Formaður OR veitir ekki upplýsingar
7.6.2012 | 09:05
Ótrúlegt að Samfylkingin skuli klúðra öllum sínum málum á öllum vígstöðvum. Opiun stjórnsýsla, segja þeir í Samfylkingunni, en það á bara við þegar þeir eru í stjórnarandstöðu.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hefur verið óþreytandi í stjórn Orkuveitunnar en á við ofurefli að etja. Formaður stjórnar ætlar ekki að verða við kröfum Kjartans, það hefur verið ljóst frá upphafi. Sá maður grefur sína eigin gröf.
Ég held að það þurfi ekki að fara í neinar grafgötur með það að formaður stjórnar Orkuveitunnar og framkvæmdastjórinn njóti ekki lengur trausts hjá borgarfulltrúum minnihlutans. Meirihlutaflokkarnir hafa gert þannig í bælið sitt að þeir verða vart endurkjörnir. Þar af leiðandi má búast við nýrri og betri stjórn Orkuveitunnar eftir næstu kosningar.
![]() |
Liggja enn á upplýsingum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ásakar til að upphefja sjálfan sig ...
7.6.2012 | 08:57
Sá sem stendur upp á Alþingi og ásakar annan þingmann um að vera drukkinn þarf annað hvort að vera illa innrættur eða hafa óyggjandi sannanir fyrir ákæru sinni. Nema auðvitað að hvort tveggja sé ...
Hér er naðusynlegt að fá svar við tveimur spurningum, í ljósi svarsins má ætla hvernig innræti Björns Vals Gíslasonar, þingflokksformanns vinstri-grænna, sé háttað.
- Myndi Björn Valur ásaka samflokksmann sinn um að vera undir áhrifum á þingfundi?
- Myndi hann ásaka þingmann Samfylkingarinnar um að vera undir áhrifum á þingfundi?
Sé svarið við báðum jákvætt má gera ráð fyrir að maðurinn sé siðvandur og fari ekki í manngreiningarálit. Svo geta lesendur giskað á aðrar útkomur í þessum spurningaleik og fundið jafnframt út hvaða mann Björn Valur hefur að geyma.
Hvað á að gera í svonaa tilfelli. Ég hygg að yrðu kurteisir og góðgjarnir þingmenn þess varir að þingmaður væri drukkinn myndu þeir hljóðlega benda honum á yfirsjón sína og hvetja hann til að fara heim. Gangi það ekki myndu þeir hinir sömu óska eftir því að viðkomandi flokksformaður eða jafnvel forseti þingsins hlutaðist til um málið.
Aldrei nokkurn tímann myndi nokkur maður hafa hátt um slíka yfirsjón nema því aðeins að hann ætlaði að koma viðkomandi illa og í leiðinni að upphefja sjálfan sig.
![]() |
Sagði alþingismann vera drukkinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Enginn stjórnarliði á þingfundi
6.6.2012 | 15:48
Ég fylgdist með beinni útsendingu frá Alþingi af og til í gærkvöldi. Á tímabili var enginn þingmaður stjórnarliðsins á fundinum nema varaforseti Alþingis. Stjórnarandstæðingar gerðu athugasemdir við þetta og kröfðust þess að forseti smalaði inn í þingsal, að minnsta kosti formanni atvinnumálanefndar.
Stjórnarliðar halda því fram að um málþóf sé að ræða. Þeir telja sig ekki þurfa að hlutsta á rök gegn frumvarpinum um veiðigjald. Þetta er liðið sem talar á tyllildögum fjálglega um lýðræði, málfrelsi, stöðu löggjafarvaldsins gegn framkvæmdavaldinu, þjóðaratkvæði og svo framvegis. Fagurgalinn er mikill en svo þegar á reynir er skoðun þeirra þessi: Ég einn veit, ég einn má.
Hvernig er það annars, verða þingmenn ekki að sækja þingfundi eða geta þeir bara skroppið í bíó ef þeim leiðist?
![]() |
Kvöldfundur og ekkert samkomulag um þinglok |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífsmark kviknar í Mýrdalsjökli
6.6.2012 | 15:29

Lítil spurn er nú eftir gosi úr Mýrdalsjökli. Að öllum líkindum eru allir búnir að gleyma honum. Áhugi fólks beinist frekar að Reykjanesi, jafnvel að gjósa taki í Heiðmörk, öllum til leiðinda.
Jarðfræðingar þegja um Mýrdalsjökull og það sem meira er, draumspakir þegja - ef til vill eru þeir sofandi. Þess vegna leit ég í morgun á jarðskjálftayfirlit Veðurstofunnar. Og sjá, kellingin er eitthvað að rumska eins og meðfylgjandi kort ber með sér.
Þar má sjá að jarðskjálftar síðasta sólarhring slaga hátt upp í tvo á Richter frænda og dreifast á þessa þrjá gamalkunnu staði, upptök Tungnakvíslajökuls, innan öskjunnar og svo sunnan við hana. Á yfirliti Veðurstofunnar fyrir maí segir:
Í Mýrdalsjökli mældust 135 skjálftar í mánuðinum eða um tíundi hluti af skjálftavirkni mánaðarins. Nokkuð staðbundin og stöðug virkni var í Goðalandi og við Hafursárjökul allan mánuðinn. Í öskjunni er virknin nokkuð dreifð en í 17. viku milli 27. og 29. varð hrina í norðausturhluta hennar, nokkuð sunnan við Austmannsbungu og virðist hún tengjast hlaupi, sem hófst í Múlakvísl þann 28. Einnig varð vart hátíðniatburða í 17. viku, sem sást mest á Goðalandi, en þann 27. kom fram hátíðniórói sem sást á nokkrum mælum umhverfis jökulinn.

Jú, mikil ósköp. Virknin er á áðurnefndum þrem stöðum. Tökum eftir því að hún virðist vera sáralitil utan þeirra. Og Eyjafjallajökull sýnir ekkert lífsmark.
Engu að síður virðist hún vera nokkuð staðbundin innan öskjunnar. Þar ber mest á skjálftum nokkrun vegin fyrir miðju hennar.
Þar af leiðandi er vissara að skoða lengra tímabil og kanna hvort þetta sé rétt eða bara ímyndun.

Nú lítum við á 180 daga tímabil og þá skýrist myndin, að minnsta kosti að mínu mati. Höfum það hugfast að ég hef ekkert vit á jarðfræði.
Þarna eru skýrlega komnir í ljós þrjú svæði þar sem skjálftar eiga upptök sín. Til viðbótar sýnist manni að innan öskjunnar séu um það bil fimm svæði sem virðast lifa sjálfstæðu skjálftalífi, ef svo má að orði komast.
Jarðskjálftar við upptök Tungnakvíslarjökul virðast jafntíðir og innan öskjunnar. Miklu minna virðist vera að gerast í sunnanverðum jöklinum, nálægt þar sem heitir Gvendarfell en samt á fjöldi skjálfta upptök sín þarna.

Kíkjum þá á kort sem sýnir skjálftavirkni í 360 daga. Þá fer skrattinn virkilega að skemmta sér. Við liggur að öll þessi svæði sem ég hafði svo mikið fyrir að skilgreina séu öll runnin saman, þvílíkt er magnið.
Þarna hafa mælst á einu ári 3690 skjálftar eða um tíu á dag. Hvort það er mikið veit ég ekki. En skiptir fjöldinn máli?
Nei, magnið segir vís ekki allt. Jarðskjálftar eru ekki alltaf fyrirboðar eldsumbrota enda segja fræðingarnir að þeir stökkvi vart upp úr stólum sínum fyrr en nokkrir skjálftar að stærðinni þrír til fjórir á Richter frænda verði í röð. Þá kannski fara þeir að líta á hátíðnióróann og annað sem gagnlegt er við slíkar aðstæður.
Niðurstaðan er þá sú að jarðfræðingarnir skoða skjálfta sem máli skipta, vega þá og meta, og þá kannski gefa þeir út tilkynningu um eldgos - nema auðvitað að það sé þegar hafið.
Og rétt er ég var að klára að skrifa þessa vitleysu heyrði ég því fleygt að mjög líklega myndi gjósa í Mýrdalsjökli á þessu ári. Nú, ef ekki þá á því næsta eða þarnæsta ...
Gránaði efst í Esjunni
6.6.2012 | 10:51
Í nótti gránaði efst í Esjunni. Í Reykjavík var ekki nema sex gráðu hiti klukkan sex í morgun. Ef til vill er það bara eðlilegt. Á sama tíma voru fjórar gráður á Akureyri og þrjár á Egilsstöðum.
Haustar snemma þetta vorið, sagði maðurinn.
En svona er landið okkar. Frekar ruglað að heyra útvarpsfólk kvarta undan veðrinu. Mér var einhvern tímann kennt að veðrið væri hugarástand, mestu skipti að klæða sig rétt.
Var í fyrra að glugga í ferðabók Sveins Pálssonar og þótti ansi fróðlegt að lesa um veðurfarið á 18. öld. Í ljós kom að sveiflur í veðurfarinu voru alveg eins og í dag enda hefur landið verið í þjóðbraut lægða lengur en elstu menn muna.
Úrelt þjónusta ...
6.6.2012 | 10:17
Á hverjum degi birtir Morgunblaðið og Fréttablaðið dagskrá ljósvakamiðla og Ríkisútvarpsins. Einu sinni þótti þetta sjálfsögð þjónusta líkt og að Póstur&Sími gaf út símaskrá.
Margt hefur breytst í gegnum tímans rás. Nú eru upplýsingar um allt og ekkert aðgengilegar í gegnum tölvu þar sem hann Gúggúl er jafnan til aðstoðar. Ekki hefur Morgunblaðið né Fréttablaðið hætta að birta dagskrá útvarps- og sjónvarpsmiðla og enn kemur símaskráin út. Hvort tveggja er úrelt, þjónusta sem örugglega fáir nýta sér.
Er ekki hægt að nýta þessa pláss fyrir fréttir eða fréttaskýringar?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Litlu og meðalstóru fyrirtækin eru vanrækt
6.6.2012 | 09:57
Ég mæli með því að fólk lesi grein Óla Björns Kárasonar, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem birt er í Morgunblaðinu í morgun undir fyrirsögninni Sjálfstæði atvinnurekandinn settur út í horn.
Óli Björn er óþreytandi baráttumaður fyrir grunngildum sjálfstæðisstefnunnar eins og grein hans ber glögglega vitn um. Við vitum að það gengur ekki lengur að stjórnvöld og fjármálastofnanir snúi baki við litla atvinnurekandanum og sinni frekar stóru fyrirtækjunum.
Reglan er fremur einföld: Skuldsett stór fyrirtæki sem uxu hratt fyrir hrun, ekki síst í krafti þess að hafa nær óheftan aðgang að lánsfé, skulu sett í gjörgæslu, þeim stungið í súrefnisvélar banka og lífeyrissjóða, skuldir afskrifaðar og þeim gert kleift að halda rekstri áfram. Eigendur annarra fyrirtækja sitja eftir með sárt ennið. Þeir eiga annaðhvort ekki nægilega stór fyrirtæki eða gerðu þau mistök að safna ekki skuldum á góðæristímanum í viðleitni sinni til vaxtar þar sem arðsemi réð för.
Hversu oft hefur maður ekki hitt eigendur slíkra fyrirtækja sem kvarta undan því að þeim sé nánast gert ókleyft að starfa vegna óheyrilegra krafna fjármálastofnuna um tryggingar.
Í lok greinar sinnar segir Óli Björn:
Nú þegar innan við eitt ár er í alþingiskosningar verður Sjálfstæðisflokkurinn að taka upp hanskann fyrir atvinnulífið - ekki fyrir stóru öflugu fyrirtækin - heldur fyrir þau litlu og meðalstóru. Ætli Sjálfstæðisflokkurinn að ná árangri í komandi kosningum og fá umboð til að leiða næstu ríkisstjórn, verður flokkurinn að endurnýja trúnaðarsambandið við þá sem eiga það sameiginlegt að veita þúsundum atvinnu með því að leggja allt sitt undir og hafa rekið fyrirtæki sín af skynsemi. Allt annað gengur gegn hugsjónum Sjálfstæðisflokksins.
![]() |
Óli Björn Kárason: Sjálfstæði atvinnurekandinn settur út í horn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flett ofan af Fimm-bókunum
6.6.2012 | 09:44
Slæmt er að fá það á tilfinninguna að hafa verið svikinn í æsku. Einn af uppáhaldsrithöfundunum mínum í kringum átta ára aldurinn og næstu árin var Enid Blyton.
Árni Matthíasson, blaðamaður á Morgunblaðinu, segir frá því í pistli á miðopnu Morgunblaðsins að sjötíu ár eru nú liðin frá því að Blyton sendi frá sér fyrstu söguna um systkinin Júlla, Önnu og Jonna og ævintýri þeirra með frænku sinni Georgínu, sem vill láta kalla sig Georg, og Tomma hundinum hennar.
Þetta eru sem sagt svokallaðar Fimm-bækur sem nutu gríðarlegra vinsælda hér á landi í íslenskri þýðingu Kristmundar Bjarnasonar. Þau fimm lentu í hverri bók í æsandi ævintýrum en jafnan fór allt vel að lokum þótt stundum hafi sko ískyggilega tæpt staðið.
Svo kemur Árni Matthíasson með eftirfarandi í pistli sínum, að vísu innan sviga, og þá var mér eiginlega öllum lokið:
(Það segir sitt um sögurnar að krakkarnir í Fimm-bókunum eru alltaf jafn gamlir, en ef maður telur skólafríin þá eru þau öll komin á þrítugsaldurinn þegar komið er að tuttugustu og annarri bókinni, Fimm hittast á ný)
Aldrei gerði ég mér grein fyrir þessu en las hverja bók margsinnis og naut spennunnar, hnyttinna tilsvara, óttaðist glæpamennina og hló að páfagauknum Kíki og tilsvörum hans. Þessi fimm fannst mér alltaf á mínum aldri.
En nú hefur Árni eyðilagt þessar bernskuminningar fyrir mér og næst á dagskránni er líklega að leita að sálfræðingi sem komið getur í veg fyrir að þessar upplýsingar hafi skaðleg áhrif á mína miðaldra sál. Ég trúði öllu sem skrifað stóð í þessum bókum en nú kemur í ljós að ég var svikinn ...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sveitarstjórnir ráðast gegn ríkisstjórn
6.6.2012 | 09:18
Óhætt er að fullyrða að frumvörp ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistjórnun og veiðigjöld hafi tekið snarsnúning með auglýsingu sveitarstjórnarmanna í þrjátíu og fjórum sveitarfélögum í Morgunblaðinu í morgun. Í því vara er sterklega varða við samþykkt þessara frumvarpa.
Undirritaðir telja að þessi varnaðarorð, sem fylgja frumvörpunum, séu meira en næg ástæða fyrir alþingismenn til að leggja málin til hliðar frekar en að stuðla að því að lögfesta þau og stuðla þannig að umhleypingum með alvarlegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki í sjávarbyggðum landsins, m.a. mögulegri lækkun launa sjómanna og fiskverkafólks, lækkunar útsvarstekna sveitarfélaga, minni fjárfestingagetu sjávarútvegsfyrirtækja á landsbyggðinni og þar með enn minni atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni en nú er.
Við slíkt verður ekki unað.
Nú verður örugglega gagnrýnt að ekki eru öll sveitarfélögin einhuga í þessu máli og ekki skrifa allir sveitarstjórnarmenn undir. Ekki er við því að búast að glerharðir Samfylkingarmenn eða vinstri-grænir skrifi undir, ef til vill þora þeir það ekki.
Eins verður ábyggilega gagnrýnt að sveitarstjórarmenn í Húnavallahreppi og Fljótdalshéraði, sem hvergi á land að sjó, skuli taka þátt. Einar Olgeirsson, sá kunni kommúnisti, sagði hins vegar á sínum tíma að enginn væri eyland. Líklega á það við ennþá.
Aðalatriðið er hins vegar að ríkisstjórnin stendur nú frammi fyrir þeim kostum að vaða áfram í pólitískri herferð sinni, sem einskis stuðnings nýtur, eða bakka með málin og taka tillit til andstæðra skoðana.
Hvernig var það annars með þessi samræðustjórnmál Samfylkingarinnar? Eru þau til þess eins að kjafta þá í kaf sem eru ekki sammála þessum skrýtna stjórnmálaflokki eða var einhver dýpri merking með þeim?
Merkilegt er til þess að hugsa að þessi ríkisstjórn sem skreytti sig með fögrum fyrirheitum og nöfnum eins og til dæmi norræn velferðastjórn skuli á valdatíma sínum lenda í gríðarlegum andbyr með hvert málið á fætur öðru. Og alltaf neitar hún að taka tillit til andmæla, raunar ekki fyrr en í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Vígmóð, blóðug og sundruð situr hún enn um sinn en veit ekkert hvað hún á að gera. Í annað sinn er Samfylkingin í þessari stöðu. Má búast við að hún slíti stjórnarsamstarfinu eins og síðast?
Danmörk og England á Íslandi
5.6.2012 | 14:27

Skammt frá Hítará, vestan við Fagraskógarfjall, er örnefnið Danmörk. Á við sléttlendi austan við Barnaborgarhraun. Þetta vissi ég ekki en hitt vissi ég að efst í Lundareykjardal er bær sem heitir England. Þar er líka til Englandsflói og Englandshverir.
Skyldu aðrir staðir á Íslandi bera nöfn landa. ég veit svosem að ýmis örnefni benda til viðkomu fólks af ákveðnum þjóðernum. Nefna má Spönskunöf sem er við ósa Laxár, sunnan Skagastrandar. Sagan segir að þar hafi spænskir ræningar verið vegnir og dysjaðir. Í Reykjavík er auðvitað Frakkastígur.
Man ekki eftir neinu öðru álíka, svona í fljótu bragði.

Bæti hér inn gamlli mynd, tók hana um 1982. Þarna er Fagraskógarfjall og Grettisbæli lengst til hægri. Líklega á örnefnið Danmörkvið brúna svæðið sem er lengst til hægri, við hraunið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2012 kl. 14:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ríkisstjórnarmeirihlutinn baktalar Ólaf Ragnar
5.6.2012 | 11:45
Ríkisstjórnarmeirihlutinn á illa stund þessa dagana. Ekki fyrir það að tími hennar hafi einhvern tímann verið góður, nema rétt eftir stjórnarmyndun. Ástæðan er einfaldlega sú að Samfylkingin og vinstri grænir hafa svikið hvert einasta kosningaloforð sem flokkarnir hafa gefið og í þokkabót fengið svo til alla þjóðina upp á móti sér.
Og nú flækjast forsetakosningarnar fyrir ríkisstjórnarmeirihlutanum og þingmenn geta vart á sér heilum tekið vegna þeirra. Mægod, hrópa þeir hver upp í annan. Þurfum við að sitja uppi með hann Ólaf Ragnar í fjögur ár til viðbótar?
Þessu liði til líknar skal á það bent að verði Ólafur Ragnar endurkjörinn munu vinstri flokkarnir aðeins þurfa að þola hann í tæpt ár til viðbótar. Þá mun þjóðin sparka ríkisstjórninni út í ystu myrkur, hún á ekki nokkurn séns á að verða endurkjörin.
Sérlegur sendimaður Steingríms J. Sigfússonar, allsherjarmálaráðherra, heitir Björn Valur Gíslason, og er formaður þingflokks vinstri grænna. Sagt er að þegar Steingrímur fái kvef, snýti Björn þessi sér. Þurfi sá fyrrnefndi að tala illa um einhvern tekur sá síðarnenfdi það að sér.
Björn skrifar í dag á bloggið sitt lærða grein um og í henni segir meðal annars.
Þegar Ólafur Rangar hefur lokið næsta kjörtímabili sínu sem forseti þjóðarinnar verður hann kominn í hóp þeirra forseta sem setið hafa hvað lengst í embætti um veröld víða. Sem stendur er hann í 21. sæti þaulsetinna forseta, næst á undan forsetanum í Kongó og næstur á eftir kollega sínum í Gambíu. Eftir næsta tímabil verður Ólafur Ragnar líklega kominn ofar á listann, þó auðvitað megi búast við því að fleiri forsetar á hans róli vilji bæta einhverjum forseta árum í starfsferliskránna. Þá verður Ólafur Ragnar búinn að sitja jafn lengi og forsetar Eþíópíu, Erítreu og Tajikistan en aðeins skemur en forsetarnir í Chad, Súdan, Kazakhstan og Uzbekistan hafa setið í dag.
Takið eftir orðalaginu sem ég hef feitleitrað. Í stað þess að segja það hreint út hversu fúll Björn er út í Ólaf Ragnar reynir hann að gæta sín, þó erfitt sé, en lætur þó berlega í ljósi liggja að forsetinn sé bölvaður ekkisens skíthæll. Þaulsetinn, kollegar, hans róli ...
Já, þetta og annað bendir til að ríkisstjórnarmeirihlutanum líði ekki vel þessa dagana. Vont finnst þeim að enginn tekur lengur mark á loftorðaglamrinu þeirra. Verst finnst þeim þó að eftir því sem þeir baktala Ólaf Ragnar meira því betur gengur honum í skoðanakönnunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hlunnfer ríkið okkur með krónunni?
5.6.2012 | 09:18
Reynsla El Salvador af einhliða upptöku annarrar myntar er því góð, þótt hún hafi ekki leyst öll þjóðfélagsvandamál, en fátt ætti að vera fjær íhaldsmönnum en að gera slíkar kröfur til stofnana samfélagsins.
Fólk skiptist í tvö horn hvað varðar upptöku á nýjum gjaldmiðli. Raunar eru þau þrjú. Ég hygg að meirihluti landsmanna vilji halda í krónuna, þó erfið sé. Lítill minnihluti vill taka upp Evru, ýmist með því að ganga í Evrópusambandið eða gera það einhliða. Og svo er það þriðji hópurinn sem horfir til bandaríkjadollars, kanadadollars eða annarra gjaldmiðla.
Í Morgunblaðinu í morgun ritar Heiðar Guðjónsson grein undir fyrirsögninni El Salvador og einhliða upptaka annarrar myntar. Í henni, sem er andsvar við grein eftir Gunnlaug Snæ Ólafsson, formanns Félags íhaldsmanna, rekur Heiðar í stuttu máli hvernig staðið var að upptöku bandaríkjadollrs í landinu. Tilvitnunin hér í upphafi er úr þessari grein.
Í raun held ég að ástæðu þess að Heiðar vill að Íslendingar taki upp aðra mynt kristallist í lokaorðum hans. Eiginlega er hægt að samþykkja það sem hann segir og það er síðan hvers og eins að meta hvort þetta séu næg rök til að fallast á upptöku annarrar myntar fyrir Ísland (leturbreytingar eru mínar).
Það getur varla verið markmið íhaldsmanna að ríkið gefi út gjaldmiðil sem það notar til að hlunnfara þegna sína með verðbólgu og gengisfellingum. Það getur varla verið markmið að ríkið neyði þegnana til að nota mynt sem torveldar viðskipti þeirra þar sem hún heldur ekki verðmæti sínu og útilokar þegna ríkisins frá alþjóðaviðskiptum. Almenningur á að stýra sínum eignum sjálfur, en ekki láta miðstýra verði þeirra af opinberum embættismönnum. Eina leiðin til að njóta alþjóðlegra lífskjara er með því að hafa aðgang að alþjóðlegum mörkuðum. Íslenska krónan er valdatæki ríkisins yfir þegnunum og dugar vel sem slík en illa í viðskiptum. Hvað er það sem íhaldsmenn vilja halda í? Arfleifð haftanna á Íslandi eða sögulega arfleifð hagsældar og frjálsra viðskipta?
Hvaða þingmenn skrópa á fundi í kvöld?
4.6.2012 | 15:56
Þingmenn hafa samþykkt kvöldfund á Alþingi sem er nokkurs konar mótspyrna ríkisstjórnarmeirihlutans við meintu málþófi stjórnarandstöðunnar. Hann gerir eins og veiðimaðurinn, reynir að þreyta laxinn.
Ég hef fylgst með umræðum á Alþingi í beinni útsendingu marga þá daga sem þetta umtalaða málþóf átti að hafa verið stundað. Skoðun mín er hins vegar sú að umræðurnar hafi verið afskaplega málefnalegar. Ekki hef ég getað fundið að umræðunum, hvorki hvar svo sem í flokki semþeir þingmenn standa sem þátt tóku. Mjög fróðlegt og án efa mikilvægt er að geta spurt þingmenn nánar út í skoðanir þeirra með svokölluðum andsvörum og viðbrögðum við þeim.
Þeir sem gagnrýna stjórnarandstöðuna verða að líta til þess hversu seint frumvörp meirihlutans hafa komið fram og ekki síður hversu illa þau eru úr garði gerð.
Þingmenn geta þó haft sína skoðun á þessu en ég geri tvær athugasemdir. Sú fyrri er um margumtalað sjálfstæði löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdavaldinu. Vinstri menn gagnrýndu þetta mikið meðan Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórn en nú heyrist ekkert í sama fólki þegar velferðarstjórnin ætlast til þess að lagafrumvörp og ályktanir á hennar vegum séu afgreidd rétt eins og þorskar á færibandi.
Svo er það stóra spurningin um þessa 27 þingmenn sem samþykktu að halda kvöldfund. Munu þeir mæta eða ætla þeir að skokka heim í grillið og sófann rétt eins og þeir gerðu flestir þegar síðast var haldinn kvöldfundur? Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vakti svo eftirminnilega athygli á skrópinu í umræðum í síðustu viku. Þá voru þrír þingmenn meirihlutans viðstaddir umræðurnar.
Eiga þingmenn ekki að mæta á þingfundi, jafnvel á kvöldin, eða er þeim í sjálfsvald sett hvort þeir sinni vinnu sinni?
![]() |
Kvöldfundur samþykktur á Alþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ágætis kranablaðamennska
4.6.2012 | 13:42
Almannatengslin hjá Wow Air senda inn skemmtilega grein um hversu frjálslyndur og léttur forstjórinn er. Greinin er alveg eins og frétt sem Morgunblaðið hefur unnið, textinn er glettilega vel skrifaður og atvinnuljósmyndari tekur myndirnar.
Er eitthvað að svona fréttamennsku? Nei, alls ekki. Hins vegar er þetta ekki fréttamennska heldur kranablaðamennska eins og Jónas Kristjánsson myndi nefna það. Hvað sem því líður er þetta ágætis efni.
![]() |
Þykist þú vera einhver framkvæmdastjóri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Alltaf að aka á hægri akrein ...
4.6.2012 | 11:08
Umferð bíla á höfuðborgarsvæðinu er ekki ein greið og hún gæti verið. Veldur þar mestu hugsunarleysi og þekkingarleysi nær helmings ökumanna.
Setjum sem svo að ökumaður ætli að aka á Miklubraut og upp í Háaleitishverfi. Ég held, svei mér þá, að meirihluti ökumanna muni aka á vinstri akrein alla leið vegna þess að einhvern tímann ætlar hann að beygja til vinstri á gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar.
Ætli einhver að fara úr miðbæ Reykjavíkur og í miðbæ Hafnarfjarðar, eða öfugt, mun hann ábyggilega velja vinstri akrein af því að hann ætlar einhvern tímann að beygja til vinstri.
Þetta er auðvitað klikkun nema fyrir þá sem hugsa ekki og hafa enga tilfinningu fyrir umhverfinu. á móti kemur að þessu fólki finnst dálítið þægilegt að hafa einhvern eitthvað vinstra megin við sig, sem það getur séð, svo ekki sé nú verið að aka utan vegarins. Þetta fólk á auðvitað að fá sér bíl með stýrinu hægra megin.
Það eru eiginlega bara tvær grundvallarreglur til að fara eftir.
- Aka skal alltaf á hægri akrein nema þegar tekið er framúr
- Aldrei skal ekið á vinstri akrein nema þegar tekið er framúr eða ætlunin sé að beygja til vinstri á næstu tvö til þrjú hundruð metrunum.
Sé farið eftir þessum reglum, að minnsta kosti í flestum tilvikum, mun umferðin verða miklu greiðari og minni líkur á töfum.
Hins vegar hef ég þann grun að ökukennarar séu hættir að leggja áherslu á hægri akgreinina vegna þess að sívaxandi fjöldi ungra ökumanna heldur sig á þeirri vinstri.
Veghljóð, vélahljóð og umferðadynur
4.6.2012 | 10:27
Ánægja mín í lífinu felst meðal annars í því að ganga á fjöll. Víða eru fjölfarnir þjóðvegir undir fjöllum og þannig er það með Esjuna. Ótrúlegt er að heyra umferðardyninn allt upp á Þverfellshorn eða Kerhólakamb. Þannig er það líka með fjöllin í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu, en þar hef ég gengið á nokkur.
Ég hef lengi verið viss um að það eru ekki vélahljóð ökutækja sem berast lengst heldur veghljóðið, það sem heyrist er bifreið er ekið hratt á vegi með varanlegu slitlagi. Vélarhljóðið er síðan allt annað, heyrist varla nema þegar verulega stór tæki eiga í hlut eða mótorhjól.
Í nærumhverfinu heyrist vélarhljóðið miklu betur, t.d. þar sem ég sit á fjórðu hæði í húsi við Skúlagötu. Að neðan heyri ég vélahljóð en af Sæbrautinni, sem er fjær, heyri ég umferðardyninn og þar er vélarhljóðið minna. Væru allir bílar rafknúnir held ég að lítið myndi breytast annað en að úr vélahljóði drægi.
Af þessu dreg ég þá ályktun að væri hægt að hanna vegi þannig að umferðardynurinn minnkaði væri mikið fengið.
![]() |
Hljóðlátari vegir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bankastjóri bætir ekki úr skák
2.6.2012 | 08:53
Landsbankinn gefur ekki út yfirlýsingu vegna atburða á Fáskrúðsfirði og víðar. Hann harmar ekki né lýsir yfir neinni eftirsjá er hann horfir á eftir viðskiptavinum sínum.
Banakastjórinn segir í blaðaviðtali viðbrögð viðskiptavinanna skiljaleg, nokkrum reikningum hafi verið lokað, öðrum ekki. Og svo klykkir hann út með því að segja að útteknar fjárhæðirnar hafi ekki verið háar. Sem sagt, þetta reddaðist.
Blint anar Landsbankinn áfram. Hann sinnir ekki almannatengslum, markaðsdeildin er greinilega ekki með í ráðum, því ekki með nokkrum hætti er reynt að milda áhrifin af samdrættinum. Þess í stað stendur bankastjórinn upp og tjáir sig á þann hátt sem hann kann best. Hann bætir ekki neitt.
Stórt fyrirtæki, svo ekki sé talað um fjármálafyrirtæki, á að stíga varlega til jarðar. Hafi Landsbankinn rök fyrir samdrættinum á hann að vinna í útfærslunni og tilkynna hana á mildilegri hátt en hann gerði.
Það er bara ekki svo að almenningur láti fjármálafyrirtæki bjóða sér allt, tortryggni út í þau er gríðarleg. Síðan er vandamálið það sem lýtur að byggðum landsins, atvinnulífi á hverjum stað. Lokun á útibúi á Fáskrúðsfirði hefur miklu meiri áhrif á nærsamfélagið en lokun útibús í Reykjavík. Það hef ég rakið áður.
![]() |
Óánægja viðskiptavina skiljanleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sanngirnin
1.6.2012 | 17:40
Já, fullt tillit hefur verið tekið til allra umsagna sem bárust vegna vegna frumvarps ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistjórnun. Allar umsagnirnar áttatíu voru neikvæðar, engin jákvæð umsögn barst.
Björn Valur Gíslason, þingsflokksformaður vinstri grænna heldur því fram að stjórnarmeirihlutinn taki tillit til þess sem sanngjarnt sé að gera.
Lykilorðið hér er sanngjarnt.
Húsbóndinn hlýtur að vera afar ánægður með vinnumanninn.
![]() |
Fullt tillit tekið til umsagna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ekki fallegur en frábær á flugi
1.6.2012 | 16:14

Múkkinn eða fýllinn er afskaplega flugfimur fugl, ef þannig má komast að orði. Hann er ekki beinlínis fallegur en vinnur á. Stundum hef ég tekið myndir af honum en aldrei þó fleiri en um daginn.
Þessa mynd setti ég saman af mörgum myndum af múkkum sem iðkuðu listir sínar einhvers staða lengst uppi í fjalli þar sem uppstreymi var gott. Sjá má hvernig hann ber sig í svifinu, sveigir og beygir fjaðrir og gott ef ekki dúkka upp flapsar á einum fuglinum. Ef til vill hafa einhverjir fleiri en ég gaman af þessu.
Vísindavefurinn segir svo um múkkann:
Fýlsunginn kemur mjög feitur úr hreiðrinu og vegna þyngdar sinnar nær hann ekki að hefja sig til flugs þegar hann lendir á þurru landi. Sama gildir þegar hann lendir á sjó, nema að hreyfing sjávarins, vindur og löng flugbraut (sjórinn sjálfur) gera honum auðveldara að ná vindi undir vængina.
Fullorðinn fýll getur einnig átt erfitt með að hefja sig til flugs á landi þar sem hann nær sér ekki á flug úr kyrrstöðu heldur þarf tilhlaup. Það má því segja að fýllinn sé aðlagaður sjónum á þann hátt að hann notar yfirborð sjávar sem hlaupabraut þar til hann nær nógu miklum hraða eða góðri vindhviðu til að hefja sig á loft.
Fýlar geta þó gert sér hreiður í hömrum langt inni í landi. Því er ekki ólíklegt að einn og einn ungi rati ekki til sjávar þegar hann yfirgefur hreiðrið en lendi þess í stað inni í landi þar sem hann á lítinn sem engan möguleika á að ná sér á flug aftur. Sterkur mótvindur veitir honum þó stundum byr undir báða vængi og gæti þannig komið honum til bjargar frá kjafti tófunnar eða fjárhundsins á næsta sveitabýli.
Undir sumarlok lenda oft margir fýlsungar á götum og í húsagörðum íslenskra sjávarþorpa. Þessir ungar ná sér heldur ekki á flug en þá eru það börnin í þorpinu sem koma þeim til bjargar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Örþjóðin þarf að halda vöku sinni
1.6.2012 | 10:00
Hefur þú efni á krónunni? spyr Jón Steindór Valdimarsson, formaður samtakanna sem berjast fyrir því að Ísland gangi í Evrópussambandið.
Hann ritar grein í Morgunblaðið í morgun og í heinni leikur hann á þá strengi tilfinninga sem Íslendingar eru eflaust viðkvæmastir fyrir um þessar mundir og það eru íbúðakaup og afborganir af lánum vegna þeirra. Hann fullyrðir að herkostnaðurinn vegna krónunnar kosti íslensk heimili 16 milljónum krónum meira en hafi lánið verið tekið í evrum.
Ég ætla ekki að deila við manninn um staðreyndir verðtryggingarinnar sem hafa farið illa með heimilin né heldur ætla ég að deila við hann um krónuna þó ég sé staðfastur stuðningsmaður hennar meðan kostnaðurinn við að taka upp Evruna er sá að þurfa að ganga inn í ESB. Hitt vil ég frekar ræða og það er sú vanmáttakennd sem birtist í málflutningi Já-manna vegna þess að við berjumst fyrir því að vera sjálfstæð þjóð.
Við erum örþjóð og eflaust undrast það margir og jafnvel finnst það broslegt að rúmlega þrjú hundruð þúsund manns skuli telja sig hólpna utan ESB. Staðreyndirnar tala þó sínu máli:
- Eigið land
- Eigið tungumál
- Lýðræðislega kosið þing
- Þingbundin ríkisstjórn
- Seðlabanki
- Sérstakur gjaldmiðill
- og fleira.
Séu rök já-sinna skoðuð er auðvitað tóm vitleysa að búa hér ein á þessu skeri, nota íslensku þegar við getum svo auðveldlega teki upp ensku eða frönsku, þingið gæti vissulega haldið áfram sem hverfisstjórn innan ESB, Seðlabankinn er óþarfur og gjaldmiðillinn líka.
Barátta forferðra okkar fyrir sjálfstæði, fyrir tungumálinu og réttinum yfir landi okkar var löng og ströng. Við skulum skoða vandlega hvert einasta skref, allt sem telja má afsal þeirri réttinda sem þjóðin hefur notið hingað til.
Gætum að því, að fámennið gerir okkur svo óskaplega erfitt fyrir og uppgjöf á einu sviði getur haft hrikalega afleiðingar á öðrum. Við þurfum að halda vöku okkar annars er sjálfstæðið tapað.