Bloggfærslur mánaðarins, september 2017
Ferðaþjónustan hefur sett þjóðfélagið á hliðina
27.9.2017 | 22:43
Um daginn var því haldið fram að erlendum ferðamönnum fjölgi ekki eins mikið og áður og fylgdi þeim orðum mikil sorg og eftirsjá. Engu að síður er búist við um 2,2 milljónum ferðamanna á þessu ári en ekki 2,5 milljónum.
Sumir fjárfestar og ferðaþjónustuaðilar eru engu að síður aldeilis fokvondir út af þessum tölum, kenna ríkisstjórninni um, krónunni og þeirri staðreynd að Ísland er ekki í ESB. Þeir vilja áframhaldandi fjölgun, helst í risastökkum. Því miður hugsa þeir ekki út í afleiðingarnar.
Mér sýnist að hér hafi gripið um sig svo svakalegt gulgrafaraæði að þjóðin þekki varla annað eins. Um leið er íslenskt samfélag eins og við þekkjum það stórlega breytt, jafnvel gjörbreytt eða við það að breytast í grundvallaratriðum.
Lítum aðeins á hinar skaðlegu afleiðingar sem ferðaþjónustan hefur haft í för með sér, beinar og óbeinar:
- Gistirými vantar fyrir ferðamenn, hótel eru byggð út um allt land, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.
- Iðnaðarmenn vantar í hótelbyggingar, þá þarf að flytja inn, helst frá þeim löndum sem greiða lægri laun en hér tíðkast.
- Um helmingur ferðamanna gistir á AirBnB sem er gistiþjónusta í heimahúsum. Aðeins um fimmtungur húseigenda gefa upp tekjur sína, hinir svindla.
- Gríðarlegur skortur er á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, markaðsverðið hefur stórhækkað.
- Húsaleiga hefur stórhækkað.
- Fólk hrekst frá höfuðborgarsvæðinu og út á landi, margir þvert gegn vilja sínum.
- Iðnaðarmenn vantar til að byggja íbúðarhúsnæði.
- Iðnaðarmenn eru fluttir inn til að byggja íbúðarhúsnæði, helst frá þeim löndum sem greiða lægri laun en hér tíðkast, flestir ófaglærðir.
- Starfsfólk vantar á hótel og veitingastaði.
- Starfsfólk er flutt inn frá þeim löndum sem greiða lægri laun en hér tíðkast, flest er ófaglært.
- Margt útlent starfsfólk í byggingariðnaði og ferðaþjónustu fær lægri laun en samningar segja til um hér á landi.
- Grunur er um mansal í tengslum við aukinn fjölda ferðamanna.
- Áfengisneysla og fíkniefnaneysla eykst.
- Átroðningur á þekktum ferðamannastöðum hefur aukist margfalt.
- Kostnaður lögreglu, landhelgisgæslu og björgunarsveita eykst mikið.
Þetta er aðeins hluti vandans, margt er ótalið.
Þjóðfélagið á hliðinni
Þjóðfélagið er nær því komið á hliðina vegna ferðaþjónustunnar og græðginnar sem einkennir hana. Ríkisskattstjóri þarf að leggja á sig mikla vinnu til að koma upp um skattsvik, launþegafélög þurfa berjast gegn ólöglegum samningum fjölmargra ferðaþjónustu- og byggingarfyrirtækja.
Milli 20 og 30 þúsund útlendingar starfa hér í lengri eða skemmri tíma vegna. Langflestir þeirra er láglaunafólk, sinnir störfunum sem Íslendingar líta ekki lengur við.
3,5 milljónir ferðamanna?
Árið 1980 komu hingað rétt tæplega 66 þúsund ferðamenn. Á síðasta ári komu á meðaltali 147 þúsund ferðamenn í hverjum mánuði, tæplega 1,8 milljónir ferðamanna. Búist er við þeir verði 3.5 milljónir árið 2020. Reikna má með að þá muni um 35.000 manns vera starfandi ferðaþjónustu, byggingastarfsemi og tengdum störfum.
Er þetta góð þróun eða hvað?
Í fyrra voru ferðamennirnir meira en fimm sinnum fleiri en þjóðin og þeim mun fjölga og hugsanlega verða 10,6 sinnum fleiri eftir þrjú ár.
Á sama tíma eru útlendingar sem vinna hér til lengri eða skemmri tíma um tíu prósent af þjóðinni.
Hinir stéttlausu
Íslensk þjóð getur ekki hjálparlaust tekið við öllum ferðamönnum sem eru margfalt fleiri en þjóðin og þaðan af síður sinnt þeim. Afleiðing er innflutningur vinnuafls sem á að sinna þessum leiðinlegu störfum, störfunum sem Íslendingar líta ekki lengur við.
Vinnuaflið er yfirleitt ekki menntað, hvorki sem iðnaðarmenn eða þjónustufólk. Stór hluti er ómenntaður og margir misnotaðir. Fær léleg laun, aðbúnaður þess er slæmur, vinnutíminn langur og þeir sem mögla eru bótalaust sendir heim til Póllands, Lettlands, Litháen, Rúmeníu eða hvaðan svo sem þetta óheppna fólk kemur.
Þetta er hitt fólkið, fólkið sem við viljum ekki vita af, huldufólk 21. aldar.
Þetta er fólkið sem fær ekki húsnæði, býr í hjöllum, stöðum sem ekki eru mannabústaðir því öryggisstaðlar eru þar allt aðrir en í íbúðarhúsnæði. Þeim er troðið þar sem er pláss.
Þetta er stéttlausa fólkið sem við sjáum stundum afgreiða í stórmörkuðum, eða pjakka með skóflu úti á götu.
Þetta er fólkið sem lætur lítið fyrir sér fara, lítur það undan, horfir ekki í augun á hinum ríku Íslendingum.
Og við látum okkur það vel líka að hinir stéttlausu trufli ekki daglegt líf okkar.
Öllu er breytt
Maður sem ég þekki er að byggja hús, hann fær ekki innlenda smiði og ræður því útlendinga sem segjast vera smiðir, pípulagningamenn eða rafvirkjar. Þeir veifa óvefengjanlegum pappírum frá pólskum iðnskólum, geta neglt, sett saman rör og víra, brosa breytt og eru hinir elskulegustu.
Á veitingastaðnum sem ég fór á um daginn gat ég ekki rætt við þjónustufólkið á íslensku því það var útlent en það brosir fallega og er hið elskulegasta.
Þegar ég fer í miðborg Reykjavíkur og ætla að rifja upp minningar frá æsku minni eru þær löngu horfnar. Búið er að rífa gömlu húsin og byggja steinsteypta kassa í þeirra stað. Götur eru horfnar og aðrar komnar í staðinn. Þetta er ekki einu sinni broslegt.
Og hvað næst?
Ég hef starfað í ferðaþjónustu, verið ráðgjafi fyrir fyrirtæki og einstaklinga en eins og hendi er veifað er allt annað uppi á teningnum. Allt hefur breyst.
Lái mér hver sem er en ég hef áhyggjur af íslensku þjóðfélagi. Að mínu mati er vandinn ekki útlendingar heldur Íslendingar og ég spyr samlanda mína. Hvað gerist næst?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hvernig á að undirbúa jarðskjálfta?
27.9.2017 | 15:44
Hér eru nokkrar athugasemdir við málfar í fjölmiðlum 23. til 27. september 2017.
1.
Undirbúa þann stóra.
Fyrirsögn á bls. 6 í Morgunblaðinu 23. september 2017.
Athugasemd: Góður undirbúningur skiptir öllu, tilgangurinn er að ekkert komi á óvart. Skiptir engu hvort maður sjálfur er að undirbúa sig eða verið sé að undirbúa einhverja aðra.
Fyrirsögnin hér á ofan er með grein um jarðskjálfta. Blaðamaðurinn misskilur sögnina og afleiðingin er sá skilningur að verið sé að undirbúa þann stóra, það er jarðskjálftann.
Fræðilega séð er útilokað að undirbúa jarðskjálfta. Undir hvað ætti að búa hann? Hins vegar getur fólk búið sig undir komandi skjálfta með ýmsum aðgerðum og líklega á blaðamaðurinn við það.
Tillaga: Undirbúa fyrir þann stóra.
2.
Gylfi var næstum því dýrasti leikmaður Everton í bara nokkra daga.
Fyrirsögn á dv.is.
Athugasemd: Hér er ein af furðuskrifum íþróttafréttamanna. Í fréttinni er fjallað um Gylfa Þór Sigurðsson, fótboltamann hjá Everton. Hann er einn af dýrustu leikmönnum félagsins. Þó bauð það mun hærri fjárhæð í annan leikmann, en fékk ekki.
Þá kemur blaðamaðurinn með skrýtna frétt með enn furðulegri fyrirsögn þar sem hann reynir að gera frétt úr því sem hefði getað orðið. Því meir sem hugsað er um þessa tilvitnun því asnalegri verður hún. Vart er hægt að skilja þessa þvælu. Nú, þar sem ekkert varð úr kaupum á dýrari leikmanni þá er Gylfi enn næstum því dýrasti leikmaður Everton og fréttin innantóm og skiptir ekki nokkru máli, er ekkert nema illa valin orð í enn verra samhengi.
Tillaga: Engin tillaga gerð, ekki taka þátt í vitleysu.
3.
Hreindýr eru víða á Íslandi og fara margir á veiðar eftir þeim á ári hverju.
Úr frétt á dv.is.
Athugasemd: Fjölmargir stunda veiðar, skjóta fugla eða dýr, jafnvel hvort tveggja. Veiðimaður fer á veiðar, svo einfalt er það. Hann fer ekki á veiðar eftir hreindýri eða rjúpu jafnvel þó hann eltist við dýr og fugla og fari þar af leiðandi eftir þeim.
Hreindýr eru ekki víða á Íslandi, aðeins á Austur- og Suðausturlandi.
Orðaforði kemur með lestri bóka. Sá sem hefur frá barnæsku lesið bækur á auðveldara með að tjá sig í rituðu máli en sá sem ekki hefur gert það.
Þeir sem skrifa um íþróttir geta verið sérfræðingar í fótbolta, vita allt um vítaspyrnur, dómara, úrslit leikja og leikmenn. Sérfræðingur sem getur ekki tjáð sig skammlaust á í verulegum vanda, í það minnsta þarf einhver að lesa yfir og lagfæra það sem hann skrifar.
Tillaga: Hreindýraveiðar eru algengar á Íslandi.
4.
Nokkuð af embættismönnum Framsóknarflokksins hafa sagt sig úr honum eftir að Sigmundur Davíð sagði sig úr flokknum og segir Grétar Þór ljóst að þeir ætla sér að elta hann.
Úr frétt á mbl.is.
Athugasemd: Æ, æ ... Fjölmargt í þessum texta er brogað. Í fyrsta lagi er ekki beinlínis rangt að segja nokkuð af . Betur fer þó á því að orða það þannig að nokkrir af
Svo er ekki rétt að kalla þá embættismenn sem eru kjörnir í stjórnir og álíka innan stjórnmálaflokka. Almennt eru þeir kallaðir forystumenn. Embættismenn eru hins vegar yfirleitt launaðir starfsmenn.
Blaðamaður gerist sekur um jórtur, það sem oft er nefnt nástaða (orð sem standa nálægt hverju öðru eða hvoru öðru), hann tvítekur orðalagið hafa sagt sig úr . Þetta er ljótt. Betra að umorða í fyrra eða seinna skiptið.
Blaðamenn ættu að tileinka sér þá reglu að setja punkt sem oftast frekar en að lengja málsgreinar úr hófi. Hér hefði verið tilvalið að segja punkt eins og gert er í tillögunni.
Tillaga: Nokkrir af forystumönnum Framsóknarflokksins hafa hætt eftir að Sigmundur Davíð sagði sig úr flokknum. Grétari Þór þykir ljóst að þeir eru að fylgja honum.
5.
Berlínarbúar upplifi niðurstöður kosninganna eins og jarðskjálfti hafi riðið yfir landið.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Af hverju ekki að segja að Berlínarbúar hafi uppliðfa niðurstöðurnar á þennan hátt sem er í samræmi við fréttina og frásögn þess sem vitnað er til í henni. Viðtengingarháttur gjörbreytir málavöxtum. Fyrirsögnin skilst á þann veg að verið sé að skipa Berlínarbúum fyrir.
Svo virðist sem að ungir blaðamenn skilji ekki hvernig nota á viðtengingarhátt í íslensku máli eða að þeir misskilji hann.
Tillaga: Berlínarbúar upplifa niðurstöður kosninganna eins og jarðskjálfti hafi riðið yfir landið
6.
Sú vinna hófst áður en málin komust í hámæli en brotaþolar og aðstandendur þeirra eiga heiður skilið fyrir að knýja fast á um breytingar.
Úr tölvupósti Bjarna Benediktssonar til Sjálfstæðismanna 21. september 2017.
Athugasemd: Nokkur forrit eru til sem finna og lagfæra villur í texta á íslensku. Skrambi er til dæmis afar þægilegur í notkun. Vandinn er hins vegar sá að forrit kunna stafsetningu nokkuð vel en fátt í málfræði, vita til dæmis ekkert um kyn orða, fallbeygingar og fleira. Fá forrit kunna til dæmis að leiðrétta góður kona. Þess vegna er svo mikilvægt að prófarkalesa það sem fer til opinberrar birtingar. Raunar trufla málfarsvillur oft margan lesandann og draga athyglina frá innihaldinu. Hinar bestu færslur á samfélagsmiðlum líða alltof oft fyrir hroðvirkni í stafsetningu og málfræði.
Hvort á nú að segja heiður skilið eða heiður skilinn. Raunar eru fjölmörg dæmi um hvort tveggja en ég hallast að hinu síðarnefnda enda heiður kk og stjórnar því kyni lýsingarorðsins.
Tillaga: Sú vinna hófst áður en málin komust í hámæli en brotaþolar og aðstandendur þeirra eiga heiður skilinn fyrir að knýja fast á um breytingar.
7.
Prestur á Staðastað og biskup deila enn.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Orðaröðin skiptir miklu máli. Fyrirsögn er ætlað að vekja athygli á efni fréttar. Enn er atviksorð og fer miklu betur að hafa það fremst í fyrirsögninni. Mér finnst tillagan hér að neðan góð, en vera kann að ekki séu allir sammála.
Tillaga: Enn deila þeir, presturinn á Staðarstað og biskupinn.
8.
Skapi hættu á mansali.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Í fréttinni sjálfri segir viðmælandi að eitthvað geti skapað hættuna; hvort það skapi hættu á mansali.
Viðtengingarháttur sagnarinnar að skapa ræðst af því sem viðmælandinn segir. Þegar sögnin er tegin úr samhenginu og sett í fyrirsögn, án samhengisins, glatar hún merkingu. Þar af leiðandi tel ég réttara sé fyrirsögnin sé eins og hér er gerð tillaga um.
Tillaga: Skapar hættu á mansali.
9.
H&M opnar í Kringlunni á morgun.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Óljóst er hvað verslunin H&M opnar. Þó er hugsanlegt að verslunin verði opnuðu í Kringlunni á morgun. Sé svo er fyrirsögnin röng. Ef ekki, er fyrirsögnin líka röng. Ástæðan er einfaldlega sú að verslanir geta ekki opnað neitt, hversu fínar sem þær eru.
Tillaga: Verslun H&M verður opnuð í Kringlunni á morgun.
10.
Sauðfé drukknaði á túnum.
Fyrirsögn á ruv.is.
Athugasemd: Þegar allt er á floti, jafnvel tún undir vatni, freistast einhverjir til að semja svona fyrirsögn til að sýna fram á hamfarirnar. Hins vegar er hún röng vegna þess að fé getur ekki drukknað nema í vatni. Frekar kjánaleg fyrirsögn.
Tillaga: Sauðfé drukknar eftir að flæddi inn á tún.
Stjórnmálafræðingar og aðrir lífsins spámenn
25.9.2017 | 17:26
Stjörnuspár þykja ekki merkilegar og síst af öllu taldar til fræðigreina, ekki heldur spilaspár, kaffibollaspár né heldur innyflaspámennska.Hins vegar er stjórnmálafræði merkileg fræðigrein og engin ástæða til að gera lítið úr henni þó hún sé hér nefnd með gagnslausum kerlingarfræðum.
Flestir eru sammála ofangreindu. Engu að síður er mannlegt eðli þannig að flestir eiga sér þá innstu ósk að geta skyggnst inn í framtíðina og vita um tilgang lífsins. Sumir telja sig berdreymna, aðrir geta ráðið í skýjafar og svo eru þeir til sem segja þegar allt er afstaðið: Ég vissi'ða.
Ástæðan fyrir því að ég nefni stjórnmálafræðina ásamt gervifræðum er auðvitað þessi innsta ósk hvers manns að vita eitthvað um framtíðina.
Blaða- og fréttamenn leita iðulega til stjórnmálafræðinga þeirra erinda að þvinga þá til að segja hið augljósa.
Sigmundur mun taka fylgi af Framsóknarflokknum.
Þetta segir Grétar Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði. Þessi orð koma engum á óvart og hann bætir við:
Hann [Sigmundur Davíð] á mjög góða möguleika á því að komast á þing.
Og veðurfræðingurinn lætur þetta frá sér fara og enginn tekur andköf yfir snilldinni:
Veðrið er þannig að nú rignir í höfuðborginni en svo styttir upp.
Veðurfræðingar eru ekki spámenn þó þeir geti leitt líkur að því hvernig veðrið mun þróast og það sem þeir láta frá sér fara nefnist veðurspár.
Einn góðan veðurdag (honum hafði verið spáð) sagði jarðfræðingur nokkur:
Jú, það er mjög líklegt að jörð skjálfi á morgun og raunar allt fram að áramótum.
Á sama hátt geta blaða- og fréttamenn ekki stillt sig um að spyrja um það sem það sem ekki hefur gerst:
Bjarni hlýtur að fara til Bessastaða strax í dag. Það er óhugsandi að Bjarni láti daginn líða án þess að hann geri það, segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, í samtali við mbl.is, spurður hvað hann telji að nú taki við.
Eiríkur Bergmann er því miður ekki meiri spámaður en við hinir en hann freistast til að skyggnast inn í framtíðina, slík er pressan. Vandinn er að hann veit ekkert þó hann geti leitt að því líkum hvað gerist. Hins vegar vissu allir eftir stjórnarslitin að forsætisráðherra myndi ræða við forsetann.
Ekki nokkur maður spyr mig, hvorki um stjórnmál, veður, jarðfræði eða eitthvað annað. Veit ég þó lengra en nef mitt nær, miklu lengra. Hér er dæmi um framtíðina:
Ég get fullyrt að Sigmundur muni fá jafnmikið fylgi og Framsóknarflokkurinn í næstu kosningum. Ég er nokkuð viss á því að VG fái 16 þingmenn í sömu kosningum og formaður flokksins verði ekki forsætisráðherra.
Auk þess er ég viss um að á næstu mánuðum mun frysta og snjóa, þess á milli sem það hlánar og rignir. Hinu fyrrnefnda mun linna eftir því sem líður á næsta vor. Það mun þó rigna um aldir alda hér á landi en stytta um af og til.
Nokkrir harðir jarðskjálftar munu ríða yfir landið á næstu vikum, fjölmargir þrjú eða fjögur stig í Bárðarbungu. Langflestir skjálftarnir verða á Reykjanesi, Suðurlandi, Mýrdalsjökli, Vatnajökli, í Öskju, í kringum Herðubreið og Öxarfirði, Skjálfanda og Grímseyjarsundi.
Segðu mér, virðulegi stjórnmálafræðingur, hver er tilgangur lífsins?
Sko, tilgangur lífsins er enginn nema hann sé annar en sá sem við höldum og jafnvel þó sumir haldi því fram að lífið sé markleysa þá eru fleiri sem fullyrða með rökum að það sé ekki hægt að skilgreina annað en það sem allir eru sammála um að sé til, en hinir halda því fram að tilgangurinn sé sá að svara spurningum eins og þessum. En hvers vegna í andsk... ertu að spyrja mig að þessu?
Nú áttarðu þig ábyggilega á því hver er tilgangurinn með þessum pistli, kæri lesandi.
Meðfylgjandi mynd er af stjórnmálafræðingi sem er að búa sig undir að koma í fréttatíma Ríkissjónvarpsins og tjá sig um nánustu framtíð í stjórnmálum.
Sigmundur muni taka fylgi af Framsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um sprengingu sem er sprengd og vistun sökum ástands
22.9.2017 | 11:38
Hér eru nokkrar athugasemdir við málfar í fjölmiðlum frá 10. til 21. september 2017.
1.
Að veikjast hefur haft gríðarlega mikil áhrif á líf mitt.
Viðtal í á bls. 25 í Morgunblaðinu 21. september 2017.
Athugasemd: Hér er eðlilegri orðaröð snúið við og fyrir vikið er setningin ljót, stíllaus. Má vera að viðmælandinn hafi tekið svona til orða en það er verkefni blaðamanns að umorða, gera frásögnina skýrari. Forðast ber að byrja setningu á sögn í nafnhætti.
Tillaga: Veikindin hafa haft gríðarlega mikil áhrif á líf mitt.
2.
Þú uppfærðir prófíl þinn síðast fyrir tveim vikum síðan.
Sjálfvirk tilkynning til notanda á Facebook.
Athugasemd: Eðlilegt orðalag er til dæmi: Langt er síðan ég kom hingað. Rangt er hins vegar að segja: Ég kom hingað fyrir tveimur vikum síðan. Síðasta orðinu er ofaukið og því betra að segja: Ég kom hingað fyrir tveimur vikum. Þetta orð síðan, er gagnslaust í mörgum tilvikum eins og hér hefur verið lýst.
Í tilvitnuninni er prófíll íslenskuð enska og getur þýtt lýsing á einstaklingi eða vangamynd. Má vera að orðið sé búið að ná fótfestu í íslensku, þannig er það í öllum norðurlandamálunum og víðar. Ekki þar með sagt að það sé góð þróun. Hins vegar er langt síðan orðið persóna náði fótfestu í málinu. Það gerðist fyrir löngu (og hér er rangt að bæta við síðan).
Tillaga: Þú uppfærðir persónulýsingu þína fyrir tveimur vikum.
3.
Takk, Bose, fyrir kyrrðina og róna sem þú gafst mér. En gætirðu skilað mér syninum kannski?
Pistill á bls. 18 í Morgunblaðinu 12. september 2017.
Athugasemd: Höfundur þessara orða er að tala um heyrnartól og Bose er framleiðandinn. Með þeim hefur hann fengið kyrrð og ró á heimili sitt. Ég las þetta þannig að róni hefði komið inn á heimilið. Kvenkynsnafnorðið ró er í þolfalli með greini róna þannig að þetta er síst af öllu rangt en kann að vera broslegt við fyrstu sýn. Engu að síður er þessi málgrein frekar stirð og hefði að ósekju mátt orða á annan hátt.
Hins vegar er orðaröðunin í næstu setningu röng. Máltilfinning flestra segi að atviksorðið kannski sé ekki a réttum stað. Æ meir ber á því sem nefna má skakka eða bjagaða orðaröð í fjölmiðlum. Margir hafa af því áhyggjur. Einnig er ljótt að byrja setningu á samtengingu eins og þarna er gert. Svo er það bókstaflega allt annað mál að nota 'kannski' sem er ekkert annað en danskan 'kan ske'. Kannski er vonlaust að útrýma því úr málinu.
Tillaga: Gætirðu kannski skilað mér syninum?
4.
Strætisvagn keyrði yfir fót þrettán ára pilts í Reykjanesbæ.
Fyrirsögn í vefritinu Pressan.
Athugasemd: Var fóturinn áfastur drengnum þegar þetta gerðist? Grínlaust, þetta er ómöguleg fyrirsögn, viðvaningsleg. Réttara væri að segja að strætisvagn hafi keyrt á piltinn. Það er síðan í sjálfri fréttinni sem nánari upplýsingar um slysið eiga að koma fram. Hins vegar er fréttatextinn jafn ómögulegur og fyrirsögnin.
Tillaga: Strætisvagn ók á pilt í Reykjanesbæ.
5.
Ráðherra sprengdi fyrstu sprenginguna í Dýrafjarðargöngunum.
Frétt í Ríkisútvarpinu 14. september 2017 (skráð eftir minni)
Athugasemd: Ráðherrann sprengdi sprengingu. Þarf að ræða þetta nokkuð frekar? Væntanlega skilja allir vitleysuna í tilvitnuninni. Svona rassbaga er samt orðin æði algengt. Íþróttamenn stökkva stökk og hlaupa hlaup, rithöfundar skrifa skrif, geltandi hundar gelta
Tillaga: Vinna við Dýrafjarðargöng hófst með sprengingu samgönguráðherra.
6.
veittu dæmdum nauðgara meðmæli vegna uppreist æru.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Vegna er forsetning sem stjórnar eignarfalli. Þess vegna er sagt: mín vegna eða vegna mín, ekki ég vegna' eða álíka. Orðið uppreist er eins í öllum föllum nema eignarfalli.
Í barnaskóla var ráðlagt að setja eitthvað annað orð í stað nafnorðsins sem maður þekkir ekki fallið á. Þannig getur verið hjálplegt að setja orðið svín í stað æra. Útkoman er vegna svíns og þá er greinilegt að um er að ræða eignarfall.
Tillaga: veittu dæmdum nauðgara meðmæli vegna uppreistar æru.
7.
Tryggjum að trampólín takist ekki á loft.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Eitthvað undarlegt er að gerast í frásögnum fjölmiðla af veðri, þvert á allar venjur. Blaðmenn mala stöðugt um vind, hann sé lítill, mikill eða eitthvað þar á milli. Aldrei er lengur tekið þannig til orða að logn sé, hægviðri, hvasst eða stormur. Þetta er einhvers konar veigrunartal, ekki má nefna neitt sínu rétta nafni sem hefur þó fylgt þjóðinni í þúsund ár.
Sama er með ofangreinda fyrirsögn og raunar alla fréttina. Sé hún túlkuð er átt við að leiktæki kunni að fjúka í veðrinu sem er spáð. Af hverju má þá ekki segja það? Hins vegar hefðu margir áhuga á því að sjá trampólín taka á loft en það mun vart gerast. Þau munu líklega fjúka í ærlegu hvassviðri, roki, stormi eða fárviðri og veltast um undan vindi þar til þau festast eða eru fest.
Tillaga: Tryggjum að trampólín fjúki ekki.
8.
Fjórðungur allra umferðarslysa á Íslandi má rekja beint til snjallsíma.
Fyrirsögn á pressan.is.
Athugasemd: Hvað er verra en blaðamaður sem kann ekki að fjallbeygja nafnorð? Dómgreindalaus byrjar blaðamaður á að skrifa fjórðungur og hann hugsar ekki út í framhaldið. Verst er þó að annað hvort les hann ekki yfir eða les yfir og kemur ekki auga á villuna. Þá á fjölmiðillinn sem hann starfar í verulegum vanda.
Sé svo að hægt sé að rekja fjórðung allra umferðaslysa beint til snjallsíma þá er einfaldlega hægt að stytta fyrirsögnina og gera hana kjarnyrtari. Um leið breytist fallið á nafnorðinu fjórðungur.
Tillaga: Fjórðungur allra umferðaslysa er vegna snjallsíma.
9.
Stúlkan var handtekin og flutt á lögreglustöðina Hverfisgötu þar sem hún er vistuð í fangageymslu sökum ástands.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Enn og aftur er fólk vistað í fangageymslu. Orðalagið er án efa ættað frá lögreglunni og því kyngt gagnrýnislaust af flestum fjölmiðlum. Orðið virðist vera til þess að milda orðalagið 'að setja fólk í fangelsi'. Bent hefur verið á að ekki sé heilbrigt að vista fólk í geymslu. Sá sem þetta ritar, sem bæði hefur starfað sem lögreglumaður og blaðamaður, kýs að orða þetta á þann hátt sem hér er gerð tillaga um.
Svo segir í tilvitnuninni að stúlkan hafi verið sett inn sökum ástands. Letin er alveg að drepa blaðamanninn. Er útilokað að klára setninguna? Ástand fólks er ekki tilefni til að handtaka fólk og setja í fangelsi. Þannig er að ég er smávægilega kvefaður, Nonni vinur minn er haltur og gamall félagi minn, Brynjar Níelsson, þingmaður, var rekinn sem formaður nefndar á Alþingi. Ástand okkar er með mismunandi hætti, vonandi verðum við ekki settir í steininn afskaði ég á við vistaðir í híbýlum löggæslunnar vegna ástands. Þetta er nú ljóti kanselístíllinn.
Tillaga: Stúlkan var handtekin sett í fangaklefa í lögreglustöðinni við Hverfisgötu vegna þess að hún var full, dópuð eða hvort tveggja.
10.
Unnið er að því brottvísa manninum frá Íslandi
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Þvílík della er þessi tilvintaða setning. Greinilegt er að reynslulitlir blaðamenn fá ekki það aðhald sem þeir þurfa, enginn lesi yfir það sem þeir semja. Fyrir vikið halda þeir að allt sé í stakasta lagi með textann sinn og málfar. Hafa ekki hugmynd um hversu illa þeir misþyrma málinu. Verst er þó að ístöðulítið fólk heldur að texti sem reynslulitlir blaðamenn semja sé bara hið besta mál (bókstaflega). Þannig breiðist ósóminn út fyrir algjöra leti og aumingjaskap ritstjóra og útgefenda.
Tillaga: Unnið er að því að vísa manninum úr landi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.9.2017 kl. 01:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hugsanlega er hægt að skipuleggja 2000 manna landsfund
18.9.2017 | 21:25
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er venjulega ekki skipulagður með stuttum fyrir. Flokkurinn er gríðarlega stór og fundinn sækja um tvö þúsund manns. Mörg hundruð manna starfa að málefnaundirbúning og þar viljum við flest eiga einhverja hönd í bagga. Undirbúningur hans tekur þar af leiðandi langan tíma.
Aðrir flokkar geta ábyggilega framleitt sennilega stefnu á nokkrum dögum, pantað lítinn sal og spjallað í góðu tómi um framtíðina og sagst vera tilbúnir í kosningabaráttu.
Sem betur fer er það ekki þannig hjá Sjálfstæðisflokknum. Við viljum hafa tímann fyrir okkur sé ætlunin að gera einhverjar veigamiklar breytingar á stefnu hans. Margir málefnafundir á landsfundi eru fjölmennari en aðalfundir eða landsfundir annarra flokka. Þetta er síst af öllu sagt til að gera lítið úr flokksstarfi annarra heldur eru þetta blákaldar staðreyndir.
Ábyggilega verður reynt að koma á landsfundi, kjósa formann og fylla í embætti varaformanns. Hér reynir hins vegar á að fjöldi fólks komi að málum og hjálpi til.
Þó andstæðingar Sjálfstæðisflokksins haldi öðru fram er mikil samvinna innan flokksins enda er hann flestum félagslega mikilvægur.
Erfitt að flýta landsfundi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Persónulegar árásir í pólitík í stað málefnalegrar umræðu
17.9.2017 | 16:04
Því að sannarlega er það ekki svoleiðis að að það sé meiri biðlund, meiri samúð hjá fólki í Sjálfstæðisflokknum með barnaníðingum eða minni samúð með fórnarlömbum þeirra en hjá öðru almennilegu fólki.
Þetta hefur Mbl.is eftir Páli Magnússyni, þingmanni, í Silfri Ríkisútvarpsins í morgun. Þessi orð fá mann til að velta fyrir sér ótrúlega niðurdrepandi og ósanngjarnri pólitík sem sumir iðka. Svo uppteknir eru margir af harmi barna og ungs fólks vegna ofbeldisníðs sem það hefur orðið fyrir að nú saka þeir fólk um óeðli fyrir það eitt að vera á ákveðnum aldri og af tilteknu kyni.
Þurfa þeir sem eru foreldrar, bræður, systur, afar, ömmur, frændur, frænkur, vinir, vinkonur, skyldir eða óskyldir að lýsa því yfir í votta viðurvist að þeim býður við ofbeldi, barnaníði og öðrum djöfulskap sem örlítið brot hverrar þjóðar gerir sig sekt um? Geri þeir það ekki hljóti þeir að vera sekir, eða að minnsta kosti vegna samneytis (guilt by assiciation).
Nei, alls ekki. Það liggur í eðli máls að öllum er ofboðið þegar slík mál koma upp. Verri glæpir eru vart til.
Það er hins vegar furðulegt og ekki síður ósvífið þegar ofbeldismál eins og barnaníð eru notuð í pólitískum áróðri, til að koma högg á þá sem eiga ekkert sameiginlegt með barnaníðingum.
Flestir eru gáttaðir á því þegar fullyrt er að verið sé að fela þessi mál og jafnframt að 'miðaldra karlmönnum þyki barnaníð ekkert stórmál', margir aðrir glæpir séu alvarlegri. Er hægt að bera alvarlegri sök á feður eða afa, miðaldra eða ekki?
Óþverrar, níðingar ... eða bara virkir í athugasemdum halda þessu fram. Ég geri almennt ekki greinarmun á þessum. Sjá til dæmis heiftina í fólki sem hvetur til limlestinga og morða eða eins og ein af virkum segir:
Nauðgun og barnaníð réttlætir það að þessir úrhrök samfélagsins verði bundnir afta í bíla og dregnir efti götunum bæjar og borga.Þvílíkur viðbjóður.
Sem sagt viðbjóði á að bregðast við með öðrum viðbjóði.
Öfgarnar og óþverrahátturinn í pólitíkinni er meiri en maður hefði látið sér detta í hug. Hvað þá þessi órökstuddu og níðingslegu hugrenningatengsl sem alþingismaður lætur glaðhlakkalegur frá sér fara svona skítlega árás á æru forsætisráðherra:
Iceland's Jimmy Savile case: our PM, who was in the Panama Papers, has hid for two months his father's support for a pedophile's clemency.
Er fólki sem svona talar treystandi fyrir sæti á Alþingi? Eða er því yfirleitt bara treystandi fyrir einhverju?
Margoft hefur verið reynt að klína nafni forsætisráðherra við barnaníð.
Í hinum pólitíska áróðri var því haldið fram að á síðasta ári hafi núverandi forsætisráðherra hafi sem starfandi innanríkisráðherra veitt barnaníðingi uppreist æru. Sú fullyrðing reyndist uppspuni og hún hrakin.
Þá var reynt að bera það upp á forsætisráðherra að hann hefði ritað meðmælabréf fyrir einhvern barnaníðing svo hann fengi uppreist æru. Það reyndist líka uppspuni.
Pólitískum andstæðingum hans komu þá þeirri falsfrétt á fluga að fyrst dæmdur barnaníðingur hafi einhvern tímann verið í Sjálfstæðisflokknum væri forsætisráðherra og jafnvel fleiri að verja hann. Þó einfalt fólk legði trúnað á svona lygi fannst fleirum þetta ótrúlega lágt lagst í áróðri.
Einhverjum óþverranum dátt þá í hug að dreifa því að forsætisráðherra þurfi að gjalda fyrir að faðir hans hafi skrifað undir meðmælabréf vegna uppreist æru barnaníðings. Út af fyrir sig er það sjónarmið en afar ógeðfellt og níðingslegt.
Loks er því haldið fram að forsætisráðherra hafi fengið upplýsingar um meðmælabréf föður síns og haldið því leyndu. Sé svo, hvað annað átti hann að gera? Hvaða kostir voru í stöðunni? Jú, halda því leyndu eða segja frá. Hvort af þessu er nú lögbrot?
Þegar pólitískir öfgamenn hafa hrakist úr einu víginu í annað er því haldið fram að um leyndarhyggju sé að ræða, líklega til að verja barnaníðinga eða meðmælendur um uppreist æru þeirra.
Hvers vegna í ósköpunum ætti stjórnmálaflokkur að fela glæpi? Staðreyndin er hins vegar sú að í lögum er reynt að vernda nöfn þolenda ofbeldisglæpa en nú er því snúið upp í andhverfu sína og verið sé að hjálpa glæpamönnum.
Líklegast er til of mikils mælst að stjórnmálamenn sem aðrir reyni að ræða hugðarefni sín á málefnalegan hátt en ekki eins og öfgaliðið virkir í athugasemdum.
Í ljósi aðstæðna má þó hvetja skynsamt fólk til að eyða ekki atkvæði sínu á þá sem stunda persónulegar árásir og kunna ekki eða geta ekki rætt málin málefnalega. Hvernig yrði þjóðfélagið ef mannorðsmorðingjar og níðingar kæmust í ríkisstjórn landsins? Nógu slæmt er að þeir skuli fyrirfinnast á Alþingi.
Gamla dæmisagan um syndir feðranna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Lönd sem ferðast og framleiðsla á framleiðslu ...
10.9.2017 | 08:59
Dæmi um málfar í fjölmiðlum vikuna 3. til 9. september 2017.
1.
Bandaríkin hætti öllum viðskiptum við lönd sem stunda viðskipti við Norður-Kóreu.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Í fréttinni er fjallað um hugmyndir Bandaríkjaforseta um að hætta þessum viðskiptum. Ekkert er þó ákveðið og þar með ætti sögnin ekki að vera í viðtengingarhætti. Betur fer á því að orða fyrirsögnina á annan hátt. Svo er það nástaðan, hætta viðskiptum við þá sem stunda viðskipti. Blaðamenn virðast margir hverjir ekki sjá hana.
Tillaga: Bandaríkin eiga að hætta öllum viðskiptum við lönd sem stunda versla við Norður-Kóreu.
2.
Guðjón áfram meiddur og Löwen tapað.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hér fer betur á því að nota atviksorðið enn í staðin fyrir áfram. Hins vegar er þetta hugsanlega smekksatriði. Bendir þó til þess að sá sem skrifar hafi ekki þau tök á málinu sem þarf.
Tillaga: Guðjón enn meiddur og Löwen tapaði.
3.
Veggjakrotari vistaður í fangaklefa.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Afbrotamaðurinn var settur í fangelsi. Hvers vegna er verið að klúðra sjálfsögðu orðalagi og farið að vista menn í fangelsi? Er eitthvað fínna að vista glæpamann í fangelsi? Lýsir sögnin að vista betur því sem gert var? Nei og nei. Næst má búast við því að glæpamaður verði hýstur í fangelsi.
Sagt var forðum að fólk færi í vist, sumir höfðu vistaskipti, enn aðrir áttu erfiða vist og svo eru þeir til sem spiluðu vist. Þetta er allt þekkt og fjöldi fólks hefur búið á heimavist. Vonandi verður fangelsi aldrei kallað heimavist.
Í fréttinni kemur fram að krotarinn hafi verið settur inn vegna eignaspjalla sem er vissulega rétt. Þó má fullyrða að allir viti ástæðuna fyrir því að veggjakrotari sem er gripinn og settur í fangelsi. Að minnsta kosti var það ekki vegna þess að hann gekk yfir gangbraut á móti rauðu ljósi! Eru málalengingar sem þessar ekki leiðinlegar í fréttum?
Tillaga: Veggjakrotari handtekinn og settur í fangelsi.
4.
Halldór ætlar samt að sitja út kjörtímabilið og hann ætlar að vera áfram virkur í grasrótarstarfi í flokknum.
Fyrirsögn á dv.is.
Athugasemd: Tvítekningar og stundum margtekningar í texta eru oft kallaðar nástaða. Slíkur stíll er ljótur og getur eyðilagt frásögn en er engu að síður afar algengur í fréttum hér á landi.
Oft á tíðum er afar auðvelt að sleppa við nástöðuna með því að skrifa sig fram hjá henni. Til þess þurfa skrifarar í það minnsta að lesa yfir texta sinn og í öðru lagi koma auga á hana og í þriðja lagi að kunna að lagfæra. Sá sem skrifaði tilvitnunina hefði að ósekju mátt lesa yfir eða fá einhver til þess.
Tillaga: Halldór ætlar samt að sitja út kjörtímabilið og vera áfram virkur í grasrótarstarfi í flokknum.
5.
Lars Lagerback og lærisveinar hans voru niðurlægðir þegar Noregur heimsótti Þýskaland í undankeppni HM í kvöld.
Frétt á pressan.is.
Athugasemd: Alveg ótrúlegt af Norðmönnum að setja einhverja skólastráka í landsliðið. Ætla má þó að betur gangi þegar lærisveinarnir útskrifast.
Nei ... leikmenn norska landsliðsins eru ekki lærisveinar þjálfarans. Ekki frekar en blaðamaðurinn sem skrifað þessa frétt er lærisveinn ritstjóra Pressunnar. Á annan hátt er þetta er skrýtið orðalag. Af hverju er ekki sagt að þetta hafi gerst í fótboltaleik? Blaðamaðurinn telur niðurlæginguna hafa gerst þegar Noregur heimsótti Þýskaland. Það er ekki hægt. Norska landsliðið heimsótti það þýska, lönd fara hvergi.
Tillaga: Þýska landsliðið í fótbolta niðurlægði það norska sem leikur undir stjórn Lars Lagerback.
6.
Hver þekkir sjálfan sig?
Myndatexti á bloggsíðunni fornleifur.is.
Athugasemd: Fornleifur birtir gamla mynd af drengjum fyrir utan hús í Kaldárseli og spyr þessarar spurningar. Ein og sér er hún nokkuð fyndin. Gæti verið af heimspekilegum toga. Sé svo er svarið eitthvað á þá leið að fæstir þekki sjálfa sig fyrr en á reynir.
Hinn ágæti höfundur bloggsins er þó ekki á þeim buxunum heldur er hann einfaldlega að spyrja hvort einhver lesenda þekki sig á myndinni. Ég áttaði mig á spurningunni en hló við, gat ekki annað. Hún mætti vera skýrari í þessu sambandi þó hún sé það í öðru.
Tillaga: Eru einhverjir lesenda á myndinni?
7.
Hátt gengi veiki samkeppnisstöðu.
Fyrirsögn á bls. 10 í Morgunblaðinu 6. september 2017.
Athugasemd: Misnotkun á viðtengingarhætti veldur því að frétt á borð við þessa misskilst. Fyrirsögnin bendir til þess að það sé óskandi að hátt gengi krónunnar veiki samkeppnisaðstöðu. Hugsunin virðist þó vera þveröfug ef öll fréttin er lesin.
Tillaga: Hátt gengi veikir samkeppnisstöðu.
8.
Ég til dæmis ætla að fara á skíði í vetur
Viðtal á Smartlandi mbl.is.
Athugasemd: Hér er rætt við mann sem segir frá sjálfum sér en orðaröðunin er röng. Má vera að stundum sé orðlagið á þennan hátt í viðtölum en þá ber blaðamanni að lagfæra vegna þess að nokkur munur er á talmáli og ritmáli.
Ólíklegt er að maðurinn taki sjálfan sig sem dæmi um þann sem ætlar að fara í frí í vetur. Hér er frekar hallast að því að hann ætli að gera margt skemmtilegt í vetur, til dæmis að fara á skíði. Hugsanlegt ætlar hann ekki að gera neitt annað í vetrarfríi sínu en að fara á skíði og þá er óþarfi að segja til dæmis þar sem ekki eru fleiri kostir í boði.
Tillaga: Ég ætla til dæmis að fara á skíði í vetur
9.
99 ára fékk nei við plássi á hjúkrunarheimili.
Fyrirsögn á bls. 4 í Morgunblaðinu 8. september 2017.
Athugasemd: Þetta er dálítið barnaleg fyrirsögn. Sjaldan fer vel á því að byrja setningu á tölustöfum en líklega er það smekksatriði enda ekki gegn málfræðireglum.
Hvort fer nú betur á því að segja að konan hafi fengið nei við plássi á hjúkrunarheimili eða að henni hafi verið neitað eða synjað um plássið?
Tillaga: Hjúkrunarheimili neitar 99 ára gamalli konu um pláss.
10.
Við erum ekki að framleiða söluvöru í dag en erum að framleiða tilraunaframleiðslu
Davíð Tómas Davíðsson, matvælafræðingur í viðtali á blaðsíðu 15 í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 9. september 2017
Athugasemd: Sem sagt, fyrirtækið sem viðmælandinn er að vinna hjá framleiðir framleiðslu. Gott að vita. Raunar hefði blaðamaðurinn átt að sjá þessa vitleysu og leiðrétta.
Tillaga: Við erum í tilraunaframleiðslu, sú vara er ekki til til sölu
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvers vegna eru fjölmiðlar fullir af málvillum?
9.9.2017 | 16:55
Fjölmiðlar í dag eru fullir af mállvillum og þýðingar eru oft furðusmíð. Það eru málfræðivillur, staðreyndavillur, röng orðaröð, hugtök eru óljós, forsetningar ekki réttar og algeng orðasambönd kolvitlaus.
Íslenskukennarinn og prófarkalesarinn gæti bent ykkur á villur í hverjum einasta fjölmiðli.
Talmál er ekki skárra. Það er ekki hægt að hlusta á suma þætti í útvarpi. Þáttastjórnendur tala eins og þeir séu einir með kettinum heima í eldhúsi og viðmælendur, hamingjan sanna, það sem þeir geta stundum verið illa máli farnir.
Hreinræktaðir Íslendingar blanda saman íslensku, ensku og dönsku og jafnvel norsku eftir að unglingaþættirnir Skam náðu tökum á þjóðinni.
Þetta segir Lilja Magnúsdóttir í pistlinum Tungutak í Morgunblaði dagsins (greinaskil eru mín). Pistillinn birtist á hverjum laugardegi í blaðinu og nokkrir ágætir íslenskufræðingar og rithöfundur skiptast á að skrifa hann.
Meðan ég var í skólum sem kenndu íslensku var sárt að vera gripinn fyrir ranga beitingu á tungumálinu, einnig var vont að vera illa að sér í bókmenntum sem kenndar voru, fornsögum, skáldsögum og ljóðum. Þá tíðkaðist agi.
Nú virðist lítil áhersla lögð á íslenskukennslu í skólum. Staðreyndin er einfaldleg sú að alltof margt ungt fólk sem kemur frá námi er illa að sér í móðurmálinu. Margt af því leggur fyrir sig blaðamennsku og skrifar slæman stíl, fréttir eru fullar af málvillum og þýðingar furðusmíð eins og Lilja nefnir í tilvitnuðum texta.
Hverjum er þetta að kenna? Jú, okkur foreldrunum sem höfum ungað út fólki sem frá barnæsku hefur frekar horft á sjónarp en síður lesið bækur. Við getum kennt kennurum í grunnskóla og framhaldsskóla um aga- og stefnuleysi. Við getum kennt fagfélögum kennara um sem gera ekki kröfur til meðlima sinna. Og við getum kennt stjórnvöldum um slaka menntastefnu sem leggur ekki þunga áherslu á lestur, ritgerðasmíð og íslensk fræði. Þetta er allt að leka niður í einhverja ærulausa jafnaðarmennsku sem fáum gagnast.
Loks eru það stjórnendur fjölmiðla sem gert ekkert til að aga starfsmenn sína. Enginn leiðbeinir, enginn les yfir, eins og Eiður heitinn Guðnason, staglaðist á í málfarspistlum sínum og fékk oftar en ekki bágt fyrir. Og blaðamennirnir eru stoltir fyrir það eitt að skila fréttum og hafa ekki hugmynd um villurnar sem þeir gera.
Alltof margt ungt fólk er fáfrótt og missir af því stórkostlegasta sem menning þjóðarinnar hefur upp á að bjóða, fornsögur, tungumálið, ljóðin, skáldsögur allra tíma. Þess í stað verður til fólk sem kann varla að tjá sig á íslensku, er illa að sér í öðrum málum en þykist kunna svör við öllu.
Í ofanálag má ekki gagnrýna eitt eða neitt. Við eigum að strjúka börnunum alla tíð, ekki gera kröfur, ekki byggja upp aga með umbun og refsingu og niðurstaðan er ofgnótt af lækum og jafnvel þeir sem engu nenna fá þau flest fyrir ekki neitt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ekkert mansal, ekkert lögbrot þrátt fyrir fullyrðingar RÚV
8.9.2017 | 09:42
Á vef RÚV kemur fram að umræddur veitingastaður sé Sjanghæ sem er við Strandgötu á Akureyri. Eigandi veitingastaðarins er grunuð um vinnumansalið en starfsmennirnir, fimm kínverjar, fengu loforð um góða atvinnu og framtíðarbúsetu hér á landi, gegn því að greiða háa fjárhæð fyrir.
Þetta kemur fram í frétt á vef Ríkisútvarpsins þann 30. ágúst síðastliðinn. Ég hlustaði á fréttirnar í útvarpi eða sjónvarpi og hneykslaðist á enn einu mansalsmálinu og þrælahaldi sem komist hafði upp í ferðaþjónustu hér á landi og hét því að skipta aldrei við þennan hræðilega veitingastað.
Ég er ekkert öðru vísi en aðrir meðalmenn hér á landi. Maður tekur allar fréttir trúanlegar og án þess að leita sér frekari upplýsinga hneykslast maður og lætur móðan mása um alla þessa skíthæla sem brjóta lög, reglur og kjarasamninga.
Svona er nú stutt í heimskuna hjá manni á tölvuöldinni þegar bullfréttir, falsfréttir og áróður tröllríða ginnkeyptum neytandanum.
Skyndilega verður gjörbreyting:
Þann 30. ágúst síðastliðinn greindi Ríkisútvarpið frá því að grunur væri um vinnustaðamansal á staðnum. Talið væri að starfsfólkið fengi greiddar þrjátíu þúsund krónur á mánuði í laun og fengi að borða matarafganga af veitingastaðnum.
Vinnustaðaeftirlit stéttarfélagsins Einingar-Iðju nokkrum dögum síðar sýndi þó fram á að starfsmenn Sjanghæ fái greitt samkvæmt kjarasamningum og launatöxtum sem gilda á veitingahúsum.
Þetta las ég á visir.is og þar kveður við allt annan tón. Á veitingastaðnum Sjanghæ er ekkert mansal, ekkert þrælahald, allur rekstur samkvæmt lögum, reglum og kjarasamningum.
hvað í fj... er að gerast. Áður var fullyrt af virðulegum fréttamiðli að þarna væri svínað á starfsmönnum en núna er þetta allt saman tómt plat.
Auðvitað ber fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um málið það með sér að það fór fram út sjálfri sér, ætlaði aldeilis að vera fyrst með réttirnar, skjóta keppinautunum ref fyrir rass. Þetta er núna ljóst.
Fjölmiðlar eiga það til að fara farið offari, stundum viljandi, og þá er betra að einhver sé á vakt sem tekur að sér verkefni gagnrýnandans, þess sem á ensku er stundum nefndur the devil's advocate. Slíkt fyrirkomulag getur komið í veg fyrir vandræðalegar uppákomur.
Getur verið að fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi haft svo áreiðanlegar heimildir fyrir frétt sinni að hún hafi talið pottþétt að fréttin stæðist? Sé svo þarf hún að endurskoða verklag sitt.
Á meðan þarf ég, og væntanlega aðrir neytendur, að breyta þeirri skoðun sem Ríkisútvarpið innrætti mér. Eyða fordæmingunni og fordómunum og hugsanlega að kaupa mér máltíð á Sjanghæ næst þegar ég á leið til höfuðstaðs Eyjafjarðar.
-Vistaður fyrir rannsókn málsins- er hallærislegt orðalag
3.9.2017 | 12:44
1.
Ber að taka fyrir hópmálssókn gegn Björgólfi Thor.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Sá sem er vel lesinn veit að orðalagið að taka fyrir eitthvað getur þýtt að hætta einhverju, koma í veg fyrir eða hreinlega loka. Með öflugri löggæslu er tekið fyrir hraðakstur í hverfinu. Ofangreinda fyrirsögn má skilja á þann veg að [hæstiréttur] hafi ákveðið að hópmálssókn gegn Björgólfi Thor verði hætt, en það er ekki rétt.
Tillaga: Hópmálssókn leyfð gegn Björgúlfi Thor.
2.
Úrskurðaði dómstóllinn Beale seka um meinsæri og fyrir að hindra framgang réttvísinnar og dæmdi hana seka til 10 ára fangelsisvistar.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvað þýðir þetta: dæmdi seka til 10 ára fangelsisvistar. Sé rýnt í fréttina er átt við að Beale var dæmd til 10 ára fangelsisvistar. Konan fékk fer í fangelsi af því að hún var dæmd sek. Orðalagið í tilvitnuninni er óviðunandi.
Tillaga: Úrskurðaði dómstóllinn Beale seka um meinsæri og fyrir að hindra framgang réttvísinnar. Hún var dæmd til 10 ára fangelsisvistar.
3.
Höfðu afskipti af manni með sverð.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er ótrúlega kjánalegt orðalag (afsakið orðbragðið). Lögreglan handtók manninn, það kemur greinilega fram í fréttinni. Í henni segir að sverðið hafi verið haldlagt. Þetta er frekar kveifarlegt orðalag. Miklu einfaldara að segja að sverðið hafi verið tekið af manninum því það var gert.
Tillaga: Sverð tekið af manni.
4.
Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: fyrir rannsókn málsins Þetta er beinlínis rangt mál. Maðurinn var settur í fangelsi vegna rannsóknar málsins. Auðvitað var farið með hann í fangelsi, því má til sannsvegar færa að hann hafi verið vistaður þar. Þeir sem voru með óspektir voru í gamla daga settir í fangelsi,fangelsaðir. Algjör óþarfi að segja að það sé fyrir rannsókn málsins eða vistaðir í fangelsi. Það segir sig sjálft.
Tillaga: Maðurinn var settur í fangelsi.
5.
Valsmenn taka þrjú stig úr Vestmannaeyjum.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Íþróttafréttamenn eru margir hverjir óhræddir að feta frumlega stigu í skrifum sínum en oft lenda þeir í tómu rugli. Ritmál er ekki alltaf það sama og talmál. Valsmenn unnu vissulega lið ÍBV í Vestmannaeyjum. Hins vegar er þetta slæm fyrirsögn og stenst varla. Ofangreind fyrirsögn er ekkert fyllri eða betri en að segja að Valsmenn hafi sigrað í Vestmannaeyjum.
Tillaga: Valsmenn tók öll stigin í Vestmannaeyjum.
6.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur varað við því að allir valkostir séu uppi á borðum eftir að stjórnvöld í Norður-Kóreu skutu eldflaug yfir Japan.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Tilvitnunin bendir til þess að forsetinn vilji ekki að allir kostir séu uppi á borðum. Má vera að svo sé.
Á CNN segir hins vegar: US President Donald Trump has warned that "all options are on the table" after North Korea launched a missile over Japan early Tuesday.
Forsetinn varaði ekki við þessu, þvert á móti. Stundum eru ökumenn varaðir við hvassviðri undir Hafnarfjalli, þeir ættu þá ekki að aka þar fyrr en lægir.
Tilvitnunin gengur illa á íslensku, líklega besta leiðin að umorða það sem forsetinn segir. Forðast ber hins vegar að nota orðskrípið valkostur.
Tillaga: Donald Trump Bandaríkjaforseti fullyrðir að hægt sé að grípa til margvíslegra aðgerða eftir að stjórnvöld í Norður-Koreu skutu eldflaug yfir Japan.
7.
Netverjar fengu sjokk þegar í ljós kom að Torn væri ábreiða af dönsku lagi.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hvað er ábreiða? Flestir munu telja það vera eitthvað sem notað er til yfirbreiðslu. Samkvæmt orðanna hljóðan getur ábreiða til dæmis verið rúmteppi. Af vankunnáttu og þekkingarleysi á íslensku máli hafa einhverjir spekingar tekið enska orðið cover og þýtt það sem ábreiða.
Ensk orðabók segir: Cover, a recording or performance of a song previously recorded by a different artist: the band played covers of Beatles songs. Sá sem hér ritar skortir hér þekkingu en veit það þó að nafnorðið ábreiða gengur illa í þessari merkingu.
Tillaga: [Lesendur geta reynt sig við að koma með betra íslenskt orð.]
8.
Drápu ólétta konu til að komast yfir barn hennar.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Þessi fyrirsögn er óviðeigandi vegna þess að þarna var um að ræða morð, glæp. Flestir ættu að geta séð það. Þegar um glæp er að ræða er venjulega talað um morð á fólki, sjaldnar dráp. Fréttin hefur af einhverjum ástæðum verið tekin út af visir.is. Svo er það orðalagið að komast yfir Í þessu tilviki er það ekki gott enda um barn að ræða ekki hluti.
Tillaga: Myrtu ólétta konu til að ræna barni hennar.
9.
Fleiri en 500 lögreglumenn særðust í óeirðunum og tæplega 200 voru handteknir.
Úr Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 3. september 2017.
Athugasemd: Þessir tæplega 200 sem voru handteknir voru ekki lögreglumenn eins og halda mætti af orðalaginu. Miklu skiptir hvernig hlutirnir eru orðaðir svo hugsunin komist til skila. Svo fremi sem höfundurinn taki eftir þessu hefði hann auðveldlega getað orðað þetta á annan hátt. Annars sem hefði lesið yfir fyrir birtingu hefði ábyggilega tekið eftir þessu. Hins vegar eru Reykjavíkurbréf yfirleitt skrifuð á mjög góðu og þróttmiklu máli.
Tillaga: Tæplega tvö hundruð manns voru handteknir og fleiri en 500 lögreglumenn særðust.
10.
Rétt fyrir miðnætti barst lögreglunni tilkynning um aðila sem var að ganga berserksgang í Skeifunni, bæði á veitingastað og í verslunum.
Úr frétt á vísir.is og endurtekið í hádegisfréttum á Bylgjunni 3. september 2017.
Athugasemd: Ja, hérna. Maður gekk berserksgang. Hvað næst? Fréttir um að göngumaður gangi fjallgöngu? Ökumaður aki ökutæki? Líklega betra að taka það fram að ekki er rangt að segja að einhver gangi berserksgang. Hins vegar er tvítekning í orðalagi fremur hallærisleg. Einnig er fremur viðvaningslegt að berserkurinn sé kallaður aðili.
Tillaga: Rétt fyrir miðnætti barst lögreglunni tilkynning um mann sem gekk berserksgang á veitingastað og í verslunum í Skeifunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)