Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2015

Greiðsla fyrir þjónustu eða vegtollur fyrir ekkert

Nauðsynlegt er að átta sig á því að með bílastæðisgjöldum við höfnina ætlar Stykkishólmsbær einfaldlega að rukka fyrir þjónustu sem bifreiðaeigendum verður veitt. Allir geta sætt sig við slíkt enda kaup þeir þjónustuna sem vilja, hinir láta hana vera. Í stórum dráttum er sanngirnismál er að sá sem nýtir þjónustuna greiði fyrir hana, ekki hinir, hvorki skattgreiðendur né þeir sem óska ekki eftir henni.

Hitt er svo annað mál að hvorki sveitarfélög, landeigendur eða ríkisvald geta krafist greiðslu af þeim sem leggja leið sína um landsvæði meðan engin þjónusta er í boði. Nákvæmlega þetta var það sem ráðherra ferðamála ætlaði að gera, loka landinu fyrir umferð annarra en þeirra sem greiða vegtollinn. Um leið hefði aldalangri hefð um frjálsa för um landið verið lokið.

Höfuð það hugfast að á þessu tvennu sem hér hefur verið nefnt er gríðarlegur munur.


mbl.is Rukkað við höfnina í Stykkishólmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Utanríkisráðherra viðurkennir ekki mistök ...

Í rökræðum virðist ávalt vera best að segja Q þegar andstæðingurinn segir A og B - og hafa um það sem flest orð. Þannig virðist gangurinn hjá Framsóknarmönnum þegar spurt er einfaldrar spurningar um viðskiptaþvinganir á Rússland. Í ágætu Reykjavíkurbréfi í helgarblaði Morgunblaðsins er pælingin þessi:

Þá væri einnig mikilvægt að átta sig á að ekki væri um almennt viðskiptabann að ræða, heldur væri bannið sniðið að þremur þáttum, hergögnum, viðskiptum við tiltekna banka og flutningi og frystingu eigna tiltekinna einstaklinga.

Viðskiptabannið er sem sagt lagað að hagsmunum þeirra sem ákvarðanir tóku um hvernig það skyldi útfært.

Svo virðist sem að ráðherrann hafi stokkið á viðskiptabannið rétt eins og það væri almennt bann en ekki takmarkað við ákveðin viðskipti. Þar með var allt í húfu fyrir aumingja Ísland enda var ekki hugað að „efnahagslegri áhættu“ vegna útflutningsins eins og segir í Reykjavíkurbréfinu. Ekkert áhættumat var gert vegna þátttökunnar.

Við, óbreyttir borgarar, rekum upp stór augu og veltum því alvarlega fyrir okkur hvað utanríkisráðherrann var eiginlega að gera.

Utanríkisráðherra svarar höfundi Reykjavíkurbréfsins svo elgant á þessa leið:

Líttu í spegil og hugsaðu nú aðeins um hvernig staðið var að því þegar ráðist var inn í Írak sem dæmi.

Svona tala bara þeir sem sjá ekki meiri sóma af eigin ummælum en þeir sem krota í ummælakerfi fjölmiðla. Þetta er einfaldlega uppgjöf í málefnalegri rökræðu.

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins segir eftirfarandi: 

Að gefa eft­ir í mál­efn­um Úkraínu væru skelfi­leg skila­boð. Ef við get­um ekki staðið með þjóðum sem búa við of­ríki ná­granna sinna sem virða ekki alþjóðasamn­inga, þá skul­um við ekki gera kröf­ur um stuðning annarra þjóða næst þegar við þurf­um á slíku að halda.

Karl er á villigötum í umræðunni. Um þetta fjalla ekki gagnrýnin á viðskiptaþvinganir á Rússland. Aðalatriðið er að ríkisvaldið og ekki síður þingið átti að kynna sér nákvæmlega það sem í þeim felst og kynna það fyrir þjóðinni og hagsmunaðilum, sumsé áhættumat. Það var hins vegar ekki gert.

Núna hefur komið í ljós að svokallaðar viðskiptaþvinganir eru ekkert annað en máttlaus sláttur á annað handarbak Rússa; Hætt'essu elsku Pútín ..., segja Evrópusambandið og Bandaríkin og halda svo áfram blómlegum viðskiptum, þó án hergagnasölu og annars smálegs.

Allir vita að utanríkisráðherrann ætlaði ekki að stefna viðskiptunum við Rússa í tvísýnu. Hann gerði mistök, algjör mistök og fæst núna ekki til að viðurkenna þau. Frekar brúkar hann munn við þá sem gagnrýna. Ekki aðeins að hann sendi ritstjóra Morgunblaðsins tóninn vegna ósköp eðlilegrar gagnrýni heldur gerir hans eins og Karl Garðarsson, þingmaður, reynir að tala málið út og suður.

Núna hótar ráðherra fiskvinnslunni og útgerðinni og talar um að hana vanti samfélagslega ábyrgð sem skilst ekki í samhenginu. Hins vegar má lesa það út úr orðum hans að sá sem sættir sig ekki við viðskiptaþvinganirnar skal gjalda þess á öðrum sviðum. Svo virðist að ekki einu sinni megi ræða um viðskiptaþvinganirnar ella missi útgerðin kvóta ...

Í sannleika sagt þá fer ekki mikið fyrir rökræðum um þessi mál. Málflutningur ráðherrans er algjörlega út úr kú þegar aðrir ræða um:

a. Grundvallaratriði stjórnsýslunnar

b. Mistök ráðherrans

c. ...

 

 


mbl.is Enginn skortur á „stórgrósserum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert áhættumat vegna viðskiptaþvingana

Nú hefur verið upplýst að ekki var nein forvinna unnin þegar íslensk stjórnvöld og utanríkismálanefnd Alþingis mótuðu afstöðu sína um að hlaupa til eftir að fullmótuð og afgreidd tillaga ESB um viðskiptaþvinganir lá fyrir.
Íslendingar komu hvergi við sögu eða voru spurðir álits þegar til þess leiks var gengið. Ekkert áhættumat var gert áður en ákveðið var að Ísland skyldi hoppa um borð þegar það „bauðst“.

Því miður er vitað að utanríkisráðuneytinu er ekki endilega best treystandi til að gæta hagsmuna Íslands þegar kemur að samskiptum við ESB, en það missir jafnan fótanna í nálægð þess, eins og sýndi sig svo oft og með svo niðurlægjandi hætti á seinasta kjörtímabili. Og á þessu kjörtímabili undirbjó ráðuneytið hið fræga furðubréf til forystu ESB, sem valdið hefur ríkisstjórninni svo miklum vandræðum og álitshnekki.

Það er fyrst nú að renna upp fyrir fólki hversu dýrkeypt þessi síðustu afglöp eru að verða. Því, eins og fyrr sagði, var látið undir höfuð leggjast að gera áhættumat eins og sjálfsagt var og kynna það þjóðinni áður en „boðið“ um aðild að refsiaðgerðum var þegið.

Þetta er hárrétt og eiginlega lítið hægt að bæta við þessi orð. Þau koma úr leiðara Morgunblaðs dagsins.

Eitt er að hafa skoðun á yfirgangi Rússa gagnvart nágrönnum sínum, annað er að taka þátt í einhverjum viðskiptaþvingunum. Eins og Mogginn fullyrðir: Ekkert áhættumat gert.

Afleiðingarnar eru nú þær að á fjórða tug milljarða viðskipti við Rússa eru í hættu og hugsanlega fyrir bí.

Í ljósi ofangreind hefði verið nóg að ítreka afstöðu ríkisstjórnar og utanríkismálanefndar vegna yfirgangs Rússa og sleppa því að taka þátt í viðskiptaþvingunum.

Staðreyndin er einfaldlega sú að viðskiptaþvinganir geta virkað í báðar áttir.

Hélt ríkisstjórnin og utanríkismálanefnd eitthvað annað? Hvað voru þeir að hugsa sem að þessu stóðu?

 


mbl.is „Viðsjárverðir tímar víðsvegar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki í lagi með mbl.is og lögmanninn?

Hvernig getur óforskammaður munnsöfnuður og ávirðingar einhvers manns út í bæ verið fréttaefni? Svo virðist sem mbl.is sé farið að lepja upp dónaskap og ómálefnalegar upphrópanir úr Facebook.

Þó svo að sá sem hræki svona út úr sér sé lögmaður og fyrrverandi fjölmiðlagúrú á réttlætir það ekki svona „fréttaflutning“ né heldur er lögmaðurinn maður að meiri fyrir orð sín.

Hér er skiptir engu máli um hvað verið er að ræða. Orðfærið er ruddaskapur og hvergi heima nema í hausnum á lögmanninum. Hvað honum finnst kemur fæstum við. Facebook er uppfull að svona óþverralegum ummælum sem og athugsemdakerfum fjölmiðla og bloggsíðna. Ef þau eru fréttaefni væri lítið pláss eftir fyrir það sem raunverulega skiptir máli.


mbl.is Sakar ráðherra um heimsku og lygar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru þá vöð á brúuðum ám í lagi?

Vöð á óbrúuðum ám gætu orðið ófær.

Varla er verið að halda því fram að vöð á brúuðum ám séu ekki varhugaverð ...

Þessi texti hefur í meira en sólarhring glumið í fréttamiðlum og er ættaður frá Veðurstofu Ísland. Setningin er brengluð því í henni felst þversögn. Nóg hefði verið að segja: Vöð gætu/geta orðið ófær.

Vöð eru vart annars staðar en á vatnsföllum.

Þegar verið er að vara ökumenn eða aðra vegfarendur við vatnavöxtum skiptir engu máli hvort brú er yfir einhverja á. Vandinn lýtur að vaðinu. Sum vatnsföll eru brúuð en engu að síður eru vöð á þeim og þá eru brúin yfirleitt allt annars staðar. Þó þekkist að vað og brú séu á svipuðum stað en varla er verið að vara við slíku. 

Þrjár brýr eru til dæmis yfir Markarfljót en engu að að síður eru vöð á því.Brú er á Hólmsá en miklu ofar er þekkt vað á henni.

 


mbl.is Varað við vatnavöxtum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ærðir álitsgjafar

Allt í einu byrjaði einhver að garga: Þöggun! Þöggun! Álitsgjafarnir ærðust og löptu þessa orðaleppa upp hver eftir öðrum - greinilega margir hverjir án þess að hafa sjálfir lesið tilmæli lögreglustjórans. Í þeim er nefnilega ekki að finna snefil af tilburðum til þöggunar né tilmæli um slíkt. Aðeins vel rökstudd sjónarmið um tímasetningu á upplýsingagjöf með hagsmuni fórnarlambanna að leiðarljósi. Að kalla þetta þöggun er rökleysa og misnotkun á hugtakinu.

Staðreyndir málsins hindruðu þó ekki alls konar fólk í að stökkva upp á þennan útúrsnúninga- og fordæmingarvagn og óbrjálaðir menn voru jafnvel farnir að halda því fram í virðulegum útvarpsþætti að lögreglustjórinn væri sennilega að gæta einhverra vafasamra fjárhagslegra hagsmuna í Vestmannaeyjum með þessum tilmælum (sic!). Og alltaf varð ég meira og meira hissa á því hverjir tíndust upp á vagninn. Og mest hissa varð ég þegar talskona Stígamóta brást við útúrsnúningunum og ruglinu eins og um staðreyndir væri að ræða.

Þannig skrifar Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, í Fréttablaðið í dag. Vel skrifað hjá Páli. Fleiri en ég voru undrandi á herferðinni gegn lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum sem gaf það út fyrir þjóðhátíð að vegna rannsóknarhagsmuna yrði ekkert sagt um hugsanlegar nauðganir fyrr en mál væru komin á rekspöl.

Furðulegt var hve sæmilega vel gefið fólk gat æst sig út af þessari yfirlýsingu og reiknað hana til annars en hún var meint. Ég og fleiri þurftum að lesa yfirlýsinguna margsinnis og gátum þó ekki skilið hana á þann veg sem álitsgjafarnir héldu fram. Síst af öllu var yfirlýsingin einhver þöggun og þá hugsanlegum fórnarlömbum til frekari vandræða né heldur var hún fram sett til að gæta annarra hagsmuna en fórnarlamba þeirra skelfilegu árása sem nauðganir vissulega eru.

Þó ekki væri anna en af þessu þarf að taka því sem sjálfskipaðir álitsgjafar með mikilli varúð.

Og svo segir Páll:

Þá bar svo til að ung kona, hugrakkur þolandi tveggja nauðgana, steig fram og lýsti opinberlega heilshugar yfir stuðningi við þau sjónarmið sem fram komu í tilmælum lögreglustjórans. Ætla álitsgjafarnir og talskona Stígamóta líka að saka þessa konu um tilburði til þöggunar - eða skilningsleysi á hlutskipti þolandans?


Hvað er til ráða er fólki verður mál?

Þórólfur [Mostraskeggur] kastaði þá fyrir borð öndvegissúlum sínum, þeim er staðið höfðu í hofinu. Þar var Þór [goðið] skorinn á annarri. Hann mælti svo fyrir að hann skyldi þar byggja á Íslandi sem Þór léti þær á land koma. En þegar þær hóf frá skipinu sveif þeim til hins vestra fjarðarins og þótti þeim fara eigi vonum seinna. [...]

Þar sem Þór hafði á land komið, á tanganum nessins [Þórsness], lét hann hafa dóma alla og setti þar héraðsþing. Þar var og svo mikill helgistaður að hann vildi með engu móti láta saurga völlinn, hvorki í heiftarblóði og eigi skyldi þar álfrek ganga og var haft til þess sker eitt er Dritsker var kallað.

Svo segir í Eyrbyggju frá landnámi á Þórsnesi en á því nyrst stendur nú sá fallegi bær Stykkishólmur. Enginn skyldi ganga örna sinna á þingi heldur fara erinda sinna út í sker.Sem kunnugt er heitir þingstaðurinn Þingvellir á Þórsnesi og má ekki rugla saman við annan stað með sama nafni.

Ekki þarf nú Eyrbyggju til að ímynda sér að úrgangur hafi verið til ama, sérstaklega þegar margir koma saman. Fólk getur rétt ímyndað sér hvernig staðan hafi verið á Þingvöllum syðra þegar Alþingi var háð og mörg hundruð og jafnvel þúsund manns eða fleiri komu til starfa. Þó engir hafi fært í fornar bækur vandkvæði sem hljóta að hafa fylgt stórum og litlum samkomum þýðir það síst af öllu að allir hafi verið glaðir og kátir og enginn fnykur í loft þar sem ilmur af birki og lyngi var alla jafna að sumri til.

Í fámenninu skipti litlu þó einn og einn brygði sér afsíðis og létti á sér. Það gerðist auðvitað í ferðalögum á öllum tímum og flestir hljóta að hafa notað náttúrulegar aðstæður þegar kallið kom.

Auðvitað kann útlensku fólki að finnast þetta undarlegar aðfarir. Man eftir fleiru en einu tilviki að til mín kom útlent fólk sem ég var með í fjallaferð og spurði: „Where is the bathroom, I need to go ...“. Og maður leit í augun á þessu fólki og bað það um að litast um. Bak við næsta stein og þvottur í læknum ...

Svona er nú lífsins gangur að hluti af því sem fólk neytir þarf útgöngu á einhvern hátt. Það á ekki að koma neinum á óvart, hvorki í Noregi né á Íslandi.

Hér á landi halda margir að ekkert nema gott fylgi auknum fjölda ferðamanna. Því miður er það nú þannig að vont fólk flækist með sem er heimamönnum og öðrum til leiðinda. Margir meiða sig og slasa, sumir týnast og þurfa hjálp af ýmsu tagi. Öllum er það svo sameiginlegt að verða á einum tíma eða öðrum mikið mál. 


mbl.is „Það er saur í nánast hverjum runna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Esjan í kaldri kvöldsól

 Esjan vesturhluti cEsjan er fagurt fjall. Kvöld eitt fyrir stuttu var ég staddur á Seltjarnarnesi, var að prufukeyra nýju Nikon myndavélina mína og smellti þessari mynd af fjallinu fríða. Þegar heim var komið velti ég fyrir mér örnefnum og fannst mér ég ekki þekkja nógu mörg þarna og setti þau sem ég vissi um inn á myndina. Bar ég hana síðan saman við landakort og viti menn, á því eru ekki mörg örnefni önnur en þau sem ég þekkti fyrir. Nóg um það, vonandi hefur einhver gagn af myndinni.

Um miðja myndina er ritað nafnið Dýjadalshnúkur. Milli hans og Lág-Esju er stór dalur, Blikdalur (stundum ritað Blikadalur). Hægramegin er á myndinni er Kerhólakambur og þar fyrir neðan örnefnið Laugargnípa (stundum ritað Laugagnípa). Ég er alls ekki klár á staðsetningu hennar, held að hún geti verið tindurn í klettabeltinu fyrir neðan, vinstra megin við Árvallargil.

Um myndina má eflaust margt segja. Takið eftir skugga sem fellur á miðjar hlíðar Esjunnar, fer lækkandi til austurs, og svo annan fyrir neðan. Kvöldsólin og ský á himni skapa þessa sérkennilegu skugga. Sjá má að það var kalt í veðri, myndin er nokkuð köld, þó svo að björt kvöldsólin lýsi hana upp. Kosturinn er þó sá að lág sólin markar skugga í fjallið og það verður fyrir vikið nokkuð skýrt ásýndar.

Hvað myndavélina varðar er það að segja að ég hef átt Nikon næstum því frá því að ég fór að taka myndir um tvítugt. Var þó miðið að velta fyrir mér að kaupa í þetta sinn Cannon en lét það vera, ég átti tvær góðar linsur og sem passa ekki á þá vél. Svo kaupin voru um garð gegnin kom í ljós að Nikon linsan, 18-135 mm, var biluð og reyndist afar dýrt að gera við hana. Jæja, gert er gert, ég nota þessa myndavél í einhvern tíma og velti síðar fyrir mér hvort ég eigi að kaupa Cannon.

 


Lélegur kjúklingur í verslunum og skemmist fljótt

Lítið framboð virðist vera af kjúklingi upp á síðkastið og í þokkabót þolir hann illa geymslu og skemmist þar af leiðandi fljótt. Hjá mér hefur það gerst oftar en nokkru sinni áður að kjúklingur í ísskápnum er farinn að lykta illa allt að fjórum dögum fyrir síðasta söludag. Munum að sú dagsetning miðast eingöngu við sölu, ekki að fæðan sé ónýtt.

Hvernig getur kjúklingur skemmst í kæli öðru vísi en að hann sé þar annað hvort of lengi eða hann hafi verið skemmdur fyrir.

Mér finnst þetta nú ekki einleikið og þegar ég skilaði enn einu sinni skemmdum kjúkling spurðist ég fyrir hjá Bónusinu og Krónunni. Vildi vita hvort ég einn væri svona óheppinn eða hvort fleiri hefðu lent í því sama.

Svörin voru sláandi. Fjöldi fólks kvartar og skilar illa lyktandi kjúklingi.

Þá skoðaði ég framboðið af kjúklingi. Það er núna margfalt minna en var fyrir verkfall. Áður voru troðfullar hillur af ferskum kjúklingi en nú eru pakkarnir í samanburðinum afar fáir. Eitthvað hefur gerst og eitthvað veldur því að kjúklingurinn þolir ekki geymslu.

Án þess að hafa neitt fyrir mér giska ég á að verkfallið í vor hafi farið illa með kjúklingaræktendur og það sé langt að bíða eftir því að framleiðslan komist í samt lag. Um leið getur verið að frosinn kjúklingur sé þýddur og svo sendur í búðir eða þetta gerist í verslunum. Líklega er geymsluþol afþýdds kjúkling minna en fersks og því skemmist hann löngu fyrir síðasta söludag.

Þegar öllu er á botninn hvolft er gjörbreytt ástand á markaði með kjúklingakjöt.


Sprengjunum átti aldrei að varpa á Japan

Eftir því sem lengra hefur liðið frá kjarnorkuárásunum á Hiroshima og Nagasaki koma staðreyndirnar enn betur í ljós. Árásirnar voru hrikalegri en nokkur orð fá lýst og varla að nokkur maður hafi skilning á þeim söguskýringum sigurvegarana að þær hafi verið nauðsynlegar til að binda enda á styrjöldina við Japani.

Afleiðingarnar voru einfaldlega slátrun á 234.000 almennum borgurum og þeir sem eftir lifðu bjuggu ótrúlegar kvalir í skamman eða langan tíma. Þeir sem urðu fyrir geislun þurftu að búa við skaðann sem eftir var ævi þeirra, raunar allt til þessa dags.

Með þá vitneskju sem mannkynið hefur af þessum atburðum er ljóst að sprengjurnar átti aldrei að nota. Þessi þekking sem við höfum núna á afleiðingunum var of dýru verði keypt.


mbl.is Fullkomin tortíming
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband