Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Marktækar spár hins draumspaka

Þegar leitað er til veðurfræðings og hann inntur eftir því hvernig veðrið verði í vetur er það eins og þegar stjórnmálafræðingur tjáir sig um langlífi ríkisstjórnarinnar. Hvorugur hefur rétt fyrir sér vegna þess að þeir hafa einfaldlega ekki forsendur til gefa út marktækrar yfirlýsingar.

Réttast væri að leita til mín um hvort tveggja. Ég hef góðan aðgang að draumspökum manni sem sjaldnast hefur brugðist bogalistin í spádómum sínum. Stundum hef ég getið um hann hér í pistlum mínum og minnisgóðir lesendur mínir muna mætavel að hann spáði fyrir gosi í Mýrdalsjökli síðasta haust, öðru gosi á Fimmvörðuhálsi, ríkisstjórnin myndi falla í sumar, Ísland myndi ganga í ESB síðasta vor og Ástþór Magnússon myndi verða forseti Íslands.

Minn draumspaki trúnaðarmaður heldur því fram að veturinn verði góður nema því aðeins að hitastig verði lægra en meðaltal segir til um. Hann heldur því blákalt fram að í vetur muni snjóa mikið og einnig muni rigna. Landsmenn eigi að geta stundað skíði en væntanlega ekki sólböð nema þegar hitastig hækki nógsamlega og sólin gægist fram úr skýjunum. Jólin verði ábyggilega hvít nema því aðeins að hitastig verði yfir tveimur gráðum á aðfangadag og það rigni síðustu daganna í aðventu.

Í lok desember skiptir um og nýtt ár hefst (hann er viss um að þessi spá rætist). Hann spáir því einnig að kosningabaráttan fyrir Alþingiskosningar verði hörð. Ríkisstjórnin muni verja aðgerðaleysi sitt með ótal rökum og stjórnarandstaðan mun harðlega gagnrýna aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar. Hún mun falla í kosningunum. Ný ríkisstjórn mun taka við völdum og verður Sjáflstæðisflokkurinn í forystu nema því aðeins að vinstri stjórn þriggja flokka verði mynduð, þá er ólíklegra að hann verði í henni.


mbl.is Langtímaspám ber ekki saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir frá árinu 1980

800300Ég er svo heppinn að minningarnar eru ljóslifandi fyrir mér, bókstaflega. Allt frá því í barnæsku hef ég tekið myndir og sérstaklega eftir að ég fór að ferðast um landið.

Í nær öllum ferðum mínum hef ég haft þann vana að vera með myndavél og taka myndir. Ég er þess fullviss að ég myndi ekki eftir fjölmörgum atvikum og ferðum nema vegna þess að ég hef oftast haft með mér myndavél og tekið myndir.

Núna var ég að ljúka við að skanna tíu þúsundustu slides myndina mína. Ég byrjaði í vor og er varla hálfnaður. Smám saman eru þær mínar að hverfa úr hillunum og tómir bakkar hlaðast upp. Um leið eru allar komnar í tölvutækt form og backup til staðar.

Hér eru myndir af nokkrum eftirminnilegum atvikum frá árinu 1980.

Á efstu myndinni er ég að smyrja gönguskíði fyrir vin minn og félaga Hauk Þór Hauksson. Reyndi nokkrum sinnum að draga hann á skíði en það entist ekkert. 

800801-8

Hann varð aldrei nema slarkfær á gönguskíðum og hætti loks þessari vitleysu og snéri sér smám saman að því í frímtímum að sinna hrossum. Finnst mér það illa valið.

Næsta mynd tók vinkona mín á myndavélina mína. Þarna er ég á gönguleiðinni milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Í þá tíð fóru aungvir þá leið nema einhverjir stórfjallamenn, samt var hún stikuð, að minnsta kosti upp í Hrafntinnusker.

Ég man alltaf hversu myndir af landinu við Landmannalaugar heilluðu mig, og gera það raunar enn þann dag í dag. Svo stórkostleg er líparítið.

800912-27

Hekla gaus 17. ágúst á þessu ári. Ég man að ég reyndi að fá einhverja með mér austur til að skoða eldsumbrotin en það tókst ekki. Því fór ég einn að Selsundi, gekk þaðan upp og að fjallinu. 

Hvorki fyrr né síðar hef ég komið eins nálægt eldgosi, miklu nær en þessi mynd sýnir. Það gerði gæfumuninn að mjög hvasst var að sunnan og ég komst hæglega um eitthundrað metrum frá neðstu gígunum, en þar var heitt, maður lifandi. Þá var orðið rökkvað og ég lagðist niður, skorðaði myndavélina í greipum mínum og tók mynd. Þá fann ég hvernig jörðin ólgaði og skalf undir mér. Auðvitað fylltist ég skelfingu en stóð virðulega upp og forðaði mér.

800920-17

Beinahóll á Kili er einstakur staður. Þangað hef ég nokkrum sinnum komið. í fyrsta skipti var ég með Jónasi Inga Ketilssyni, félaga mínum, einn af þeim sem ég reyndi að kynna dásemd fjallaferða, en mistókst. Hann hvarf á líka í hestamennsku og hefur dvalið þar síðan í fnyk og leiðindum, held ég.

Við villtumst á Kili og náðum ekki áttum fyrr en við komum fyrst að Grettishelli norðan við Rjúpnafell og síðan að Beinahóli. Þá vissum við stefnuna að Hveravöllum og gátum fylgdum vörðuðu leiðinni.

Sem kunnugt er urðu tveir bræður frá Reynisstöðum í Skagafirði út við Beinahól í lok október 1780 og að auki þrír förunautar þeirra. Þeir fimmmenningar höfðu verið sendir til að kaupa fé á Suðurlandi og ráku það yfir Kjöl. Þeir fóru úr byggð þrátt fyrir ítrekuð varnaðarorð Sunnlendinga.

Hópurinn lentu í stórhríð og varð æfi þeirra þarna öll. Fjárhópurinn drapst og eru þarna enn bein 180 fjár en talsvert hefur þeim fækkað á undanförnum árum. Á myndinni sést í bein við brekkuræturnar.

801000-8

Fimmta myndin er tekin á Syðstusúlu í Botnsúlum. Þangað upp gengum við vinirnir Benedikt Hauksson og Reynir Einarsson í byrjun október 1980.

Þó hvorugur hafi lagt fyrir sig fjallamennsku hafa þeir ekki lent í því að eignast hross og er það vel. Stutt er síðan ég fór í mikla hrakningaferð með Reyni. Það var víst veturinn 2010 að við gengum á skíðum úr Skaftártungu í Strútsskála og aftur til baka. 

Þetta var í annað sinn að ég gekk á Syðstusúlu. Fyrra skiptið var held ég sama ár er við sömu félagar fórum á fjallið en lentum í þoku og þrátt fyrir að reyna að komast upp úr henni þraut land fyrr.

801000-18Síðasta myndin er tekin í gönguferð á Hengil í október 1980. Með í för voru meðal annarra mágur minn og systir, Lovísa.

Þetta er ein besta myndin sem ég á af Arnljóti heitnum Björnssyni, mági mínum, sem situr þarna í léttri áningu. Við fórum ekki í margar ferðir saman en nokkrar voru þær engu að síður. Hann var skemmtilegur ferðafélagi.

 

 


Svæfðu Samfylkinguna, maður

Haukurinn harði í Vinstri grænum, maðurinn sem hóstar þegar Steingrímur fær kvef, sá sem lemur að sjómannasið á andstæðingum sínum svo undan svíður, er ekki allur sem hann virðist. Hann á sér mildari hliðar sem fáir þekkja nema pólitískur andstæðingur hans, Illugi Gunnarsson.

Björn Valur Gíslason leikur á munnhörpu og syngur barnagælur. Hann gætir barna og minnimáttar, svæfir þá sem þreyttir eru og þurfa á hvíld að halda. Þetta er allt ákaflega mannlegt og áferðarfagurt.

En ég spyr fyrir hönd þjóðarinnar: Af hverju í andskotanum getur hann þá ekki svæft Samfylkinguna? Þjóðin er fyrir löngu búin að fá leið á henni ... og Vinstri grænum.


mbl.is Svæfði Illuga við munnhörpuleik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugan stóra á Skólavörðuholti

ByflugaÉg man ágætlega eftir þessari sýningu á Skólvörðuholtinu þó ég hafi bara verið 11 ára krakki. Fór þangað nokkrum sinnum með föður mínum og hann tók meira að segja myndir af ósköpunum. við vorum báðir mjög hrifnir af þessari sýningu. Þarna komu allt í einu fram litir og eitthvað sem maður kannaðist við.

Meðfylgjandi mynd fékk ég að taka. Hún er af flugunni sem getið er um í fréttinni vegna þess að hún er ekki lengur til. Höfundurinn er Magnús Tómasson. Alveg stórmerkilegt verk.

Þegar ég lít til baka þykir mér merkilegast að föður mínum skuli hafa líka svona ágætlega við sýninguna en hann var frekar íhaldssamur. Þetta gæti þó verið rangt mat á honum því hann tók stundum í pensil og málaði á striga svona „abstrakt“ myndir. Eru það ekki kallaðar „óhlutbundnar“ myndir?


mbl.is Róttækur listviðburður endurskoðaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flöskuskeyti á 64° 41,342'N, 26° 52,953'W

Flöskuskeyti#108120

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna og formaður þingflokksins, hefur sent Ögmundi Jónassyni, innanríkisráðherra og samflokksmanni sínum, flöskuskeyti. Í því segir:

Kæri Ömmi. Þú ert nú meiri kallinn. Gengur þvert á það sem vor ástsæli og mikilhæfi leiðtogi vill. Það mátti aldrei. Þú átt nú tveggja kosta völ. Annað hvort siturðu sem fastast eða standur upp og hverfur á braut. Gáfulegast er fyrir þig að fara til leiðtogans, bugta þig og beygja og biðja um fyrirgefningu misgjörða þinna. Gerir þú það ekki teljum við að þú hafir ákveðið að hætta störfum. Vonandi berst þér þetta flöskuskeyti áður en við skipum annan í þinn stað.

Með flokkshollustukveðju, Bjössi. 

Samkvæmt síðustu upplýsingum er flöskuskeytið á 64° 41,342'N, 26° 52,953'W og á hraðri leið út af kortinu. Sjófarendur eru beðnir um að hafa varan á því það getur líka verið þeim skaðlegt.


mbl.is Björn Valur leggur Ögmundi línurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiðursmenn án samkomulags

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna og formaður þingflokks þeirra, og Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar, eru ekki á eitt sáttir um ástæður þess að Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, er ekki boðaður á fundi leyninefndarinnar sem á aðvinna lausn á fiskveiðistjórnarhnút ríkisstjórnarinnar.

Nú eru þeir Báðir, Björn Valur og Þór, þekktir fyrir allt annað en að fara á svig við sannleikann. Báðir djúpir stjórnvitringar, hóværir og málefnalegir jafnt á þingi sem utan þess. Þar af leiðandi er það erfitt fyrir utanaðkomandi að ráða í hvor þeirra hafi nú rétt fyrir sér. Vont er fyrir þessa tvo heiðursmenn að vera án samkomulags.

Líklegast er að báðir hafi eitthvað til síns mál og þeir hafi í raun talað í kross sem er ekkert óeðlilegt þegar slíkir krossferðariddarar eigast við. Vonandi geta þeir nú talast við í eigin leyninefnd en Hreyfingin er með leyniaðild að ríkisstjórninni og hefur samykkt að verja hana vantrausti.


mbl.is Ekki hægt að færa menn til fundar í böndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur allsherjarmálaráðherra Ögmundi til hjálpar?

Í stað þess að leggja aleinn í krossferð gegn feministum, pólitískum andstæðingum og óþrifaliði á bloggi og athugasemakerfum hefði Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra og þingmaður Vinstri grænna, auðvitað átt að viðurkenna fyrst af öllu að hann hefði haft rangt fyrir sér varðandi ráðningu sýslumanns á Húsavík. Síðan hefði hann átt að biðjast afsökunar á því að hafa ráðið mann á grundvelli rangs mats. Eftir að hafa sýnt auðmýkt og eftirsjá hefði hann átt að óska eftir því að fá að rökræða málin.

Nei, þetta kann hann ekki og hefur aldrei þurft á þessari þekkingu að halda. Núna á innanríkisráðherrann sér ekki viðreisnar von nema því aðeins að flokksfélagar hans linni látum. Það er borin von. Ögmundur hefur ruggað bátnum óþægilega síðustu þrjú árin og stigið á nokkrar tær og það mun flokkseigendafélag Vinstri grænna aldrei fyrirgefa. Við sjáum þetta greinilega á hamaganginum í fréttastofu Ríkisútvarpsins. Hún er oft kremlverskur mælikvarði á pestir í ríkisstjórninni.

Ögmundur stendur einn og yfirgefinn. Vel má vera að ráðuneytið hafi talið rétt að málum staðið varðandi ráðningu sýslumannsins. Engu að síður er ljóst hver ber ábyrgðina, hina pólitísku sem og hina rekstrarlegu.

En Ögmundur spriklar í netinu sem sífellt herðist um hann. Hann veit ekki einu sinni hvort hann beri ábyrgð sem æðsti embættismaður ráðuneytisins eða Ögmundur, þingmaður, pólitíkusinn.

Hann hefur yfirleitt þann háttinn á að tala sem mest, í þeirri von að hann annað hvort yfirgnæfi gagnrýnisraddirnar eða þeir sem þær eiga nenni hreinlega ekki að þusa meira í kallinu.

Ögmundur má nú varla við margnum nema því aðeins að allsherjarmálaráðherra og flokkseigandi númer eitt í Vinstri grænum komi honum til hjálpar. Er það ekki borin von?


mbl.is Fyrirvararnir voru skýrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur samþykkti aðild að ESB og hafnaði þjóðaratkvæðagreiðslu

Já, vertu nú hægur,“ segir innanríkisráðherrann í samtalsþættinum Á Sprengisandi sem Sigurjón M. Egilsson stjórnaði í dag á Bylgjunni. Maður sér fyrir sér handahreyfingu hins málglaða menns sem þaggar eldsnöggt niður í stjórnandanum og hann lét viðmælandann stjórna ferðinni.

Ögmundur Jónasson hefur alltaf rétt fyrir sér. Hann viðhefur líka slíkar málæfingar að enginn stenst honum snúning. Sigurjón, þáttarstjórnandi, reyndi að spyrja Ögmund um lögbrotið vegna ráðningu sýslumanns á Húsavík. Hann vísaði í þessi orð Ögmundar frá því 2004:

Það blasir við að ráðherrar í ríkisstjórn verði settir á skólabekk til að læra jafnréttislögin. Ég ætla að gera það að tillögu minni að hæstvirtur félagsmálaráðherra sjái um að þeir tornæmustu í jafnréttisfræðunum fái sérkennslu.

Og Ögmundur snýr sér léttilega úr þessu og segir: „Þú verður að átta þig á því hvað menn segja og af hvaða hvötum menn tala,“ og málinu er lokið. Hann má brjóta lög af því að honum finnst lögin ósanngjörn og dómurinn dónalegur.

Sigurjón reyndi að halda andliti og fór að ræða um ESB aðlögunarviðræðurnar. Ögmundur kann þá list að tala jafnvel þó engin hugsun sé að baki: „Ef þjóðin hefði verið búin að segja að hún vildi í ESB væri allt önnur staða uppi núna.“

Ekki er þetta nú mikil speki. Ögmundur samþykkti aðlögunarviðræðurnar, en vissi ekki hvað hann var að samþykkja. Síðan hefur honum þó hugur. Sigurjóni láðist hins vegar að spyrja Ögmund hvers vegna hann greiddi atkvæði gegn tillögu Sjálfstæðisflokksins um að umsóknin um ESB færi fyrst fyrir þjóðaratkvæði áður en viðræður hefðust. Hið eina rétta hefði verið að samþykkja þá tillögu.

Nei, Ögmundur vildi „kíkja í pakkann“. Ef til vill vissi hann ekki af því að það er enginn pakki. Allt tal um pakka var tómt plat. Viðræðurnar eru einhliða, Ísland á einfaldlega að taka upp lög og reglur ESB. Það er allt og sumt.

Þó verður að hrósa Ögmundi fyrir það skoðun hans að núna eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald umsóknarinnar að ESB. 

En Sigurjón lét kallinn komast upp með innantómt tal og átti ekki sjéns í að stoppa hann af. 


Fjármálaráðherra skilur ekkert

Það sem mér finnst vera jákvætt í því sem er að gerast núna er það að sveitarfélögin ætla að kaupa jörðina og þar með er hún komin í opinbera eigu,“ segir Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra spurð út í fyrstu viðbrögð sín.
 
Svo segir í frétt mbl.is um kaup ríkisins á Grímsstöðum á Fjöllum. Eiginlega held ég að það sé ekki ein einast heil brú í fjármálaráðherranum, Oddnýju Harðardóttur. Hún skilur ekki málið og veit ekkert hvað er að gerast.
 
Henni til upplýsingar hafa sveitarfélögin á Norðausturhorni landsins ekkert bolmagn til að kaupa Grímsstaði. Þau eiga ekkert fé til þess, ekki frekar en ríkissjóður. Sveitarfélögin ætla hins vegar að rukka kínverska „fjárfestinn“ um þá fjárhæð sem þau ætla að nota til kaupanna. Þetta er hugsað sem fyrirframgreidd leiga en er eiginlega ekkert annað en að reyna að komast í kring um landslög sem banna útlendingum jarðarkaup nema þeir eigi sér búsetu og ríkisfang innan ESB.
 
Verði ekkert af áformum þess kínverska dettur botninn óhjákvæmilega úr ætlunum sveitarfélaganna.
 
Hitt er svo annað mál hvernig ein jörð geti verið svo víðfeðm að hún nái yfir öll fjöll og firnindi allt til Vatnajökuls, sögur segja að lönd hennar hafi legið saman við lönd Skaftafells. Þetta er nú svo mikil þjóðsaga og bull að engu tali tekur. Engin á öræfi landsins þó einhverjir geti haldið því fram að þeir eigi beitarrétt.
 

mbl.is Styðja kaup á Grímsstöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðalisti eða ill aðferðafræði

Arion banki neitar tilvist „dauðalista“. Telur málið byggt á misskiulningi eins og fram kemur hjá almannatengli bankans sem segir:

Við stofnun Arion banka 2008 var útbúinn listi yfir 40 stærstu skuldunauta bankans. Horft var til þróunar þessara lána við skuldauppgjör gamla og nýja bankans. Þessi 40 fyrirtækjalán voru allt frá því að vera mjög góð lán sem innheimtast að fullu til lána þar sem líkur á endurheimtum voru takmarkaðar. Hugsanlega er verið að vísa til þessa lista.

Á móti kemur að Viglundur Þorsteinsson, fyrrum eigandi BM Vallár, og Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrum hluthafi í Högum, halda báðir hinu gagnstæða fram. Þeir vitna að vísu til ónafngreindra starfsmanna bankans. Víglundir bætir við að allir körfuhafar BM Vallár hafi samþykkt nauðasamninga nema Arion banki.

Þarna er því staðhæfing gegn staðhæfingu og óvist hovrt hægt er að komast lengra með máli. Þó er ástæða fyrir Víglund og Jón Ásgeir að gera miklu nánar grein fyrir málsatvikum sínum og koma með greinabetri upplýsingar sem bent geta á tilvist „dauðalistans“. Þetta geta þeir til dæmis gert með að lýsa nánar stöðu fyrirtækja sinna, eigna og skuldastöðu og þá möguleikum til framtíðarrekstrar. Þeir verða hreinlega að sýna fram á að þeir hafi misst eignarhald sitt á fyrirtækjunum fyrir að ástæðulausu eða vegna lítilla saka.

Sé þessi „dauðalisti“ til eða hafi verið til þá hljóta fleiri að hafa verið á honum en BM Vallá og Hagar. Þeir sem eiga um sárt að binda vegna listans hljóta því að koma fram og skýra mál sitt, leggja einfaldlega í púkkið með Víglundi og Jóni Ásgeirssyni. Ástæða er til að skora á þetta fólk að koma málum sínum á framfæri í fjölmiðlum.

Svo er í lokin ekki úr vegi að benda á pistil á bloggi Marinós G. Njálssonar, sem að vísu nefnir ekki „dauðalista“ heldur bendir á hvernig bankarnir, allir þrír, hafi farið með viðskiptavini sína, ekki aðeins rekstraraðila heldur hina líka. Hann heldur því fram að aðferðafræðin í bönkunum sé svona ill:

  1.  Drögum úr hófi fram að finna niðurstöðu.  Svörum ekki póstum, tilboðum og símtölum nema a.m.k. einhverjar vikur, helst mánuðir fái að líða.
  2. Höfnum öllum tillögum viðskiptavinarins, því hann getur örugglega borgað meira en hann leggur til.
  3. Ásökum viðskiptavininn um allt og ekkert, við hljótum að hitta í mark þó ekki nema einu sinni af hverjum 10.000 skiptum.
  4. Leggjum sjálfir fram tillögur að lausn
  5. Ef viðskiptavinurinn samþykkir, þá hljótum við að hafa boðið of vel og látum lánanefndina hafna.
  6. Ef viðskiptavinurinn hafnar, þá lýsum við frati í hann og sendum málið til dómstóla.
  7. Ef eign viðskiptavinarins er álitleg, þá semjum við ekki, þar sem við græðum meira á því að taka eignina af viðskiptavininum og selja hana sjálfir, en að semja.  Skítt með það þó fólk verði gjaldþrota, við fáum feitan bónus. 

Eiginlega skiptir engu máli hvort um sé að ræða einhvern „dauðalista“ sé ofangreind upptalning Marinós rétt. Svo geta lesendur velt fyrir sér hvort þeir kannist við að hafa fengið meðhöndlun úr bönkunum sem líkist ofangreindu. Að minnsta kosti fullyrðir Marinó að fjöldi fólks, rekstaraðila sem og annarra, hafi haldið þessu fram við hann. 


mbl.is „Meðhöndluð eins og önnur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband