Hvað gerðist í Esjunni og hvernig eru aðstæður?

130203

Þegar um alvarlegt slys er að ræða í fjalllendi er ekki úr vegi fyrir virðulegan fjölmiðil að birta ítarlegri fréttir af málinu. Hér er kort sem sýnir Esju og Hátindur er austast á fjallinu, það er lengst til hægri.

Hátindur er stórkostlegur staður. Margt veldur. Hann er hár, 909 m, rétt eins og nafnið ber með sér og þaðan er einstaklega víðsýnt og bratt er á allar hliðar nema inn á Esjuna. Þarna er frábært að vera. Margir ganga á Hátind inn af Esjunni, t.d. af Kistufelli eða Þverfellshorni, jafnvel frá Móskarðshnúkum, eða þá beint upp frá Þverárkotshálsi.  

DSCN1648

 Hér er svo mynd sem tekin er fyrir nokkrum árum af Kistufelli og er horft yfir að Hátindi sem er hæsti hluti fjallsins sem sést þarna í fjarska. 

Á milli er djúpur dalur sem heitir Grafardalur, rúmlega 800 metra dýpi, hrikalega bratt en þó ekki alls staðar ófært.

Svo kemur hérna ein mynd til viðbótar en hún er tekin af Móskarðshnúkum, það er fyrir austan Hátind. Inn á myndina hef ég teiknað lauslega leiðina af Hnúkunum og inn á Hátind á Esju. Það er einhver magnaðasta gönguleið hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég vara þó við henni, hún er ekki fyrir lofthrædda og enginn ætti að fara þessa leið nema að sumarlagi.

DSCN5568b

Nú, þarna sjáum við Hátind, hann ber hæst. Síðan liggur leiðin af honum til suðurs, niður bratta hamrana og út á Þverárkotsháls og þaðan niður á láglendi.

Í fljóti bragði má ætla að lesandinn hafi nú fyrir sér aðstæður á þessu svæði. Þarna er mikill bratti eins og sjá má á myndum og korti. Ég hef farið þrjár leiðir niður af Hátindi, allar eru mjög brattar og erfiðar.

Í sjálfu sér er ekkert að því að ferðast um Esjuna að vetrarlagi. Þau mistök gera þó flestir að fara á hana án þess að vera með nauðsynlegan útbúnað. Fjallamenn vitað að snjórinn á fjöllin getur verið afskaplega harður, jafnvel svo að útilokað er að marka almennileg spor í hann. Þar með er leiðin ófær nema ferðamaðurinn sé með ísexi, ísbrodda, vað og annað sem auðveldar ferðina. En þetta er ekki nóg. Hann verður að kunna á þessi tæki sín og hafa notað þau, ekki bara einu sinni heldur oft.

Hvað gerir maður sem fellur í vatn? Hann grípur ósjálfrátt til sundtakanna, þau eru flestum eðlislæg. Annað mál er með ísöxi og brodda. Fæstir kunna að beita ísexi og kunna ekki handtökin á henni og geta þar af leiðandi ekki brugðist rétt við þegar maður dettur. Vanir fjallamenn kunna þetta og æfa reglulega vegna þess að þegar í krappann er komið er enginn tími til að velt því fyrir sér hvernig eigi að beita öxinni. Rétt viðbrögð eiga að vera sem næst því ósjálfráð.

Ég hef margoft séð óvant fólk á ísbroddum og með ísöxi í hendi falla. Í öllum tilvikum hendir það frá sér öxinni og reynir að krafla í harðan snjóinn með höndunum. Og ísbroddar geta verið stórhættulegir þegar þeir eru komnir á skóna hjá óvönu fólki. Ekki þannig að broddarnir sjálfir skaði heldur sú staðreynd að fólk dettur af því að það kann ekki beita þeim, rennur af stað og fyrir tilviljun geta broddarnir rekist í snjóinn og þá er viðbúið að ökklinn láti undan eða fótur brotni.

Hvað gerðist í Esjunni? Veðrið hefur ábyggilega ekki skipt neinu máli, fólkið var örugglega vel útbúið. Hins vegar er ég viss um að þarna hefur verið á ferðinni stór hópur sem hefur einsett sér að æfa sig í fjallaferðum og ætlar á Hvannadalshnúk í vor. Annað hvort hefur sá sem datt verið óvanur og ekki verið viðbúinn aðstæðum eða þetta hefur verið slæmt óhapp sem jafnvel hinir reyndustu fjallamenn geta lent í.

Svo oft hef ég farið á fjöll, verið stundum fljótfær og lent í vandræðum, að ég veit það núna að í bakpokanum í dagsferðum að vetrarlagi eiga að vera broddar, öxi, vaður og ekki síst nóg nesti. Sá sem fer af stað án þessa er að bjóða hættunni heim. 

Hins vegar er það bjargföst skoðun mín að það sé ekkert að því að ferðast að vetrarlagi, jafnvel í slæmu veðri. Látum ekki nokkurn mann segja okkur annað, síst af öllu ef hann hefur ekki mikla reynslu af fjallaferðum. 


mbl.is Göngukonan er komin í sjúkrabíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Er ekki rétt að hinkra eftir upplýsingum ?

hilmar jónsson, 4.2.2013 kl. 21:47

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ertu virkilega svona illa innrættur? Hilmar.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 4.2.2013 kl. 21:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband