Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2021
Á sunnudagsmorgni er mbl.is þunnur og án frétta
29.8.2021 | 11:05
Vefútgáfa Moggans virðist vera orðin að einhvers konar kjaftaútgáfu, engar fréttir því alvörublaðamennirnir fá að sofa út og krakkarnir fá að leika. Aðalfréttin er úr helgarblaðinu. Og svona eru fyrirsagnirnar um klukkan tíu á sunnudagsmorgni:
- Er hann þá eins og Einstein
- Slökkviliðið vill að fólk njóti dagsins í dag
- Níu ára fékk að lita á sér hárið
- Tvífari Cardi B gerir allt vitlaust
- Goðafoss falinn í strikamerki skyrs ...
- Eldhústrixið sem þig hefði aldrei grunað að virkaði
- Útsaumaður risasófi ...
- Veður
- Erfir fólk í sambúð hvort annað
- Stórstjarna í París gegn vilja sínum
- Löggufréttin
- Að vera í búrleskhópi snýst ekki bara um að fara úr fötunum
Sem sagt ekkert í fréttum hjá Mogganum, allir sofandi.
Á Vísi virðist ýmislegt í frásögur færandi:
- Þúsundir flýja fellibylinn Idu sem eflist hratt
- Icelandair hættir flugi til Vestmannaeyja
- Telja miklar líkur á annarri hryðjuverkaárás
- Delta tvöfaldaði líkur á sjúkrahúsinnlögnum
Á vefsíðu Ríkisútvarpsins er einnig margt í fréttum:
- Búist við versta fellibylnum frá miðri 19. öld
- Vara við trúverðugri hótun í Kabúl
- Hætta flugi til Vestmannaeyja um mánaðamót
- Dæmd til að bæta syni fyrir að henda kláfsafni hans
- Óafturkræft óleyfilegt jarðrask segir Umhverfisstofnun
- Lilja ætlar að óska eftir skýringum frá KSÍ
- Aðaláherslan var ekki á bringuna
Og jafnvel á vefsíðu Fréttablaðsins er sagt frá fjölmörgu athyglisverðu:
- Tæknideild lögreglunnar rannsakar vettvang á Egilsstöðum
- Bretar hætta að flytja fólk frá Kabúl
- Leghálssýni flutt til Hvidovre vegna alvarlegra gæðavandamála KÍ
- Hraðpróf framkvæmd í nýrri skimunarmiðstöð í Kringlunni
- Alls 66 innanlandssmit ...
- Opna áfallamiðstöð eftir atburðinn á Egilsstöðum
- Níu ára strákar grýttir og lamdir með járnröri
- Danir segja Covid ekki lengur ógn við samfélagið
- átta hafa sótt um bætur í kjölfar bólusetningar
Í DV er frétt sem hvergi hefur birst annars staðar og er fyrirsögnin: Manndráp til rannsóknar. Stuttu síðar virðast allir blaðamenn á vakt hafa lesið frétt DV og birt sömu fréttina nærri því orðrétt.
Ýmislegt að frétta í dag þó Mogginn standi sig illa og segi okkur að ekkert sé að gerast í heiminum nema að níu ára krakki hafi fengið að lita á sér hárið, tvífari einhverrar útlendrar stelpu sé að gera allt vitlaust og nokkur heimilisráð og sófafrétt. Þetta er auðvitað engin blaðamennska.
Svona hversdags finnst manni Mogginn vera ábyrgur og góður fréttamiðill. Um helgar breytist hann hins vegar í Alt for damene. Ekki misskilja, þetta er ekki sagt konum til lasts.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú má kjósa með blýöntum
13.8.2021 | 14:08
Kosningar til Alþings fara fram 25. september 2021 og getur kosning utan kjörfundar hafist föstudaginn 13. ágúst 2021.
Þannig tilkynnir Dómsmálaráðuneytið um merkisatburð í lífi þjóðar. Á einhverjum fjölmiðlinum var viðtal við sýslumann sem sagði hann að nú væru notaðir blýantar en ekki stimplar til að merkja við þann stjórnmálaflokk sem kjósandi vill greiða atkvæði.
Þvílík tækniþróun. Mann svimar. Hvað skyldi nú gerast næst?
Ég er nú enginn spámaður en gæti sem best trúað því að á næstu árum tækju yfirvöld í notkun sjálfblekunga eða jafnvel kúlupenna.
Sko, í Bandaríkjunum eru víða notaðar vélar sem gata kjörseðilinn í stað þess að maður þurfi að brúka blýant. Vel má vera að slíkar vélar verði einhvern tímann í framtíðinni fluttar hingað til lands. Það væri nú aldeilis munur að þurfa ekki að nota blýant.
Vel má vera að einhvern tímann í fjarlægri framtíð myndu bókstafir verða felldir niður sem tákn stjórnmálaflokka. Hugsið ykkur tæknina þegar maður getur notað bírópenna á kjörseðil og exað við nafn flokksins, ekki bókstafinn, sem þó er ekki fyrsti stafurinn í nafni hans.
Já, tæknin þróast og breytist hraðar en snigillinn ferðast.
Svo er það hitt að ég er eiginlega hættur að fara í banka. Með sömu tölvunni og ég skrifa þennan pistil get ég greitt reikninga, millifært peninga til Jóns og Gunnu, keypt vörur frá útlöndum, tekið við greiðslum héðan og þaðan. Þó getur Skatturinn skoðað bankareikninga fólks gruni hann það um eitthvað misjafnt. En, og takið eftir, starfsmennirnir þurfa ekki einu sinni að standa upp úr hægindastólum sínum. Fólk er rannsakað, ákært, dæmt og fangelsað af fólki sem situr hreyfingarlaust á rassinum.
Sú hugmynd hefur komið upp að banna peningaseðla og myntir og láta fólk nota debet- eða kreditkort í staðinn. Þá væri nú veruleg þrengt að glæpahópum.
Á meðan tekur sýslumaðurinn í notkun blýanta við utankjörstaðakosningu og kemur stimplunum fyrir í geymslunni ofan í kjallaranum. Og hann hælir sér af tækniþróuninni.
Bankarnir sjá til þess að enginn steli af bankareikningum fólks.
En ætli ég að kjósa þarf ég að fara í eitthvert hús við tiltekna götu. Bíð í röð. Sýna persónuskilríki. Fá í staðinn áprentað pappírsblað og blýant. Fara í felur með hvort tveggja. Skrifa ex við staf sem táknar stjórnmálaflokk. Koma úr felum. Horfa í augun á fimm manns sem stara á mig grunsemdaraugum. Fá að stinga blaðinu í rauf á brúnum krossviðskassa. Hundskast út. Úff ...
Löggan flytur kassann á milli húsa. Þar er innsiglið rofið, hvolft úr honum og fullt af fólki tekur blöðin, atkvæðaseðlanna, og telur þá. Aðrir raða þeim eftir því hvar exin standa og þá eru þau aftur talin. Niðurstaðan er borin saman við fjölda þeirra sem kosið hafa og allt verður að stemma. Um miðja nótt eða snemma morguns er sagt frá því hvernig atkvæði féllu. Nýjustu tölur frá Austurbæjarskóla ...
Á meðan er mikið stuð í heimahúsum og á veitingastöðum. Einhverjir drekka munngát og skemmta sér. Aðrir leggjast til svefns í þeirri fullvissu að úrslitin verði kunn daginn eftir.
Væri hægt væri að greiða atkvæði í tölvu gætu úrslitin verið ljós klukkan 22 er kosningu lýkur. En það má ekki því það er svo gaman að bíða eftir úrslitum, halda partí og drekka. Þetta kallast félagsleg réttlæting á partíum og skemmtunum í kosningum. Og er sagður jafn lýðræðislegur réttur og að exa með blýanti.
Svo er sagt að ekki sé hægt að tryggja að tölvugreidda atkvæðið sé frá mér komið en ekki einhverjum öðrum. Og svo geta rússneskir glæpahópar eyðilagt kosninguna. Og hvað með endurtalningu? Hver eru frumritin? Ó, þetta er allt svo flókið.
Sem sagt. Peningar eru öruggir á bankareikningum en atkvæðagreiðsla til þings, sveitarstjórnar eða forseta getur endað í tómu rugli sé tölva notuð. Ja, hérna.
Ég get svo sem svarað í stað Bjarna Benediktssonar
9.8.2021 | 10:52
Forystumenn í stjórnmálum bera enga ábyrgð á því sem flokksmenn þeirra segja og skiptir engu hvaða stöðu þeir kunna að gegna. Sumir eru nefndir leiðandi menn innan stjórnmálaflokks en þannig nafngiftir eru afar villandi og jafnvel heimskulegar.
Langar aðsendar greinar eru til mikils ama fyrir lesendur Morgunblaðsins. Því miður nenna fáir að lesa þær ekki síst ef millifyrirsagnir vantar. Einn af þeim sem reyna þannig á þolinmæði okkar, lesenda Moggans, er maður sem heitir Ole Anton Bieltvedt, mikill ESB sinni sem á þá ósk heitasta að Ísland gangi þangað inn. Meirihluti þjóðarinnar er á móti því.
Ole skrifar mikið um ESB og hann skrifar grein í Moggann í dag sem er ekkert annað en endurunnin grein úr Fréttablaðinu frá 4. ágúst 2021. Í dag krefst hann þess að formaður Sjálfstæðisflokksins svari fyrir fullyrðingar sem aðrir flokksmenn hafa látið frá sér fara um um ESB. Ekki ber ég neina ábyrgð á formanni Sjálfstæðisflokksins en greinin er nógu barnaleg til að ég ráði við hana og get svo sem svarað í stað Bjarna.
Í grein sinni segir hann:
Leiðandi menn innan Sjálfstæðisflokksins hafa viðhaft þessar fullyrðingar um ESB og mögulega aðild að því hér í blaðinu:
- Að aðild Íslands að ESB væri fullveldisframsal til yfirþjóðlegs embættismannavalds og stofnanaveldis í fjarlægum borgum
- að ESB sé martraðarkennt möppudýraveldi
- að ESB sé ólýðræðisleg valdasamþjöppun
- að ESB sé kjötkatlaklúbbur afdankaðra 3. flokks stjórnmálamanna
- að ESB sé vígi verndarstefnu og pilsfaldakapítalisma
- að stærstu ríkin, sem leggja fram mest fjármagn, verða ráðandi í öllum meginatriðum.
Ja, hérna. Þetta er nú illa sagt um ESB. Maður hneykslast og finnur þörf hjá sér til að klaga.
Þeir leiðandi menn sem Ole talar um eru bara tveir, ekki sex. Fyrsta atriðið er úr grein eftir Arnar Þór Jónsson, frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi sem birtist í Morgunblaðinu 10., júlí 2021. Í henni rökræðir hann við Þorstein Pálsson, fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins og ESB sinna. Hann segir:
Það jákvæða við grein Þorsteins er að þar kristallast sú staðreynd að nú í haust gefst kjósendum í reynd færi á að tjá afstöðu sína til þessara álitaefna þar sem menn hafa þá skýran valkost milli þeirra sjónarmiða sem ég hef fært fram, annars vegar, og svo þeirrar tegundar valdasamruna, valdboðs, stjórnlyndis, einstefnu og undirlægjuháttar sem Þorsteinn Pálsson og fleiri boða undir merkjum annarra flokka.
Í því samhengi mun mér gefast tækifæri til að draga fram veikleika og misskilning, ef ekki afbökun, í málflutningi Þorsteins og annarra sem horfið hafa frá sjálfstæðisstefnunni og telja nú augljóst að fríverslun útheimti fullveldisframsal til yfirþjóðlegs embættismannavalds og stofnanaveldis í fjarlægum borgum. Þennan draug hafa Bretar kveðið niður eftir útgöngu sína úr ESB með tvíhliða samningum við önnur ríki.
Þetta er afar vel skrifað hjá Arnari Þór og að mínu mati ekkert við skoðun hans að athuga þó Ole vilji klaga í formann Sjálfstæðisflokksins eins og krakki sem fengið hefur sand í augun á róluvellinum.
Staðreyndin er þessi: Sjálfstæðisflokkurinn er á móti aðild að Evrópusambandinu. Í raun er ekkert meira um það að segja nema rökin. Þau eru á vefnum xd.is. og þar segir skýrt að Ísland standi utan við ESB. Mér finnst þetta góð stefna. Síðan er það smekkatriði hvernig hver og einn flokksmaður rökstyður andstöðu sína við ESB og eru allir frjálsir að því að velja þau orð sem þeir telja við hæfi.
Í forystugrein Morgunblaðsins þann 5. febrúar 2021 segir:
Bóluefnahneyksli ESB koma efasemdarmönnum um Evrópusamrunann ekki á óvart.
Þeir hafa um árabil varað við því að Evrópusambandið sé martraðarkennt möppudýraveldi, vígi verndarstefnu og pilsfaldakapítalisma, þar sem sóun og stöðnun haldist í hendur, kjötkatlaklúbbur afdankaðra 3. flokks stjórnmálamanna, án lýðræðislegrar tilsjónar almennings álfunnar sem fær að gjalda fyrir dýru verði. Það er ekki nýtt, en á síðustu vikum hafa afhjúpast sönnunargögn fyrir öllu þessu.
Fimm af ofangreindum umkvörtunarefnum Ole koma úr leiðaranum og vegna þeirra skælir Ole og klagar. Ekki get ég fullyrt hver skrifaði leiðarann og vera kann að það sé Davíð Oddsson sem ólíkt Ole Anton Bieltvedt er afar vel ritfær. Þar að auki hefur hann innsýn í ESB, nokkuð sem Ole hefur aldrei haft. Davíð þekkir pólitísku inniviði sambandsins af eigin reynslu sem forsætisráðherra, utanríkisráðherra og alþingismaður og var persónulega kunnugur mörgum þjóðarleiðtogum sem skylmdust innan ESB. Ekkert í ofangreindu er rangt þó virðist Ole bara uppsigað við stílinn, ekki efnið.
Betra hefði verið að Ole Anton Bieltvedt hefði lesið og gaumgæft allan leiðarann því hann er vel skrifaður. Í honum stendur meðal annars:
Það hefur nefnilega verið reglan undanfarin ár, að hin stóru kjölfesturíki ESB fara sínu fram gagnvart hinum minni á jaðrinum þegar það hentar. Þetta mátti sjá á Írlandi í fjármálakreppunni, enn frekar þó á Grikklandi þar sem lýðræðið mátti líka víkja fyrir Brusselvaldinu, rétt eins og á Ítalíu þar sem þessa dagana er einmitt verið að dubba upp enn einn landstjóra ESB sem forsætisráðherra og búið að fresta kosningum. Í Austur-Evrópu mega svo nýfrjálsu ríkin þar beygja sig undir hagsmuni Þjóðverja með lagningu Nord Stream-gasleiðslunnar og eins þurftu Danir, Pólverjar, Tékkar og fleiri evrulausar þjóðir að ábyrgjast stórfenglega lántöku til þess að bjarga evrunni enn eina ferðina.
Auðvitað hefur Ole Anton Bieltvedt enga hugmynd um annað en það sem á prenti stendur og því tengir hann vitlaust, dregur rangar ályktanir. Hann þekkir ekki innviðina, pólitíska leikinn, baráttuna, þvinganir og greiðasemi fyrir atkvæði innan ESB. Hann sér bara hina ljósrauðu og fögru mynd sem grunnhugmyndin að ESB var stofnuð um, en hún hefur, eins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir svo réttilega snúist upp í andhverfu sína. Og fyrir andhverfuna vill hann selja Ísland. Eins gott að ég verði ekki klagaður fyrir að segja svona, en þess ber þó að geta að ég er fjarri því að vera leiðandi maður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)