Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2019

Nafnorðavæðingin, löggumálið og ensk íslenska

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Við erum að liggja …

Í íslensku er (eða hefur verið) gerður munur á einfaldri nútíð/þátíð og orðasambandinu vera að + nafnháttur (dvalarhorf), t.d.: 

Maðurinn skrifar vel/bréf á hverjum degi en hins vegar: Maðurinn er að skrifa bréf. 

Í síðara dæminu er um að ræða (afmarkaðan) verknað sem stendur yfir en fyrra dæmið vísar til þess sem er ekki afmarkað í tíma (maðurinn skrifar alltaf vel/skrifar bréf daglega). 

Þegar í fornu máli má sjá þennan mun en þær reglur sem ráða notkuninni er nokkuð flóknar og að mestu óskráðar. Málnotendur fara eftir málkennd sinni enda dugir hún vel í flestum tilvikum. En eftir hverju fer notkunin?

Til einföldunar má segja að merking eða vísun sagnar skipti mestu máli um það hvort notað er orðasambandið vera að + nh. eða ekki. 

    1. Í fyrsta lagi er það ekki notað með sögnum er vísa til ástands eða kyrrstöðu, t.d. segja flestir: barnið sefur, konan situr við borðið og maðurinn býr í Hafnarfirði. Þessi „regla“ hefur frá fornu fari og til skamms tíma verið býsna traust en nú virðist hafa orðið breyting þar á, sbr.: 
      • Við erum að liggja [‘liggjum oft, þurfum oft að leggjast] til að ná slösuðum úr bílum (14.9.06). 
    2. Í öðru lagi eru naumast til ritaðar heimildir um að nafnháttarorðasambandið sé notað með svo kölluðum skynjunarsögnum (t.d. sjá, heyra, vita, skilja), sbr. Þó: 
      • Við erum að sjá það gerast (4.11.05); við erum að sjá hlutina sömu augum (18.12.06) og ég er ekki að skilja þetta.  
    3. Í þriðja lagi á sama við um sagnir sem lýsa afstöðu eða skoðun (t.d. telja, halda, álíta, trúa, vona) en út af því bregður oft í nútímamáli, t.d.:
      • Ertu að reikna með að gengið hækki? (14.12.06) og Ég var ekkert að hugsa (12.4.07). 
    4. Í fjórða lagi er nafnháttarorðasambandið sjaldnast notað með sögnum sem eru ekki bundnar við stað eða stund, t.d. leika vel, tala skýrt og standa sig vel. Hér gætir einnig breytinga í nútímamáli, t.d.: leikskólarnir eru að standa sig mjög vel (13.3.07). 

„Reglur“ sem þessar eru auðvitað miklu fleiri en fjórar ofantaldar en mikilvægasta reglan er vitaskuld málkenndin. 

Jón G. Friðjónsson: Íslenskt mál, 102 þáttur, í Morgunblaðinu 12.5.2007

Eins og endranær í þessum pistlum er greinaskilum, feitletrunum og fleira bætt við í tilvitnaðar setningar til að auðvelda lesturinn (án leyfis).

1.

Hann var sleg­inn í höfuðið og hon­um veitt­ir áverkar.

Frétt á mbl.is             

Athugasemd: Furðufréttir frá lögreglunni eru ótæmandi og ekki alveg ljóst hvor á sök, fjölmiðlar eða löggan. Margt bendir til að af þessum væng liggi íslenskan undir hvað alvegarlegustu árásum og bíði slæmt afhroð.

Hér virðast höfuðhögg ekki flokkast sem áverki. Hann var sleginn í hausinn og síðan veittir áverkar … Las ekki blaðamaðurinn skrifin sín yfir. Er ekki betra að segja: 

Hann var barinn, meðal annars í höfuðið.

Nei, þá er nebbnilega ekki hægt að nota hið sívinsæla orðalag að veita áverka. Sko, þegar maður er laminn kemur fram áverki, jafnvel áverkar, það er meiðsli eða sár. Aldrei nokkurn tíma hefur verið sagt í löggufréttum að fólk hafi særst í árás, fengið sár. Nei, alltaf skal nota fleirtöluorðið áverkar, að veita áverka. Lengi lifi nafnorðavæðing löggunnar.

Svo segir í fréttinni:

Að sögn lög­reglu taldi maður­inn að árás­ar­menn­irn­ir hafi ætlað að ræna hann.

Hér er fréttin bara hálfsögð. Ekki kemur fram hvort aumingjans maðurinn hafi verið rændur, ef ekki, hvers vegna þeim tókst það ekki. 

Enn er nokkuð í pokahorninu:

Síðdeg­is í gær stöðvaði lög­regl­an ferð öku­manns í Árbæn­um sem er grunaður um akst­ur bif­reiðar und­ir áhrif­um fíkni­efna, auk þess að aka svipt­ur öku­rétt­ind­um, með fíkni­efni á sér auk þess að vera vopnaður.

Þvílík löggusteypa sem þetta er. Hefði ekki verið einfaldara að orða þetta svona: 

Í Árbæ var bíll stöðvaður. Ökumaðurinn reyndist dópaður, án ökuréttinda og vopnaður. 

Nei, svona orðalag er ekki löggumál og langt frá því að vera nægilega stofnanalegt enda bara dauðlegt fólk sem talar á þennan hátt.

Svo kemur þessi frasi sem er beinlínis rangur:

… og eru þeir vistaðir fyr­ir rann­sókn máls í fanga­geymslu lög­reglu.

Enn er skrifað á geldu löggumáli. Bófarnir eru vistaðir einhvers staðar. Líklega voru þeir sendir í sveit yfir sauðburðinn. Slíkt hefur góð áhrif á sálarlíf flestra. Úbbs ... þeir voru settir, meina vistaðir, í fangageymslu. Ekki fangaklefa, fangelsi, fangaherbergi, fangastofu, fangasvefnherbergi, fangadvalarstað, fangaskáp eða álíka. Nei, svoleiðis mælir engin lögga með snefil af sjálfsvirðingu. Geymsla skal það heita (ekki þó kústaskápur). Löggumálið er einfaldlega óumbreytanlegt, sömu orðin endurnýtt út í það óendanlega

„… vistaðir fyrir rannsókn máls …“ 

Þetta er svo yndislega löggulegt orðalag að þegar það birtist eiga lesendur bókstaflega að standa upp, taka af sér pottlokið og þegja að minnsta kosti í eina mínútu. Slíkt kallast andakt (það þýðir til dæmis að vera innanvarmur). Aldrei myndi flögra að löggunni eða löggublaðamönnum að segja að bófarnir hafi verið settir í fangelsi vegna rannsóknar málsins. Nei, slíkt er of hversdagsleg íslenska („plebbalegt“), allir tala svoleiðis.

Ökumaður og farþegi fundu til ein­hverra eymsla og fóru á slysa­deild.

Hér áður fyrr kom fyrir að fólk meiddist og fann til eymsla, nokkurra eymsla eða jafnvel að meiðsl hafi verið nokkur. Svoleiðis gerist ekki nú á dögum. Blaðamenn misnota miskunnarlaust óákveðna fornafnið einhver í þágu enska orðsins „some“.

Sá sem ber ábyrgð á birtingu þessarar fréttar í Morgunblaðinu skal umsvifalaust gerður að ritstjóra Löggublaðsins. Slíkir eru hæfileikurinn og dómgreindirnar (ha? Er hvort tveggja rangt? Jæja, skiptir aungvu)

Tillaga: Hann var barinn svo á honum sá.

2.

Það fylgir alltaf sársauki þegar umbreyting á sér stað.

Frétt á blaðsíðu 28 í Morgunblaðinu 10.4.2019.             

Athugasemd: Aukafrumlagið „það“ getur stundum verið hvimleitt enda oft kallaður leppur. Yfirleitt er það merkingarlaust, hægt að sleppa því án þess að merking setningar eða málsgreinar breytist.

Ofnotkun á aukafrumlaginu er bölvaður sóðaskapur í rituðu máli, stílleysa. Góðir skrifarar reyna að komast hjá því, aðrir eru blindir á þetta en svo virðist að sumum sé alveg sama.

Sögnin að fylgja stjórnar þágufalli. Þar af leiðandi ætti að standa þarna því fylgir alltaf sársauki … Þó fallstjórnunin skipti máli er ekki síður mikilvægt að losna undan ofurvaldi hins stíllausa aukafrumlags. Berum saman málsgreinina hér að ofan og tillöguna. Klisjan „að eiga sér stað“ er horfin, enda gagnslaus. 

Hins vegar getur verið að tillagan sé frekar snubbótt og fylgi ekki tilfinningunni sem tilvitnuninni er ætlað að gefa. Þegar setning eða málsgrein hefur verið stýfð á þennan hátt er einfaldlega hægt að byggja hana upp aftur. Þar af leiðandi mætti orða hugsunina á þann hátt sem viðmælandinn segir í viðtalinu:

Sársaukalaus umbreyting er ekki til.

Hér þarf að koma fram að fréttin fjallar um ljóðabók og ekki er sama hvernig um slíkar er skrifað.

Tillaga: Sársauki fylgir umbreytingu.

3.

„Klopp baðst afsökunar á því að hafa spilað Henderson í vitlausri stöðu.“

Fyrirsögn á visir.is.             

Athugasemd: Alltof oft (blaðamenn segja „ítrekað“) framleiða blaðamenn á visir.is skemmdar fréttir. Enginn segir neitt. Stundum heyrist hvíslað: Tja, það er nú ekki lengur neinn prófarkalestur hér. Rétt eins og það sé einhver afsökun. Miklu frekar að það sé ávirðing.

Heimildin fyrir fyrirsögninni í frá BBC. Þar segir í fyrirsögn:

Klopp "sorry" for playing Henderson in wrong position.

Er í lagi að blaðamaðurinn þýði þessa fyrirsögn beint? Nei, auðvitað ekki. Þetta er skemmd frétt og fjölmiðlunum ekki boðlegt að bjóða upp á svona meðferð á málinu.

Þjálfari Liverpool spilar ekki leikmönnum nema þeir séu af einhverju öðru en holdi og blóði. Hann teflir þeim fram í ákveðnar stöður, þeir leika eða spila. Þjálfarinn er allan leikinn utan vallarins, kemur hvergi nærri bolta eða boltameðferð hversu mikið sem hann ólátast.

Svo má deila um það hvort leikmaðurinn hafi spilað „vitlausa“ eða ranga stöðu. Hallast að hinu síðarnefnda.

Tillaga: Engin tillaga gerð.


Hroðvirkni í fjölmiðlum bitnar á neytendum

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Brenna niður

Ekki er ótítt í fréttum að hús sem gjöreyðast í eldi séu sögð hafa „brunnið niður“: „[B]ústaðurinn var alelda þegar að var komið og brann niður á svipstundu.“ 

Grunur fellur á enskuna: to burn down. En hér brenna hús til ösku, til kaldra kola, til grunna eða fuðra upp.

Málið, blaðsíða 24 í Morgunblaðinu 8.4.2019.

 

1.

Fyrstu höggin fljúga í skattaslagnum.

Fyrirsögn á visir.is.            

Athugasemd: Högg fljúga ekki. Fuglar fljúga og fjölmargt annað, jafnvel stólar sé þeim kastað. Í fornsögum segir stundum að hnútum hafi verið kastað. Á malid.is segir um hnútu:

leggjarhöfuð; (allsvert) bein; hnýfilyrði, sbr. að kasta hnútum að e-m; 

Hnýfilyrði eru særandi ummæli. Miklu meiri líkur eru á því að hnútum sé kastað í óeiginlegri merkingu, ekki þeirri að menn hendi leggjarbeinum í hvern annan eins og sagt var í fornsögunum.

Grímur Thomsen orti ljóðið Á Glæsivöllum sem er snilldar kveðskapur og er oft vitnað í hann. Í ljóðinu segir meðal annars:

Á Glæsivöllum aldrei
með ýtum er fátt,
allt er kátt og dátt.
En bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt,
í góðsemi vegur þar hver annan.

Í næsta erindi segir: 

Horn skella á nösum
og hnútur fljúga um borð,
hógværi fylgja orð,
en þegar brotna hausar og blóðið litar storð
brosir þá Goðmundur kóngur.

… og hnútur fljúga um borð“, segir í ljóðinu. Gæti verið að einhvers staðar í höfði blaðamannsins sem skrifaði fyrirsögnina hafi falist orðalagið hnútur fljúga en hann hafi ekki almennilega mundað eftir því og sagt að högg fljúga. Leyfum honum að eiga vafann

Tillaga: Fyrstu hnúturnar fljúga í skattaslagnum.

2.

Það munaði litlu að henni hafi verið rænt af hópum manna, en henni tókst að hlaupa í burtu eins og enginn væri morgundagurinn.

Frétt á dv.is.           

Athugasemd: Hroðvirkni er afar slæm, sérstaklega hjá blaðamönnum. Hún bitnar á lesendum, neytendum. 

Fyrirsögnin er illskiljanleg miðað við efni „fréttarinnar“. Í henni segir vissulega frá tveimur hópum en hún hljóp þó aðeins frá öðrum þeirra. Hvaða erindi á fleirtalan í fyrstu setningunni? Þetta kallast hnoð, jafnvel rembingshnoð, og er ekki til fyrirmyndar.

Svo hleypur hún í burtu „eins og enginn væri morgundagurinn“. Þetta er nú meira bullið. Skilur einhver samhengið?

Held að blaðamaðurinn þurfi að taka sig verulega á í skrifum, æfa sig og lesa góðar bókmenntir í svona tíu til tuttugu ár, þannig verður góður orðaforði til. Um leið þarf hann að muna að hæfileikar í blaðamennsku eða skrifum eru ekki meðfæddir, þeir eru áunnir.

Tillaga: Engin tillaga.


Frá hverju er verið að forða slysi?

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Á einu bretti

Aldrei fleiri misst vinnuna á einu bretti, segir í fjölmiðlum. Hvaða bretti er þetta?

Orðatiltækið er kunnugt úr nútímamáli og er líkingin dregin af því að peningar sem telja átti voru lagðir á fjöl eða bretti …[d. på et bræt; þ. etwas auf einem Brett bezahlen].

Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson.

 

1.

Leiðbeiningar Boeing forðuðu ekki slysinu.

Fyrirsögn á visir.is.            

Athugasemd: Blaðamaðurinn sem skrifaði fyrirsögnina átti ekki við að slysinu hafi verið bjargað. Það er engu að síður merkingin. 

Sögnin að forða bögglast fyrir fleirum en blaðamönnum. Á vef Eiðs heitins Guðnasonar segir:

Sögnin  að  forða  þýðir  að  bjarga  eða  koma undan. „Fram,fram fylking, forðum okkur háska frá.“  

Það er ekkert  til sem heitir að  forða  slysi. Það er hinsvegar stundum mögulegt að gera ráðstafanir,sem geta komið í veg fyrir  slys. 

Blaðamenn ættu að forðast að nota orð sem þeir kunna ekki með að fara.

Annars staðar á vef Eiðs vitnar hann í Bjarna Sigtryggsson, sem hefur starfað sem blaðamaður. Sá síðarnefndi segir þar:

Í mbl.is-frétt segir svo um leynda hættu fyrir Fasbókarnotendur: 

Til að forða því að samfélagssíðan fylgist með ferðum notandans á vefnum … 

Hér á augljóslega að standa „Til að forðast að…“ því ella verður merkingin önnur. 

Þetta er algeng villa í fréttaflutningi, t.d. þegar talað er um að forða slysi í stað þess að forðast slys. Að forða slysi frá hverju…? 

Örlítil hugsun er fréttafólki nauðsynleg áður en slegið er á lyklaborðið.

Líklega er of seint að kenna blaðamanni íslenskt mál og stíl, hann átti að læra það í grunn- og framhaldsskóla. Hins vegar má bæta þekkingu hans smám saman hafi hann á annað borð einhverja löngun til þess. Allt sem þarf er örlítið hugsun, eins og Bjarni Sigtryggsson segir.

Tillaga: Leiðbeiningar Boeing komu ekki í veg fyrir slysið.

2.

Ak­ur­eyri og Fram berj­ast um að forðast fall.

Fyrirsögn á mbl.is.             

Athugasemd: Þetta er léleg fyrirsögn. Annað liðið er í næst neðsta sæti og hitt í þriðja neðsta og munar einu stigi á þeim . Blaðamaðurinn skilur ekki aðalatriðið. Liðin berjast um að halda sér í deildinni.

Liðin eru að berjast um tíunda sætið í handboltadeildinni. Liðin í ellefta og tólfta sæti falla í næstu deild fyrir neðan. Annað hvort liðið fellur. 

Þekkt er orðatiltækin að berjast gegn, berjast fyrir, berjast um, berjast við og jafnvel fleiri, sjá malid.is. 

Akureyri og Fram berjast hins vegar ekki hvort við annað í fallbaráttunni. Næsti leikur fyrrnefnda liðsins er við ÍR, hitt leikur við ÍBV.

Tillaga: Akureyri og Fram í mikilli fallbaráttu.

3.

Lögreglumyndir af sökudólgum eins og þú hefur aldrei séð þær áður.

Fyrirsögn á dv.is.              

Athugasemd: Ástæða er til að hafa verulegar áhyggjur af DV. Svo virðist sem þar séu engar kröfur gerðar til málfars.

Skilur einhver fyrirsögnina? Nei, pottþétt ekki. Þess vegna leitaði ég til herra Gúgöls og bað um þýðingu á ensku ef vera mætti að ég skildi hana. Hann segir:

Police photos of culprits as you have never seen them before.

Því miður er ég engu nær um merkinguna, en … tek eftir því að feitletrunin í fyrirsögninni er bein þýðing úr enskunni.

Má vera að blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina sé góður í ensku en hann hefur litla tilfinningu fyrir íslensku máli.

Nei, nnars. Ég ef sannast sagna ekki áhyggjur af DV. Ég hef hins vegar verulegar áhyggjur af því að fjölmiðillinn dreifir skemmdum fréttum talsvert umfram aðra. Látum undarlegt fréttamat liggja á milli hluta en boðskapurinn virðist vera sá að málfar skipti engu.

Tillaga: Engin.

4.

Þannig að, svo að fólk geti staðist greiðslu­mat með þessu nýja lána­formi erum við að …

Frétt á mbl.is.              

Athugasemd: Blaðamanni ber að lagfæra orðalag viðmælanda eða ræðumanns. Rangt er að breiða út slæmt mál. Hér að ofan hefur ráðherra eitthvað rekið í vörðurnar, tafsað. Hann hefði ábyggilega ekki skrifað ræðu sína á þennan hátt. Ástæðan er einfaldlega sú að mikill munur er á talmáli og ritmáli.

Leiðbeiningar um ritgerðasmíði eftir Eirík Rögnvaldsson er hér á vefum. Eftirfarandi fellur að því sem hér er til umræðu:

Dæmi um hið öfuga, þ.e. talmál sem breytt er í ritmál, sjáum við stundum í dagblöðum, þegar prentað er orðrétt það sem einhver og einhver hefur sagt t.d. í útvarpi eða í síma við blaðamann. Þetta er þó sjaldgæft, því að talað mál, með öllu sínu hiki, stami og mismælum, verður nefnilega hálf hallærislegt á prenti, þótt enginn taki eftir neinu óeðlilegu þegar hlustað er á það; og lætur jafnvel þann sem haft er eftir líta út sem hálfgerðan aula.

Held að blaðamenn og aðrir sem stunda skriftir hefðu gott af því að lesa þessa umfjöllun Eiríks. Hann segir ennfremur:

Enginn er svo vel að sér eða hefur svo örugga máltilfinningu að hann geti ekki haft gagn af handbókum og orðabókum. Íslenskir stúdentar gera oft alltof lítið af því að fletta upp í slíkum ritum. Hér má vísa á yfirlit um nokkur helstu rit af þessu tagi.

Nokkrar af þeim bókum sem bent er á má telja nokkrar skyldueign, að minnsta kosti fyrir blaðamenn. Þetta eru bækur eins og Orðastaður, Orðaheimur, Íslenskt orðtakasafn, Íslenskir málshættir, Orðalykill, Stafsetningarorðabók með skýringum, Mergur málsins, Íslenskt málfar, Handbók um íslenskan framburð, Handbók um ritun og frágang og Hagnýt skrif, svo dæmi séu tekin.

Ég á ekki allar þessar bækur, vissi ekki af mörgum en ætla að kaupa nokkrar … og lesa.

Tillaga: Til þess að fólk geti staðist greiðslu­mat með þessu nýja lána­formi erum við að …


Afturendatal og vinsæla orðið

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Á einu bretti

Aldrei fleiri misst vinnuna á einu bretti, segir í fjölmiðlum. Hvaða bretti er þetta?

Orðatiltækið er kunnugt úr nútímamáli og er líkingin dregin af því að peningar sem telja átti voru lagðir á fjöl eða bretti …[d. på et bræt; þ. etwas auf einem Brett bezahlen].

Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson.

 

1.

„Rooney gekk í raðir DC síðasta sumar og reif liðið upp af rassgatinu og heldur því áfram núna.“

Frétt í dv.is.             

Athugasemd: Stíllinn hjá íþróttablaðmönnum er oft til lítillar fyrirmyndar og ritstjórnin gerir engar athugasemdir. Er það svona málfar sem lesendur vilja ef ekki er best að blaðamenn taki sig á (ekki rífi sig upp af rassgatinu).

Tillaga: Rooney gekk í raðir DC síðasta sumar, reif liðið áfram og er fjarri því hættur.

2.

Við erum búin að meta stöðuna ítrekað, ég held að þess­ar út­lín­ur sem nú þegar liggja fyr­ir …

Frétt á mbl.is.             

Athugasemd: Atviksorðið oft er frekar lítið notað enda bölvaður ræfill og kjánalegt í háalvarlegri umræðu. Miklu flottara er að nota lýsingarorðið ítrekaður. Það er einhvern veginn svo … gasalega gáfumannslegt, svo fjölmiðlalegt. Eða þannig sko.

Sögnin að ítreka merkir að endurtaka. Sumir hafa oft þurft að leita réttar sín hjá stjórnvöldum og því er ábyggilega hraustlegra að segja að þeir hafi þurft að ítreka (sögnin) kröfuna margsinnis.

Svo eru það hinir sem alltaf eru að minnast á ákveðið mál, til dæmis „orkupakka 3.0“. Þeir vara ítrekað (lýsingarorðið) við honum enda er orðið vænlegra til árangurs og flottara.

Þetta var nú lítil saga af orðafátæktinni í fjölmiðlum sem hér hefur stundum (ekki ítrekað) verið nefnd, líklega oft (ekki ítrekað), jafnvel margsinnis (ekki ítrekað) og hér er hún enn einu sinni (ekki ítrekað), það er aftur og aftur (ekki ítrekað) hoggið í sama knérunn.

Á malid.is segir um nafnorðið knérunnur:

Orðatiltækið að höggva/vega í sama knérunn merkir: gera e-m sams konar miska á ný eða gera það sama aftur. Orðið knérunnur merkir: ættarlína, grein ættar.

ættarlína, ættarröð í beinan ættlið’. Af kné h., sem líkl. er haft í merk. ‘(ætt)liður’, og runnur ‘tré’ (s.þ.).

Já, knérunnur er einstaklega fallegt orð.

Tillaga: Við höfum oft metið stöðuna ég held að það sem nú þegar liggur fyr­ir …

3.

Skrifstofufólk teygir úr sér eftir langan setu á rassinum.

Myndatexti á blaðsíðu 3 í Fólk/kynningarblaði Fréttablaðsins 2.4.2019.        

Athugasemd: Ólíklegt er að mannfólkið sitji á einhverju öðru en afturendanum, rassinum. Þar af leiðandi er þarf sjaldnast að nefna hann í álíka tilfellum enda ekki gert.

Í Íslenskri orðsifjabók á malid.is segir:

rass k. ‘bakhluti, afturendi á manni eða skepnu, sitjandi, bossi; tilsvarandi hluti á buxum; (afleidd merk.) afkimi, leiðindastaður’; sbr. fær. rassur, nno. rass. 

Eiginl. víxlmynd við ars (s.m.) (s.þ.), sbr. svipaða hljóðavíxlan í argur og ragur.

Á ensku er líkamshlutinn einmitt nefndur „arse“ enda kann hljóðvíxlunin að hafa gleymst í því máli.

Tillaga: Skrifstofufólk teygir úr sér eftir langan setu


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband