Bernhöftsbakarí er ódýrara en Sandholts

Ég gekk Laugaveginn í dag sem líklega telst ekki til tíðinda, hvorki hjá mér né öðrum. Hins vegar mun ég eiga fleiri spor þar í framtíðinni en áður, því undanfarnar vikur höfum við feðgar verið að standsetja húsnæði á miðjum Laugaveginum þar sem við munum væntanlega hafa skrifstofur ásamt fleirum.

Í hádeginu rölti ég svo út og ætlaði mér að kaupa eitthvað til að seðja sultinn. Undir stillönsum nokkru ofar er Sandholt bakaríið og þar gekk ég inn. Óhætt er að orða það þannig að ég hrökklaðist út aftur. Verðið var slíkt að ég hefði ábyggilega getað farið inn á einhvern veitingastað og keypt mér þokkalega máltíð fyrir sama pening.

Langloka með sneið af kalkún og grænmeti kostaði tæpar 1.500 krónur. Þó girnileg væri fannst mér verðið of hátt. Sama fannst mér um tvær náskyldar brauðsneiðar sem þó voru aðskildar með girnilegu áleggi og kostuðu tæplega eitt þúsund krónur. 

Sumir segja að verðalag á Laugaveginum miðist við að féfletta útlenda ferðamenn. Nærri má liggja að heilt brauð kosti í Sandholt 10.000 krónur og kalkúnninn hátt í 100.000 krónur ef hvort tveggja væri ekki hlutað niður. Dýr myndi Hafliði allur, var eihvern tímann sagt.

Á horninu á Bergstaðastræti og Spítalastígs hefur æði lengi verið starfandi bakarí sem nefnist Bernhöftsbakarí og raunar var það áður á horninu á móti. Nafnið kemur frá Tönnies Daniel Bernhöft sem kom hingað til lands 1834 og stofnaði bakarí. Og hvar skyldi það hafa verið? Jú, þar sem nú heitir Bernhöftstorfan ofan við Lækjargötu. Síðar flutti bakaríið að Bergstaðastræti 14 og enn síðar yfir götuna í húsið sem ber númerið þrettán.

Og það var einmitt í Bernhöftsbakaríi sem ég keypti tvö stór rúnstykki með skinku og osti sem afar kurteis og greiðvikin afgreiðslukona smurði fyrir mig. Þetta kostaði um 800 krónur.

Staðan er því þannig á fyrsta vinnudeginum á nýju skrifstofunni að verðlag í Sandholtsbakaríi á Laugaveginum vekur ekki áhuga minn. Hins vegar Bernhöftsbakarí sá staður sem ég mun hingað til leggja leið mína þegar garnirnar gaula á vinnudegi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ósmurð rúnnstykki voru lengi á 50kr hjá þeim en hækkaði svo í 80kr minnir mig, þegar að önnur bakarí voru að selja þau á 140 til 160kr stykkið. Veit ekki hvað þau kosta núna því ég hef ekki verið mikið að borða brauðmeti að undanförnu.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.1.2016 kl. 17:20

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég ætlaði að skrifa þetta í dag,en mundi ekki hversu langt er síðan að ég gerði lykkju á leið mína til að kaupa 50,0 kr. rúnnstykki.

Helga Kristjánsdóttir, 6.1.2016 kl. 03:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband