Var fólkið á myndinni í stórkostlegri hættu?

TiskudrottningHún vakti vissulega athygli myndin sem birtist í fjölmiðlum í gær og í dag af ungmennunum sem dönsuðu af kæti einhvers staðar við hraun sem rennur úr gíg í Holuhrauni norðan Vatnajökuls.

Sumir náðu ekki upp í nef sér fyrir vandlætingu og þeirra á meðal var formælandi almannavarna. Tróð þó enginn fjórmenninganna á hrauninu eins og ýmsir blaða- eða fréttamenn hafa gert.

Hægt er að ráða í hvar myndin var tekin. Þarna er mikill gufumökkur sem leggur upp af hraunjaðrinum. Það bendir til að Jökulsá renni þarna við jaðarinn.

Hér er önnur mynd sem sýnir stöðu hraunsins þann 30. september 2014.

jarðvísindastofnun

Samkvæmt frétta myndum rennur Jökulsá suður fyrir hraunið, kemst ekki norður fyrir það. Ég hef sett hvítan kross austan við þann hluta hraunsins sem hefur að undanförnu verið á mestri hreyfingu. Á fréttamyndum hefur mátt sjá ána renna í þröngri lænu við hraunið og gufubólstrar lagt upp frá því.

Myndin er ábyggilega tekin einhvers staðar þarna sem hvíti krossinn er. Þá hefur verið sunnan- eða suðvestanátt og miðað við efri myndina hefur hún verið talsvert ströng, ef til vill 8 til 10 m á sek.

Þarna hefur því ekki verið nokkur hætta á ferðum vegna gasmengunar, hvorki fyrir þyrluna né farþegana.

Staðurinn er rúmlega átta kílómetrum frá eldgígunum og vindinn leggur í áttina frá fólkinu. Eldgosið ógnaði því þessu fólki ekki á nokkurn hátt.

Hamagangur almannavarna er því algjörlega tilgangslaus.

Vel má vera að þyrlan hafi lent þarna í óleyfi en engin hætta virðist hafa verið á ferðum fyrir fólk, þyrluflugmaðurinn hefur auðsjáanlega verið afar aðgætinn.

Hins vegar halda yfirvöld áfram hræðsluáróðri sínum og gera að því skóna að allir á svæðinu séu í stórkostlegri hættu. Ef eitthvað er ámælisvert þá er það áróður yfirvalda.

Ég hef fylgst með gosfréttum og séð ótal myndir af gosstöðvunum. Það hefur heyrt til undantekninga að vísindamenn og fjölmiðlafólk hafi verið með gasgrímur sér til varnar. Ekki nokkur maður og síst af öllu fjölmiðlar, hafa gagnrýnt gasgrímuskortinn í ljósi áróðurs almannavarna og lögreglu.

Að sjálfsögðu geta aðstæður stundum verið hættulegar við eldgosið. Hvernig geta þær verið hættulegar fólki meira en átta kílómetrum frá gosstöðvunum í hvassri sunnan eða suðaustanátt? 

Tek það fram til að fyrirbyggja misskilning að ég þekki ekkert til þyrlufyrirtækisins eða flugmannsins. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þyrlufyrirtækið er ekki íslenskt heldur danskt. Stífan vind leggur í átt frá fólkinu og kemur í veg fyrir á því augnabliki að það sé í hinni minnstu hættur. Það eru nokkrir metrar sem fara þarf til þess að stíga upp í þyrluna og fara í burtu.

Einstaka sinnum hefur komið fyrir að hitafarsvindur hefur valdið því að vindáttin hefur breyst á afmörkuðum stöðum við hraunið. Það getur að sjálfsögðu verið hættulegt fyrir fólk á jörðu niðri.

Öðru máli gegnir um flugvélar og þyrlur. Áður en rokið er upp með yfirlýsingar um þetta einstaka mál væri ágætt að fá að vita hvaða dag þessi mynd var tekin. Mig grunar að vindáttin hafi verið eindregin og engin hætta á ferðum, en ætla að bíða með allar yfirlýsingar, því að ávallt skal allur vafi túlkaður "sakborningi" í vil.

Ómar Ragnarsson, 8.10.2014 kl. 15:15

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Helsta hættan er kannski sú að fólkið snúi sig úr öklalið í allri kátínunni. Annars bara hið besta mál og skemmtilegt gaman hjá ríka fólkinu.

Emil Hannes Valgeirsson, 8.10.2014 kl. 16:45

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Hjartanlega sammála ykkur, enda augljóst að gasið nær ekki að streyma svona langt á móti stöðugum vindi. Andstaðan helgast kannski af því að Almannavarnir vilja ekki að þarna skapist fordæmi til undanþágu. En stórkostlega hættan var þegar fréttamenn stóðu á hrauninu sem átti eftir að springa upp. Þarna á sandinum hlýtur það að teljast ólíklegt.

Sjálfsagt er að leyfa slíkar skyndilendingar þegar eðlilegri árvekni er fylgt í hæfilegri fjarlægð ásmegin.

Ívar Pálsson, 8.10.2014 kl. 16:49

4 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Það var augljóslega verið að miða á þau byssu - þess vegna eru þau með hendur á lofti.

Ásgrímur Hartmannsson, 8.10.2014 kl. 17:11

5 Smámynd: Gunnlaugur Hólm Sigurðsson

Þetta er ekta Kampavínsgos.

Gunnlaugur Hólm Sigurðsson, 8.10.2014 kl. 22:11

6 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þetta er vissulega hættulegasta gos í heimi. Þetta er nefnilega sama gos og lagði Pompeii í eyði hér um árið.

Ásgrímur Hartmannsson, 9.10.2014 kl. 23:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband