Lífsmark kviknar í Mýrdalsjökli

M#BA38E

Lítil spurn er nú eftir gosi úr Mýrdalsjökli. Að öllum líkindum eru allir búnir að gleyma honum. Áhugi fólks beinist frekar að Reykjanesi, jafnvel að gjósa taki í Heiðmörk, öllum til leiðinda.

Jarðfræðingar þegja um Mýrdalsjökull og það sem meira er, draumspakir þegja - ef til vill eru þeir sofandi. Þess vegna leit ég í morgun á jarðskjálftayfirlit Veðurstofunnar. Og sjá, kellingin er eitthvað að rumska eins og meðfylgjandi kort ber með sér. 

Þar má sjá að jarðskjálftar síðasta sólarhring slaga hátt upp í tvo á Richter frænda og dreifast á þessa þrjá gamalkunnu staði, upptök Tungnakvíslajökuls, innan öskjunnar og svo sunnan við hana. Á yfirliti Veðurstofunnar fyrir maí segir:

 Í Mýrdalsjökli mældust 135 skjálftar í mánuðinum eða um tíundi hluti af skjálftavirkni mánaðarins. Nokkuð staðbundin og stöðug virkni var í Goðalandi og við Hafursárjökul allan mánuðinn. Í öskjunni er virknin nokkuð dreifð en í 17. viku milli 27. og 29. varð hrina í norðausturhluta hennar, nokkuð sunnan við Austmannsbungu og virðist hún tengjast hlaupi, sem hófst í Múlakvísl þann 28. Einnig varð vart hátíðniatburða í 17. viku, sem sást mest á Goðalandi, en þann 27. kom fram hátíðniórói sem sást á nokkrum mælum umhverfis jökulinn.

M#BA38CNú var athygli mín vakin og finnst endilega að við verðum að skoða þetta. Hér er kort yfir skjálftavirkni síðustu þrjátíu daga, allt til 8. maí.

Jú, mikil ósköp. Virknin er á áðurnefndum þrem stöðum. Tökum eftir því að hún virðist vera sáralitil utan þeirra. Og Eyjafjallajökull sýnir ekkert lífsmark.

Engu að síður virðist hún vera nokkuð staðbundin innan öskjunnar. Þar ber mest á skjálftum nokkrun vegin fyrir miðju hennar.

Þar af leiðandi er vissara að skoða lengra tímabil og kanna hvort þetta sé rétt eða bara ímyndun.

M#BA38A

Nú lítum við á 180 daga tímabil og þá skýrist myndin, að minnsta kosti að mínu mati. Höfum það hugfast að ég hef ekkert vit á jarðfræði.

Þarna eru skýrlega komnir í ljós þrjú svæði þar sem skjálftar eiga upptök sín. Til viðbótar sýnist manni að innan öskjunnar séu um það bil fimm svæði sem virðast lifa sjálfstæðu skjálftalífi, ef svo má að orði komast.

Jarðskjálftar við upptök Tungnakvíslarjökul virðast jafntíðir og innan öskjunnar. Miklu minna virðist vera að gerast í sunnanverðum jöklinum, nálægt þar sem heitir Gvendarfell en samt á fjöldi skjálfta upptök sín þarna.

M#BA377

Kíkjum þá á kort sem sýnir skjálftavirkni í 360 daga. Þá fer skrattinn virkilega að skemmta sér. Við liggur að öll þessi svæði sem ég hafði svo mikið fyrir að skilgreina séu öll runnin saman, þvílíkt er magnið.

Þarna hafa mælst á einu ári 3690 skjálftar eða um tíu á dag. Hvort það er mikið veit ég ekki. En skiptir fjöldinn máli?

Nei, magnið segir vís ekki allt. Jarðskjálftar eru ekki alltaf fyrirboðar eldsumbrota enda segja fræðingarnir að þeir stökkvi vart upp úr stólum sínum fyrr en nokkrir skjálftar að stærðinni þrír til fjórir á Richter frænda verði í röð. Þá kannski fara þeir að líta á hátíðnióróann og annað sem gagnlegt er við slíkar aðstæður.

Niðurstaðan er þá sú að jarðfræðingarnir skoða skjálfta sem máli skipta, vega þá og meta, og þá kannski gefa þeir út tilkynningu um eldgos - nema auðvitað að það sé þegar hafið.

Og rétt er ég var að klára að skrifa þessa vitleysu heyrði ég því fleygt að mjög líklega myndi gjósa í Mýrdalsjökli á þessu ári. Nú, ef ekki þá á því næsta eða þarnæsta ... 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband