Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Hverjir búa til veðrið

Mikið var nú gaman að lesa viðtalið við veðurfræðinganna í sunnudagsmogganum. Glettilega skemmtilegt fólk með vasa fulla af skopi og sögum.

En í alvöru, búa þeir ekki til veðrið? Hverjir þá?

 


mbl.is Prúttað um veðrið og deilt um skúr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum er ekki sama?

Hverjum er ekki sama þótt þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna mótmæla. Ekki fannst þeim þeir þurfa að hugsa til stjórnarandstöðunnar þegar þeir voru í meirihluta.

Þannig koma gjörðir Björns Vals Gíslasonar, varavaraþingmanns Vinstri grænna, mátulega í hausinn á honum aftur rétt eins og hann væri Pílatus endurborinn. Hallgrímur Pétursson orti um þann síðarnefnda:

Pílatus keisarans hræddist heift
ef honum yrði úr völdum steypt.
Þetta sem helst nú varast vann
varð þó að koma yfir hann.

mbl.is Mótmæltu afgreiðslu frumvarpsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Djúp speki um iður jökla og lands

Skjalftar1

Eftir því sem líður lengra á milli þess að katlarnir tæma sig, því stærri verða hlaupin,“ segir Gunnar Sigurðsson, hópstjóri vatnamælakerfis Veðurstofu Íslands. 

Þetta er djúp speki og óvænt eða hvað ...

Annars er ekkert að gerast í undirdjúpum landsins. Tjörnesbrotabeltið og Reykjaneshryggur eru til friðs. Þar koma af og til nokkrir eftirskjálftar, afleiðingar skjálftahrinunnar fyrir nokkrum vikum.

Mýrdalsjökull virðist ekki ætla að vera til stórræðnanna. Katla hefur greinilega ekki litið á almanakið nýlega en henni var spáð léttasóttinni innan tveggja ára frá gosinu í Eyjafjallajökli. Sannast líklega það sem Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur sagði einhvern tímann að mannlegt dagatal væri ekki besta viðmiðunin hvað gos eða goshlé varðar.

Jafnvel hinn draumspaki ráðgjafi minn hefur ekki haft fyrir því að hafa samband. Er ef til vill ekki sáttur við draumfarir sínar síðustu árin. Ekkert hefur ræst af hræðilegum dómsdagsspám hans, sem betur fer. Til viðbótar hefur ekki heldur neinn af þeim spámönnum sem ritað hafa í athugasemdadálkana á þessu bloggi haft rétt fyrir sér.

Þegar upp er staðið er ég sá eini sem hef haft rétt fyrir mér. Eftir ítarlegar rannsóknir sýnist mér að jörð muni skjálfa áfram um ófyrirsjáanlega framtíð á Íslandi. Sumir skjálftanna verða afleiðing misgengis og hinir vegna kvikuhreyfinga. Þá mun eldgos verða á Íslandi á næstu árum.

Fer vel á því að ljúka pistlinum með álíka speki og hann byrjaði á. 


mbl.is Skaftá safnar kröftum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi tjáir sig

Enn er rætt um flugvöllinn. Þeir eru til sem vilja láta hann fara og koma fyrir 15.000 mann byggð, fjölmennara en vesturbærinn en minna svæði. Það er svo sem gott og blessað að fólk hafi skoðanir, verra er ef þær skiljast ekki.

Þorkell Á Jóhannesson, flugstjóri í sjúkraflugi, ritar ágæta grein um flugvöllinn í Morgunblaðið í morgun, og ávarpar Dag B, Eggertsson, samfylkingarmanninn sem er hægri hönd borgarstjóra í hlutastarfi. Þorkell sat fund í ráðhúsinu um aðalskipulag borgarinnar og lagði spurningu fyrir Dag. Svarið var eftirfarandi samkvæmt grein Þorkels. Ég hef ekki hugmynd um hvað Dagur er að fara og ég efast um að hann hafi vitað það sjálfur:

En, spurningin varðandi... ég held að enginn hér í pallborðinu hafi talað um að slíta tengsl landsbyggðarinnar við... Landspítalann heldur einfaldlega... ef það er verið að vísa í mín orð, þá var ég að segja að staðsetning spítalans og vallarins er... hangir ekki saman, það er mjög, það er mjög óalgengt að það séu flugvellir við ríkisspítala í löndunum í kring um okkur og ég held satt best að segja, því þetta er mjög áberandi í umræðunni um flugvallarmálið, að við verðum aðeins að passa okkur hvernig við tölum um þetta, ætlum við að ganga svo hart fram í flugvallarumræðunni, um flugvöll í Vatnsmýrinni, að við komum þeirri skoðun á kreik að það sé beinlínis hættulegt að búa úti á landi nema akkúrat við flugvelli? Ég meina er hættulegt að búa á suðurlandi? Ég held að... að... að þetta sé miklu flóknara, ég meina, það var tekin sú ákvörðun fyrir nokkrum árum að sjúkraflugvélar væru ekki lengur staðsettar á Ísafirði. Þetta, þetta er miklu flóknari mynd, það sem skiptir kannski mestu máli er hversu sérþjálfaðir heilbrigðisstarfsmenn eru á vettvang, ef að verður slys, hvort sem það er á landsbyggðinni eða annars staðar. E... síðan skiptir auðvitað máli ferðatíminn, en nákvæmlega hvar þú lendir er bara einn þáttur í þessu og við verðum að vega þetta allt inn í myndina. Kannski er 45 mínútna útkallstími mín sem læknis á vakt úti á landsbyggðinni meiri tími og meira mál heldur en nákvæmlega hvar flugvöllur er staðsettur, skiljið þið? Við... við bara megum ekki... þetta... þetta fe... við... við erum einhvern veginn... ja ég... ég... ég kann ekki að orða þetta betur... við... það er hættulegt að koma því inn að það sé lífshættulegt að búa úti á landi. Vegna þess að þessi umræða er svoldið það öðrum þræði ef við förum aðeins inn í okkur og... og... ég kann ekki við það... e... þeir sem lesa aðalskipulagið sjá hins vegar að það er alls staðar... það er alls staðar... e... algjörlega skýrt að við erum að hugsa sem höfuðborg... í landi. 

Á þennan hátt tjáir borgarfulltrúinn sig, en hann hefur ábyggilega sagt þetta í vinsamlegum tón ... Því fer vel á því að Dagur og Jón Kristinsson séu í samstarfi. Þar fara tveir menn sem vita ábyggilega hvað þeir gera en þurfa líklega báðir ítarlegt handrit til að geta tjáð sig opinberlega.


Lítil féþúfa verður ferðamennsku að falli

Lokun Kersins og sala að aðgangi inn í það er upphafið að lokun landsins. Þetta er sorgardagur. Frelsi fólks er ferðalaga er skert til þess eins að einstakir meintir landeigendur geti skarað eld að sinni eigin köku.

Takið eftir að eigengur Kersins hafa ekkert gert til að byggja upp ferðaþjónustu á staðnum annað en að girða náttúruvætti af og setja mann með posa og skiptimynd við hliðið. Þeir byggja ekkert upp, gera ekkert, láta staðinn halda áfram að drabbast niður en bjóða nú fólki að stunda hefðbundinn átroðning fyrir 350 krónur. Og yfirskriftin er „Verndum náttúruna“. 

Fyrir hvað er verið að greiða? Jú, landeigendur ætla einhvern tímann að gera eitthvað fyrir ferðamenn í Kerinu. Nei, ekki strax, heldur síðar. Þegar þeir hafa aflað fjár. Þá fá ferðamenn framtíðarinnar meira fyrir peninginn heldur en ferðamaður dagsins í dag.

Smám saman verður allt landið girt af í nafni náttúruverndar. Rétt eins og Reykhlíðingar við Mývatn ætla sér að gera. Safna aur til að laga það sem þeir hafa látið aflagast í ótal ár. Eða er þetta féþúfan sem þá langar svo óskaplega í? Ágirndin er hættuleg pólitík.

Brátt verður ferðamennska á Íslandi gjörbreytt. Ferðamaðurinn kemst ekkert fyrir rukkurum af ýmsu tagi. Fjöllum verður lokað, landsvæði afgirt.

  1. Glymur í Botnsdal lokaður
  2. Búðahraun og Búðaklettur lokað
  3. Djúpalón lokað
  4. Dritvík lokað
  5. Malarlón lokað
  6. Gatklettur við Arnarstapa afgirtur
  7. Kirkjufell verður afgirt
  8. Eyrarfell verður afgirt
  9. Drápuhlíðarfjalli verður afgirt
  10. Flatey verður lokað
  11. Rauðsandur verður læstur með hliði upp á heiði
  12. Látrabjarg, harðlæst
  13. Hornstrandir, landtaka bönnuð
  14. Kálfshamarvík lokuð
  15. Grímsey lokuð
  16. Hrísey lokuð
  17. Í Fjörðu lokað
  18. Dettifoss lokaður
  19. Þeistareykir lokaðir
  20. Loðmundarfjörður læstur
  21. Kollumúlaheiði lokuð
  22. Papey lokuð
  23. Horn lokað
  24. Austurfjörur lokaðar
  25. Suðurfjörur lokaðar
  26. Kálfafellsdalur lokaru,
  27. Jökulsárlón lokað (bannað að líta til norðurs af þjóðvegi)
  28. Ingólfshöfði lokaður
  29. Núpsstaðaskógar lokaðir
  30. Dverghamrar lokaðir
  31. Kirkjugólf lokað
  32. Systrastapi lokaður
  33. Landbrotshólar afgirtir
  34. Fjaðrárgljúfur lokað
  35. Lakagígar afgirtir
  36. Hjörleifshöfði lokaður
  37. Reynisfjara lokuð
  38. Dyrhólaey lokuð
  39. Skógaheiði lokuð
  40. Skógarfoss lokaður (bannað að horfa til hans)
  41. Seljalandsfoss lokaður (bannað að horfa til hans)
  42. Stóra-Dímon lokuð
  43. Háifoss lokaður
  44. Tröllkonuhlaup lokað (er hvort eð er vatnslaust)
  45. Hjálparfoss lokaður
  46. Gjáin lokuð
  47. Geysissvæðið lokað
  48. Arnarfell lokað
  49. Hveradalur, lokaður
  50. Kerið lokað
Fimmtíu staðir og svæði sem meintir landeigendur geta lokað fyrir öðrum landsmönnum. Hér hefur ekki verið tekin fyrir mörg landsvæði sem gráðugir landeigendur eða sjálfskipaðir umsjónarmenn vilja hafa að féþúfu.
 
Grundvallaratriðið er það að með gjaldtöku er einfaldlega verið að skerða rétt landsmanna til ferðalaga og að auki mun ferðamennska á landinu gjörbreytast til hins verra. Af verður lagður réttur landsmanna til ferðalaga um óræktað land, slíkur sem hefur verið hefð frá landnámi.
 
Allt er þetta gert í nafni náttúruverndar sem einfaldlega stafar af því að ríkissjóður, sem hagnast gríðarlega af innlendum og erlendum ferðamönnum og ferðaþjónustunni í heild sinni, hefur ekki talið sér fært að leggja fé til uppbyggingar í ferðamálum og fyrirbyggjandi aðgerðir í umhverfismálum. Í skjóli þess ætla meintir landeigendur að græða.

 


mbl.is Hefja gjaldtöku við Kerið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Snóden gestgjöfum sínum til tómra vandræða

Miðað við hvað íslenskir atvinnu- og áhugamenn um Wikileaks, njósnir og Bandaríkin eru rólegir yfir ferðalögum Eðvards Snódens fyllast sumir fréttasnapar grunsemdum. Nýjasta kenningin er sú að ástæðan fyrir því að þögn hafi lagst á þetta fólk sem þó sækist öllu jöfnu í sviðsljósið er að uppljóstrarinn er á leiðinni til Íslands.

Sæti mannsins var autt er flugvél fór til Kúbu og hann átti ekki framhaldsmiða til Venúsúelu. Það var ekki af fjárhagsástæðum heldur var honum ráðstafað í hús hjá sendiherra Ekvador í Moskvu enda allt þetta leikrit.

Næstu daga verður settur upp svipaður leikþáttur og í Hong Kong. Nokkrar flugvélar verða sagðar flytja uppljóstrarans til Suður-Ameríku en einhvers staðar verður ein sem flýgur svo lítið ber á hingað upp á klakann.

Fyrir vikið verður Ísland í sviðsljósinu í smá tíma. Þá er það aðeins spurning hvernig hrammur Bandaríkjanna leggst með þunga á íslensk stjórnvöld, viðskipti, stjórnmál og annað. Þá kann þessi litla þjóða að þurfa að velja á milli uppljóstrarans og „góðvildar“ nágranna okkar í vestri. 


mbl.is Hvar er Snowden?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borinn niður í sjúkrabíl, ekki börum ...

íslenskan er skemmtilegt mál og verður þeim oft að fótakefli sem kunna það ekki til hlítar. Líklega gerir það þeim ekki til sem vita vetur. Unga stúlkan sem er dagskrárgerðarmaður í útvarpinu var spurð um Borgarfjörð eystri. Hún sagðist aldrei hafa stoppað þar, aðeins ekið í gegn ...

Og þetta með Þverfellshorn. Tja ..., venjan er sú að þangað er gengið upp eða niður. Gönguleiðin liggur ekki „um Þverfellshorn“, þó eflaust sé ekki alrangt að taka svo til orða. 

Göngumaðurinn var þannig meiddur að einhverjir þurftu „að bera hann niður í sjúkrabíl“. Enginn benti þeim á að léttara væri að nota börur. Auðvitað er ekki alrangt að segja svona en röðun orða í málsgrein skiptir máli svo enginn misskilningur verði. 

Nú er hins vegar tími afleysingarmanna í fjölmiðlum og enginn sem les yfir. Göngumaður er slasaður í Esju líkt og gestur er slasaður á bar og í hvorugu tilvikinu finnast þeir sem bera ábyrgð. Í seinna tilvikinu gerir lesandinn þó ráð fyrir að einhver hafi slasað gestinn. Enginn er þó barinn niður í sjúkrabíl.

Að lokum vil ég endilega hreyta því út úr mér að mér leiðst ákveðinn greinir á sérnöfnum og ekki síst örnefnum. Móðir kunningja míns fór ávallt í Hagkaupið eða Bónusið og það þótti okkur eiginlega fyndið. Margir ganga (eða labba) á Esjuna, aldrei gengur neinn á Vífilsfellið, hvað þá á Botnsúlurnar eða Hreggnasann. 


mbl.is Göngumaður slasaður í Esjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Förum í gönguferð í kvöld og nótt

Þennan dag er sólagangur lengstur hér á landi. Það er hvorki ný né gömul saga að fólk vilji vera úti þá nótt sem björtust er. Auðvitað er afbragð að nýta sér birtuna til gönguferða.

Hér á höfuðborgarsvæðinu eru mörg falleg fjöll sem gaman er að ganga á. Ég hvet fólk til að velja sér göngusvæði við hæfi. Hér eru nokkur dæmi:

  1. Vífilsfell: Yndislegt fjall, mikið útsýni og fallegt móberg. Ég mæli með því.
  2. Esjan. Ekki ganga upp á Þverfellshorn, alltof margir fara þangað og leiðin er orðin löng og leiðinleg.. Gangið frekar upp Lág-Esju, austurhorn Kistufells, Hátindaleið eða Móskarðshnúka.
  3. Úlfarsfell: Alltaf gaman að ganga þangað upp, létt og auðveld leið, hentar ágætlega fyrir börn.
  4. Mosfell: Fallegt fjall og auðgengið á það.
  5. Litlu fellin í Mosfellsbæ: Helgafell, Æsustaðafjall og Reykjafell: Fell sem eru þægileg fyrir flesta og af þeim gott útsýni.
  6. Sandfell og Selfjall: Lítil fell suðvestan við Sandskeið. Auðvelt að ganga á þau.
  7. Helgafell við Hafnarfjörð: Óþægilega margir ganga á fjallið sem auðvitað er afar fallegt. Þarna ser skammt í Húsfell sem er einstaklega áhugavert.
  8. Búrfell og Búrfellsgjá: Stórkostleg náttúruundur og reglulega gaman að fara um með börnin.
  9. Grindaskörð: Þangað leggja ekki margir leið sína sem er miður, óskaplega gaman að koma þangað og skoða gíganna.
  10. Reykjanesfólkvangur: Þar eru mörg falleg fjöll eins og Grænadyngja, Höskuldarvellir, Vesturháls og Sveifluháls og mörg fleiri.
Eflaust er ég að gleyma einhverjum. Aðalmálið er þó að fara út í gönguferð í kvöld. Velja sér góða félaga og rölta inn í nóttina og finna svarið við lífsgátunni, tilvistinni eða bláum himni. Jafnvel að rifja upp fallegt ljóð og muldra, sér og kannski einhverjum öðrum til skemmtunar.
 
Væri ég skáld myndi ég láta fylgja hér lífsnautnaljóð. Því miður er það og verður óort. Þá snýr maður sér til Hannesar Hafsteins og upplifir stemningu næturinnar:
 
Og náttgalinn dillar í laufsvölum lund
og ljúft þýtur vorblær um engi 
á rósknöppum fiðrildin blaka i blund
og blítt kyssast dúfur á vengi.
 
Og einsömul voru þau, á dettur nótt,
hinn elskandi barmurinn svellur 
hið forboðna lokkar svo ljúft og svo hljótt
að loksins hin syndugu féllu. 
 
En Hannes átti sér aðra hlið en þá rómantísku og mikið óskaplega væri nú gaman að vera í sporum hans þegar þetta var ort:
 
Ó, mikið skelfing er skemmtilegt hér,
skínandi bjórinn við hliðina á mér,
á koníakstaupi ég tek mér í hönd,
svo tært, hreint og fullt uppí rönd. 

Aflstöðvar almennra Sjálfstæðismanna eru orkumiklar

7 Langisjór

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að hafa það hugfast að við erum fjölmargir flokksbundnir sem eru mjög hlynntir stækkun friðlýsingar í Þjórsárverum. Flokkurinn hefur breyst mikið og við erum fjölmörg sem teljum Þjórsárver ekki flokkspólitískt mál heldur miklu frekar tilfinningalegt og tilfinningar eru orkumiklar.

Nýjar kynslóðir hafa allt aðrar skoðanir á umhverfis- og náttúruvernd heldur en þær eldri. Ástæðan er einfaldlega sú að fólk ferðast mikið meir um landið heldur en eldra fólk gerði. Gönguferðir eru ekki aðeins í tísku því fólk fer á fjöll af einskærri þörf fyrir að njóta landsins og reyna líkamlega á sig.

Við þekkjum mörg hver Þjórsárver, við höfum skoðað Kárahnúkavirkjun, við höfum farið um Hágöngur og við okkur blasir Hellisheiðarvirkjun. Landsvirkjun framleiðir víða rafmagn og kallar þá staði aflstöðvar og það líka með réttu.

Bjarni, Hanna Birna, Ragnheiður Elín og Illugi, munið að hafa vaðið fyrir neðan ykkur. Þið hafið verið valin í forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ekki setja okkur í þá aðstöðu að geta ekki varið gerðir ykkar í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Ég bið ykkur lengstra orða að hafa þetta í huga því aflstöðvar almennra Sjálfstæðismanna eru orkumiklar.


mbl.is Boðskortið kom verulega á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnaðar panoramamyndir frá Íslandi

Fyrir utan það að rembast við að eiga fyrir mat og húsaskjól hefur stór hluti lífs míns farið í ferðalög um landið. Ég á stórt safn ljósmynda og eitt af því ánægjulegasta sem ég geri er að skoða myndir úr ótal gönguferðum mínum hingað og þangað um landið og njóta þeirra. Myndirnar eru vissulega misjafnar að gæðum, sumar afar lélegar, aðrar skárri og nokkrar góðar. Þær eru hins vegar heimild um margt af því sem ég hef farið.

Í dag rakst ég á vefsíðu sem nefnist Air Pano. Þeir sem að henni standa eru rússneskir menn sem hafa áhuga á að bú til panorama ljósmyndir. Þeir hafa birt myndir sem þér tóku á nokkrum stöðum á Íslandi. Í stuttu máli eru þessar myndir aldeilis stórkostlegar. Með því magnaðasta sem ég hef nokkurn tímann séð. Þær fylla manni aðdáun og stolti yfir landinu okkar. Gera okkur öll umhverfissinnað og áhuga á að vernda náttúruna. Hver getur verið á þeirri skoðun að gera Langasjó að miðlunarlóni fyrir vatnsaflsvirkjun eftir að hafa séð myndirnar frá Rússunum.

Við liggur að maður pakki saman eigin myndum og hendi þeim, svo áhagstæður er samanburðurinn. Ég stilli mig samt.

Maður er hreinlega agndofa yfir þessum myndum og þær eru alls ekki teknar við bestu skilyrði, ský, þoka, rigning, sólargeislar. Allt fær að njóta sína.

Ég leyfði mér að taka ófrjálsri hendi myndir úr þessum panaorama hringferðum til að birta hér. Hvet alla til að skoða heimasíðuna. Ef til vill finnst einhverjum angurvær tónlistin sem leikin er á vefnum spilla fyrir, en mér finnst hún í lagi.

Munið að hægt er að stækka myndirnar með því að klikka nokkrum sinnum á þær.

7 Langisjór 

 Langisjór. Horft í suður, Sveinstindur er vinstra megin við miðju efst á myndinni.

5 Vei#2A947A 

Hér erum við stödd austan við Sveinstind og horfum í austur.

2 Mælifell 

Mælifell og Mælifellssandur. Mýrdalsjökull til vinstri, horft í vestur.

3 Öxarárfoss 

Öxarárfoss og Almannagjá. 

4 Torfajökull 

Útsýni til norðvesturs ofan frá Torfajökli. Þarna sér inn í Jökulgil, Hattver, Barm og víðar.

6 Ljótipolliur 

Ljótipollur, skúraleiðingar austan við hann. Til vinstri sér í Blautaver.

1 yfirlit 

Inn á kortið eru þeir staðir merktir sem Rússarnir hafa myndað.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband