Bloggfærslur mánaðarins, september 2016

Notkun fjárlaganefndar í pólitískum tilgangi

Fyrir nákvæmlega fjórum árum réðst meirihluti fjárlaganefndar með offorsi á Ríkisendurskoðun sem er stofnun undir stjórn Alþingis. Formaður nefndarinnar var Björn Valur Gíslason, þáverandi alþingismaður og núverandi varaformaður Vinstri grænna. Í þessum leik tók Oddný Harðardóttir, núverandi formaður Samfylkingarinnar, þátt.

Þetta var pólitísk árás. Ekkert annað enda hinn pólitíski tilgangur að koma höggi á stofnun sem gat komið ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu í vandræði. 

Tylliástæðan var skýrsla Ríkisendurskoðnuar um úttekt á kaupum ríkisins á bókhaldskerfi. Raunar hafði skýrslan dregist og vinnubrögð stofnunarinnar voru alls ekki nógu vönduð, rétt eins og hún viðurkenndi.

Hins vegar var á þessum tíma ætlunin að setja á stofn rannsóknarnefnd um einkavæðingu bankanna. Ríkisendurskoðun hafði löngu áður gert ítarlegar skýrslur um sama efni og raunar haldið því fram að lítið hafi verið athugunarvert við einkavæðinguna. Því var ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu ekki sammála og þess vegna var rakkanum honum Birni Val og meirihluta fjárlaganefndar sigað á stofnunina og ætlunin var einfaldlega sú að koma ríkisendurskoðanda frá.

Kosningavetur var framundan, kosið í apríl 2013. Það var því ekki seinna vænna að fara í herferð gegn þeim aðila sem var vandmál í blekkingaleik ríkisstjórnarinnar.

Þarna var hafin ófrægingarherferð á hendur Ríkisendurskoðun vegna skýrslu um kaup á bókhaldskerfi. Viðbrögð fjárlaganefndar voru þó í engu samræmi við ávirðingarnar.  

Meirihluti fjálaganefndar neitaði að senda frumvarp til fjárlaga til umsagnar ríkisendurskoðunar, stofnunar Alþingis. Þetta var í raun snilldarbragð, ætlunin að breyta umræðugrundvellinum, frá slakri málefnastöðu þáverandi ríkisstjórnar og að einhverju allt öðru. Tilgangurinn auðvitað sá að villa um fyrir kjósendum.

Kjósendur létu hvorki pólitískan áróður né rugið í ríkisstjórninni villa sér sýn. Vinstri grænir og Samfylkingin fengu ráðningu í næstu þingkosningum og Björn Valur féll af þingi.


mbl.is Nefndin notuð í pólitískum tilgangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins gæti auðveldlega fjölgað

Þingmenn, kynEnn er rökrætt um árangur kvenna í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins. Hann þykir ekki upp á marga fiska og ekki þarf að rökstyðja það. 

Í þingflokki sjálfstæðismanna eru nú nítján þingmenn, þar af sjö konur.

Í skoðanakönnunum virðist sem flokkurinn fái sautján þingmenn í næstu þingkosningum, sem er nú ekki beysinn árangur. Fái flokkurinn fleiri þingmenn eru nær 80% líkur á því að það verði kona.

Á töflunni hér fyrir ofan er gerð tilraun til að skipta þessum þingmönnum á milli kjördæma. Samkvæmt því verða aðeins fjórar konur í þingflokknum á næsta kjörtímabili sem er auðvitað langt frá því að vera ásættanlegt.

Sumir vilja breyta niðurstöðunum í prófkjörunum til að rétta hlut kvenna. Ég hef haldið því fram að það sé ótækt. Allt fikt í niðurstöðum lýðræðislegra kosninga er ótækt og raunar óvirðing við lýðræðislegar hefðir og raunar eðli lýðræðisins. Í gamalli auglýsingu segir „þú tryggir ekki eftir á“. Það er hárrétt því þegar skaðinn er skeður fást engar bætur enda of seint að tryggja.

Sama má segja með prófkjör. Ekki er hægt að setja reglur eftir á eða breyta. Allir gera ráð fyrir því að úrslit standi, frambjóðendur ekki síður en kjósendur. Til hvers er verið að kjósa ef einhverjir eru ósáttir við niðurstöðuna og krefjast breytinga?

Raunar hef ég þá staðföstu skoðun að vilji kjósenda sé mikilvægari en einhver skipting sem er á milli þeirra sem ná kjöri, þar með talið kyn, aldur, þyngd, hæð eða annað sem er auðveldlega mælanlegt.

Fyrir prófkjör hefði hugsanlega verið hægt að breyta reglum og gera kjósendum skylt að velja fólk að jöfnu af báðum kynjum. Sé kona valin í fyrsta sæti ber að velja karl í annað og svo framvegis. Með góðum rökum má segja að slíkt fyrirkomulag sé gott og jákvætt fyrir stjórnmálaflokk. Varla þarf að hafa fleiri orð um það.

Á móti má auðveldlega færa rök fyrir því að reglur sem stýra kjósandanum að ákveðni niðurstöðu séu ólýðræðislegar. Kjósandi á að vera frjáls í kjörklefanum. Hann er það ekki ef gerðar eru kröfur til hans umfram þann fjölda sem hann má kjósa eða krot á kjörseðil.

Ég er langt frá því sáttur við kynjaskiptingu í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins en fullyrði að lýðræðislegar reglur beinlínis banni allt fikt í niðurstöðunum. Vonandi eru kjörnefndir sammála þessu. 

Það er svo allt annað mál hvernig kynning á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins fer fram. Sem dæmi má nefna að nái flokkurinn fleiri þingmönnum í öllum kjördæmum nema einu bætist kona við þingflokkinn. 

Fjórar konur á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins eru næstar inn sem myndi þýða tuttugu og einn þingmann og átta konur í þingflokkinum, einni fleiri en nú er. Er það ekki ástæða til að láta hendur standa fram úr ermum í komandi kosningabaráttu vegna þingkosninganna 29. október?


Fikt í niðurstöðum lýðræðislegrar kosningar ógildir lýðræðið

Háværar raddir innan Sjálfstæðisflokksins vilja að lýðræðislegt prófkjör skuli ekki gilda heldur skuli niðurstöðunni breytt til að þóknast ímynduðum forsendum sem margir gera til kjósenda.

Sagt er til dæmis að sé skortur á gáfum sé vandamál hjá þeim sem hrepptu efstu sæti lista í suðvesturkjördæmi og suðurkjördæmi ... Nei, auðvitað er þetta er ekki ástæðan, ekki heldur að efstu menn séu með of lítið hár eða of mikið hár, ekki heldur að sigurvegararnir séu ófríðir eða of fríðir eða hafi verið of stutt í Sjálfstæðisflokknum.

Hægt er að bera fyrir sig ótal ástæður fyrir því að fólki huggnist ekki niðurstöður prófkjara enda er lýðræðið svo ósköp ófullkomið. Skárra fyrirkomulag er þó ekki í boði, nema auðvitað að ég fái einn að ráða.

Engu að síður er iðulega reynt að „lagfæra“ lýðræðið svo það passi betur við einhverja ímyndaða tilveru. Það gleymist oftast um leið að um leið og samanlagðum vilja kjósenda er breytt hverfur lýðræðið og verður eitthvað allt annað. Þetta gildir þó yfirgnæfandi meirihluti sé fyrir breytingunum, þær settar með lögum, reglum og alþingi götunnar sé sammála sem og „virkir í athugasemdum“ fjölmiðla. Niðuðurstöðum kosninga má einfaldlega ekki breyta, þá er vegið að lýðræðinu.

Einn stjórnmálaflokkur hefur í lögum sínum að prófkjör skuli ekki gilda nema kynjahlutföll séu „rétt“, þá megi fikta í niðurstöðunum. Annar flokkur hefur það í lögum að niðurstöður prófkjörs í einu kjördæmi skuli ekki gilda nema fólk í öðrum kjördæmum sé sátt. Sami flokkur bannar frambjóðendum að kynna sig, kallar það áróður.

Þannig er nú lýðræðisástin víða þrátt fyrir háleit orð á tyllidögum. Ég er svona líka. Í suðurkjördæmi voru Eyjamenn til tómra vandræða í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Eyjamenn standa allir saman og þess vegna vil ég banna annað hvert atkvæði þeirra. Þannig verður útkoman í prófkjöri mér og öðrum meira að skapi ...       

Í alvöru talað. Hversu mikið er hægt að rugla í niðurstöðum lýðræðislegra kosninga og halda því samt sem áður fram að útkoman sé lýðræðisleg? Staðreyndirnar eru einfaldar hvað lýðræðið varðar:

  • Lýðræðið gildir þó kjósendur velji aðeins fólk af sama kyni í efstu sætin
  • Fikt í niðurstöðum kosninga ógildir lýðræðið
  • Rétt framkvæmdar kosningar eru endanlegar 

Auðvitað skil ég rökin fyrir þeirri kröfu margra innan Sjálfstæðisflokksins að niðurstaða prófkjara í suðurkjördæmi og suðvesturkjördæmi séu ekki góð vegna þess að of fáar konur séu í efstu sætunum. Þetta eru samt ekki rök sem réttlæta breytingar á niðurstöðum rétt framkvæmdra kosninga.

Kosningar geta aldrei verið að hluta til lýðræðislegar. Þær ógildast sé fiktað í niðurstöðunum, hversu lítið sem það er. Svo einfalt og skýrt er lýðræðið. 

Séu gallar í framkvæmd prófkjörs þá á að ógilda það.

Hitt er svo annað mál að lýðræðislegar kosningar ógildast ekki við að stjórnmálaflokkur hafi í lögum sínum að kjósendur í prófkjörum kjósi að jöfnu karla og konur. 

 

 


Óli Björn Kárason í 2. sætið í prókjöri í SV kjördæmi

Óli BjörnÉg vil hvetja Sjálfstæðisfólk í suðvesturkjördæmi til að taka þátt í prófkjörinu á morgun, laugardaginn 10. september. Fyrir utan formann flokksins, sem vonandi fær góða kosningu í fyrsta sætið, legg ég áherslu á að fólk kjósi Óla Björn Kárason en hann er sem stendur varaþingmaður. Að mínu mati er annað sætið merkt honum.

Hvers vegna Óla Björn?

Jú, af öllum þingmönnum og öðrum forystumönnum Sjálfstæðisflokksins ólöstuðum er enginn sem er iðnari við að kynna sjálfstæðisstefnuna. Hann hefur þekkingu og langa reynslu í stjórnmálum og þar að auki eldmóð og þrótt til að kynna stefnuna og halda forystumönnum flokksins við efnið.

Þetta hefur Óli Björn í langan tíma gert með snjöllum greinum sínum í Morgunblaðinu og jafnvel sauður eins og ég hef hrifist af röksemdafærslu hans og málefnalegri umfjöllun.

Hvernig á góður stjórnmálamaður að vera?

Í mínum huga er það einfalt mál. Hann þarf að hafa skýra stefnu, ekki endilega þá sem hefur meirihluta í skoðanakönnunum, heldur framar öllu skoðun sem hann rökstyður og skýrir og hefur til að bera eldmóð til að hrífa aðra með sér og sannfæra. Góður stjórnmálamaður snýst ekki eftir því sem vindurinn blæs. Stefna Óla Björns Kárasonar er skýr, það sýna ótal greinar um stjórnmál, hugmyndafræði og stefnumörkun í Morgunblaðinu og Þjóðmálum sem hann ritstýrir.

Forgangsröðun 

Þegar núverandi ríkisstjórn var nýlega tekin við skrifaði Óli Björn grein í Morgunblaðið. Mér er hún afar minnisstæð af ýmsum ástæðum. Í henni hvetur hann nýja ráðherra til dáða og bendir á margt sem þarf að taka til skoðunar. Hann sagði meðal annars:

Með þetta í huga eiga forystumenn nýrrar ríkisstjórnar að senda skýr skilaboð um að tími réttrar forgangsröðunar sé genginn í garð:

  • Á meðan það molnar undan heilbrigðiskerfinu og ekki er hægt að tryggja öllum landsmönnum viðunandi þjónustu höfum við ekki efni á því að ráðast í tuga milljarða króna byggingu á nýjum spítala.
  • Á meðan þjóðvegir landsins liggja undir skemmdum er rangt að byggja hús í nafni íslenskra fræða fyrir milljarða.
  • Á sama tíma og ekki er hægt að tryggja öfluga löggæslu um allt land er tómt mál að tala um að verja milljörðum króna í byggingu glæsilegs fangelsis.
  • Á meðan ekki er búið að rétta við hlut aldraðra og öryrkja er rangt að setja hundrað milljónir í að koma upp náttúruminjasýningu.
  • Á sama tíma og ekki er hægt að endurnýja úr sér gengin lækningatæki sjúkrahúsa höfum við ekki efni á að láta milljarða renna í »grænkun fyrirtækja«, »græn innkaup« eða í »grænan fjárfestingarsjóð«.
  • Á meðan Landhelgisgæslan fær ekki nauðsynlegan tækjakost til að sinna öryggishlutverki sínu til hlítar er eitthvað verulega brenglað við að byggja sérstakt menntavísindahús fyrir á annað þúsund milljónir.

Og hvað hefur síðan gerst. Umræðan um heilbrigðiskerfið hefur aldrei verið háværari. Ekki hefur reynst mögulegt að viðhalda þjóðvegum landsins eins og þörf er á. Lögreglan og Landhelgisgæslan er í fjársvelti þrátt fyrir fjölgun landsmanna og gríðarlega fjölgun erlendra ferðamanna. Aldraðir og öryrkjar kvarta hástöfum yfir kjörum sínum meðan embættismenn fá tuga prósenta launahækkun og það aftur í tímann. Kári Stefánsson hefur skrifað áróðursgreinar um úreltan tækjabúnað Landspítalans.

Ég held að Óli Björn hafi hitt naglann á höfuðið og rætt þarna um öll þau mál sem hafa verið í brennidepli samfélagsumræðunnar síðustu misserin, bæði hjá stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar sem og stjórnarandstöðunni.

Óli Björn í 2. sætið

Nú er kominn tími til að Óli Björn Kárason setjist á þing og láti þar til sín taka rétt eins og hann hefur gert í fjölmiðlum. Hér er maður sem er vís til að láta verkin tala. 

Kjósum Óla Björn í annað sætið.

Kjörstaðir

Kjörstaðir verða opnir á morgun frá 9 til 18 og er prófkjörið opið öllum flokksbundnum sjálfstæðismönnum 15 ára og eldri. Þeir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins sem ganga í flokkinn á kjördegi skulu þó hafa náð 18 ára aldri 29. október en þá verða þingkosningar.

Kosið er á þessum stöðum:

  • Garðabær – Félagsheimili Sjálfstæðisfélagsins í Garðabæ, Garðatorgi 7.
  • Hafnarfjörður – Víðistaðaskóli, Hrauntungu 7
  • Kópavogur – Lindaskóli, Núpalind 7
  • Mosfellsbær og Kjósin – Félagsheimili sjálfstæðismanna í Kjarna, Þverholti 2
  • Seltjarnarnes – Félagsheimili sjálfstæðismanna, Austurströnd 3

Munu Þorsteinn og Þorgerður flagga ESB fánanum?

Sjaldan launar kálfurinn ofeldið. Þannig segir í gömlu orðatiltæki sem ég lærði fyrir löngu. Datt þetta í hug þegar ég sá frétt mbl.is um að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrum  varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og Þorsteinn Pálsson, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksis, hefðu gengið til liðs við nýjan stjórnmálaflokk, Viðreisn.

Verði þeim að góðu og bestu þakkir fyrir samstarfið. Þau taka eflaust fjöldann allan af stefnumálum Sjálfstæðisflokksins með sér og ábyggilega einn eða tvo fylgismenn hvort. Katrín ætlar sér ábyggilega aftur á þing en ólíklegt er að Þorsteinn ætli sér það. Bæði eru málefnalegir og góðir stjórnmálamenn og munu eflaust styrkja nýtt þing, komist þau að.

Á síðustu landsfundum Sjálfstæðisflokksins hafa nokkrir fulltrúar krafist þess að flokkurinn leggði af andstöðu sinni gegn aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Mikill meirihluti landsfundar hefur alla tíð verið á móti því, um 80%.

Þó svo að stjórnmálaflokkurinn Viðreisn hafi eingöngu verið stofnaður af gömlum Sjálfstæðismönnum vegna óánægju með afstöðu flokksins til ESB flaggar hann ekki þeirri afstöðu núna. Ástæðan er einföld. Aðildarhugmyndin er ekki aðlaðandi fyrir kjósendur.

Þorsteinn og Katrín eru fylgjandi aðild og hafa barist fyrir henni síðustu árin. Mikið þarf að breytast til að þjóðin samþykki aðildarumsókn. Nú virðist sem tveir flokkar séu með aðild og njóta þeir samtals um 20% fylgis þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnunum. 

Eigendur Viðreisnar munu pottþétt ekki leggja áherslu á ESB aðild fyrir kosningar. Þeir munu fela þessa afstöðu sína enda ætlunin að laða kjósendur að flokknum en ekki öfugt.


mbl.is Þorgerður og Þorsteinn í Viðreisn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn studdi Þorgerði í erfiðleikum hennar

Fari Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrum varaformaður Sjálfstæðisflokksins, í framboð fyrir annan stjórnmálaflokk, eru skrýtin tíðindi, raunar eru það fréttir að hún skuli vera að hugleiða þetta. 

Á alvarlegustu erfiðleikatímum í pólitísku og persónulegu lífi Þorgerðar stóðu Sjálfstæðismenn þétt að baki hennar. Létu yfir sig ganga þaulskipulagðan áróður andstæðinga flokksins um fjármál hennar og eiginmannsins. Formaður Sjálfstæðisflokksins varði hana og það gerðum við óbreyttir sjálfstæðismenn. Hún naut viðtæks stuðnings innan flokksins en sagði af sér varaformennsku vegna þess að hún vildi ekki að flokkurinn yrði fyrir skaða vegna hennar. Það var talið merki um göfuglyndi hennar og trygglyndi.

Þorgerður Katrín er ESB sinni. Meirihluti Sjálfstæðisflokksins er á móti aðild að ESB og það hefur reynst vera rétt mat miðað við stöðu mála í Evrópu undanfarin misseri, allir sjá það. Enginn íslenskur stjórnmálaflokkur leggur lengur áherslu á aðild að Evrópusambandinu.

Hvað getur valdið því að Þorgerður Katrín sé að íhuga framboð fyrir annan stjórnmálaflokk? Er það af metnaði eða „telur hún að hennar tími sé kominn ...“? Eða hvað er það við Sjálfstæðisflokkinn sem veldur því að hún tvístígur? Ekki getur það verið ESB málið, það er löngu dautt.

Í pistlum á þessum vettvangi hef ég iðulega gagnrýnt skort á stefnufestu stjórnmálamanna, flatneskju í stjórnmálum, skort á eldmóði og framsýni. Þess í stað er engu líkar en að stjórnmálamenn noti skoðanakannanir til stefnumótunar. Stjórnmálamenn leita dauðaleit að baráttumálum í stað þess að taka þátt í stjórnmálum vegna staðfastra og eindregna skoðana.

Flatneskjan fer vaxandi í öllum stjórnmálaflokkum. Hégómleikinn virðist vera alls ráðandi, vinsældir eru málið, allir eiga að vera eins. Æ færri fara í stjórnmál vegna stefnu sinnar. Aðferðin felst í því að stofna fyrst flokk og síðan finna sér skoðun til að hanga á, eitt málefni kann að duga.

Ég trúi því ekki að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir yfirgefi þann flokk sem hún á svo margt gott að gjalda. Engar málefnalegar forsendur eru fyrir því. Flokkurinn hefur alltaf sýnt henni tryggð og hún á móti. Hún hefur aldrei nokkru sinni gagnrýnt stefnu flokksins síðan hún sagði af sér varaformennsku. 


mbl.is Leiðir Þorgerður Katrín lista Viðreisnar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markmiðið er AANUÆJBÞVG

Sífellt skemmtilegra er að fylgjast með aðdraganda prófkjörs Vinstri grænna í norðvesturkjördæmi, þetta er eiginlega eins og framhaldsmyndaþáttur.

Fyrsti þáttur fjallar um framboðin og kjördag sem átti að vera síðasta laugardag. Aldeilis óvænt reyndist flokksforusta VG er með böggum hildar vegna hins óvænta framboðs Bjarna Jónssonar Bjarnasonar og rífandi gengi hans. Fyrirsjáanlegt var að hann hrifsaði efsta sætið í prófkjörinu af Lilju Rafney Magnúsdóttur og það án nokkurrar fyrirhafnar.

Fyrir þá lesendur sem ekki þekkja til þá er Lilja Rafney núverandi þingmaður VG í kjördæminu, mikil sæmdarkelling, vel upp alin í flokknum og Alþýðubandalaginu, trú og traust í sósíalískum fræðum, þekkt fyrir að gelta grimmdarlega að andstæðingum flokksins þegar flokksforustan sigar henni út og það þarf ekki einu sinni til. Betri liðsmann er vart hægt að hugsa sér á síðustu og verstu tímum. 

Gallar Bjarna Jónssonar frambjóðanda í prófkjöri VG eru ábyggilega margir en það eru einkum tveir sem virðast alvarlegastir fyrir forystuna. Annars vegar er hann sonur föður síns, hins arma Jóns Bjarnasonar þess er á síðasta kjörtímabili var þingmaður kjördæmisins fyrir VG og ráðherra. Já, það er sá Jón sem hélt að Vinstri grænir stæðu fyrir sjálfstæði landsins og væru á móti ESB (sem reyndist vera tóm vitleysa þrátt fyrir að það stæði ritað í stefnu flokksins (sem segir þó ekkert um stefnu flokksins enda er forustan ekki fundin af einhverjum plöggum)).

Jón, sá aumi þræll, var líka á móti Icesave samningunum sem flokkseigendafélagið kokkaði í náinni samvinnu og handleiðslu breskra og hollenskra stjórnvalda. Eðlilega er Jóni að stærstum hluta kennt um þrennar hrakfarir Vinstri grænna; þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave, þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave og tapið í þingkosningunum 2013.

Svo hætti Jón á þingi og friður hefur ríkt um þriggja ára skeið í þingflokki Vinstri grænna.

Í öðrum þætti sögunnar kemur fram að það stóðst að endum að fyrrum formaður Vinstri grænna (sá sem vann svo mikið á síðasta kjörtímabili að hann örmagnaðist nærri því) er nú nokkurn veginn búinn að ná fyrri styrk eftir allar hrakfarir við Jón og fleiri leiðindapésa og stjórn hans á aftursætisstýrinu hefur í nokkra mánuði verið með afbrigðum styrk (hér eru engin líkindi með með Commissioner Dreyfus og Inspector Clouseau í bíómyndunum um „Pink Panter“, öllu slíku er vísað á bug). 

Þriðji þátturinn fjallaði um að flokksforusta Vinstri grænna áttaði sig í tæka tíð á því hver þessi Bjarni Jónsson væri enda eðlilega skylt að senda stimplað upprunavottorð með þátttökutilkynningu í prófkjör flokksins. Sem betur fer var öll flokksforustan saman komin á einum stað í Reykjavík við plott gegn ríkisstjórn feitu [„feitu“: þetta er tilvísun) ríkisstjórn ljótu kapítalistanna.

Hættum við prófkjörið,“ hrópaði fyrrum formaður úr baksætinu. „Hættum við prófkjörið,“ endurómaði formaðurinn í framsætinu. Niðurstaðan varð einfaldlega sú að hætt var við prófkjörið á norðuausturlandi meðan tækifæri gafst til að endurskipuleggja varnirnar sem nefnast á dulmáli einfaldlega AANUÆJBÞVG sem útleggst: „Aldrei aftur neinn úr ætt Jóns Bjarnasonar í þingflokk VG“.

Nú hefur heimildarmaður þessara upplýsinga aldeilis farið langt frá efninu og var nærri búinn að gleyma því sem seinna sem telst til galla Bjarna Jónssonar. Það er að hann er Skagfirðingur, að minnsta kosti búsettur þar þó að hann gæti einnig talist Snæfellingur og Strandamaður í föðurlegg. „Det er ikkje en fordel,“ segja Norðmenn í svipuðum aðstæðum og draga frekar úr en slá í. Skagfirðingar standa með sínum, Snæfellingar eru vondir og Strandamenn göldróttir. Ljóst má því vera að nú munu góð ráð reynast forustu Vinstri grænna dýr.

Fjórði þáttur heimildarsögu um vandræðaganginn vegna prófkjörs Vinstri grænna í norðausturlandi eru handabaksvinnubrögð Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingmanns Vinstri grænna. Hún ku hafa sent út hvatningarbréf til flokksmanna í kjördæminu úr pósthólfi Alþingis á virðulegt tölvupóstsformati þingsins. Merki um valdið, styrkinn og getuna.

Þetta voru mistök, segir forystan og Lilja blessunin tekur undir það og lofar að gera þetta aldrei aftur. Síðan hverfa þau inn í reykfyllt bakherbergið og taka þar til við að undirbúa næsta þátt. Og svo bláeygir eru blaða- og fréttamenn sem og alþýðan öll að enginn tekur eftir. Nei, nei, nei ... þetta voru sko engin mistök heldur gáfulega útfærður leikur.

„Sko, svona leysum við vandamál,“ sagði Commisioner fyrrverandi formaður. „Og vitið þið hvers vegna við leysum þau svona, ha ...? Nei, auðvitað ekki. Við gerum það af því að við getum það.

Enginn skaði skeður, markmiðið er AANUÆJBÞVG.

 


mbl.is „Hugsunarleysi af minni hálfu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örvænting vegna fylgisleysis Liljar Rafneyjar í prófkjörsbaráttu

Trúir því nokkur maður að prófkjöri Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi hafi verið frestað vegna tæknilegra vandamála? Ég skrifað um þetta fyrir fjórum dögum, pistilinn er að finna hér

Staðreyndin er einfaldlega sú að Bjarni Jónsson, sonur Jón Bjarnasonar, fyrrum þingmanns og ráðherra í vinstri stjórn Steingríms og Jóhönnu er í framboði í fyrsta sætinu. Fyrir á fleti er Lilja Rafney Magnúsdóttir, sæmdarkelling sem aldrei hefur ruggað VG bátnum, alltaf sammála forystunni, vel upp alin í sósíalistaflokknum og forvera hans, Alþýðubandalaginu og rífur kjaft þegar henni er att á foraðið.

Og svo býður þessi andskoti sig fram, sonur Jóns Bjarnasonar, sem aldrei var til friðs í flokknum. Jón hélt að VG ætti að vera á móti inngöngunni í ESB bara af því að það stóð skrifað í flokkssamþykktunum. Hann hélt líka að VG ætti að vera á móti Icesave af því að í samþykktunum er eitthvað párað um sjálfsstæði Íslands, fjármál þjóðarinnar og þjóðaratkvæðagreiðslur.

Nei, flokkseigendafélagið ætlaði alls ekki að eiga við aðra og jafnvel öflugri kynslóð af Jóni Bjarnasyni.

Þess vegna var prófkjörinu frestað og nú sendir flokkurinn út bréf til stuðningsmanna í  kjördæminu þar sem þeir eru hvatti til að kjósa Lilju Rafney en ekki óþokkann hann Bjarna.

Má þetta?“ spurði þá starfsmaður flokksins sem sá um útsendinguna sem var á bréfsefni Alþingis. 

Já, auðvitað,“ var svarið. „Reyndu bara að gera það sem þér er sagt að gera annars verðurðu rekinn.

„Við reddum þessu svo ef einhver fer að tuða,“ tautaði flokksforystan sín á milli. „Segjum að útsendingin hafi verið mistök. Látum Lilju biðjast afsökunnar.

Og starfsmaðurinn sendi út bréfin. Klárlega tilraun til að skáka Bjarna til hliðar með því að sýna fram á upphefð Lilju Rafneyjar. 

Hvað skyldi flokksforustan gera næst til að tryggja sinni konu fyrsta sætið í þessu bannsetta prófkjöri sem aldrei hefði átt að boða til. Miklu auðveldara að setja saman lista á litlum nemmmmdarfundi?

Veðja á að kynjaspilið verði næst sett í brúk.

 


mbl.is Lilja Rafney baðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar á lesbían að vera?

Hvar á sá feiti að vera?

Þetta spurði Arnar Páll Hauksson, fréttamaður á Ríkisútvarpinu, og brosti þegar forsætisráðherra nálgaðist panelinn í beinni útsendingu á viðræðum stjórnmálamanna í Norræna húsinu. Sjá hér.

Fréttamaðurinn bað forsætisráðherra réttilega afsökunar á að hafa sagt þetta í tvígang enda gat hann ekki annað.

Í kjölfarið hafa vinir og velunnarar fréttamannsins keppst við að skýra ummælin og milda þau eins og hægt er. Gott er að eiga vini eins og Egil Helgason, fjölmiðlamann, sem segir í bloggpistli sínum:

Arnar Páll Hauksson er dugmikill fréttamaður, fylginn sér og afar reynslumikill, það er ekki lítils virði á tíma þegar fólk endist stutt í starfi á fjölmiðlum. Hann á það til að vera dálítill orðhákur og hafði orð á sér fyrir það í eina tíð að vera meinhorn. Vinnufélagar hans telja þó að hann hafi mildast mjög með árunum.

Helgi Seljan, fréttamaður Ríkisútvarpsins, sagði eitthvað álíka um vin sinn í þættinum „Vikulokin“, mistök og lélegur húmor var niðurstaða þriggja álitsgjafa í þættinum sem síst af öllu hafa hingað til haft nokkurn skilning fyrir stefnu Framsóknarflokksins né forystumönnum hans.

Þannig er nú eiginlega með Arnar Pál Hauksson, fréttamann, að hann kann að vera dugmikill fréttamaður, orðhákur og meinhorn. Hitt er að hann er líka reynslumikill og það get ég vottað eftir að hafa hlustað á manninn í langan tíma í skylduáskrift minni að Ríkisútvarpinu.

Eftir því sem ég best fæ skilið er Arnar Páll pólitískur og það skín í gegn í starfi hans sem fréttamaður. Hann er hvorki Sjálfstæðismaður né Framsóknarmaður heldur vinstri maður og þess vegna gat hann gert grín að vaxtarlagi forsætisráðherrans.

Bendi á eitt, á tímum vinstri stjórnarinn hefði húmor Arnar Páls ábyggilega ekki verið þannig að hann hefði spurt í álíka aðstæðum hvar „lesbían ætti að vera“ í panelnum. 

Staðreyndin er einfaldlega sú að það er miklu auðveldara að gera grín að þeim sem mann líkar ekki við. Enginn kallar föður sinn, móður, bróður, systur eða annan nákominn ættingja feitan á opinberum vettvangi. Því fjær sem viðkomandi er því auðveldara er að skjóta út niðurlægjandi athugasemdum og gera lítið úr öðru fólk. Framsóknarmaðurinn liggur vel við höggi og allir eiga að skila og hlægja dátt þegar rætt er um feita kallinn.

Ég velti því fyrir mér hvað hefði gerst ef forsætisráðherra hefði verið staðinn af álíka talsmáta og fréttamaðurinn viðhafði. Segjum sem svo að hann hefði kallað þingkonu Samfylkingarinnar feita eða fréttamann leiðinlegan! Hvað þá.

Hefðu Egill Helgason, Helgi Seljan og Arnar Páll Hauksson komið forsætisráðherra til aðstoðar og reynt að draga úr málinu með því að kenna um lélegum húmor og álíka? Einhvern veginn á ég bágt með að trúa því. Held að staðan sé einfaldlega sú að svo ótalmargir telja Framsóknarflokkinn sjálfsagt skotmark sem og fulltrúa hans og nota megi útlitsleg einkenni þeirra til að draga úr trúverðugleikanum.

Flestir hlægja af þeim hlammast á gólfið þegar stóllinn brotnar. Maður skellihlær og segir frá þessu þegar heim er komið og gleymir ekki að minnast á kaffið sem sullaðist yfir viðkomandi. Hefði svo óheppilega til að mamma hefði skollið á gólfið þegar stóllinn brotnaði hefði maka, syni, dóttur síst af öllu verið hlátur í huga. Svona er mannlegt eðli, við hlægjum þegar aðhlátursefnið tengist okkur ekki neitt. Nema við kunnum okkur og sýnum aðgát og umhyggju - hlaupum til aðstoðar.

Talsmáti okkar byggist framar öllu á uppeldinu og þeim taumum sem við höfum á okkur sjálfum.

Ég man eftir því í æsku minni að hafa verið ósáttur við kennara og kallað hann „helvítis kallinn“ en fékk alvarlegar ávítur frá foreldrum mínum fyrir vikið. Oft kom það fyrir að við strákarnir í Barmahlíðinni urðum ósáttir og þó öll rök bentu til þess að ég hafi ekki átt upptökin var tekið á málum heima eins og sökin væri öll mín.

Málefnaleg afstaða byggir á sanngirni, virðingu og kurteisi gagnvart öllum. Síst af öllu byggist hún á að ráðast gegn þeim sem maður er ósammála vegna skoðana, stjórnmálstefnu, útlits, litarhafts, trúarbragða kyns eða annars. 

Miklu erfiðara er að ástunda málefnalega rökræðu og sanngirni heldur en að láta allt vaða eins og „virkir í athugasemdum“ sorpblaða tileinka sér. Auðvelt að bulla eitthvað í þeirri von að fá viðurkenningu þeirra sem næst standa, kalla þennan feitan og þann næsta lesbíu, hvort tveggja í niðrandi merkinu.

Sérstaklega gaman er að fá hlátur fyrir vikið og vera þannig talinn hinn mesti spaugari ...

 


Kynnisferðir og mbl.is segja veturinn kominn

Ekki veit ég hvers vegna að blaðamaður mbl.is heldur því fram í frétt vefsins að nú sé kominn vetur, ef til vill er hann svo skyni skroppinn. Hitt vita allir að 1. september markar ekki breytingu á veðurfari, árstíð né neinu öðru. Veturinn er ekki kominn.

Með fréttinni er birt flott mynd sem Golli, Kjartan Þorbjörnsson, ljósmyndari, tók af norðurljósunum. Golli er ekki fæddur í gær og ég er nær pottþéttur á því að hann er ekki haldinn þeirri firru að veturinn sé kominn.

Raunar er þessi frétt haldin sömu fávísu einkennum sem alltof margir fjölmiðlamenn þjást af, þekkingarleysi. Samt skrifa þeir og skrifa og oft af lítilli þekkingu

Fyrsti vetrardagur markar komu haustins samkvæmt gamalli venju. Sumardagurinn fyrsti markar komu vorsins sem er órjúfanlegur hlut sumarsins.

Ekki veit ég hvaðan blaðamaður mbl.is hefur visku sína þegar hann skrifar þetta:

Þúsund­ir ferðamanna fara í norður­ljósa­ferðir dag hvern og seg­ir Ein­ar Bárðar­son, rekstr­ar­stjóri Reykja­vík Excursi­ons, ferðaskrif­stofu Kynn­is­ferða sem fóru í fyrstu norður­ljósa­ferð vetr­ar­ins um síðustu helgi, að ferðamenn alls staðar að úr heim­in­um verði fyr­ir því sem líkja mætti við trú­ar­lega upp­lif­un þegar þeir berja norður­ljós­in aug­um.

Þetta er einfaldlega rangt, veturinn kom ekki 30. ágúst, jafnvel þó það sé þannig skráð í skjöl hjá Reykjavík Excursions, Kynnisferðum, og hversu mjög rekstrarstjóri fyrirtækisins gapir um það. 

Þeir ættu að skammast sín, blaðamaður mbl.is og rekstrarstjóri Kynnisferða fyrir að vita ekki betur um árstíðaskipti á Íslandi og í þokkabót skrökva um þau opinberlega. Morgunblaðið á vandara að virðingu sinni heldur en að bulla svona.


mbl.is Úthverfabretar táruðust af gleði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband