Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014
Gýs í dag á flæðunum norðan Dyngjujökuls?
23.8.2014 | 13:28
Afdrifaríkar breytingar hafa orðið á skjálftavirkninni í Bárðarbungu og sérstaklega Dyngjujökli frá því í gær. Rétt fyrir klukkan níu í gærmorgun var staðan eins og sést á meðfylgjandi mynd. Þá virtist sem að skjálftar tengdum bergganginum í stefnunni SV-NA hefði stöðvast og enn voru um 10 km út í jökuljaðarinn.
Núna eftir hádegi í dag segja jarðfræðingar í fjölmiðlum landsins að losnað hefði um fyrirstöðu sem berggangurinn hafði hugsanlega orðið fyrir á leið sinni til norðausturs.
Þetta má glögglega sjá á stóru myndinni. Þar er tvennt sem vekur athygli. Annars vegar er að skjálftum hefur stórlega fjölgað. Hitt er að breyting virðist hafa orðið á stefnu þeirra eða berggangsins. Hún er nú orðin miklu norðlægari en áður, er nálægt því að vera S-N.
Einnig skal á það bent að nú eru berggangurinn komin mun nærri jökuljaðrinum, er aðeins innan við 4 km frá honum.
Hvað dýpið niður á hann er mikið fylgir ekki sögunni. Ég á þó bágt með að trúa öðru en að hann nálgist nú óðfluga yfirborðið enda miklu minna farg sem er fyrir ofan hann en meðan hann var lengst undir jökli.
Af þessu má draga þá ályktun að gjósi við jaðar Dyngjujökuls eða á flæðum Jökulsár á Fjöllum verður ekkert hamfararflóð. Aðeins hraunflóð sem ætti ekki að valda neinu tjóni á mannvirkjum eða umferð enda takmarkað við flæðurnar sunnan Öskju og norðan Dyngjujökuls.
Þetta kann þó allt að vera tóm vitleysa enda hefur sá sem hér slær á lyklaborð ekki hundsvit á jarðfræði þó hann reyni að vera sennilegur. Í ljósi þess vill hann gerast spámannlegur og væntir eldgoss áður en degi lýkur, þó fyrr en síðar.
Verra kann þó að vera að Bárðarbunga er enn virk þó gjósi í eða við Dyngjujökul. Ástæðan er einfaldlega sú að sú miga sem lárétt útstreymi frá möttlinum undir Bárðarbungu er og myndað hefur bergganginn undir Dyngjujökli, þá hefur það engin áhrif á lóðréttu orkuna sem leitar útrásar undir bungunni.
Skyndileg aukning á skjálftavirkni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tvöfalda þotan á fljúgandi ferð yfir Dyngjujökli
23.8.2014 | 11:53
Furður náttúrunnar eru margar og skrýtnar. Hér segir af einni en hvort hún tilheyri náttúrunni skal nú ósagt en hitt er þó víst að náttúran er umhverfis og allt um kring.
Google birtir á vefsíðum sínum ýmsar myndasyrpur, meðal annars myndir af jörðinni sem teknar eru úr geimnum. Þessar myndir hafa gríðarlega upplausn og hægt að þysja nær endalaust inn í þær og skoða ólíklegustu smáatriði náttúru Íslands.
Margir leggjast ofan í slíkt, ekki síst þeir sem áhuga hafa á gönguferðum, landafræði og jarðfræði svo eitthvað sé nefnt af því sem undirritaður pælir jafnan í.
Emil Hannes Valgeirsson er einn þeirra nörda sem, eins og höfundur þessara lína, liggur yfir loftmyndum og stúderar þær í þaula. Um daginn rakst hann á einkennilegan blett sem hann vildi skoða nánar og er í miðjum rauða rammanum á efstu myndinni.
Myndin er af jaðri Dyngjujökuls sem er norðan við Bárðarbungu og allir ættu nú að vita hvar er. Vinstra megin á myndinni er Urðarháls, stórkostlegt fjall með miklum gíg efst í því miðju. Hægra megin eru flæður Jökulsar á Fjöllum.
Og Emil þysjaði inn í myndina. Og hvað haldiði að hann hafi fundið? Jú, farþegaþotu á fljúgandi ferð (... hvað annað?).
Enn þysjaði hann inn í myndina og þá kom þotan glögglega í ljós.
Emil segir á bloggsíðu sinni:
Það er svo sem ekkert óvenjulegt að farþegaþotur séu á sveimi yfir landinu enda landið í þjóðleið milli heimsálfa. Þetta er samt frekar óvenjulegt sjónarhorn á flugvél á flugi ekki síst úr þessari miklu hæð. Það má gera ráð fyrir að gervitunglið sem myndaði landið sé í 600-1000 km hæð eða allt að 100 sinnum meiri hæð en flugvélin sem þýðir að flugvélin er nokkurn vegin í raunstærð miðað við yfirborð landsins. Kannski verður lítið um flugumferð þarna á næstunni en það má þó nefna að væntanlega er vélin löngu flogin hjá enda gæti gervitunglamyndin verið nokkurra ára gömul.
Þess má hér geta að ég er oft óþarflega tortrygginn. Um leið og ég hafði lesið pistilinn Emils var mitt fyrsta verk að kanna hvort hann væri nokkuð að plata. Viti menn, þetta er allt satt og rétt. Þarna var flugvélin bæði á Google Maps og Google Earth.
Hvað sem öllu öðru líður er þetta skemmtileg tilviljun og flokkast eiginlega sem furður náttúrunnar.
Sé einhver að velta því fyrir sér hvers vegna flugvélin er tvöföld þá er það líklegasta skýringin að sú græna sé einhvers konar speglun af þeirri hvítu.
Hvað í ósköpunum er að innan Samgöngustofu?
22.8.2014 | 15:49
Samgöngustofa gaf þau svör að engar takmarkanir séu gefnar út fyrir flugumferð nema fyrirséð sé að gos sé að hefjast, eða ef gos er þegar hafið.
Þegar virtur vísindamaður eins og Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, sendir stjórnvöldum kurteislegt bréf með ákveðnum ábendingum er þeim ekki svarað eins og að ofan greinir í endursögn blaðamanns Morgunblaðsins.
Nær væri lagi að Samgöngustofa kallaði Pál Einarsson á fund og færi nákvæmlega í saumana á aðfinnslum hans og tæki síðan ákvörðun um næstu skref. Þau geta hins vegar aldrei verið á þann veg sem stofnunin hefur þó gefið út. Þvílíkt kæruleysi að halda hafa þá stefnu að ekkert verði gert fyrr en gosmökkurinn er kominn í loftið.
Svarið er slík ávirðing á Samgöngustofu að með réttu ætti innanríkisráðherra að kalla stjórnendur stofnunarinnar á teppið og lesa þeim pistilinn. Síðan á ráðherrann að fyrirskipa þeim að gera það sem hér að ofan greinir.
Munum að Páll Einarsson, Jarðeðlisfræðistofnun, Veðurstofan og fleiri vinna framar öllu að því að vernda fólk gegn náttúruvá. Sé stefna Samgöngustofu einhver önnur en að gæta hagsmuna almennings þá er eitthvað að þarna innandyra.
Varasamt að fljúga yfir Heklu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Gýs undir jökli, á flæðunum eða bara alls ekki?
21.8.2014 | 21:51
Hvað er berggangur?Slík fyrirbrigði hafa verið talsvert í fréttum þegar jarðfræðingar tjá sig um skjálftana í Bárðarbungu og nágrenni.
Hér til hægri er mynd af tveimur samliggjandi berggöngum. Þeir myndast þegar kvika úr iðrum jarðar þrengir sér inn í sprungur, víkkar þær jafnvel. Kvikan getur verið á leiðinni loðrétt upp eða út til hliða. Um síðir hættir kvikan að renna og hún storknar. Þegar bergið rofnar situr berggangurinn eftir því oft er hann úr endingarbetra efni en umhverfið. Að öðrum kosti myndi það ekki rofna
Jarðfræðingar segja að glóandi kvika frá iðrum jarðar hafi verið á leiðinni upp í Bárðarbungu en mætt þar fyrirstöðu, eins og oft gerist Þá leitar kvikan til hliðar, þar sem fyrir eru sprungur eða hreinlega sprengir bergið og þrengir sér svo lengi sem fyrirstaðan er minni en þrýstingur kvikunnar.
Frá því á föstudaginn síðasta hefur feikimikill berggangur verið að myndist og og lengjast. Hann er nú orðinn meira en 25 kílómetrar á lengd. Meginskjálftarnir verða til þegar kvikan leitast við að opna sprungur og slík hreyfing er allt önnur en skjálftar sem verða vegna spennu sem myndast t.d. við landrek.
Merkilegast við bergganginn er að jarðfræðingar segja hann vera um 1,6 metra á breidd, sem hlýtur að byggja á ótrúlega nákvæmum mælingum. Þeir segja líka að hæð berggangsins sé um 2,1 km, sem er álíka mikið og hæð Hvannadalshnúks frá yfirborði sjávar. Enn er þó berggangurinn langt frá yfirborði jarðar, það er undir jöklinum. Jarðfræðingar segja að um þrír kílómetrar séu niður á ganginn.
Frá því 16. ágúst hefur það gerst markvert að skjálftarnir hafa færst að mestu frá Bárðarbungu og eru nú miðja vegu á milli hennar og Kverkfjalla, hafa SV-NA stefnu. Þeir eru komnir niður fyrir efstu drög Dyngjujökuls. Um leið hefur orðið vart fjölda jarðskjálfta við jökuljaðarinn og úti á flæðum Jökulsár á Fjöllum en hún á uppruna sinn í honum.
Dyngjujökull dregur nafn sitt líklega af Trölladyngju. Hinn gríðarlega stóri hraunskjöldur myndaðist við eldgos sem þó varð ekki undir jökli. Þess vegna gat hraunið fætt eftir landslaginu, og ekkert öskugos varð að ráði. Herðubreið er dæmi um samskonar eldgos en munurinn er sá að þá gaus undir þykkum ísaldarjökli. Það hefur án efa verið stórbrotið eldgos með miklu öskufalli. Jökullin mótaði Herðubreið. Um leið og gosvirknin komst upp úr bræðsluvatninu tók hraun að renna. Þess vegna er efsti hluti Herðubreiðar eiginlega eins og dyngja, ekki móbergsfjall eins og undirstöðurnar þó eru.
Verði eldgos í jökli eru líkur á því að úr verði móbergsfjall, að minnsta kosti fyrst í stað. Undir Dyngjujökli kann að gjósa á langri sprungu og þá myndast ábyggilega móbergsranar eins og víða þekkjast, m.a. norðan við Kverkfjöll, þar heita Kverkhnjúkar. Gjósi í jaðri jökulsins eða úti á flæðunum fær hraun að renna svo til óhindrað. Þarna er gríðarlegt flæmi, nær rennislétt og ábyggilega langt í að hraun nái niður á láglendi og raunar litlar líkur til þess.
Þarna við upptök Jökulsár á fjöllum er Holuhraun. Þar komum við að merkilegum stað sem tengist ofangreindum atburðum. Ég vil benda hér á góðan vef Íslenskra orkurannsókna, ÍSOR, sem gefur hefur út afar góð kort og fróðleg og vefurinn er einkar athyglisverður. Á vefnum segir um Holuhraun:
Í bókum sínum um Ódáðahraun leiðir Ólafur Jónsson líkur að því að hraunið hafi komið upp í eldgosi nálægt jökuljaðrinum árið 1797. Vitnar hann í Espólín sem segir um það ár: Þá sá Jón bóndi Jónsson í Reykjahlíð norður, réttorður maður, eldsloga nokkurra suður á fjöllum tvö kvöld um veturinn, og varð vart við öskufall; þess urðu og fleiri varir. Ólafur rekur síðan ferðalýsingar manna um svæðið á þessum árum og dregur af þeim þá ályktun að hraunið hafi ekki verið runnið 1794 þegar Pétur Brynjólfsson fór suður með jöklinum. Hann var heimildarmaður Sveins Pálssonar sem ekki getur Holuhrauns í sínum lýsingum. Um 40 árum síðar fór Pétur Pétursson bóndi á Hákonarstöðum á Jökuldal ferð vestur með norðurjaðri Vatnajökuls og lýsir miklu vonzkuhrauni við jökuljaðarinn milli Jökulsár á Fjöllum og Urðarháls. Hraunið var svo illt yfirferðar að þeir voru nærri búnir að missa hesta sína því hófar þeirra tættust sundur. Ekkert annað hraun kemur til greina en Holuhraun, sem þá hefur ekki verið orðið eins sandorpið og seinna varð. Aðalupptakagígur Holuhrauns er um 350 m utan við ystu jökulgarða Dyngjujökuls og svo virðist sem hraunjaðarinn liggi rétt utan jökulgarðanna. Athyglisvert er að leiðin sem kvikan frá Bárðarbungu virðist fara eftir núna er ekki fjarri því að stefna að upptökum Holuhrauns. Ef til vill er Holuhraun því myndað í svipaðri atburðarás og nú er í gangi. Þess ber þó að geta að við vitum ekki til þess að til séu efnagreiningar á Holuhrauni sem gætu sýnt hvort það er ættað úr eldstöðvakerfi Bárðarbungu eða Öskju. Lýsingar Guttorms Sigbjarnarsonar jarðfræðings á hrauninu benda þó fremur til Öskju.
Ekki er þó hægt að fullyrða að gosið 1797 hafi ekki náð inn undir jökulinn. Urðarrani einn mikill liggur niður jökulinn skammt suðaustan Holuhrauns og skiptir Dyngjujökli í tvær tungur. Hann er um 4 km langur og myndast slíkir urðarranar þar sem jökullinn rýfur jökulsker eða fjall sem er stutt undir yfirborði hans. Ekkert bendir þó til þess að þar sé um framhald gossprungunnar að ræða, en á hæðarlíkani af undirlagi jökulsins (í jöklabók Helga Björnssonar) er aflangt fjall eða hæð skammt frá þeim stað þar sem urðarraninn kemur upp á yfirborð jökulsins. Ekki er þekkt neitt jökulhlaup í Jökulsá á Fjöllum árið 1797 sem enn frekar styður þá hugmynd að gosið hafi ekki náð inn undir jökul. Ekki er vitað hvar jökuljaðar Dyngjujökuls lá á þessum tíma en jökullinn er þekktur framhlaupajökull. Síðast hljóp hann árið 1999 um 1250 m.
Hér virðast vera nokkur áhöld um hvort Holuhraun sé ættað úr Bárðarbungu eða Öskju. Óneitanlega er freistandi að halda því fram að atburðirnir núna séu í líkingu við þá sem urðu 1797.
Látum nú þetta duga að sinni. Bent skal á að hægt er að láta móðan mása af lítilli þekkingu og komast jafnvel að svipaðri niðurstöðu og meiri og merkilegri menn en sá sem hér hamrar á þráðlausa lyklaborðið.
Myndræn framsetning á þróun skjálftavirkninna í Vatnajökli
20.8.2014 | 14:20
Ég vissi það, hrópa börnin stundum og jafnvel þau eldri. Vissulega er gaman er að monta sig af því að hafa rétt fyrir sér en þegar öllu er á botninn hvolft skiptir meira máli hvernig maður hafði rétt fyrir en ekki hvort.
Hjá góðum kennurum dugði ekki í gamla daga að hafa rétt svar í stærðfræðinni ef útreikningurinn var rangur. Á sama hátt var rangt svar ekki endanlegt ef aðferðin var rétt. Þetta hefur oft flogið í gengum hausinn á mér þegar ég skoða þróun skjálftavirkninnar í norðaustanverðum Vatnajökli. Þegar hún hófst tók ég eftir því að jarðskjálftarnir röðuðust í ákveðin kerfi. Það hafði mér ekki áður dottið í hug en námskeið í Endurmenntun Háskóla Íslands í vor var uppljómun. Þar fór Páll Einarsson, hinn landsþekkti jarðeðlisfræðingur á kostum, og sýndi okkur nemendur örlítið brot af þekkingu sinni og fræðum.
Páll benti iðulega á að jarðskjálftar fara eftir þekktum brotalínum og benti okkur á sannanir um slíkt.
Hvað varðar Bárðarbungu og jökulinn þar fyrir norðaustan er ljóst að í upphafi fóru jarðskjálftarnir eftir fjórum stefnum. Tvær þeirra voru SV-NA og tvær voru NV-SA. Smám saman varð sjáanleg breyting og skjálftunum fjölgaði í stefnu sem var SV-NA, það er frá Bárðarbungu og út á Dyngjujökul.
Jarðfræðingar hafa frá upphafi sagt að skjálftarnir stafi af kvikuinnstreymi upp í efri jarðlög og hugsanlega þrýstist upp í sprungu eða misgengi. En hvernig stendur á því að kvikan fer í NA en ekki í SV eða jafnvel haldi kyrru fyrir í Bárðarbungu?
Svarið er okkur leikmönnum hulið.
Við getum þó haldið því fram með hliðsjón af því sem Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, hefur ritað á bloggsíðu sinni. Hann styðst við rannsóknir annarra sem segja að risastór gígtappi sé í Bárðarbungu og komi í veg fyrir að kvikan geti leitað þangað upp, nema því aðeins að krafturinn sé þeim mun meiri. Kvikan hefur hins vegar fundið sér auðveldari rás til norðausturs. Það kann að stafa að því að í þá átt er landið lægra og farg jökulsins minnkar eftir því sem lengra dregur.
Þarna er Dyngjujökull sem er þunnur. Efstu drög hans geta verið í um 1200 m hæð og sporðurinn í um 800 metrum. Þetta má glögglega sjá til dæmis úr Kverkfjöllum. Hugsanlega er þykktin mest um 200 m en fari svo hratt minnkandi út í jaðrana.
Þar sem aðalskjálftavirknin er núna gæti þykktin verið um 100 metrar. Það er talvert minna en á Bárðarbungu þar sem hún er líklega um 700 metrar.
Allt sem gerist í iðrum jarðar er tilviljunum háð. Hitt er þó ljóst að kvikan kemur upp vegna þrýstings. Hvort hann leysist lárétt eða lóðrétt er erfitt að fullyrða.
Á þessari stundu virðist skjálftarnir hafa staðnæmst um það bil í efri drögum Dyngjujökuls. Þar gæti auðveldlega gosið og á langri sprungu. Þar mun ábyggilega smám saman myndast móbergsrani í líkingu við Kverkfjallahnúka sem vænta má að hafi orðið til við gos undir jökli.
Bræðsluvatnið mun þá falla eftir farvegi Jökulsár á Fjöllum og það mun án efa fylla svæðið milli Dyngjujökuls og Öskju.
Sé ímyndunaraflinu gefinn laus taumurinn má búast við öflugu öskugosi í nokkra daga en fljótlega mun eldvirknin komast upp úr vatninu og halda áfram með hraunrennsli og gufubólstrum þangað til úr henni dregur. Hugsanlega verður gos í einn til tvo mánuði. Gangi þetta eftir verður síst af öllum um eitthvert hamfarahlaup að ræða í Jökulsá á Fjöllum og raunar afar óábyrgt að spá slíku.Um leið og eldvirknin kemst upp úr bræðsluvatninu snarminnkar flóðið í Jökulsá á Fjöllum.
Í lokin langar mig til að vekja athygli á myndunum. Fyrsta myndin er sú sem ég hef áður birt og er frá því 17. ágúst kl. 17:30. Inn á hana hef ég dregið áðurnefndar línur sem marka skjálftastefnu í upphafi.
Næsta mynd er af skjálftunum kl. 13:55 þann 18. ágúst. Greinilegt hvernig skjálftunum fjölgar í línu sem liggur SV-NA og út á Dyngjujökul.
Þriðja myndin sýnir að þær tvær fyrri eru engin tilviljun. Hún er af stöðu máli um kl. 13:56 í gær.
Loks er það fjórða myndin og hún er einungis staðfesting á því sem er að gerast. Myndin er frá því í morgun kl. 10 og af henni má sjá að skjálftarnir eru svo til allir á Dyngjujökli. Með því að bera þessa mynd saman við ýmis önnur gögn sem finna má á vef Veðurstofunnar virðist sem að skjálftunum fjölgi ofarlega í Dyngjujökli og hægt hefur á ferðalaginu í norðaustur. Þess vegna er það mín spá í augnablikinu að nú gjösi á þessum slóðum verði þrýstingurinn óbærilegur fyrir bergið undir jöklinum.
Í ljósi ofangreinds gæti ég svo sem hrópað upp í geðshræringu að ég hafi nú haft rétt fyrir mér. Það er nú hins vegar allt annað en svo. Vandamálið er það sem áður var nefnt að ekki er nóg að giska á rétt svar ef aðferðafræðin styður það útkomuna. Ég læt því nægja að skoða þróun mála og held áfram að fylgjast með því sem jarðfræðingarnir segja.
Skjálftavirknin enn mikil | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginskjálftavirknin er með SV-NA stefnu
18.8.2014 | 10:31
Það er svo sem ágætt að hafa heildarmyndina fyrir sér þegar jarðskjálftavirknin í Bárðarbungu er skoðuð. Þess vegna er vert að skoða vef Veðurstofunnar og hér hægra megin er mynd af jarðskjálftum undanfarinna daga sem tekin er af honum.
Myndin segir ýmislegt en gallinn við hana er að við þyrftum að geta skoðað hana í smáatriðum til að skilja. Að vísu er skilningur okkar leikmanna takmarkaður.
Frá mínum sjónarhóli lítur landið svona út:
Tæplega fimmtán hundruð jarðskjálftar hafa orðið í og við Bárðarbungu undanfarna tvo daga. Þar af eru meira en 140 sem eru stærri en 2 og átta stærri en 3. Langflestir stóru skjálftanna eiga uppruna sinn frá fimm til tólf kílómetra dýpi. Fræðimenn segja þá verða til vegna kviku sem þrengir sér inn í grynnri jarðlög.
Hins vegar er ljós að víðar skalf en í Bárðarbunguöskjunni og raunar minnst þar.
Gríðarlega margir skjálftar voru á sama tíma undir Dyngjujökli og jafnvel þar fyrir austan. Þá er gott að geta skoðað nánar staðsetningu skjálftanna.
Á myndinni til hægri sést hvernig skjálftarnir hafa raðað sér í nokkra klasa. Svo virðist sem þeir haldi sér við ákveðnar þrjár línur sem ég hef dregið á myndina. Ef til vill er hér um að ræða nokkra klasa, jafnvel fimm. Norðar er einn klasi og hefur hann meginstefnuna SV-NA (hægt er að tvísmella á þessar myndir og fá þær stærri til nánari skoðunar).
Klasarnir í Bárðarbungu og norðaustan við hana raða sér í tvær stefnur, annars vegar NV-SA og hins vegar SV-NA. Þetta er skrýtið frá mínum sjónarhóli séð og það skrýtnasta er að nú virðist syðri SV-NA stefnan vera virkari en hinar. Skjálftavirknin er sem sagt að færasta frá Bárðarbungu og í austur
Á meðfylgjandi kortum má sjá hvernig skjálftavirknin hefur þróast. Hægra megin er skjálftavirknin fram til miðnættis á laugardaginn en vinstra megin sést hvernig hún hefur verið eftir það. Hún er sem sagt að færast mikið til í austur, samkvæmt syðri SV-NA línunni sem áður er nefnd. Stefnir raunar í Kverkfjöll.
Gaman væri nú að vita ástæðuna fyrir þessari þróun og hvort áðurnefndar línur standist einhverja skoðun. Hugsanlega eru brotalínur á yfirborði jarðar sem hnikast til rétt eins og þekkt er annars staðar á landinu.
Benda má þó á að SV-NA er stefna eldvirkninnar í gegnum landið er einmitt hin sama eins og sjá má á meðfylgjandi korti.
Hér er ekki úr vegi að benda á blogg Haraldar Sigurðssonar, eldfjallafræðings, en hann skýrir stöðu mála í Bárðarbungu á mjög skiljanlega hátt.
Í athugasemdum við bloggið hefur Guðmundur Harðarson sett inn afar áhugaverðar upplýsingar um dýpt jarðskjálftanna og sett fram í grafi á hreyfimynd. Slóðin er þessi: http://gfycat.com/GlumUncommonDragonfly. Mæli með því að lesendur mínir skoði þetta.
Gott á þig vanstillti varnarmaður Keflavíkur
18.8.2014 | 09:31
Kjartan þarf að sitja undir alveg ofboðslegum svívirðingum frá stuðningsmönnum andstæðinga KR. Og það er bara látið viðgangast. Svona eins og hann eigi að hrista það af sér. Þetta sé ekkert mál.Ef hann væri þeldökkur fengju liðin 150 þúsund króna sekt, bann, dómarinn myndi stöðva leikinn og biðja vallarþul um að fara með tilkyninngu að hætta fordómum o.s.frv.Í stúkunni er að öllum líkindum fjölskylda hans og barn. Ég þekki það samt ekki og kæmi mér ekkert á óvart ef fjölskyldan væri hætt að mæta á KR-leiki.
Gegn stirðbusalegu máli
6.8.2014 | 09:28
Ef fjöldi íbúða er mikill, þá eru þær margar. Ef fjöldi ferðamanna fer minnkandi, þá fækkar þeim. Ef einhver fyrirbæri eru meiri að fjölda en önnur, þá eru þau fleiri. Fjöldi er eitt þeirra orða sem vilja snúast í höndum okkar og gera málið stirðlegra.
Löggan lokar vegum að hætti Geirs og Grana
6.8.2014 | 08:48
Undarlegt er það með lögregluna. Hún virðist á sumum sviðum ekki kunna til verka. Efsta myndin hér til hægri birtist í Morgunblaði dagsins og hana tók ljósmyndari Morgunblaðsins, Eggert Jóhannesson við Sólheimajökul. Þarna stendur lögreglumaður við veg sem hefur verið lokaður vegna hættuástands við sporð jökulsins.
Takið eftir umbúnaðinum. Plast er teipað um Grettistak og hringað um einhvers konar járnadrasl sem gegna á hlutverki hliðs. Mikið óskaplega er þetta nú illa gert og ótraustvekjandi.
Þegar gaus í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi voru handarbaksvinnubrögð lögreglunnar nákvæmlega hin sömu.
Næstu mynd tók ég 23. maí 2010 þegar enn gaus í Eyjafjallajökli. Þá var vegurinn inn í Þórsmörk og Goðaland lokaður og greinilegt að hönnunin er álíka gáfuleg og jafn traustvekjandi og á efri myndinni.
Þegar gaus á Fimmvörðuhálsi og fékk lögreglan þá flugu í höfuðið að fólk vilji endilega fara sér að voða við glóandi hraun og gjósandi gíga. Af öllum tólum og tækjum í kjallaranum grípur löggæslan til gula plastborðans.
Pöpullinn hlýðir auðvitað yfirvaldinu en um síðir fýkur plastið fýkur út í veður og vind þar sem það finnst löngu síðar.
Þriðju myndina tók ég á Fimmvörðuhálsi 12. júní 2012, um tveimur mánuðum eftir að gosinu þar lauk. Þá mátti enn sjá leifar af lögregluborðum. Þetta er nú ekkert góð mynd, tekin inni í hraungjótu.
Þegar fólki dettur í hug að mótmæla fyrir framan Alþingishúsið eða sendiráð Bandaríkjanna við Laufásveg í Reykjavík eru settar upp heljarinnar grindur. Þær eiga að halda fólki öðru megin en lögreglu og heldra fólki hinum megin. Enginn má fara yfir nema forsetafrú.
Þetta eru rammgerðar grindur enda óvissan með mannlega hegðan allt önnur og ófyrirsjáanlegri en vesenið í náttúrunni.
Þegar eldgos verða eða vatn spýtist undan jökulsporðum stendur löggan upp af hvíldarbekkjum sínum, klæðist skotheldum vestum og gengur vasklega að verkum, rétt eins og Geir og Grani í Spaugstofunni - og lokar vegum.
Gígurinn á myndinni er ekki í Hafnarfjalli
3.8.2014 | 21:03
Myndin með frétt mbl.is er ekki af Hafnarfjalli og í raun og veru allt annað. Þetta er gígur á Geldingahálsi og Hafnardalur, djúpur dalur, skilur á milli.
Um þetta fyrirbrigði skrifað ég um fyrir tveimur árum, sjá hér, hér, hér og hér. Ég hafði rekist á gamla mynd sem ég hafði tekið úr flugvél fyrir mörgum áratugum, og hélt í fáfræði minni að þetta væri gígur eftir loftstein.
Haraldur Sigurðsson, jarðfræðingur, mum hafa rekist á þessi skrif mína og fjallað síðar um þessa jarðmyndun og meðfylgjandi mynd og fleiri eftir Rax fylgdi viðtali Moggans við Harald.
Vandinn er sá að sumarafleysingarmenn á fjölmiðlum eru margir hverjir ekki góðir í landafræði. Það er miður og þyrftu eldri og reyndari blaðamenn að ritskoða þá svo villum fækki.
Sú fullyrðing að gígurinn á myndinn sé í Hafnarfjalli er jafn vitlaus eins og halda því fram að Öskjuhlíðin sé í Árbæ eða Hvalfell sé hluti af Botnsúlum.
Fólkið í Hafnarfjalli fundið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |