Bloggfærslur mánaðarins, desember 2023

Ójafnvægið sem veldur hlýnun jarðar

„It’s freezing í New York - where the hell is global warming?“ sagði Donald Trump meðan hann var forseti Bandaríkjanna. Sumir landsmenn hans hlógu honum til geðs, aðrir hlógu vegna grunnhyggni mannsins sem jafnan talar án þess að íhuga málavexti.

Hérlendir spámenn hafa oftsinnis bent á snjóinn úti og fullyrt hæðnislega að hlýnun jarðar sé tóm vitleysa. Aðrir hafa sagt að koltvíoxíð geti varla verið slæm fyrir umhverfið því ljóstillífun gróðurs breytir því með vatni í sykrur og súrefni.

Upphrópanir eiga sjaldnast neitt sameiginlegt með rökræðum. Þeir sem hæst hrópa og eru sennilegastir ná oft miklu meiri árangri en þeir sem vanda sig og feta sig orðmargir að kjarna málsins. Þeir sem ekki lesa fjölmiðla eða bækur grípa óvandaðar fyrirsagnir og gera þær að sínum. Fyrirsagnahausar hafa oft hátt.

Júlíus Sólnes fyrrverandi prófessor ritar afar merkilega grein í Morgunblað dagsins. Hann segir, þvert á það sem margir hafa fullyrt, að varhugavert sé að túlka hærra hitastig jarðar sé af völdum sívaxandi losunar koltvíoxíðs. Júlíus og fjöldi annarra vísindamanna sem hann nefnir vilja fara aðra leið.

Kjarni málsins í grein Júlíusar er þessi:

Geim­vís­inda­stofn­un Banda­ríkj­anna, NASA, hef­ur nú um 40 ára skeið mælt orku­strauma sól­ar og jarðkerf­is­ins inn og út úr gufu­hvolf­inu með gervi­tungl­um sín­um og geislamæli­tækj­um, rétt fyr­ir ofan loft­hjúp jarðar.

Jarðkerfið fær lang­mest­an hluta þeirr­ar orku (99,98%) sem ger­ir jörðina byggi­lega frá sól­inni. Ársmeðaltal ork­unn­ar sem við fáum frá sól­inni er 340 W/m2 (vött á fer­metra) miðað við allt yf­ir­borð jarðar (510,072 millj­ón fer­kíló­metr­ar).

Til þess að lofts­lag á jörðinni hald­ist stöðugt, verðum við skila sömu orku til baka út í geim­inn. Ef við skil­um minni orku en við fáum frá sól­inni, hleðst hún upp í jarðkerf­inu, það hlýn­ar. Ef við skil­um meiri orku til baka, kóln­ar. Þetta er ein­föld eðlis­fræði.

Þetta er ekki aðeins eðlisfræði heldur einfalt bókhald. Hvað verður svo um þessa orku sem hleðst upp í jarðarkerfinu ár hvert?

Júlíus vitnar í síðustu ástandsskýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftlagsmál. Þar kemur þetta fram:

  • Um 91% umframorkunnar fer í að hita upp heimhöfin
  • Um 3% fara í að bræða ísinn á Grænlandi, Suðurskautslandinu og landjökla jarðar
  • um 5% hitar upp þurrlendi jarðar
  • um 1% hitar upp andrúmsloftið.

Þetta eru stórmerkilegar upplýsingar og Júlíus lýkur grein sinni með þessum orðum:

Þótt ekki sé hægt að nota hita­mæl­ing­ar sem vís­bend­ingu, er hlýn­un sjáv­ar og orkuó­jafn­vægið skýr vitn­is­b­urður um hnatt­ræna hlýn­un, sem ekki er hægt að skýra nema með auknu magni gróður­húsaloft­teg­unda í loft­hjúp jarðar. Hana ber að taka al­var­lega og grípa til viðeig­andi ráðstaf­ana.

 

 

 


Déskotinn ...

Ég var fyrsti maðurinn í Ríkið þennan Þorláksmessumorgun þegar aðventan reyndi af veikum mætti að lýsa upp skammdegismorguninn. Auðvitað vildi ég gera mitt til að gera tilveruna bjartari.

Gekk því út í rökkrið með nokkra bjóra í fanginu og rándýra koníaksflösku. Áður en ég bakkaði út úr stæðinu smellti ég einum bjór opnum með annarri hendi, „með einari“ eins og við strákarnir segjum stundum. Munaði ekkert um það. Snjall, hugsaði ég og glotti eins og Skarphéðinn forðum í brennunni. Hjá mér var önnur glóð sem ég hugsaði gott til.

Ég bakkaði og ók síðan áfram en komst ekki út. Þar sem ég hafði ekið inn kom bíll á móti mér og að auki var þarna bannskilti; Útakstur bannaður. Ég glotti eins og Skarphéðinn í liðsbón á Þingvöllum. Umsvifalaust beygði ég til hægri og það ískraði næstum því í dekkjum. Flott.

Við hitt hliðið biðu nokkrir bílar eftir að komast út. Ég teygði mig í bjórinn og var kominn með hann að vörunum þegar ég tók eftir mótorhjólalöggumanni með hvítan hjálm sem stóð við fremsta bílinn.

Hvað í fjandanum er löggan að gera? hugsaði ég með mér. Ofurnæmur skilningur minn á aðstæðum var slíkur að svarið var lá mér í augum uppi. Varlega lagði ég bjórinn frá mér í flöskuhólfið á milli sætanna, setti húfuna mína ofan á og svo hann sæist nú ekki. Svo opnaði ég alla glugga til að lofta út gufunni úr bjórnum sem ég hafði opnað.

Löggan var með eitthvað tæki og otaði því að mér.

Hvað er þetta, spurði ég áhyggjufullur.

Það kemur í ljós, sagði löggan og brosti feimnislega. Blástu.

„Má ég ekki bara koma síðar, spurði ég. Því þegar þarna var komið sögu sá ég dálítið eftir því að hafa burstað tennurnar í morgun upp úr vodka, en þá hafði mér fundist það alveg rosalega fyndið. Andremman sem fylgdi var hins vegar ekki góð. Ég át því piparkökur frá Bónusi í morgunmat til að eyða bragðinu.

Löggan hló og hélt ég væri að gera að gamni mínu.

Sko, ég verð örugglega betur upplagður á morgun, fullyrti ég.

Ha, ha, ha. Löggan hló innilega.

Ég blés og reyndi að velja skársta loftið úr lungunum en það misheppnaðist.

Heyrðu nú góði, sagði löggan, þegar tækið pípti. Röddin breytti um tón, hætti að vera föðurleg, og nú var hann eins og kennari sem komst að því að ég hafði ekki lært heima. Hann hló ekki lengur og brosti ekki heldur.

Viltu gjöra svo vel og stíga út úr bílnum? Svo mikill mannþekkjari er ég að ég áttaði mig nokkuð skjótt á því að þetta var ekki spurning.

Ég horfði á lögguna. Fann að haka seig.

Löggan horfði á mig. Gleðilaust.

Ég gaf í. Rúllaði upp öllum gluggum. Saug upp í nefið. Gerði þetta þrennt án þess að fipast. Bíllinn hökti fyrst en náði samt að komast áfram og ég ók á fullri ferð út úr bílastæðinu, upp næstu götu til austurs, niður þar næstu og svo til vinstri og þá hafði ég farið í hring, kominn aftur að hliðinu þar sem ég hafði ekið út án þess að kveðja kátu lögguna. Sá á eftir lögguhjólinu á leið upp götuna sem ég hafði ekið. Auðvitað myndi hann ekki vita að ég væri kominn aftur á sama stað.

Déskoti hvað ég er klókur, hugsaði ég, kveikti á græjunum og hlustaði á Va, pensiero, Þrælakórinn úr Nabucco eftir Verdi, þenja raust sína. Ég hækkaði og ók aftur sömu leið og ók eins og hinir, var bara rólegur. Kórinn fyllti bílinn. En uppi á horni beygði ég í vestur og saup á bjórnum. Hann var kaldur og góður. Snillingur þessi Verdi. Del Giordano le rive saluta ... söng kórinn.

Nokkru síðar heyrði ég í sírenu löggubíls. Blá, blikkandi ljós langt fyrir aftan mig. Ég svínbeygði til hægri og fyrir stóran vörubíl sem flautaði á mig og ljótur bílstjórinn sendi mér illt auga. Mér var alveg sama, ég hægði ferðina mikið og sendi honum fingurkveðju út um hliðargluggann. Ljótur bílstjórinn þeytti eimpípurnar og var alveg kominn upp að mér að aftan. Ég hafði búist við þessu. Nú skyggði vörubíllinn á mig svo löggan sá mig ekki enda ók hún á fullri ferð vestur. Bjánar. Áttu ekkert í mig. ... O mia Patria, si bella e perduta!  ... Þvílík fegurð og ég trallaði með.

Ég yfirgaf félagsskap vörubílsins, gaf í og ók sem byssubrendur á eftir löggunni. Þessu býst enginn lögga við, að fulli kallinn aki á eftir henni í eftirleitinni. Þarna var ég eins og hann Arnes útilegumaður sem leitað var að í Akrafjalli á 18. öld. Hann hafði slegist í hóp leitarmanna og hjálpaði þeim að leita að sjálfum sér og gekk það eðlilega frekar illa. Enginn áttaði sig á klókindum Arnesar né heldur áttaði löggan sig á mínum.

Ég gaf í og fylgdi löggunni á þeysireið hennar í vestur. Þá varð mér litið í baksýnisspegilinn. Déskotinn. Fyrir aftan mig glömpuðu blá ljós og nógu skarpur var ég til að átta mig á að það voru engin jólaljós. Ég skipti eldsnöggt um akrein og bláu ljósin fylgdu. Dé...

Þetta hlýtur að vera tilviljun, hugsaði ég. Opnaði annan bjór „með einari“, saup á honum og fann að mér óx ásmegin. Ég get allt. Er mestur og bestur. Gatnamót voru framundan. Með bjórinn í hægri hendi beygði ég til vinstri, bíllinn tók vel við, í dekkjunum ískraði þegar hann skrensaði á blautu malbikinu, svona alveg eins og í bíómyndum. Í baksýnisspeglinum sá ég að löggan elti mig ekki, hún fjarlægðist, og ég sem af öllum háska hlæ, gaf í. Bíllinn þeyttist áfram og beint í fangið á kyrrstæðum strætó sem á óskiljanlegan hátt beið á rauðu ljósi. Ég fór ekki lengra þennan daginn nema ef verið gæti að ég hafi farið til himna. Til baka kom ég, man ekki hvort ég hafi verið rekinn vegna drykkjuskapar eða farið sjálfviljugur enda allt eins líklegt að þar hafi verið löng biðröð eins og eftir kóvid skimun. Skipti engu máli. 

Verst þótti mér að ég hafði misst bjórinn og hann sullaðist út um allan bíl. Ég man svo glöggt eftir suðinu sem kom úr sprungnum bjórdósum á á gólfinu.

... che ne infonda al patire virtù! Þrælakórinn lauk söng sínum.

Déskotinn ... man ég að mér varð á orði, þegar ég sá bjórinn freyða á gólfinu. Skyldi koníakið vera óbrotið?

En þá vaknaði ég.

Sá að sængurverið var rifið. Lampinn lá brotinn á útvarpinu sem suðaði. Gluggatjöldin voru komin upp í rúm og ég hafði migið á mig.

Déskotinn.


Tví-svala-jóla-kveðjur mínar eru jólalegri en síbylja Ríkisútvarpsins

Í morgun gekk ég út á svalir, eins og ég geri jafnan árla á Þorláksmessu, dró nokkrum sinnum djúpt andann, og hrópaði síðan af öllum kröftum:

Sendi ættingjum og vinum hugheilar óskir um gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár. Þakka allt á árinu sem er að líða.

Svo beið ég í dálitla stund þangað til svörin bárust:

Já, sömuleiðis, gleðileg jól, kallaði einhver.

Haltu kjafti, helv... þitt. Fólk er að reyna að sofa hérna, öskraði rámur kall.

Ha ..., kaseiru? hrópaði skræk kona.

Hundur gelti, annar tók umsvifalaust undir og köttur mjálmaði. Nagladekk skröltu á íslausu malbiki.

Ég gekk inn í stofu, nennti ekki að hlusta á hundgá, jafnvel þótt fyrr eða síðar myndi hundur sonar míns, hann Fróði (sko hundurinn heitir Fróði ekki sonurinn) hugsanlega gelta, mér eða einhverjum öðrum til ánægju.

Engu að síður velti ég því samt fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að senda jólakort eða tölvupóst. Hrópin á svölunum hef ég hins vegar stundað á Þorláksmessu frá því ég var barn og með því sparað mér ótrúlegar fjárhæðir í kaupum á jólakortum og frímerkjum. Og allir gleðjast yfir gleðilegjólaogfarsæltnýttárhrópum mínum (nema þessi rámi).

Jólakveðjur útvarpsins

útvarpNú kann ábyggilega einhver að misskilja mig og halda að ég sé að gagnrýna rúmlega hálfra aldar gamlan sið að senda jólakveðjur á gufunni Ríkisútvarpsins. Skil ekki hvernig hægt er að finna það út.

Úr því að verið er að brydda upp á þessu, man ég aldrei eftir að hafa heyrt jólakveðju til mín á gufunni eða einhvers sem ég þekki og aldrei hef ég kannast við nöfn þeirra sem senda kveðjur. Sendendur eru alltaf einhverjir sem enginn þekkir, til dæmis „Stína, Barði, börnin“ og fleiri sem ég man ekki hvað heita enda enn fleiri kveðjur þetta árið en í fyrra. Það bendir eindregið til þess að fleiri og fleiri láta Rúvið plata sig. 

Sko, ég held því síst af öllu fram að kveðjurnar séu ómarkviss vitleysa fyrir kaupendur (og hlustendur).

Á kaffistofunni er því haldið fram að kveðjurnar séu að mestu leyti skáldaðar af starfsmönnum  Ríkisútvarpsins. Óneitanlega er það grunsamlegt hversu kveðjurnar eru allar keimlíkar.

Í þeim koma fyrir fyrir orðin óskir, jól, gleðilegt, þakkaár, nýttlíða og svo kryddað með innihaldsríkum samtekningum og forsetningum af ýmsu tagi. Nokkuð til í þessu.

Nú má vel vera að enginn sendi mér jólakveðju í útvarpinu, sem í sjálfu sér er dálítið sorglegt. Hitt er þó jafn líklegt að útilokað sé að hlusta með einbeittri athygli á yfir fjögur þúsund jólakveðjur lesnar í belg og biðu í tvo daga samfleytt og ná að grípa þá réttu. Hreint útilokað. Vonlaust. Óraunhæft. 

Ríkisútvarpið græðir

Aðferðafræðin er doldið kjánaleg, svona markaðslega séð. Og enn vitlausari eru þeir sem punga út fullt af peningum til að senda kveðjur sem aldrei rata til móttakenda.

Margir nenna ekki lengur að hlusta á jólakveðjurnar sem er synd, illa farið með góða sorg sem óhjákvæmilega til verður þegar ekki næst að grípa kveðju sem maður vonar að hafi verið send en fór aldrei í loftið. Þó eru margir með gufuna opna og hlusta á kveðjurnar sem í síbylju hverfa út í algleymið meðan verið er að baka, pakka inn jólagjöfum, berja krakkanna eða eitthvað annað þarflegt. Það er nú svo agalega jólalegt. Ha? Ekki satt?

Hitt er ku vera dagsatt að Ríkisútvarpið græðir tæplega tuttugu milljónir króna á tiltækinu og kostar engu til nema þulunum sem þylja sig hása. Útvarpsstjórinn las í fyrra í tvær mínútur meðan teknar voru hreyfimyndir og ljósmyndir af honum við þessa iðju og svo fór hann heim. Allir hinir eru þegar á launaskrá svo kostnaðurinn er enginn. Bara tekjur. Stórbissniss.

En bíddu nú aldeilis við, kæri lesandi.

Í anda samkeppni og þjóðþrifa mun ég frá og með deginum í dag og fram yfir áramót bjóða landsmönnum að hrópa hjartnæmar jóla-, annaníjóla-, þriðjaíjóla-, fjórðaíjóla ... (og svo framvegis) og nýjárskveðjur af svölunum heima.

Rafræna tómið 

Svo vel hefur tekist til á undanförnum árum að þetta er að verða siður, svo óskaplega jólalegur jólasiður um jólin. Spyrjið bara alla þá sem sendu og fengu kveðjur í fyrra, hitteðfyrr, þarhitteðfyrra, þarogþarogþarhitteðfyrra. Heimtur á kveðjum eru margfalt betri hjá mér en Ríkisútvarpinu, hjá því hverfur allt út í rafrænt tómið á bak við hringi Satúrnusar. 

Verðið er miklu betra en hjá Ríkisútvarpinu, heilum 17,523% lægra. Og það sem meira er: Komist kveðja sannanlega ekki til skila fær kaupandinn 33,9% endurgreiðslu. Keppinauturinn getur sko ekki toppað þetta og mun ekki einu sinni reyna það.

Fyrst nú er verið að misskilja viljandi tilganginn með þessum skrifum mínum vil ég nefna þá staðreynd í fullkominni vináttu, kurteisi og virðingu og aðdáun fyrir hefðum fólks að það er ábyggilega ódýrara og markvissara að hrópa kveðjur af svölunum en að borga Ríkisútvarpinu fyrir að lesa þær út í rafræna tómið sem áður var nefnt og er að auki umhverfislega stórhættulegt og um síðir getur valdið ólæknandi veirusjúkdómum eins og dæmi síðustu ára sanna.

Eða heldur þú, lesandi góður, að Kóvid veiran hafi bara orðið til úr engu? Í Kína? Ó nei. Ekki aldeilis. „Á skal á endanum vaða“, eins og kellingin sagði. Eða hvers vegna mun yfirborð sjávar hækka um fimm sentímetra á næstu þrem árum og veiran stökkbreytast? Ég bara sper.

Gasalega jólalegt

Já, það má vel vera að Ríkisútvarpið reyni að klekkja á mér, samkeppnisaðilanum (aðili er svooo fallegt orð), með því að láta útvarpsstjóra bregðast við (og verða þá „viðbragðsaðili“) lesa jólakveðjur í tíu mínútur. Kemur nú krókur á móti þessu bragði og mun ég breyta um rödd í tíu mínútur og þykjast vera forsetinn (landsins, Trump eða kóngurinn í Lúxúmbúrg eða einhver annar).

Þá hrekkur þetta eflaust upp úr lesandanum:

En það er svo gasalega jólalegt að hlusta á jólakveðjulesturinn á gufunni.

Já, því skal ég nú trúa. Það er líka obbbbb-ooooðs-leeeeeg-aaaa-a jólalegt að tala til þjóðarinnar úti á svölunum mínum á Þorláksmessu-, aðfangadags- og jóladagsmorgni. Þar að auki hef ég tvennar svalir, í austur og suður. Toppaðu það, þú þarna útvarpsstjóri!

(Vilji svo til að einhver óglöggur lesandi telji sig hafa lesið ofangreindan pistil á Þorláksmessu á síðasta ári skal það fyrirfram dregið í efa vegna þess að fólk man ekkert stundinni lengur.)


Er sá mótmælandi sem beitir ofbeldi?

„Manni ofbýður aðgerðarleysi stjórnvalda og það er það eina sem drífur mann í svona beina aðgerð. Ég er rosa fegin að hafa getað óskað honum gleðilegra jóla,“ segir Katrín Harðardóttir mótmælandi í samtali við Vísi.

Er ofbeldi alltaf réttlætanlegt? En er það stundum réttlætanlegt? Hvenær er það réttlætanlegt og hvenær ekki?

Þessar spurningar leita á mann þegar fréttir berast af því að Katrín Harðardóttir mótmælandi hafi ráðist að utanríkisráðherra og hellt yfir hann einhverju rauðu dufti sem kallað er glimmer. Er það ekki ofbeldi? 

Er líklegt að sá sem verður fyrir ofbeldi breyti um skoðun og fari að vilja ofbeldismannsins?  

Sautján manna hópur réðst fyrir sléttu ári á tvo menn í veitingahúsi í Bankastræti, barði þá til óbóta og annar þeirra var stunginn með hnífi. Þeim hafði ofboðið eitthvað sem tvímenningarnir höfðu gert.

Í ágúst kveiktu glæpamenn í bíl lögreglumanns. Þeim hefur líklega ofboðið starf mannsins.

Í september síðast liðinn réðust menn á útlending sem sótti ráðstefnu á vegum Samtakanna 78. Ljóst má vera að þeim ofbauð að kynhneigð ráðstefnugestsins var önnur en þeirra.

Eru einhverjar líkur á því að þeir sem urðu þarna fyrir ofbeldi hafi látið segjast? Samþykkt það sem ofbeldismennirnir vildu? Nei.

Getur smávægilegt ofbeldi stigmagnast og enda með limlestingum eða dauða?

Prófessorinn í bandaríska háskólanum tók upp byssu og skaut á samstarfsmenn sína af því af hann fékk ekki stöðuhækkun sem hann vildi.

Frakkinn greip hníf og lagði til fólks úti á götu af því að hann vildi hefna fyrir stuðning franskra stjórnvalda við morðæði Ísraela á Gaza.

Í New York ætlaði rithöfundurinn Salman Rushdie að flytja ræðu um Bandaríkin sem griðarstað fyrir rithöfunda úr öðrum löndum. Bandaríkjamaðurinn Hadi Matar stakk Rushdie margsinnis, meðal annar í hægra augað. Ástæðan var einfaldlega gagnrýni Rushdies á Islam og bók hans Sálmar Satans.

Ofbeldismaður réttlætir valdbeitingu sína, heldur að hún breyti tilverunni til hins betra. Það gerist aldrei. Blóð réttlætir ekkert.

Mér ofbýður ofbeldi Katrínar Harðardóttur mótmælanda. Hún réttlætir gerðir sína rétt eins og aðrir ofbeldismenn. Í sannleika sagt er enginn munur á ofbeldi annar en stigsmunur. 

Manni ofbýður aðgerðarleysi stjórnvalda og það er það eina sem drífur mann í svona beina aðgerð.

Þetta segir mótmælandinn í viðtali við Vísi. Hann réttlætir ofbeldið rétt eins og aðrir ofbeldismenn.

Svo er það siðferðilega spurningin: Hvenær verður mótmælandi að ofbeldismanni?

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband