílageymslunni og enginn veit hvers vegna stelpan í móttökunni er með hærri laun en aðalhagfærðingurinn.

- Sko, verið er að gera skýrslu um hvert og eitt af þessu sem þú nefnir og eru líkur til að þær klárist á næstunni en þær verða ekki birtar opinberlega, eru aðeins til innanhúsneyslu. En erindið við þig er ekki að tala um árás Más á Samherja, vaxtastigið, ketófæði, gúmmíbátinn, hálaunuðu stelpuna í móttökunni og fleira dularfullt og yfirnáttúrulegt í Seðlabankanum heldur kanna hvort þú sért fær um að vera Seðlabankastjóri.

- Ég er það.

- Þú segir það. Okkar er að ákveða það.

- Þú segir það ...

- Hvað áttu við?

- Sosum ekkert annað en að ég hef talað við Kötu.

- Við höfum líka talað við hana. Oft. Oftar en þú, skal ég segja þér.

- Þá skilurðu stöðuna, e´þaki?

- Víkjum nú að öðru. Segðu okkur hérna í nefndinni hverjir eru styrkleikar þínir?

- Því er auðsvarað. Ég var ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms og þar var Kata líka.

- Já, það er rétt, þú sast í vinstri stjórninni?

- Nei, ég sat í ríkisstjórn hinna vinnandi stétta sem sló skjaldborg um heimilin í landinu, bjargaði þeim frá hruninu sem Davíð Oddsson, Hannes Hólmsteinn, Björn Bjarnason og fleiri skíthælar úr Sjálfstæðisflokkum ollu með því að einkavinavæða bankanna og stela Símapeningunum.

- Þú veist að Iðnaðarbankinn var ekki einkavæddur?

- Víst var hann einkavæddur.

- Þú veist að Verslunarbankinn og sparisjóðirnir voru ekki einkavæddir?

- Auðvitað voru þeir einvinavæddir annars væri ábyrgð Davíðs og hirðsveina hans ekki svo ýkja mikil.

- Látum þetta gott heita enda er Seðlabankinn ekki í stjórnmálum. En hverjir eru veikleikar þínir?

- Ég hef fáa veikleika, kaupi af góðmennsku minni einni saman happdrættismiða fjölmargra félagasamtaka, hef samt aldrei fengið vinning. Skrýtið. Stundum brosi ég til fátækra, svona til að sýna þeim hluttekningu. Auðvitað á maður ekki að gera svoleiðis, það gæti misskilist vegna þess að ég brosi ekki oft. En hvað á ég að gera, ég er svo góður maður. Versla oft í Bónus og tala við krakkana á kössunum, jafnvel á útlensku. Helló, há mutsj is þis æskrím ... 

- Hvernig stjórnandi ertu, Gylfi?

- Ég er elskaður og dáður af flestum sem ekki þekkja mig. Hef aldrei verið kærður fyrir einelti eða þaðan af verra. Er almennt góður við börn og málleysingja. Ekkert upp á mig að klaga.

- Þú segir flestum. Eru einhverjir sem ekki kunna að meta þig?

- Þeir eru afar fáir. Bara helv... hann Davíð Oddsson, Hannes Hólmsteinn, Björn Bjarnason og nokkrir aðrir sem bera ábyrgð á hruninu sem varð 2008.

- Þú veist að kreppan árið 2008 var líka í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar. Það var ekki bara hér sem bankar féllu.

- Nei, þetta eru bara sögusagnir. Engar beinharðar sannanir fyrir því, bara tvær þrjár bíómyndir. Hrunið var íhaldinu að kenna. Punktur.

- Af hverju langar þig til að verða Seðlabankastjóri?

- Kata stakk upp á þessu. Hélt fyrst að hún væri að djóka, en ég er svona eins og gæinn sem fékk laun fyrir að vera borgarstjóri, mikið gefinn fyrir vel launuðu en létt inndjobb.

- Fengir þú starf seðlabankastjóra, hvað myndir þú gera fyrsta daginn?

- Því er auðsvarað. Ég mæti snemma í vinnu, svona um klukkan tíu. Færi þá beint í kaffi. Segi svo upp ritara Seðlabankastjóra enda mun hann leka öllu frá mér til Más og Davíðs. Síðan myndi ég taka niður málverkið af Davíð og setja það niður í peningabrennsluna. Þá er komið hádegi og tími fyrir ketó fæði. Eftir hádegi myndi ég beintengja krónuna við Evru og svo myndi ég breyta um nafn á vístölum. Neysluvísitala myndi til dæmis framvegis heita neyslureynslunotkunarviðminunarnordiskstatistisktölur. Um að gera að feta sig ekki í fortíðinni, vera djarfur og róttækur í breytingum.

- Þá komum við að málinu sem fæstir geta rætt um. Hverjar eru launakröfur þínar?

- Sko, ekki minna en Már hefur í dag. Annars geturðu bara gleymt mér. Ég væri nokkuð sáttur með 6.000.000.000 krónur á mánuði. Og auðvitað held ég áfram að styrkja bágstadda með því að láta Seðlabankann kaupa happdrættismiða.

- Já, þetta er nú orðið gott. Held að við höfum fengið nokkra skýra mynd af því hver þú ert, hvernig þú hugsar og hvað þú ætlar að gera.

- Þýðir þetta að ég fái djobbið sem hún Kata lofaði mér.

- Um það vil ég nú ekkert segja á þessari stundu. Við eigum eftir að taka tvo aðra í viðtal en það er nú bara formsins vegna. Við munum auðvitað mæla með ráðningu þinni eins og Kata krafðist að við gerðum. Hún tekur svo ákvörðun um ráðninguna.

- Gott því ég sagði upp hjá Háskólanum fyrir þremur mánuðum. Bömmer ef ég fengi ekki þetta djobb.


Stjórnarandstaða bíður eftir seppuku ríkisstjórnarinnar

Svo virðist sem furðuleg pattstaða sé komin upp á Alþingi. Hún er í stuttu máli þessi: Miðflokkurinn vill ræða orkupakka þrjú og helst rökræða við stjórnarliða um hann en enginn nennir því lengur.

Samfylkingin, Viðreisn og Píratar eru fylgjandi pakkanum sækjast ekkert eftir því að hann verði samþykkur. Þeir bíða bara eftir stór málinu, að ríkisstjórnarflokkarnir klippi á málþóf Miðflokksins. Þá myndi gefast prýðilegt tækifæri til að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að leyfa ekki lýðræðislegar umræður.

Ríkisstjórnarflokkarnir vilja samþykkja orkupakkann en þeir geta ekki klippt á málþófið vegna þess að þeir vilja ekki gefa stjórnarandstöðunni tækifæri til að kalla þá ólýðræðislega og annað þaðan af verra.

Hvernig á þá að taka á málinu?

Það er ekki hægt. Þetta er eins og á taflborði þegar allir leikir eru slæmir, hafa í för með sér tap. Á meðan líður tíminn.

Eini þingmaður stjórnarandstöðunnar sem hefur gagnrýnt málþóf Miðflokkinn er Inga Sæland úr Flokki fólksins, og það gerði hún með hávaða og látum, en er þó eins og þeir Miðflokksmenn á móti pakkanum. Inga kom reynslulaus inn í stjórnmálin en hefur tekið ótrúlegum framförum sem þó hafa kostað mikið, svita og tár en varla blóð.

Um daginn sendi stjórnarandstaða skilaboð til hennar og bað hana um að vera ekki að tjá sig um málþófið því beðið væri eftir „seppuku“ ríkisstjórnarinnar, það er að hún neyti meirihluta síns og stöðvi málþófið. Þetta skilur Inga og veður nú ekki upp á dekk nema til að gagnrýna hæstvirtan forseta Alþingis um allt annað.

Smám saman missir almenningur áhuga á orkupakkanum. Sólin skín í heiði og allt er gott. Heyskapur er að hafinn og sauðfé og túrhestar arka á fjall.

Eftir sitja þingmenn Miðflokksins og endurtaka ræður sínar og enginn nennir að rökræða við þá. Þetta er svona eins og að ætla sér að fara á kvennafar á tómu öldurhúsi.

 

Í Wikipediu segir:

Seppuku eða harakiri er virðuleg sjálfsmorðsaðferð sem samúræjar notuðu við viss skilyrði, henni mætti líkja við helgisið. Hún felst í því að kviðrista sjálfan sig fyrir framan vitni, jafnvel er annar samúræji honum til aðstoðar sem afhöfðar hann örskotsstundu eftir að hann hefur kviðrist sig. Í Japan er siður fyrir því að menn skrifi örstutt ljóð (haiku) fyrir dauðan, margir samúræjar skrifuðu slíkt áður en þeir tóku líf sitt.


Tímapunktur, handlagning voru og einöngruð börn

Orðlof og annað

Lesendabréf

JESÚS KR. JÓSEPSSON

Krossfitt

Ókei. Sá næsti sem segir eitthvað hnyttið um krossfitt við mig í dag þarf að hafa ansi mikið fyrir himnaríkisvistinni.

Baggalútur.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Fyr­ir þrjá­tíu árum síðan vaknaði kín­versk alþýða …

Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Fyrir þrjátíu árum eða fyrir þrjátíu árum síðan. Hver er munurinn á þessu tvennu?

Á malid.is segir:

Það er talið betra mál að segja fyrir stuttu, fyrir ári, fyrir þremur dögum o.s.frv. en „fyrir stuttu síðan“, „fyrir ári síðan“, „fyrir þremur dögum síðan“. Orðið síðan er óþarft í slíku samhengi.

Á dönsku er iðulega sagt:

Det er lang tid siden!

Þetta þýðir ekki að við getum notað atviksorðið síðan í svipaðri stöðu og Danir gera með „siden“. Engu að síður gegnir atviksorðið síðan mikilvægu hlutverki í íslensku máli. 

  • Langt er síðan ég hitti hann.
  • Ekki er lengra síðan en í gær.
  • Enn lengra en síðan síðast.

Síðar í fréttinni er þetta haft eftir utanríkisráðherra Bandaríkjanna:

„Við hyll­um hetj­ur kín­versks al­menn­ings sem stóðu upp af hug­rekki á Tian­an­men-torgi fyr­ir 30 árum og …“

Stóðu upp af hugrekki“. Slæmt. Athygli vekur að þarna er ekkert „síðan“. Skrýtið hversu samhengið í frásögninni er tilviljanakennt.

Tómas Guðmundsson orti:

Svo var það fyrir átta árum
að ég kvaddi þig með tárum.
Daginn sem þú sigldir héðan.
Harmahljóð úr hafsins bárum 
hjarta mínu fylgdi á meðan. 

Ekki hefði flögrað að Tómasi að skrifa að atburðurinn hefði gerst fyrir átta árum „síðan“. 

Tillaga: Fyr­ir þrjá­tíu árum vaknaði kín­versk alþýða …

2.

Hann seg­ir að hjá AIK sé hon­um sýnd þol­in­mæði sem sé mik­il­vægt á þess­um tíma­punkti.

Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Tímapunktur er oftast ónauðsynlegt orð í íslensku. Við höfum orð eins og atviksorðin eða núna. 

Eiginlega er þessi málsgrein bölvað hnoð sem og fréttin öll. Það kom í ljós þegar ég reyndi að böggla saman tillögu. Væri ég ritstjóri hefði ég beðið blaðamanninn um að endurskrifa fréttina, leggja meiri alúð í hana. En fyrir alla muni sleppa orðinu „tímapunktur“. Vitagagnslaus fjandi.

Tillaga: Núna fær hann þá loksins þá þolinmæði sem hann þarf.

3.

Núverandi stjórnvöld hafa skorið upp herör gegn glæpum og er handlagning þess varnings sem boðinn verður þarna upp ein birtingarmynd þess.

Frétt á blaðsíðu 4 í bílalbaði Fréttablaðsins 4.6.2019.          

Athugasemd: Þarna hló ég upphátt, ekki af meinfýsni, heldur fannst mér orðanotkunin einfaldlega hlægilega kjánaleg.

Blaðamaðurinn hefur greinilega ruglast. Hann þekkir úr löggumálinu nafnorðið haldlagning, veit að löggan haldleggur til dæmis þýfi, það er leggur hald á það, tekur það. 

Svo veit hann að presturinn leggur hendur yfir fermingarbarnið og blessar það. 

Þar að auki veit hann að handleggur nefnist sá hluti líkamans sem er áfastur öxlunum. 

Loks gæti hann hafi horft á atriði í bíómynd þar sem vondi kallinn leggur hendur á þann góða, ólíkt prestinum lemur sá vondi hinn. 

Er þá nema furða að blessað barnið ruglist í ríminu og viti ekki hvernig á að orða það þegar yfirvöld hirða hluti af bófum.

Annars þessi frétt ekki vel skrifuð.

Tillaga: Þjálfari félagsins er þolinmóður sem núna er mikilvægt.

4.

Ríkharður III. með VIII.

Frétt á blaðsíðu 63 í Morgunblaðinu 6. júní 2019.          

Athugasemd: Þetta er góð fyrirsögn, afburða góð. Stundum fylgja rómverskar tölur nöfnum kónga, drottninga og jafnvel páfa. Núorðið eru arabískar tölur látnar nægja.

Enski kóngurinn Ríkharður sem kenndur var við Klaustur (Gloucester) drap bræður sína og bræðrasyni og tókst að verða Englandskonungur og var sá þriðji í röðinni sem bar nafnið.

Í fréttinni segir blaðamaðurinn frá Grímuverðlaununum og að leikverkið Ríkharður III. Hafi fengið átta tilnefningar, skrifar VIII skrifað upp á rómverska mátann. Stórskemmtileg hugmynd.

En … svo er það hitt. Eftir fyrstu greinaskilin stendur:

60 verk voru skráð af leikhúsum og sviðslistahópum í Grímuna í ár …

Hvergi á byggðu bóli tíðkast að byrja setningu á tölustöfum, hvorki rómverskum né arabískum. Þetta eiga allir blaðamenn að vita og forðast. Svona sést varla hjá vönduðum erlendum fjölmiðlum en hér á landi les enginn yfir og handvömm, þekkingarleysi eða kæruleysi blaðamanna fá að menga fréttir, lesendum til armæðu. Einfalt og auðvelt er að hafa þetta rétt, sjá tillöguna.

Tillaga: Sextíu verk voru skráð af leikhúsum og sviðslistahópum í Grímuna í ár …

5.

Fimm börnum haldið einöngruðum frá umheiminum árum saman.

Fyrirsögn á dv.is.          

Athugasemd: Lýsingarorðið einangraður fellbeygist svona í fleirtölu, frumstigi, sterk beyging: 

einangraðir, einangraða, einangruðum, einangraðra

Hvergi verður til ´ö´ í beygingum orðsins.

Tillaga: Fimm börnum haldið árum saman einangruðum frá umheiminum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband