Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2015
Hvort er mikilvægara, aðferðafræðin eða svarið?
25.2.2015 | 01:19
Nú er um að gera að verða fyrstur til og giska á hvar næsta eldgos brýst út ...
En ... þetta er nú ekki svo einfalt, eins og reikningskennarinn minn sagði í gamla daga. Litlu skiptir hvort þú sért með rétt svar heldur er aðalatriðið hvernig þú fékkst það.
Jæja, þá skal það hér upplýst að ég hef ekki hundsvit á jarðfræði. Ég er hins vegar eins og margir aðrir, les, reyni að skilja og fæ einhverja niðurstöðu. Því miður getur bæði svarið og aðferðafræðin verið röng. Við það verður maður bara að lifa, ekki nenni ég að skrá mig í jarðfræðideildina þó það gæti verið gaman.
Eldgosið í Ómarshrauni er að deyja út. Aðfærslugangur kvikunnar lætur á sjá, straumurinn er miklu minni en hann var og hann þrengist ábyggilega og hálflokast á köflum og skjálftar mælast. Kvikan aðra útrás, hvort heldur hún komi lárétt eða skáhalt út úr kvikuhófi eða hólfum Bárðarbungu.
Þegar gler brestur eða brotnar verða til sprungur sem breiðast tilviljunarkennt út um glerflötinn. Hugsanlega veldur brotunum mismunandi hitastig, þykkt eða eitthvað annað í glerinu. Að minnsta kosti má álykta sem svo að sprunga eða brestur leiti eftir auðveldustu leiðinni. Þannig virtist það gerast þegar berggangurinn leitaði til norðurs frá Bárðarbungu. Kvikan fann auðvelda leið, jafnvel þá sem hún hafði farið áður, t.d. 200 árum fyrr. Kann að vera að sagan hafi endurtekið sig.
Nú má ætla að enn sé kvika á faraldsfæti í Bárðarbungu, ef svo má komast að orði (eða að faraldsfótur hennar sé kvikur ...). Hvert skyldi hún leita ef norðurleiðin er að teppast og krafturinn að minnka.
Augu margra hafa beinst að Tungnafellsjökli. Hann er askja, nokkru minni en Bárðarbunga. Þar hafa orðið margir jarðskjálftar sem tengjast Bárðarbungu og raunar hafa orðið þar skjálftar á síðustu árum sem tengjast henni ekki. Hins vegar kann að vera að tengslin milli þessara tveggja askja séu mikil og berggangur sé að myndast frá Bárðarbungu og í norðanverðan Tungnafellsjökul. Þangað sé auðveldasta leiðin fyrir kvikuna. Raunar er önnur askja sunnar í Vonarskarði en hún virðist ekki hafa komið mikið við sögu upp á síðkastið.
Sumsé, ég veðja á að eitthvað gerist í Tungnafellsjökli norðanverðum einhvern tímann á næstunni. Ef ekki þá einhvers staðar annars staðar. Um hið síðarnefnda held ég að allir geti verið sammála, jarðfræðingar, draumspakir, spákellingar, miðlar og við hin.
Verði gos í Tungnafellsjökli einhvern tímann á næstu árum og svo ólíklega vilji til að ég muni eftir þessum ómerkilega pistli mínum, ætla ég að hrópa hæst allra: Ég vissi'ða. Fá síðan að fara í viðtal í Kastljósinu, gera mig breiðan og gáfulegan en muna eftir að segja sem minnst sem jarðfræðingar geti hankað mig á. Enda er ég minnugur orða reikningskennarans sem sagði að svarið skipti minna máli, því aðferðin sé eiginlega það sem segir til um spekina.
Og lesandi góður, þetta á við um alla sem tjá sig, hvort heldur það eru kjaftaskar í athugasemdakerfum fjölmiðla, gáfumenni í háskólanum, spekingar í þjóðlífinu ... og þig.
Rökstuðningurinn er oft meira virði en svarið því það síðar nefnda getur verið rangt en röng aðferðafræði getur aldrei leitt til þess að svarið verði rétt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bölvað rugl í frétt mbl.is
22.2.2015 | 17:48
Ekki er nóg að skrifa frétt, blaðamaður verður að skilja um hvað hann er að skrifa. Raunar skiptir hér höfuðmáli að kunna eitthvað í landafræði.
Í þessu veðri fer enginn upp á Mýrdalsjökul, jafnvel þó frá einhverjum stað sé þannig styttra á Mælifellssand. Snælduvitlaust veður er á jöklinum.
Sé lagt upp úr Fljótshlíð og að Slysaöldu á Mýrdalssandi er algjörlega úr leið að fara á Mýrdalsjökul. Þess í stað er ekið upp í Emstrur og þaðan á Mælifellssand og að Slysaöldu þar sem ætlað er að ferðalangurinn sé.
Ég hef enga trú á því að björgunarsveitir komist upp fyrr en veður lægir. Ofan við Fljótshlíð er afar erfitt land þó ekki sé annað en að komast að brúnni yfir Markarfljót og aka yfir hana - fannfergi gæti verið á henni. Þar að auki fer brátt að skyggja. Að sumarlagi tekur um þrjá tíma að aka að Slysaöldu. Núna um tíu klukkustundir, jafnvel lengur.
Legg til að blaðamenn skoði landakort áður en þeir skrifa frétt af þessu tagi. Margvísleg kort af landinu er hægt að finna á netinu.
Berja sér leið að jöklinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trú fólks er einkamál, kemur öðrum ekkert við
17.2.2015 | 21:40
Morgunblaðið notar frekar niðurlægjandi fyrirsögn á frétt. Hermir upp á presta að þeir fari á límingum. Merkingin á þessu orðtaki er að viðkomandi missi sjálfstjórn sína vegna greinar Jóns Gnarr sem blaðamaður telur eflaust réttari en viðhorf prestanna.
Staðreyndin er hins vegar sú að mönnum er frjálst að hafa skoðun á kristinni trú sem og öðrum trúarbrögðum. Eðlilega rísa fjölmargir upp til varnar sinni trú. Það þýðir ekki að allir séu að fara á límingunum þó sumum reynist illt að halda sig við rök.
Hér er ekki úr vegi að velta því fyrir sér hvers vegna einhver vilji gera lítið úr trú annars. Jú, oftast er það vegna þess að sá hinn sami vill upphefja sjálfan sig á kostnað þess trúaða eða hann vill halda því fram að trúin sé ósannað fyrirbrigði. Hvort tveggja er svona frekar heimskulegt. Tilraun til þess að gera útaf við þann sem trúir eða trú hans er svona svipað eins og að gera lítið úr þörf einstaklings fyrir hreyfingu, lestri, hugleiðslu eða álíka. Grundvallarreglan á að vera sú að láta trú fólks afskiptalausa. Eðli trúarbragða er yfirleitt sprottin af innri þörf. Sá hlýtur að vera ansi hreint vitlaus sem heldur að hann sé þess umkominn að geta fengið einhvern til að afneita trú sinni.
Í ljósi þessa er ótrúlegt að fyrrum borgarstjóri skuli sjá sér sóma í að agnúast út í trúarbrögð. Hins vegar gerir hann það á frekar hófstilltan máta og það mega þeir sem standa upp til varnar kristinni trú líka gera. Algjör óþarfi er að stilla fólki upp við vegg vegna skoðana sinna, hvort heldur það er með eða á móti ákveðinni trú.
Prestar fara á límingum yfir Jóni Gnarr | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Með skattsvikum á að kaupa lista yfir skattsvikara
11.2.2015 | 15:47
Helv... skattsvikararnir. Þá á að hengja þá í hæsta gálga fyrir að svíkjast um að greiða skatta til samfélagsins.
Alveg hárrétt. En hvernig eigum við að ná til þeirra?
Jú, kaupum listann með nöfnum þessa svikara og þá vitum við það
Ríkissjóður á sem sagt að kaupa lista yfir skattsvikara en kaupandinn vill fá peningana skattfrjálsa.
Sér enginn þversögnina í þessu máli? Virðulegt stjórnvald á að berjast gegn skattsvikum með því að kaupa á skjal og kaupin má ekki gefa upp til skatts.
Verjum 150 milljónum króna í að kaupa af einhverjum huldumann lista af nöfnum sem jafnvel skattrannsóknarstjóri séð hafa séð en getur ekki ábyrgst að komi að neinum notum.
Og svona æsir hver annan upp og nota til þess öll ráð til að berja á ríkisstjórninni. Þingmenn sem illa eru upp aldir segja það hreint út að fjármálaráðherra vilji ekki kaupa listann vegna þess að hann sé að verja einhverja peningamenn sem séu á þessum lista.
Þetta heitir að dorga í gruggugu vatni í þeirri von að húkka eitthvað sem hægt er að nota gegn ríkisstjórninni. Stjórnarandstaðan vill kaupa vöru á svörtu til að berjast gegn skattsvikum. Er það ekki svipað og að beita ofbeldi til að berjast gegn ofbeldi? Er þetta ekki svipað og að njósna um samborgara sína ef vera kynni að þeir væru að aðhafast eitthvað óleyfilegt?
Mörgum þótti nóg um umræðuhefðina fyrir hrun og kröfðust breytinga á henni. Vildu að hún yrði kurteisari og málefnalegri. Þeir sem hæst höfðu um þau mál hafa fæstir breytt sínum talsmáta enda jafnan svo að flestum er starsýnt á flísina í augum náungans er gera ekkert vegna bjálkans í sínu eigin. Og svo er það einstaklega gaman að rífa kjaft og ausa aðra auri en auðvitað er það ekki hluti af gagnrýnisverðri umræðuhefð.
Þetta er gamalt trix sem að Davíð Oddsson notaði jafnan til að boxa embættismenn. Þeir hafa tekið það upp eftir honum, segir Össur. Báðir hafi til að mynda hlaupið í vörn fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, í lekamálinu svonefnda og verið með mjög óviðeigandi yfirlýsingar gagnvart umboðsmanni Alþingis. Nú hafi það sama gerst í umræðu um kaup á gögnunum.
Hver lætur hafa svona á eftir sér í visir.is nema Össur Skarphéðinsson, þingmaður, maðurinn sem heldur að hann sé svo óskaplega skemmtilegur að eigin sögn og ritfær. Hvað hefur breyst hjá Össuri eftir hrun. Er hann orðinn miklu málefnalegri en áður. Nei, svo virðist ekki vera. Hins vegar er það stefnan hjá Samfylkingunni að ráðast að persónu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og beint og óbeint halda því fram að hann gangi einhverra annarra erinda
Ég velti því fyrir mér hvort skattsvikaralistinn sem kaupa skal á svörtu sé skynsamleg kaup. Hér eru nokkur álitamál:
- Getur stjórnvald keypt gögn frá nafnlausum seljanda?
- Hvernig er kaupin bókfærð í ríkisbókhaldi eða má samkvæmt lögum útbúa fylgiskjal þar sem aðeins segir að greiddar hafa verið 150 milljónir króna til huldumanns?
- Dugar ofangreint að mati ríkisendurskoðunar?
- Reynast upplýsingar gagnslausar, hver ber ábyrgðina á kaupunum?
- Hvað með jafnræðisregluna í gjaldeyrishöftum þegar ríkisstofnun fær leyfi til að kaupa vöru en einstaklingar og félög fá ekki að fjárfesta erlendis eða greiða?
Tvöfalt siðgæði skattyfirvalda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Engin mótmælaganga þjóðarleiðtoga - aðeins uppstilling
9.2.2015 | 10:07
Muna lesendur eftir öllum látunum þegar forsætisráðherra Íslands fór ekki í samstöðugönguna vegna morðanna í útgáfufyrirtæki Charlie Hebdo. Sagt var að allir málsmetandi forsætisráðherrar og þjóðarleiðtogar hefðu raðað sér fremstir í göngu þúsunda til varnar tjáningarfrelsinu.
Nú berast þær fréttir að samstöðuganga fyrirfólksins í París hafi ekki verið eins og fjölmiðlar vildu telja okkur trú um. Við fengum myndina af samstöðunni eins og hún birtist hér hægra megin á síðunni og við, lesendur fjölmiðla, táruðumst yfir góðmennskunni. Sáum þó marga þjóðarleiðtoga sem hingað til hafa ekki verið þekktir sem ákafir stuðningsmenn tjáningarfrelsins í löndum sínum og jafnvel ekki annars staðar. Látum það nú samt vera.
Ögmundur Jónasson, þingmaður, vakti athygli á heimasíðu sinni á vefsíðunni voltairenet.org. Þar kemur loksins fram að samstöðugangan var aðeins ómerkilegt PR trix. Hann segir á vefsíðu sinni:
Ég stóð í þeirri trú að leiðtogar rúmlega fimmtíu ríkja, auk fulltrúa einhverra ríkja til viðbótar, hefðu staðið í fararbroddi tveggja milljóna Frakka til stuðnings tjáningarfrelsinu eftir morðin í París í ársbyrjun.
Svo var ekki upplýsir vefsíðan voltairenet.org. Látið hafi verið líta útfyrir að forystufólkið hefði staðið í fararbroddi en veruleikinn hafi verið allt annar. Þessi mannskapur hafi mætt í hliðargötu til myndatöku en síðan ekki söguna meir.
Ef til vill skiptir ekki höfuðmáli hvort stjórnmálamennirnir voru aðeins á myndum sem teknar voru til hliðar því þeir voru þrátt fyrir allt mættir til að sjást og tengjast samstöðufundinum. En ef þetta er aukaatriði þá gildir það varla um þögn fjölmiðlanna og samvinnu (samsekt?) þeirra í að klippa saman í eitt, fjöldann og forystumennina, og láta líta svo út að þeir hafi staðið í farabroddi fólksfjöldans. Þetta virðist nefnilega hafa kallað á natni og yfirlegu að láta allt líta út öðru vísi en það var!
Undir þessi orð Ögmundur tek ég fullkomlega. Þetta er ein mesta fréttafölsun sem ég man eftir í seinni tíð.
Þeir íslenskir stjórnmálamenn sem gagnrýndu forsætisráðherra vissu að sjálfsögðu ekki um þetta ómerkilega leikrit sem sett var á svið í hliðargötu í París fyrir ljósmyndara og kvikmyndatökumenn eina. Og ekki vissi forsætisráðherra af þessu sjálfur.
Í ljósi þessa er þó ástæða til að gagnrýnendur hugsi sitt mál og séu varkárari í orðavali næst þegar svona mál koma upp. Og svona lagað mun gerast aftur. Gagnrýnin á forsætisráðherrann hlýtur nú að skoðast í þessu ljósi.
Skömmin er hins vegar fjölmiðla og þjóðarleiðtoga sem lugu að heimsbyggðinni.
... núna var ég næstum dottinn!
1.2.2015 | 14:41
Alveg er það ótrúlegt með suma fjallakalla að þeir geta ekki lært nokkurn skapaðan hlut af reynslu sinni. Sko, þannig var það með einn þeirra sem gekk á Vífilsfell í gær. Auðvitað þurfti hann að fara einn síns liðs sem enginn á að gera í fjallaferðum að vetrarlagi. Og fleira klikkaði.
Hann gekk upp norðausturleiðina. Þar var nokkuð mikið fannfergi svo hann færði sig yfir á næsta hrygg austan við hana því þar virtist snjórinn vera minni.
Á leiðinni að fjallsrótunum var honum hugsað til þess að snjórinn gæti verið djúpur og fafið för. Honum til mikillar ánægju var snjórinn frekar harður og gekk því gangan betur þar til brattinn varð meiri. Þar var harður snjór og ís víða undir og því erfitt að marka spor. Skórnir voru hins vegar þykkir og hann sparkaði bara nægilega fast til að fótfesta náðist.
Fyrir ofan sá hann tvo göngumenn sem tóku sér langa hvíld rétt fyrir neðan Sléttubrún. Hvað í fjandanum eru þeir nú að bardúsa? hugsaði okkar maður. Jú, annað hvort voru þeir að setja á sig snjóþrúgur eða skíði ... Nei, það getur ekki verið líklega eru þeir að festa á sig brodda.
Og hvar eru broddarnir mínir og fyrst að út í þá sálma er farið, hvar er ísöxin?
Hann varð að viðurkenna í einræðu sinni að hvort tveggja hafði gleymst heima.
Hvernig í ands... getur gerst? Fastur útbúnaður í fjallaferðum að vetrarlagi er ekki í bakpokanum heldur niðri í geymslunni heima.
Hann bölvaði og arkaði áfram upp hlíðina, skrikaði fót, studdi sig við göngustafina, sparkaði enn fastar í snjóinn, leitaði að mýkri snjó og loks komst hann upp að hömrunum efst. Þar var snjórinn grjótharður. Alveg upp við hamrana var hægt að feta sig áfram þessa tvo metra uns brattinn minnkaði.
Loksins var kallinn kominn upp á Sléttu. Fyrir framan var Móbergshryggurinn og toppstykkið. Hann leit til baka og sá að fyrir neðan voru þrír göngumenn með hund komnir langleiðina upp. Fjandinn, þeir hljóta að vera með brodda á skónum, hugsaði okkar maður um leið og hann arkaði áfram yfir Sléttu.
Þannig er það allaf að mikil orka fer í að komast upp á Sléttu og þegar þangað er komið gleymist allt erfiðið enda svo ákaflega létt að ganga að Móbergshryggnum. Þar var snjórinn frekar mjúkur og frekar auðvelt að marka spor í hann. Auðveld ganga, aðeins þurfti að ganga dálitlar króaleiðir og velja mjúka snjóinn. Allt gekk vel þangað til þann snjó þraut í miðjum hlíðum. Framundan var bara þunn snjóskel og ís undir.
Nú voru góð ráð dýr og ég hann vissi hvað til míns síns friðar heyrði. Lengra yrði ekki farið á þessum fagra vetrardegi þegar lognið lék við vanga og frostið herti hugann. Vissulega er það rétt að stór hluti í þjálfun fjallamanns felst í því að hann tileinki sér þá hugsun að það sé engin minnkun í því að hætta við, snúa til baka. Hann átti í raun og veru ekkert val.
Ágæti lesandi, settu þig nú í spor þess sem stendur í ótraustu spori, eiginlega á tánum, og þarf að snúa sér við og ganga niður. Já, það er rétt til getið. Nú hafði aldeilis versnað í'ðí. Miklu auðveldara er að ganga upp í móti en niður í svona aðstæðum.
Dsíös, hrökk upp úr honum þegar hann var að snúa sér við. Vinstri fótur snéri í austur og sá hægri þurfti að finna festu neðan við hann og snúa í sömu átt, Fæturnir voru komnir í kross.
Kæri lesandi, ekki reyna þetta, jafnvel ekki heima.
Þarna skrikaði sá hægri örlítið og hann sá sæng sína útbreidda (þýðir eiginlega að hann hafi verið að dauða kominn hefði hann hrapað). Og upp í hugan kom hrafl úr kvæðinu eftir Tómas Guðmundsson:
Finna, hvernig hjartað berst,
holdið merst
og tungan skerst.
Ráma allt í einu í Drottinn:
Elsku Drottinn,
núna var ég nærri dottinn!
Þér ég lofa því að fara
þvílíkt aldrei framar, bara
ef þú heldur í mig núna!
En svo náðist festa og hægt að koma vinstri fæti fyrir með stefnu í vestur enda tilgangurinn að snúa baki í brekkuna. Það tókst með herkjum. Hann furðaði sig á því hvernig hann hafði komist þarna upp því gangan niður á Sléttu tók þrisvar sinni lengri tíma en uppferðin.
Skjálfandi stóð hann á Sléttunni og óttaðist það eitt sem við tók handan hennar. Það yrði engin skemmtun. Á brúninni sá hann að þremenningarnir og hundurinn höfðu gengið niður sömu leið sem hann hafði farið upp. Eitthvað hafði nú gerst í hópnum því hér og þar var blóð í snjónum. Ekkert sást hins vegar til göngumannanna, þeir voru áreiðanlega löngu komnir í bílinn og farnir alla vegi veraldar.
Gangan frá vörðunni og niður vestari hrygginn var skelfilega erfið. Slydduhríð hafði greinilega frosið ofan á grjótinu í hryggnum og þar var því litla fótfestu að ná. Skynsamlegra að reyna að fara niður snjóinn þó harður væri. Tvö hundruð metrar. Ég Hann fylgdi ógreinilegri slóð þremenninganna sem höfðu farið nær því sömu leið niður og hann upp.
Líklega er bara hollt að ganga niður snarbratta, ísilagða hlíð. Að minnsta kosti verður hjartslátturinn hraður og öruggur, ryður kransæðakíttinu út úr sér.
Örþreyttur studdi okkar maður sig við bílinn í lokin og leit til Vífilsfells sem horfði til baka, alvarlegt, óumbreytanlegt og fagurt. Ég á einhvern tímann eftir að drepa mig þarna, hugsaði ég hann.
Má vera, hugsaði Vífilsfell á móti í frostkyrrðinni. Lærðu nú af þessari reynslu og hafði ísöxina og broddana með í næstu ferð. Það dregur snarlega úr áhættunni.
Myndirnar (smella á hverja mynd tvisvar til að stækka)
- Efsta myndin er af Vífilsfelli. Rauða leiðin er hin hefðbundna gönguleið. Sú gula er sú sem ég fjallakallinn gekk upp.
- Næsta mynd er víðmynd tekin upp í miðjum Móberghryggnum og horft niður á Sléttu. Rauðu punktarnir eru gönguleiðin um sléttuna og upp.
- síðasta myndin er tekin úr hlíðinni fyrir neðan Sléttu og er horft til norður. Höfuðborgarsvæði, Akrafjall, Esjan og fleiri fjöll. Hægt er að stækka myndina með því að smella á hana tvisvar og þá sést ísinn sem liggur ofan á grjótinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)