... núna var ég næstum dottinn!

VífilsfellAlveg er það ótrúlegt með suma fjallakalla að þeir geta ekki lært nokkurn skapaðan hlut af reynslu sinni. Sko, þannig var það með einn þeirra sem gekk á Vífilsfell í gær. Auðvitað þurfti hann að fara einn síns liðs sem enginn á að gera í fjallaferðum að vetrarlagi. Og fleira klikkaði.

Hann gekk upp norðausturleiðina. Þar var nokkuð mikið fannfergi svo hann færði sig yfir á næsta hrygg austan við hana því þar virtist snjórinn vera minni.

Á leiðinni að fjallsrótunum var honum hugsað til þess að snjórinn gæti verið djúpur og fafið för. Honum til mikillar ánægju var snjórinn frekar harður og gekk því gangan betur þar til brattinn varð meiri. Þar var harður snjór og ís víða undir og því erfitt að marka spor. Skórnir voru hins vegar þykkir og hann sparkaði bara nægilega fast til að fótfesta náðist.

Fyrir ofan sá hann tvo göngumenn sem tóku sér langa hvíld rétt fyrir neðan Sléttubrún. Hvað í fjandanum eru þeir nú að bardúsa? hugsaði okkar maður. Jú, annað hvort voru þeir að setja á sig snjóþrúgur eða skíði ... Nei, það getur ekki verið líklega eru þeir að festa á sig brodda.

Og hvar eru broddarnir mínir og fyrst að út í þá sálma er farið, hvar er ísöxin?

Hann varð að viðurkenna í einræðu sinni að hvort tveggja hafði gleymst heima.

Hvernig í ands... getur gerst? Fastur útbúnaður í fjallaferðum að vetrarlagi er ekki í bakpokanum heldur niðri í geymslunni heima.

Hann bölvaði og arkaði áfram upp hlíðina, skrikaði fót, studdi sig við göngustafina, sparkaði enn fastar í snjóinn, leitaði að mýkri snjó og loks komst hann upp að hömrunum efst. Þar var snjórinn grjótharður. Alveg upp við hamrana var hægt að feta sig áfram þessa tvo metra uns brattinn minnkaði.

Loksins var kallinn kominn upp á Sléttu. Fyrir framan var Móbergshryggurinn og toppstykkið. Hann leit til baka og sá að fyrir neðan voru þrír göngumenn með hund komnir langleiðina upp. Fjandinn, þeir hljóta að vera með brodda á skónum, hugsaði okkar maður um leið og hann arkaði áfram yfir Sléttu.

Þannig er það allaf að mikil orka fer í að komast upp á Sléttu og þegar þangað er komið gleymist allt erfiðið enda svo ákaflega létt að ganga að Móbergshryggnum. Þar var snjórinn frekar mjúkur og frekar auðvelt að marka spor í hann. Auðveld ganga, aðeins þurfti að ganga dálitlar króaleiðir og velja mjúka snjóinn. Allt gekk vel þangað til þann snjó þraut í miðjum hlíðum. Framundan var bara þunn snjóskel og ís undir. 

Í móberginuNú voru góð ráð dýr og ég hann vissi hvað til míns síns friðar heyrði. Lengra yrði ekki farið á þessum fagra vetrardegi þegar lognið „lék“ við vanga og frostið herti hugann. Vissulega er það rétt að stór hluti í þjálfun fjallamanns felst í því að hann tileinki sér þá hugsun að það sé engin minnkun í því að hætta við, snúa til baka. Hann átti í raun og veru ekkert val.

Ágæti lesandi, settu þig nú í spor þess sem stendur í ótraustu spori, eiginlega á tánum, og þarf að snúa sér við og ganga niður. Já, það er rétt til getið. Nú hafði aldeilis versnað í'ðí. Miklu auðveldara er að ganga upp í móti en niður í svona aðstæðum.

„Dsíös“, hrökk upp úr honum þegar hann var að snúa sér við. Vinstri fótur snéri í austur og sá hægri þurfti að finna festu neðan við hann og snúa í sömu átt, Fæturnir voru komnir í kross.

Kæri lesandi, ekki reyna þetta, jafnvel ekki heima.

Þarna skrikaði sá hægri örlítið og hann sá sæng sína útbreidda (þýðir eiginlega að hann hafi verið að dauða kominn hefði hann hrapað). Og upp í hugan kom hrafl úr kvæðinu eftir Tómas Guðmundsson:

Finna, hvernig hjartað berst,
holdið merst
og tungan skerst.
Ráma allt í einu í Drottinn:
„Elsku Drottinn,
núna var ég nærri dottinn!
Þér ég lofa því að fara
þvílíkt aldrei framar, bara
ef þú heldur í mig núna!“

En svo náðist festa og hægt að koma vinstri fæti fyrir með stefnu í vestur enda tilgangurinn að snúa baki í brekkuna. Það tókst með herkjum. Hann furðaði sig á því hvernig hann hafði komist þarna upp því gangan niður á Sléttu tók þrisvar sinni lengri tíma en uppferðin.

Frá VífilsfelliSkjálfandi stóð hann á Sléttunni og óttaðist það eitt sem við tók handan hennar. Það yrði engin skemmtun. Á brúninni sá hann að þremenningarnir og hundurinn höfðu gengið niður sömu leið sem hann hafði farið upp. Eitthvað hafði nú gerst í hópnum því hér og þar var blóð í snjónum. Ekkert sást hins vegar til göngumannanna, þeir voru áreiðanlega löngu komnir í bílinn og farnir alla vegi veraldar.

Gangan frá vörðunni og niður vestari hrygginn var skelfilega erfið. Slydduhríð hafði greinilega frosið ofan á grjótinu í hryggnum og þar var því litla fótfestu að ná. Skynsamlegra að reyna að fara niður snjóinn þó harður væri. Tvö hundruð metrar. Ég Hann fylgdi ógreinilegri slóð þremenninganna sem höfðu farið nær því sömu leið niður og hann upp.

Líklega er bara hollt að ganga niður snarbratta, ísilagða hlíð. Að minnsta kosti verður hjartslátturinn hraður og öruggur, ryður kransæðakíttinu út úr sér.

Örþreyttur studdi okkar maður sig við bílinn í lokin og leit til Vífilsfells sem horfði til baka, alvarlegt, óumbreytanlegt og fagurt. „Ég á einhvern tímann eftir að drepa mig þarna, hugsaði ég hann.

Má vera, hugsaði Vífilsfell á móti í frostkyrrðinni. Lærðu nú af þessari reynslu og hafði ísöxina og broddana með í næstu ferð. Það dregur snarlega úr áhættunni.

Myndirnar (smella á hverja mynd tvisvar til að stækka)

  1. Efsta myndin er af Vífilsfelli. Rauða leiðin er hin hefðbundna gönguleið. Sú gula er sú sem ég fjallakallinn gekk upp.
  2. Næsta mynd er víðmynd tekin upp í miðjum Móberghryggnum og horft niður á Sléttu. Rauðu punktarnir eru gönguleiðin um sléttuna og upp.
  3. síðasta myndin er tekin úr hlíðinni fyrir neðan Sléttu og er horft til norður. Höfuðborgarsvæði, Akrafjall, Esjan og fleiri fjöll. Hægt er að stækka myndina með því að smella á hana tvisvar og þá sést ísinn sem liggur ofan á grjótinu. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband