Bloggfærslur mánaðarins, september 2016

Benedikt formaður Viðreisnar fer með rangt mál

Lof­orð er lof­orð er lof­orð - og lof­orðið var svikið,“ sagði hann um fyr­ir­heit stjórn­ar­flokk­anna um þjóðar­at­kvæðagreiðslu fyr­ir síðustu kosn­ing­ar. „All­ir voru svikn­ir, hvort sem þeir vildu halda viðræðum áfram eða jarða ferlið.

Þetta er haft eftir formanni Viðreisnar, Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar. Ótrúlegt að hann skuli ekki fara með rétt mál varðandi aðlögunarviðræðurnar við ESB á aðalfundi flokksins sem haldinn er í dag, 24. september.

Síðasta ríkisstjórn sótti um aðild að ESB án þess að spyrja þjóðina álits. Stjórnarmeirihlutinn hló að tillögu Sjálfstæðisflokksins um þjóðaratkvæðagreiðslu um inngönguna, felldi hana og lét þess í stað duga einfalda þingsályktunartillögu um eitt stærsta málþjóðarinnar frá því árið 1944.

Formaður Viðreisnar heldur því nú blákalt fram að viðræður við ESB hafi ekki verið aðlögunarviðræður heldur einhvers konar spjall.

Þetta var ekkert spjall eða samningaviðræður heldur aðlögun Íslands að ESB. Niðurstaðan hefði aldrei orðin einhver hefðbundinn milliríkjasamningur heldur annað af tvennu, að Ísland hefði verið tækt til aðildar í ESB eða ekki.

ESB býður ekki upp á samningaviðræður um aðild heldur aðlögunarviðræður. Þannig eru reglurnar og þær setur ESB en hvorki Benedikt né Samfylkingin eða aðrir krataflokkar.

Hefði svo ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar átt að gangast fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB? Allir ráðherrarnir eru á móti aðild. Allir þingmenn stjórnarmeirihlutans eru á móti aðild. Landsfundir beggja flokka eru á móti aðild. Langstærsti hluti flokksmanna í báðum flokkum eru á móti aðild. Og í þokkabót er mikill meirihluti landsmanna á móti aðild.

Hvers konar rugl hefði það verið að ríkisstjórn færi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem hún er í grundvallaratriðum ósammála?

Þetta er ómerkileg pólitík hjá Benedikt Jóhannessyni. Vinstri flokkarnir gáfust upp á þessu trikki en Viðreisn heldur sem betur fer að stefna flokksins um að ganga í ESB afli flokknum fylgis. Við Sjálfstæðismenn fögnum þessari stefnu Viðreisnar.

 


mbl.is Loforð er loforð – og loforðið var svikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðislegar endurbætur á ólýðræðislegu lýðræði

Margir hafa áhyggjur af lýðræðinu, það standi einfaldlega ekki undir þeim kröfum sem gert er til þess, sé beinlínis ólýðræðislegt. Að þessu sögðu, það er að lýðræðið sé ekki nógu lýðræðislegt, er ágætt að skoða hvað til hvaða ráða Sjálfstæðiflokkurinn getur gripið til að verjast ólýðræðislega lýðræðinu í lýðræðislegum kosningum.

Konur eru vissulega óhressar með stöðu sína eftir prófkjör í tveimur kjördæmum. Það er miður enda eiga bæði kynin að velja frambjóðendur óháð kyni þeirra. Það gerist hins vegar ekki alltaf og yfirleitt hallast á konur, þær fá oftast færri atkvæði en karlar.

Besta lausnin er ábyggilega sú að setja einfaldlega ákvæði í prófkjörsreglur þess efnis að kjósandi sem velur karl í fyrsta sæti þurfi að velja konu í annað sæti og svo koll af kolli. Annars verður atkvæðaseðillinn ógildur. Hugsanleg útfærsla á þessu má vera þannig að þetta gildi aðeins um fyrstu fjögur sætin.

Er þetta lýðræðislegt fyrirkomulag? Já, ábyggilega eins og sú regla að kjósa þurfi í Reykjavíkurkjördæmunum að lágmarki sex frambjóðendur en ekki fleiri en átta.

Nú eru þá allir sáttir nema ungir sjálfstæðismenn. Þeir munu áreiðanlega gera þá sanngjörnu kröfu að sambærileg regla verði sett um ungt fólk, það verði skilyrði að í fyrstu fjórum sætunum verði einn frambjóðandi sem er yngri en þrjátíu ára. Sé ekki svo verði atkvæðaseðillinn ógildur. Hugsanlega útfærsla á þessu gæti verið sú að kjörnefnd lagfæri hreinlega þannig atkvæðaseðla svo hinn sanni vilji kjósandans komi í ljós.

Er þetta lýðræðislegt fyrirkomulag? Jú, ábyggilega eins og reglan um kynjaskiptinguna.

Næst gera hommar og lesbíur sambærilega kröfu, að ekki megi ganga framhjá þeim. Jú, þetta er álíka sambærilegt og þetta með aldurstengt kjör.

Við hárfatlaðir (þeir sem hafa lítið eða ekkert hár á höfði) gerum auðvitað kröfu til að sjónarhorn okkar heyrist á þingi. Því verði samþykkt sú regla að kjósandi verði að velja í eitt af átta efstu sætunum einn karl (eða konu) sem hafi af náttúrulegum völdum lítið sem ekkert hár efst á höfði.

Er þetta lýðræðislegt fyrirkomulag? Jú, alveg eins og reglan um homma og lesbíur.

Nú hafa margir áhyggjur af því að of margir lögfræðingar séu of margir á framboðslistum og mætti því setja þá einföldu reglu að ekki megi kjósa fleiri en tvo úr hverri starfstétt.

Er þetta lýðræðislegt fyrirkomulag? Jú, alveg eins og reglan um sköllóttan ég meina hárfatlaðan frambjóðanda.

LýðræðiÞetta er bara lýðræðislegar reglur og hjálpa til við að gera hið ólýðræðislega lýðræði miklu lýðræðislegra.

Ástæðan er einfaldlega sú að í Sjálfstæðisflokknum höfum við alltof lengi búið við afar ófullkomið lýðræði. Aðrir stjórnmálaflokkar eru komnir miklu lengra. 

Vinstri grænir, Samfylkingin og stjórnmálaflokkurinn Píratar hafa gert mjög athyglisverðar lagfæringar á lýðræðinu þar sem gott og vandað fólk hefur tekið að sér að lagfæra prófkjörslista samkvæmt þeim vilja sem kjósendur hafa án nokkurs efa hugsað sér en ekki tekist að tjá með einu krossmarki á atkvæðaseðil sinn.

 


Hjásetan, afsal ákvörðunarvalds í stóru málunum

FulltrúalýðræðiHinn blákaldi veruleiki er þó sá að venjulegt vinnandi fólk skortir iðulega bæði svigrúm og tíma til þess að setja sig inn í flókin samfélagsleg úrlausnarefni. Sú staða er óbreytt enn í dag, hvað sem líður tækniframförum og bættum samgöngum. Beint lýðræði er því illa framkvæmanlegt og í almennri framkvæmd eru þjóðaratkvæðagreiðslur aðeins haldnar í undantekningartilvikum um málefni sem varða mikilvæga hagsmuni landsmanna.

Þetta skrifar Arnar Þór Jónsson, lektor í lögum, í Morgunblað dagsins (feitletrun er mín). Ég tek undir með honum og raunar tek ég ofan fyrir manni, sem þvert á skolkennda umræðu um beint lýðræði, segir með ágætum rökum hvers vegna fulltrúalýðræðið sé réttlát og skynsamleg aðferðafræði. Og Arnar útskýrir hvers vegna svo sé en segir í beinu framhaldi af tilvitnuninni hér fyrir ofan:

Þetta er raunar ástæðan fyrir því að flest lýðræðisríki nútímans hafa komið á fót svonefndu fulltrúalýðræði, þar sem borgararnir fela kjörnum fulltrúum sínum að taka ákvarðanir um málefni samfélagsins – og þar með um almannahag.

Ástæðan fyrir grein Arnars Þórs er hjáseta stjórnmálaflokka og þingmanna á Alþingi. Hann bendir einfaldlega á að þingmenn þiggja laun fyrir starfa sinn og í því felst að þeir eiga að setja sig inn í þingmál og taka afstöðu. Auðvitað er auðvelt að túlka hjásetu hreinlega sem „vinnusvik“ en málin eru engu að síður dálítið flóknari en svo.

Vissulega getur það verið að þingmenn vilji sitja hjá en þeir eiga að gera það af annarri ástæðu en að þeir hafi „ekki haft tök á“ að kynna sér málin, eins og Arnar orðar það og beinir án efa spjótum sínum að stjórnmálaflokknum Píratar.

Í lok greinar sinnar segir Arnar og er vart hægt að orða hugsunina betur:

Lýðræðisástin ristir vart djúpt hjá þingmönnum sem afsala sér ákvörðunarvaldi, jafnvel í stærstu málum. Ef sjálfskipaðir kyndilberar lýðræðisins bregðast hlutverki sínu með þessum hætti hljóta kjósendur að minnast þess á kjördag þegar kjörtímabilið er gert upp og ábyrgðinni endurúthlutað.


Konur sem flýja flokk vegna kjósendanna

Þrjár mætar konur segja sig úr Sjálfstæðisflokknum. Ekki af því að þær séu á móti stefnu flokksins, framkvæmd hennar, fólkinu sem skipar forystuna ... Nei, þær eru á móti þeim sem tóku þátt í prófkjörunum.

Þetta er undarlegt og fátítt.

Aldrei hefur óánægja með kjósendur og stuðningsmenn orðið til þess að fólk hafi sagt sig úr stjórnmálaflokki. Yfirleitt er þetta á hinn veginn. Þá fylgja oftast formælingar og tal um að flokkur og forysta hafi brugðist, gengið gegn lýðræðinu og svo framvegis.

Núna segja hinar burtflúnu konur að lýðræðislegt val kjósenda hugnist þeim ekki. Vísast hafa þær uppgötvað einhvern annan kost sem getur komið í stað lýðræðis. Það stappar nærri því að hafa leyst lífsgátuna.

Nema þær hafi fengið tilboð um sæti á lista Viðreisnar. Þangað hlaupa nú flestir lukkuriddarar sem af einhverjum ástæðum segjast hafa fengið nóg af Sjálfstæðisflokknum en ekki flokki sem þeir þekkja ekki af gerðum, bara orðum.

Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt er eftirsjá af fólki sem unnið hefur mikið innan Sjálfstæðisflokksins og lagt þar gott eitt til. Hins vegar hef ég aldrei vitað fyrr að þær hafi reynt að „hreyfa við þeim íhaldssömu skoðunum og gildum sem ríkja um jafnréttismál í Sjálfstæðisflokknum“. Aldrei ...


mbl.is Yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meint sókn í skólamálum eftir stórslys

Almannatengslahópur skrifstofu borgarstjóra fékk verkefni í hendurnar þegar kennarar mótmæltu of litlum fjárveitingum í skólakerfi borgarinnar. Vandinn var að vart hægt að gefa nemendum að borða nema það sem í öðrum sveitarfélögum taldist til meðlætis.

Borgarstjóri sendi því út verkefnið sem hljóðaði eitthvað á þá leið að hækka þyrfti framlög í skólakerfið án þess að það liti illa út fyrir meirihlutann.

Niðurstaðan var mikið snjallræði. Nú blásum við til sóknar í skólamálum, sagði meirihlutinn og þóttist góður en almenningur horfði undrandi á rétt eins og í sögunni um nýju föt keisarans.

Staðreyndin var hins vegar sú að fjárhagsáætlun meirihlutans stóðst ekki. Þrátt fyrir fjölmargar ábendingar minnihlutans og annarra sagði borgarstjóri að ekki væri meiri peningur til og lýðurinn yrði að sætta sig við þetta.

Þegar óglöggur ökumaður ekur á bíl sínum á ljósastaur má allt eins kalla það sókn til betri umferðarmenningar þegar hann bakkar bílnum frá staurnum og ekur leiðar sinnar á vinstri akrein. Sendir um leið öðrum ökumönnum fingurinn.


mbl.is Ekki sókn heldur leiðrétting
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarðskjálftar af mannavöldum

Niðurdæling vatns frá Hellisheiðarvirkjun veldur jarðskjálftum, meira en 200 skjálftar hafa mælst á fjórum dögum.  Yfirleitt hafa þeir verið smáir en á þriðja tug skjálfta mælst yfir 2 stig og fjórir yfir 3. Þetta veldur áhyggjum.

Þegar sambærileg hrina er á Reykjanesi, Kópaskeri eða í Bárðarbungu rjúka fjölmiðlar til og spyrja jarðfræðinga spjörunum úr. Nú láta þeir hins vegar nægja yfirlýsingu frá Orkuveitufyrirtæki sem nefnist Orka náttúrunnar og hún er birt orðrétt og athugasemdalaus. Ekki er leitað til Jarðfræðistofnunar Háskóla Íslands eða sjálfstætt starfandi jarðfræðinga. Þetta veldur líka áhyggjum.

Staðreyndin er einföld. Þegar inngrip manna í gang náttúrunnar veldur umtalsverðum jarðskjálftum er ástæða til að hinkra við og spyrja sig hvort verið sé að búa til vandamál. Geta hér orðið til náttúruhamfarir af mannavöldum?

Jarðfræðingar og margir leikmenn þekkja svokallaða bókahillutektóník. Jarðskjálftum er líkt við bækur í bókahillu. Þegar ein þeirra hallast til hliðar lendir hún á annarri sem líka skekkist og svo koll af kolli. Þannig getur jarðskjálftahrina á einum stað valdið jarðskjálftum langt í burtu.

Skjálftar á Suðurlandi færst frá austri til vesturs og því er ólíklegt að skjálftar við Húsmúla valdi hreyfingum fyrir austan fjall. Hins vegar eru þekktar misgengissprungur í nágrenni Húsmúla, á Hellisheiði og við Geitafell. Á síðarnefnda staðnum hafa skjálftar sýnt fram á virkt misgengi með stefnu vestan við Geitafell og norður yfir Bláfjöll. Á þessu svæði urðu til dæmis upptök stórra skjálfta árið 1968 sem fundust á öllu höfuðborgarsvæðinu og víðar. Getur niðurdælingin við Húsmúla valdið hreyfingu á misgenginu norðan við Geitafell?

Er þetta ekki áhyggjuefni?

Tilgangurinn með þessum skrifum er að vekja athygli á skjálftahrinunni við Húsmúla og hversu lítið er í raun vitað um afleiðingar niðurdælingar vatns. Jarðfræðingar viðurkenna að vatnið geti virkað sem smurning í sprungum og misgengjum og þegar losnar um spennu verða einfaldlega til skjálftar. Enginn getur komið í veg fyrir skjálfta, ekki einu sinni þeir sem stjórna niðurdælingunni. Jú annars, ef henni er hætt verða framvegis aungvir skjálftar af mannavöldum.


mbl.is Skjálftar tengjast niðurdælingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðhlæjendur, vinir, fréttabörn og samtrygging

Fréttastofa er hjá sjónvarpi Ríkisútvarpsins og önnur hjá sjónvarpi 365 miðla, Stöð2. Þetta eru dálítið skrýtnar aðstæður, má eiginlega líkja þeim við fótboltafélög. Fyrir leikmann virðist sem þessar tvær sjónvarpsstöðvar séu tengdar innbyrðis. Það sást best í nokkuð skemmtilegum sjónvarpsþætti í sjónvarpi Ríkisútvarpsins á laugardagskvöldið.

Svo virðist sem allir fréttamenn þessara tveggja sjónvarpsstöðva hafa flakkað til og frá. Þegar þeir hafa ekki unnið hjá Stöð2 hafa þeir verið hjá sjónvarpi Ríkisútvarpsins.

Þetta er eins og fótboltalið. Þjálfarinn hefur þjálfað helminginn af hinum liðunum og eldri leikmennirnir hafa spilað með öðrum liðum. Og allir þekkjast innbyrðis og eru vinir

Nokkrir sjónvarpsmanna sem hafa verið framkvæmdastjórar einnar sjónvarpstöðvar hafa líka verið í sama starfi á hinni. Fréttastjórarnir hafa notið þess að vera í sömu stöðu á báðum stöðvunum. Fréttamennirnir hafa hlaupið á milli, verið reknir af einni og ráðnir af hinni.

Allir eru þeir bestu vinir, „pallar“ eins og sagt er. Taka viðtöl við hver við annan og hlæja svo hátt og dátt.

„Manstu þegar við gerðum þetta ...“.

Já, en manstu eftir hinu ...“.

„Og mikið óskaplega hló ég þegar hann plataði alla ...“

Þetta eru svo skemmtilegir krakkar og nánast heimilisvinir landsmanna. Þeir hafa aldrei rangt fyrir sér af því að þeir eru svo „næs“ og „kammó“ og hafa verið með andlitið í sjónvarpinu í tugi ára. Óþægilega lengi, má vissulega segja ...

„Unga fólkið er svo óskaplega klárt, miklu skynsamar og betur menntað en það eldra.“ 

„Samt eru þeir til sem kalla ungu fréttamennina „fréttabörn“. Þvílíkur dónaskapur og mannvonska,“ sagði einn, sem þó kann að skrifa og tala og hefur ekki synt í meðalmennskunni.

„Fréttabörn“ ...

Þetta er einfaldlega hugtak sem neytendur sjónvarpsstöðva og annarra fréttamiðla hafa um þá sem skrifa og flytja fréttir á slæmri íslensku. Fólk sem ruglar saman hugtökum, orðtökum eða málsháttum, vantar nauðsynlegan orðaforða, kann ekki landafræði, veit ekki hvað stjórnar falli nafnorðs, skilur ekki viðtengingarhátt, veit ekkert um nástöðu, virðist ekki hafa ekki almenna þekkingu eða hreinlega giskar á ...

Dettur sjónvarpsliðinu það virkilega ekki í hug að neytendur hafi skoðun?

Því miður er það svo að hinir eldri og reyndari frétta- og blaðamenn lesa ekki yfir fréttir hinna yngri. Allt er látið vaða út á öldur ljósvakans eða prentað á pappír. Ástæðan er einfaldlega sú að magnið skiptir meira máli en gæðin og engin virðist hugsa um uppeldislegt gildi frétta.

Þess vegna skrifa „fréttabörnin“ mörg hver „tvitterísku“ og „fésbókísku“. Þó er vissulega til ungt fólk í fjölmiðlum sem eru sér til mikils sóma svo jafnvel margir hinna eldri ættu að taka sér þau til fyrirmyndar - láta þau lesa yfir fyrir sig.

Nei, auðvitað eru þetta bara leiðindi. Sjónvörpin eru óskeikul og þeir sem þar starfa eru óumdeilanleg enda vinir. 

Nei, kæri lesandi. Ég á ekki við neitt samtryggingakerfi. Á það ekki aðeins við um stjórnmál og atvinnulíf?

Nei, og aftur nei. Fréttaliðið klikkaði ekkert í fréttaflutningi sínum, hvorki fyrir né eftir hrun. Það ber enga ábyrgð. Við eigum bara að ráðast á Moggann og kenna honum um allt sem miður hefur farið í fortíð, nútíð og framtíð.


Skjálftarnir við Húsmúla færast sunnar

HúsmúliNiðurdæling Orkuveitunnar vegna Hellisheiðarvirkjunar virðist hafa verða til þess að stærri jarðskjálftahrina hafi orðið til á svæðinu en nokkru sinni áður.

Ég hef áhyggjur af niðurdælingunni og gat um það í pistli síðasta laugardag

Hægra megin er mynd af jarðskjálftasvæðinu og er hún fengin af vef Veðurstofunnar. Sjá má að það er suðvestanmegin við Húsmúla, í kringum Draugatjörn.

Neðra kortið er frá því síðasta laugardag.

Allir sjá að skjálftum hefur fjölgað að mun og svo virðist sem þeir teygi sig sífellt lengra til suðurs. Af samanburðinum sést að þeir eru komnir suður fyrir gamla suðurlandsveginn.

160917 HúsmúliÞað þykir fréttnæmt þegar skjálftar yfir þremur stigum verða í Bárðarbungu og keppast margir við að segja frá möttulstróknum þarna undir og ýmist að kvika sé að koma upp eða eldstöðin sé að róast eftir Holuhraunsgosið.

Sömu viðbrögð hafa ekki orðið við mikilli skjálftahrinu við Húsmúla. Fjölmiðlar þegja, leita ekki til jarðvísindamanna. Þeir virðast halda aftur af sér, segja sem minnst. Vilja líklega ekki valda óróa. Í einkaspjalli eru þeir þó afar órólegir og ekki af ástæðulausu.

Niðurdælingin er þess eðlis að um er að ræða vatn sem áður var gufa og notuð til raforkuframleiðslu í Hellisheiðarvirkjun. Til að losna við vatnið var gripið til þess ráðs að dæla því aftur ofan í jörðin. Hugmyndin var sú að þá verði til hringrás. Má vera að svo sé. 

Hins vegar er bent á að niðurdælingin valdi breytingu í jarðlögum. Þau eru af náttúrulegum ástæðum sprungin vegna flekahreyfingum og afleiðingarnar hafa verið eldgos af og til í þúsundir ár. Ísland gliðnar hægt og rólega. Vesturhluti landsins stefnir í vestur og sá eystri í austur en í miðjunni er gosbeltið.

Með því að þrýsta vatni ofan í jarðlögin er talið að til verði nokkurs konar „smurning“ sem geri það að verkum að kraftar sem valda gliðnun á Hengilssvæðinu eiga auðveldara með að hreyfa við sprungukerfunum. 

Segjum að þetta sé bara allt í lagi, jarðskjálftarnir hefðu bara komið fyrr eða síðar. Þessi rök eru þó ekki góð vegna þeirrar staðreyndar um að skjálftar á einum stað valda skjálftum á öðrum. Þetta er það sem jarðfræðingar kalla bókahillutektónk. Hún byggist á þeim einfalda atburði að byrji ein bók í bókhillu að hallast þá fellur hún á næstu bók og svo koll af kolli. 

Þetta er staðreyndin með jarðskjálfta á víðast á landinu, ekki síst á Reykjanesi og suðurlandi. Með skjálftunum á einum stað verður til orka sem safnast upp og getur leyst úr læðingi mikinn skjálfta langt í burtu eins og sannaðist í Suðurlandsskjálftunum fyrr á þessari öld og raunar síðustu aldir.

Hvað gerist nú þegar jarðlögin við Hengil eru smurð svo hressilega að þau eiga auðveldara með að hrökkva úr stöðu sinni? Ég er aðeins leikmaður og hef ekki þekkingu til að fylgja þessari hugsun til enda. 

Hins vegar hef ég verulegar áhyggjur af niðurdælingunni. Held að náttúran sé ekki þannig að hún láti einhverja leika með þá krafta sem í henni búa. Hér vantar skýringar og ég kalla eftir þeim.


mbl.is Skjálfti upp á 3,6 stig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógnir við Húsavík og Húsmúla

Jarðfræði landsins er víða áhyggjuefni. Nóg er um fræðimenn sem hafa skoðun á Kötlu, Heklu, Eyjafjallajökli, gosbeltinu sem gengur í gegnum landið og svo framvegis. Meiri áhyggjur hefur maður af stöðum þar sem vísindamenn kjósa einhverra hluta vegna að tjá sig lítið um. Ég er hef lítið vit á jarðfræði en mér hefur lengi verið starsýnt á tvo staði.

HúsavíkTjörnesbrotabeltið

Nefna má þann fallega stað Húsavík. Í gegnum bæinn gengur mikil sprunga, allt frá Þeystareykjum og út í haf, þvert um Skjálfandaflóa og fyrir mynni Eyjafjarðar. Þetta eru raunar ekki ein heldur margar sprungu, misgengi sem skera Húsavíkurfjall og miðjan bæinn og norðan við hann.

Verið er að reisa kísilmálmbræðslu nákvæmlega á hluta misgengisins sem raunar er virkari hluti þess. Sjúkrahúsið á Húsavík stendur á syðra misgenginu, beint ofan á sprungu sem við ákveðnar aðstæður mun ekki aðeins ganga í sundur heldur munu barmar hennar fara í sitt hvora áttina.

Á Húsavíkurmisgenginu er gríðarlega mikið um jarðskjálfta, allt árið um kring. Sama er með annað svæði norðan við það sem kennt er við Grímsey.

Enn norðar er annað misgengi sem kennt er við Grímsey og liggur sprunga eða sprungukerfi frá Kópaskeri og norðvestur til Grímseyjar eða aðeins norðan við eyjuna.

Tjörnesbrotabeltin tengjast fyrst og fremst flekahreyfingum. Myndin hér til hægri sýnir gríðarlegan fjölda skjálfta sem urðu á þessum Tjörnesbrotabeltinu á fimm dögum árið 2013. Með misgengi er átt við að barmar sprungu færast í gagnstæðar áttir.

HúsmuliHúsmúli

Annar staður sem vekur dálítinn óhug er Hellisheiðarvirkjun sem engu að síður er við Kolviðarhól en ekki á Hellisheiði. Þar fæst mikil gufa úr jörðu og með henni er framleidd raforka. Eftir að gufan hefur orðið að vatni og það kælst mjög mikið er því aftur dælt ofan í jörðu.

Fáir jarðvísindamenn ræða opinberlega þessa „hugvitsamlegu“ lausn. Í einkasamtölum eru þeir engu að síður nokkuð áhyggjufullir vegna þess að hún veldur beinlínis jarðskjálftum.

Í dag er mikil skjálftahrina við Húsmúla en þar er einmitt talsvert um niðurdælingu. Hrinan er öflugari en ég hef séð áður.

Þegar þetta er skrifað hafa komið sex skjálftar sem eru meira en tvö stig, þar af fjórir sem eru 2,5 stig og stærri. Um 40 skjálftar eru stærri en 1 stig.

Ég hef spjallað við jarðfræðinga sem halda því fram að niðurdæling auki á líkur á skjálftum, vatnið virki einfaldlega sem smurning. Aðrir segja að ekkert sé að óttast, þessir skjálftar verði alltaf mjög litlir.

Á grænu myndinni sem fengin er af vef Veðurstofunnar sést hvar jarðskjálftahrina dagsins er, það er suðvestur af Húsmúla, skammt frá Hellisheiðarvirkjun.

 

 


Áróður Ríkisútvarpsins gegn Framsókn og formanninum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður FramsóknarSigmundurflokksins, hlaut örugga kosningu sem oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi. Hann hlaut meira en helming atkvæða og því þarf ekki að kjósa aftur um efsta sætið. Sigmundur hlaut yfirburðarkosningu eða 170 atkvæði, 72 prósent.

Svo segir á vef Ríkisútvarpsins. Nú velti ég því fyrir mér hvað stofnunin tekur til bragðs eftir um fimm mánaða fabúleringar um valta stöðu formanns Framsóknarflokksins í kjördæmi sínu. Á þessum tíma hefur varla liðið sá fréttatími að ekki hafi verið minnst á Sigmund Davíð Gunnlaugsson  í fréttatímum og síst af öllu til að fegra ímynd hans. Þvert á móti virðist Ríkisútvarpið hafi lýst yfir hatrömmu stríði gegn manninum og flokknum hans.

Mér er nokk sama um Framsóknarflokkinn, styð hann ekki og hef aldrei gert. Get þó varla orða bundist eftir langa baráttu fjölmiðils sem ég er neyddur til að vera áskrifandi að, þess hins sama sem í þokkabót segist vera allra landsmanna.

Heiftin gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni skín í gegnum allan fréttaflutning. Ekki þannig að á hann sé ráðist eins og fréttirnar skrifi „virkir í athugasemdum“ sorpblaða. Nei, umfjöllunin er lævíslegri en svo. Fréttamenn draga til alls kyns álitsgjafa sem hafa afar fjölbreytta skoðun á báðum, síst þó jákvæða.

Skelfing sem manni leiðist þessi fréttaflutningur og þar að auki Framsóknarflokkurinn. Samt er þessu er dengt framan í hlustaendur í fréttum, fréttaskýringum og alls kyns þáttum í útvarpi og sjónvarpi. Sannkallað maraþon gegn Framsóknarflokknum.

Næst á dagskránni er aðalfundur Framsóknar og fram að þeim tíma verða alls kyns bollaleggingar fréttamanna um framtíð Sigmundar Davíðs, hvort hann verði felldur í formannskjöri, hvað verði um forsætisráðherrann og hvað Guðni Ágústsson fái sér í morgunmat og kvöldmat.

Dettur einhverjum í hug að Ríkisútvarpið hafi ekki áhrif? Stór hluti landsmanna hlustar á fréttatíma í útvarpi og sjónvarpi og margir gleyma það hrátt sem kemur í þeim. Sá tónn sem þar er sleginn, hefur gríðarleg áhrif.

Ég viðurkenni að ég á fullt í fangi með að taka á móti þessum fréttaflutningi um Framsóknarflokkinn því smám saman hefur þau áhrif að hann hefur áhrif á undirmeðvitundina, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sé hinn mesti skíthæll og landráðamaður.

Vandamálið er að ég tek fáu gagnrýnislaust, er bara betur upplýstur en svo að ég láti áróður ráða skoðunum mínum. Ég hlusta og les það sem stjórnmálamenn segja en læt ekki fjölmiðil ráða hvaða skoðanir ég mynda. Ég fylgist með fjölmiðlum, les skýrslur og afla mér upplýsinga. Þar rekst áróðurinn á vegg upplýsingarinnar.

Á grundvelli þess sem ég er, skil og veit þá veit ég að meira er spunnið í íslenska stjórnmálamenn en áróðursmeistarar og sundurlyndisfólk lætur í veðri vaka. Og ég mótmæli því að fjölmiðill sem ég er nauðbeygður til að vera áskrifandi að sé misnotaður til að hafa þau áhrif á mig að mér eigi á mislíka einhver stjórnmálamaður eða stjórnmálaflokkur.

Þrátt fyrir það sem ég hef hér sagt um Ríkisútvarpið er það ekki alls kostar slæmt og margt gott sem þar er gert.

Hér er samt eitt lítið dæmi um eitthvað sem ég skil ekki. Í Ríkisútvarpinu er verið er að auglýsa tónleika hinnar frábæru norsku söngkonu Sissel Kyrkjebø sem verða í haust. Um leið og auglýsingarnar taka að hljóma er farið að spila lög með þessari sömu söngkonu í ýmsum dagskrárliðum Ríkisútvarpsins. Þetta er ábyggilega tilviljun rétt eins og fréttaflutningurinn um formann Framsóknarflokksins.


mbl.is Sigmundur með afgerandi forystu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband