Frá hverju er verið að forða slysi?

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Á einu bretti

Aldrei fleiri misst vinnuna á einu bretti, segir í fjölmiðlum. Hvaða bretti er þetta?

Orðatiltækið er kunnugt úr nútímamáli og er líkingin dregin af því að peningar sem telja átti voru lagðir á fjöl eða bretti …[d. på et bræt; þ. etwas auf einem Brett bezahlen].

Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson.

 

1.

Leiðbeiningar Boeing forðuðu ekki slysinu.

Fyrirsögn á visir.is.            

Athugasemd: Blaðamaðurinn sem skrifaði fyrirsögnina átti ekki við að slysinu hafi verið bjargað. Það er engu að síður merkingin. 

Sögnin að forða bögglast fyrir fleirum en blaðamönnum. Á vef Eiðs heitins Guðnasonar segir:

Sögnin  að  forða  þýðir  að  bjarga  eða  koma undan. „Fram,fram fylking, forðum okkur háska frá.“  

Það er ekkert  til sem heitir að  forða  slysi. Það er hinsvegar stundum mögulegt að gera ráðstafanir,sem geta komið í veg fyrir  slys. 

Blaðamenn ættu að forðast að nota orð sem þeir kunna ekki með að fara.

Annars staðar á vef Eiðs vitnar hann í Bjarna Sigtryggsson, sem hefur starfað sem blaðamaður. Sá síðarnefndi segir þar:

Í mbl.is-frétt segir svo um leynda hættu fyrir Fasbókarnotendur: 

Til að forða því að samfélagssíðan fylgist með ferðum notandans á vefnum … 

Hér á augljóslega að standa „Til að forðast að…“ því ella verður merkingin önnur. 

Þetta er algeng villa í fréttaflutningi, t.d. þegar talað er um að forða slysi í stað þess að forðast slys. Að forða slysi frá hverju…? 

Örlítil hugsun er fréttafólki nauðsynleg áður en slegið er á lyklaborðið.

Líklega er of seint að kenna blaðamanni íslenskt mál og stíl, hann átti að læra það í grunn- og framhaldsskóla. Hins vegar má bæta þekkingu hans smám saman hafi hann á annað borð einhverja löngun til þess. Allt sem þarf er örlítið hugsun, eins og Bjarni Sigtryggsson segir.

Tillaga: Leiðbeiningar Boeing komu ekki í veg fyrir slysið.

2.

Ak­ur­eyri og Fram berj­ast um að forðast fall.

Fyrirsögn á mbl.is.             

Athugasemd: Þetta er léleg fyrirsögn. Annað liðið er í næst neðsta sæti og hitt í þriðja neðsta og munar einu stigi á þeim . Blaðamaðurinn skilur ekki aðalatriðið. Liðin berjast um að halda sér í deildinni.

Liðin eru að berjast um tíunda sætið í handboltadeildinni. Liðin í ellefta og tólfta sæti falla í næstu deild fyrir neðan. Annað hvort liðið fellur. 

Þekkt er orðatiltækin að berjast gegn, berjast fyrir, berjast um, berjast við og jafnvel fleiri, sjá malid.is. 

Akureyri og Fram berjast hins vegar ekki hvort við annað í fallbaráttunni. Næsti leikur fyrrnefnda liðsins er við ÍR, hitt leikur við ÍBV.

Tillaga: Akureyri og Fram í mikilli fallbaráttu.

3.

Lögreglumyndir af sökudólgum eins og þú hefur aldrei séð þær áður.

Fyrirsögn á dv.is.              

Athugasemd: Ástæða er til að hafa verulegar áhyggjur af DV. Svo virðist sem þar séu engar kröfur gerðar til málfars.

Skilur einhver fyrirsögnina? Nei, pottþétt ekki. Þess vegna leitaði ég til herra Gúgöls og bað um þýðingu á ensku ef vera mætti að ég skildi hana. Hann segir:

Police photos of culprits as you have never seen them before.

Því miður er ég engu nær um merkinguna, en … tek eftir því að feitletrunin í fyrirsögninni er bein þýðing úr enskunni.

Má vera að blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina sé góður í ensku en hann hefur litla tilfinningu fyrir íslensku máli.

Nei, nnars. Ég ef sannast sagna ekki áhyggjur af DV. Ég hef hins vegar verulegar áhyggjur af því að fjölmiðillinn dreifir skemmdum fréttum talsvert umfram aðra. Látum undarlegt fréttamat liggja á milli hluta en boðskapurinn virðist vera sá að málfar skipti engu.

Tillaga: Engin.

4.

Þannig að, svo að fólk geti staðist greiðslu­mat með þessu nýja lána­formi erum við að …

Frétt á mbl.is.              

Athugasemd: Blaðamanni ber að lagfæra orðalag viðmælanda eða ræðumanns. Rangt er að breiða út slæmt mál. Hér að ofan hefur ráðherra eitthvað rekið í vörðurnar, tafsað. Hann hefði ábyggilega ekki skrifað ræðu sína á þennan hátt. Ástæðan er einfaldlega sú að mikill munur er á talmáli og ritmáli.

Leiðbeiningar um ritgerðasmíði eftir Eirík Rögnvaldsson er hér á vefum. Eftirfarandi fellur að því sem hér er til umræðu:

Dæmi um hið öfuga, þ.e. talmál sem breytt er í ritmál, sjáum við stundum í dagblöðum, þegar prentað er orðrétt það sem einhver og einhver hefur sagt t.d. í útvarpi eða í síma við blaðamann. Þetta er þó sjaldgæft, því að talað mál, með öllu sínu hiki, stami og mismælum, verður nefnilega hálf hallærislegt á prenti, þótt enginn taki eftir neinu óeðlilegu þegar hlustað er á það; og lætur jafnvel þann sem haft er eftir líta út sem hálfgerðan aula.

Held að blaðamenn og aðrir sem stunda skriftir hefðu gott af því að lesa þessa umfjöllun Eiríks. Hann segir ennfremur:

Enginn er svo vel að sér eða hefur svo örugga máltilfinningu að hann geti ekki haft gagn af handbókum og orðabókum. Íslenskir stúdentar gera oft alltof lítið af því að fletta upp í slíkum ritum. Hér má vísa á yfirlit um nokkur helstu rit af þessu tagi.

Nokkrar af þeim bókum sem bent er á má telja nokkrar skyldueign, að minnsta kosti fyrir blaðamenn. Þetta eru bækur eins og Orðastaður, Orðaheimur, Íslenskt orðtakasafn, Íslenskir málshættir, Orðalykill, Stafsetningarorðabók með skýringum, Mergur málsins, Íslenskt málfar, Handbók um íslenskan framburð, Handbók um ritun og frágang og Hagnýt skrif, svo dæmi séu tekin.

Ég á ekki allar þessar bækur, vissi ekki af mörgum en ætla að kaupa nokkrar … og lesa.

Tillaga: Til þess að fólk geti staðist greiðslu­mat með þessu nýja lána­formi erum við að …


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband