Geta umbrot í Bárðabungu leitt til eldgoss í Tungnafellsjökli?

Tungnafellsj

Margir fylgjast með skjálftavirkni á landinu og hafa gert í langan tíma. Flestir vita að ekki eru skjálftar beintengdir við eldsumbrot, fjarri því. Þeir eru oftar en ekki vegna hreyfingar jarðskorpunnar. Stundum benda skjálftar til eldsumbrota og þá fyrst og fremst þegar kvika brýst upp og veldur við það titringi sem jarðfærðingar hafa náð að túlka og skýra.

Þetta er svo sem allt gott og blessað. Við lifum í þessu landi og sættum okkur við jarðskjálfta og eldgos, fylgjumst með þróun mála af barnslegri forvitni og tökum eftir hverju orði sem fræðingarnir miðla til okkar. Reyndar er það svo að tengslin milli jarðfræðinga og almennings er svo óskaplega stutt hér á landi og skilningur fólks verður því meiri og dýpri en ella.

Lengi hef ég verið afar hugsi yfir skjálftum í Tungnafellsjökli enda hafa þeir verið afar margir og stórir upp á síðkastið. Auðvitað flögrar það að leikmanninum að þarna gæti dregið til tíðinda vegna þess að hversu tengslin við Bárðarbungu virðast vera auðsæ vegna nálægðar.

Í ritgerð eftir Þórhildi Björnsdóttur,  jarðeðlisfræðing, og Pál Einarsson, jarðeðlisfræðing, í Jökli nr. 63 2013, kemur eftirfarandi fram (feitletrun og greinaskil er mín):

Könnun á jarðskjálftagögnum og InSAR-myndum leiðir í ljós þrjár skjálftahrinur eða atburði sem gætu tengst þessum nýlegu hreyfingum.

Fyrsti atburðurinn var í október 1996, meðan á Gjálpargosinu stóð, annar var í ágúst 2008 og sá þriðji í nóvember 2009. Þessir atburðir koma fram í aukinni jarðskjálftavirkni á svæðinu, bæði ef litið er til fjölda skjálfta og skjálftavægis. Allir skjálftarnir eru þó litlir.

Samanlagt skjálftavægi allra skjálfta á svæðinu samsvarar einum skjálfta af stærðinni 3,4. Vægi sprunguhreyfinganna á sama tímabili samsvarar skjálfta af stærðinni 5,0. Þetta misræmi styður eindregið þá túlkun að sprungufærslurnar tengist kvikuhreyfingum en stafi ekki einvörðungu af tektónískum hreyfingum.

141019 Skjálftar vik 42

Auðvitað heldur leikmaðurinn röksemdafærslunni áfram og freisast til að tengja þessar niðurstöður aðstæður vegna hreyfinga í Bárðarbungu. Þannig getur vel hugsast að eldgos verði í öskju Tungnafellsjökuls haldi þessir skjálftar áfram. Mögulega getur verið að Bárðarbunga hafi aldrei gosið. Fargið ofan í Bárðarbunguöskjunni kann að vera svo mikið að kvika leiti undan eldstöðinni og þar sem hún á greiðari leið upp á yfirborð. Hún hefur ferðast um fjörtíu km leið frá Bárðarbungu og í Holuhraun þar sem eldgos varð. Líkur benda til þess að það hafi hún einnig gert í lok 18. aldar er þar gaus síðast. Að minnsta kosti benda brotalínur sigdalsins, sem stundum hefur verið dreginn inn í umræðuna, til þess að hér sé um endurtekið efni að ræða. Það vill segja að Báðarbunga skjóti iðulega kviku til norðurs en gjósi ekki sjálf.

141019 landið skjálftar

Tungnafellsjökull er ekki þekkt eldstöð. Sagt er að þar hafi ekki orðið eldgos síðustu tíu þúsund árin en það bendir ekki til þess hún sé kulnuð. Þvert á móti benda orð jarðeðlisfræðinganna hér að ofan til að þarna hafi eitthvað gerst áður en Bárður tók að bæra á sér.

Svo er það annað mál hversu kyrrt er á landinu öllu meðan á ókyrrð er í Bárðarbungu, Holuhrauni og Ösku. Tíðindalaust er á öllum vígstöðum nema við norðvesturhorn Vatnajökuls eins og meðfylgjandi skjálftakort frá Veðurstofunni sýnir.

Efsta myndin er úr ritgerð Páls og Þórhildar og með því er þessi texti: „Einfaldað jarðfræðikort af svæðinu kringum Tungnafellsjökul byggt á kortum frá Guðmundi Kjartansyni (1965) og Hauki Jóhannessyni og Guðmundi Ómari Friðleifssyni (2006a). Bakgrunnur frá Landmælingum Íslands.“

Næsta kort er af skjálftum viku 42, það er síðasta vika, frá 12. til 18. október 2014. Síðasta kortið er svo yfirlitskort dagsins frá Veðurstofunni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband