Bloggfærslur mánaðarins, maí 2019

Skotinn kallaði eftir, og Jón tekinn við Keflavík

Orðlof og annað

Tilbrigði í málfari

Málnotendur hafa oft um ýmsar leiðir að velja til að orða hugsun sína. Margs kyns tilbrigði í málfari eru til en þau eru ekki öll jafngild við allar aðstæður. Sumt er talið við hæfi á einum stað og stund en annars ekki. 

Einn liður í málkunnáttu málnotenda er að hafa vald á því að fella orðaval, orðalag, beygingar, framburð og svo framvegis að því málsniði sem um ræðir hverju sinni.

Sjá nánar á Vísindavefnum.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„„Þetta er hræðileg staða til að vera í, …““

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Aðstæður geta verið slæmar, vondar og jafnvel hræðilegar fyrir þann sem í hlut á. Í stuttu máli má orða þetta þannig að staðan sé hræðileg. Punktur. Orðalagið „… til að vera í“ hjálpar ekkert. Blaðamaðurinn hefur verið að bögglast við að þýða úr ensku með þessum hörmulega árangri.

Fleira má gagnrýna í þessari stuttu frétt. Blaðamaðurinn byrjar setningu á tölustöfum. Hann veit ekki eða kann ekki betur. Slæmt.

Svo hroðvirkur er blaðamaðurinn að hann bullar með nöfn. Í upphafi fréttarinnar er sagt frá flugmanni sem heitir Chris Brady. Etir önnur greinaskilin heitir flugmaðurinn Turner en það er ekki nóg. Eftir næstu greinaskil heitir hann Brady og svo koma önnur greinaskil og þá heitir aumingja flugmaðurinn Turner. Frétt um sama mál er á mbl.is. Þar ber flugmaðurinn sama nafnið í allri fréttinni, Chris Brady og Turner kemur ekkert við sögu.

Þetta er stórgölluð frétt og blaðamanninum og Vísi til áborinnar skammar. Telur ritstjórnin að hægt sé hella einhverju bulli yfir lesendur, bjóða upp á blaðamennsku sem stendur ekki undir nafni. Er engin gæðastefna hjá Vísi?

Tillaga: Þetta er hræðileg aðstaða.

2.

„Skotinn kallaði m.a. eftir því að strákurinn fengi tvo miða á úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Madríd og ársmiða á Anfield fyrir framlag sitt í leiknum gegn Barcelona í gær.“

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Enska orðalagið „to call for“ má ekki þýða á sem að kalla eftir. Skotinn í tilvitnuninni kallað ekkert, hækkaði ekki rödd sína. Hins vegar hefur hann líklega óskað eftir, hvatt til, krafist eða heimtað að strákurinn fengi tvo miða.

Munum að mörg ensk orð hafa ekki sömu merkingu og íslensk orð sem eru eða virðast samstofna. Í enskutímum fyrir óralöngu, á skólastigi sem þá var kallað gagnfræðaskóli, tók kennarinn eitt sinn ágætt dæmi sem festist í kolli þess sem þetta skrifar.

Hvað þýðir þetta: „Look out“? Hugsunarlitlir blaðamenn eru vísir með að segja að það þýddi „líttu út“ og það er rétt, svo langt sem það nær. Hins vegar verður alltaf að líta til samhengisins vegna þess að það getur líka þýdd varaðu þig eða passaðu þig. Viðvörun vegna yfirvofandi hættu.

Annað kunnuglegt er orðasambandið „to step aside“ sem klúðraðar í blaðamennsku þýða beint; „stíga til hliðar“. Í flestum tilfellum merkir það hins vegar að hætta. Sjá nánar hér.

Af þessu má ráða að ekki er allt sem sýnist og betra að huga að samhenginu áður en maður fer að bulla einhvern fjárann. Sjá nánar hér. 

Tillaga: Skotinn hvatti til þess að strákurinn fengi tvo miða á úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Madríd og ársmiða á Anfield fyrir framlag sitt í leiknum gegn Barcelona í gær.

3.

„Jón Hall­dór tek­inn við Kefla­vík.“

Frétt á mbl.is.               

Athugasemd: Skyldi Jón þessi hafa verið tekinn fyrir of hraðan akstur við Keflavík? Nei. 

Er Jón Halldór skip sem tekið var við veiðar í landhelginni við Keflavík? Nei. 

Var Jón kannski ráðinn bæjarstjóri í Keflavík? Nei.

Svona er nú hægt að misskilja einfalda og „skýra“ fyrirsögn. Líklegast best að taka það fram að Jón Halldór tók við þjálfun körfuboltaliðs Keflavíkur í meistaraflokki.

Auðvitað skilst fyrirsögnin í réttu samhengi, ekkert rangt við hana þó hér sé gerð tillaga.

Tillaga: Jón Hall­dór þjálfar í Kefla­vík.


Hringja símtal, go crazy og holy grail í skíðagöngu

Orðlof og annað

Samtengingar

Aðalhlutverk samtengingar er að vera tengiliður milli einstakra orða, orðasambanda eða setninga. Í setningunni Jón og Gunna eru systkin er og samtenging, […]

Samtengingum er gjarnan skipt í aðaltengingar og aukatengingar. Aðaltengingar eru yfirleitt ekki í upphafi setningar en þó má finna mörg dæmi um það í ritmáli þar sem höfundur notfærir sér þennan möguleika sem stílbragð, til dæmis:

    • Og að því búnu strunsaði hann út.
    • En ekkert ljós kviknaði í glugganum.
    • Bæði drengurinn og stúlkan munu vera orðin veik.

Oft er þessi leið valin til að leggja áherslu á það sem verið er að segja.

Sjá nánar á Vísindavefnum.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Albert hringdi stórkostlegt símtal og lét henda félaga sínum út.“

Fyrirsögn á dv.is.             

Athugasemd: Er rétt að segja að einhver hafi hringt símtal? Flestir hringja og eiga þar á eftir tal í símanum, samtal, við einhvern sem svarar. Slíkt kallast símtal.

„Fréttin“ er um hrekk og blaðamaðurinn er yfir sig hrifinn. Hringingin var ábyggilega ekki stórkostlegt, en í því laug þessi Albert að starfsmanni veitingastaðarins Peterson, kom því til leiðar að vini hans var hent út.

Þó svo að ég hafi glott finnst mér engum sómi af svona frétt, ekki fyrir þennan Albert, ekki veitingastaðinn, ekki fyrir DV og síst af öllu blaðamanninn, sem þarf að vanda skrif sín miklu betur. Bull á ekki erindi í fjölmiðla.

Tillaga: Albert laug í síma um félaga sinn og lét henda honum út af veitingastað.

2.

„Go Crazy lýkur á mánudag.“

Fyrirsögn í auglýsingu Ilva á blaðsíðu 5 í Fréttablaðinu 6.5.2019.            

Athugasemd: Er til of mikils mælst að íslensk fyrirtæki auglýsi á íslensku í íslenskum fjölmiðlum þegar ætlunin er að ná til íslenskra neytenda?

Íslensk tunga á í varnarbaráttu gegn ensku. Fyrirtæki sem nefnist Ilva tekur afstöðu gegn íslenskunni, heldur væntanlega að það sé svo svalt og  vænlegt til árangurs að sletta. Hægt er að bera þessa auglýsingu saman við aðrar í blaðinu, ekkert við þær að athuga nema DAS auglýsinguna sem er í upphæðum þegar aðrir auglýsa vinninga í fjárhæðum. 

Auðvitað er þetta ekkert annað en óvirðing og ruddaskapur, fyrirtækinu til skammar. Ekki mun ég kaupa neitt í þessari verslun og ég hvet aðra til að sniðganga hana.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

1. september 2013 fékk bakarinn …

Frétt á visir.is.             

Athugasemd: Ekki byrja setningar á tölustöfum. Hvernig er slíkt gert, ekki á íslensku, ekki ensku, þýsku, frönsku, spænsku eða öðrum málum. 

Af hverju? Vegna þess að tölustafur er annað tákn er skrifstafur. Á heilbrigðissviði Háskólans á Akureyri eru leiðbeiningar um ritgerðaskrif og þar stendur:

Ef setning hefst á tölustaf er hún skrifuð með bókstöfum. Dæmi: Tíu prósent einstaklinga …

Mjög auðvelt er að komast hjá því að byrja setningu á tölustöfum, annað hvort með því að umskrifa eða nota bókstafi.

Tillaga: Þann 1. september fékk bakarinn ... 

4.

„The holy grail“ í skíðagöngu á Íslandi.

Frásögn á ferðalög og útivist á mbl.is.           

Athugasemd: Þessi samsetning kemur á óvart. Enskan er líklega notuð vegna þess að íslenskt mál er svo máttlaust og illskiljanlegt. Gralið heilaga eða gralinn heilagi … Sjáið bara hversu illa íslenskan lítur út miðað við elskulega enskuna: „The holy grail“ ... Eða hvað?

Tenging gralsins við skíðagöngu er heldur vafasöm. Ég hef áhuga á fjallaferðum og gralið heilaga í þeirri íþróttagrein er Syðsta-Súla eða er það Hekla, nei Hvannadalshnúkur.

Heilaga gralið í inniskóm eru töfflur. Heila gralið í bílavarahlutum er Bílanaust. Heilaga gralið í (gagnslausum) náttúrulyfjum er rauðrótarduft. „The holy grail“ í landbúnaði er þurrkað tað. Af þessu má sjá hversu mikil vitleysa tengingin við gralið er, hvort heldur á íslensku eða ensku.

Tilvitnunin er úr ansi skemmtilegri og fróðlegri grein sem má mæla með. Samt lá við að ég hætti lestrinum strax í upphafi þegar tilvitnunin blasti við. Engin skýring, enginn rökstuðningur, bara fullyrðing á blendingi af íslensku og ensku.

Fyrir utan þetta er helsti gallinn við greinina annars vegar skortur á greinaskilum og hins vegar ofnotkun á tölustöfum. Hið fyrrnefnda hjálpar til við lestur. Margir segja um hið síðarnefnda að rétt sé að rita tölur undir tíu með bókstöfum. Aðrir miða tölur undir eitt hundrað. Auðvitað er þetta spurning um smekk, en fyrir alla muni ekki ofnota tölustafi í fréttum eða greinaskrifum.

Tillaga: Engin tillaga.


Hlaupa hlaup, viðkomandi og upphæðir eða fjárhæðir

Orðlof og annað

Stuttur texti er skýr

Texti er hafður einfaldur til að verða spennandi. Fréttatexti á að vera stuttur, skýr og spennandi. Stuttur texti er skýr. Skýr texti er spennandi. 

Fréttastíll er bestur stuttaralegur. Þú þarft að vera góður í íslensku og skilja málfræði og setningafræði.

Fréttaskrif eftir Jónas Kristjánsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… er að fara ásamt sjö öðrum Íslendingum til Annecy í Frakklandi að hlaupa fjallahlaup.“

„Kynningarblað“ (Fólk, Heilsa) í Fréttablaðinu 30.4.2019.             

Athugasemd: Hlaupa hlaup ... Til þess að skrifa sig framhjá kjánalegu orðalagi þarf að sjá vitleysuna og skilja hana. Í öðru lagi þarf að lesa textann yfir og í þriðja lagi þarf að … tja, vera vakandi, svo ekki sé tekið dýpra í árinni.

Maðurinn sem segir frá er að fara í fjallahlaup, hann ætlar að hlaupa um fjöll.

Í næstu málsgrein á eftir tilvitnuninni hér að ofan segir:

… stefnir á 115 kílómetrana sem felur í sér um 7.000 metra hækkun, svipað og að hlaupa upp rúmlega 12 Esjur í röð.

Aftur er orðalagið hið sama, hlaupa hlaupið og vegalengdin „felur í sér“. Í staðinn hefði hann getað sleppt þessum þrem orðum og bætt við sögninni að vera, er: 

… stefnir á 115 kílómetrana sem er um 7.000 metra hækkun, svipað og að hlaupa upp rúmlega 12 Esjur í röð.

Höfundurinn er ekki vel skrifandi. Hann endurtekur „hlaupa fjallahlaup“ strax í upphafi textans. Annars staðar segir að viðmælandi hafi verið „viðloðandi“ hlaup lengi. Átt er við að hann hafi lengi stundað hlaup.

Þetta er þó ekkert einsdæmi í fjölmiðlum. Þeir segja frá fólki sem „gengur kröfugöngur“, þó er því aldrei haldið fram að fólk „labbi kröfugöngur“ og má þakka fyrir það. Þó hefur ekki sést að einhverjir syndi sund sem er líka þakkarvert.

Loks má nefna þetta úr fréttinni:

gerir HOKA fjölbreytta línu af hlaupaskóm fyrir götu- og utan- vegahlaup.

Sem sagt verksmiðjan gerir skó en framleiðir þá ekki. Skrýtin breyting á merkingu orðs.

Tillaga: … er að fara til Annecy í Frakklandi í fjallahlaup með sjö öðrum Íslendingum.

2.

„Skömmu fyrir klukkan eitt í nótt var tilkynnt um einstakling berjandi í hús með málmhlut í miðborginni. Viðkomandi fannst ekki.“

Frétt á visir.is.             

Athugasemd: Alltaf fyndið að lesa löggufréttir og þá helst á milli línanna. Líklega er þetta orð viðkomandi búið að vinna sér þegnrétt í málinu en það fékk hér hæli úr dönsku. 

Hér áður fyrr þótti fínt að nota það, svo var eitrað fyrir því og það kallað dönsk sletta. Núna er öllum sama nema okkur í kverúlantaliðinu, við notuð það ekki, slíkt var uppeldið.

Hins vegar er svo skrýtið að yfirleitt er hægt að sleppa orðinu og nota hann eða hún í staðinn eða álíka eftir samhenginu.

Hvað þýðir viðkomandi. Á vefnum er dönsk synonymbog og þar stendur:

Vedkommende betyder omtrent det samme som Pågældende. Se alle synonymer nedenfor. Synonymer; pågældende, førnævnte, hin, omtalte.

Þetta er nú gott að vita. Hins vegar hefur maður doltlar áhyggjur af honum viðkomandi sem ekki fannst. Í fréttinni segir þó frá viðkomandi og hafði viðkomandi sparkað í bíla í Hafnarfirði:

Við afskipti lögreglu kom í ljós að viðkomandi var mjög ölvaður og vistaður í fangageymslu sökum ástands.

Viðkomandi var settur í geymslu sökum ástands, ekki vegna eða fyrir, sem er gott. Og ekki er getið um að málið þurfi að rannsaka („settur í fangaklefa fyrir rannsókn málsins“ eins og oft er sagt).

Í löggufréttum er maður ýmist nefndur manneskja, einstaklingur eða viðkomandi. Alltaf að tala kurteislega um fólk sem skemmir eigur annarra, stelur eða brýtur af sér á annan hátt. Ekki má kalla það lögbrjóta, bófa, glæpamenn, skemmdarskrín, leiðindaseggi eða álíka. 

Tillaga: Skömmu fyrir klukkan eitt í nótt var tilkynnt um mann sem barði í hús með málmhlut í miðborginni. Hann fannst ekki.

3.

Cross­fit-fólk tætti upp Esj­una.

Frétt á mbl.is.              

Athugasemd: Ekki líst mér á’ða, maður, að verið sé að tæta Esju upp. Eru það ekki umhverfisspjöll?

Af fréttinni má þó ráða að fólk er í kapphlaupi upp undir Þverfellshorn í Esju. Sögnin að tæta er skemmtileg. Hún getur þýtt að rífa eitthvað í sundur eins og segir á malid.is: 

tæta, †tœta s. ‘rífa, reyta; dreifa, tvístra; tæja ull’, […] Af sama toga (og sagnleidd) eru no. tæta kv. ‘pjatla, tætla’, tæti h. ‘ögn,…’, sbr. nno. tøte ‘spunaefni’, og ótæti, tætingur k. ‘ullarvinna, tvístringur’ og tæsla kv. ‘ullartæting’. Sjá (2) og tætildislegur og tætla.

Orðabókin getur þó ekki um unga fólkið sem hér áður fyrr tætti á bílum um götur bæja og borgar. Þá tættu vélarmiklir bílar upp malbikið, að minnsta kosti í óeiginlegri merkingu. Rétt eins og nú tæta hlauparar upp Esju og hverfa í rykmekki.

Svo eru til vélar sem tæta, jarðvinnustæki sem tætir upp mold fyrir ræktun, í bókstaflegri merkingu.

Tillaga: Skömmu fyrir klukkan eitt í nótt var tilkynnt um mann sem barði í hús með málmhlut í miðborginni. Hann fannst ekki.

4.

Fleiri vinningar og hærri upphæðir en nokkru sinni fyrr.

Auglýsing í ýmsum fjölmiðlum.              

Athugasemd: Þannig freistar Happdrætti DAS landsmanna. Líklega er það bara gott, við styrkjum góðan málstað og getum hugsanlega unnið nokkurn pening.

Þegar ég var strákur sagðist ég hafa fengið stóra fjárhæð fyrir að bera út Vísi. Eldri bróðir minn sem var með ár og reynslu umfram mig vísaði þá til forsætisráðherrans Bjarna Benediktssonar eldri sem hafði einhvern tímann sagt: 

Peningar eru í fjárhæðum en drottinn allsherjar í upphæðum.

Síðan hef ég talað um fjárhæðir af því að mér þótti þetta bæði rökrétt og snjallt.

Í textanum lofar Happdrætti DAS að peningum og því er ekki nema eðlilegt að textinn sé þá eins og í tillögunni hér fyrir neðan.

Mér finnst það einnig fara betur að nota atviksorðið áður en orðalagið nokkru sinni fyrr, en ekki er víst að allir séu því sammála.

Tillaga: Fleiri vinningar og hærri fjárhæðir en áður.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband