Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Hver var nú glæpurinn í Gálgahrauni?

Ekki verður séð að það sé brýnt forgangsverkefni lögregluyfirvalda að ákæra borgara landsins fyrir friðsamleg mótmæli. Vafalaust hefur það verið tímafrekt fyrir lögreglu að þurfa að mæta ítrekað í Gálgahraun til að bera mótmælendur af svæðinu, en er ekki óþarfi að láta ólundina vegna þessa leiða til ákæru?

Þannig byrjar Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, afar góða grein í dálknum Pistill í blaðinu í morgun. Hún ræðir um ákærurnar gegn mótmælendunum í Gálgahrauni, þessum sem ekki fóru að fyrirmælum lögreglu.

Yfirleitt er það þannig að okkur ber að fara eftir því sem lögreglan segir, hún er valdið og hefur undir vissum kringumstæðum leyfi til að taka á borgurunum. Kolbrún bendir hins vegar á muninn á friðsamlegum mótmælendum í Gálgahrauni og fólki í búsáhaldabyltingunni svo er oft nefnd. 

Samkvæmt orðum Kolbrúnar er staðreyndin þessi og undir það má með henni:

Mótmælendur í Gálgahrauni veittust ekki að lögreglumönnum, köstuðu ekki í þá steinum eða hrópuðu að þeim svívirðingar, eins og fólk gerði í búsáhaldabyltingunni – og komst upp með það. Þetta fólk sat á steini úti í hrauni eða lá þar í makindum og neitaði að færa sig, sem var óneitanlega óþægilegt fyrir þá sem unnu þar að framkvæmdum. Lögreglan mætti svo á svæðið og bar fólk burt meðan ljósmyndarar og kvikmyndatökumenn fjölmiðla kepptust við að ná sem bestum myndum.

„Glæpur“ fólksins í Gálgahrauni er á máli lögreglunnar „að brjóta gegn valdsstjórninni“. Vissulega var farið gegn skipunum hennar. Yfirstjórn hennar er með ólund enda fengið afar slæma kynningu vegna meðferðar á mótmælendunum. Hún heldur að lögsókn gegn friðsömum mótmælendum lagi stöðuna eitthvað. Því miður er það ekki svo. Því meir sem hún spriklar sekkur hún dýpra í kviksyndið.

Löggan veit að ef málið heldur áfram og fer fyrir dóm verður niðurstaðan létt áminning og skilorðsbundinn dómur nema því aðeins að málatilbúnaðurinn ónýtist og málinu verði vísað frá. Dómurinn verður aldrei sú fyrirbyggjandi aðgerð sem venjulega liggur til grundvallar ákæru saksóknara.

Svo er það hitt að lögreglan er í vanda. Hún hefur áttað sig á því hversu heimskuleg þessi lögsókn er en getur ekki bakkað út úr henni.

Samanburðurinn á mótmælendum í Gálgahrauni og grjótkösturum, brennuvörgum og ofbeldismönnum á Austurvelli haustið 2008 er mikill. Þess vegna er það mikil ávirðing á lögregluna að hengja Gálgahraunsfólkið en láta glæpahyskið sleppa.


Hver gerir tilboð sem ekki er hægt að hafna?

Guðfaðirinn

Hverjir eru það sem geta hótað? Jú, það eru stóru strákarnir, þeir sterku, fjölmennu hóparnir eða jafnvel gæjarnir sem hafa það sem hinir hafa ekki, vopnin. Aldrei er það svo að sá sem hefur réttinn sín megin standi upp og segist ætla að rökræða, færa sannleikann til grundvallar réttri stöðu og um leið gera útaf við þann sem hefur lakari stöðu.

Þetta er svona sandkassaleikur. Sá sem er fyrri til að kasta sandi í augu hins er sigurvegarinn. Það er aldrei svo að litli náunginn standi upp og haldi því fram að vegna aðstæðna sé hann nauðbeygður til að berja á stóra stráknum í sandkassanum.

Ekki heldur er það svo að Evrópusambandi tilkynni þann ásetning sinn að setja viðskiptabann á Bandaríki Norður-Ameríku vegna þess að þau síðarnefndu vilji ekki fara að lokatilboði sínu ... skiptir engu um hvað er verið að ræða.

Né heldur hefur það gerst að Bandaríkin hafi sett viðskiptabann á Kína, ESB eða Rússland. Ekki heldur hefur Stóra Bretland gripið til hervalds gegn neinum eða sett aðra á hryðjuverkalista nema þá sem eru miklu minni og aumari.

Enginn hefur gert öðrum tilboð sem ekki er hægt að hafna ... nema auðvitað mafían, Evrópusambandið, Stór-Þýskaland eða Al-Kaída.


mbl.is Hótar refsiaðgerðum vegna markrílsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Unglegir eldri sjálfstæðismenn

Oli

Eldri Sjálfstæðismenn hafa löngum verið frjálslyndir og áreiðanlega boðið til sín fleiri ungmennum en þeim sem auglýstur er sem gestur á næsta fundi, 29. janúar.

Eitthvað kannaðist ég við myndina af manninum og eftir dálitla umhugsun varð mér litið á nafn gestsins. Þá loks uppgötvaði ég að myndin var æskumynd af Óla Birni Kárasyni, varla fermingarmynd en það er ekki langt frá því.

Staðreyndin er hins vegar sú að við Óli Björn erum komnir hátt á sextugsaldurinn og berum hann báðir vel. Ég þori að fullyrða að þessi gamli kunningi minn er eiginlega jafn unglegur og hann er á myndinni, að minnsta kosti ekki langt frá því.

Svo legg ég til að Eldri sjálfstæðismenn birti ávallt fermingarmyndir af ræðumönnum sínum. Það er eitthvað svo hugnæmt og elskulegt við það.

Síðan er það bara spurninginn hvort maður megi mæta. Nja, kannski maður þurfi að bíða enn í nokkur ár.


Hvar í ósköpunum er þetta Drekavatn?

Drekavatn

Hvar er Drekavatn þar sem varð óhapp eða slys. Jú, það er rétt sem kemur fram í fréttinni að það er austur af Þórisvatni, en vatnið er stórt. Drekavatn er hins vegar frekar lítið og er norðan við Veiðivötn.

Þetta sést allt vel á meðfylgjandi korti.

Fyrir blaðamann sem þekkir ekki til staðhátta tekur ekki langan tíma að fletta því upp hvar Drekavatn er og síst af öllu að birta lítið kort með svona frétt. Kortið skiptir nefnilega öllu máli.

Kortið sem ég birti hér er fengið hjá Landmælingum Íslands og ég sett inn á það helstu örnefni. Vegir og slóðar eru merktir með raunum og gulum lit. Drekavatn er nær því efst á kortinu fyrir miðju.

Nú ættu allir að vita hvar Drekavatn er. Það tók mig örfáar mínútur að klippa út þetta kort. Fyrst ég get gert þetta hlýtur Mogginn að geta þetta og örugglega miklu betur. Hvers vegna gerir hann það þá ekki? 

Þess má geta að í nágrenni Drekavatns voru nokkur skot tekin í myndina Oblivion með Tom Cruse. 


mbl.is Björgunaraðgerð á Drekavatni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreinn meirihluti hugsjónafólks ...

Þeir sem lána öðrum peninga hafa stórgrætt á íbúðalánum vegna þess að þau eru tengd þróun verðlags og því einstök peninganáma. Lánveitendur krefjist sömu vaxta af íbúðalánum eins og af rekstrarlánum fyrirtækja, einstaklingslánum vegna kaupa á bílum og svo framvegis, er það bara ekki í lagi? Þeim er algjörlega sama um þá stefnu að gera öllum kleift að eignast eigið húsnæði. Stefna lánveitenda er að hjálpa til svo framarlega sem lántakendur geti greitt ofurrvexti fyrir forsendum eðlilegs lífs.
 
Nei, við eigum ekki að banna verðtrygginguna eða verðtryggð lán. Hins vegar væri það réttlætismál að launataxtar væru á sama hátt tengdir henni. Þá mun ríkja jafnvægi milli lánveitenda og lántakenda. Bönnum ekkert nema mismunina. Krefjumst aðeins þess að verðtrygging launa verði tekin upp. Setjum lagareglur að þau laun sem samið er um í dag verði jafngild allan samningstímann rétt eins og lánveitendur hafa í áratugi haft með íbúðalánin.
 
Ef stjórnarherrarnir sem nú sitja vilja ekki sinna þessu ættum við hugsjónafólkið að bindast samtökum um að bjóða fram í næstu kosningum með þessi stefnumál á oddinum. Hugsjónafólk um verðtryggingu lána og hugsjónafólk um verðtryggingu launa. Það væri hreinn meirihluti í kortunum - öllum í hag. Er þa'ki bara?
 
Ofangreint er skoðun þess sem ritar hér pistla dags daglega. 
 
Í Morgunblað helgarinnar skrifar Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari eftirfarandi örgrein undir fyrirsögninni „Hreinn meirihluti?“: 
 
Jón
Þeir sem lána öðrum peninga vilja jafnan áskilja sér að fá lánsféð endurgreitt. Þetta er hrein ósvífni af þeirra hálfu. Þeir ganga flestir meira að segja svo langt að vilja fá vexti af lánsfénu. Þetta gengur ekki. Við verðum að banna þetta. Bönnum lánskjaravísitölu. Bönnum „raunvexti“. Setjum lagareglur um að lánveitendum beri skylda til að borga með lánum sem þeir veita öðrum. Ef stjórnarherrarnir sem nú sitja vilja ekki sinna þessu ættum við hugsjónafólkið að bindast samtökum um að bjóða fram í næstu kosningum með þessi stefnumál á oddinum. Það væri hreinn meirihluti í kortunum.  
 

Og nú spyr ég þig, ágæti lesandi: Hvor telur þú réttlátara, það sem Jón Steinar segir eða það sem kemur fram í fyrri pistlinum? Í sannleika sagt veltur svarið á því hvers konar hugsjónamaður þú ert, minn kæri!

 

 


Hvar er þessi Kolbeinsdalur?

Kolbeinsdalur2

Vita allir hvar Kolbeinsdalur er? Líklega gengur blaðamaður Morgunblaðsins út frá því sem vísu að svo sé en hann hefur einfaldlega rangt fyrir sér.

Landafræðiþekking fólks er mismunandi. Ein af grundvallarreglum í blaðamennsku er að skrifa þannig að sem flestir skilji og afar mikilvægt er að segja frá vettvangi fréttar. 

Kolbeinsdalur er í Skagafirði austanverðum, norðan við Hjaltadal þar sem hinir fornfrægu Hólar eru. Og norðan við Kolbeinsdal er Deildardalur. 

Ekki tók mikið á að skrifa þessi tuttugu orð sem upplýsa eiginlega allt sem þarf. Nú, svo er alltaf gott að birta lítið kort. Kortið sem ég birti hér er fengið hjá Landmælingum Íslands og ég sett inn á það nöfn fjarðarins, þriggja dala og næsta þéttbýlis.

Nú ættu allir að vita hvar Kolbeinsdalur og Deildardalur eru. Þetta tók mig tvær mínútur. Fyrst ég get gert þetta hlýtur Mogginn að geta þetta og örugglega miklu betur. Allir geta gefið út einhvers konar fjölmiðil, en fyrir hvern er það gert, lesandann eða einhvern annan?


mbl.is Geitur á ótroðnum slóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gáfust aldrei upp en Pólverjar slökuðu á

Íslenska landsliðið var undir allan leikinn þangað til í blálokinn. Innkastið bjargaði eiginlega liðinu frá tapi, en dómararnir voru svo glöggir að koma auga á að boltinn sem lenti útaf hafði viðkomu í baki pólska markmannsins.

Hvaða ályktun má draga af þessum úrslitum? Jú, einfaldlega þá að leikurinn er ekki búinn fyrr en hann er flautaður af og á meðan eiga leikmenn að keyra á fullu, hver svo sem staðan er.

Þetta voru gleðileg úrslit, skiptir engu hver staðan var allan leikinn. Pólverjar fóru bara illa að ráði sínu, misstu forskot sitt hvað eftir annað niður, höfðu ekki dug til að láta kné fylgja kviði. 


mbl.is Ísland í 5. sæti eftir sigur á Póllandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig berast fiskisögur milli fugla?

Áhugaverð frétt í Morgunblaðinu í morgun vakti athygli mína. Þar segir frá fuglatalningu á norðanverðu Snæfellsnesi. Sem kunnugt er hefur verið mikið um síld í Kolgrafarfirði og blaðamaður hefur samband við Róbert A Stefánsson, líffræðing og forstöðumann Náttúrustofu Vesturlands. 

Í fréttinni segir: 

Nú sáust 3.730 súlur og rétt fyrir áramót voru um tólf þúsund súlur á svæðinu. Súlur voru mjög sjaldséðar við norðanvert Snæfellsnes áður en síldin fór að ganga þar inn. Eins sáust nú 32 hafernir, sem þykir mikið.

Skáladalur3

Róbert sagði að það væri ekki alveg vitað hvernig fiskisögur flygju á milli fugla.Og svo veltir blaðamaður og viðmælandi fyrir sér hvernig fuglar frétta af því hvar sé matarvon:

„Ég held að við vanmetum greind og tjáskiptahæfni dýranna. Það er þekkt, t.d. með hrafna og skyldar tegundir, að þeir skiptast á upplýsingum í næturstað um svona lagað. Það er ekkert sem segir að máfar geti ekki einnig gert það. Ég tel líklegt að fuglarnir geti skipst á upplýsingum,“ sagði Róbert.

Hann sagði að fuglarnir gætu líka elt hver annan, en ljóst væri að einhvern veginn fréttu fuglarnir af góðri fiskgengd og miklu æti.

Það er þetta með „tjáskipti“ fugla er dálítið forvitnilegt og efni þessa pistils.

940708-33

Eitt sinn sem oftar var ég í Aðalvík á Hornströndum og gekk með góðu fólki upp á fjallið Darra. Þar nálægt bjargbrún Grænuhlíðar standa leifar af radarstöð Breta frá því í seinni heimsstyrjöld. Frá þeim gengum við ofan í Skáladal en þangað niður er afar bratt en óskaplega falleg. Ofan í Skáladal eru nokkrar tjarnir og ein stærst.

Þegar við komum neðar sáum við bókstaflega straum fugla sem flugu hátt inn í dalinn frá Ritunum. Held að þetta hafi verið silfurmáfar.

Við tjörnina steyptu þeir sér niður að henni og dvöldu í skamman tíma í henni. Hverra erinda fuglarnir fóru í tjörnina veit ég ekki en þeir busluðu þarna um stundu og fór síðan. Okkur til mikillar undrunar sáum við að fuglarnir fóru sömu leið til baka en flugu þá miklu lægra.

940708-34

Þannig myndaðist umferð í loftinu og var greinileg regla á ferðum fuglanna. Þeir gættu þess að hafa einstefnu báðar leiðir svo komufuglar og farfuglar mættust ekki. Hugsanlega gerðu þeir þetta til að greiða fyrir umferð og minnka slysahættu.

Allt var þetta svo skýrt og greinilegt að í hugum okkar sem á horfðu var enginn vafi á því hvað var að gerast. Þetta var einfaldlega vitrænt skipulag sem auðveldaði flug og ferðir fugla að tilteknum áfangastað og til baka.

Aldrei varð heldur nein örtröð á tjörninni því fuglarnir gættu þess að dvelja þar ekki of lengi ... eða að fyrirskipunin hafi verið sú að fuglar gætu dvalið þar í tiltekinn „tíma“ og síðan ættu þeir að fara ... 

Nú velti ég því fyrir mér hvernig svona skipulag geti komist á. Mér er til mikils efs að fuglar hafi þarna elt hverja aðra í einhverri blindni.

Ekki veit ég heldur hvað var svona eftirsóknarvert við ferskvatnstjörnina. Fuglarnir gætu til dæmis hafa verið að skola af sér seltu, sækja sér leir eða sand úr botni hennar eða eitthvað annað. Erindið er í sjálfu sér ekki aðalatriði heldur hitt að skipulagið var til staðar sem stórkostlegt var á að horfa.

940708-37

Ekki veit ég hvernig fuglar skiptast á upplýsingum en eftir þetta er ekki vafi um það í huga mínum og undir það geta þeir tekið sem fylgst hafa með atferli fugla á einn eða annan hátt. Lífið er ekki algjörlega blint og dýr og fuglar velja um þá kosti sem í boði eru.

Myndirnar eru ekkert sérstakar enda var ég ekki með góða myndavél í þessari ferð. Þær eru teknar á filmu myndirnar hef ég skannað. Með góðum vilja geta lesendur ef til vill ráðið í þær.

  1. Efsta myndin er fengin að láni frá Google Maps og er loftmynd af Skálavík. Inn á hana eru tjarnirnar tvær og ég hef merkt flugleiðir fuglanna að þeim. Þess ber að gera að flugleiðirnar eru í mismunandi hæð eins og segir hér að undan.
  2. Næst er mynd af neðri ferskvatnstjörninni. 
  3. Á þeirri næstu má greina hvernig fuglarnir koma að tjörninni og lenda þar 
  4. Síðast er nærmynd af tjörninni og umferð við hana. 

 

 


Kántrýbær er glæsilegur veitingastaður

KnatrybaerStundum er flumbrugangurinn svo mikill að blaðamenn nenna ekki að lesa yfir það sem þeir skrifa og enginn annar sinnir prófarkalestri. Þetta er miður.

Til að eyða öllum misskilningi þá annast Kántrýbær ekki matargerð fyrir skólabörn í Skagafirði, eins og segir í fréttinni, heldur á Skagaströnd (þetta hefur nú verið leiðrétt í fréttinni). Sammerkt eiga þó ströndin og fjörðurinn að vera kennd við sama Skagann. Það veldur hins vegar oft misskilningi sem er óþarfur. Til dæmis ruglast fáir á Akranesi og Akureyri og eru báðir staðirnir kenndir við akur, einn eða fleiri. Hvað þá að hægt sé að ruglast á Höfn og Hafnarfirði, Snæfelli og Snjófelli eða Arnarfirði og Dýrafirði ... svo dæmi séu tekin.

Síðan er vert að bæta því við að Kántrýbær er geysilega vel rekinn staður. Gunnar Halldórsson og Svenný Hallbjörnsdóttir hafa undanfarin ár rekið mjög vandaðan veitingastað sem býður upp á geysilega góðan matseðil, þjónustað viðskiptavini af mikilli natni og alúð. Þess vegna er Kántrýbær afskaplega vinsæll hjá heimamönnum og ferðamönnum fer stöðugt fjölgandi.

DSC_0055

Þarna eru því miklir möguleikar fyrir þá sem vilja hasla sér völl í ferðaþjónustu og það á landsvæði sem vekur sífellt meiri athygli. Það sem enn vantar er hótel og þegar það kemur munu vinsældir Skagastrandar aukast að miklum mun.


mbl.is Kántrýbær til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steinhússmýri sigraði Elskubæ í fótbolta

Baksíðan á Mogganum í morgun er harla skemmtileg. Hún er eiginlega lögð undir íþróttir og sérstaklega vekur stóra myndin athygli, nokkrir kallar sem mynda stuðningsmannafélag Leeds, sem er knattspyrnufélag í samnefndri borg á Englandi.

Einu sinni var Leeds stórveld en er það ekki lengur. Man eftir að ríkissjónvarpið sýndi stundum nokkurra daga gamla leiki félagsins í deild hinna bestu. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Félagið hefur átt í barningi í fjölmarga áratugi, svamlað í neðri deildum og flest verið því mótdrægt á knattspyrnuvellinu.

Þetta minnti mig á menntskólaárin. Ég kom inn í fjórða bekk í Menntaskólann í Reykjavík og lenti í eftirminnilegum bekk sem ég sat einn vetur. Þar kynntist ég eiginlega í fyrsta sinn alvöru KR-ingum, sem þó tóku mér vel, Valsaranum, tja, bara alveg ágætlega. Svona menn þekkti ég ekki, lagði sjaldnast leið mína í Vesturbæinn, yfirráðasvæði KR, nema ég væri tilneyddur. Og til hvers hefði Valsari sosum átt að fara þangað?

Man að Skúli bróðir minni fullyrti við mig þegar ég var smápatti að KR væri versta fótboltalið í heimi. Og veistu hvers vegna? spurði hann, og svaraði spurningunni um leið: Það er vegna þess að KR-ingar verða svo montnir ef þeir skora mark. Þessi rök þóttu mér afar sterk og var harður andstæðingur KR þangað til daginn sem ég leiddi eldri son minn, þá nýorðinn sex ára, inn á fyrstu æfinguna hjá félaginu. Þá var ég fluttur í Vesturbæinn en Skúli bróðir hafði búið þar lengur en ég man. Fram til dauðadags hélt hann með KR. Ekki veit ég hvernig á sinnaskiptum hans stóð og við ræddum það oft en hann hló bara og gerði grín að mér. Hins vegar mun það enn vera svo að KR-ingar varða afar montnir af hverju marki sem þeir skora, og þau eru mörg og öll gagnleg. Hann ýkti ekkert um þá hluti.

En það var þetta með KR-inganna í bekknum mínum í Menntaskólanum í Reykjavík. Margir hverjir spiluðu þá með öðrum flokki, strákar eins og Guðmundur Jóhannesson, Gunnar Ingimundarson, Guðjón Borgar og Gísli Gíslason. Í þessum bekk var starfandi fótboltafélag og þá var í tísku að nefna þau eftir enskum. Okkar hafði einhvern tímann fyrir mína tíð fengið nafnið Steinhousemuir (Steinhússmýri) og ku hafa verið nefnt eftir skosku félagi í samnefndum bæ. Þar var og er starfandi fótboltafélag sem aldrei hefur gert garðinn frægan en þráast þó við, sem betur fer, ætti maður eflaust að segja. 

Helstu andskotar okkar voru í fimmta bekk og nefndu lið sitt hinu elskulega nafni Darlington eftir enskum bæ. Afrek þess hafa verið nokkur en fæst þess eðlis að það taki því að rifja þau upp hér. Með þessu MR-liði léku nokkrir sprækir KR-ingar. Í augnablikinu man ég eftir Þorláki Björnssyni og Sigurði Helgasyni. 

Í úrslitaleiknum léku sum sé Steinhousemuir og Darlington á gamla Melavellinum. Mikið var viðhaft, Guðni rektor var heiðursgestur og tók í spaðann á öllum leikmönnum eins og við værum á Wembley. Og svo hófst leikurinn ... en minningin um hann hefur fyrir löngu veðrast og horfið út í veður og vind. Þó man ég það eitt að við unnum, voru besta liðið, skólameistarar í MR.

Jú, og eitt man ég og það var að við Guðmundur Jóhannesson sem nú er ljósmyndari, vorum markahæstir í Steinhousmuir í skólamótinu. Aðrir komust varla á blað ... held ég. Ég lék á kantinum en Gummi var senter. Ég var dálítið óstýrlátur og man eftir því að Gunnar Ingimundarson, fyrirliðinn, tók mig fyrir leik eftir leik og öskraði að ég ætti að halda mig á kantinum og bíða. Jafnvel þegar ég stalst inn á miðjuna og skoraði mark á tók hann mig fyrir og skammaðist. Auðvitað var þetta rétt hjá honum, ég vissi það. Hins vegar hafði ég aldrei áður leikið á kantinum, var eiginlega oftast sem sentir. Það varð líka úr að Gunni setti mig í þá stöðu og eftir það vorum við sáttir. Verst að ég á enga mynd af þessu fræga bekkjarliði.

Og þetta var nú tengingin við baksíðu Moggans í dag. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband