Þar Assange ekki að standa fyrir máli sínu?

Um daginn ritaði ég lítinn pistil um Júlíus Assange, forstöðumann Wikileaks, sem hrökklast nú úr einu víginu í annað vegna þess að saksóknari í Svíþjóð vill yfirheyra hann vegna nauðgunarákæru. Lengi vel var Júlíus í Englandi, vildi ekki fara til Svíþjóðar, því hann heldur að þar sé borgurum lakari réttur búinn en í Englandi. Ennfremur trúir hann því að Svíar muni áreiðanlega framselja hann til Bandaríkjanna þar sem hann sætir ákærum vegna njósna.

Ég hafði í pisli mínum áhyggjur af því hversu litla athygli nauðgunarákæran fær í fjölmiðlum og meðal þeirra sem skipuleggja alls kyns uppákomur í þágu fjölbreytilegs málstaðar. Réttur sænsku kvennana er þó ekki talinn merkilegur

Í Morgunblaðinu í morgun ritar sá ágæti blaðamaður Árni Matthíasson enn betri pistil en mér lukkaðist um þetta mál. Árni segir í pistli sínum, og þarf engu hér við að bæta:

Því er þetta rifjað upp hér að það virðist hafa gleymst í fréttum af Assange að hann er sakaður um þvingun, kynferðislegt áreiti, kynferðislega misbeitingu og nauðgun. Víst er hann saklaus þar til sekt hans er sönnuð, en í ljós hefur komið að það er ekki svo langt á milli vinstri- og hægrimanna þegar kynfrelsi kvenna ber á góma. Þannig hafa þekktir vinstrimenn og baráttumenn fyrir málfrelsi og mannréttindum gert lítið úr konunum sem ásökuðu Assange, gefið í skyn að þær hafi verið í vinnu fyrir bandarísku leyniþjónustuna, afbrýði og heift reki þær áfram eða fégræðgi. Svo langt hafa menn gengið í subbuskapnum að vinstrisinnaður breskur þingmaður lét þau orð falla að það væri ekki nauðgun að eiga mök við sofandi konu: ef hún hafi áður verið viljug til ásta þá sé hún búin að gefa aðgang að líkama sínum til frambúðar. Þetta rímar nokkuð vel við orð annars vinstrisinnaðs manns, aðstoðarmanns vinstrimannsins Rafaels Correa sem nú er forseti Ekvador: Það sem Assange er sakaður um er nánast eins og ástarsaga.

Varla þarf að benda á hversu Assange hefur gert starfsemi WikiLeaks mikið ógagn með því að tvinna sína persónu svo saman við WikiLeaks að ekki verður á milli skilið: Ef mér finnst að Assange eigi að standa fyrir máli sínu fyrir rétti í Svíþjóð er ég óvinur WikiLeaks, málfrelsis og lýðréttinda og gott ef ég er ekki á móti öllu því sem gott er og fallegt í heiminum, kornabörn, vorið og sætir hvolpar og kettlingar þar meðtalið. Það er þó skömminni skárra en að vera í stríði við konur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband