Hvort er mikilvægara, aðferðafræðin eða svarið?

150225 SkjálftarNú er um að gera að verða fyrstur til og giska á hvar næsta eldgos brýst út ...

En ... þetta er nú ekki svo einfalt, eins og reikningskennarinn minn sagði í gamla daga. Litlu skiptir hvort þú sért með rétt svar heldur er aðalatriðið hvernig þú fékkst það.

Jæja, þá skal það hér upplýst að ég hef ekki hundsvit á jarðfræði. Ég er hins vegar eins og margir aðrir, les, reyni að skilja og fæ einhverja niðurstöðu. Því miður getur bæði svarið og aðferðafræðin verið röng. Við það verður maður bara að lifa, ekki nenni ég að skrá mig í jarðfræðideildina þó það gæti verið gaman.

Eldgosið í Ómarshrauni er að deyja út. Aðfærslugangur kvikunnar lætur á sjá, straumurinn er miklu minni en hann var og hann þrengist ábyggilega og hálflokast á köflum og skjálftar mælast. Kvikan aðra útrás, hvort heldur hún komi lárétt eða skáhalt út úr kvikuhófi eða hólfum Bárðarbungu. 

Þegar gler brestur eða brotnar verða til sprungur sem breiðast tilviljunarkennt út um glerflötinn. Hugsanlega veldur brotunum mismunandi hitastig, þykkt eða eitthvað annað í glerinu. Að minnsta kosti má álykta sem svo að sprunga eða brestur leiti eftir auðveldustu leiðinni. Þannig virtist það gerast þegar berggangurinn leitaði til norðurs frá Bárðarbungu. Kvikan fann auðvelda leið, jafnvel þá sem hún hafði farið áður, t.d. 200 árum fyrr. Kann að vera að sagan hafi endurtekið sig.

Nú má ætla að enn sé kvika á faraldsfæti í Bárðarbungu, ef svo má komast að orði (eða að faraldsfótur hennar sé kvikur ...). Hvert skyldi hún leita ef norðurleiðin er að teppast og krafturinn að minnka. 

Augu margra hafa beinst að Tungnafellsjökli. Hann er askja, nokkru minni en Bárðarbunga. Þar hafa orðið margir jarðskjálftar sem tengjast Bárðarbungu og raunar hafa orðið þar skjálftar á síðustu árum sem tengjast henni ekki. Hins vegar kann að vera að tengslin milli þessara tveggja askja séu mikil og berggangur sé að myndast frá Bárðarbungu og í norðanverðan Tungnafellsjökul. Þangað sé auðveldasta leiðin fyrir kvikuna. Raunar er önnur askja sunnar í Vonarskarði en hún virðist ekki hafa komið mikið við sögu upp á síðkastið.

Sumsé, ég veðja á að eitthvað gerist í Tungnafellsjökli norðanverðum einhvern tímann á næstunni. Ef ekki þá einhvers staðar annars staðar. Um hið síðarnefnda held ég að allir geti verið sammála, jarðfræðingar, draumspakir, spákellingar, miðlar og við hin.

Verði gos í Tungnafellsjökli einhvern tímann á næstu árum og svo ólíklega vilji til að ég muni eftir þessum ómerkilega pistli mínum, ætla ég að hrópa hæst allra: Ég vissi'ða. Fá síðan að fara í viðtal í Kastljósinu, gera mig breiðan og gáfulegan en muna eftir að segja sem minnst sem jarðfræðingar geti hankað mig á. Enda er ég minnugur orða reikningskennarans sem sagði að svarið skipti minna máli, því aðferðin sé eiginlega það sem segir til um spekina.

Og lesandi góður, þetta á við um alla sem tjá sig, hvort heldur það eru kjaftaskar í athugasemdakerfum fjölmiðla, gáfumenni í háskólanum, spekingar í þjóðlífinu ... og þig.

Rökstuðningurinn er oft meira virði en svarið því það síðar nefnda getur verið rangt en röng aðferðafræði getur aldrei leitt til þess að svarið verði rétt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í Kröflueldum voru jarðfræðingar öll níu árin á nálum út af því hvort kvikan myndi hlaupa til suðurs eða norðurs, því að hlaup til suðurs þótti miklu ískyggilegra. 

Í kvikuhlaupi 1977 ef ég man rétt, hljóp hún til suðurs en kom ekki upp nema á einum stað, í gegnum borholu í Bjarnarflagi. 

Það er hugsanlega minnsta gos Íslandssögunnar og jarðfræðingar viðurkenna það ekki sem eldgos þótt glóandi hraunmolar sprautuðust upp í lofti ðg féllu nður á rúmum hektara. 

Ég hef hins vegar í sjónvarpsþáttum um málið talið þetta vera eldgos, þótt í mýflugumynd væri. 

Ég held að það sé kominn tími á eldgosatímabil norður af Vatnajökli en síður til suðvesturs, ekki lengra í suður en í Bárðarbungu sjálfa eða Tungnafellsjökul. 

Ómar Ragnarsson, 25.2.2015 kl. 21:07

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir, Ómar. Ég man eftir borholugosinu og þeirri undrun sem það olli. Við erum sammála um Tungafellsjökul en ég pant segja: Ég viss'ða ... ;-)

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 25.2.2015 kl. 21:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband