Bloggfærslur mánaðarins, október 2019

Gera hnífstunguárás, ruslari, taka niður gamla geymslu

Orðlof

Skrauthvörf (veigrunarorð) 

Skrauthvörf er hugtak sem stundum er notað yfir það þegar fólk leitar uppi orð sem því þykir á einhvern hátt fínna, snyrtilegra eða vægara en önnur sem virðast dónaleg eða ófín, jafnvel niðrandi. 

Um skrauthvörf hafa verið notuð fleiri orð, t.d. veigrun (veigrunarorð), fegrunarheiti, skrautyrði og tæpitunga. Íslensk orðabók gefur sem dæmi þegar fólk segir / ritar botn í stað rass.

Morgunblaðið, Tungutak, Þórður Helgason, BA í íslensku og sagnfræði og Cand.mag í  bókmenntum.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Umhverfisstofnun sendi frá sér óvanalega yfirlýsingu í vikunni …

Frétt á vísir.is.              

Athugasemd: Hvort skyldi yfirlýsing hafa verið óvanaleg eða óvenjuleg? Bæði orðin hafa svipaða merkingu en eitthvað segir mér að betra hefði verið að nota það síðarnefnda. Um það má vissulega deila.

Tillaga: Umhverfisstofnun sendi frá sér óvenjulega yfirlýsingu í vikunni …

2.

MAX-vélar Icelandair fljúga af stað til Spánar.“

Frétt á vísir.is.              

Athugasemd: Flugvélar fljúga ekki sjálfkrafa. Betur fer á því að segja að þeim sé flogið.

Tillaga: MAX-vélum Icelandair flogið til Spánar.

3.

„Hann er stadd­ur í Manchester í Englandi þar sem hnífstungu­árás var gerð í morg­un og eru fimm særðir eftir hana.

Frétt á mbl.is.               

Athugasemd: Ódæðismaður stingur fimm manns með hníf. Eðlilega særast þeir, það leiðir af sjálfu sér. Af hverju er þó ekki hægt að skrifa málsgrein án þess að festast í nafnorðavandanum „hnífstunguárás“?

Lykilatriðið er að leysa út hnoðinu, skilja að þegar hnífur er notaður hefur fólk særst.

Tillaga: Hann er stadd­ur í Manchester í Englandi árásarmaður stakk fimm manns með hnífi.

4.

„Við Úthlíð 12 í Reykja­vík stend­ur dá­sam­leg 247 fm sér­hæð.

Frétt á mbl.is.               

Athugasemd: Órökrétt er að segja að íbúðir standi við götu. Þær eru í húsum sem standa við götu. Engu skiptir þó íbúðin sé í einbýlishúsi.

Flestir myndu segja að íbúðin sé í Úthlíð 12, varla við húsið, þá væri hún utan við það. Hins vegar kann hefðin að segja annað en hér er frekar tekið mark á máltilfinningunni.

Tillaga: Í Úthlíð 12 í Reykja­vík er dá­sam­leg 247 fm sér­hæð.

5.

656 kíló af rusli féllu til frá til frá hverj­um Íslend­ingi árið 2017 og ger­ir það þjóðina að ein­um mestu rusl­ur­um Evr­ópu sam­kvæmt töl­fræði Eurostat.

Frétt á mbl.is.               

Athugasemd: Enginn íslenskur fjölmiðill annar en Mogginn leyfir sér að byrja setningar á tölustöfum. Slíkt er hvergi gert vegna þess að tölustafir eru önnur tákn, með önnur gildi, en bókstafir, og getur valdið ruglingi að nota tölustaf á eftir punkti eða í upphafi skrifa.

Hvað er ruslari? Hef ekki getað fundið neina einhlíta skýringu á orðinu, að minnsta kosti ekki í þeirri merkingu sem það er notað í fréttinni. Ég get ímyndað mér að ruslari sé sá sem ekki tekur til í kringum sig, á heimili sínu eða nánasta umhverfi.

Tillaga: Að meðaltali henti hver Íslendingur árið 2017 um 650 kg af rusli sem Evrópumet sam­kvæmt töl­fræði Eurostat.

6.

Það var verið að taka niður gamla geymslu.

Fréttir kl.18 og 19 í hljóðvarpi og sjónvarpi Ríkisútvarpsins, orð viðmælanda.               

Athugasemd: Hafi geymslan verið til dæmis á efstu hæð í fjölbýlishúsi má gera ráð fyrir að hún hafi verið tekin niður, það er hífð niður með krana.

Af öllu má þó ætla að verið var að rífa geymslu sem stóð á víðavangi eins og segir í öðrum fréttamiðli. 

Af hverju segir þá viðmælandinn ekki hreint út að þarna fólk verið að rífa gamla geymslu eða hafa veigrunarorð tekið breytingum? Er ljótt að nota sögnina að rífa? 

Fyrir þá sem ekki vita eru eru svokölluð veigrunarorð, skrautyrði, notuð yfir þau orð eða orðasambönd sem sumir treysta sér ekki til að nota. Dæmi eru æxlunarfæri karla og kvenna, afturendi fólks, blótsyrði og svo framvegis.

Tillaga: Verið var að rífa gamla geymslu.

 


Heimsmeistarar Frakklands, innheimt veggjald og endi flugvélar

Orðlof

Baggamunur 

ríða (eða gera) baggamuninn merkir að ráða úrslitum. 

Baggamunur er „munur á böggum á reiðingshesti“ (ÍO). Reiðmaður hallar sér til annarrar hvorrar hliðarinnar svo að baggarnir haldi jafnvægi. 

Ekki er hægt að „ráða“ baggamuninn þótt oft sjáist og heyrist reynt. Kannski áhrif frá því að ráða úrslitum?

Málið, blaðsíða 63 í Morgunblaðinu 10.10.2019.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Ákærður fyrir að brjóta endurtekið á kærustu sinni þegar hún var sofandi.“

Fyrirsögn á visir.is.             

Athugasemd: Draugagangi orðsins „ítrekað“ virðist vera að linna. Í staðinn er kominn annar uppvakningur sem er lítið skárri og það er „endurtekið“. Bæði eiga að koma í stað atviksorðsins oft sem tekur hinum tveimur yfirleitt langt fram.

Má vera að oft þyki ekki nógu stofnanalegt og flott en það dugar engu að síður. Er látlaust, stutt og segir það sem segja þarf.

Tillaga: Ákærður fyrir að brjóta oft á kærustu sinni þegar hún var sofandi.

2.

„… taka á móti heimsmeisturum Frakklands.“

Íþróttafréttir í Ríkisútvarpinu Sjónvarpi kl. 19:25, 9.10.2019.            

Athugasemd: Ekkert fótboltalið er heimsmeistarar Frakklands, það er tæknilega ómögulegt. Hins vegar eru Frakkar heimsmeistarar, Frakkland er heimsmeistari.

Rökrétt að segja blakmeistarar Frakklands, handboltameistarar Frakklands, fótboltameistarar Frakklands og er þá átt við þá sem hafa unnið titilinn í keppi innan landsins.

Nú er handboltavertíðin hafin en ekkert lið getur tekið á móti Íslandsmeisturum Selfoss. Það er líka tæknilega ómögulegt.  Ástæðan er einfaldlega sú að Íslandsmeistaramót var ekki haldið innanbæjar á Selfossi. Engu að síður er Selfoss Íslandsmeistari í handbolta.

Munum að algjör óþarfi er að bæta lýsingarorðinu „ríkjandi“ við („ríkjandi Íslandsmeistari“, „ríkjandi heimsmeistari“). Nóg er að segja Íslandsmeistari vegna þess að aðeins einn maður, eitt lið, getur verið Íslandsmeistari hverju sinni.

Í íþróttafréttum sama fjölmiðils var sagt 10.10.19:

Heimsmeistararnir í liði Frakka …

Frekar skrýtilega að orði komist en líklega vill fréttamaðurinn hafa skal það sem betur hljómar. Þó kann að vera að hann sem þetta sagði hafi átti við að í liði Frakka séu nokkrir sem urðu heimsmeistarar í fyrra og svo nýliðar. Eða …

Nei, svona er ekki blaðamennskan. Lesandinn á ekki að þurfa að giska á hvað átt er við í fréttum. Gera á kröfu á fjölmiðilinn að þar starfi fólk sem er sæmilega vel máli farið.

Tillaga: … taka á móti frönsku heimsmeisturunum.

3.

Innheimt veggjald má ekki verða svo hátt að bílstjórar velji að fara Vesturlandsveginn gjaldfrjálsan í gegnum Mosfellsbæ.“

Fréttaskýring á blaðsíðu 30 í Morgunblaðinu, 10.10.19          

Athugasemd: Óþarfi er að tala um innheimt veggjald í þessu samhengi. Nóg er að tala um veggjald.

Betra er að segja Vesturlandsveg, það er án greinis. Venjan er sú að nota síður ákveðinn greini með sérnöfnum, það er örnefnum og ýmsum heitum eins og vegum, sveitarfélögum, hverfum og landshlutum. 

Tillaga: Veggjald má ekki verða svo hátt að bílstjórar vilji frekar aka án gjalds um Vesturlandsveg í gegnum Mosfellsbæ.

4.

„Hér má sjá valkostina sem einn af áskrifendum okkar fær að velja um …“

Auglýsing á blaðsíðu 44 í Morgunblaðinu 10.10.19.      

Athugasemd: Þessi málsgrein er hörmulega illa samin. Líklega hefur textagerðinni verið útvistað til Indlands og einhver þarlendur hnoðað henni saman með aðstoð Google Translate. Þetta var nefnt í þessum pistlum í ágúst síðastliðinn. Síðan hafa fjölmargar auglýsingar um sama efni birst, fallegar myndir en alltaf með þessum hræðilega illa samda texta. 

Mogginn er að safna áskrifendum og ætlar að gefa einum þeirra bíl. Um það fjallar auglýsingin í blaðinu. Í henni sjást tveir bílar og sá heppni má velja annan þeirra. Á Moggamáli kallast þetta „valkostir“.

„Valkostur“ er varla orð, bastarður. Tvö orð, val og kostur, sem nánast merkja það sama. Annað þeirra dugar alltaf. Í þokkabót segir í auglýsingunni að áskrifandinn megi „velja um valkosti“.

Hefði ekki dugað að segja að sá heppni fái að velja annan hvorn bílinn? 

Tillaga: Hér eru tveir bílar sem einn af áskrifendum okkar fær að velja um …

5.

„Sam­kvæmt vitni byrjuðu fjór­ir karlmenn að slást í enda flug­vél­ar­inn­ar.“

Frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Held að samkvæmt málvenju sé aldrei talað um enda flugvélar. Ekki myndi það teljast vel að orði komist að tala um enda skips, endann á strætó eða endann á bíl.

Miklu betur fer á því að tala um afturhluta flugvélar þegar fjallað er um þá sem eru inni. Skutur er aftasti hluti báts eða skips. Sumir velja sér aftasta sætið í strætó eða rútu, enginn talar um endasæti. Ég minnist þess ekki heldur að talað sé um endann á bíl.

Hins vegar er oft talað um afturenda á fólki og margir hafa fengið spark í hann. Sá endi stendur þó engan veginn undir nafni miðað við mann sem er uppréttur.

Tillaga: Sam­kvæmt orðum vitnis byrjuðu fjór­ir karlmenn að slást í aftast í flugvélinni.


Sýna hegðun, ollað usla og grennast um tólf kíló

Orðlof

Subbukvóti 

Það er umhugsunarefni, alvarlegt umhugsunarefni, fyrir þá sem unna íslenskri tungu, hvílíkt metnaðarleysi í málfarslegum efnum ríður húsum íslenskra fjölmiðla. […] 

Það skal þó enn einu sinni ítrekað að vissulega er margt góðra íslenskumanna starfandi bæði við blöð og ljósvakamiðla. 

Margt er þar vel sagt og skrifað, en hitt heldur áfram að stinga í augu og særa eyru, hversu margir bögubósar fá að fara sínu fram átölulaust að því er virðist. Fólk, sem er fyrir löngu búið að fylla subbukvótann sinn og ætti að vera horfið til annarra starfa.

Morgunblaðið 2002,, Eiður Guðnason.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Seg­ir Íslend­inga sýna grófa hegðun.“

Frétt á mbl.is.             

Athugasemd: Hér áður fyrr áttu börn og raunar allir að hegða sér vel, láta af slæmri hegðun. 

Ekki er langt síðan að gáfulega þenkjandi fólk tók að krefjast þess að börn og aðrir „hegðuðu sér“. Þetta fólk kann ensku betur en íslensku og heldur að íslenska sögnin hegða sé sömu merkingar og enska sögnin „behave“, hegða sér vel.

Þessu næst grípur nafnorðasýkin um sig. Nú eiga allir að „sýna hegðun“, helst góða, ekki slæma og þaðan af síður grófa.

Svona „þróast“ nú tungumálið en ekki gleðjast allir yfir nafnorðavæðingunn þó flestir stilli sig og „sýni hegðun“.

Tillaga: Segir hegðun Íslendinga grófa.

2.

„Hún varð valdur af bílslysi í lok ágúst þar sem nítján ára breskur piltur lést.“

Frétt á ruv.is.             

Athugasemd: Þetta er grátlega illa gert. Konan olli bílslysi … Rangt er að segja hún „varð valdur af“. 

Tillaga: Hún olli bílslysi í lok ágúst en í því lést nítján ára breskur piltur.

3.

„… var á dögunum ákærður fyrir að hafa ollið miklum usla á lögreglustöðinni í Vestmannaeyjum.“

Frétt á dv.is.              

Athugasemd: Tæpum sólarhring eftir að þessi frétt birtist eru hún enn óleiðrétt. Líklega les enginn á ritstjórn DV fréttir sem samstafsmenn skrifa. Verra er ef enginn innanbúðar er vel að sér í íslensku máli.

Sjá þetta í málfarsbankanum:

Valda: Kennimyndir: valda, olli, valdið. 

Nútíð veld. Viðtengingaháttur nútíðar valdi, viðtengingaháttur þátíðar ylli. 

Óveðrið hefur valdið erfiðleikum en ekki „óveðrið hefur ollið eða ollað erfiðleikum“. 

Orðmyndin ollið er lýsingarháttur þátíðar af sögninni vella.

Hér er því réttara að segja hefur valdið.

Tillaga: … var á dögunum ákærður fyrir að hafa valdið miklum usla á lögreglustöðinni í Vestmannaeyjum

4.

„Svona grennt­ist Jamie Oli­ver um 12 kíló.“

Fyrirsögn á mbl.is.              

Athugasemd: Útilokað er að grennast um tólf kíló. Maðurinn hefur lést um tólf kíló og um leið hefur hann líklega grennst.

Tillaga: Jamie Oli­ver léttist um tólf kíló.

5.

„Gareth Southgate er búinn að undirbúa leikmenn sína fyrir það að ganga af velli ef þeir verða fyrir kynþáttaníði …“

Frétt á visir.is.               

Athugasemd: Í staðinn fyrir að segja að maðurinn hafi undirbúið leikmenn skrifar blaðamaðurinn eins og barn: „búinn að undirbúa“. Svo segir blaðamaðurinn „ef þeir verða fyrir“ í stað þess að segja verði þeir fyrir.

Blaðamaðurinn lætur ekki þar við sitja og segir:

UEFA er búið að gefa út aðgerðaáætlun fyrir það ef kynþáttaníð kemur upp.

Málsgreinin er afar illa samin. Betra er að orða hana svona:

UEFA hefur gefið út aðgerðaáætlun vegna kynþáttaníðs.

Orðalagið í fréttinni er skýrt dæmi um slæmar breytingar á íslensku máli sem margir blaðamenn taka óafvitandi þátt í að móta og dreifa. 

Þátíð er nú mynduð með orðunum er og búinn.

Viðtengingarháttur er myndum með orðunum ef og verða. 

Svona skrif eru ekki almenningi bjóðandi.

Tillaga: Gareth Southgate hefur búið leikmenn sína undir að ganga af velli verði þeir fyrir kynþáttaníði …


Aðilar, óásættanlegt og óvænt lík

Orðlof

Forsetningar 

Eitt af fjölmörgu sem eykur fjölbreytni og fegurð íslenskrar tungu er að líta má á sama hlut eða verknað frá ólíkum sjónarhornum. 

Sem dæmi má nefna að heimildir sýna að í elsta máli lögðu menn af stað, síðar breyttist það og menn tóku að leggja á stað (algengast í þjóðsögum) og núna munu flestir kjósa að leggja af stað.

Merkingarmunur er lítill sem enginn, ekki skiptir máli hvort vísað er til þess staðar sem farið er frá (leggja af stað) eða þess staðar sem halda skal á (leggja á stað). 

Svipuðu máli gegnir um fjölmörg orðasambönd, í einn stað kemur hvort sem steinn veltur niður í fjöru eða ofan í fjöru.

Forsetningin að getur vísað til kyrrstöðu á stað og merkir þá nánast ´hjá´, t.d.:

Ari nam og marga fræði að Þuríði Snorra dóttur goða og hann hafði numið af gömlum mönnum og vitrum.

Málfarsbankinn, Jón G. Friðjónsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Þeir aðilar sem brotið var gegn, ágætt sam­starfs­fólk mitt, hafa í öllu ferl­inu verið upp­lýst­ir um stöðu og þróun mála og …“

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Í sömu málsgreininni breytast aðilar í fólk sem hlýtur að vera einstakt og minnir einna helst á skáldmyndaframleiðslu fyrir sjónvarp eða bíó er menn breytast í uppvakning (e. „zombie“). Þetta gerir þó forseti Íslands í yfirlýsingu sem meðal annars er birt á vefsíðu Moggans. 

„Aðili“ er ekki gott orð, í senn dálítið stofnanalegt og tilgerðarlegt. Ég hélt að allt sem embættið lætur frá sér frá sér væri vandlega prófarkalesið. Sé ekki svo er bragarbótar þörf.

Annars er notalegt að uppgötva að forsetinn er bara eins og við hin, mannlegur. Segja má að embætti forseta Íslands sé líklega einhvers konar aðili.

Tillaga: Þeim sem brotið var gegn, ágætt sam­starfs­fólk mitt, hafa í öllu ferl­inu verið upp­lýst­ir um stöðu og þróun mála og …

2.

„Lögreglan fékk einnig tilkynningu um öskrandi mann með öxi en hann fannst ekki að því er fram kemur í dagbók lögreglu.“

Frétt á frettabladid.is.            

Athugasemd: Frétt er ekki frétt nema hún sé óumdeilanlega frétt, sagði ritstjórinn forðum daga. Nú til dags eru fréttir búnar til úr engu og allt er birt.

Blaðamenn missa margir alla getu til frásagnar þegar kemur að löggufréttum. Þeir umbreytast og taka að skrifa uppskrúfað og illskiljanlegt mál, fullt af orðum sem allsgáður maður tekur sér sjaldan í munn dags daglega. Engin fjölbreytni, stílleysið algjört. Skrifað fyrir löggur ekki almenning.

Ógæfumenn eru „vistaðir í fangaklefa sem þykir fínna en að stinga þeim í fangelsi. Það er gert „fyrir rannsókn málsins“, ekki vegna rannsóknar málsins (hið fyrrnefnda er einfaldlega rangt mál). 

Spyrja má hvers vegna er fólk sett í fangelsi? Er því bara stungið inn og svo sleppt nokkrum klukkustundum síðar án nokkurrar rannsóknar? Nei. Þarf þá að taka það fram að öll mál séu rannsökuð? Liggur það ekki í hlutarins eðli? Á orðalaginu „rannsókn málsins“ er samt tuðað oft í sömu frétt án þess að neinn viti hvers vegna.

Í gamla daga hringdu blaðamenn á allar lögreglustöðvar landsins til að afla frétta. Núna skrifar löggan einhvers konar „dagbók“ sem aðeins blaðamenn hafa aðgang að. Þar er allt tíundað nema ef til vill salernisferðir lögreglumanna, kaffitímar og álíka fréttatengdir atburðir. Blaðamenn afrita textann úr „dagbókinni“ og birta nær athugasemdalaust. Vandinn er hins vegar sá að löggan er varla skrifandi og blaðamenn dómgreindarlitlir.

Hér eru nokkur dæmi um „ekkifrétt“ sem birt er á öllum fjölmiðlum:

Á mbl.is segir:

Í dag­bók lög­reglu seg­ir að áður hafi verið til­kynnt um öskr­andi mann með exi, en sá hafi ekki fund­ist.

Á vef Fréttablaðsins segir:

Lögreglan fékk einnig tilkynningu um öskrandi mann með öxi en hann fannst ekki

Vísir segir:

Í dagbók lögreglu segir að fyrr um kvöldið hafi verið tilkynnt um öskrandi mann með öxi en sá fannst ekki.

Á vef Ríkisútvarpsins segir:

… en fram kemur í dagbok lögreglu að áður hafði verið tilkynnt um öskrandi mann með öxi en sá fannst ekki.

Á malid.is segir að til séu orðin öxi og exi. Frekar er þó mælt með orðinu öxi, samanber Öxarfjörður.

Löggan kom að bíl sem fíkill hafði ekið út af Vesturlandsvegi.

Á mbl.is segir:

Hann var vistaður í fanga­geymslu fyr­ir rann­sókn máls­ins. 

Á vef Fréttablaðsins segir:

Hann var vistaður í fangaklefa vegna gruns um að aka undir áhrifum …

Vísir segir:

… og var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls.

Á vef Ríkisútvarpsins segir ekkert um afdrif ökumannsins.

Ofangreint er dæmi um ófaglega umfjöll fjölmiðla, „kranablaðamennsku“. Greinilegt er að fjöldi frétta skipta meira máli en efni þeirra. Fjórir fjölmiðlar segja nákvæmlega sömu „ekkifréttirnar“. Enginn metnaður, algjört hugsunarleysi. Og þetta látum við lesendur bjóða okkur.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Fullyrt að það búið að velja Hólmar í landsliðið.“

Frétt á dv.is.             

Athugasemd: Það hvað? Hér er „búið að bæta“ persónufornafninu „það“ inn í setninguna. Þar að auki er þátíðin mynduð með lýsingarorðinu „búinn“ og nafnhætti sagnarinnar að velja. Svona á ekki að skrifa.

Tillaga: Fullyrt er að Hólmar hafi verið valinn í landsliðið.

4.

„Þetta er að mínu áliti ágjörlega óásættanlegt.“

Fyrirsögn á dv.is.             

Athugasemd: Orðið „óásættanlegt“ þykir fínt orð. Færri vita að það er bein þýðing á enska orðinu „unacceptable“ og líklega ekkert verra fyrir vikið. Engu að síðust segir í malid.is:

Síður skyldi nota orðið „óásættanlegur“ en óviðunandi.

Ég viðurkenni fúslega að nota þetta orð, raunar óhóflega mikið. Íslenskan á samt mörg ágæt orð sem hægt er að nota í staðinn: ótækur, óviðunandi, fráleitur, kemur ekki til greina/álita. 

Mikilvægt er að blaðamenn sem og aðrir skrifarar festist ekki í ákveðnum orðum eða frösum. Leyfa orðunum að flæða, en lesa samt vandalega yfir.

Tillaga: Mér finnst þetta fráleitt.

5.

„Fann óvænt lík í húsinu sínu.“

Fyrirsögn á frettatiminn.is.             

Athugasemd: Þetta er ein sú stórkostlegasta fyrirsögn sem um getur og nær endalaust hægt að snúa út úr henni og hlægja sig máttlausan.

Á malid.is segir um lýsingarorðið vænn:

Góður, vandaður, álitlegur, fríður, sá sem endist vel/hald er í, allstór, vel úti látinn, í góðum holdum.

Á sama vef segir að lýsingarorðið óvænn merki „að lítast ekki á blikuna“. Eitthvað sem ekki er von á.

Í fyrirsögninni á Fréttatímanum er átt við að sá sem fann líkið hafi ekki átt von á fundinum og því brugðið illilega.

Hins vegar þýðir fyrirsögnin bókstaflega að maðurinn hafi fundið rýrt lík í húsi sínu, það er, líkið var ekki vænt. Á haustin heimta bændur fé sitt af fjalli, sumt er vænt, annað getur verið rýrt. Í kvæðinu sem við öll raulum um jól við lag Jórunnar Viðar segir:

Væna flís af feitum sauð
sem fjalla gekk á hólunum,
Nú er hún gamla Grýla dauð,
gafst hún upp á rólunum.

Á vef norska Dagbladet segir í fyrirsögn:

Har eid huset siden 1990-tallet - fant lik nå.

Þetta er ólíkt betri fyrirsögn en sú íslenska og varla mögulegt að snúa út úr henni. Norðmaðurinn veit sem er að fyrir alla er líkfundur í húsi óvæntur atburður, þarf varla að hafa orð á því.

Tillaga: Fann lík í húsi sínu.


Vatnsból sem þjónar, ákall forseta, og áfengi sem búið er að framleiða

Orðlof

Áfellisdómur 

No. áfellisdómur merkir dómur um sekt sakbornings; e-ð sem veldur e-m hnekki, e-ð ámælisvert og í nútímamáli er það einkum notað í óbeinni merkingu […]

Í Jónsbók (1281) er skemmtilegt dæmi sem sýnir að munur er á réttum dómi og áköfum áfellisdómi:

Friðsemi á að varðveita þar til er réttur dómur fellur á, að eigi verði með bræði ákafur áfellisdómur á lagður (Jsb 56).

Í fornu máli var myndin áfallsdómur dómur sem er felldur á e-ð algeng, sbr. eftirfarandi dæmi:

Eigi viljum vér yður mjög saka [áfellast] þótt þér ætlið það vel vera er frændur yðrir göfguðu, meðan þér vissuð eigi annað sannara, en það er hverjum áfallsdómur að trúa eigi hinu sanna ef hann náir [nær] að heyra (f13 (Pst 202)).

Orðmyndin áfallsdómur er úrelt en dæmið stendur enn fyrir sínu.

Málfarsbankinn, Jón G. Friðþjónsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Vatnsbólið þjónar Borgarnesi, Bifröst og Varmalandi auk fjölda sumarhúsa og nokkurra lögbýla í Borgarfirði.“

Frétt á visir.is.           

Athugasemd: Fréttin er nánast orðrétt úr fréttatilkynningu frá Veitum. Þar er einhver sem telur rétt að segja að „vatnsból þjóni“ þeim sem fá vatn úr því.

Þetta getur varla verið rétt mál. Vatnsból þjóna ekki neinum. Úr þeim kemur vatn. Aftur á móti má segja að Veitur þjóni mér á þann hátt að fyrirtækið sér um að koma vatninu í kranann heima gegn greiðslu.

Um sögnina að þjóna segir í malid.is:

vera þjónn (e-s), gegna þjónustustarfi (fyrir e-n) […] Þjónn er sá eða sú sem er menntaður til að bera fram veitingar á veitingahúsi, framreiðslumaður.

Vera kann að sá sem samdi fréttatilkynninguna af hálfu Veitna sé afar vel að sér í útlenskunni. Á ensku má til dæmis orða þetta svona og það alveg athugasemdalaust:

The reservoir serves a large area …

Ekki er nærri því alltaf hægt að þýða beint af ensku og á íslensku.

Tillaga: Vatnsbólið er fyrir Borgarnes, Bifröst og Varmaland auk fjölda sumarhúsa og nokkurra lögbýla í Borgarfirði.

2.

Ákall forsetans um rannsókn Kínverja kom óumbeðið þegar Trump var spurður út í nákvæmlega hvað hann vildi frá Zelensky.“

Frétt á visir.is.           

Athugasemd: Þessi málsgrein er eins vitlaus og hún getur verið. Ákall merkir bæn eða ávarp. Úr fyrri hluta málsgreinarinnar má lesa að Kínverjar séu að rannsaka eitthvað. Það er ekki svo. Fréttina þarf að lesa til að sjá samhengið í vitleysunni.

Fyrirsögnin er svona:

Trump kallar eftir því að yfirvöld Kína rannsaki Biden.

Blaðamaðurinn heldur að enska orðalagið „to call for something“ merki að „kalla eftir einhverju“. Þannig þýða aðeins þeir sem eru ekki góðir í íslensku.

Sá sem kallar er að hrópa, hann kallar eftir einhverju, hækkar róminn og biður eitthvað. „Hentu í mig hamrinum,“ hrópaði smiðurinn, og fékk hann í hausinn. Honum var nær að kalla eftir hamrinum á þennan hátt.

Ljóst er að Trump hvorki baðkrafðist af Kínverjum um að þeir rannsökuðu Biden, að minnsta kosti ekki opinberlega. Hann lét sér þessi orð um munn fara í viðtali. Krafðist einskis, bað ekki um neitt, að minnsta kosti ekki opinberlega. Þetta er ljóst samkvæmt klippu úr Twitter sem birt er með fréttinni:

I would think that if they were honest about it, they´d start a major investigation ... they should investigate the Bidens  China likewise should start an investigation.

Trump segir að Kínverjar ættu að (should) rannsaka Biden feðga. Hann bað hvorki um rannsókn né krafðist hennar.

Á íslensku hefur sögnin að kalla aðeins þá merkingu að hrópa, hækka röddina.

Blaðamaðurinn virðist kexruglaður og gerir stórkoslegt mistök með því að tala um „ákall Trumps“. Og ritstjórnin gerir engar athugasemdir.

Hvers á nú kallinn hann Trump kallinn að gjalda fyrir köll, köllun og áköll?

Ákall um rannsókn Kínverja“ í þessu samhengi er furðulegt orðalag og meðal annars dæmi um nafnorðavæðingu sem verður til af leti. Kínverjar eru ekki að rannsaka Biden. Þar af leiðandi getur blaðamaðurinn ekki talað um „rannsókn Kínverja“. Hann á við ummæli Trumps þess efnis að Kínverjar ættu að rannsaka Biden.

Fréttin er ekki lesendum bjóðandi. Munum að fréttamiðlar hafa gríðarleg áhrif. Lélegt málfar spillir fyrir og þar af leiðandi má kalla þessa frétt stórskemmda.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Ekki ligg­ur ná­kvæm­lega fyr­ir hversu mikið magn af áfengi var búið að fram­leiða en hús­ráðandi var yfirheyrður vegna máls­ins.“

Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Hér hefði farið betur á því að sleppa: „Ekki liggur nákvæmlega fyrir “ og segja þess í stað Ekki er vitað … Ástæðan er einföld: Stutt og einfalt mál er skiljanlegra.

Nafnháttarmálið ræður ríkjum hjá yngri blaðamönnum. Þátíð er iðulega mynduð með lýsingarorðinu búinn ásamt nafnhætti sagnar; búið að framleiða, búinn að sofa, búinn að syngja, búinn að skrifa, búinn að æsa mig, búinn að vera með læti, búinn að deyja … Maturinn er búinn en ég er búinn að kaupa meira. Þetta er ekki alltaf tóm vitleysa en öll sagnorð eru til í þátíð og með hjálparsögnum er skammlaust hægt að lýsa því sem hefur gerst (ekki búið að gerast).

Það sem „var búið að framleiða“ hafði verið framleitt. Raunar er sjaldnast talað um að einstaklingar framleiði áfengi heldur brugga þeir. Líklegast er að hér hafi bófarnir eimað spíra sem að sjálfsögðu má segja að sé áfengi en stenst ekki samanburð við áfengi í vínbúð.

Tillaga: Ekki er vitað hversu mikið spíra hafði verið bruggað en hús­ráðandi var yfirheyrður vegna máls­ins.

4.

Fjórir af átta fyrstu varaborgafulltrúum Reykjavíkur sinna öðrum launuðum störfum með fram störfum sínum sem kjörnir fulltrúar.“

Frétt á visir.is.           

Athugasemd: Hér er vel gert. Slakir blaðamenn hefðu skrifað tölurnar með tölustöfum. Blaðamaðurinn þarf ekki að hugsa sig um heldur notar bókstafi og veit að annað er tóm vitleysa. 

Hvergi eru tölustafir notaðir í upphafi setningar. Tölustafur er allt annað en bókstafur og getur valdið ruglingi að nota hann á eftir punkti.

Sumir hafa þá reglu að skrifa allar tölur undir eitt hundrað með bókstöfum. Aðrir miðað við eitt þúsund. Gott er að setja sér reglu í þessum efnum. 

TillagaEngin tillaga.


Afstunga, vinnupappír og spá sem raungerist

Orðlof

„Þegar að“ og „ef að“ 

Þegar og ef sem spurt er um teljast til samtenginga. Þegar er tíðartenging og ef skilyrðistenging.

Margar fleiri samtengingar eru notaðar í íslensku, til dæmis nema (skilyrðistenging), sem (tilvísunartenging) og hvort (spurnartenging). 

Tilhneiging er til að bæta við allar þessar samtengingar og telst það ekki rétt mál. 

Ekki er til dæmis rétt að segja: „maðurinn *sem að kom í gær er frændi minn.“ Rétt er: „maðurinn sem kom í gær er frændi minn.“ 

Sömuleiðis er ekki rétt að bæta við að í: „allir fóru heim *þegar að leikurinn var búinn.“

Vísindavefurinn, Guðrún Kvaran, prófessor. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Grín­leik­kon­an Anna Kendrick var að vinna í Evr­ópu ný­lega og fékk því tæki­færi til að ferðast um Evr­ópu í sum­ar, þar á meðal Amster­dam.“

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Þetta er samhengislaus málsgrein og vanhugsuð, raunar bull. „Var að vinna“, betra er vann. Nafnið Evrópa er tvítekið. Hún var þarna „nýlega“ og “í sumar“. Annað hvort hefði dugað. „Þar á meðal Amsterdam“. Inn í þetta vantar vantar til, til Amsterdam.

Tillaga: Grín­leik­kon­an Anna Kendrick vann í Evr­ópu í sumar og fór meðal annars til Amster­dam.

2.

„Til­kynnt var um grun­sam­leg­ar manna­ferðir í Hlíðunum á ní­unda tím­an­um en við eft­ir­grennsl­an lög­reglu kom í ljós að þær ættu sér eðli­leg­ar skýr­ing­ar.“

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Allt er talið til frétta jafnvel þetta hér að ofan. Grunsamlegar mannaferðir áttu sér eðlilegar skýringar. Hver er þá fréttin?

Síðar segir:

Til­kynnt var um tvo menn í átök­um í Breiðholti á ní­unda tím­an­um í gær­kvöldi. Árás­araðili var far­inn þegar lög­reglu bar að vett­vangi en árás­arþoli var enn á staðnum. 

Þetta er aldeilis stórkostleg „frétt“. „Árásaraðili“ er orð sem sjaldan sést og „árásarþoli“ er ekki mjög algengt. Þau sjást einna helst í löggufréttum þegar löggan eða blaðamaðurinn hrökkva í einhvern stofnanagír og gleyma staðreyndum. Þær eru að tveir menn slógust og annar lá eftir en hinn hvarf út í myrkrið. Sá sem löggan gómaði gæti svo sem hafa verið „árásaraðilinn“. Oft bjarga flestir „árásarþolar“ sér á hlaupum. 

Öllum þeim sem stunda skriftir er óhætt að skrifa fleiri orð til skýringar í stað þess að nota nafnorð í sparnaðarskyni. „Árásaraðili“ er léleg samsetning. Betra að tala um þann sem réðst á hinn, beitti ofbeldinu. Sannast sagna er aldrei gott að búa til nýyrði með orðinu „aðili“. Þá mætti alveg eins búa til „þolunaraðili“ um þann sem ráðist er á. Þannig breyting verður íslenskri tungu síst af öllu til góðs.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Lög­regla hand­tók tvo menn og konu í Grafar­holti á sjötta tím­an­um í gær­kvöldi, en þau eru grunuð um rán, þjófnað, nytjastuld bif­reiðar, umferðaró­happ og afstungu …“

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Fáránleikin birtist oft í löggufréttum fjölmiðla. Berum saman fréttir fjögurra veffjölmiðla um atburð nætur, mbl.is., ruv.is, dv.is og frettabladid.is.

Á vef Moggans segir:

… en þau eru grunuð um rán, þjófnað, nytjastuld bif­reiðar, umferðaró­happ og afstungu

Þarna er talað um nytjastuld, sem er greinilega annað en rán og þjófnaður sem þó er nefnt.

„Afstunga“ er framlag Moggans til stofnanastíls löggufrétta. Þjófarnir keyrðu á annan bíl og blaðamaðurinn kallar það „umferðaóhapp“. Ekki taldist það „óhapp“ í fréttinni að þremenningarnir börðu eiganda bílsins og ekki nytjastuldur að bófarnir rændu af vesalings manninum farsímanum hans.

Svo segir:

Voru þau vistuð í fanga­geymslu lög­reglu fyr­ir rann­sókn máls­ins.

Þetta er óeðlilegt. Fólkið var sett í fangelsi vegna rannsóknar málsins.

Á vef Ríkisútvarpsins stendur þetta:

Þríeykið keyrði síðan yfir umferðareyjur, fór yfir á rauðu ljósi og klessti utan í annan bíl.

Framlag Ríkisútvarpsins til stofnanastíls löggufrétta er að fólkið „klessti utan í annan bíl“. Líklega er þetta þetta bara barnamál. 

Orðið nytjastuldur vekur hrifningu fréttamannsins en eins og á Mogganum finnst honum það ekki nytjastuldur þegar þríeykið stal farsíma mannsins? Nei, bara þjófnaður.

Á DV er löggumálið endurtekið án athugasemda en þeim á DV er ekki alls varnað:

Fólkið var handtekið og vistað í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Til fyrirmyndar að blaðamaðurinn skrifar: „vegna rannsóknar málsins“.

Í Fréttablaðinu talar blaðamaðurinn um tvo menn og konu í glæpnum og svo segir:

Aðilarnir voru allir vistaðir í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.

Fólkið umbreytist í aðila, ekki einu sinni heldur tvisvar. Það er framlag Fréttablaðsins til stofnunarstíls löggufrétta. Eða er framtakið bara heimatilbúin rassbaga hjá blaðamanna? Að öðru leyti apar hann eftir skrif löggunnar og birtir orðrétt, nytjastuldinn, „vistunina“, „ fyrir rannsókn málsins“ og allt!

Niðurstaðan er sú að fjölmiðlar birta nær orðrétt fréttir frá löggunni, jafnvel þær sem eru illa skrifaðar. Stundum er reynt að breyta þeim örlítið, sem oft gerir bara vont verra, en frá því eru samt undantekningar.

Tillaga: Engin tillaga

4.

„Eigðu góðan dag.“

Almenn kveðja, sérstaklega í verslunum.           

Athugasemd: Mér finnst þetta alveg ómöguleg kveðja, þýðing úr ensku „have a good day“. Tek undir með málfarslöggunni sem segir um „eigðu góðan dag“:

Þó að mér finnist þessi kveðja vinaleg og falleg, þá þoli ég hana samt ekki. Ég dey alltaf pínulítið innra með mér þegar ég heyri hana. Mér líður alltaf jafn illa þegar ég er búinn að segja „sömuleiðis“ við starfsfólkið eftir að það hefur sagt mér að eiga góðan dag.

Hvað er kveðja. Almennt er sagt að fólk kveðji þegar það fer. Ein algengasta kveðja í íslensku máli er góðan dag, gott kvöld. Hún er notuð í upphafi aldrei þegar kvatt er, bara þegar er heilsast. Hvað mælir á móti því að nota góðan dag sem kveðju?

Þegar ég fer frá kassanum í verslun eftir að hafa borgað verður sagt: “

Þakka þér fyrir og góðan dag“. 

Og ég svara: 

Takk sömuleiðis og góðan dag.

Í fyrstu virðist þetta dálítið stirt en það kemst upp í vana rétt eins og enskugerða kveðjan, sú sem er að gera út af við málfarslögguna.

Hins vegar verður að varast þann pytt að segja: Góðan dag til þín. Þannig á ekki að orða neina kveðju, ekki segja til hamingju til þín, gleðileg jól til þín gleðilega páska til þín, gleðilegt sumar til þín eða álíka.

Ekkert mælir á móti að heilsa með því að bjóða góðan dag og kveðja á sama hátt. Einnig má segja: 

Ég óska þér góðs dags rétt á sama hátt og: ég óska þér gleðilegra jóla, gleðilegs árs, gleðilegs sumar …

Tillaga: Góðan dag.

5.

„… er spurn­ing­in sem hag­fræðing­arn­ir Gísli Gylfa­son og Gylfi Zoega pró­fess­or reyna að svara í nýj­um vinnupapp­ír sem birt­ur hef­ur verið á vef Hag­fræðistofn­un­ar Há­skóla Íslands.“

Frétt á mbl.is

Athugasemd: Hvernig má það vera að hámenntaðir hagfræðingar geta ekki komið frá sér efni á skiljanlegri íslensku.

Pappír er aðeins pappír og skiptir engu hvort hann sé nýr eða gamall. „Vinnupappír“ getur verið afrifa af eldhúsrúllu, notað umslag eða kompa með minnispunktum. Raunar er það þannig að á vef hagfræðistofnunar er talað um „vinnupappíra“, það er í fleirtölu. Er það vegna þess að blaðsíðurnar eru fleiri en ein eða hvað?

Pappír er ekki ritgerð á íslensku þó þannig geti verið á ensku („paper“, „essey“). „Paper“ getur þýtt svo ótalmargt á ensku, meðal annars skilríki. Í enskri orðabók segir meðal annars um „paper“:

An essay or dissertation, especially one read at an academic lecture or seminar or published in an academic journal.

Um „Working Paper“ segir í sömu orðabók:

A preliminary draft or version of an academic paper made available for commentary, discussion, or feedback.

Fyrr má nú vera tilætlunarsemin að þröngva „vinnupappír“ upp á íslenskt mál. Hvað er þá hægt að nota í staðinn fyrir „vinnupappír“? Hingað til hefur verið talað um ritgerð og þær geta verið af ýmsu tagi, til dæmis fræðiritgerð, skólaritgerð, verkefni, stíll, rit og fleira. Í fljót bragði finnst mér að nota mætti bráðabirgðaskýrsla, frumskýrsla, vinnuritgerð eða vinnurit, það er rit sem ekki er fullklárað en engu að síður birt.

Sé fréttin á mbl.is lesin kemur í ljós að „vinnupappírinn“ er líka kölluð grein sem byggist á BS ritgerð.

Tillaga: … er spurn­ing­in sem hag­fræðing­arn­ir Gísli Gylfa­son og Gylfi Zoega pró­fess­or reyna að svara í bráðabirgðaskýrslu sem hef­ur verið birt á vef Hag­fræðistofn­un­ar Há­skóla Íslands.

6.

„Efnahagsspár eru ekki að raungerast.“

Sagt í Kastljósi Ríkissjónvarpsins 2.10.2019.           

Athugasemd: Mér finnst ekki svo ýkja langt síðan að sagt var að spár hafi annað hvort ræst eða ekki. Nú telst miklu flottara að segja: spár eru að „raungerast“

Veðurfræðingar gefa út spár en tala aldrei um að þær hafi „raungerst“. Stjörnuspámenn, spilaspámenn, kaffikellingar og rýnendur í innyfli dýra telja sig geta spáð fyrir um framtíðina en þeir eiga það þó sameiginlegt að tala aldrei um að spárnar geti „raungerst“ eða ekki. Ég er ekki góður að spá fyrir um framtíðina en ég veit að ýmislegt hefur „raungerst“ í fortíðinni.

Næst verður ábygglega sagt að spár geti „veruleikagerst“.

Tillaga: Efnahagsspár hafa ekki ræst.


Misþyrming á íslensku máli í íslenskum lögum

Eftirfarandi pistill er úr Málfarsbankanum. Höfundurinn er Jón G. Friðjónsson, málfræðingur. Þetta er sláandi samantekt um villur og ambögur í lögum um útlendinga sem samþykkt voru á Alþingi 20. september 2016.

Maður verður hreinlega agndofa eftir lesturinn. 

Hér er pistillinn, ég hef bætt við greinaskilum, undirstrikað og feitletrað.

Vorið 2017 las ég yfir meistaraprófsritgerð í lögfræði fyrir frænku mína. Hún hefur alltaf verið mjög öflugur námsmaður og því þótti mér vart einleikið að ýmsar tilvitnanir hjá henni voru að mínu mati gallaðar.

Ég varð mér því úti um lögin sem hún vitnaði oft í (Lög um útlendinga, nr. 80 16. júní 2016) og las allvandlega fyrstu fjórar síðurnar. Þá kom í ljós að ekki var við frænku mína að sakast, hún hafði vitnað rétt til en ýmislegt þótti mér miður fara í lagatextanum og frágangi hans.

Það varð mér einkum íhugunarefni að það sem mér fannst aðfinnsluvert var af öðrum toga en ég hef átt að venjast á liðlega hálfrar aldar starfsævi minni sem íslenskukennari. Beinar villur eru fáar en það stingur í augu að notkun orða og orðasambanda er alloft naumast í samræmi við hefðbundna málbeitingu, vekur á stundum þá tilfinningu að um umorðun eða þýðingu erlends efnis sé að ræða. Lesendum til fróðleiks skulu tilgreind örfá dæmi, innan hornklofa eru athugasemdir eða skýringar mínar og undirstrikanir eru mínar:

(1) Í 8.tl. 3.gr. er þessi skilgreining:

„Flóttamaður: Útlendingur sem er utan heimalands síns [fjarri heimalandi sínu] eða ríkisfangslaus einstaklingur sem er utan þess lands þar sem hann hafði reglulegt aðsetur [fjarri því landi þar sem hann dvaldist reglulega] vegna þess að hann hefur ástæðuríkan ótta um [hefur (fulla) ástæðu til að óttast] að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta [af þeim sökum] færa sér í nyt vernd þess lands [sem hann kom frá].”

Þessi töluliður er að mínu mati ofhlaðinn, nánast samanbarinn. Ég þurfti að marglesa hann til að fá botn í merkinguna. – Sumt af því sem ég hef merkt við kunna sumir að telja álitamál, t.d. muninn á dveljast e-s staðar reglulega og hafa reglulegt aðsetur e-s staðar og muninn á því að vera hræddur um e-ð og hafa ótta um e-ð og enn fremur kann sumum að þykja nýyrðið ástæðuríkur fagurt en það tel ég misheppnað.

Ég tel mig geta fært rök að því að það sem ég hef merkt við samræmist ekki hefðbundinni málnotkun. Orðin aðild að tilteknum þjóðfélagshópi geta engan veginn talist í samræmi við eðlilega eða venjulega málbeitingu og sama á við um orðasambandið hafa ótta um e-ð í merkingunni óttast e-ð. Reyndar tel ég óþarft að fjölyrða um einstök atriði, lesendur eru vitaskuld fullfærir um að meta þetta.Niðurstaða mín er sú að tilvitnaður bútur getur hvorki talist vel orðaður né auðskilinn.

(2) Í 18.tl. 3. gr. er enn skilgreining:

„Ofsóknir: Athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum [á] ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu áhrif eða sambærileg áhrif á einstakling.”

Hér er að ýmsu að hyggja, fæst af því fellur undir málfræði eða málbeitingu, varðar fremur rökhyggju og skýra hugsun.

– Getur endurtekning athafna orðið til þess að þær feli í sér alvarleg brot á mannréttindum?

Telst bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga til mannréttinda?

Hvað merkir refsing án laga, kannski refsing án dóms? – Er þetta kannski orðrétt þýðing á lat. Nulla poena sine lege [Engin refsing án laga. SS]? Ef svo er hefur það enga stoð í íslensku, öllum óskiljanlegt.

(3) Í 4. gr. segir:

„Ráðherra fer með yfirstjórn laga þessara.”

Hvað merkir þetta eiginlega? Alþingi setur lög sem forseti staðfestir. Lögregla sér um að farið sé að eða eftir lögum og dómarar skera úr ágreiningi sem upp kann að koma.

Aldrei hef ég heyrt talað um yfirstjórn laga enda finnst mér orðasambandið nánast merkingarlaus klisja. Lögum er ekki stjórnað, þau eru sett og þeim er fylgt eða eftir þeim farið. Svipuðu máli gegnir reyndar einnig um orðasambandið annast framkvæmd laga (4. gr.).

Eins og ég gat um í upphafi hef ég einungis lesið fjórar síður af 68, nenni satt best að segja ekki að lesa meira af svo góðu. Þegar á unglingsárum var mér kennt að lög og allt sem þeim fylgir (dómar, úrskurðir, greinargerðir) væru fyrir allan almenning en alls ekki málefni einungis ætluð sérfróðum. Þess vegna finnst mér sjálfsagt að vandað sé til lagatexta í hvívetna en á því virðist mér hafa orðið misbrestur hvað varðar Lög um útlendinga. Það hlýtur að teljast mikilvægt að lagatextar séu skýrir og þannig orðaðir að merking sé ótvíræð.

Ótrúlegt til þess að vita að þeir sem þá sátu á þingi og starfsfólk Alþingis skuli ekki hafa lesið lögin yfir og lagfært. Raunar er furðulegt ef engin prófarkalestur tíðkist á löggjafarsamkundunni. Jafnslæmt og jafnvel verra er að dómsmálaráðuneytið láti frá sér fara svona illa samin lög sem fá falleinkunn hjá málfræðingi. Þess ber að geta að lögin hafa enn ekki verið lagfærð.

Færði þingið löggjafarvaldið til ráðherra með orðalaginu í 4. grein laganna, sjá hér að ofan? Svo virðist vera og og það án nokkurra þvingana.

Sú hugsun læðist svo að manni að eitthvað meira sé aðfinnsluvert í málfari, notkun orða og orðasambanda í öðrum lögum sem þingið hefur sett.

Hvað er til úrbóta?

  1. Tvímælalaust að fá góðan málfræðing til að lagfæra lögin um útlendinga, fella þau úr gildi og samþykkja síðan lögin aftur eftir lagfæringu.
  2. Sett verði í lög að að ráðuneyti og Alþingi skuli láta lesa yfir öll lög sem þegar hafa verið samþykkt á síðustu árum og lagfæra villur og málfar.
  3. Framvegis verði engin frumvörp til laga lögð fram eða reglugerðir birtar nema þau hafi verið lesin yfir af þeim sem gerst þekkja í íslensku máli.

Á Alþingi er iðulega deilt og jafnan um keisarans skegg. Þar virðast margir gáfumenn starfa og eru jafnan önnum kafnir. Hjá almenningi vakna þó efasemdir um skýrleika þingmanna sem taka við lögum úr ráðuneytum, lesa þau ekki yfir, leiðrétta ekki málfar heldur samþykkja óbreytt. Verra er þó ef skilningur þingmanna og ráðuneytismanna á íslensku máli er ekki betri en fram kemur í lögum um útlendinga. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband