Förum í gönguferð í kvöld og nótt

Þennan dag er sólagangur lengstur hér á landi. Það er hvorki ný né gömul saga að fólk vilji vera úti þá nótt sem björtust er. Auðvitað er afbragð að nýta sér birtuna til gönguferða.

Hér á höfuðborgarsvæðinu eru mörg falleg fjöll sem gaman er að ganga á. Ég hvet fólk til að velja sér göngusvæði við hæfi. Hér eru nokkur dæmi:

  1. Vífilsfell: Yndislegt fjall, mikið útsýni og fallegt móberg. Ég mæli með því.
  2. Esjan. Ekki ganga upp á Þverfellshorn, alltof margir fara þangað og leiðin er orðin löng og leiðinleg.. Gangið frekar upp Lág-Esju, austurhorn Kistufells, Hátindaleið eða Móskarðshnúka.
  3. Úlfarsfell: Alltaf gaman að ganga þangað upp, létt og auðveld leið, hentar ágætlega fyrir börn.
  4. Mosfell: Fallegt fjall og auðgengið á það.
  5. Litlu fellin í Mosfellsbæ: Helgafell, Æsustaðafjall og Reykjafell: Fell sem eru þægileg fyrir flesta og af þeim gott útsýni.
  6. Sandfell og Selfjall: Lítil fell suðvestan við Sandskeið. Auðvelt að ganga á þau.
  7. Helgafell við Hafnarfjörð: Óþægilega margir ganga á fjallið sem auðvitað er afar fallegt. Þarna ser skammt í Húsfell sem er einstaklega áhugavert.
  8. Búrfell og Búrfellsgjá: Stórkostleg náttúruundur og reglulega gaman að fara um með börnin.
  9. Grindaskörð: Þangað leggja ekki margir leið sína sem er miður, óskaplega gaman að koma þangað og skoða gíganna.
  10. Reykjanesfólkvangur: Þar eru mörg falleg fjöll eins og Grænadyngja, Höskuldarvellir, Vesturháls og Sveifluháls og mörg fleiri.
Eflaust er ég að gleyma einhverjum. Aðalmálið er þó að fara út í gönguferð í kvöld. Velja sér góða félaga og rölta inn í nóttina og finna svarið við lífsgátunni, tilvistinni eða bláum himni. Jafnvel að rifja upp fallegt ljóð og muldra, sér og kannski einhverjum öðrum til skemmtunar.
 
Væri ég skáld myndi ég láta fylgja hér lífsnautnaljóð. Því miður er það og verður óort. Þá snýr maður sér til Hannesar Hafsteins og upplifir stemningu næturinnar:
 
Og náttgalinn dillar í laufsvölum lund
og ljúft þýtur vorblær um engi 
á rósknöppum fiðrildin blaka i blund
og blítt kyssast dúfur á vengi.
 
Og einsömul voru þau, á dettur nótt,
hinn elskandi barmurinn svellur 
hið forboðna lokkar svo ljúft og svo hljótt
að loksins hin syndugu féllu. 
 
En Hannes átti sér aðra hlið en þá rómantísku og mikið óskaplega væri nú gaman að vera í sporum hans þegar þetta var ort:
 
Ó, mikið skelfing er skemmtilegt hér,
skínandi bjórinn við hliðina á mér,
á koníakstaupi ég tek mér í hönd,
svo tært, hreint og fullt uppí rönd. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband