Lát á ferðamönnum, sitjandi forseti og hamingjuóskir til þín

Orðlof og annað

Að heilsast og kveðjast

Fyrir mörgum árum þurfti ég á föstudegi að eiga viðskipti við fyrirtæki eitt allumsvifamikið í Reykjavík. Allt fór það vel fram og ég fékk vöruna afgreidda af rosknum manni sem sá vel fyrir þörfum mínum, gjörkunnugum vörunni sem hann seldi mér (sem var algengt í þá gömlu góðu daga áður en afgreiðslustörf urðu íhlaupavinna, gjarna unglinga). Þegar ég hafði fengið vöruna þakkaði ég fyrir mig eins og mér hafði verið kennt: „Kærar þakkir“.

Maðurinn svaraði mér strax með hefðbundnu svari, „takk sömuleiðis“, en bætti svo við „og eigðu góða helgi“.

Þetta varð til þess að ég settist niður með manninum og við ræddum þessi nýtilkomnu kveðju- og þakkarorð. Ég lýsti þeirri skoðun minni að þau væru sérlega illa til fundin, auk þess innflutt og fylltu ekkert autt skarð í tungumálinu. Maðurinn var mér hjartanlega sammála; kvaðst vera gamall sveitamaður og kannaðist ekki við slíkt orðfæri. Hann greindi mér hins vegar frá því að á vegum fyrirtækisins hefði verið haldið námskeið fyrir starfsmenn þar sem kennt var viðmót við kúnna. Þar hefði „einhver helv... fígúra“ fullyrt að „eigðu góða helgi“ eða „hafðu góða helgi“ væri lykilatriði til að viðskiptavinurinn skildi að hann væri einhvers virði. Sjálfur kvaðst maðurinn finna fyrir óbragði í hvert sinn sem þessi orð hrytu honum af munni. Hann var greinilega feginn að finna í mér bandamann og var léttur á brún er við kvöddumst. Hann óskaði mér ekki góðrar helgar sem þó bjargaðist vel. […]

Að lokum skal getið þess sem verulega áberandi er, þagnarinnar. Þakkarorðum er ekki svarað. Viðskipta„vinurinn“ er ekki til. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra í nokkru fyrirtæki. Um daginn þakkaði ég kærlega fyrir mig í kaffihúsi einu um leið og ég greiddi fyrir vöruna. Svarið sem ég fékk var þetta: „Sigga, SIGGA, þetta á að fara á borð númer fimm.“

Menningarblað/Lesbók Morgunblaðsins, 7.8.2011, Þórður Helgason.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Hann segir greiðsluna koma sér vel til þess að standa strauma af lögmannskostnaði …“

Frétt á visir.is.   

Athugasemd: Straumur er upphaflega rennsli vatns. Orðið á sér náskylda ættingja í mörgum tugumálum. Í orðsifjabókinni á malid.is segir frá orðum eins og streymur (færeyska, straum (nýnorska), ström (danska), stream (enska) og fleirum.

Karlkynsnafnorðið straumur er til í eintölu og fleirtölu, en í fréttinni er rangt farið með töluna. Rétt er það í svona og því í eintölu:

Standa straum af …

Í þeirri merku bók Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson segir svo:

Mæta kostnaði, kosta eitthvað […] 2. Sjá fyrir einhverjum; hjálpa einhverjum; verja einhvern […]

Elsta mynd orðatiltækisins er frá síðari hluta 18. aldar; standa straum af einhverjum, sjá einhverjum farborða.

Svo eru til ýmis afbrigði af  orðtakinu til dæmis standa straum af skoðunum sínum og jafnvel standa straum af báti sínum.

Fyrir utan þessa villu er fréttin vel skrifuð, einföld og góð aflestrar.

Tillaga: Hann segir greiðsluna koma sér vel til þess að standa straum af lögmannskostnaði …

2.

Undrast að sjá sovéska hertrukka og Antonov flugvél í Vík í Mýrdal.“

Frétt á visir.is.   

Athugasemd: Í orðabókinni segir að lýsingarorðið hissa merki að vera undrandi, forviða. Og hún segir að undra sé sagnorð sem merkir að vera forviða, hissa. Svo er til sögnin að undrast.

Munurinn á hissa, undra og forviða getur verið nokkur, veltur á samhenginu. Þau geta ekki gengið í hvers annars stað án þess að ekkert sé:

  1. Við undrumst framkomu hans við ferðafólk.
  2. Við undrumst um ferðafólkið.
  3. Við erum hissa á framkomu hans við ferðafólk.
  4. Við erum forviða á framkomu hans við ferðafólk.

Má vera að sigvaxandi munur sé á þessum þremur fullyrðingum, 1, 3 og 4. Tvær þær síðustu þurfa hjálparsögnina að vera til að ganga upp. Hins vegar er önnur fullyrðingin allt annars eðlis, þar höfum við áhyggjur af ferðafólkinu, veltum fyrir okkur hvar það sé.

Ætterni sagnarinnar að undra og undrast er merkileg. Það er náskylt þýsku sögninni wunder og enska orðinu wonder svo dæmi séu tekin.

Af þessu leiðir að það er alls ekki rangt að nota sögnina að undrast í tilvitnaðri setningu. Mér finnst þó hissa fari betur jafnvel forviða.

Tillaga: Hissa að sjá sovéska hertrukka og Antonov flugvél í Vík í Mýrdal.

2.

„Það var toppslagur í Kaplakrika þar sem FH vann Þrótt R. 2:1 …“

Frétt á blaðsíðu 40 í Morgunblaðinu 6.7.2019.   

Athugasemd: Ekki er fallegt að byrja setningu með aukafrumlaginu „það“. Orðið kalla margir lepp, því það er stundum notað til að fela óskýra hugsun. Oft er erfitt að sleppa þannig byrjun en þá verður skrifarinn að endurhugsa setninguna sem honum er hollt enda eru endurskrif alltaf til bóta.

Flestir vita að liðið sem fyrr er nefnt í boltaleikjum á heimaleik. Heimaleikir FH í fótbolta eru alltaf í Kaplakrika. Þar af leiðir að í málsgreininni hér fyrir ofan eru óþarfar upplýsingar. Fréttin er stutt en  gæti verið betur orðuð.

Tillaga: FH vann Þrótt R. 2:1 í toppslag 1. deildar kvenna …

3.

„Ekkert lát virðist vera á þeim ferðamönnum sem fara í gegnum Vík.“

Frétt kl. 12 á Bylgjunni 7.7.2019.

Athugasemd: Fréttamaðurinn hefur án efa ætlað að segja að ekkert lát sé á ferðum ferðamanna.

Samkvæmt malid.is er lát nafnorð í hvorugkyni og merki dauði, andlát:

Hann tók við versluninni eftir lát föður síns.
Það er ekkert lát á storminum.

Dæmin skilja allir. Þar af leiðandi ættu allir að átta sig á því að ofangreind tilvitnun er ekki rétt. Hér hefur fréttamaðurinn verið of fljótur á sér en hann hlýtur að skilja að lát á einhverju merki hér hlé eða stopp.

Tillaga: Ekkert lát virðist vera á ferðum ferðamanna um Vík.

4.

„Hátíðarhöldin sem fóru fram um helgina fóru víðast vel fram.“

Frétt kl. 15 á Bylgjunni 7.7.2019.

Athugasemd: Þetta er óboðlegt. Engu líkar er en að fréttamenn lesi ekki yfir það sem þeir skrifa. Verra er að þeir átta sig ekki á dellunni. Þetta er kölluð nástaða og er ferlega stíllaus. 

Enginn sæmilegur skrifari vill varða uppvís að svona byrjendamistökum. Skemmdar fréttir bitna á neytendum. Í flestum atvinnugreinum eru skemmdir á vöru alvarlegt mál.

Tillaga: Hátíðarhöldin helgina fóru víðast vel fram.

5.

„… mælist Joe Biden, fremsta forsetaframbjóðendaefni Demókrataflokksins, með fjórtán prósent hærri stuðning í könnuninni en sitjandi forseti ef gengið yrði til forsetakosninga núna.“

Frétt á visir.is. 

Athugasemd: Ungum og óreyndum blaðamönnum finnst óskaplega gaman að  skrifa enska íslensku af því að kanar segja „sitting president“ þá verður að apa þetta eftir og tala um „sitjandi forseta“. Þetta er tómt bull því aðeins einn forseti er í Bandaríkjunum. Hverjir skyldu nú vera forsetar sem ekki eru „sitjandi“. Ekki fyrrverandi forsetar. 

Furðulegast er þó að hvergi í heimildinni, abcnews.com er talað um „sitting president“.

Skoðanakannanir um fylgi stjórnmálamanna eða stjórnmálaflokka er ekki kosning, það vita allir. Flestir gera sér grein fyrir að skoðanakönnun mælir fylgið á einum tíma og hefur ekkert forspárgildi þó draga megi ályktanir af niðurstöðunni. Þar af leiðir að orðalagið „ef gengið yrði til forsetakosninga núna“ er óþarfa taglhnýting við málsgreinina.

Tillaga: … mælist Joe Biden, fremsta forsetaframbjóðendaefni Demókrataflokksins, með fjórtán prósent hærri stuðning í könnuninni en forsetinn.

6.

„Samkvæmt nýrri skýrslu Landsnets er hætta á því að á einhverjum tímapunkti árið 2022 verði framboð af raforku á Íslandi ekki nægilegt til að svara eftirspurn.“

Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 8. júlí 2019.

Athugasemd: „Tímapunktur“ er gagnslaust orð, bætir engu við frásögn né gerir hana nákvæmari eða skýrari. „Point of time“ er sagt á ensku máli.

Finni skrifarar til missis og tómleikatilfinningar vegna þess að orðið „tímapunktur“ vanti má rita eins og gert var hér áður fyrr „einhvern tímann á árinu 2022“.

Tillaga: Samkvæmt nýrri skýrslu Landsnets er hætta á því að á árinu 2022 verði framboð af raforku á Íslandi ekki nægilegt til að svara eftirspurn.

7.

„Innilegar hamingjuóskir til þín.“

Algeng kveðja á Facebook.

Athugasemd: Í afmæli, fermingu, útskriftarveislu, giftingu eða álíka fagnaði tökum við í höndina á gestgjafanum og segjum: Til hamingju með prófið, áfangann eða hvað svo sem verið er að halda upp á.

Enginn tekur í höndina á öðum og segir: Til hamingju til þín með afmælið. (Hér má skjóta því inn í að segja má hönd og hendi: taka í höndina og taka í hendina).

Hamingjuósk er venjulega beint til ákveðins einstaklings. Algjör óþarfi er að bæta „til þín“ inn í hana. Hún verður ekkert skýrari eða hnitmiðaðri, bara kjánaleg.

Í afmælisboðum er oft sungið „Hann á afmæli í dag …“. Á ensku er sungið við sama lag: „Happy birthday to you …“. Þar er „to you“ en „til þín“ er ekki í íslenska textanum. Ástæðurnar geta verið margar en sú sem þyngst vegur er ábyggilega sú að þannig tölum við ekki á íslensku.

Við segjum:

Til hamingju með afmælið.

Enginn segir: „Til hamingju með afmælið til þín.“

Ég óska þér til hamingju.

Enginn ætti að segja: „Ég óska þér til hamingju til þín.“

Sæll.

Enginn segir „sæll til þín“ og er þó sæll ágæt kveðja. 

En hvað er þá hamingja? Á malid.is segir:

Hamingja kv. ´gæfa, heill, gifta; †verndarvættur, heilladís´; < *ham-(g)engja, af hamur og so. ganga, eiginl. ´vættur sem tekur á sig ham eða gervi, fylgja´; hugsanl. merkir hamur hér ´fósturhimna, fylgja´, […] heillavætti (í fósturhimnu) sem fylgir e-m frá fæðingu; sbr. einnig nno. uhemje kv. ‘óhamingja’.

Eitthvað óviðeigandi er að segja til hamingju til þín, engu skárra en þegar afgreiðslufólk í verslunum segir eigðu góðan dag (e. have a good day).

Tillaga: Innilegar hamingjuóskir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Karl Guðmundsson

Sæll Sigurður og takk fyrir skemmtilega pistla. Ekki vanþörf á að hreinsa reglulega til. Varðandi 5. atriðið sem þú nefnir er málið dálítið snúið. Georges Busch, Jimmy Carter, Barak Obahma, Bill Clinton eru allir "forsetar" Bandaríkjanna í þeim skilningi að þeir njóta sérstakrar verndar í stjórnarskránni auk þess sem þeir gegna áfram hlutverkum. Árás á þá er árás á Bandaríkin, rétt eins og um "sitjandi" forseta væri að ræða. Þess vegna er m.a. talað um fyrrverandi og sitjandi forseta. Þegar Obahma heimsótti Hirosima var talað um að hann væri fyrsti sitjandi Bandaríkjaforseti sem heimsótti borgina, Carter hafði heimsótt hana 1984 en þá var hann ekki sitjandi forseti. En þessu má að sjálfsögðu sleppa í íslensku máli. Annað, mér finnst betra að tala um "meiri" en "hærri" stuðning. En stuðningur getur komið frá hærri stöðum.....   

Gunnar Karl Guðmundsson, 8.7.2019 kl. 13:07

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll, Gunnar Karl og bestu þakkir fyrir innlitið og ábendingarnar.

Um stöðu fyrrverandi forseta í Bandaríkjunum vissi ég ekki, mikilvægur fróðleikur. En eins og þú segir má í íslensku sleppa viðbótinni &#132;sitjandi&#147; um þann sem gegnir embættinu hverju sinni. Á íslensku verður þetta frekar ankanalegt þó svo að staðreyndir mála séu lesandanum ljósar.

Mér finnst tiltölulega stutt er síðan farið var að tala um &#132;sitjandi&#147; forseta í íslenskum fjölmiðlum. Það var að minnsta kosti ekki gert meðan ég starfaði í blaðamennsku. Þá voru fyrrverandi forsetar ekki jafn margir og nú en engu að síður skildu flestir lesendur ágætlega hvað við var átt þegar Nixon var kallaður fyrrverandi forseti. Held að það hljóti að vera eins núna.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.7.2019 kl. 13:25

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Biðst afsökunar á óskiljanlegum táknum. &#132; er gæsalöpp í upphafi. Bloggforritið er ekki vel hannað. "

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.7.2019 kl. 13:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband