12 daga kosningabarátta er ólýðræðisleg

Verður kosið 25. apríl eða ekki? Svo virðist sem einhvers konar handvöm sé í forsætisráðuneytinu. Enda ekki furða. Forsætisráðherrann er óvanur og getur ekki haft forystu um þessi mál. Verra er að ráðuneytisstjórinn er líka óvanur enda „aðeins“ vanur félagsmálaráðuneytinu.

Heyrst hefur að minnihlutaríkisstjórnin telji að tíminn til 25. apríl sé of skammur miðað við það sem hún vill gera. Í undirbúningi er fjöldi lagafrumvarpa og ætlunin er að þingið starfi til 4. apríl. Taka þarf af skarið hvort kosið verði á þessu degi eða ekki.

Þegar nánar er skoðað eru vandamálin nokkur. Sé ætlunin að kjósa áðurnefnum degi fást aðeins 12 daga, tæpur hálfur mánuður fyrir lýðræðislega æfingar, það er kynningu á framboðum, frá því að þingi lykur. Sá tími er alltof skammur.

Hvers vegna er tíminn alltof skammur.

Minnihlutastjórnin styðst við minna en helming þingmanna. Henni til stuðnings eru þingmenn Framsóknarflokksins. Þeir munu verja hana falli standi hún við gerða samninga.

Miðað við stöðu mála er þessi ríkisstjórn aðeins starfsstjórn. Hún hefur ekki leyfi til að breyta heiminum jafnvel þótt hún vilji. Og hvers vegna ætti slík minnihlutastjórn að haga sér eins og hún sé meirihlutastjórn? Einhvers konar „wannabe stjórn“.

Staðreyndin er sú að ríkisstjórn verður að haga sér miðað við aðstæður. Eina verkefni núverandi minnihlutaríkisstjórnar er að sinna efnahagsmálum, gæta að atvinnumálum og verðbólgu. Allt annað er aukaatriði, innantómt pjatt að mínu mati.

Átta vikur til kosninga mínus páskar. Þingi á að ljúka um miðjan mars í síðasta lagi. Nauðsynlegt er að framboðin hafi tækifæri til að kynna stefnu sína. Slíkt er lýðræðislegt og afsláttur af lýðræðinu er ekki í boði, hvort heldur um er að ræða minnihluta eða meirihluta þings.

Hvar er svo forseti Íslands þegar ætlunin er að gefa afslátt af lýðræðislegri starfsemi fyrir þingkosningar? Ég óska eftir því að hann taki fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni í þessu máli. Hann hefur gert það áður af ómerkilegra tilefni.


mbl.is Ekki hægt að hefja utankjörstaðaatkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Taktu hann hálstaki, Nonni

Dettur mönnum í hug að það sé hægt að gefa öðrum þjóðum fingurinn, veiða hvali af því að staðan hér heima sé svo slæm? Flögrar það að einhverjum að önnur ríki láti nægja að mótmæla hvalveiðum Íslendinga? Heldur einhver að refsiaðgerðir fylgi ekki ítrekuðum mótmælum? Hefur einhverjum dottið í hug að viðskiptavinir Íslendinga í Evrópu og Ameríku muni láta eins og ekkert sé?

Fólki er árans sama þótt hér sé atvinnuleysi.

Nákvæmlega á sama hátt og Bretar töldu sig þess geta beitt hryðjuverkalögum á Ísland og komast upp með það munu æ fleiri ríki gera það sama eða beita okkur einhvers konar refsiaðgerðum. Þetta er ekki staðreynd heldur loforð.

Hundruðum milljónum manna er nákvæmlega sama hvað Íslendingar segja, skiptir engu máli þó allt sé heilagur sannleikur, runninn upp úr heilagri Jóhönnu, Maríu mey, páfanum eða spámanninum eina og sanna. Hvalir eru í útrýmingarhættu. Milljónirnar trúa þessu.

Svo þykjumst við geta ráðist gegn almenningsálitinum í heiminum. Þvílíkir hrokagikkir sem við erum.

Við erum engu betri en maurarnir í brandaranum sem fylgdust með félaga sínum sem klifraði upp eftir fílnum; „Taktu helvítið hálstaki, Nonni, taktu hann hálstaki,“ hrópuðu þeir.

Enginn skyldi ekki vanmeta skoðanir milljónanna, sérstaklega þegar það beinist gegn agnarsmárri þjóð sem er þegar með allt niðrum sig í augum annarra.


mbl.is Bandaríkin fordæma hvalveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem helst hann varast vann ...

Það er einkar athyglisvert að nýi Seðlabankastjórinn hafi, eins og forveri hans, verið stjórnmálamaður. Á vef forsætisráðuneytisins segir eftirfarandi:

Svein Harald var aðstoðarfjármálaráðherra Noregs á árunum frá 1990 -1994. ... Hann sat í efnahagsráði norska Verkamannaflokksins til ársins 2000

Þórólfur Matthíasson prófessor við Háskóla Íslands fer þannig með rangt mál haldi hann því fram að Svein Harald Öygard hafi ekki verið stjórnmálamaður. Bankastjórinn er krati og hefur varla kastað trúnni. Ef til vill er það ástæðan fyrir því að hann var valinn.

Heilög Jóhanna hefur þar af leiðandi rekið fyrrverandi stjórnmálamann úr starfi Seðlabankastjóra til þess eins að setja fyrrverandi stjórnmálamann í djobbið. Annars staðar stendur og fer vel á því á föstunni: Það sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann. ...

Fyndið.


mbl.is Nýr seðlabankastjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er munurinn á „settum“ Norðmanni og „skipuðum“?

20. gr. Forseti lýðveldisins veitir þau embætti, er lög mæla.
Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt. Embættismaður hver skal vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni.

Er það stjórnarskrárbrot ef útlendur ríkisborgari gegnir íslensku embætti? Vafinn leikur á því að í tilvitnaðri grein stjórnarskráinnar er notað sögnin „að skipa“. Norðmaðurinn er hins vegar „settur“ Seðlabankastjóri, þ.e. gegnir stöðunni aðeins um stundarsakir.

Þó svo að minnihlutaríkisstjórnin hafi gerst sek um afglöp varðandi hin nýju Seðlabankalög hlýtur hún að hafa látið kanna þetta til hlítar hvort lög heimili að maður sem ekki er íslenskur ríkisborgari gegni embætti hér á landi til skamms tíma. En það er nú samt aldrei að vita, slíkur er flautaþyrilshátturinn og lætin við að bola Davíð Oddsyni úr embætti.

Annars er ástæða til að óska minnihlutaríkisstjórninni til hamingju með Seðlabankalögin.

Eftir mánuð í embætti eru það einu lögin sem henni hefur tekist að koma í gegnum þingið.

Svo eru menn að tala um nýtt afl í stjórnun landsins. Í boði stendur jafnvel meirihluti á þingi fyrir þessi óhemju afköst, dugnað og atorku við efnahagsstjórnin, að minnsta kosti sé miðað við síðustu skoðanakönnun.

Já, Davíð var rekinn og nú hlýtur allt að ganga okkur í haginn. eða hvað? 


mbl.is Nýr seðlabankastjóri settur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað segir svo Ögmundur um þessar greiðslur?

Er ekki von á því að heilbrigðisráðherra hafi eitthvað um þetta að segja? Þessi reiðinnar býsn sem hann fetti sig og gretti vegna greiðslna forvera sín til verktaka af ýmsu tagi. Auðvitað hljóta sömu forsendur að gilda með utanríkisráðuneytið.

Í Mogganum var þetta um verktakakaupin í ráðuneytinu:

„Ögmundur segir að það hafi strax vakið athygli sína hvað upphæðirnar væru háar. „Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé nær að ráða fólk til þessara starfa, ef það er mat stjórnenda að ráðuneytið sé undirmannað,“ segir Ögmundur ...“

Nú rekur Ögmundur án efa upp stór augu og fer að „velta fyrir sér“ verktakagreiðslunum í Utanríkisráðuneytinu. Þó kann að vera að það þjóni sama tilgangi að pota í Samfylkingarliðið Össur/Ingibjörgu eins og í Sjálfstæðismanninn Guðlaug Þórðarson.

Það setur áhuga Ögmundar á verktakagreiðslum í allt annað ljós - og skýrara.

 


mbl.is Utanríkisráðuneytið greiddi 29 milljónir til verktaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„Þakkarvert“ að bætt skuli úr vanköntum

Ekki gátu fulltrúar minnihlutastjórarinnar í viðskiptanefnd Alþingis borið til þess gæfu að fara eftir reyndra manna ráðum. Ljóst er að frumvarpið um seðlabankann var einungis til þess að koma í pólitískum andstæðingi í burtu.

Jóhannes Nordal, fyrrverandi Seðlabankastjóri segir samkvæmt endursögn mbl.is að frumvarpið hafi í upphafi verið mjög af vanefnum gert. „Segir Jóhannes þakkarvert að meirihluti nefndarinnar hafi þegar lagt fram breytingartillögur sem bæti nokkuð úr alvarlegustu vanköntum þess.“ Nóg er líklega eftir samt.

Minnihlutaríkisstjórnin vildi ekki fá álit Alþjóða gjaldeyrissjóðsins á frumvarpinu og ekki heldur aðstoð frá Evrópu. Svo mikið liggur á að losna við Davíð Oddsson að betra er lélegt frumvarp en ekkert. augsjáanlega er betra að veifa röngu tré en öngu.

Maður gengur undir manns hönd til að leiðbeina þessari ógæfusamlegu minnihlutastjórn frá villum síns vegar, en það tekst illa. Verði þá það sem verða vill og spyrjum að leikslokum. Mín spá er sú að laga þurfi frumvarpið lengi og mun arla árið eða næsta duga.


mbl.is Af vanefnum gert í upphafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Karl súr fyrir hönd andstæðinga kvótans?

Hefði Karl V. Matthíasson sagt eitthvað ef Morgunblaðið hefði farið alfarið í hendur „lítils hóps talsmanna“ ESB aðilar.
Er ekki allt of snemmt að fara að spá í skoðanir kaupenda Moggans.

Hvaða tilgangi þjóna þessar vangaveltur mannsins? Er hann súr vegna þess að hann er hluti af litlum hópi andstæðinga kvótakerfis í sjávarútvegi?

Aðstæður hefðu örugglega verið aðrar hefði hann safnað liði og peningum og keypt Moggann. Eflaust hefði þá einhver annar þingmaður staðið upp og kvartað yfir ESB skoðun Karls og félaga hans.

Að minnsta kosti er allt of snemmt að tjá sig um skoðnir þessa fólk sem nú hefur keypt Moggann. Hver í ósköpunum segir að Mogginn eigi að verða einhver brjóstvörn fyrir kvótakerfið?

Fyrir mitt leyti fagna ég því bara að blaðið var ekki sett á hausinn. Til þess er það alltof mikilvægt fyrir þjóðmálaumræðuna hér á landi.


mbl.is Gagnrýnir kaup sjávarútvegsmanna á Morgunblaðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafi einhver verið í vafa þá er kreppan alþjóðleg

Dæmið um Royal Bank of Scotland, RBS, sýnir og sannar að alþjóðlega bankahrunið kom flestum í opna skjöldi. Eflaust hafa einhverjir verið svo naskir að sjá vandamál framundan en ljóst er að fæstum grunaði að umbreytingin yrði svona skörp.

Í júní 2008 var RBS talinn flottasti bankinn. Aðeins nokkrum mánuðum síðar hafði hann tapað nærri fjórum þúsund milljörðum íslenkra króna.

Allir hljóta að sjá að hrun bankanna hér á Íslandi var ekki nein tilviljun. Út um allan heim hrundum bankar og aðrir lentu í gríðarlegum vanda.

Munurinn var hins vegar sá að einhver maðkur virðist hafa verið í rekstri íslensku bankanna, útlán hafi verið ógætileg og fjármagnsþörfin gríðarleg. Þegar kreppan skall svo á lækkaði markaðsvirði eigna en skuldirnar stóðu óbreyttar eftir.

Það varð sína þjóðinni að fótakefli að bankarnir voru orðnir allt of stórir til að ríkissjóður gæti ábyrgst innlánin. Og því fór sem fór.

Ljóst er hins vegar að útilokað er að einfalda málin þannig að bankahrunið eða þau vandamál sem fylgdu sé hægt að kenna einum hérlendum manni um. Það er ber einfaldlega vott um dómgreindarskort.


mbl.is Mesta tap bresks fyrirtækis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framundan er stjórnleysi minnhlutaríkisstjórnar

Þegar þetta frumvarp er frá og orðið að lögum hefur minnihlutaríkisstjórnin ekki nokkurn einasta blóraböggul. Kannski hún fari nú að bretta upp ermarnar og láta verkin tala.

Hingað til hefur fátt eitt gerst sem ekki var verkefni fyrri ríkisstjórnar. Á næstu dögum má búast við því að stýrivextir Seðlabankans verði lækkaðir niður í 8%. Að sjálfsögðu mun minnihlutaríkisstjórnin hreykja sér af því og telja það afleiðing af eigin stjórnarstefnu. Það er þó aldeilis ekki svo því hún er ekki til. Og ekki heldur mun hægt að halda því fram að brotthvarf Davíðs Oddssonar úr stóli seðlabankastjóra eigi þarna nokkurn hlut að máli.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn mun ekki taka undir með minnihlutaríkisstjórninni heldur einungis halda því fram að sú stefna sem haldið hefur verið fram undanfarinna mánaða hafi gert þessa stýrivaxtalækkun mögulega.

Seðlabankinn er stjórnlaus. Einhver verður samt settur til bráðabirgða. Líklegast er að það verði Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra, og fyrrverandi formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins. Ágætur maður en hefur rétt eins og svo margir aðrir komið að málum fyrir og eftir hrun. Ef hann er hæfur þá eru margir aðrir hæfir, þar á meðal Davíð Oddsson.

Minnihlutaríkisstjórnin mun einnig ráða nýjan Seðlabankastjóra. Hann á að heita pólitískt hlutlaus en hann hefur aldrei verið það því nafn hans er Már Guðmundsson, gamall allaballi, en út af fyrir sig ágætur maður. Hins vegar er frekar ólíklegt að ráðning hans nái fram að ganga fyrir 25. apríl, nema minnihlutaríkisstjórnin ætli að troða honum í stólinn hvað sem hver segir og án tillits til þess hverjir aðrir sæki um.

Svona er verið að leika sér með Seðlabankann, eina mikilvægustu stofnun þjóðarinnar, rétt eins og hann sé einhver sjoppa sem þurfi skemmtilegri leikfélaga í lúguna.

Svo má búast við því að ríkisstjórnin verði á kafi í alls kyns pjattmálum, t.d. stjórnarskrárbreytingum, breytingum á kosningalögunum, ESB umræðustjórnmálum, hvalveiðimálum og álíka en gleyma efnahagsmálunum, atvinnuleysinu, rekstrargrundvelli fyrirtækjanna og öllu þessu sem skiptir máli fyrir tilvist sjálfstæðrar þjóðar.

Svo má búast við því að vandræði fari að segja til sín þegar yfirforsætisráðherrann kemur til starfa og „wannabe“ forsætisráðherrann kemst í prófkjörsham.

Já, framtíðin er björt, ekki satt.


mbl.is Seðlabankafrumvarp afgreitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Léttir að Óskar og félagar kaupi Moggann

Ekki er laust við að nokkur léttir fylgi því að hafa lesið þessa frétt. Morgunblaðið er þjóðareign og stór hluti af tilverunni fyrir flesta. úr því sem komið var held ég að betri eigendur hafi ekki verið fáanlegir en Óskar Magnússon og félagar.

Óskar Magnússon er reyndur maður í viðskiptalífinu. Hann hefur stjórnað stórum fyrirtækjum, er sjálfstæður og frumlegur, hefur aldrei verið taglhnýtingur eins eða neins. Ekki nema gott eitt má segja um þá sem eru með honum, Gísla Baldur Garðarsson, sem er afar fær lögmaður, Gunnar B. Dungal, sem átti og rak Pennan þar til fyrir nokkrum árum, Guðbjörg, Matthíasdóttir í Vestmannaeyjum, Pétur H. Pálsson í Vísi í Grindavík, Þorstein Má Baldvinsson margreyndan útgerðarmann og Þorgeir Baldursson í Odda.

Reina má með því að fleiri komi inn í þennan hóp þegar frá líður og Árvakur og Morgunblaðið nái aftur fjárhagslegum styrk.


mbl.is Þórsmörk kaupir Árvakur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fann Gunnar sömu möppuna?

Sagt er að Gunnar Örn Kristinsson hafi verið að blaða í sömu möppu og Magnús Gunnarsson hafði lagt frá sér daginn sem hann sagði af sér. Honum hafi hreinlega fallist hendur. En hvað var það í möppunni sem hrakti þá Magnús og Gunnar frá Nýja-Kaupþingi? Um það snýst umræðan og líklegt er að þeir fyrirvarandi muni ekki gefa það upp.

Gæti það verið minnisblað frá nýjum fjármálaráðherra þess efnis að bankaráðið ætti framvegis að bera þau atriði sem koma að stefnumörkun undir ráðherrann? Skyldi það vera svo að það sé vilji fjármálaráðherrans að formenn bankaráðanna séu framar öllu framlenging af valdi ráðherrans?

Gæti fleira hafa verið í möppunni eða er þetta nóg?

Í bankanum hafa verið gerðir þrír listar yfir fyrirtæki í viðskiptum við bankanna. Á einum listanum eru þau sem eru í lagi og bankinn ætlar að styðja við að óbreyttu ástandi. Á öðrum listanum eru þau fyrirtæki sem bankinn ætlar hugsanlega að styðja við að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um eignarhald og aukið eigið fé. Þriðji listinn er dauðalistinn.


mbl.is Gunnar Örn hættir í bankaráði Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlustuðu menn á Davíð án þess að heyra

Sumir hlustuðu á Davíð Oddsson í sjónvarpinu í gærkvöldi en tóku hreinlega ekki eftir því sem hann sagði. Tóku kannski bara eftir því sem þeir vildu heyra, - gleymdu öðru.

Eignarhaldsfélög í eigu stjórnmálamanna og annarra þekktra manna í þjóðfélaginu á að hafa fengið sérþjónustu í bönkunum, svona eins og Björn Ingi Hrafnsson í Kaupþingi. Hefði einhver annað orðað þetta og haldið því til dæmis fram að Birgir Ármannsson væri með óhreint mjöl í pokahorninu væri annað uppi á teningnum. Hins vegar var þetta „bara“ Davíð, og hann er nú svona og svona ...

Ummæli Davíðs þarf að skoða mjög nákvæmlega. Þar eru fjöldi fréttapunkta fyrir duglega blaðamenn sem nenna að haf eitthvað fyrir hlutunum. Þess í stað eru menn að velta sér upp úr því að Davíð hafi eitthvað verið að hnýta í spyrilinn.

Hvernig er það, greina menn ekki aðalatriðin frá aukaatriðunum?


mbl.is Gæti talist mútuþægni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru allar bjargir bannaðar gegn Bretum?

Maður skyldi það svo sem þegar lögfræðingar frá Bretlandi ráðlögðu ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að reyna ekki að höfða mál gegn breska ríkinu. Það hefði orðið mjög dýr, afar langvinnt og niðurstaðan langt frá því að vera borðliggjandi.

Formaður VG sagðist varla eiga til eitt einasta orð yfir þessari ákvörðun, svo vonsvikinn var hann. Svo gerist það að þegar hann sjálfur er kominn í ríkisstjórn er hætt við að stefna Bretum fyrir mannréttindastólnum. Þetta tilkynnti viðskiptaráðherra í erlendum fjölmiðlum en ekkert fréttist hérna heima.

Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur. Eitthvað hlýtur að standa gegn þessum dæmalausa gerningi bresku ríkisstjórnarinnar gegn Íslendingum. Nema því aðeins að Bretar hafi hótað eða lofað einhverju sem minnihlutaríkisstjórnin hefur ekki enn viljað upplýsa um.

Eða eru okkur allar bjargir bannaðar gegn Bretum.


mbl.is Veldur miklum vonbrigðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri þurfa að gefa kost á sér

Í jafnstóru kjördæmi og þessu hafa alltof fáir gefið kost á sér. Nauðsynlegt er að framlengja framboðsfrestinn og skora á fleiri góða menn að stíga fram.

Sjáflstæðisflokkurinn þarf á miklu meiri breidd að halda.

Við þurfum fleiri góða og snjalla menn til að taka þátt.

Mér líst vel á Kristján Þór Júlíusson, hann hefur aðeins verið tæp tvö ár á þingi og ætti því að teljast til þeirra sem mynda endurnýjaðan Sjálfstæðisflokk. Sama er með Tryggva Þór Herbertsson, mjög góður fagmaður. Þurfum nauðsynlega á honum að halda á þinginu.


mbl.is 10 í prófkjör D-lista í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landlausir Íslendingar vilja sönnun á eignarétti

Þetta er mikill misskilningur hjá Erni Bergssyni, formanni Landssamtaka landeigenda. Við sem eru landlausir Íslendingar viljum að það sé hafið yfir allan vafa hver sé eigandi lands. Sé staðan sú að enginn getur sannað eignarhald sitt á landi þá er það einfaldlega eign þjóðarinnar, ekki ríkisins.

Það var græðgisvæðing meintra landeigenda sem hratt af stað því erindi að kanna eignarhald á landi. Alþingi gerði rétt í því að samþykkja lög um þessi efni.

Hver getur átt fjöllin, björgin, tindanna, þar sem enginn hafði nokkra möguleika á nýtingu? Það getur bara ekki verið að landsvæði lengst inni í landi eða hátt yfir láglendi séu tvímælalaust eign þeirra sem það vilja. Ég vil einfaldlega fá úr því skorið. Ég sætti mig ekki við einhliða yfirlýsingu Arnar Bergssonar að hann eigi til dæmis Öræfajökul.

Því miður eru ágreiningsefnin fjölmörg út um allt land. Mér finnst það ekki til of mikils mælst að skorið sé úr þeim í eitt skipti fyrir öll. Það er líka tilgangurinn með starfsemi Óbyggðanefnda. Landeigendur verða bara að sætt sig við það.


mbl.is Í sárum eftir átök við ríkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margir óttast það það sem Davíð veit

Við eigum eftir að heyra fleira frá Davíð. Hann nefndi einkahlutafélög í eigu frammámanna í stjórnmálum og víðar sem hafi notið margvíslegra fyrirgreiðslu Kaupþings.

Það kom fram í fyrsta sinn í kvöld svo ég viti til að Davíð hefur orðið fyrir persónulegum árásum. Ráðist hefur verið á heimili hans, það grýtt og sprengjur sprengdar fyrir utan húsið til að valda honum og konu hans ónæði. Sömu aðilar og stóðu að þessum aðförum munu ekki víla það fyrir sér að ganga í skrokk á manninum.

Davíð á eftir upplýsa um fleira sem skiptir máli varðandi bankahrunið. Margir óttast það, vita upp á sig sök.

Í fjölmiðlum og bloggi hafa menn farið hamförum gegn Davíð, rétt eins og hann hefði skipulagt hrunið. Áróðurinn gegn manninum hefur veri dæmalaus. Hófst allt með skipulagðri aðför að mannorði mannsins árið 2003. Hin fræga Borgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur markaði upphafið.

Þá var sú einfalda og árangurríka stefna mörkuð innan Samfylkingarinnar að ráðast á vegginn þar sem han er hæstur. Með öðrum orðum gera formann Sjálfstæðisflokksins tortryggilegan. Það tæki sinn tíma, sögðu skipuleggjendurnir, en það skilar sér í minna og minna fylgi flokksins og þar með betra gengi Samfylkingarinnar.

„Við þurfum bara að starta herferðinni og innan skamms gengur hún eins og eilífðarvél,“ sagði helsti PR maður Samfylkingarinnar. Hann hafði rétt fyrir sér.

Davíð hefur aldrei síðan fengið nokkurn grið.


mbl.is Fjármagnsflutningar Kaupþings höfðu mikil áhrif á Bretana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjall maður gefur kost á sér

Ég styð Óla Björn Kárason í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi. Því miður er ég ekki búsettur þar en mun hvetja alla sem ég þekki til að kjósa hann í 4. sætið.

Hvers vegna?

Óli Björn er skynsamur maður. Hann hefur mikla þekkingu á efnahags- og viðskiptalífinu. Munurinn á honum og mörgum öðrum góðum mönnum er að hann hefur hugmyndir og tillögur til úrbóta. Hann er frumkvöðull en ekki sporgöngumaður, með fullri virðingu fyrir slíkum.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf núna á því að halda að almennir flokksmenn standi upp og taki yfir. Nauðsynlegt er að nýtt fólk taki sæti á þingi fyrir flokkinn, fólkið sem hingað til hefur setið tiltölulega hljótt hjá. Tími þess er kominn ef svo má segja.


mbl.is Óli Björn óskar eftir 4. sæti hjá sjálfstæðismönnum í SV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

You aint seen nothing yet, segir ráðherrann við Höskuld

Það fór sem mig grunaði . Nú eru menn lagðir af stað í að berja á Höskuldi Þórhallssyni, framsóknarmanni, fyrir þá sök eina að vilja skoða málið af sjónarhóli ESB.

Össur er bara fyrstur. Hann fer óvenju rólega í málin en ekki fer á milli mála hvað hann á við um helvítið hann Höskuld. „You aint seen nothing yet“, segir ráðherrann og glottir út í vangaskeggið.

Síðan verður bloggurunum sigað á þingmanninn. Allir munu þeir líta framhjá þessu með „eigin sannfæringu“ þingmanna vegna þess að það hentar ekki í þetta sinn. Uppnefndur og mun ekki eiga sér uppreisnar von í náinni framtíð. Til þess er líka leikurinn gerður, að maðurinn haldi sig á þeirri mottu sem búið var að setja hann á.


mbl.is Höskuldur í háskaför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyldi minnihlutastjórnin nú vaða í Höskuld

Andrúmsloftið á fundi viðskiptanefndar Alþingis er án efa þrúgandi fyrir Höskuld Þórhallsson. Nefndarmenn minnihlutastjórnarinnar sitja á sér en vildu gjarnan vaða í Höskuld og taka hann til bæna, en þora ekki.

Sjálfstæðismennirnir fjórir njóta stundarinnar og bíða þess sem verða vill.

Það sem gerist næst er án ef að minnihlutastjórnin lætur formann nefndarinnar afgreiða álitið, verða þá til meirihluti og minnihluti. Þessu næst heimtar stjórnin þingfund og frumvarpið verður afgreitt sem lög frá Alþingi. Davíð Oddsson hættir. Viku síðar verður gerð breyting á lögunum um Seðlabankann, byggt á skýrslunni frá ESB.

Nema því aðeins að menn vilji gera hlutina vel og fari nú að lesa tillögur nefndar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um regluverk á fjármálamörkum. Hver veit hvað gerist þá?


mbl.is Ekki rætt um Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímabil boðbera slæra tíðinda er liðinn

Er eitthvað ósagt um stöðu ríkissjóðs og þjóðarinnar? Hversu lengi ætla menn að tönglast á hinum dökku framtíðarhorfum og fara að gera eitthvað í málunum.

Gylfi Magnússon var lengi boðberi slæmra tíðinda. Eflaust sá hann allt hrunið fyrir. Hins vegar er kominn tími til að taka á atvinnuleysinu, líta til með bönkunum sem eru að setja góð fyrirtæki á hausinn með því að neita þeim um fyrirgreiðslu, sinna verðmætasköpun í landinu. Verkefni boðberans er liðinn.

Verst er að þegar sá sem á að kallas ráðamaður er staðnaður í hlutverki sínu, heldur áfram að mála skrattann á vegginn í stað þess að blása þjóð sinni þor og kraft í brjóst.

Tími uppbyggingar á að vera hafinn. Vonandi hefur það ekki farið framhjá viðskiptaráðherranum.


mbl.is Dökkar horfur, segir ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband