Bloggfærslur mánaðarins, mars 2020

Ríkjandi meistarar, mikið djö... og fordómalausar aðstæður

Orðlof

Fullnægja af eignum

Oft er sagt að saman fari skýr framsetning og skýr hugsun. – Vitaskuld er nauðsynlegt að vanda alla texta en það á þó ekki síst við um lagamál. Í hraða nútímans finnst mér nokkur misbrestur á þessu og gætir þess nokkuð í lögum, álitsgerðum og dómsorðum, svo að nokkuð sé nefnt. Ég vék að þessu í 227. pistli og nú langar mig til að tefla fram tveimur dæmum lesendum til umhugsunar:

Héraðsdómur segir að með því að selja inneignina fyrir óhæfilega lágt verð hafi M. ... skert rétt lánardrottna sinna til að öðlast fullnægju af eignum sínum [þ.e. hans] (Mbl 4.10. 18, 11); 

var hann ákærður fyrir að að hafa … stofnað til nýrra skulda … og hafa með því skert rétt annarra lánardrottna sinna en Afls sparisjóðs til að öðlast fullnægju af eignum hans (Mbl 4.10.18, 11).

Þetta finnst mér afar torskilið. Hvar merkir að öðlast fullnægju af eignum sínum eða annarra? 

Ekki bætir úr skák að notkun afturbeygða fornafnsins virðist mér hér nokkuð einkennileg, stangast reyndar á í dæmunum tveimur. 

Sumir kynnu að halda því fram að það sem tekist er á um fyrir dómstólnum í þessu tilviki sé sérstakt og því lítt áhugavert fyrir gamlan málfræðing á eftirlaunum. Ég er ósammála því, mér var kennt frá blautu barnsbeini að lögin væru fyrir alla og þá um leið allt sem þau snertir.

Málfarsbankinn, Jón G. Friðjónsson, pistil 260. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Fram komst í kvöld í úrslit Coca Cola-bikars kvenna í handbolta eftir sigur á ríkjandi meisturum Vals í undanúrslitum í Laugardalshöll.“

Fyrirsögn á ruv.is.               

Athugasemd: Íþróttaskrifarar gera margir engan greinarmun á meisturum og „ríkjandi meisturum“. 

Sá einstaklingur eða lið sem er Íslandsmeistari eða bikarmeistari í einhverri íþrótt er einfaldlega meistari. Ekki „ríkjandi meistari“, bara meistari. Aðrir geta þekki verið meistarar á sama tíma. Ástæðan er einföld, tvö lið geta ekki verið Íslandsmeistarar á sama tíma.

Aðeins einn er Íslandsmeistari í 5000 m hlaupi, hann er ekki ríkjandi meistari vegna þess að enginn annar hefur hlaupið hraðar en 13:57:89. Ef einhver annar en Hlynur Andrésson hleypur hraðar en þetta verður sá Íslandsmeistari, ekki „ríkjandi“, heldur meistari.

Valur varð bikarmeistari karla í fyrra, á leiktíðinni 2018-2019. Meðan bikarmeistaramótið hefur ekki verið klárað er Valur enn meistari. Í gær gerðist það að ÍBV varð bikarmeistari, ekki „ríkjandi“, heldur bikarmeistari.

Orðið „ríkjandi“ hjálpar hér ekkert, er bara innantómt orð þeirra sem eru illa að sér í íslensku máli, nenna ekki að huga að stíl og eru fljótfærir í vinnunni.

Svo er það orðaröðin. Veit sá sem skrifaði fréttina ekki betur eða er honum alveg sama um orðaröð? Og hvernig er hægt að tala um úrslit og undanúrslit í sömu málsgrein? Þarf að nefna úrslit oftar en einu sinni?

Í fréttinni segir:

Valskonur skoruðu fyrsta mark leiksins en gekk illa sóknarlega eftir það í fyrri hálfleik.

Gekk þeim ekki illa í sókninni? Er eitthvað fínna mál að segja að þeim hafi gengið illa „sóknarlega“? Nei, þetta er bara bull.

Vera má að málfarsráðunautur sé starfandi hjá Ríkisútvarpinu en hann er líklega upptekinn eitthvað allt annað en að leiðbeina fréttamönnum um málfræði, orðalag og stíl. Það er mikill skaði. Íþróttafréttamönnum stofnunarinnar veitir ekkert af aðstoð.

TillagaEngin tillaga.

2.

„Það er ógleym­an­legt að mæta til Eyja með bik­ar og mikið djöf­ull slær pump­an fast …“

Fyrirsögn á mbl.is.            

Athugasemd: Blót og ragn á ekki erindi í fjölmiða og allra síst í fyrirsögn. Þetta er ekki sagt af tepruskap. Sá sem þetta ritar blótar öllu og öllum þegar þannig stendur á en afar sjaldgæft er að hann birti slíkt á þessum vettvangi eða annars staðar opinberlega.

Stíll í fréttaflutningi fjölmiðils byggist meðal annars á hófsemd í orðavali og virðingu fyrir lesendum. 

Í staðinn má nota atviksorðið ferlega sem merkir það sem merkir mikið, rétt eins og í orðinu ferlíki. Raunar má nota fjölda orða til að lýsa ástandi mannsins, til dæmis ofsalega, svakalega, rosalega og álíka.

Tillaga: Það er ógleym­an­legt að koma til Eyja með bik­ar og svakalega slær pump­an fast …

3.

„Það hef­ur ekki staðið á okk­ur hjá BSRB varðandi samn­ings­vilja …“

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Stundum missa sumir hreinlega alla skynsemi á meðan þeir eru að spjalla við blaðamenn og blaðra eitthvert torkennilegt nafnorðamál. 

Vandinn er sá að margir blaðamenn átta sig ekki á þessu, bera ekki skynbragð á gott mál og birta það sem við hrekkur upp úr viðmælendunum, sem stundum er tóm steypa, eins og oft er sagt.

Tillaga: Við hjá BSRB höfum alltaf verið fús að semja …

4.

„Þetta eru alveg fordómalausar aðstæður …“

Þátttakandi í morgunþætti á útvarpsstöð.            

Athugasemd: Margir viðmælendur í spjallþáttum í útvarpi eru oft skýrir en klikka stundum á orðfærinu svo úr verður bara rugl, sem þó má hafa gaman af.

Auðvitað ætlaði sá sem sagði það sem hér er vitnað til að segja fordæmalausar aðstæður enda skammt er á milli fordæma og fordóma í framburði. Ugglaust má hafa gaman af þessu og fordæma fordómalausar aðstæður ...

Tillaga: Við hjá BSRB höfum alltaf verið fús að semja 

5.

„Var þreyttur á eiginkonunni og ók hjólastól hennar út í vatn.“

Fyrirsögn á dv.is.            

Athugasemd: Mér fannst þetta doldið ljótt af eiginmanninum, en eins og segir í gömlu ritum þá varð það að vera eitthvað fyrst hann var orðinn leiður. Svo las ég lengra og uppgötvaði hversu fyrirsögnin er vanhugsuð. 

Fréttin fjallar ekki um að maðurinn hafi hent hjólastólnum út í vatn því aumingja konan var í hjólastólnum og það sem alvarlegra er, vatnið var hvorki baðvatn né götupollur heldur stöðuvatn. Þetta var óafturkræf aðgerð eins og þeir segja segja stundum blaðamennirnir.

Tillaga: Engin tillaga.

6.

„Opna þjóðveginn aftur eftir hreinsun.“

Fyrirsögn á ruv.is.             

Athugasemd: Snjó er rutt en ekki hreinsaður af vegum. Við tölum almennt um að ryðja snjó. Snjórinn á tröppunum heima eða gangstéttinni að húsinu er mokaður, ekki „hreinsaður“ og raunar ekki heldur ruddur.

Þó má færa rök fyrir því að snjór hafi verið hreinsaður en hann hlýtur þá að hafa verið skítugur fyrir hreinsun. Sama er með þjóðveginn, hann var ekki hreinsaður, þá væri hann orðinn hreinn.

Tillaga: Þjóðvegurinn aftur fær bílum


Er veiran ekki í fjölmennum heimsálfum og löndum eða er logið með þögninni?

Útbreiðsla Covid 19Litla Ísland er miðdepill heimsins. Dragi einhver það í efa er nauðsynlegt að líta á útbreiðslu Covid-19 veirunnar hér á landi og bera saman við önnur á meðfylgjandi korti. Það er eitt hið áreiðanlegasta sem til er og kemur frá John Hopkins háskólanum í Bandaríkjunum, John Hopkins Medecine. Hér er linkur á kortið.

Ég held að það sé rétt sem íslensk heilbrigðisyfirvöld fullyrða, að þau hafi skráð næstum hvern einasta mann sem er smitaður og á fjórða hundrað sem er í sóttkví.

Gera aðrar þjóðir betur?

Nei, þær gera ekkert betur, flestar mun lakar, aðrar svindla og svo er heilbrigðiskerfið gagnslítið í mörgum löndum. 

Í Kína hafa 81.000 manns fengið veiruna, 0,006% af íbúum ríkisins. Hér á landi hafa 36 veikst, 0,01% landsmanna, álíka hlutfall.

Hér eins og í Kína er reynt að hefta útbreiðsluna eins og hægt er. Þó er líklegt að vegna fámennisins sé það auðveldara hér á landi en víða annars staðar. Við vitum um alla sem veikst hafa með nafni og einnig þá sem eru í sóttkví. Munum að Kínverjum virðist ganga vel.

Hver trúir þessu?

Rússar (4) fullyrða að fjórir hafi smitast. Ég trúi þeim ekki. Aftan við nöfn landa er svigi og í honum eru opinberar tölum um fjölda smitaðra samkvæmt kortinu.

Þjóðverjar halda því fram að 545 hafi veikst en miðað við Ísland ættu þar að vera 8.100 manns í rúminu. Austan við landamærin er Póllandi og þar hefur aðeins einn veikst, ætti að vera 3.800. Frakkar eru vestan við Þýskaland og þar hafa 423 veikst, ætti að vera 6.300 manns. Eru þessi ríki trúverðug eða birta þau bara þær tölur sem henta?

Trúir einhver Rússum (4), Pólverjum (1), Ungverjum (1) eða Tyrkjum (0). Í Bretlandi eru 116 sagðir veikir en ætti að vera 6.000. Miðað við Ísland ættu 35.000 Bandaríkjamenn að hafa fengið vírusinn, en þar í landi er því haldið fram að aðeins 233 hafi veikst.

Miðað við það sem er að gerast hér á landi hef ég enga trú á tölum frá öðrum löndum. Þó svo að stór hluti af smiti hér á landi sé rakið til skíðaferða til Austurríkis (43) og Ítalíu (3.858) má benda á að margfalt fleira fólk hefur verið í sömu skíðabrekkunum og sömu hótelunum og farið þaðan til síns heimalands og liggur þar í „flensu“ að eigin mati. Af þessum ástæðum einum ættu 6.000 að vera veikir á Ítalíu. Í Austurríki ættu 900 manns að liggja í rúminu. Nema auðvitað að Íslendingar sem koma af skíðum hafi af einhverjum dularfullum ástæðum einir manna nælt sér í Covid-19.

Engar tölur úr tveimur heimsálfum

Þetta er þó ekki aðalatriðið heldur löndin þar sem engar upplýsingar hafa borist um smitaða. Í Afríku þar sem rúmlega einn milljarður manna býr, eru skráðir 29 veikir. Í Suður Ameríku eru 23 veikir en þar búa 390 milljónir manna. Trúir einhver þessum tölum?

Vísindamenn hafa sagt að Covid-19 veiran hafi mjög snemma stökkbreyst í Kína og orðið skæðari fyrir vikið. Gerum ráð fyrir að veiran hafi ekki náð til Suður Ameríku og Afríku en að öllum líkindum er þess skammt að bíða. Hvað halda menn að gerist þá í þessum heimsálfum? 

Góður vinur minn heldur því fram að draga mun úr Covid-19 veirunni á næstu sex mánuðum en þá komi önnur bylgja sem kemur frá Afríku eða Suður Ameríku og orsökin er stökkbreyttur vírus.

Ekkert bóluefni 

Á vefsíðu John Hopkins háskólans segir:

The COVID-19 situation is changing rapidly. Since this disease is caused by a new virus, people do not have immunity to it, and a vaccine may be many months away. Doctors and scientists are working on estimating the mortality rate of COVID-19, but at present, it is thought to be higher than that of most strains of the flu.

Í stuttu máli: Vírusinn dreifist hratt, hann er nýr og engin mótstaða gegn honum. Bóluefni kemur líklega ekki næstu mánuði.

Fram kemur að nærri 100.000 manns hafi smitast af Covid-19 en af „venjulegri“ flensu um milljarður manna. Vegna víursins hafa 3.347 látist en 646.000 vegna flensunar. Dánartíðni veirunnar er hins vegar mun hærri en flestra flensutegunda.

Benda þessar staðreyndir ekki til þess að ekkert sé að óttast Covid-19?

Við fyrstu sýn kann svo að vera, en útbreiðsla hans er ótrúlega hröð og smitleiðir eru allt aðrar. Vísindamenn telja að úði úr öndunarkerfi veiks manns getur verið lengi í loftinu og smitað þá sem þangað koma í nokkurn tíma á eftir. Þetta gerir flensan ekki. Og ... sá sem er smitaður en sýnir engin einkenni getur engu að síður smitað aðra.

Sjá nánar hér.

Þessi pistill er skrifaður í anda fjölmiðlaumræðunnar, höfundurinn greinilega heltekinn af ótta um framtíðina.


Málningarvinna fór fram, blómvöndur með blómum og Grenjaðarstaðir

Orðlof

Nafnorðastíll

Nafnorðastíll lýsir sér í því að nafnorð eru fleiri en þörf krefur en textar sem einkennast af slíkum stíl eru oft erfiðir aflestrar.

Nafnorðastíll birtist m.a. í dæmum þar sem sögn og nafnorð eru notuð þar sem ein sögn ætti að nægja:

gera könnun > kanna
skila hagnaði > hagnast
framkvæma lendingu > lenda

Stundum er forsetning á eftir nafnorðinu og þá getur ein sögn komið í stað þriggja orða:

gera athugun á > athuga
leggja mat á > meta
taka ákvörðun um > ákveða
valda töfum á > tefja

Í sumum tilvikum þarf að umorða setninguna talsvert til að fækka nafnorðunum:

Það hafa verið fleiri komur skipa nú í sumar en oft áður. 
> Fleiri skip hafa komið nú í sumar en oft áður.
Ýmsar leiðir eru færar til þess að stytta langar málsgreinar.
> Hægt er að stytta langar málsgreinar á ýmsan hátt.
Ótti við atvinnuleysi er til staðar hjá andstæðingum aðildar.
> Andstæðingar aðildar óttast atvinnuleysi.

Leiðbeiningavefur um ritun á háskólastigi. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„... að máln­ing­ar­vinna hafi farið fram inn­an­dyra aðfaranótt laugardags.“  

Frétt á mbl.is.                

Athugasemd: Var verið að mála eða „fór fram málningarvinna“? Takið eftir orðalaginu. Á undan er notuð einföld sögn en blaðamaðurinn er haldinn nafnorðasýkinni sem virðist vera að menga málið meir er margt annað.

Í heild er tilvitnunin svona:

Einn eig­enda versl­un­ar­inn­ar, sem var á staðnum þarna um morg­un­inn, seg­ir við mbl.is að máln­ing­ar­vinna hafi farið fram inn­an­dyra aðfaranótt laug­ar­dags og þegar fólkið kom inn í búðina á laug­ar­dags­morg­un, um klukk­an tíu eða hálfell­efu, hafi menn enn verið að ganga frá.

Orðalagið fellur einkar vel að ensku máli:

One of the shop's owners, who was there in the morning, tells mbl.is that paint work has been done indoors.

Krakkarnir sem aldrei gátu lesið bækur eða annað sér til gagns alla sína skólatíð eru nú orðnir blaðamenn og skrifa enska íslensku.

Í fréttinni segir:

Við höfðum verið að mála þarna um nótt­ina og búðin var ekki til­bú­in til að opna hana.

Átti búðin að opna sjálfa sig? Engin ástæða er að hafa illa ígrundað mál eftir viðmælanda. Betra er að segja frá því sem hann á við í óbeinni ræðu, til dæmis á þessa leið:

Eigandinn segir að hann og fleiri hafi verið að mála verslunina alla nóttina og því hafi ekki hægt að opna hana um morguninn.

Verkefni blaðamannsins er að veita upplýsingar á góðu máli. Illa skrifuð frétt er gagnslaus, skemmd.

Tillaga: Verið var að mála verslunina segir einn eig­enda hennar.

2.

„Mér fannst það skondið að við fengj­um af­hent þessi verðlaun sem blómabænd­ur og fengj­um svo blóm­vönd sem var full­ur af inn­flutt­um blóm­um.“

Frétt á mbl.is.                

Athugasemd: Samkvæmt orðanna hljóðan getur vart verið annað í blómvendi en blóm, því ekki var verið að tala um sóp sem stundum er nefndur vöndur.

Auðvitað hefði mátt orða þetta á annan hátt til að forðast nástöðuna og kjánalega samsetningu.

Tillaga: Mér fannst það skondið að við blómabændur fengjum verðlaun og þeim fylgdi vöndur með innfluttum blómum.

3.

„Vinna í kappi við tímann við söluhús.“

Fyrirsögn á blaðsíðu 10 í Morgunblaðinu 3.3.2020.               

Athugasemd: Jafnvel skýrustu og reyndustu skrifurum getur orðið á rétt eins og okkur hinum.

Við þetta er það eitt að athuga að orðaröðin gæti verið betri. Blaðamaðurinn hefur getað skrifað: Vinna við söluhús í kappi við tímann. Ég kann þó betur við tillöguna hér fyrir neðan.

Tillaga: Smíða söluhús í kappi við tímann.

4.

„... og hafa það á­gætt á Grenjaðar­stöðum.

Frétt á frettabladid.is.                 

Athugasemd: Blaðamaðurinn er ekki alveg viss og kallar bæinn ýmist Grenjaðarstað eða Grenjaðarstaði. Staðreyndin er þó sú að nafnið er aðeins til í eintölu samkvæmt því sem segir á málið.is. Er það rétt?

Bæru fleiri bæir með þetta nafn væri óhætt að tala um „Grenjaðarstaði“.

Ég var ekki viss og fletti upp í ritinu Grímnir sem gefið var út á meðan Þórhallur Vilmundarson var forstöðumaður Örnefnastofnunar. Minnti endilega að ég hafi lesið um bæjarnafnið þar. Og viti menn það var rétt.

Þórhallur vitnar í Landnámu á blaðsíðu nítíu og eitt í fyrsta hefti Grímnis:

Grenjaður hét maður Hrappsson, bróðir Geirleifs; hann nam Þegjandadal og Kraunaheiði ...

Þórhallur trúði ekki Landnámu því hann er höfundur náttúrnafnakenningarinnar sem í stuttu máli gerir ráð fyrir að mörg örnefni á Íslandi og einnig Noregi tengist staðháttum og umhverfi en ekki nöfnum landnámsmanna eða viðburðum. Í Grímni kemur glögglega fram að Grenjaðarstaður geti verið í fleirtölu. Þar segir (takið eftir að á eftir bókstafnum „G“ eru sagnirnar í fleirtölu):

G. standa hjá Laxá skammt neðan við Laxárgljúfur, þar sem áin fellur í miklum og háværum fossum, sem nú hafa verið virkjaðir.

Líklegt má telja, að G. séu kenndir við Laxárfossa, sem þá hafi áður heitir Grenjaðr, fremur en Laxá.

Tvennt er enn þeirri skýringu til styrktar:

1) no. grenjaðr kemur fyrir í merkingunni „Larmen af en Fos“, það er fossdynur (Björn Halldórsson),

2) framan við G. er Þegjandadalur, en um hann fellur í Laxá Kálfalækur, sem sennilega hefur heitið upphaflega Þegjandi, og mæti þá líta á það sem andstæðunafn við Grenjað, sbr. Þegjandi - Beljandi á Kili.

Til hliðsjónar eru Dunkastaðir (-Dunkur) og Grenjá í Höfðahverfi.

Hitt er svo annað mál að blaðamaðurinn hafði rangt fyrir sér, skrifaði bæjarnafnið í fleirtölu sem ekki er rétt. Verra er að hann er tvístígandi, veit ekki hvort nafnið eigi að vera í eintölu eða fleirtölu. 

Tillaga... og hafa það á­gætt á Grenjaðar­stað.

 


Þaga, skætingur í heimilislífi og þak á fjölda sendiherra

Orðlof

Örnefni

Væri nokkuð nema prýði að því, ef innan um alla Hólana, Mýrarnar og Holtin kæmi örnefni eins og: Aurvangur, Bilskírnir, Bragalundur, Brávöllur, Elivogar, Fensalir, Fólkvangur, Glaðsheimur, Glasislundur, Glitnir, Hátún, Himinbjörg, Himinvangar, Hlébjörg, Hliðskjálf, Hlymdalir, Híndafjall, Hveralundur, Logafjöll, Miðgarður, Leiftrarvatn, Ókólnir, Sindri, Singasteinn, Sevafjöll, Skatalundur, Vingólf, Þrúðvangur, Ógló, Hauður, Glæsivellir o.s.frv.

Morgunblaðið, 17. júní 1953, sr. Benjamín Kristjánsson gerir nokkrar athugasemdir við störf örnefnanefndar sem hafði bannað notkun á heitum úr goðafræði sem bæjarnöfn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Þar náði lög­regla að hafa hend­ur í hári árásarmannsins og var þeim manni stungið í stein­inn.“

Frétt á mbl.is.                

Athugasemd: Með þessum orðum hefur blaðamaður rifið sig frá ægivaldi löggumálsins, stofnanamálsins, sem tröllriðið hefur löggufréttum í fjölmiðlum síðustu árin.

Meðaljóninn í blaðamennsku hefði orðað ofangreint á þennan hátt:

Lögreglan handtók gerandann og var sá maður settur í fangaklefa fyrir rannsókn málsins.

Nei, blaðamaður vefútgáfu Moggans orðar þetta á sinn hátt og ber að hrósa honum fyrir djörfung sína. Það er svo annað mál að hann hefði getað orðað ofangreinda setningu aðeins betur, sjá tillögu.

Í lok fréttarinnar segir:

Lög­regla rann­sak­ar málið.

Við hinir dauðlegu þökkum fyrir að vinir dólgsins hafi ekki tekið að sér rannsóknina, eigi hann á annað borð einhverja vini. Þessu hefði mátt sleppa.

Tillaga: Lögreglan handtók árásarmanninn og var honum stungið í stein­inn.

2.

„Rannveig Rist, forstjóri álversins í Straumsvík, steig í liðinni viku til hliðar vegna veikinda. Hún segir að það þurfi hugrekki til að stíga slíkt skref.“

Kynning á viðtali  á blaðsíðu 1 í Morgunblaðinu 1.3.2020.               

Athugasemd: Blaðamaðurinn áttar sig eflaust ekki á nástöðunni, steig, stíga. Hún er óþörf hér eins og annars staðar.

Hvers vegna er orðalagið „að stíga til hliðar“ notað hér? Það er yfirleitt ofnotað og oft skýrara að nota til dæmis að fara í veikindaleyfi, hætta tímabundið eða hverfa frá í bili, svo dæmi séu nefnd.

Núorðið hættir enginn. Allir „stíga til hliðar“, „stíga niður“ og svo framvegis. Þetta er auðvitað ekkert annað en ófullkomin þýðing á ensku orðalagi. Ég hef stundum gagnrýnt þetta og bendi á samantekt í pistli mínum hér.

Tillaga: Rannveig Rist, forstjóri álversins í Straumsvík fór í veikindafrí í síðustu viku. Hún segir að það þurfi hugrekki til þess.

3.

„Ég vildi ekki þaga lengur, eða loka augunum og eyrunum.“

Frétt á frettabladid.is.                

Athugasemd: Sögnin að þegja hefur hvergi orðmyndina „þaga“. Hins vegar þekkjum við sögnin að þagna sem merkir að hætta að tala.

Ég minnist þess frá æsku minni að eldra fólk sem ég þekkti notuðu „þaga“ í merkingunni að þegja. Orðið er ekki fjarri sögninni að þagna. 

Hins vegar finnst mér fréttin frekar viðvaningslega skrifuð en tíunda það ekki nánar.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Það er skæt­ing­ur í heim­il­is­líf­inu, börn­in eru eru orðin tætt, svefn­rútín­an far­in út um glugg­ann og við erum bara öll að reyna að halda hausn­um uppi úr vatninu.“

Frétt á mbl.is.                

Athugasemd: Þessi málsgrein er illskiljanleg. Skætingur merkir illt tal eða ónotalegt, hryssingsleg eða eða álíka. Sá sem er í vatni kappkostar yfirleitt að halda höfðinu upp úr svo hann nái að anda.

Mér finnst þetta of flókin og sundurlaus málsgrein. Viðmælandinn virðist ekki vel máli farinn. Blaðamaðurinn tekur upp á segulband það sem hann segir og skrifar svo frá orði til orðs rétt eins og það sé „gullaldarmál“. Blaðamaðurinn hefði átt að endursegja orð viðmælanda sína á einfaldari og skiljanlegri hátt. 

Fréttin er viðvaningslega skrifuð, nástöður víða og fleira. Dæmi:

  • Vik­una á und­an höfðu skæru­verk­föll farið fram.
  • Hún er með börn­in í fim­leika­saln­um, að reyna að gæta þess að þau fari sér ekki að voða, á meðan spjallið fer fram.
  • Svo er ég að reyna að vinna á meðan og hreyti í þau
  • En það er samt þannig að maður vinn­ur ekk­ert al­menni­lega. Maður nær engri ein­beit­ingu. Þegar maður­inn minn kem­ur heim þá þarf ég að klára.

Mér finnst að blaðamaðurinn eigi að reyna fyrir sér sem heimilislæknir, arkitekt eða í sameindalíffræði. Hann hlýtur að geta gengið inn í þessi störf án reynslu og þekkingar eins og hann virðist hafa gert undir starfsheitinu blaðamaður.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

61 árs gömul kona er talin fyrst allra í söfnuðinum til að greinast með veiruna og er vitað til þess að hún hafi mætt á nokkrar trúarsamkomur áður en hún greindist með veiruna.“

Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 2.3.2020.                

Athugasemd: Afskaplega viðvaningslegt er að byrja setningu á tölustöfum. Slíkt tíðkast hvergi, hvergi, hvorki hér á landi né erlendis. Ástæðan er einfaldlega sú að tölustafur hefur allt aðra merkingu en bókstafur. 

Því má bæta við að blaðamönnum er óhætt að skrifa aldur fólks í bókstöfum. Í stað 35 ára er hreinlegra að skrifa þrjátíu og fimm ára. Allir skilja slíkt og áferð ritaðs máls verður fyrir vikið snyrtilegra.

Fljótfærni hrjáir marga blaðamenn. Í ofangreindri málsgrein er tuðað á „greinast með veiruna“. Vandaðir blaðamenn og aðrir skrifarar forðast svona nástöðu enda er hún ýmist merki um kunnáttuleysi eða kæruleysi. 

Tillaga: Engin tillaga.

6.

Í fyrsta lagi er lagt til í frumvarpinu að sett verði þak á fjölda sendiherra á hverjum tíma.

Grein á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 2.3.2020.                

Athugasemd: Þetta er ekki gott orðalag. Núorðið er þak sett á allan and… jafnvel þótt önnur orð dug betur.

Höfundur greinarinnar hefði einfaldlega getað sagt að fjöldi sendiherra verði framvegis takmarkaður, sendiherrar verði ekki fleiri en fjörutíu eða álíka. Óþarfi er að bæta við „á hverjum tíma“ því málsgreinin verður ekkert skýrari.

Tillaga: Í fyrsta lagi er lagt til í frumvarpinu að fjöldi sendiherra verði takmarkaður.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband