Hroðvirkni í fjölmiðlum bitnar á neytendum

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Brenna niður

Ekki er ótítt í fréttum að hús sem gjöreyðast í eldi séu sögð hafa „brunnið niður“: „[B]ústaðurinn var alelda þegar að var komið og brann niður á svipstundu.“ 

Grunur fellur á enskuna: to burn down. En hér brenna hús til ösku, til kaldra kola, til grunna eða fuðra upp.

Málið, blaðsíða 24 í Morgunblaðinu 8.4.2019.

 

1.

Fyrstu höggin fljúga í skattaslagnum.

Fyrirsögn á visir.is.            

Athugasemd: Högg fljúga ekki. Fuglar fljúga og fjölmargt annað, jafnvel stólar sé þeim kastað. Í fornsögum segir stundum að hnútum hafi verið kastað. Á malid.is segir um hnútu:

leggjarhöfuð; (allsvert) bein; hnýfilyrði, sbr. að kasta hnútum að e-m; 

Hnýfilyrði eru særandi ummæli. Miklu meiri líkur eru á því að hnútum sé kastað í óeiginlegri merkingu, ekki þeirri að menn hendi leggjarbeinum í hvern annan eins og sagt var í fornsögunum.

Grímur Thomsen orti ljóðið Á Glæsivöllum sem er snilldar kveðskapur og er oft vitnað í hann. Í ljóðinu segir meðal annars:

Á Glæsivöllum aldrei
með ýtum er fátt,
allt er kátt og dátt.
En bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt,
í góðsemi vegur þar hver annan.

Í næsta erindi segir: 

Horn skella á nösum
og hnútur fljúga um borð,
hógværi fylgja orð,
en þegar brotna hausar og blóðið litar storð
brosir þá Goðmundur kóngur.

… og hnútur fljúga um borð“, segir í ljóðinu. Gæti verið að einhvers staðar í höfði blaðamannsins sem skrifaði fyrirsögnina hafi falist orðalagið hnútur fljúga en hann hafi ekki almennilega mundað eftir því og sagt að högg fljúga. Leyfum honum að eiga vafann

Tillaga: Fyrstu hnúturnar fljúga í skattaslagnum.

2.

Það munaði litlu að henni hafi verið rænt af hópum manna, en henni tókst að hlaupa í burtu eins og enginn væri morgundagurinn.

Frétt á dv.is.           

Athugasemd: Hroðvirkni er afar slæm, sérstaklega hjá blaðamönnum. Hún bitnar á lesendum, neytendum. 

Fyrirsögnin er illskiljanleg miðað við efni „fréttarinnar“. Í henni segir vissulega frá tveimur hópum en hún hljóp þó aðeins frá öðrum þeirra. Hvaða erindi á fleirtalan í fyrstu setningunni? Þetta kallast hnoð, jafnvel rembingshnoð, og er ekki til fyrirmyndar.

Svo hleypur hún í burtu „eins og enginn væri morgundagurinn“. Þetta er nú meira bullið. Skilur einhver samhengið?

Held að blaðamaðurinn þurfi að taka sig verulega á í skrifum, æfa sig og lesa góðar bókmenntir í svona tíu til tuttugu ár, þannig verður góður orðaforði til. Um leið þarf hann að muna að hæfileikar í blaðamennsku eða skrifum eru ekki meðfæddir, þeir eru áunnir.

Tillaga: Engin tillaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband