Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2015

Vilhjálmur Bjarni Vilhjálmsson

Eitt sinn varð ég þess heiður aðnjótandi að sitja í fjögur ár í umhverfisráði Reykjavíkurborgar, eins og það hét þá. Þar kynntist ég mörgu góðu fólki, bæði í minnihluta og meirihluta og einni starfsmönnum borgarinnar. Hulda Valtýsdóttur var formaður ráðsins.

Meðal þeirra sem sat í ráðinu var sá sómadrengur Vilhjálmur Guðmundur Vilhjálmsson og þar sem hann var heyrnarlaus þurfti hann á túlki að halda og oftast kom faðir hans með honum, Vilhjálmur Bjarni Vilhjálmsson.

Feðgarnir voru afar eftirminnilegir, ekki þó fyrir þá sök að annar var heyrnarlaus, heldur vegna þess hversu mikið og gott þeir lögðu til málanna og hversu notalegt var að umgangast þá.

Vilhjálmur Bjarni lést þann 23. júlí 2015, rétt nýorðinn 83 ára. Jarðarför hans er í dag og er hans minnst í minningargreinum Morgunblaðsins.

Mér fannst lítill munur vera á pólitískum skoðunum Vilhjálms eldra og þess yngra. Man eftir því að stundum hnykkti sá eldri á túlkun sinni á því sem sonurinn sagði með nokkrum vel völdum orðum frá eigin brjósti og sjaldnast brást það að sá yngri fylgdist vel með og kinkaði kolli til samþykkis á viðbótinni.

Stundum var harkalega deilt í ráðinu enda andstæðingar okkar Sjálfstæðismanna ekki neinir aukvisar. Feðgarnir áttu þá til að bera klæði á vopnin og auk þess varð sjálfkrafa dauðaþögn þegar Vilhjálmur yngri talaði og einnig þegar faðirinn túlkaði. Eftir það var eiginlega allur vindur úr okkur sem harðast deildum og menn sammæltust um að vera ósammála og var það fært til bókar.

Á þessum árum voru verkefni umhverfisráðs fjölmörg og eðlilegur þáttur þeirra að gæta að náttúru og umhverfi í framkvæmdum í Reykjavík og ekki síður þar sem borgin átti land.

Þannig var það þegar undirbúin var lega heitavatnsleiðslunnar frá Nesjavöllum til Reykjavíkur. Hún var skipulögð yfir Dyradali, norðaustan Hengils. Einhvern veginn hafði svo æxlast til að leiðslan og vegurinn voru ákveðin í gegnum Dyrnar sem dalirnir voru kenndir við. Þetta líkaði mér illa og barmaði mér óskaplega vegna þessa en fékk um síðir ráðið til að leggjast gegn því að Dyrnar væru snertar.

Úr varð að leiðslan og vegurinn voru lögð suðvestan við þær án nokkurs rasks í Dyrunum. Og þannig eru þær núna. Þeir feðgar studdu hiklaust þessa tillögu og síðar allt ráðið, raunar eftir skoðunarferð á vettvangi. 

Eftir að starfinu í umhverfisráði Reykjavíkur lauk höfum við Vilhjálmur sjaldan hist en þegar það gerðist voru alltaf fagnaðarfundir. Og þannig minnist ég öndvegismannsins Vilhjálms Bjarna Vilhjálmssonar, brosandi, kátan og elskulegan.

Ég sendi mínum gamla vini Vilhjálmi Guðmundi og stórfjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.


Sannfærandi um ekki neitt

Einhvern tímann var talið að fyrir stjórnmálamann væri mikilvægast að svara pólitískum ásökunum sem fyrst. Svara, svara, svara, svo maður sé ekki álitinn rökþrota ...

Ögmundur Jónasson, fyrrum ráðherra og núverandi alþingismaður Vinstri grænna, svarar í Morgunblaði dagsins grein sem Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðiflokksins ritaði í síðustu viku. Ég gerði þessa grein Óla Björns að umtalsefni samdægurs, sjá hér og fagnaði henni enda vel skrifuð og málefnaleg.

Skemmst er frá því að segja að Ögmundur svarar fæstu af því sem er umfjöllunarefnið í grein Óla Björns. Eftirfarandi stingur dálítið í augun við lestur greinar Ögmundar:

  1. Hann dregur ekkert í land með ódrengilegar dylgjur um Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins sem Óli Björn ásakar hann um.
  2. Hann bakkar ekkert með dóm sinn „yfir tugum einkafyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og segir að um brask sé að ræða“ eins og Óli Björn orðar það.
  3. Ekki eitt orð hjá Ögmundi um að ríkisstjórnin sem hann sat í hafi samið við einkafyrirtæki í heilbrigðisþjónustu.
  4. Hann kennir hruninu um lág framlög ríkisstjórnar vinstri manna til heilbrigðismála en nefnir ekki verulegar árlegar hækkanir núverandi ríkisstjórnar til þeirra og Landspítalans.
  5. Hann nefnir ekki einu orði þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn styður íslenska heilbrigðisþjónustu í orði og á borði enda hentar það ekki í áróðrinum.

Eflaust er hægt að tiltaka fleiri atriði í Morgunblaðsgrein Ögmundar. Niðurstaðan er einföld. Greinin er almennt tal, engin rök engar tölulegar staðreyndir sem hnekkja því sem Óli Björn sagði í grein sinni.

Í skjóli orðaflaums reyna stjórnmálmenn eins og Ögmundur að fela sig í þeirri von að almenningur sjái ekki í gegnum hann. Ekki vantar orðafjöldann en efnislega er greinin rýr.

Eða eins og sagt var um annan góðan mann: Hann talar svo sannfærandi um ekki neitt.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband