Bæjarstjórn Garðabæjar hefur stórskaða málstað Sjálfstæðisflokksins

erling.jpgÍ Morgunblaðinu í dag er við Erling Ásgeirsson, formann bæjarráðs Garðabæjar. Af lestri þess fer ekki á milli mála að hann og bæjarstjórnin er kominn út í horn með framkvæmdirnar í Gálgahrauni og á í hinum mestu erfiðleikum með málstað sinn.

Í þokkabót gerir Morgunblaðið honum afar slæman grikk sem er að birta kort og ljósmynd af Gálgahrauni. Hefði hvorugt fylgt viðtalinu gæti það virst bara nokkuð sennilegt og jafnvel skapað dálitla samúð með málstað hans gegn hinum vondu hraunavinum. Hann þráast engu að síður við og hálmstráið er að kalla Gálgahraun Garðahraun, rétt eins og það örnefni bjargi einhverju. En í raun er hann eins og handrukkarinn sem villist inn á heimili, og eftir að hafa stórskemmt innanstokksmuni, biðst hann hálfvegins afsökunar: Úbbbbs ..., bömmer. Getum við ekki bara verið vinir hér, ha ... Grafið stríðsöxina ...

Það er hins vegar rétt hjá Erlingi að barátta hraunavina er töpuð því vegurinn hefur þegar verið markaður í gegnum hraunið. Hann verður þá þar til framtíðar sem minnisvarði um óskynsamlegar ákvarðanir bæjarstjórnar Garðabæjar og vegurinn án efa fordæmdur af komandi kynslóðum.

Ég held líka að allur ferill málsins sé kennslubókardæmi um slæma stjórnsýslu, hvernig ekki eigi að meðhöndla skynsamlegar tillögur fólks sem vill vel og er annt um umhverfi sitt. Í raun og veru felst í þessu kjarni málsins, að bæjarstjórn Garðabæjar skildi ekki fólkið sem vill vel heldur kom fram við það af megnustu ókurteisi og ruddaskap. Tók ekkert tillit til andstæðna sjónarmiða heldur leit á þær sem persónulegar árásir.

Til viðbótar hefur bæjarstjórnin, allt fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, stórskaðað málstað flokksins. Andstæðingar hans eiga nú afar auðvelt með að benda á Gálgahraun sem dæmi um meint áhugaleysi flokksins í umhverfismálum og náttúruvernd, sem auðvitað er alröng ályktun - nema hvað varðar Garðabæ. 

Fyrir tæpu ári beindi ég orðum mínum að Erlingi Ásgeirssyni, og mun vinsamlegar en ég geri núna, vísa í þann pistil hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband