Bloggfærslur mánaðarins, desember 2020

Sátt við aðgerðir, gríma sem er vatnshellt og framkvæma aðgerð

Orðlof

Ákvæðisorð

Á undanförnum árum hef ég iðulega rekist á setningar eins og „Gætu verið ár í að klöppin hrynji“, „Æðislegt rjómapasta á mínútum“ og ýmsar fleiri í svipuðum dúr. 

Þarna eru orð sem vísa til tíma, ár og mínútur, notuð án nokkurs ákvæðisorðs. Það er ekki í samræmi við mína málkennd – ég get bara notað orðin svona í eintölu, ekki fleirtölu. 

Þegar um er að ræða orð í fleirtölu sem tákna tíma þarf yfirleitt að fylgja þeim eitthvert ákvæðisorð – töluorð, lýsingarorð eða óákveðið fornafn – í setningum af þessu tagi. Þetta er hins vegar eðlileg setningagerð í ensku.

Eiríkur Rögnvaldsson, sjá ítarlegar á vefsíðu hans.

Ákvæðisorð: Orð sem stendur með öðru orði og kveður nánar á um einkenni þess sem það á við eða segir nánar til um við hvað er átt. Málfarsbankinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Doktor Helga Kristjánsdóttir hefur hlotið framgang til prófessorsstöðu …

Frétt á blaðsíðu 16 í Morgunblaðinu 5.12.20.                                    

Athugasemd: Hlaut konan prófessorsstöðuna eða ekki? Þetta með framgang skilst illa. Líklega eru þeir sem annast ráðninguna enn að bræða það með sér hvort hún fái starfið.

Í orðabókinni minni segir um orðið framgangur:

Framkvæmd, það að koma e-u fram; framganga.

Tilvitnunin í fréttina verður ekki skýrari með þessu, þvert á móti. Þá verður það fyrir manni að gúggla orðasambandið og þá kemur í ljós að það er nokkuð algengt í þessari merkingu. Af þessu leiðir að leikmaðurinn getur varla fullyrt að það sé rangt notað.

Í skrá um orðasambönd eru gefin tíu dæmi:

    1. (ekki framgang
    2. <málinu> framgang
    3. framgangur jöklanna 
    4. hafa framgang (með <bókina>)
    5. <málið, breytingartillagan, gjaforðið> fær (ekki) framgang
    6. <málið> hefur (<engan>) framgang
    7. <málið> hefur/hafði hindrunarlausan framgang
    8. vera fljótstígur í framgangi
    9. vera luralegur í framgangi
    10. vera þóttalegur í framgangi

Ekkert af þessum hjálpar fáfróðum lesanda að í fréttina. 

Loks má geta þess að framgangur er nafnorð. Miklu betur fer á því að nota einfaldara orðalag með sagnorði, það er að segja hafi konan verið skipuð sem prófessor.

Tillaga: Doktor Helga Kristjánsdóttir hefur verið skipuð í prófessorsstöðu …

2.

„Það sést á könnunum Gallup að það hefur verið mikil sátt við þessar aðgerðir

Frétt ruv.is.                                     

Athugasemd: Fer ekki betur að segja að sátt sé um aðgerðirnar?

Tillaga: Það sést á könnunum Gallup að mikil sátt var um þessar aðgerðirnar

3.

„… [öndunargríma] sem hleypir vel út hita en er samt sem áður vatnshellt.“

Auglýsing á blaðsíðu 9 í Morgunblaðinu 7.12.20.                                     

Athugasemd: Öndunargríma er nafnorð í kvenkyni og því er hún vatnsheld. Orðið vatnsheldur er myndað með nafnorðinu vatn og sögninni að halda, það sem heldur vatni.

Í auglýsingunni er textinn svona óstyttur:

Airpop Active er fjölnota öndunargríma, ytri skelin er úr mjúku örtrefjaefni (micro- fiber) sem hleypir vel út hita en er samt sem áður vatnshellt.

Oft er það svo að starfsmenn fyrirtækis hanna auglýsingu og senda á fjölmiðil sem setur hana upp eins og kallað er. Umbrotsmenn á fjölmiðlum eru yfirleitt mjög vandvirkir og þessi auglýsing er ágætt dæmi um það. Þó hefur gleymst lesa textann yfir. Gera má athugasemdir við ýmislegt annað.

Í auglýsingunni er til dæmis sagt að gríman „sitji vel á andlitinu“. Ekki gott orðalag og sé það gúgglað kemur í ljós að það er allt annars eðlis.

Tillaga: … [öndunargríma] sem hleypir vel út hita en er samt sem áður vatnsheld.

4.

„Þetta er í fyrsta sinn sem Kínverjar ná að framkvæma slíka aðgerð …“

Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 7.12.20.                                     

Athugasemd: Orðalagið „framkvæma aðgerð“ er nafnorðahnoð og merkir einfaldlega að gera. Ótrúlegt að reyndur blaðamaður skuli skrifa svona.

Í fréttinni segir:

Þeir stefna þó enn lengra, og má segja að leiðangurinn nú hafi einungis verið áfangastaður í kapphlaupi stórveldanna og fleiri um að senda fyrsta manninn á yfirborð Mars.

Enn er þetta hnoð. „Senda fyrsta manninn“. Átt er við að senda mann eða menn til Mars.

Óhjákvæmilega munu Marsfarar lenda á yfirborðinu, annars staðar verður aldrei lent. Er blaðamaðurinn að þýða enska orðalagið „landing on the surface of March“? Sé svo nægir einfaldlega að orða það þannig að lent verði á Mars.

Í fréttinni segir:

Gangi allt að óskum munu Kínverjar komast í útvalinna hóp þjóða, sem hafa náð að sækja grjót frá tunglinu …

Sá sem er útvalinn hefur verið sérstaklega valinn til ákveðins verks.

Ríki sem hafa sótt grjót til tunglsins eru ekki „útvalinna“ ekki frekar en þeir sem hengja upp mynd heima hjá sér eða aka bíl sínum í vinnuna.

Tillaga: Þetta er í fyrsta sinn sem Kínverjar ná að gera þetta


Sitjandi forseti, samanstendur af og bólusetning gerist hratt

Orðlof

Menn

Það var til tíðinda einn morgun er Höskuldur var genginn út að sjá um bæ sinn. Veður var gott. Skein sól og var lítt á loft komin. 

Hann heyrði mannamál. Hann gekk þangað til sem lækur féll fyrir túnbrekkunni. Sá hann þar tvo menn og kenndi. Var þar Ólafur son hans og móðir hans.

Laxdæla, 13. kafli.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Hún sagði hann hafa dáið í mótorhjóla­slysi en Mannakee dó einmitt í einu slíku árið 1987.“

Frétt á mbl.is.                                    

Athugasemd: Hvað er hægt að segja um svona stílleysi? „Einmitt í einu slíku.“ Varla er hægt að gera grín að þessu.

Mikilvægur hæfileiki blaðamanns er að kunna að skrifa og segja frá. Þetta tvennt fylgist ekki alltaf að.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Fráfarandi forseti hefur gert allt sitt …“

Leiðari Fréttablaðsins 28.11.20.                                    

Athugasemd: Mikið var ánægjulegt að leiðarahöfundurinn skyldi ekki kalla forseta Banaríkjanna „sitjandi forseta“, miklu betra að hann sé fráfarandi eða bara forseti.

Þetta hugsaði ég og hélt áfram að lesa leiðarann. En, úbbs … Í næstu línu féll höfundurinn í pyttinn:

Þetta er léttvæg gagnrýni frá sitjandi forseta …

Aðeins einn getur verið forseti Bandaríkjanna. Sá sem hefur verið kjörinn er verðandi forseti og er svo þangað til hann tekur formlega við völdum. Hinn er „bara“ forseti eða þá fráfarandi forseti. Þegar sá síðarnefndi hættir er hann fyrrverandi forseti.

Enska orðalagi „sitting president“ á ekki erindi í íslensku.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Í nýjustu fréttum í Argentínu kemur fram að Maradona hafi skollið harkalega á haus sinn viku eftir aðgerðina …“

Frétt á dv.is.                                    

Athugasemd: Ja, hérna. Allt getur nú gerst. Án þess að saka blaðamanninn um rugl er nánast útilokað að nokkur maður geti „skollið á haus sinn“. Enginn, hversu klaufskur sem maður er, getur skollið á höfuð sitt.

Þó getur verið að blaðamaðurinn hafi ætlað að segja að Maradonna hafi dottið á höfuðið. En auðvitað er það of flókið orðalag og illskiljanlegt til að hægt sé að nota í virðulegum fjölmiðli. Á ensku getur verið að orðalagið sé á annan veg en það kemur okkur hérna á Íslandi ekki við. 

TillagaÍ nýjustu fréttum í Argentínu kemur fram að Maradona hafi skollið harkalega á hausinn viku eftir aðgerðina …

4.

„Hópurinn sem Biden hefur kynnt til leiks fram að þessu samanstendur af reyndu fólki sem …“

Fréttaskýring á blaðsíðu 10 í viðskiptablaði Morgunblaðsins 2.12.20.                                   

Athugasemd: Oftast er óþarfi að nota sögnina að samanstanda og þá ekki síst hér. Eiginlega man ég ekki eftir neinu dæmi um að sagnorðið henti í frásögn.

Oftast nægir að nota að vera eins og gert er í tillögunni.

Kynna til leiks er ágætt orðalag en því miður ofnotað. Þar að auki eru svona klisjur óþarfar.

Tillaga: Í hópnum sem Biden hefur kynnt er reynt fólk sem …

5.

„Bólu­setn­ing gæti gerst mjög hratt.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                  

Athugasemd: Gerist bólusetning eða er hún gerð? Ég velti þessu orðalagi fyrir mér og veit eiginlega ekki hvað skal halda. 

Hitt veit ég að viðgerðin á bílnum „gerist“ hvorki hratt eða hægt. Vera kann að bifvélavirkinn geri hratt við bílinn. Meira að segja vont veður „gerist“  ekki hratt, það getur hins vegar versnað hratt.

Hér færi eflaust betur á því að segja að fljótlegt væri að bólusetja eða hægt sé að bólusetja hratt.

Þegar ég er í vafa um orðalag reyni ég að umorða. Þó skal áréttað að stundum skrifar maður hugsunarlaust bölvaða vitleysu sem aðrir eru vísir með að leiðrétta.

Tillaga: Fljótlegt gæti verið að bólusetja þjóðina.


Kirkjan tapað jólunum og til urðu glysjól

Setjum sem svo að hvergi í auglýsingum í fjölmiðlum væri minnst á jól, jólagjafir eða jólasveina og álíka. Allt verði eins og fyrri hluta ársins. Hvernig yrðu þá jólin?

Ég hef að undanförnu verið að velta þessu fyrir mér og þá sérstaklega hversu „mikilvægar“ auglýsingar verslana eru í upplifun fólks vegna jólanna.

Samkvæmt skoðanakönnunum segjast 60% landsmanna játa kristna trú en aðeins 40% telja sig vera trúaða (sjá frettabladid.is). Í þessu felst nokkur þversögn en látum það vera. Líklega heldur um 90% þjóðarinnar upp á jólin. Hvers vegna? 

Af skoðanakönnunum og miklu fleiru má draga þá ályktun að jólin séu stórum hluta orðin trúarlaus hátíð. Allir, trúað fólk og trúlaust, lætur berast með straumnum. Þoka jólaauglýsinga umlykur allt samfélagið og fæstir hafa neinar áhyggir því allir leika með og engum leiðist. Þetta er allt svo skemmtilegt og fallegt. Tilhlökkunin er hins vegar endalaus, allt frá því að jólabörnin setja upp jólaljósin á hús sín og tré í september og þangað til jólin byrja.

Hvað yrði nú um jólin ef jólaauglýsingarnar myndu leggjast af? Yrðu þær eins og hver annar frídagur? Mér finnst það líklegt enda eru fjölmörg dæmi sem líta má til samanburðar.

Margt snýst upp í andstæður sínar vegna þess að óskyldir aðilar hafa gert yfirtökuboð í hátíðarhöldin og eignast stóran hluta í þeim. Án þeirra sem auglýsa af krafti verður ekkert úr hátíðarhöldum. Samfélagið byggist á því að fjölmiðlar með auglýsingum mati okkur.

Enginn vill eignast fullveldisdaginn og hann er því flestum gleymdur. Ekkert fjör, ekkert glys, ekkert gaman. Bara þrír krakkar úr Háskóla Íslands sem leggja krans á leiði einhvers kalls sem er löngu dáinn.

Allt annað er með sumardaginn fyrsta, sautjánda júní og verslunarmannahelgina. Í svoleiðis frídögum borgar sig að fjárfesta. Þeir eru sexí. Samt vita nú fæstir neitt um sumardaginn fyrsta hvernig stendur á að þessi dagur var og er merkisdagur. „Það er ekki einu sinni komið sumar í lok apríl,“ dæsa margir og aðrir hlægja.

Sautjándi júní er aðeins skemmtilegur falli hann öðru hvoru megin við helgi. Annars er hann til óþæginda. Verslunarmannahelgin er almennileg enda er frí á mánudegi. Öll helgin er í eigu fjárfesta, kaupahéðna, en verslunarmenn eru löngu gleymdir og þræla þegjandi á eigin frídegi. Ónefndir eru svo tilbúnu „hátíðarnar“, mesta ferðahelgin í júlí, bæjarhátíðarnar og allt hitt.

Svona gerast nú kaupin á eyrinni. Allir eru undir áhrifavaldi auglýsinga og fjölmiðlarnir eru erindrekar þeirra. Kirkjan missti jólin og raunar líka páskana. Hún glutraði úr höndum sér öðrum dögum sem forðum voru kenndir við atburði eða dýrlinga vegna þess að þessir dagar eru ekkert sexí eða fjölmiðlavænir. Þrátt fyrir nafnið er Þorláksmessa fjarri því að vera trúarlegs eðlis og kirkjan á ekkert í henni.

Ekki veit ég hvað langt er síðan trúin í lífi mínu tók að dofna og er nú minningin ein eftir. Ég bý þó að því að hafa lært ýmislegt gagnlegt í KFUM í gamla daga og man enn eftir Jesús í musterinu en frá því segir í Biblíunni:

Nú fóru páskar Gyðinga í hönd og Jesús hélt upp til Jerúsalem. Þar sá hann í helgidóminum þá er seldu naut, sauði og dúfur og víxlarana sem sátu þar.

Þá gerði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra og við dúfnasalana sagði hann:

„Burt með þetta héðan. Gerið ekki hús föður míns að sölubúð.“

Já, kaupahéðnarnir voru hraktir út úr musterinu en þeir voru ekki af baki dottnir og hefndu sín grimmilega. Krókur kom á móti bragði og trúin var gerð að sölubúð. Verslanir eru að vísu ekki í kirkjum enda þarf þess ekki. Trúartáknin eru orðin verslunarvara, það er ytri umbúnaðurinn. Innihaldinu var kastað. Og það er ekki einu sinni víst að Jesús eða aðrir í hans ranni viti af þessu. Að minnsta kosti veit kirkjan ekkert af þessu, heldur að allt sé í besta lagi.

Væru ekki jólin lítið skemmtileg án auglýsinga? Yrði kristin trú ekki eins og vindlaus blaðra ef „sölubúðin“ væri skilin frá henni?

Ó, hvað við erum nú heppin að vera vitni að því að jólalögin, sálmarnir og allt það sem stendur í biblíunni sé poppað upp og gert svo skemmtilegt til að við getum haldið upp á glysjól. 

Jólin eru hátíð ljóss og friðar ... Nei, hvaða vitleysa. Þau eru vertíð fyrir sölubúðina og þeir sem hana reka geta treyst því að ég borgi. Og sjálft Jesúbarnið er orðið munaðarlaust.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband