Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sýna frammistöðu, virkja neyðarstig og enn eru hlaup hlaupin

Orðlof og annað

Fallbeygingin

„[U]m helmingur allra skordýrategunda fer hnignandi.“ Ekki er það rétt. Þ.e.a.s.: náttúrufræðina vefengjum við ekki, en málvenja ræður því hvernig frá er sagt.

Um helmingi ... fer hnignandi. Mér, þér, ykkur, okkur, skordýrum, tegundum, siðferðinu eða veröldinni, eftir atvikum, fer hnignandi.

Málið á blaðsíðu 43 í Morgunblaðinu 13.7.2019.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Náms­­lán hjá Fram­tíðinni heyra for­­tíðinni til.“

Fyrirsögn á visir.is.    

Athugasemd: Mjög góð fyrirsögn. Leikur með orð. Fyrirtæki sem heitir Framtíðin er hætt að bjóða upp á námslán. Skemmtilega grípandi fyrirsögn.

Fréttinni fylgir mynd af Valgerði sem er í meginmáli fréttarinnar sögð heita Vala. Bæði orðin eru kvennöfn. Hið síðara getur þó verið stytting af hinu. Þetta getur valdið ruglingi. Betra að halda sig við annað hvort. Á vefsíðu fyrirtækisins er konan sögð heita Valgerður.

Í fréttinni er sagt að Framtíðin leggi áherslu á húsnæðislán og brúarlán. Engin skýring er gefin á því síðarnefnda. Gera má ráð fyrir að fyrirtækið láni til brúarsmíða og þá einkum Vegagerðinni. 

Sagt er að húsnæðislán séu „náttúrlega lán með veði …“ Óvíst er hvað „ónáttúruleg lán“ eru, giska á að það séu öll önnur lán en veðlán. Þó held ég að þetta „náttúrulega“ sé uppfyllingarorð, hikorð. Þeim hefði blaðamaðurinn hiklaust átt að sleppa. Orðið „náttúrulega“ hefur ekkert gildi í samhenginu.

Oftast tala viðmælendur blaðamanns í belg og biðu. Verkefnið er þá að koma orðunum í eðlilegt samhengi, ekki skrifa tafs og rugl sem veltur úr þeim.

Dæmi um talmál er þegar viðmælandinn segir

Við erum búin að bæta við nýjum …

Eðlilegra er að skrifa „Við höfum bætt við nýjum …“

Tillaga: Engin tillaga

2.

„Hverfult jökullón í Kverkfjöllum horfið aftur.“

Fyrirsögn á visir.is.    

Athugasemd: Hvað þýðir lýsingarorðið hverfull? Jú, samkvæmt orðabókinni merkir það brigðull eða fallvaltur. Það merkir varla þann sem á það til að hverfa.

Orðið er einkum notað um mannfólk. Því er dálítið erfitt að tala um hverfult lón um leið og sagt er að ónefndur maður er hverfull, ekki alltaf á hann að treysta, hann getur brugðist enda brigðull.

Þó er oft sagt um snjóalög í fjallshlíðum að þau geti verið svikul, láti undan, skríði, þegar minnst varir. Jafnvel snjóbrýr geta svikið, látið undan, brostið. Af hverju er þá ekki hægt að segja að jökullónið sé hverfult?

Í fréttinni er rætt um svokallað Galtárlón í Efri-Hveradal í Kverfjöllum. Ég kannast ekki við nafnið, hlýtur að vera nýlegt. Að minnsta kosti skilaði leit á netinu fyrir árið 2000 engum árangri. Fyrsta sinn sem nafnið birtist er í skýrslu Rannsóknarsjóð Vegagerðarinnar árið 2009.

Tómas Guðbjartsson, læknir og ferðamaður, sendi mér línu á Facebook og sagði: 

Nú skortir mig upplýsingar. En nafnið er á ýmsum kortum af svæðinu, og hefur verið notað af jarðfræðingum og ferðafólki það best ég veit.

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, sendir mér líka línu á Fb og segir:

Man þetta ekki vel og er erlendis og ekki heimildir við hendina en kollurinn austan við lónið var nefndur Göltur og lónið eftir honum. Þetta nafn er allavega komið í skýrslur Helga Helgi Torfasonar o.fl. um jarðhitann í Kverkfjöllum um síðustu aldamót.

Af orðum Magnúsar Tuma er líklegra að lónið heiti Galtarlón og samsinnti hann því. Ánægjulegt að geta leitað til vanra ferðamanna um svona álitamál.

Austan við Galtarlón, í sömu hæð, er annað lón sem oft hefur verið nefnt Gengissig og er á korti skráð í 1611 m hæð yfir sjávarmáli. Minnir að nafnið komi frá Ómari Ragnarssyni sem var einhvern tímann þarna þegar gengi krónunnar rokkaði upp og niður og vatnsborðið hagaði sér á sama hátt.

Tillaga: Engin tillaga

3.

„Þar hafði par verið að hjóla er þau duttu bæði af hjól­um sín­um og kenndi kon­an eymsla í öxl eft­ir fallið. “

Frétt á mbl.is.    

Athugasemd: Par dettur, það datt af hjólunum. Parið duttu ekki. Par er eintöluorð og sögnin að detta fylgir því og er þarna í framsöguhætti, eintölu í þátíð.

Sé hins vegar vikið að þeim sem voru á hjólunum horfir þetta öðru vísi við. Strákurinn og stelpan, karlinn og konan, duttu af hjólunum.

Síðar í fréttinni segir:

… en þeir voru grunaðir um þjófnað eða hnupl.

Flestir hafa muninn á þjófnaði og hnupli á tilfinningunni

Á malid.is segir:

þjófur k. sá sem stelur, hnuplari, hvinn …

Og:

Af þjófur er leidd so. þjófa ´stela, þjófkenna´, lo. þjófóttur og þjófskur, sbr. fær. tjóvskur, og no. þjófnaður k. …

Samkvæmt sömu orðabók er hnupl smáþjófnaður.

Áhugavert er að rifja upp hvinn en margir kannast við nafnorðið sem leitt er af því, hvinnskur.

Á malid.is er þessi skemmtilegi fróðleikur:

hvinn h. (k.) ´hnuplari, þjófur; †óþokki, svíðingur, nirfill´; hvinn h. † ´þjófnaður, hnupl´; hvinnir k. ´hnuplari, þjófur; úlfsheiti´; hvinnskur l. ´ófrómur, þjófgefinn´; hvinnska kv. ´hnupl, stelvísi´; hvinnska s. ´hnupla, stela´.

Þessi orð eru við það að hverfa, fáir nota þau. Einna helst má sjá þau í gömlum bókum. Í æsku minni var stundum sagt að einhver væri hvinnskur og fékk maður það á tilfinninguna að það væri ekki eins slæmt og vera þjófóttur sem hugsanlega er rétt.

Tillaga: Engin tillaga

4.

„Ég kem inn í strætóinn minn frekar snemma á leiðinni, þannig að yfirleitt eru nokkur auð sæti við hliðina á auðum sætum og venjulega sest ég þar.“

Pistill á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 14.7.2019.    

Athugasemd: Já, mikilvægt er að setjast í autt sæti, annað gengur varla upp. Sjá hér á eftir.

Ég þurfti að lesa pistilinn tvisvar. Skil ekki enn ofangreinda tilvitnun. Held að höfundurinn hefði mátt sleppa henni og jafnvel fleiru.

Stíllinn er skrýtinn, slakur. Höfundur ritar pistilinn sinn í fyrstu persónu eintölu enda er hann að lýsa upplifun sinni. Skyndilega fer hann að blanda mér í umræðuna eða lesandanum, skrifar í annarri persónu eintölu:

Þó er eitt sem ég á erfitt með; sætisvalið. Ef þú ætlar að aka í vinnuna getur þú aðeins valið eitt sæti – bílstjórasætið.

Slæmt. Höfundurinn áttar sig ekki á nástöðu:

Ég er bjartsýnismanneskja. Þótt möguleikinn á að plássfrek manneskja …

Höfundur fullyrðir að allir séu manneskjur sem er út af fyrir sig í lagi en er dálítið einhæft.

Svo er það þessi ágæta regla að setjast aðeins í autt sæti. Hún minnir á söguna um unga manninn sem sá meira en við hin, gat séð látið fólk var ófreskur, skyggn. Að því kom að kærastan bauð honum heim til að hitta fjölskyldu hennar. Honum var vel tekið og vísað til stofu en heimilisfólk var eitthvað að bauka í eldhúsinu. Í stofunni sá hann sér til skelfingar að setið var í hverju sæti og hann var vissi hreinlega ekki hverjir væru þessa heims eða annars. Hann ákvað því að nota útilokunaraðferðina, hún hafði áður gefist vel. Innst inni horni sat kona sem virtist fornari en aðrir og hann gekk rakleiðis þangað og settist í fangið á ömmu sem var sprelllifandi og í þokkabót alein í stofunni. Verra gat það nú ekki verið.

Tillaga: Engin tillaga

5.

„Hann sýndi flotta frammistöðu.“

Hádegisfréttir í Ríkisútvarpinu, íþróttir, 13.1.2019.    

Athugasemd: Nei, þetta er ekki gott. Hvernig er hægt að sýna frammistöðu. Sá sem skrifaði fréttina hefur ábyggilega ætlað að segja að íþróttamaðurinn hafi staðið sig vel. Sé svo, er furðulegt að grípa til hjáorða í stað þess að tala hreint og beint.

Samkvæmt orðabókinni snýst orðið frammistaða um getu eða árangur, hvernig einhver stendur sig. Sé árangurinn góður er sagt eftir á að frammistaðan hafi verið góð.

Tillaga: Hann stóð sig vel.

6.

„Neyðarstig virkjað á Keflavíkurflugvelli.“

Fyrirsögn á visir.is og mbl.is.

Athugasemd: Ég get ómögulega skilið hvernig hægt er að virkja neyðarstig. Veit ekki einu sinni hvað neyðarstig er. Orðið er samt svo kunnugleg tugga að enginn gerir athugasemdir lengur. Við eigum að vita hvað tuggan þýðir (þetta er svona eins og með nýju föt keisarans, allir sjá að þau eru ekki til, „feik“ svo maður slái nú um sig á útlensku).

Í fréttinni á Vísi stendur þetta:

Varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja segir í samtali við fréttastofu að óvissustig hafi verið virkjað á flugvellinum sem fljótlega hafi verið breytt í neyðarstig vegna þess hversu alvarleg tilkynningin var.

Þarna fór í verra. Óvissustig er að mínu mati afar gegnsætt orð og merkir að koma af stað óvissu, getur varla þýtt annað. Ólíklegt er þó að varðstjórinn hafi átt við það.

Í sannleika sagt er ómögulegt að átta sig á því í hverju „stigin“ byggjast. Aldrei nokkurn tímann hafa þau verið skilgreind enda eflaust leyndarmál. Eftir óhóflega fréttaneyslu í nokkuð mörg ár get ég ímyndað mér að þau séu þessi, stigvaxandi og svo hnígandi:

    1. Stig
    2. Óvissustig
    3. Vissustig
    4. Óneyðarstig
    5. Neyðarstig
    6. Alneyðarstig
    7. Hamfarastig
    8. Vonleysisstig
    9. Afturköllunarstig
    10. Rólegheitastig

Í gamla daga voru engin stig nema þegar löggan og brunaliðið steig upp í bíla sína. Já, og stigin í glímunni ... „Sigtryggur vann“.

Hins vegar er neyðaráætlun kunnuglegt og gegnsætt orð og miklu betra en ofangreind stig. Hún þarf alls ekki að vera stiglaust.

Allir vita að hægt er að virkja ár, gufu, vind og jafnvel sjávarföll til rafmangsframleiðslu. Sagnorðið merkir samkvæmt orðabókinni að beisla afl eða orku. Eðlilegt er að það geti líka merkt að örva til vinnu eða aðgerða (samanber enska orðið „to activate“ svo maður sletti nú aðeins úr hégómleikanum).

Stig getur meðal annars merkt áfangi, kafli, þrep eða álíka. Í neyðaráætlun geta verið nokkur stig eða kaflar eftir því hversu alvarleg tilvikin eru, samanber áðurnefnd tíu stig.

Varla er þó hægt að virkja stig svona eitt og sér. Stigsmunur er á áætlunum vegna bilunar í flugvél sem kemur inn til lendingar og flugvél sem þegar hefur brotlent.

Og svo þetta (eins og fréttamenn í sjónvarpinu segja svo næsta frétt komi ekki algjörlega á óvart): Blaða- og fréttamönnum ber engin skylda til að apa orðfæri upp eftir einhverjum „skrifbésanum“ sem áttar sig ekki hvorki á máli né stíl. Fjölmiðlar eiga að birta fréttir á skýru máli, ekki stofnanamállýsku. Næst þegar sagt er að „neyðarstig“ eða óvissustig“ hefi verið virkjuð er þörf á að spyrja um stig, og telja þau („Islande un point“).

Tillaga: Neyðaráætlun virkjuð á Keflavíkurflugvelli vegna flugvélar með bilaðan lendingarbúnað.

7.

„Hann hljóp þá einn heilt 400 metra hlaup …“

Frétt á ruv.is.

Athugasemd: Húrra, hann hljóp hlaup. Það heyrir líklega til stórtíðinda. Ríkisútvarpið er með málfarsráðunaut í fullu starfi en samt er svona borið á borð fyrir neytendur.

Ekki vantar fjölbreytnina. Síðar í fréttinni er „hlaupið“ sagt vera hringur og fer betur á því. Lakara er þetta:

Það má því vel vera að Jones hafi átt sitt besta hlaup á ferlinum en fær ekkert upp úr krafsinu.

Betra er að segja … hafði ekkert upp úr krafsinu. Er ekki ljóst að maðurinn hljóp á sig? Þar með er ekki sagt að hann hafi rekist á sig sjálfan. Má vera að hann hafi verið að „elta drauma sína“. En eins og fleiri „stóð maðurinn með sjálfum sér“. Svona má nú leira með íslenskt mál.

Tillaga: Hann hljóp þá einn allan 400 metra hringinn …


Aðkoma, elta draum, alvarleiki og samtal við hátalara

Orðlof og annað

Opinskjalda

Bréfritari gagnrýnir, sem margur annar, einhæfni í orðavali manna, fátæklegt mál, þar sem hver étur eftir öðrum ("tuggur"). 

Dæmi: "út í hróahött" (= rugl og vitleysa), "vísa á bug" (= telja ósatt), "og þessi sífellda opinskjalda, þegar allir koma öllum í opna skjöldu (= koma að óvörum). Það er eins og vanti tilfinnanlega orðaforða". 

[Innskot umsjónarmanns: Eitthvert sinn var kveðið:

Úti í Firði í fjósinu köldu
átti Finnur að mjólka með Öldu,
en hann gerði ekki gagn,
var með gaspur og ragn
og gekk bara fram fyrir Skjöldu.]

Íslenskt mál, 784 þáttur, umsjónarmaður Gísli Jónsson, Morgunblaðið 18.2.1995.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Loka aðkomu að Sauðleysuvatni vegna slæms ástands vegar.

Fyrirsögn á visir.is.    

Athugasemd: Af hverju þarf að tala um „aðkomu“? Vegurinn eða slóðinn liggur að Sauðleysuvatni. Hann er illfær og honum hefur því verið lokað. Enn er hægt að ganga að vatninu og því hefur „aðkomunni“ ekki að öllu leyti verið lokað.

Orðalagið í fyrirsögninni er dæmi um hjáorðatilhneigingu í fjölmiðlum. Er eitthvað erfitt að skrifa hreint og beint í stað þess að skrifa hringinn í kringum staðreyndir?

Tillaga: Vegurinn að Sauðleysuvatni er slæmur og hefur verið lokað. 

2.

Hann ákvað að elta draum sem kviknaði fyr­ir all­mörg­um árum og ferðast nú um­hverf­is Ísland á traktor, með hús­vagn í eft­ir­dragi.

Fyrirsögn á mbl.is.     

Athugasemd: Er ekki betra að láta drauma sína rætast? Sá sem eltir drauma sína er alltaf á eftir, nær þeim aldrei. Raunar er þetta enskt orðalag, „follow your dreams“. 

Spyrja má hvort draumar kvikni eða verði til á annan hátt? Efast um að draumurinn frá því síðustu nótt hafi kviknað. Mig dreymdi hins vegar ...

Oft er vonlaust að þýða beint úr ensku yfir á íslensku. Mörg dæmi eru um hraklegar þýðingar. Fólk sem hefur alist upp við bóklestur hefur öðlast orðaforða sem nýtist vel í blaðamennsku. Hinir gera meinlegar villur eins og þessa.

Tillaga: Í nokkur ár hefur hann átt sér draum sem nú hefur ræst. Hann ferðast nú um­hverf­is Ísland á traktor, með hús­vagn í eft­ir­dragi.

3.

Þá minntist hann á alvarleika þess að aldrei hefðu fleiri blaðamenn verið drepnir en í fyrra.

Frétt á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 12.7.2019.    

Athugasemd: Þetta er ágætt dæmi um nafnorðavæðingu tungumálsins. Málsgreinin er hnoð. Enginn talar um „alvarleika einhvers“. Mörgum þykir samt margt vera alvarlegt.

Blaðamenn eru myrtir í tugatali. Lesendur átta sig á því og jafnvel þó að „alvarleikinn“ sé ekki nefndur. Hann liggur þó í loftinu.

Tillaga: Hann nefndi að aldrei hefðu fleiri blaðamenn verið drepnir en í fyrra.

4.

Munu notendur með hátalara frá Amazon geta spurt um einkenni og fengið greiningu.

Seinni forystugreinin í Morgunblaðinu 12.7.2019.    

Athugasemd: Hvers konar hátalarar eru þetta? Líklega einhver konar galdrahátalarar.

Hátalari er tæki sem varpar hljóði í þeim styrk sem notandinn vill. Annað gerir hann ekki. Gagnslaust er að standa fyrir framan hátalara og spyrja rétt eins og hann væri hljóðnemi.

Er til of mikils mælst að ritstjóri Moggans haldi áfram að skrifa forystugreinar en úthýsi verkefninu ekki til leigubílstjóra á BSR (með fullri virðingu fyrir honum).

Tillaga: Engin tillaga.

5.

Ekki liggur fyrir hvar börnin smituðust af sýkingunni.

Frétt kl. 16 á Bylgjunni 11.7.2019.   

Athugasemd: Meðan ég fæ ekki betri skýringu finnst mér ljóst að sýking verður til vegna einhvers konar smits en ekki öfugt.

Talað er um meðgöngutíma sýkingar, það er tíminn frá smiti og þar til sjúkdómseinkenna verður vart. Stundum er hann skammur, oft langur.

Á Vísindavefnum segir:

Kvef er hvimleiður en tiltölulega meinlaus veirusjúkdómur. Vitað er um meira en tvö hundruð veirur sem valda kvefi. Veirurnar berast á milli manna með úðasmiti, það er að segja við hósta eða hnerra.

Einnig geta veirurnar borist með snertismiti ef þær berast á hendur og þaðan í augu eða nef. […]

Einstaklingur getur borið smit frá því daginn áður en einkennin koma fram og í 1-3 daga til viðbótar. Að meðaltali gengur sjúkdómurinn yfir á 7-10 dögum.

Á vef Landlæknisembættisins er listi yfir smitsjúkdóma í stafrófsröð.

Á þessum vef Háskóla Íslands eru fróðlegar upplýsingar um sýkingar:

Til eru yfir 2000 mismunandi salmonellur og nokkur hundruð þeirra geta valdið sýkingum í mönnum. Salmonellur eru bakteríur sem finnast mjög víða í náttúrunni og hafa þær verið mjög vaxandi vandamál á undanförnum árum og áratugum. Þessar bakteríur valda ýmsum sjúkdómum í mönnum og eru þeir þekktustu nefndir taugaveiki, taugaveikibróðir og músataugaveiki.

Lang algengasta salmonellusýking er sýking í meltingarfærum sem stafar af því að matvæli voru menguð með salmonellum og maturinn ekki eldaður nægjanlega til að drepa bakteríurnar. Þetta hefur verið hratt vaxandi vandamál og nú er svo komið að í sumum nálægum löndum eru nær allir kjúklingar salmonellumengaðir.

Sjúklingurinn veikist 8-48 klst. eftir að hafa neitt mengaðrar fæðu, með sótthita, ógleði og uppköstum, samdráttarverkjum í kvið og niðurgangi sem getur verið blóðugur. Þessi veikindi standa lengur en venjuleg matareitrun, eða í 3-5 daga. Allan þann tíma og stundum lengur eru salmonellur í saur sjúklingsins. Sjaldnast er þörf á nokkurri meðferð og yfirleitt eru engin eftirköst eða fylgikvillar. 

Ung börn og sjúklingar með aðra sjúkdóma geta þó orðið alvarlega veikir og þá er hægt að meðhöndla með sýklalyfjum. Einstaka sinnum fá sjúklingarnir sýkingar í bein eða liði.

Smit og sýkingar eru alvarlegt mál og ástæða til að fjölmiðlar segi skilmerkilega frá og blaðamenn leiti upplýsinga í stað þess að treysta algjörlega á þekkingu sína.

Tillaga: Engin tillaga.

 


Barn no. 2, rusl ryður sér til rúms og kasta handklæði

Orðlof og annað

Orðaforðinn

„Ef orðaforðinn minnkar þá fækkar tilfinningunum sem þú getur lýst, atburðunum sem þú getur greint frá og hlutunum sem þú getur bent á. Ekki aðeins verður skilningurinn takmarkaðri heldur einnig reynsluheimurinn.

Tungumálið eflir manninn. Í hvert sinn sem hann tapar skilningi, tapar hann hluta af sjálfum sér.“

Sheri S. Tepper, Pest af Angels - fengi af vefnum kennari.is

Hugsunin er góð en betur fer á því að segja:

Minnki orðaforðinn fækkar tilfinningunum sem þú getur lýst ...

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Eins og DV greindi frá í gærmorgun hefur Ásgeir Bachman viðurkennt með yfirlýsingu að þjófnaður hafi átt sér stað í verslun Bauhaus.

Frétt á dv.is.   

Athugasemd: Hjáorðavæðing fjölmiðla er mikil. Blaðamanni dettur ekki í hug að skrifa að stolið hafi verið úr versluninni.

Tillaga: Eins og DV greindi frá í gærmorgun hefur Ásgeir Bachman lýst því yfir að stolið hafi verið úr verslun Bauhaus.

2.

Hann fékk standandi lófaklapp frá öllum salnum og dómurunum.

Frétt á dv.is.   

Athugasemd: „Standandi lófatak“ er ekki til. Á ensku er talað um „standing applause“ sem merkir að áhorfendur rísa úr sætum sínum og klappa einhverjum lof í lófa.

Ein mesta hætta sem stafar að íslensku eru blaðamenn sem kunna ensku en eru slakir í íslensku. Afleiðingin er setning eins og hér að ofan.

Tillaga: Áhorfendur og dómarar risu á fætur og klöppuðu fyrir honum.

3.

Fann­ar og Vala eiga von á barni no. 2.

Fyrirsögn á mbl.is.    

Athugasemd: Svona er ekki hægt að segja á íslensku. „No“ er ensk skammstöfun fyrir „number“, númer. Íslenska skammstöfunin er „nr.“. Má vera að í talmáli megi segja að haugsugan hafi losað farm nr. 2 eða vörubíllinn hafi komið með skítahlass nr. 2. Hvort tveggja er þó ferlega vitlaust því auðveldast er að segja og skrifa „í annað skipti“.

Stílleysi margra blaða- og fréttmanna er hræðilegt. Engin með fullu viti segir barn vera no. 2. Svona rugl er á borð við að segja að fólk éti, fólk drepist, börnum sé gotið eða kastað.

Tillaga: Fannar og Vala eiga von á öðru barni.

4.

62 ára karlmaður hefur verið dæmdur í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi.

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Um nær allan heim forðast blaða- og fréttamenn að byrja setningu á tölustöfum. Slíkt á ekki við. Tölustafir og bókstafir hafa gjörólíka merkingu. Þar af leiðandi getur texti ekki byrjað á tölustaf, það getur valdið ruglingi og er í þokkabót afar ljótt.

Einnig er skrýtið að orða það þannig að „maðurinn hafi verið dæmdur“ þegar ljóst er að hann var dæmdur.

Tillaga: Karlmaður var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi í einn mánuð.

5.

„Rusl hefur rutt sér til rúms í Rómarborg.“

Frétt kl. 22 á ríkissjónvarpinu 10.7.2019.

Athugasemd: Þetta er út í hött. Orðalagið er vel skýrt í bókinni Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson og þar er þetta meðal annars:

Ryðja sér til rúms: breiðast út hljóta almenna viðurkenningu; láta til sín taka.

Rusl „ryður sér ekki til rúms“. Sá sem svona skrifar skilur hvorki orðtakið né uppruna þess.

Tillaga: Rusl hefur safnast fyrir á götum Rómarborgar.

6.

Tala torfhúsa ekki þekkt.“

Millifyrirsögn á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 11.7.2019

Athugasemd: Hvers vegna notar blaðamaðurinn ekki nafnorðið fjöldi? Séu torfhús talin kemur í ljós hversu mörg þau eru. Séu húsin tíu er það talan.

Hann segir í fréttinni:

Við þekkjum ekki tölu þeirra og vitum ekki nákvæmlega hvar þau eru eða hvernig væri hægt að nýta þau …

Hér er hringsólað framhjá því sem mestu máli skiptir, það er að segja frá á einfaldan hátt. Fjöldinn er aðalatriðið.

Tillaga: Fjöldi torfhúsa ekki þekktur.

7.

„Fyrir skömmu sendi heilbrigðiseftirlitið sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, sem fer með forræði á svæðinu, bréf þar sem farið var fram á að hafist yrði þegar í stað handa við hreinsun á svæðinu.“

Frétt á blaðsíðu 24 í Morgunblaðinu 11.7.2019

Athugasemd: Nástaða er hvimleið, sérstaklega fyrir lesendur. Í málsgreininni kemur orðið svæði fyrir þrisvar sinnum. Varla er hægt að amast við nafni embættisins. Hin skiptin eru viðbót. Blaðamaðurinn á að kunna að skrifa sig framhjá svona vitleysu.

Vafasamt er að segja Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu „fari með forræði á svæðinu“. Á vefnum syslumenn.is segir:

Sýslumenn fara með framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, hver í sínu umdæmi, eftir því sem lög og reglugerðir eða önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um.

Í orðabókinni segir um forræði:

Umsjón, ábyrgð, ákvörðunarvald, stjórn, yfirráð, umráð, forysta, völd.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu fer ekki með forræði á einu eða neinu, hvorki á bökkum Elliðavatns né annars staðar. Störf embættisins eru á allt annan veg.

Tillaga: Fyrir skömmu sendi heilbrigðis- eftirlitið sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu bréf þar sem óskað var eftir leyfi til að hefja hreinsun.

8.

„Allt of hratt að mati Armstrong, sem taldi að farið myndi yfirskjóta lendingarstaðinn um nokkra kílómetra.“

Frétt á blaðsíðu 24 í Morgunblaðinu 11.7.2019

Athugasemd: Á ensku er hugtakið „to overshoot“ alþekkt, hvort heldur er í einu eða tveimur orðum. Það merkir að missa af lendingarstað, fljúga yfir hann. Á vefsíðu sem heitir Aviation segir:

To pass beyond the limit of the runway or landing field when trying to land.

Má vera að sambærilegt orð sé ekki til á íslensku en fráleitt finnst mér að búa til orðið „yfirskjóta“. Það bendir fyrst og fremst til byssuskots sem fer yfir markið, ekki þegar flugfar missir fyrir mistök af lendingarstaðnum.

Í þessu tilviki virtist Amstrong sem tunglfarið myndi ekki lenda á réttum stað heldur nokkrum kílómetrum frá honum. Málsgreinin segir það eitt að tunglfarið hafi virst fljúga yfir lendingarstaðinn í nokkurra kílómetra hæð. Það er þó ekki reyndin.

Laga þyrfti orðalag á fleiri stöðum í greininni sem þó er frekar vel skrifuð og upplýsandi. Til dæmis er orðalagið „þáverandi ótti“ skrýtið. Einnig að Appolló áætlunin hafi verið „skrínlögð“.

Tillaga: Allt of hratt að mati Armstrong, sem taldi að farið myndi lenda nokkrum kílómetrum frá lendingarstaðnum.

9.

„Kjos kast­ar hand­klæðinu.“

Fyrirsögn á mbl.is.

Athugasemd: Fréttin fjallar ekki um handklæði. Blaðamaðurinn brúkar enskt orðtak „Throw in the towel“. Hann telur sig vera að segja að náungi sem heitir Kjos sér hættur störfum, búinn að segja upp. 

Í Urban Dictionary segir:

This phrase comes from boxing. When a boxer is too beat up to continue, his coach throws a towel into the ring to signal that the fight is over.

Og:

To give up or surrender. Probably related in origin to throwing up the white flag, which also indicates surrender.

Þetta orðalag eða orðtak er ekki til á íslensku. Um það veit blaðamaðurinn ekki enda les enginn á Morgunblaðinu yfir það sem nýliðar skrifa og leiðbeinir. Nóg er samt af frábærum og vel skrifandi blaðamönnum sem hljóta að geta tekið verkefnið að sér. Hvernig eiga nýliðar að læra þegar enginn leiðbeinir? Hvaða lærdómur felst í því að birta gagnrýnislaust fyrsta uppkast?

Tillaga: Kjos hættir.

10.

„Framtak hinna snöllu ættingja okkar í Færeyjum skilaði því tilætluðum árangri …“

Frétt á dv.is.

Athugasemd: Með réttu má halda því fram að Færeyingar séu snjallir, svona almennt. Hins vegar eru þeir varla ættingjar Íslendinga þó einhverjir kunni að eiga ættingja þar.

Á hátíðlegum stundum er oft komist svo að orði að Norðurlandabúar séu frændur okkar. Fæstir trúa því bókstaflega nema hugsanlega blaðamaðurinn hjá DV sem tekur þetta svo alvarleg að hann heldur að hin meinta frændsemi þýði að Færeyingar séu ættingjar Íslendinga.

Stafsetningarvilla er í þriðja orð málsgreinarinnar. 

Tillaga: Framtak snjallra Færeyinga skilaði því tilætluðum árangri …


Bíll klessir, tímapunktur, ferðir farnar og deyja friðsamlega

Orðlof og annað

Flýja unnvörpum

Unnvörp (fleirtala) þýðir sjógangur eða þangdyngja sem sjór hefur varpað á land. Atviksorðið unnvörpum merkir í stórum stíl, í hrönnum.

Unnur er alda og í unnvörpum er „vísað til bylgna er falla þétt“ (Mergur málsins). „Íslendingar flýja unnvörpum í sólina.“ Ekki „umvörpum“. (Umvörp þýðir útjaðrar.)

Málið á blaðsíðu 21 í Morgunblaðinu 10.7.2019.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„„Bíllinn klessti ekki á neinn stóran stein og féll ekki fram af bjargi.““

Frétt á dv.is.   

Athugasemd: Barnalegt er að nota orðalagið „klessa á“ þegar verið er að lýsa því þegar bíll rekst á annan bíl, hús eða annað.

Eiður Guðnason sagði í Molum sínum:

Í fréttinni segir: „…en bíl­stjór­inn sem hann kom til bjarg­ar stal og klessti bíl hans, sem hann hafði lagt skammt frá.“ Sjálfsagt er þetta nú orðið viðtekið orðalag um að skemma eða beygla bíl. Og skömminni skárra en að tala um að klessa á, -sem stundum hefur verið kallað leikskólamál í þessum Molum.

Við þessi orð Eiðs heitins er eiginlega engu á bæta.

Ofangreind tilvitnun er þýðing blaðamannsins á þessum orðum:

Luckily, we were not hurt at all and our car did not hit any big rock or fell off a steep cliff off the valley.

Engin klessa þarna í enskunni. Þýðing blaðamannsins er frekar „lausleg“ svo ekki sé meira sagt. Athygli vekur þó að í íslensk textanum segir að bíllinn hafi rekist á stóran stein. En hvað er stór steinn? Um það geta verið áhöld, en orðalagið er leikskólamál.

Betur fer á því að tala um bjarg en stóran stein. Þá gengur samt ekki að segja að bíllinn hafi hvorki rekist á bjarg eða ekið fram af bjargi. Hvernig getur blaðamaðurinn bjargað sér frá þessu?

Tillaga: Hann rakst ekki á bjarg og féll ekki fram af klettum.

2.

„Þó barst mbl.is til eyrna frá á þeim tíma­punkti að viðræðurn­ar hefðu reynst flókn­ari en bú­ist var við …“

Frétt á dv.is.   

Athugasemd: „Tímapunktur“ er vandræðaorð, eiginlega þarflaust í íslensku. Orðið hjálpar ekki neitt, fyllir ekki upp í neina þörf og kemur ekki í stað annarra orða. Engu að síður nýtur það mikill vinsælda hjá ungum og óreyndum skrifurum, fólki sem hefur rýran orðaforða.

Hér þarf engra vitna við. Auðveldast er að bera saman ofangreinda tilvitnun við tillöguna hér að neðan.

Tillaga: Þó frétti mbl.is að síðan þá hafi viðræðurn­ar reynst flókn­ari en búist var við …

3.

„Kon­an sem býr í íbúðinni sem varð eldi að bráð …“

Frétt á dv.is.   

Athugasemd: Þetta orðalag er algengt í fjölmiðlum, oft notað hugsunarlaust, en fer ekki alls staðar vel. Má vera að það sé bara ég sem hnýt um það.

Bráð er nafnorð í kvenkyni og merkir samkvæmt orðabókinni dýr sem er veitt enda er villibráð er eftirsótt. Það breytir því ekki að jafnvel í yfirfærðri merkingu er orðalagið slakt. Íbúð er ekki bráð jafnvel þó eldur sé eins og rándýr og íbúðin bráð.

Svona hjáorðaæfingar eru algengar í fjölmiðlum, sérstaklega í íþróttum. Svo virðist sem margir forðist að orða hlutina eins og þeir eru. Gripið er til málshátta og orðtaka sem skrifarinn kannast við, skilur ekki alltaf til fullnustu eða áttar sig ekki á samhenginu.

Margir íslenskir fjölmiðlamenn eru ágætir í stíl og íslenskan er yfirleitt góð. Þeir hafa drjúgan orðaforða og ættu að vera fyrirmynd. Ættu þeir ekki að leiðbeina nýliðum?

Þegar ég var að byrja í blaðamennsku á Vísi í gamla daga las Elías Snæland Jónsson, ritstjórnarfulltrúi, yfir öll handrit sem bárust frá blaðamönnum. Ósjaldan þurftum við að lagfæra skrifin. Þá var maður óánægður en uppeldið var gott enda Elías málvís maður.

En nú er hún Snorrabúð stekkur og enginn Elías á fjölmiðlunum. Ekki einu sinni prófarkalesarar. Þeir eru úrelt stétt og því má skrifa hvað sem er og hvernig sem er.

Eldur kviknaði í íbúðinni, svo einfalt er það. Vissulega er ekki alrangt að segja að íbúðin hafi „orðið eldi að bráð“ en það á ekki við. Flokkast sem stílleysa.

Tillaga: Kon­an sem býr í íbúðinni sem kviknaði í …

4.

„Engar skipulagðar ferðir hafa verið farnar á Svínafellsjökul í sumar.“

Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 10.7.2019.

Athugasemd: Nú er svo komið að ferðir eru farnar, margir hlaupa langhlaup, ganga göngu, æfa æfingar, tala ræðu og svo framvegis.

Lesa blaðamenn ekki skrif sín áður en þau eru birt?

Frá því í mars hefur ekki verið farið í ferðir á Skaftárjökul en á vorin kemur undan jöklinum og hann verður ótryggur.

Hvað kemur undan jöklinum? Blaðamaðurinn býr til orð og lesandi skilur hvorki upp né niður. Þetta er skemmd frétt og fleira rökstyður það:

„Það eru merkingar þarna sem segja til um ástandið við jökulinn, en öll fyrirtækin fluttu ferðir sínar yfir á annaðhvort Falljökul eða Skaftafellsjökul. Það fór eftir gerð ferða …“

Hvað fór eftir gerð ferða? Hvernig fluttu fyrirtæki ferðir sínar? Ekki er nóg að taka upp orð viðmælandans og birta þau athugasemdalaust. Skylda blaðamannsins er eða koma með skýra frétt, veita upplýsingar. Í þessu tilfelli er lesandinn einfaldlega hissa á því sem hann les.

Tillaga: Engar skipulagðar ferðir hafa verið á Svínafellsjökul í sumar.

5.

Með samþykkt tillögu, sem gerir Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna að rannsaka fíkniefnastríð Filippseyjaforseta, munu allir sem að henni standa fá veglega bónusgreiðslu frá eiturlyfjahringjum.“

Frétt á visir.is.

Athugasemd: Nafnorðavæðingin lætur ekki að sér hæða. Hún er skilgetið afkvæmi enskunnar en á ekki við hér á landi. Margir blaða- og fréttamenn eru vel að sér í ensku en lakari í íslensku. Enskuskotin mengun er hættulegasti óvinur íslenskunnar.

Samþykkt er hér nafnorð í kvenkyni. Betur fer á því að segja: Verði ályktunin samþykkt

Með fréttinni er birtur texti á Twitter sem utanríkisráðherra Filippseyja ritar. Í honum er enska orðið „resolution“ notað. Í þessu tilviki er það ályktun. Annars væri „proposal“ eða eitthvað álíka.

Orð utanríkisráðherrans í Vísi eru ekki hin sömu og á Twitter, en þar segir hann:

If the Iceland resolution wins that means bonuses for everyone who worked for it—from the drug cartels.

Blaðamaðurinn skýtur þessu inn í orð ráðherrans:

… sem gerir Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna að rannsaka fíkniefnastríð Filippseyjaforseta …

Af hverji gerir blaðamaðurinn þetta? Í næstu málsgrein skrifar hann:

Þetta skrifar utanríkisráðherra landsins, Teodoro Locsin Jr., á Twitter-síðu sína í gærkvöld og vísar þar til tillögu Íslands um að gerð verði úttekt á stöðu mannréttindamála á Filippseyjum.

Blaðamaðurinn bætir við orð ráðherrans og endurtekur sömu viðbót örstuttu síðar.

Hvað kallast svona vinnubrögð? Ónákvæmir, hroðvirkni, fljótfærni …? Ég held að mörgum blaðamönnum liggi alltof mikið á og þeir lesi ekki yfir skrif sín fyrir birtingu. Öllum er þörf á gagnrýnum yfirlestri en sumir þurfa að láta aðra lesa skrif sín yfir.

Tillaga: Verði ályktunin samþykkt munu allir sem unnu að henni fá bónusa - frá eiturlyfjahringjum.

6.

“Samkvæmt heimildum Markaðarins samanstóð kaupendahópurinn af nærri tuttugu sjóðum og fjárfestum.“

Frétt á visir.is.

Athugasemd: Hvar voru þessir tuttugu sjóðir og fjárfestar? Jú, í kaupendahópnum. Þarf þá að ræða eitthvað frekar um sagnorðið samanstanda sem er í tilvitnuninni? Greinilegt er að það er óþarft.

Samkvæmt orðabókinni er orðið myndað af setja saman úr.

Þetta er dæmi um hjáorðavændi í fjölmiðlum sem þarf að forðast. Berum bara saman tilvitnunina og tillöguna.

Tillaga: Samkvæmt heimildum Markaðarins eru nærri tuttugu sjóðir og fjárfestar í kaupendahópnum.

7.

„Í tilkynningu frá fjölskyldu hans segir að hann hafi dáið friðsamlega með eiginkonu sína, Amy Wright, og tvær dætur við sína hlið.“

Frétt á dv.is   

Athugasemd: Það er nú gott að maðurinn hafi dáið friðsamlega en ekki með látum. Veit ekki hvort það sé sæmilegt að taka svona til orða en þetta datt mér í hug þegar ég las tilvísunina. 

Fréttin er vond, illa þýdd. Allt bendir til þess að blaðamaðurinn fái enga tilsögn á ritstjórninni.

Þá datt mér í hug hann Kolbeinn Sighvatsson og félagar hans sem biðu milli vonar og ótta í kirkjunni eftir Örlygsstaðabardaga. Þeir þurftu svo á kamarinn enda mátti þá ekki létta á sér þar inni og guldu þeir fyrir kamarferðina með lífi sínu. Varla hafa þeir fallið friðsamlega er Gissur Þorvaldsson lét höggva þá. Þannig hafa margir dáið í ófriði, jafnvel ófriðsamlega. 

Enska orðið „peacefully“ er vandþýtt. Á íslensku er sjaldgæft að nota orðið friðsamlega þegar sagt er að fólk skilji við. Stundum er sagt að fólk hafi dáið í en ekki fer heldur vel á því. Yfirleitt er svona lýsingu sleppt í íslenskum minningargreinum. Má vera að þess vegna er orðið „friðsamlega“ sé svo ókunnuglegt og andstæða þess frekar „truflandi“ okkur eftirlifendum.

Nokkur munur er að hafa einhvern „við sína hlið“ eða hjá sér. Á enskunni gæti blaðamaðurinn verið að þýða orðalagið „by his side“ og farist það frekar óhönduglega.

Leikarinn var virkur bæði á skjá og sviði í rúm sextíu ár.

Óvenjulegt er að segja leikara virkan á skjá. Hér áður fyrr kom fyrir að skjáir frysu sem kallað er, mynd stoppaði og henni var ekki þokað nema tölvan væri ræst upp á nýtt. Mætti segja mér að þegar slíkt gerist væri leikari frekar óvirkur á skjánum.

Betur fer á því að segja að leikarinn hafi starfað í kvikmyndum, sjónvarpi og á sviði í rúm sextíu ár.

Tillaga: Í tilkynningu frá fjölskyldu hans segir að hann hafi andast í faðmi fjölskyldunnar.

 

 


Lát á ferðamönnum, sitjandi forseti og hamingjuóskir til þín

Orðlof og annað

Að heilsast og kveðjast

Fyrir mörgum árum þurfti ég á föstudegi að eiga viðskipti við fyrirtæki eitt allumsvifamikið í Reykjavík. Allt fór það vel fram og ég fékk vöruna afgreidda af rosknum manni sem sá vel fyrir þörfum mínum, gjörkunnugum vörunni sem hann seldi mér (sem var algengt í þá gömlu góðu daga áður en afgreiðslustörf urðu íhlaupavinna, gjarna unglinga). Þegar ég hafði fengið vöruna þakkaði ég fyrir mig eins og mér hafði verið kennt: „Kærar þakkir“.

Maðurinn svaraði mér strax með hefðbundnu svari, „takk sömuleiðis“, en bætti svo við „og eigðu góða helgi“.

Þetta varð til þess að ég settist niður með manninum og við ræddum þessi nýtilkomnu kveðju- og þakkarorð. Ég lýsti þeirri skoðun minni að þau væru sérlega illa til fundin, auk þess innflutt og fylltu ekkert autt skarð í tungumálinu. Maðurinn var mér hjartanlega sammála; kvaðst vera gamall sveitamaður og kannaðist ekki við slíkt orðfæri. Hann greindi mér hins vegar frá því að á vegum fyrirtækisins hefði verið haldið námskeið fyrir starfsmenn þar sem kennt var viðmót við kúnna. Þar hefði „einhver helv... fígúra“ fullyrt að „eigðu góða helgi“ eða „hafðu góða helgi“ væri lykilatriði til að viðskiptavinurinn skildi að hann væri einhvers virði. Sjálfur kvaðst maðurinn finna fyrir óbragði í hvert sinn sem þessi orð hrytu honum af munni. Hann var greinilega feginn að finna í mér bandamann og var léttur á brún er við kvöddumst. Hann óskaði mér ekki góðrar helgar sem þó bjargaðist vel. […]

Að lokum skal getið þess sem verulega áberandi er, þagnarinnar. Þakkarorðum er ekki svarað. Viðskipta„vinurinn“ er ekki til. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra í nokkru fyrirtæki. Um daginn þakkaði ég kærlega fyrir mig í kaffihúsi einu um leið og ég greiddi fyrir vöruna. Svarið sem ég fékk var þetta: „Sigga, SIGGA, þetta á að fara á borð númer fimm.“

Menningarblað/Lesbók Morgunblaðsins, 7.8.2011, Þórður Helgason.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Hann segir greiðsluna koma sér vel til þess að standa strauma af lögmannskostnaði …“

Frétt á visir.is.   

Athugasemd: Straumur er upphaflega rennsli vatns. Orðið á sér náskylda ættingja í mörgum tugumálum. Í orðsifjabókinni á malid.is segir frá orðum eins og streymur (færeyska, straum (nýnorska), ström (danska), stream (enska) og fleirum.

Karlkynsnafnorðið straumur er til í eintölu og fleirtölu, en í fréttinni er rangt farið með töluna. Rétt er það í svona og því í eintölu:

Standa straum af …

Í þeirri merku bók Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson segir svo:

Mæta kostnaði, kosta eitthvað […] 2. Sjá fyrir einhverjum; hjálpa einhverjum; verja einhvern […]

Elsta mynd orðatiltækisins er frá síðari hluta 18. aldar; standa straum af einhverjum, sjá einhverjum farborða.

Svo eru til ýmis afbrigði af  orðtakinu til dæmis standa straum af skoðunum sínum og jafnvel standa straum af báti sínum.

Fyrir utan þessa villu er fréttin vel skrifuð, einföld og góð aflestrar.

Tillaga: Hann segir greiðsluna koma sér vel til þess að standa straum af lögmannskostnaði …

2.

Undrast að sjá sovéska hertrukka og Antonov flugvél í Vík í Mýrdal.“

Frétt á visir.is.   

Athugasemd: Í orðabókinni segir að lýsingarorðið hissa merki að vera undrandi, forviða. Og hún segir að undra sé sagnorð sem merkir að vera forviða, hissa. Svo er til sögnin að undrast.

Munurinn á hissa, undra og forviða getur verið nokkur, veltur á samhenginu. Þau geta ekki gengið í hvers annars stað án þess að ekkert sé:

  1. Við undrumst framkomu hans við ferðafólk.
  2. Við undrumst um ferðafólkið.
  3. Við erum hissa á framkomu hans við ferðafólk.
  4. Við erum forviða á framkomu hans við ferðafólk.

Má vera að sigvaxandi munur sé á þessum þremur fullyrðingum, 1, 3 og 4. Tvær þær síðustu þurfa hjálparsögnina að vera til að ganga upp. Hins vegar er önnur fullyrðingin allt annars eðlis, þar höfum við áhyggjur af ferðafólkinu, veltum fyrir okkur hvar það sé.

Ætterni sagnarinnar að undra og undrast er merkileg. Það er náskylt þýsku sögninni wunder og enska orðinu wonder svo dæmi séu tekin.

Af þessu leiðir að það er alls ekki rangt að nota sögnina að undrast í tilvitnaðri setningu. Mér finnst þó hissa fari betur jafnvel forviða.

Tillaga: Hissa að sjá sovéska hertrukka og Antonov flugvél í Vík í Mýrdal.

2.

„Það var toppslagur í Kaplakrika þar sem FH vann Þrótt R. 2:1 …“

Frétt á blaðsíðu 40 í Morgunblaðinu 6.7.2019.   

Athugasemd: Ekki er fallegt að byrja setningu með aukafrumlaginu „það“. Orðið kalla margir lepp, því það er stundum notað til að fela óskýra hugsun. Oft er erfitt að sleppa þannig byrjun en þá verður skrifarinn að endurhugsa setninguna sem honum er hollt enda eru endurskrif alltaf til bóta.

Flestir vita að liðið sem fyrr er nefnt í boltaleikjum á heimaleik. Heimaleikir FH í fótbolta eru alltaf í Kaplakrika. Þar af leiðir að í málsgreininni hér fyrir ofan eru óþarfar upplýsingar. Fréttin er stutt en  gæti verið betur orðuð.

Tillaga: FH vann Þrótt R. 2:1 í toppslag 1. deildar kvenna …

3.

„Ekkert lát virðist vera á þeim ferðamönnum sem fara í gegnum Vík.“

Frétt kl. 12 á Bylgjunni 7.7.2019.

Athugasemd: Fréttamaðurinn hefur án efa ætlað að segja að ekkert lát sé á ferðum ferðamanna.

Samkvæmt malid.is er lát nafnorð í hvorugkyni og merki dauði, andlát:

Hann tók við versluninni eftir lát föður síns.
Það er ekkert lát á storminum.

Dæmin skilja allir. Þar af leiðandi ættu allir að átta sig á því að ofangreind tilvitnun er ekki rétt. Hér hefur fréttamaðurinn verið of fljótur á sér en hann hlýtur að skilja að lát á einhverju merki hér hlé eða stopp.

Tillaga: Ekkert lát virðist vera á ferðum ferðamanna um Vík.

4.

„Hátíðarhöldin sem fóru fram um helgina fóru víðast vel fram.“

Frétt kl. 15 á Bylgjunni 7.7.2019.

Athugasemd: Þetta er óboðlegt. Engu líkar er en að fréttamenn lesi ekki yfir það sem þeir skrifa. Verra er að þeir átta sig ekki á dellunni. Þetta er kölluð nástaða og er ferlega stíllaus. 

Enginn sæmilegur skrifari vill varða uppvís að svona byrjendamistökum. Skemmdar fréttir bitna á neytendum. Í flestum atvinnugreinum eru skemmdir á vöru alvarlegt mál.

Tillaga: Hátíðarhöldin helgina fóru víðast vel fram.

5.

„… mælist Joe Biden, fremsta forsetaframbjóðendaefni Demókrataflokksins, með fjórtán prósent hærri stuðning í könnuninni en sitjandi forseti ef gengið yrði til forsetakosninga núna.“

Frétt á visir.is. 

Athugasemd: Ungum og óreyndum blaðamönnum finnst óskaplega gaman að  skrifa enska íslensku af því að kanar segja „sitting president“ þá verður að apa þetta eftir og tala um „sitjandi forseta“. Þetta er tómt bull því aðeins einn forseti er í Bandaríkjunum. Hverjir skyldu nú vera forsetar sem ekki eru „sitjandi“. Ekki fyrrverandi forsetar. 

Furðulegast er þó að hvergi í heimildinni, abcnews.com er talað um „sitting president“.

Skoðanakannanir um fylgi stjórnmálamanna eða stjórnmálaflokka er ekki kosning, það vita allir. Flestir gera sér grein fyrir að skoðanakönnun mælir fylgið á einum tíma og hefur ekkert forspárgildi þó draga megi ályktanir af niðurstöðunni. Þar af leiðir að orðalagið „ef gengið yrði til forsetakosninga núna“ er óþarfa taglhnýting við málsgreinina.

Tillaga: … mælist Joe Biden, fremsta forsetaframbjóðendaefni Demókrataflokksins, með fjórtán prósent hærri stuðning í könnuninni en forsetinn.

6.

„Samkvæmt nýrri skýrslu Landsnets er hætta á því að á einhverjum tímapunkti árið 2022 verði framboð af raforku á Íslandi ekki nægilegt til að svara eftirspurn.“

Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 8. júlí 2019.

Athugasemd: „Tímapunktur“ er gagnslaust orð, bætir engu við frásögn né gerir hana nákvæmari eða skýrari. „Point of time“ er sagt á ensku máli.

Finni skrifarar til missis og tómleikatilfinningar vegna þess að orðið „tímapunktur“ vanti má rita eins og gert var hér áður fyrr „einhvern tímann á árinu 2022“.

Tillaga: Samkvæmt nýrri skýrslu Landsnets er hætta á því að á árinu 2022 verði framboð af raforku á Íslandi ekki nægilegt til að svara eftirspurn.

7.

„Innilegar hamingjuóskir til þín.“

Algeng kveðja á Facebook.

Athugasemd: Í afmæli, fermingu, útskriftarveislu, giftingu eða álíka fagnaði tökum við í höndina á gestgjafanum og segjum: Til hamingju með prófið, áfangann eða hvað svo sem verið er að halda upp á.

Enginn tekur í höndina á öðum og segir: Til hamingju til þín með afmælið. (Hér má skjóta því inn í að segja má hönd og hendi: taka í höndina og taka í hendina).

Hamingjuósk er venjulega beint til ákveðins einstaklings. Algjör óþarfi er að bæta „til þín“ inn í hana. Hún verður ekkert skýrari eða hnitmiðaðri, bara kjánaleg.

Í afmælisboðum er oft sungið „Hann á afmæli í dag …“. Á ensku er sungið við sama lag: „Happy birthday to you …“. Þar er „to you“ en „til þín“ er ekki í íslenska textanum. Ástæðurnar geta verið margar en sú sem þyngst vegur er ábyggilega sú að þannig tölum við ekki á íslensku.

Við segjum:

Til hamingju með afmælið.

Enginn segir: „Til hamingju með afmælið til þín.“

Ég óska þér til hamingju.

Enginn ætti að segja: „Ég óska þér til hamingju til þín.“

Sæll.

Enginn segir „sæll til þín“ og er þó sæll ágæt kveðja. 

En hvað er þá hamingja? Á malid.is segir:

Hamingja kv. ´gæfa, heill, gifta; †verndarvættur, heilladís´; < *ham-(g)engja, af hamur og so. ganga, eiginl. ´vættur sem tekur á sig ham eða gervi, fylgja´; hugsanl. merkir hamur hér ´fósturhimna, fylgja´, […] heillavætti (í fósturhimnu) sem fylgir e-m frá fæðingu; sbr. einnig nno. uhemje kv. ‘óhamingja’.

Eitthvað óviðeigandi er að segja til hamingju til þín, engu skárra en þegar afgreiðslufólk í verslunum segir eigðu góðan dag (e. have a good day).

Tillaga: Innilegar hamingjuóskir.

 


Aðilar út um allt, marktilraun í varnarmann og hávaðasamur hani

Orðlof og annað

Grafgötur

Orðið grafgötur er fleirtöluorð og merkir ´djúpar, niðurgrafnar götur, niðurgrafnir stígar´. Það er notað í orðasamböndunum fara ekki í grafgötur um eitthvað eða ganga ekki í grafgötur um eitthvað sem merkja annars vegar að ´velkjast ekki í vafa um eitthvað´ og hins vegar að ´leyna einhverju ekki, láta afstöðu sína skýrt í ljós´.

Þau þekkjast þegar á 18. öld samkvæmt Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans. Jón G. Friðjónsson telur líkinguna sótta til þess að vegfarendur sjást varla ef þeir fara um niðurgrafna stíga, þeir fara leynt (Mergur málsins 2006:266).

Hann vísar í Íslenskt orðtakasafn Halldórs Halldórssonar frá 1991 (177) sem taldi að með orðasambandinu væri átt við leit í djúpum stígum, grafgötum. Bein merking væri því að ´leggja ekki í erfiða leit´. 

Vísindavefurinn, Guðrún Kvaran, prófessor.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Pizzakeðja skipti kjöti út með grænmeti án þess að láta vita af því.

Fyrirsögn á dv.is.     

Athugasemd: Pitsusalinn breytti um, hætti að bjóða upp á kjöt á pitsur en setti í staðinn „kjöt“ sem framleitt er úr grænmeti.

Allir sjá að þetta orðalag gengur ekki:

Skipta kjöti út með grænmeti.

Sé vilji fyrir því að nota orðalagið skipta út er eðlilegra að í stað með komi fyrir, hvort tveggja forsetningar.

Rétturinn gæti verið kallaður umskiptingur en það er annað mál.

Tillaga: Pitsukeðja skipti út kjöti fyrir grænmeti.

2.

„Bjarni töframaður hefur misst 20 kg á þremur mánuðum.

Fyrirsögn á dv.is.     

Athugasemd: Ég man eftir þeim tíma að fólk léttist. Núorðið missir það þyngd. Svo er oft sagt að fólk grennist um svo og svo mörg kg.

Enn er þó talað um að fólk þyngist, ekkert hjáorðavændi  í slíkum tilvikum. 

Tillaga: Pitzukeðja hætt með kjöt og setti í staðinn „grænmetiskjöt“.

3.

Aðilarn­ir sem hjóluðu utan slóðar á Græna­hryggi í Sveins­gili á friðlandi að Fjalla­baki hafa beðist af­sök­un­ar á at­ferl­inu.

Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Aldrei hef ég hitt aðila og þarf af leiðandi heilsað slíkum . Veit ekki einu sinni hvort aðili hafi handleggi eða útlit eins og menn, ég á við konur og karla, eða fólk.

Nú þarf að breyta ýmsum málsháttum og orðtökum:

  • Blindur er bóklaus aðili.
  • Öl er annar aðili.
  • Ertu aðili eða mús?
  • Vera aðili með aðilum.
  • Sýna sinn innri aðila.
  • Þetta er óðs aðila æði.
  • Sýna aðiladóm.

Og svo þarf að breyta mörgum orðum. Leikaðilar í boltaíþróttum, ökuaðilar undir stýri, lögaðili (þetta getur valdir vanda), sýsluaðili, Félag blaða- og fréttaaðila og svo framvegis.

Tillaga: Þeir sem hjóluðu á Græna­hryggi í Sveins­gili á friðlandi að Fjalla­baki hafa beðist af­sök­un­ar á at­ferl­inu.

4.

„Patrick Pedersen átti marktilraun í varnarmann.

Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Fótboltalýsingar eru stundum skondnar, sérstaklega þessar þegar blaðamaður skrifar niður það markverðasta í leiknum og skrifin birtast jafnóðum á vef fjölmiðilsins. Má vera að stundum sé fljótaskrift á þessum fréttum því brýnt er að hafa hraðar hendur. Líklegra er þó að einhver tegund af blindu þjái þann sem skrifar.

Hvað sem öllum vangaveltum líður skilst ekki ofangreind tilvitnun. Samt er ég mikill áhugamaður um fótbolta. Þessi skilst ekki heldur enda sama skrautið:

Ólafur Karl Finsen átti marktilraun í varnarmann.

Og þegar þarna var komið sögu var fyrri hálfleik lokið og mér öllum.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„Höfða mál vegna hávaðasams hana.

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Af hverju „hávaðasamur“ en ekki hávær? Hið síðara er styttra og einfaldara? Engu að síður notar blaðamaðurinn lýsingarorðið hávær annars staðar í fréttinni.

Sama frétt var á mbl.is og þar notað orðið hávaðasamur.

Tillaga: Höfða mál vegna háværs hana.

 


Hundar greinast með iPhone og kyrkislöngur kyrkja til bana

Orðlof og annað

Ein lög, tvenn lög

Rétt eins og lög: „formleg fyrirmæli löggjafans“ (ÍO), er fjárlög: „löggjöf um tekjur og gjöld ríkis á tilteknu tímabili“, aðeins til í fleirtölu. Því er sagt: ein, tvenn, þrenn og fern fjárlög - og ekki »bæði þessi fjárlög« um tvenn fjárlög heldur hvor tveggja þessara fjárlaga.

Málið á blaðsíðu 21 í Morgunblaðinu 3. júlí 2019.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Ismaili var stödd í fríi við Como-vatnið á Ítal­íu þar sem Gylfi Þór Sig­urðsson og Al­ex­andra Helga Ívars­dótt­ir gengu meðal ann­ars í það heil­aga á dög­un­um.

Frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Þetta er dálítið misvísandi málsgrein vegna orðanna „meðal annars“. Er átt við að hin nýgiftu hafi gengið eitthvað meira en í hjónaband eða er átt við að við vatnið, þar sé ýmislegt annað hægt að gera en að ganga í hjónaband? 

Að ganga í það heilaga merkir að gifta sig. Af hverju er það ekki sagt berum orðum í fréttinni? Það færi miklu betur á því.

Hér er verið að gera giftingu nær jafnhátt undir höfði og hvarf ungrar konu. Como vatnið er afar stórt og langt, 146 ferkm, nærri tvöfalt stærra en Þingvallavatn. Við vatnið er afar þéttbýlt. Ómögulegt að gera Como vatnið að einum stað, strendur þess eru gríðarlega langar.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Gríðarlegt haglél kom íbúum mexíkósku borgarinnar Guadalajara verulega í opna skjöldu í gær.

Frétt á visir.is.      

Athugasemd: Mikilvægt er að höfundur frétta skilji orðtök sem hann notar. Á malid.is segir:

Orðasambandið koma einhverjum í opna skjöldu merkir: koma einhverjum að óvörum og er frekar neikvæðrar en jákvæðrar merkingar.

Við þetta má bæta að jafn ólíklegt er að koma einhverjum verulega í opna skjöldu sem og lítilsháttar í opna skjöldu. Hér gildir annað hvort eða ...

Oftast er skárra að tala hreint út en að nota orðtök sem kunna að misskiljast eða blaðamaðurinn skilur ekki til fullnustu. Viðbótin með atviksorðinu „verulega“ hjálpar lesandanum ekkert í þessu samhengi, frekar að hún rugli.

Tillaga: Gríðarlegt haglél kom íbúum mexíkósku borgarinnar Guadalajara á óvart í gær.

3.

„Hund­ar grein­ast með iP­ho­ne.

Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Vont er greinist hundur með kvef, verra er hundinum að greinast með krabbamein en margir velta fyrir sér hvort iPhone sé sárt fyrir hunda. 

Þetta óskýr fyrirsögn jafnvel þó sumir skilji hugsanlega samhengið. Samkvæmt orðabókinni merkir sögnin greina að finna út, ákvarða eða skilgreina. Sjúkdómur er greindur í mannfólki og dýrum, það er fundið út er hvert meinið sé.

Aftur á mót er líklegra að iPhone síminn geti borið kennsl á hunda, en um það skal ekki fullyrt hér né heldur um þörfina á slíku. Fréttin skilst ekki alveg.

Tillaga: iPhone ber kennsl á hunda.

4.

„Kyrkislöngur eru ekki eitraðar en þær geta vafið sér utan um bráð sína og kyrkt til bana áður en þær gleypa hana í heilu lagi.

Frétt á visir.is.        

Athugasemd: Mikið væri nú gott að sá sem skrifa vondan texta geti fundið til sömu óþæginda og þeir sem glepjast til að lesa hann.

Hvað merkir sögnin kyrkja? Samkvæmt orðabókinni er átt við að drepa einhvern með því að taka um hálsinn og þrengja að. Ofaukið er að segja að  einhver sé kyrktur til bana. Það er eins og að drepa mann til dauðs.

Í upphafi fréttarinnar segir:

Kyrkislanga af tegundinni malayopython reticulatus gengur, eða öllu heldur skríður, nú laus um stræti Cambridge í Bretlandi.

Orðalagið að ganga laus er þekkt. Ómerkilegt er segja að slanga skríði laus. Misindismenn geta gengið lausir, dýr eru annað hvort laus eða ekki. Léleg fyndi þarna og gengur ekki upp. Kommusetningin í málsgreininni að auki röng. Betra er að orða þetta svona:

Kyrkislanga af tegundinni malayopython reticulatus er týnd í borginni Cambridge í Bretlandi.

Lengst af í þessari stuttu frétt er talað um kyrkislöngu. Í lokin er kyrkislangan orðin að snáki og fyrir vikið fer samhengið úr skorðum. Vera kann að kyrkislöngur teljist til snáka:

Kyrkislöngur eru ekki eitraðar en þær geta vafið sér utan um bráð sína og kyrkt til bana áður en þær gleypa hana í heilu lagi. Snákum eins og þeim sem hér á í hlut líður best í skógarumhverfi nálægt ám og stöðuvötnum. Þær eiga auðvelt með sund og því ekki ólíklegt að snákurinn leiti á svæði þar sem aðstæður til þess er að finna. 

Þær hverjar, kyrkislöngur en ekki snákar? Síðasta málsgreinin þarna er skrýtin: „þar sem aðstæður til þess er að finna.“ Hvar synda slöngur? Líklega í vatni. Fleira má gagnrýna í fréttinni. Og fyrir vikið flokkast hún sem skemmd.

Tillaga: Kyrkislöngur eru ekki eitraðar en þær geta vafið sér utan um bráð sína og kyrkt og svo gleypa þær hana í heilu lagi.

5.

„Þekking og áhugi almennings á víni er sífellt meiri að sögn …

Frétt á blaðsíðu 6 í viðskiptablaði Morgunblaðsins 3.7.2019.       

Athugasemd: Líklega á viðmælandinn við að þekking og áhugi almennings á víni hafi vaxið. Hér má eflaust sleppa orðinu almenningur án þess að skilningur lesandans á ummælunum skerðist.

Orðalagið í tilvitnuninni er óeðlilegt og stirt. Varla taka margir svona til orða. Blaðamaðurinn hlýtur að geta gert betur.

Tillaga: Þekking og áhugi á víni hefur vaxið að sögn …

6.

„Silfurflotinn litinn augum úr lofti

Frétt á blaðsíðu 10 í viðskiptablaði Morgunblaðsins 3.7.2019.       

Athugasemd: Stundum reyna blaðamenn að skrifa upphafinn og skáldlegan texta. Hér er fátt skáldlegt en þeim mun meiri rembingur. Ástæðan er án efa þolmyndin.

Auðvitað er alþekkt að líta eitthvað augum. Piltar líta stúlkur hýrum augum. Margir líta eitthvað alvarlegum augum. Í biblíunni segir: Lát engan líta smáum augum á æsku þína en ver fyrirmynd trúaðra í orði og hegðun, í kærleika, trú og hreinlífi.

í fréttinni er vísað til kvæðis Matthíasar Jochumssonar, Hafísinn. Er það vel til fundið hjá blaðamanninum.

Flestir þekkja fyrstu línuna:

Ertu kominn, landsins forni fjandi?

Matthías kallar hafísinn silfurflota sem er verulega fallegt orð og allir skilja.

Færri þekkja síðasta erindið sem er eins og raunar allt kvæðið óskaplega fagurt:

Veikur maður, hræðstu eigi, hlýddu,
hreyk þér eigi, þoldu, stríddu.
Þú ert strá, en stórt er Drottins vald.
Hel og fár þér finnst á þínum vegi;
fávís maður, vittu, svo er eigi,
haltu fast í Herrans klæðafald!
Lát svo geisa lögmál fjörs og nauða,
lífið hvorki skilur þú né hel:
Trú þú: - upp úr djúpi dauða
Drottins rennur fagrahvel.

Tillaga: Silfurflotinn úr lofti.


Markmiðið er að trufla daglegt líf borgarbúa

Borgaryfirvöld með eiga það að þau eru sjálfri sér samkvæm í baráttunni gegn ferðum fólks á einkabílum. Allt er gert til að tefja og skemma fyrir fólki sem kýs að nota einkabílinn, fólki sem þarf að nota hann, þeim sem aka um borgina í erindum fyrirtækja og stofnana.

Stefna meirihluta borgarstjórnar er eiginlega ekkert annað en hryðjuverk gegn fólki. Meirihlutinn setur sig ekki bara skör hærra heldur mörgum þrepum fyrir ofan almenning sem á ekki að hafa hundsvit á umferðamálum.

Almenningur er svo vitlaus að hann kýs ekki að nota strætó, hann vill einkabílinn, og því skal honum refsað.

Markvisst er verið að leggja af útskot fyrir strætó, hann skal stoppa fyrir farþega á miðri akbraut og tefja fyrir öðrum bílum rétt eins og gerist í Borgartúni. Tilgangurinn: Tefja fyrir umferð.

Á gatnamótum Snorrabrautar og Sæbrautar hefur beygjuakrein til austurs verið aflögð sem og framvegis verður aðeins ein beygjuakrein til vesturs í stað tveggja. Hver er tilgangurinn með þessari vitleysu? Tilgangurinn: Tefja fyrir umferð.

Umferðaljós af Kalkofnsvegi inn á Tryggvagötu eru mun lengri en þörf er á. Svo er einnig um fjölmörg önnur umferðaljós í borginni. Tilgangurinn: Tefja fyrir umferð.

Ekkert er gert í að endurnýja umferðaljós og taka upp snjalltækni til að greiða fyrir umferð. Þess í stað er bílum enn haldið í bið á rauðu ljósi meðan grænt er á hliðargötu og enginn bíll sjáanlegur. Tilgangurinn: Tefja fyrir umferð.

Gangbrautir með umferðarljósum eru vandamál á Miklubraut og Hringbraut. Eftir að eini göngumaðurinn er löngu horfinn er enn rautt ljós á vaxandi bílaumferð. Ekki flögrar að borgaryfirvöldum að byggja göngubrýr eða undirgöng. Tilgangurinn: Tefja fyrir umferð.

Nei, ástandið er ómögulegt fyrir okkur göngufólk og ökumenn. Já, við erum hvort tveggja. Stundum göngum við um borgina, stundum ökum við. Borgin heldur að við séum annað hvort göngufólk eða bílafólk. Þvílík della. 

Markmiðið er að trufla daglegt líf borgarbúa í stað þess að byggja upp og greiða fyrir umferð, allri umferð.

Borgaryfirvöld sjá allt í svart og hvítu. Bílaumferð er slæm, gangandi umferð er góð, strætó er best. Samt er allt í kaldakoli hjá borginni nema hjá borgarstjóranum og hégómlegu fólki sem finnst gaman að vera í forsæti borgarstjórnar, stýra nefndum og láta bera á sér í fjölmiðlum. Frammistaðan er hins vegar verri en orð fá lýst. 

Takið eftir Viðreisn í borgarstjórn og Pírötum í vörn sinni fyrir Samfylkinguna og Vinstri græna. Þetta eru kerfisflokkar í borgarstjórn en á Alþingi þykjast þeir vera róttækir.

Óánægja almennings vex dag frá degi.


mbl.is Fjölfarin beygjurein aflögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskráð mótorkrosshjól tætast um i náttúrunni

MororkrossdekkFullyrða má að vélhjól séu orðnir miklir skaðvaldar í íslenskri náttúru, meiri en flestir halda. Margt bendir til að hópar manna á óskráðum vélhjólum, svokölluðum mótorkrosshjól, aki um heiðar og fjöll. Þeir fylgja annars vegar gömlum slóðum, troðningum, kindaslóðum eða fara beint af augum.

Mótorkrosshjól eru ætluð til æfinga og keppni á lokuðum brautum. Samkvæmt umferðalögum er  óheimilt að aka þeim utan brauta nema þau beri hvít skráningarnúmer.

Hjólin eru á afar grófmynstruðum dekkjum, sem grípa vel í allan jarðveg. Krafturinn er slíkur að þau geta þeytt sandi og grjóti langar leiðir.

Þeir sem iðka akstur á mótorkrosshjólum hafa aðstöðu við Bolöldu, austan Vífilsfells, skammt frá Litlu kaffistofunni. Þar hafa verið útbúnar æfinga- og keppnisbrautir. Þær duga þeim ekki.

Eftir því sem ökuþórum á mótorkrosshjólum eykst kjarkur fara þeir víðar. Um leið og einn hefur búið til slóð þora aðrir að koma á eftir og svo eykst umferðin. Nú þykir sjálfsagt að aka inn í Jósefsdal og spóla þar sem víðast. Á loftmyndum á auðveldlega greina slóðir upp á Þórishamar, um Draugahlíðar, milli Sauðdalahnúka, vestur fyrir Vífilsfell, suður með Bláfjöllum. Hjólaslóðir eru einnig frá Bolöldu út að Lyklafelli og vestan undir Hengli.0J2B8570

Um helgina gekk ég á Geitafell, sem er við Þrengslaveg. Þar mætti ég tveimur hópum á mótorkrosshjólum, samtals átta manns. Ekkert hjól á númerum.

Af hjólförunum má ráða að þeir hafi komið af vegaslóða sem liggur austan Meitilsfjalla. Leið þeirra lá þaðan yfir Þrengslaveg, og þá rakleiðis upp á Sandfell, niður hinum megin, og þaðan eftir gömlum veg og síðan norður  við Geitafell og áleiðis upp á Heiðina háu. Óljóst er hvert þeir fóru þaðan.

0J2B8613Engir vegir eða slóðar eru á þarna heldur er ekið eftir gömlum kindagötum meðfram sauðfjárveikigirðingu. Víst er að svona lið er ekki í klukkutíma ferðalagi. Þeir ferðast með bakpoka og í honum er ábyggilega gott nesti og drykkir.

Á sunnudaginn gekk ég aftur á Geitafell því ég hafði lent í þoku á fjallinu á laugardeginum. Ég lagði bílnum við Sandfell og er ég kom að honum að göngu lokinni drógu mig uppi tveir mótorkrossarar. Þeir komu frá Heiðinni háu, öndvert við hópanna deginum áður. Leið þeirra lá yfir Þrengslaveg og upp með Litla-Meitli. Skamm fyrir ofan, við Syðri Eldborg, er aragrúi gamalla slóða sem urðu til áður en landsmenn áttuðu sig á því að akstur utan vega væri í eðli sínu glæpur.

Nú er utanvegaakstur brot á umferðalögum. Einnig akstur óskráðra mótorhjóla utan afmarkaðra svæða. Engu að síður er ekið á þessum hjólum um Heiðmörk.

0J2B8618Iðulega sjást óskráð mótorkrosshjól aka á malarvegi meðfram Suðurlandsveginum og að Bolöldu. 

Myndir

Efsta myndin er af mótorkrossdekki. Grófmynstrað, hrikalegur skaðvaldur í náttúru landsins.

Önnur myndin er af knapa á hjóli sínu á örmjórri kindagötu við sauðfjárveikigirðingu.

Þriðja myndin er af fimm manna hóp á þeysireið eftir gömlum vegaslóða. Skammt frá endar hann og þá óku hópurinn eftir kindagöntum skamma hríð og svo upp á heiði.

0J2B8871Fjórða myndin sýnir hvernig ökuþórarnir sveigja frá veginum þar sem hann er illfær. Skiptir engu þó þá sé ekið á gróðri.

Fimmta myndin sýnir slóðina eftir vélhjólaliðið upp Sandfell.

Á sjöttu myndinni sjást mótorkrossknaparnir á sunnudeginum hverfa upp veginn undir Litla-Meitli.

Síðasta myndin fannst á vefnum og sýnir mann á mótorkrosshjóli sínu stilla sér hetjulega upp í útspóluðu moldarflagi í Jósefsdal. Seint gær þarna upp.

 

0J2B8867

 

 

 

 

 

 

 

Í jóseflsdal

 

 


Misjafnir hlutir, eiga frábært mót, umbúðir á hausnum og sitjandi Trump

Orðlof og annað

Skipta um hest í miðri á

[Merkir] breyta afstöðu sinni til einhvers eftir að það er hafið (án þess að ástæða sé til) […]

Orðatiltækið er kunnugt úr nútímamáli. Líkingin vísar til þess  þegar farið er ríðandi yfir vatnsfall en eftir að lagt er af stað er óskynsamlegt að skipta um reiðskjóta. [e. change hroses in midstream].

Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Liðin tólf sem leika í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max- deildinni, ætla sér misjafna hluti í lengsta sumarglugganum …

Frétt blaðsíðu 44 í Morgunblaðinu 29.1.2019.     

Athugasemd: Ekki er þetta gott orðalag. Ætla þau sér eitthvað misjafnt eða er stefna félaganna ólík? Félögin ætla sér ekki „misjafna hluti“, þetta er bara hnoð, illskiljanlegt í þokkabót. Ætlar Valur sér misjafnari hluti en Fylkir? Og hvaða hluti er verið að tala um, varla leikmenn?

Sé hugsun blaðamannsins sú að félögin hafi ólíka stefnu í leikmannakaupum þá ætti hann að segja það á einfaldan hátt. Upphafinn texti er oftast rembingur, slæmur og illskiljanlegur.

Svona er málsgreinin í heild sinni:

Liðin tólf sem leika í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max- deildinni, ætla sér misjafna hluti í lengsta sumarglugganum til þessa en þau eiga það þó öll sameiginlegt að ef eitthvað spennandi dettur inn á borð til þeirra, verði það skoðað af fullri alvöru.

Þetta er langloka, flókin og illskiljanleg. Hvað er til dæmis „sumargluggi“ og hvers vegna er hann langur? Í kirkjum þekkjast til dæmis langir gluggar. Er algengt að eitthvað „detti inn á borð“ fótboltafélaga? Hvaða borð? Falla leikmenn á borðið?

Staðreyndin er þessi, í júlí mega leikmenn skipta um félag, nái þeir og félögin samningi um slíkt. Þetta hefur verið kallaður „gluggi“, „félagaskiptagluggi“ og annað álíka. Ástæðan er sú að tímabil félagaskipta hefur hingað til verið frekar stutt. Látum vera að félagaskiptin séu kölluð „gluggi“ en það gengur ekki nema skýring fylgi. Veit ekki hvort til er „vetrargluggi“.

Sumir íþróttablaðamenn eru þekktir fyrir yfirburðaþekkingu á íþróttum en eru því miður lakari í skrifum og íslensku máli. 

Tillaga: Liðin í úrvalsdeild karla í fótbolta hafa ekki sömu stefnu um leikmannakaup í „sumarglugganum“ …

2.

Eftirtektarsamir nágrannar vöktu íbúa í brennandi húsi.

Fyrirsögn á visir.is.    

Athugasemd: Ekki er rangt að orða þetta svona. Hins vegar eru til fleiri orð sem nota má í staðinn fyrir langa, samsetta orðið eftirtektarsamur. Eitt af þeim er lýsingarorðið vökull en samkvæmt orðabókin merkir bókstaflega þann sem vakir lengi, þann sem er athugull eða áhugasamur.

Munum að notkun þessara orða veltur á samhenginu. Í þessu tilviki er líka hægt að nota orðið athugull

Tillaga: Vökulir nágrannar vöktu íbúa í brennandi húsi.

3.

„Fjölskylda greiddi 1,3 milljónir fyrir íbúð sem reyndist ekki vera til staðar.

Fyrirsögn á visir.is.    

Athugasemd: Óvanir skrifarar þekkjast úr. Þeir skrifa „um að ræða“, „vera til staðar“ og annað álíka sem gerir lítið fyrir frásögnina en eyðileggur stílinn.

Þarna er síðasta orðinu algjörlega ofaukið.

Tillaga: Fjölskylda greiddi 1,3 milljónir fyrir íbúð sem reyndist ekki vera til.

4.

„Knatt­spyrnu­kon­an Meg­an Rap­in­oe hef­ur held­ur bet­ur verið í umræðunni þessa dag­anna en hún er að eiga frá­bært heims­meist­ara­mót fyr­ir Banda­rík­in í Frakklandi þessa dag­anna.

Frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Málsgreinin er ómerkilegt hnoð. Leirburðurinn „hún er að eiga“ er furðuleg framlenging á einföldu orðalagi, hún á. Í þessu tilviki stendur fóboltakonan sig afburða vel og því bara óskiljanleg fíkn í nafnorð að segja að hún „eigi gott mót“.

Svona leirskrif eru ótrúlega algeng og bendir til að blaðamaðurinn hafi ekki úr miklum orðaforða að moða. Eru engir á fjölmiðlum sem segja nýliðunum til eða skiptir málfar engu máli?

Síðar í fréttinni segir.

… en ríkj­andi heims­meist­ar­arn­ir eru þar með komn­ir í undanúr­slit.

Lið sem er heimsmeistari er einfaldlega heimsmeistari, óþarfi að taka það fram að það sé ríkjandi. Hverju bætir orðið „ríkjandi“ við frásögnina? Engu.

Tillaga: Bandaríska knatt­spyrnu­kon­an Meg­an Rap­in­oe hef­ur held­ur bet­ur verið í umræðunni þessa dag­anna. Hún hefur staðið sig frá­bærlega á heims­meist­ara­mótinu í Frakklandi.

5.

„Jón Guðni birti myndir af því á Facebook-síðu sína þar sem má sjá hann með umbúðir á hausnum eftir viðskipti við Hörð.

Frétt á dv.is.     

Athugasemd: Þetta er illa skrifað, hugsunarlaust. Hafi blaðamaðurinn lesið fréttina yfir bendir flest til að hann sé slakur í skrifum.

myndir af því … þar sem má sjá“.

Ekkert samhengi er í þessu.

Var maðurinn með umbúðir ofan á hausnum eða var bundið um höfuð hans?

Er kappleikur tveggja liða viðskipti eða í viðureign?

Margir blaðamenn hafa hvorki nægan orðaforða né skilning á málinu til að gera skrifað eðlilegan texta. Þar að auki er fljótfærnin mikil. Afleiðingin er stórskemmd frétt.

Stuttu síðar var fréttinni breytt og orðalagið um „viðskiptin“ þurrkað úr. Hún byrjar núna svona:

Það fór fram Íslendingaslagur á dögunum en lið Krasnodar og CSKA Moskva áttust þá við í Austurríki.

Þetta er ljótt að sjá, endemis vitleysa.

Hvað er þetta „það“ sem fréttin byrjar á? Jú, persónufornafnið. Setningar sem byrja á „það“ flokkast oft sem leppur því hann er gjörsamlega merkingarsnauðurHann er algengur í barnamáli og í talmáli fullorðinna og er fátt út á það að setja. Í ritmáli er hann afar hvimleiður. Þar kallast persónufornafnið aukafrumlag sem flestir reyna að forðast. Afar þroskandi er að skrifa sig framhjá leppnum.

Tillaga: Jón Guðni birti myndir af sér með umbúðir um höfuðið eftir viðureignina við Hörð.

6.

„Sykurskatturinn er milli tannanna á hjá fólki.

Frétt kl. 12 í fréttum Bylgjunnar 30.6.2019.    

Athugasemd: Fréttamaðurinn á líklega við að mikil umræða sé um sykurskattinn. Hann skilur þó ekki orðasambandið að vera á milli tannanna. Það þýðir ekki umræða heldur er beinlínis verið að baktala þann sem fyrir verður. Sykurskatturinn er hér ekki baktalaður og þar af leiðandi á orðalagið ekki við.

Blaða- og fréttamenn freistast of oft til að nota málshætti, orðtök og orðatiltæki sem þeir skilja ekki. Sérstaklega á þetta við um ungt fólk sem hefur lítið stundað bóklestur og þar af leiðandi ekki byggt upp orðaforða eða ítarlegan skilning á málinu. Fyrir alla er öruggast er að skrifa einfalt mál, forðast orðtök og orðatiltæki.

Tillaga: Fólk ræðir mikið um sykurskattinn.

7.

„Donald Trump var í dag fyrsti sitjandi forseti Bandaríkjanna sem fer til Norður-Kóreu.

Frétt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins og einnig í kvöldfréttum sjónvarps 30.6.2019.   

Athugasemd: Samkvæmt þessi mun Trump hafa setið í hjólastól eða á þríhjóli (veðja á það síðarnefnda) og einhver ýtt honum yfir landamærin.

Nei, varla. Hér er verið að rugla með orðið „sitjandi“, rétt eins og bullað er með „ríkjandi“. Hið fyrrnefnda er stundum haft um kjörna ráðamenn, forseti er sagður „sitjandi“ jafnvel þó hann standi eða liggi út af. Hið síðarnefnda er tíðum misnotað í íþróttafréttum, heimsmeistarar eða landsmeistarar eru oft sagðir „ríkjandi“ sem er skiljanlega gagnslaus viðbót.

Sé Trump fyrsti bandaríski forsetinn sem fer yfir til Norður-Kóreu þarf ekkert að tíunda það frekar. Viðbótin „sitjandi“ bætir engu við skilning hlustandans. Öðru máli gildi ef Clinton eða Bush hefðu farið til Norður-Kóreu. Þá væri við hæfi að geta þess að þeir séu fyrrverandi forsetar, ef svo ólíklega vildi til að einhver vissi það ekki.

Tillaga: Donald Trump var í dag fyrsti bandaríski forsetinn sem fer til Norður-Kóreu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband