Bloggfærslur mánaðarins, júní 2017
Þegar kaupa skal tjald ...
30.6.2017 | 11:04
Stundum finnst mér leiðbeiningar um kaup á útvistarbúnaði hálfbjánalegar. Svona yfirlýsing, sem vissulega er ansi hrokafull, byggist þó á þeirri staðreynd að ég fer aldrei í útilegu til að líkja eftir þeirri aðstöðunni heima.
Tek til dæmis aldrei með mér glymskratta, sjónvarp eða álíka sem sumir geta ekki verið án. Ástæðan er einföld, þetta er allt svo andsk... þungt þegar maður hefur bara einn bakpoka og enga burðarmenn.
Auðvitað skiptir máli hvernig ferðir fólk fer í, hvort tjaldað sé á einum stað allan tímann, hvort börn séu með í för og svo framvegis.
Jæja, nóg um það. Hins vegar rakst ég á ansi skemmtilega teikningu á bandarískri vefsíðu sem kynnir útvistarvörur og nefnist GearJunky eða Græjufíkill. Þar fáum við fíklarnir ansi margar hugmyndir og margt fæst hér á landi.
Að vísu er þetta allt á ensku en lesandinn tekur vonandi viljann fyrir verkið.
Þetta er ansi skemmtilega uppsett fyrir þá sem ætla að kaupa sér tjald.
Held að flestir sem ég þekki myndu velja sér það sem á myndinni er kallað 3-season eða 4-season. Hið seinna er fyrir allar árstíðir en hitt fyrir þrjár ... sem varla á við hér á landi.
Skyldu svona tjöld fást í Costco?
Gott er að tvísmella á teikninga, þá birtist hún stærri og skýrari.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nei, ekki lögvernda starf leiðsögumanna
29.6.2017 | 10:25
Þá segir hún vert að hafa í huga að lögverndun starfsheitis leiðsögumanna myndi leiða til að ófaglærðir einstaklingar, sumir með áratugalanga reynslu í leiðsögn, þyrftu leyfi frá stjórnvöldum til að geta titlað sig leiðsögumenn.
Þetta er haft eftir ferðamálaráðherra á mbl.is í dag. Ég er sammála henni.
Í þrjátíu ár hið minnsta hef ég stundað ferðalög og reglulega farið með hópa fólks um landið. Gerði þetta lengi með ferðafélaginu Útivist, og þar að auki á eigin vegum, ýmist í launuðu starfi eða ólaunuðu, hér á landi og erlendis.
Hef ágæta þekkingu á landinu, gengið yfir hálendið, skíðað yfir jökla, klifið fjöll, verið á ferðinni sumar og vetur. Hef mikla reynslu í jeppaferðum, vélsleðaferðum og svo má lengi telja. Þar að auki hef ég skrifað mikið um útiveru og ferðalög í marga fjölmiðla og vefsíður.
Mikið dj... myndi ég fornemast ef ríkisvaldið héldi því fram að ég mætti ekki vera leiðsögumaður nema hafa til þess annað nám en ég hef fengið á lærdómsríkum ferðum mínum um landið.
Ég þekki vissulega menntaða leiðsögumenn sem eru í hágæðaflokki, hörku ferðamenn og sumir félagar mínir í ferðum um landið. Sumir þeirra eru jafnvel langtum hæfari en ég en það ekki ekki vegna námsins heldur reynslunnar. Ég þekki líka leiðsögumenn sem ættu ekki að vera í starfanum.
Staðreyndin er einfaldlega sú að reynslan er mikilvægasta námið og er ég þó ekki að gera lítið úr leiðsögumönnum með útskriftarskírteini.
Nú kunna einhverjir að spyrja hvort að það sé ekki ráð fyrir mig að fara og afla mér þessara menntunar, fara í leiðsögumannanámið ... og málið dautt.
Má vera að lesandanum finnist ég hrokafullur en til hvers ætti ég að taka próf? Ég hef það sem þarf til að geta farið með fólk í ferðir, fjölbreyttar ferðir.
Myndir:
Sú efri er tekin í Landmannalaugum í helgarferð bekkjar í Melaskóla.
Neðri myndin er tekin á Eyjafjallajökli 1986.
Lögverndun leiðsögumanna ekki tímabær | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Slæmt ef þingmenn í tilfinningalegu uppnámi setja reglur
29.6.2017 | 09:43
Freista mætti þess að lýsa valkostunum þannig að við stöndum frammi fyrir tveimur vondum kostum: Annars vegar tæknilegt mat og hins vegar huglægt mat.
Fyrri kosturinn hefur á sér yfirbragð faglegrar úttektar og jafnvel hlutlægni, en gallinn er sá að þessi aðferð dugar skammt til að meta atriði sem eru ekki síður mikilvæg svo sem t.d. það sem hestamenn myndu kalla geðslag og vilja.
Góðir verkmenn geta m.ö.o. vænst þess að raðast mun neðar á slíkum kvarða en þeir sem hafa skarað fram úr í kennilegri lögfræði. Síðari valkosturinn, þ.e. hinn huglægi, hefur þann ókost að bjóða heim hættu á pólitískum geðþótta og spillingu.
Hvar millivegurinn liggur er erfitt að meta. Ég treysti mér þó til að fullyrða að lausnin er ekki í því fólgin að þingmenn í tilfinningalegu uppnámi setji skýrari reglur eins og það var orðað í þinginu um daginn, né heldur að slíkar reglur yrðu samdar með það fyrir augum að þvinga ráðherra til að fylgja eðlilegri málsmeðferð.
Hér er vel skrifað og yfirvegað. Höfundurinn er Arnar Þór Jónsson, hrl og lektor við Háskólann í Reykjavík (greinaskil eru mín). Tek það fram að ég þekki manninn ekkert. Hins vegar hef ég tekið eftir að hann skrifar stundum greinar í fjölmiðla og er afar málefnalegur og málflutningurinn hófsamur en rökfastur. Slíkt kann ég vel að meta.
Arnar Þór er að ræða um skipun dómara í Landsrétt. Hann varar við upphlaupi og vanstillingu og kemst vel að orði að ekki sé gott að þingmenn í tilfinningalegu uppnámi setji skýrar reglur. Hér vísar hann án efa til hins geðþekka þingmanns Jóns Þórs Ólafssonar, Pírata, sem fékk ákúrur frá forseta fyrir munnsöfnuð og hávaða í ræðustól Alþingis.
Sá fræðilegi og verkmaðurinn
Mér finnst áhugavert að Arnar Þór gerir greinarmun á kennilegri lögfræði og verklegri. Hér er ábyggilega átt við það sem oft er nefnt fræðileg nálgun og svo hins vegar praktísk, hugsanlega hagnýt nálgun. Orðalagið rímar ágætlega við það sem fjallað er um í öðrum fræðigreinum.
Í fréttum síðustu daga hefur verið fjallað um útlending sem synjað var um íslenskan vegna þess að hann hefur verið sektaður fyrir of hraðan aksturríkisborgararétt. Þó hafði hann verið búsettur hér í ellefu ár, giftur hérlendri og á með hennibörn. Líklega myndum við segja að hann verði fyrir barðinu á fræðilegri lögfræði. Verkmaðurinn myndi hins vegar greina málið og þá kæmi í ljós að sektirnar fyrir of hraðan akstur eru ekki allar hans, þó hann eigi bílinn. En hvað koma hraðasektir málinu við ... er það ekki fræðileg nálgun?
Lög sem þvingunartæki?
Arnar Þór segir ennfremur (feitletrun og greinaskil eru mín því höfundurinn er óþarflega spar á þau):
Sem lögfræðingur vil ég vara við því að rætt sé um lög með þessum hætti. Lög geta ekki mælt fyrir um alla hluti. Lög eiga ekki heldur að freista þess. Slík viðleitni er til þess fallin að njörva veruleika okkar niður með of stífum viðmiðum og vega þannig ekki aðeins að frelsi okkar heldur einnig að persónulegri ábyrgð, sem er hin hliðin á frelsinu.
Ef við freistum þess að takmarka frelsið er einnig vegið að ábyrgðinni. Hvort tveggja er þó undirstaða daglegra ákvarðana, stjórnmála, löggjafar og dómstarfa.
Í þessu ljósi ættu þingmenn að fara varlega í að daðra við alræðishyggju þar sem löggjafinn ætlar sér um of og freistar þess að setja reglur um allt, bæði stórt og smátt.
Við skulum hafa hugfast að slík nálgun horfir fram hjá grundvallarstaðreynd um okkur mennina, þ.e. hversu alvarlega við getum misreiknað okkur og klúðrað málum. Lögin eru mannanna verk og þ.a.l. líkleg til að vera jafnmisheppnuð og höfundar þeirra. Með hliðsjón af öllu framangreindu tel ég mjög varhugavert að umgangast lögin með því hugarfari að þau séu þvingunartæki.
Þetta er vel orðað og skynsamlega að mínu mati. Ástæðan er einfaldlega sú að það er ekki hægt að setja lög eða reglur yfir alla mannlega hegðan. Freistingin yrði kannski sú að láta tölvu dæma í málum því hún hefur ekki mannlegar tilfinningar og færi algjörlega eftir bókstafnum.
Traust
Í niðurlagi greinarinnar segir Arnar Þór og er ástæða til að lesa vandlega það sem hann segir enda fjallar hann hér um samfélagið í hnotskurn:
Frammi fyrir þessu er ekki að undra þótt meginviðfangsefni laga nú á tímum sé frelsið.
Hlutverk laganna er að setja frelsinu skorður þannig að menn misnoti það ekki öðrum til skaða. Rétturinn þarf að leita jafnvægis milli einstaklinga innbyrðis, milli launþega og vinnuveitenda, milli borgara og ríkisvalds.
Búa þarf svo um hnúta að menn virði hver annan og njóti virðingar, að lögin sem verja réttindi manna séu skýr og skiljanleg og að menn eigi aðgang að dómstólum.
Í stuttu máli er viðfangsefnið að skapa skilyrði til þess að fólk geti búið í frjálsu samfélagi. Í því felst ekki síst að menn svari sjálfir til ábyrgðar fyrir gerðir sínar.
Til að þetta megi takast verður löggjafinn að treysta almenningi og valdhöfum til að velja og hafna og forgangsraða.
Lögin eru þannig í reynd forsenda frelsis, því þau veita okkur vernd og fyrirsjáanleika, sem í daglegu tali eru oft nefnt réttaröryggi.
Hann sagði ekki einu sinni bless ...
25.6.2017 | 23:41
Vinur minn einn er nær óþolandi, létt spjall er ekki til í huga hans. Allt hefur einhvern tilgang, merkingu og jafnvel fleiri en eina. Svona menn eru frekar þreytandi á tímum þar sem sjónvarpið tæmir huga manns, Netflix, iTunes og aðrar menningarveitur og maður þarf ekkert að hugsa um tvíræðni eða eitthvað þaðan af dýpra. Eftir því sem maður er meira mataður, hverfur sjálfstæði hugsun og afleiðing er innantómt bergmál þess sem mann rekur minni til að hafa heyrt aðra segja eða vörpulegur leikari hefur látið sér um munn fara.
Jæja ... Þessi æskuvinur minn eða öllu heldur kunningi, bauð mér í heimsókn dag einn er norðaustanáttin gerði því fésbókarfólki grikk sem hélt að nú ætti að vera eilíft mæjorkasumar.
Við spjölluðum um daginn og veginn og þar sem við höfðum ekki sést lengi þurfti ég endilega að leita í reynslusögubankann og þá var tilvalið að segja af svaðilförum og hrakningum. Ég hef til dæmis ótal sinnum vaðið yfir læki, ár og jafnvel fljót og alltaf lifað þær hörmungar af.
Þá varð mér á að segja frá gamla smíðahamrinum hans pabba sem hann erfði frá föður sínum og sá frá sínum. Og gamli sumarbústaðurinn frænku minnar stendur enn og er þó orðinn eitthundrað ára gamall og ég nefndi hann svona í framhjáhlaupi er ég minntist á fjallaskála.
Af minni hálfur var nú fáu logið en vinur minn, svo leiðinlega nákvæmur sem hann er, dró í efa að ég hafi oft vaðið sömu læki, stundum í leysingum, og straumharðar ár. Aha ... hrópaði ég æstur og nefndi hraðmæltur til sögunnar Krossá, Reykjarfjarðarósinn og hugsanlega einhvurjar fleiri sprænur.
Nei, sagði vinurinn. Sko, þú veður hverja á bara einu sinni vegna þess að vatnið rennur í burtu og kemur aldrei til baka ... áfram streymir áin endalaust!
Svo benti hann mér á að gamli hamarinn hans langafa sé með þrjátíu ára gömlu skafti og tíu ára gömlum haus og ábyggilega ekki í fyrsta sinn sem þessir hlutir hans voru endurnýjaðir. Þetta sé nú ekki sá ættargripur sem ég hef gumað af. Síður en svo.
Sumarbústaður frænku minnar er nú ekki allur sem hann sýnist, þó fornfálegur sé. Hann benti á að hver einasta spýta í honum hefur verið endurnýjuð þó vera megi að í honum sé eitt og annað sem teljist 100 ára en búið að sandblása og hefur fengið nýtt hlutverk. Gólfið er vissulega meira en eitthundrað ára en það er sannarlega komið úr húsi við reykvísku Hverfisgötuna sem var talið ónýtt og rifið fyrir mörgum árum þó svo að endurnýta mætti nokkur gólfborð.
Við þessu gat ég ekkert sagt, fannst raunar dálítið niðurlægin felast í afhjúpuninni, óþarfa aðfinnslur sem drepa hefðbundnar samræður. Við þögðum. Ég mundi eftir því að svona var hann líka í gamla daga. Í barnaskóla gat hann aldrei unnt nokkrum öðrum neinnar frásögu. Hann toppaði allt eða dró í efa.
Þá lét ég einfaldlega krók koma á móti bragði, ef þannig má að orði komast. Uppi á vegg í hékk innrömmuð mynd, plakat. We never walk alone, stóð þar með stríðsletri og kennitákn fræga enska fótboltafélagins Liverpool.
Ég hallaði mér aftur í stólnum og lét fara vel um mig áður en að ég skaut á hann því sem ég hafði upphugsað í skyndingu.
Já, má vera að þetta sé allt rétt hjá þér, kæri minn. Þannig er þetta líka með fótboltafélagið þitt. Á hverjum tíma er það ekkert annað en þeir leikmenn sem sparka í tuðruna í samkeppni við önnur. Þó klúbburinn sé 125 ára er hefur hann reglulega verið endurnýjaður eins og fjalirnar í húsinu hennar frænku minnar. Raunar er hann eins og Krossá, alltaf rennur nýtt vatn um vaðið - og kemur aldrei til baka. Á hverju ári bætast nýir leikmenn í liðið og aðrir hverfa á braut. They never stay for long ... Ég reyndi að endurbæta slagorð Liverpool.
Liverpool er ekkert annað en lógóið, sagði ég og sveiflaði hendinni með leikrænum tilburðum og benti á plakatið.
Þú ert nú meiri asninn, sagði þessi vinur ... kunningi minn. Hann þurfti ekki að hugsa sig um. Þú getur ekki snúið kenningum Forn-Grikkjans Herkakleitosar upp á menn. Þetta á við dauða hluti, drengur minn. Ætlarðu kannski að halda því fram að lýðveldið Ísland sé ekki það sama og það var við stofnun, árið 1944?
Ég reyndi að leiða þetta hjá mér og benti á að félög væru ekkert efnislega óáþreifanleg væru þau þó til vegna þess að þau væru formuð á sama hátt og hlutir.
Ég endurtek, þú ert asni, sagði kunninginn. Þú ert ekki heimspekingur en það er ég. Sé það rétt sem þú segir værirðu ekki sá hinn sami og þú varst þegar þú fæddist vegna þess að árlega endurnýjast líkaminn að hluta til og smám saman breytist hann. Þú ert ennþá sami asninn og þú varst þegar við vorum í barnaskóla.
Skyndilega rann upp fyrir mér hvernig hann var í gamla daga. Hann hafði einstakt lag á að gera lítið úr öðrum, ekki bara mér. Hann var þessi leiðinda náungi sem skipti sér af öllu. Ef einhverjir hlógu og skemmtu sér hrinti hann einhverjum. Þegar hann beið lægri hlut í fótbolta átti hann það til að stela fótboltanum og skera gat á hann. Á dansiböllum kippti hann stólunum undan stelpunum og reif í hárið á þeim. Hann var hávær og frekur. Á örskotsstundu mundi ég þetta allt, leiðindin, sárindin út af fótboltanum, stríðninni og ... það sem mestu máli skipti þeim tíma sem hafði farið til spillis en hefði getað orðið eftirminnilegur.
Jæja, sagði ég, stóð upp og kýldi hann á kjaftinn svo hann steinlá á stofugólfinu.
Þú hefur rétt fyrir þér, sagði ég, og nuddaði sáran hnefa hægri handar. Við breytumst ekki, þó hef ég ekki slegið nokkurn mann fyrr en núna.
Svo kvaddi ég en hann svaraði aungvu, sagði ekki einu sinni bless.
Þessi saga getur verið sönn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.6.2017 kl. 07:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þögn Píratar um launahækkanir kjararáðs er hávær
25.6.2017 | 14:50
Píratar reiddust í fyrrahaust yfir því að kjararáð úrskurðaði að hækka skyldi laun alþingismanna, forseta Íslands og fleiri aðila. Nú hefur kjararáð tjáð sig um enn frekari hækkanir launa ýmissa embættismanna.
Ekkert hefur hins vegar heyrst í Pírötum sem njóta auðvitað launa sinn þó Alþingi sé ekki að störfum.
Þeir sem fengið hafa launahækkun á þessu ári og í þokkabót aftur í tímann eru:
- Skógræktarstjóri
- Forstjóri Hafrannsóknar
- Bankastjóri Íslandsbanka
- Varformaður kærunefndar útlendingamála (!)
- Forstjóri tónlistarhússins Hörpu
- Ríkislögmaður
- Skrifstofustjóri Alþingis
- Forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins
- Forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnalausra og heyrnarskertra
- Forstjóri Borgunar hf.
- Ríkissáttasemjari
- Forstöðumaður og varaformaður úrskurðarnefnda umhverfis- og auðlindamála (!)
- Forstjóri Umhverfisstofnunar
- Orkumálastjóri
- Forstjóri Landsnets hf.
- Forstjóri Fjármálaeftirlitsins
- Framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar ehf.
- Ferðamálastjóri
- Ríkisendurskoðandi
- Hagstofustjóri
- Sendiherrar
- Forsetaritari
- Varaforseti Hæstaréttar
Píratar segja ekkert. Hugsjón þeirra byrjar og endar á eigin hag.
Myndin hér til hliðar er af hinum geðþekka þingmanni Pírata Jóni Þór Ólafssyni er hann talar tungum í ræðustól Alþingis þann 1. júní 2017, sjá hér.
Þann 9. júní 2017 fékk sá sem hér stýrir eftirfarandi grein birta í Morgunblaðinu. Ekki er leiðinlegt að berja á hugsjónalausum Pírötum. Auðvitað þegja Píratar þrátt fyrir gagnrýni, en þeim líður illa út af þessu.
Jón Þór Ólafsson, alþingismaður Pírata, reiddist illa þegar kjararáð hækkaði rausnarlega laun þingmanna. Honum fannst þessi hækkun á laununum sínum svo ... svívirðileg að hann hótaði að kæra hana eftir því sem hann sagði í eftirminnilegri grein í Fréttablaðinu þann 8. nóvember 2016.
- Hann hótaði að kæra kjararáð fyrir forsetanum (sem í sjálfu sér er óskiljanlegt)
- Hann hótaði að kæra kjararáð (líklega fyrir dómstólum)
- Hann hótaði að kæra formenn þingflokka nema því aðeins að þeir láti ráðið hætta við hækkunina.
Um þrem vikum síðar fékk Jón Þór Ólafsson 338.254 króna hærri laun.
Hin háværa þögn Jóns Þórs Ólafssonar
Síðan hefur ekkert heyrst í manninum. Menn hafa þagnað fyrir minna fé. Frá og með 1. desember 2016, er launahækkunin var greidd út í fyrsta sinn, gleymdi Jón Þór hann öllum mótmælum. Hann kærði engan, hann kærði ekkert, og líklega rak hann lögfræðinginn þennan sama dag.
Þetta sama haust lýsti forseti Íslands yfir óánægju með launahækkun kjararáðs og kvaðst ekki hafa beðið um hana og myndi ekki þiggja. Síðan hefur hann mánaðarlega gefið um þrjú hundruð þúsund krónur til góðgerðastofnanna. Þegjandi og hljóðalaust. Já, ólíkt hafast menn að.
Hvað varð um launahækkun Jóns Þórs Ólafssonar
Sumir þingmenn þrífast á eigin hávaða, hreinlega elska röddina í sér, og ekki síst andlitið, sérstaklega í fjölmiðlum. Það er svo gaman að standa upp og rífa sig út af réttlætis- og lýðræðismálum. Þeir eru samt svo háværir og óðamála að rökhugsunin týnist í öllum þessum látum ... hafi hún nokkurn tíma verið til staðar.
Þegar launahækkunin upp á 338.254 krónur bætist í budduna segja menn eins og Jón Þór Ólafsson, Pírati í hálfum hljóðum: Vá ... Svo þegja þeir og vona að enginn muni eftir frumhlaupinu.
Hvað gerði Jón við launahækkunina sína? Um það hefur hann ekkert sagt. Hér eru fjórar spurningar:
1. Afþakkaði hann hana?
2. Lagði hann hækkunina inn á bankabók til að geta skilað síðar, með eða án vaxta?
3. Fór hann að dæmi forsetans og gaf hækkunina til góðgerðarmála?
4. Hirti hann hækkunina þegjandi og óhljóðalaust?
2,4 milljón króna gróði Píratans
Nú eru liðnir sjö mánuðir síðan Jón Þór Ólafsson, Pírati, fékk launahækkun frá kjararáði og á þeim tíma hefur hann grætt rúmlega 2,4 milljón króna ofan á föstu launin.
Þó hann sé hættur að tala um kjararáð er hann enn hávær, hefur höndlað sannleikann, réttlætið og lýðræðið í allt öðrum málum.
Þrjúhundruð og þrjátíu þúsund kallinn hjálpaði vissulega til, styrkti eflaust sjálfstraustið.
Svona eru nú margir þingmenn, ekkert nema óhljóðin og sjálfselskan og gjörsamlega hugsjónlausir. Launahækkun þingmanna var aldrei dregin til baka eða felld niður.
Þrátt fyrir hávær mótmæli lifa þeir í vellystingum á þessum ágætu launum og myndu aldrei skila þeim eins og forsetinn ...
Um leið þverr virðing Alþingis. Málið er löngu gleymt og þingmenn eru innst inni guðs lifandi fegnir að hafa fengið þessa feitu launahækkun kjararáðs.
Munum launahækkunina næst þegar píratinn Jón Þór Ólafsson fer hamförum á þingi, að hann meinar ekkert með því. Ekki frekar en þegar hann mótmælti launahækkun kjararáðs til handa þingmönnum.
Þetta er bara leiksýning, spuni.
Bull er bull er bull og ekkert annað
20.6.2017 | 18:31
Bullari er hávær kjaftaskúmur, ekki fávís heldur fyrst og fremst varasamur. Sá sem veldur öðrum böli getur verið bullari, en sá bullgjarni þvælir sig undan ábyrgðinni með því að rugla hugsanir fólks.
Bullvirkinn þarf ekki ástæður til að gera hlutina, honum er sama hvort þær leiða til góðs eða ills. Bullari nútímans sér tækifæri til virðingar.
Þetta segir Gunnar Hersveinn í grein í Stundinni 1. mars síðast liðinn. Bullarinn er alltaf bullari, jafnvel þótt hann þykist vera að grínast. Vandinn er sá að enginn getur treyst bullaranum. Þegar honum er mótmælt þykist hann vera að grínast, rétt eins og Andri Þór Sturluson, varaþingmaður Pírata sem lagði til að gera árás á Neyðarlínuna, teppa hana til að mótmæla vopnaburði sérsveitar lögreglunnar.
Gunnar Hersveinn á kollgátuna um bullarann.
Bull er ekki gagnrýnin hugsun, ekki markviss mælskulist og ekki aðferð lygarans. Enginn veit hvort bullarinn lýgur, segir satt eða blekkir óvart eða viljandi. Bull getur verið aðferð til að ná völdum í samfélagi sem ber ekki umhyggju fyrir sannleikanum.
Verkefnið um þessar mundir felst í því að vera gagnrýninn borgari sem efast og vill koma í veg fyrir mistök og tryggja að næsta kynslóð fái einnig að njóta gæða lífsins. Bull er bull er bull, það er engin leið til að komast að annarri niðurstöðu.
Mikið óskaplega er leiðinlegt að hlusta á bullið í varaþingmanni Pírata. Hann er ekki einu sinni fyndinn þrátt fyrir að segjast vera að. Svona fólk er stórhættulegt.
Hugmyndin greinilega ekki nógu klikkuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Hallæri Pírata með mannval
20.6.2017 | 15:21
Það sem við getum gert sem erum á móti sýnilegum vopnaburði lögreglunnar, er að hringja á lögregluna og tilkynna grunsamlega vopnaða menn alltaf þegar við sjáum byssur, sama hver ber þær.
Ef nógu margir hringja stöðugt í neyðarlínuna vegna ógnandi manna með skotvopn þá geta þeir þetta ekki.
Það er ekki verjandi fyrir ríkislögreglustjóra að halda þessu til streitu með fleiri hundruð tilkynningar um hættulega einstaklinga í hvert skipti sem löggan festir á sig vopnin.
Þetta segir Andri Þór Sturluson, varaþingmaður Pírata í Suðvesturkjördæmi, á Facebook-síðu sinni. Með smávægilegum breytingum á orðalagi hefði hann komist í flokk með hryðjuverkamönnum af tagi múslima, Baader-Meinhof ... liðs sem telur lögregluna til óvina, hún gangi erinda valdsins svo gripið sé til kunnuglegs frasa vinstri róttæklinga.
Píratar hafa þurft að glíma við margvísleg hallæri í stuttri tilvist sinni. Lengst af hafa þeir þjáðst af skorti á atkvæðum. Þegar skoðanakannanir virtust gefa þeim nær ótakmarkaðan fjölda þingmanna blasti við þeim sá vandi að finna fólk.
Þann vanda tókst þeim greinilega ekki að leysa heldur virðast þeir hafa notast við uppsóp af vinstri róttæklingum, anarkistum og wannabe-um (þeir sem langar í upphefðina, upphefðarinnar vegna). Og nú eru tíu manns komnir á þing undir sjóræningjafánanum og stunda þar furðulegar æfingar í ræðustóli Alþingis, hávaða og læti. Hins vegar láta þér sér vel líka launahækkunina sem þeir mótmæltu af miklu offorsi síðasta haust en hafa nú gleymt í velsæld sinni. Margir sem kusu Pírata og svo sem fleiri velta nú fyrir sér hvaða kostum þingmennirnir séu búnir ... og ekki síður varaþingmennirnir.
Hugmyndin um að teppa neyðarlínuna mun ábyggilega vekja athygli á málstaðnum, sérstaklega ef afleiðingarnar verða hræðilegar fyrir þá sem þurfa á bráðaaðstoð að halda.
Til viðbótar má hugsa sér að Príatar hvetji næst til þess að skorið verði á dekk sjúkra- og lögreglubíla. Grjóti verði kastað í lögreglumenn við störf sín. Svo má alltaf taka upp gamlar og notadrjúgar aðferðir eins og að grýta þinghúsið eða stjórnarráðið og valda öðrum skemmdum á sameiginlegum eignum landsmanna. Á þingi geta Píratar mótmælt með því að leggjast á móti hækkunum fjárveitinga til heilbrigðismála.
Andri Þór Sturluson, varaþingmaður Pírata, mun ekki verða flokki sínum til fylgisaukningar, þvert á móti. Seint mun hann flokkast sem happafengur.
Nú hefst fyrir alvöru stóra hallæri Pírata, hallæri vegna fylgistaps.
Varaþingmaður vill teppa neyðarlínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Augnabliki síðar lá ég óvígur í gólfinu ...
18.6.2017 | 13:17
Árin 1976 og 1977 fékk ég sumarvinnu í lögreglunni í Reykjavík. Þetta þótti mikil upphefð í þá daga, vel launað starf og mikil yfirvinna.
Í liðinu var margt gott fólk, sumhvert þekkir maður enn þann dag í dag Til dæmis hann Sævar Gunnarsson, fyrrum varðstjóra, sem nú er að vísu hættur störfum. Drengur góður, fróður og skemmtilegur. Hitti hann aftur í vetur sem leið. Hann hefur ekkert breyst.
Ætli við höfum ekki verið um fimmtán strákar sem fengum ráðningu fyrra sumarið mitt. Ég fékk númerið 208, var líklega sá tvöhundraðasti og áttundi í lögreglunni. Minnir að hæst númerið hafið verið 215. Reyndar löggur gerðu grín að okkur og sögðu okkur bera símanúmer!
Gamlir félagar
Sumir þeirra sem voru þarna í fyrsta sinn ílengdust í löggunni. Nefna má Jón H.B. Snorrason, sem er nú aðstoðarlögreglustjóri í Reykjavík, og Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjón. Einn náunga þekkti ég en hann var á sínu öðru ári sem sumarlögga. Mundi eftir honum úr MR, er þó, minnir mig, tveimur árum eldri en ég. Hann var oftast á miðborgarstöð lögreglunnar og stóð sig vel, kaldhæðinn og hress. Núna er gæinn ríkislögreglustjóri og heitir ennþá Haraldur Johannessen.
Á þessum tíma var Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri, Bjarki Elíasson, yfirlögregluþjónn, Magnús Einarsson yfirlögregluþjónn, var á þessum tíma, minnir mig, varðstjóri. Ásmundur Matthíasson var varðstjóri í umferðadeild, einnig Sigurður Sigurgeirsson. Fleiri mætti telja.
Allir voru þeir einstaklega eftirminnilegir, höfðu sín sérkenni en sinntu sínu starfi af mikilli þekkingu og alúð.
Þannig háttaði til í umferðadeild að salerni var skammt frá herbergi varðstjóra. Einn ónefndur varðstjóri þurfti að bregða sér þangað en heyrði þá að gestur kom í varðstjóraherbergið og vildi hitta hann.
Sagði þá varðstjórinn: Var einhver að kalla á mig, og snéri sér við og meig í hálfhring út á gólfið áður en hann áttaði sig. Þessi saga var fræg þarna innandyra.
Fyllikall
Á fyrstu vaktinni minni í umferðadeild var tilkynnt um ölvaðan mann sem lent hafði árekstri á Sundlaugavegi. Ég var skráður í bíl með hörkunagla sem ég man ekki í augnablikinu hvað heitir. Við hlupum út í Volvo-löggubíl, rauðu ljósin blikkuðu á þakinu. Félagi minn sagði mér að toga í sírenuhnappinn. Hann var þeirrar gerðar að um leið og togað var í hann vældi lúðurinn á þakinu en hélt áfram að væla með sama tóni nema maður ýtti takkanum inn. Verkefni mitt á þessari stuttu leið var að toga í hnappinn og ýta honum inn til skiptis og um leið reyndi ég að halda mér svo ég ylti ekki um í bílnum. Ökumaðurinn steig pinnann í botn, jafnvel í beygjum.
Við komum að horni Sundlaugavegs og Reykjavegs í sama mund og lögreglumaður á mótorhjóli. Það var hann Sigurður Benjamínsson, annar hörkunagli sem vílaði ekkert fyrir sér.
Þarna á götuhorninu var einhver fyllikall sem nýstiginn var úr bíl sínum og var með dólgslæti og reyndi að segja löggunni hvað hún ætti að gera.
Hvorki fyrr né síðar hef ég séð tvo lögreglumenn handtaka mann á jafn fumlausan og skjótan hátt eins og þarna gerðist. Manninum var einfaldlega skellt á húddið á bílnum, í loftinu var hann kominn með hendur aftur fyrir bak og er hann lenti var handjárnum skellt á. Andartaki síðar var hann kominn í aftursætið í Volvóinum. Atburðurinn var handtakan var svo hröð og einföld að fyllikallinn vissi ekkert af sér fyrir en hann var kominn í fangaklefa.
Ég varð oft síðar vitni að svona handtökum og átti þátt í þeim sjálfur en þessi atburður greyptist í minni mitt umfram flestar aðra.
Námskeið
Áður en okkur nýliðum fyrra ársins var sleppt á götuna þurftum við að fara á hálfsmánaðar námskeið. Þar var okkur kennt og sýnt hvernig við ættum að hafa okkur. Grunnurinn var sá að við værum þjónar laga og reglu en engu að síður lögreglumenn. Við voru stöðugt minntir á að við værum ekki upp yfir aðra hafnir, værum ekkert merkilegri en aðrir borgarar þrátt fyrir einkennisbúninginn, kylfuna, handjárnin ... og flautuna. Önnur vopn voru ekki notuð.
Sá sem stjórnaði skotæfingum og raunar æfði hann alla nýliða hét Guðbrandur Þorkelsson, varðstjóri. Hann var einstakur maður. Stjórnaði með heraga og tók ekki vel í neinar málamiðlanir en engu að síður afar skemmtilegur.
Man eftir því einu sinni að hann ræddi frammi á gangi í umferðadeild um hættuna sem stafaði af síðu hári lögreglukvenna og ekki síður hárprúðum lögreglumönnum. Þá höfðu tvær lögreglukonur orðið fyrir líkamsárás, önnur þeirra snúin niður á hárinu.
Við vorum þarna nokkrir og viðhöfðum karlrembulegar athugasemdir um lögreglukonurnar. Guðbrandur tók það óstinnt upp og sagði að við ættum ekki að tala svona heldur andskotast til að láta klippa okkur. Ég var kotroskinn og sagði að enginn myndi nú geta snúið mig niður. Augnabliki síðar lá ég bjarglausí gólfinu og með annað hné Guðbrands á bringunni.
Jæja, Sigurður minn. Hann glotti en sagði ekkert annað. Kennslustundinni var lokið.
Guðbrandur hafði einfaldlega þrifið aftan í hárlubbann á mér og snúið mig eldsnöggt niður.
Félagar mínir sem þarna stóðu hlógu auðvitað af óförum mínum, en þarna hafði dálítið merkilegri atburður gerst en að mér hefði verið skellt. Þetta var lexía.
Fullyrði þó að í dag geti enginn snúið mig niður á sama hátt ...
Byssur
Við fengum að skjóta úr skammbyssum ... Já, á þessum tíma voru skammbyssur notaðar í lögreglunni. Í sumum bílum, sérstaklega þeim sem fóru út á land voru byssur, bæði skammbyssur og haglabyssur. Þetta þótti ekkert tiltökumál. Þær voru víst notaðar til að aflífa dýr, lömb sem höfðu lent fyrir bílum, rottur, minnka og annað. Aldrei nokkurn tímann var byssu miðað að fólki.
Á miðju sumri var skotkeppni haldin meðal lögreglumanna. Hún fór fram yst á Seltjarnarnesi, skammt frá Golfklúbbnum Nes, en þar voru nokkur gömul hús og inni í einu þeirra hafði verið útbúið skotæfingasvæði. Við fengum byssu í hönd, revolver, hlóðum og skutum.
Ég man að ég lenti í öðru sæti á minni vakt og þótti það nokkuð gott hjá nýliða. Ég lét á engu bera en gat þess þó að aðrir en góðar skyttur ættu ekki að taka sér byssu í hönd. Þessi athugasemd þótti mörgum sem heyrðu frekar hrokafull en ekki jafn fyndin og mér.
Bankaræninginn
Mér þótti það mikil lífsreynsla að vera lögreglumaður. Eitt sinn gripum við þýskan bankaræningja, Lugmeier að nafni. Þá voru meðfylgjandi myndir teknar af okkur og birtar í þýsku tímariti. Höfundur er lengst til vinstri á efri myndinni en aftast til hægri á hinni.
Síðan ég gekk um ganga á lögreglustöðinni hefur allt gjörbreyst. Tæknin er allt önnur, mannskapurinn miklu betur þjálfaður og ég er þess fullviss að enn gildir það sem mér og öðrum nýliðum var kennt í upphafi að lögreglan er ekki yfir neinn hafin, lögreglumaður er þjónn laga og reglna.
Á þessum árum fengum við það verkefni að ganga niður Laugaveginn, Skólavörðustíg, Hverfisgötu og götur í miðbænum. Það var erfitt fyrst en svo vandist það. Einu sinni handtók ég mann sem gekk yfir Snorrabraut á rauðu ljósi. Þrátt fyrir að hann sæi lögreglumanninn vildi hann storka honum, ég var ímynd valdsins. Og ég beitti því.
Ég flutti manninn inn á lögreglustöð og fyrir varðstjóra. Sá rak upp stór augu, sagði mér síðar að hann minntist þess ekki að lögreglan hafi handtekið mann fyrir að ganga yfir á rauðu ljósi - og svo glotti hann.
Ég sá dálítið eftir handtökunni, hafði þá ekki gert neitt rangt. Maðurinn reyndis hundleiðinlegur, kjaftfor, húmorslaus og vildi helst boða til byltingar. Honum var sleppt, án sektar eða áminningar en hefði átt að fá sekt fyrir leiðindi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Hvað opnar Gröndalshús?
17.6.2017 | 11:54
Þjóðhátíðardagurinn er ekki aðeins tengdur sjálfstæði okkar heldur einnig tungumálinu.
Núna er svokallaður tyllidagur og ótal ummæli benda til þess að það sem sagt er á slíkum dögum sé ekki nefnt á öðrum, hvað þá að efndir fylgi. Auðvitað eru þetta ekki nein algild sannindi en ...
Látum þetta gott heita en stígum á stokk og strengjum heit um að byrja á því að standa okkur betur á tyllidögum og smám saman gera betur alla aðra daga.
Þennan stutta formála er tilhlýðilegt að setja með áminningu vegna auglýsingar frá Reykjavíkurborg.
Annað hvort kunna stjórnvöld í borginni ekki rétta íslensku eða þeim er alveg sama. Í auglýsingu á blaðsíðu níu í Morgunblaðinu stendur:
Gröndalshús opnar á þjóðhátíðardaginn 17. júní.
Æ, æ, æ ... Þvílíkt klúður. Þetta fallega, rauðmálaða hús í auglýsingunni opnar ekki neitt.
Hús hafa hvorki vilja né getu til að opna eitt eða annað. Þau eru bara þarna og bíða þess að aðrir sjái um að opna dyr eða glugga og bjóða gesti velkomna.
Með rassbögu, orðalagi sem er er án tengsla við íslenskt mál, er minningu skáldsins Benedikts Gröndal enginn greiði gerður, síður en svo.
Auglýsing er hins vegar vel hönnuð, snyrtileg og lesendur taka ábyggilega vel eftir henni. Hönnuðir hennar hefðu samt átt að grípa í taumanna og segja við Reykjavíkurborg að hús opni ekki ... nema því aðeins að þeir viti ekki betur. Fátt er verra en rangt mál hjá blaðamanni og auglýsingahönnuði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.6.2017 kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heilbrigðir læknast ekki
16.6.2017 | 09:19
Ég er hærddur um að það sé verið að draga okkur inn í of mikla lækningavæðingu. Læknar geta gert margt gott fyrir fólk sem er veikt o slasað. En þeir geta gert ill verra þegar þeir meðhöndla fólk sem ekki er veikt.
Þetta segir Gilbert Welch, prófessor við Dartmouth-stofnunina í Bandaríkjunum, í viðtali við Morgunblað dagsins.
Það er nokkuð til í þessu hjá manninum, að minnsta kosti frá sjónarhóli leikmannsins. Fjölmiðlar eru óskaplega uppteknir af því að kenna okkur almenningi hvað sé rétt. Við eigum að borða rauðrófuduft til þess að koma í veg fyrir krabbamein. Við eigum að smyrja líkamann einhverri froðu sem á að lækna öll innanmein og jafnvel bólgur í liðum.
Svo eigum við að éta vítamín sem kennd eru við allt stafrófið. Þetta minnir mann á brandarann um manninn sem fór til læknis því hann kenndi sér meins, auðvitað þurfa læknar að lifa og komi enginn til þeirra fá þeir engin laun, sagði náunginn. Hann sagðist hafa lýst verknum og læknirinn skrifaði upp á einhver lyf. Auðvitað fór ég í apótekið, því lyfsalinn þarf að lifa, og ég keypti þetta lyf. Svo fór ég heim og henti lyfjunum af því að ég vil líka lifa.
Auðvitað er lífið allt öðru vísi en hér er lýst. Staðreyndin er einfaldlega sú að flestir eru heilbrigðir og þurfa ekki neinna lyfja við. Engu að síður er þeim haldið að fólki. Lækningaiðnaðurinn er rosalega stór. Jafnvel ég fæ það á tilfinninguna að ég sé eitthvað lasinn og þurfi rauðrófuduft til að lifa af.
Svo eigum við að drekka tvö rauðvínsglös á dag því rauðvínið lengir lífið og eyðir krabbameinsfrumum.
Sá sem best lýsir þessari óáran í vestrænum þjóðfélögum er læknirinn Björn Geir Leifsson, en hann heldur úti Vitleysisvaktinni á Facebook.
Niðurstaðan er einfaldlega sú að heilbirgður maður þarf ekki lækninga við. Raunar er það svo að heilbrigðir læknast ekki ... eðlilega.