Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Forusta VG vill ekki hlusta á flokksmenn

Eiginlega get ég ekki hugsað þá hugsun til enda hvað gerðist ef forusta Sjálfstæðisflokksins myndi hjá líða að setja almennar umræður um ályktanir á landsfundi eða í flokksráði, hvað þá í einstökum félögum flokksins. Það yrði áreiðanlega gerð bylting í þessum annars íhaldsama flokki. 

Á síðasta landsfundi flokksins var eitthvað velt vöngum yfir því hvort ekki væri nægilegt að umræður færu fram í málefnanefndum en ekki þegar ályktanir eru bornar upp í almenningi. Auðvitað var fallið frá slíkri vitleysu. Menn velja sér málefnanefndir eftir áhugamálum en leyfa sér að taka opinberlega afstöðu til niðurstaðna í öðrum nefndum. Þetta þótti öllum sjálfsagt og meintur tímaskortur fyrir almennar umræður reyndist ekki fyrir hendi.

Fram til þessa hafa almennar umræður flokksráðfunda verið hinn lýðræðislegi og opni vettvangur grasrótarinnar til að tala til forystunnar. Á síðasta flokksráðsfundi var stigið skref í þessa átt þar sem sitjandi ráðherrar voru framsögumenn með langan ræðutíma í almennum umræðum en almennir flokksmenn fengu örstutt viðtalsbil til andsvara. Þá var foringjaræðið gagnrýnt en engu að síður er gengið enn lengra núna. Jafnvel það að sitja undir örstuttum ræðum almennra flokksmanna er forystu VG of erfitt.

Hversu langt ætlar forystusveit VG að hlaupa með formanni sínum? 

Svo ritar Ragnar Arnalds, ritstjóri Vinstrivaktarinnar gegn ESB, um fyrirhugaðan flokksráðsfund Vinstri grænna.

Fyrir nokkrum árum voru óskaplega margir á þeirri skoðun að Vinstri grænir væru hinir heiðarlegu og óspjölluðu í íslenskum stjórnmálum. Það álit hefur nú hrunið af flokknum þegar hann er orðinn einn helsti bandamaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, styður Evrópusambandsaðildina, gleymir að rannsaka meinta „aðild“ Íslands að innrásinni í Írak, stendur staðfastur að baki Nató í loftárásum á Líbíu og hernámi Afganistans og forystumenn flokksins eru orðnir helstu blýantsnagarar íslenska stjórnkerfisins.

Og svo vissir eru forystumenn flokksins orðnir um afstöðu eigin flokksmanna að þeir þurfa ekki einu sinni að hlusta á þá. Líklega er nú þegar búið að færa til bókar samþykktir og umræður.

Hvers konar flokkur er VG að verða? Einræðið veður uppi og enginn segir neitt ...

Nema Ragnar Arnalds. Hinir þegja og láta allt yfir sig ganga sem þeir áður börðust gegn. 


Ósæmileg ummæli þjálfara Skagamanna

Mér fannst Gary Martin ekki geta neitt í dag ef ég á að segja eins og er. Ég hef svo sem séð það áður í sumar að hann hafi verið lélegur þannig að það kom mér ekkert á óvart,“ sagði Þórður Þórðarson [þjálfari Skagamanna].
 
Skagamenn voru fóru illa að ráði sínu í Frostaskjólinu í kvöld. Þeir áttu sárafá tækifæri til að koma tuðrunni í netið hjá KR-ingum en yfirburðir þeirra voru algjörir.
 
Mórallinn er hins vegar svo lélegur hjá þjálfara þeirra að hann þarf á skeyta skapi sínu á Gary Martin sem fyrir stuttu hætti með ÍA og gekk til liðs við KR. Ummælin hérna að ofan eru úr frétt mbl.is. Þau lýsa hvorki stórhug né drengskap, aðeins tuði manns sem reynir að kenna einhverjum öðrum um ófarir sínar. Það er miður, því ÍA er stórveldi í knattspyrnu og saga þess er frækin rétt eins og KR liðsins. Flestum sem líta til Skagamanna með virðingu hlýtur að finnast talsmáti þjálfarans honum óviðeigandi og alls ekki er samboðin þeim er gegnir þeirri virðulegu stöðu að vera þjálfari ÍA.
 
Gary Martin var alls ekki lélegur í þessum leik frekar en í þeim leik er ÍA sigraði KR á Skaganum með þremur mönnum gegn tveimur. Þar var leikmaðurinn allt í öllu fyrir sitt lið. Í kvöld vantaði Skagamenn sárlega mann af hans kalíberi og því fór sem fór.
 
 

mbl.is Þórður: Fannst Gary ekki geta neitt í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Valur, ESB, AEG og norræna velferðarstjórnin

Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks Vinstri grænna, ritar í dag um álagningu skatts og telur upp sextán atriði sem séu afleiðing aðgerða „ríkisstjórnarflokkanna við tekjuöflun og jöfnun í samfélaginu“. Hann gleymir að geta um sólina og sumarið sem áreiðanlega eru vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar.

Björn gleymir auðvitað þeirri einföldu staðreynd að tíminn stendur ekki í stað og það gerir mannfólkið ekki heldur. Fólk heldur áfram eftir fyrirfram markaðri braut sinni eða breytir um stefnu. Enginn staðnæmis í vandræðum sínum og tekjuskorti. Allir reyna að afla tekna, meiri tekna en áður til að framfleyta sér og fjölskyldu sinni.

Maðurinn gleymir einnig þeirri einföldu staðreynd að algerðir ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fara ekki saman með jöfnuð og eitthvert réttlæti. Tilgangur ríkisstjórnarinnar og AEG var eingöngu sá að afla fjár fyrir ríkissjóð. Jöfnuður kom þar hvergi nærri.

Svo er það hitt sem merkilegast er. Björn hælist um vegna heildarafla en getur ekki um hvernig aflinn er samansettur svo gripið sé til orðalags sem hann ætti að skilja sem sjómaður. Aðalatriði máls er hvernig samsetningi t.d. á aukningu á eignum heimilanna er. Getur verið að þeir sem mestar tekjur hafa og greiða hæsta skatta hafi eignast enn meira og greiði af því skatt?

Mér leikur miklu meiri hugur á að sjá hvernig álagning tekjuskatts og útsvars skiptist á milli tekjuhópa. Ég vil gjarnan sjá hvernig nettóeignir heimilanna skiptast á milli tekjuhópa. Og hvernig skyldi skiptingin vera á nettóeign heimila milli tekjuhópa.

Mér segir svo hugur um að þrátt fyrir grobb manna eins og Björns Vals, sem þekktur er af einlægum stuðningi sínum við ESB, AEG og vill taka upp Evru, þá sé hann ekki besta heimildin um stöðuna í skattamálum né heldur um meintan jöfnuð og réttlæti í verkum þessarar norrænu velferðarstjórnar.

 


Hvers vegna?

Hér er fréttin að þremur kærum vegna framkvæmdar forsetakosninga hafi verið hafnað. Mikilvægari frétt er hvers vegna kærunum var hafnað. Það kemur ekki fram.


mbl.is Kærum vegna kosninga hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bókin mín um Fimmvörðuháls er komin út

Kápa FimmvhalsÞrátt fyrir ýmiskonar mótlæti í henni veröld getur maður stundum glaðst er röðin kemur að manni sjálfum og hlutirnir ganga upp eins og að var stefnt. Í síðustu viku kom út bókin mín um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls.

Hún kom fyrst út fyrir tíu árum en síðan þá hefur mikið breyst á Fimmvörðuhálsi og því sannarlega kominn tími fyrir aðra útgáfu. Ég valdi þá leið að nota textann að mestu óbreyttan, lagaði hann þó dálítið til, felldi út og bætti við, sérstaklega um eldgosin. Einna helst munar um myndirnar. Ég bætti við fjölda góðra mynda, setti inn á þær örnefni til að lesandinn gengi nú ekki í neinar grafgötur um myndefnið.

Frábær kort fylgja

Og svo minnkaði ég brot bókarinnar, hafði hana mjórri sem gerir hana væntanlega þægilegri í ferðum og til aflestrar. 

Mesu munar þó um kortin. Ég fékk Samsýn ehf. til að gera kortagrunni. Fyrirtækið er meðal annars þekkt fyrir einstaklega góð kort sem finna má á vef símaskrárinnar, ja.is. Ofan á þessi kort vann ég gönguleiðir og setti inn örnefni. Það sem skiptir þó mestu máli er að auk þess að hafa kortin á réttum stað í sjálfri bókinni fylgja þau laus. Göngufólki er þannig auðveldað að ferðast með aðstoð kortanna án þess að þurfa að styðjast við bókina á göngu.

bls 38-39

Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls býður upp á þrjár óviðjafnanlegar gersemar sem enginn má láta framhjá sér fara. 

Fossaleiðin 

Sú fyrsta er sunnan megin og ég kýs að nefna hana Fossaleiðina. Þetta er stórkostlega gönguleiðleið upp með Skógaá þar sem allt að þrjátíu og sjö fossar af öllum stærðum og gerðum brosa við göngumanninum. Margir kannast við fossana tuttugu og tvo á fyrri hluta leiðarinnar, það er frá Skógafossi og upp að svokölluðu Vaði. Miklu færri hafa séð hina fimmtán fossana sem eru í vestari upptakakvísl Skógaár og er með leiðinni upp að Fimmvörðuhrygg.  

Eldtöðvarnar 

Efst á Fimmvörðuhálsi eru eldfellin tvö, Magni og Móði og svo Goðahraun. Þarna er landslagið einstaklega stórkostlegt, hreint magnað. Þarna varð til nýtt land, meiriháttar staður fyrir ferðamenn að skoða og kanna hvernig sífelldar breytingar verða á landinu okkar.

bls. 28-29

Útsýnið 

Norðan megin er magnað útsýni til norður og norðvesturs. Þar má sjá óviðjafnanlega fallegt land. Nær er Heljarkambur, Morinsheiði, Kattahryggir og Strákagil, allt örnefni sem flestir kannast við. Og ekki má gleyma Hvannárgili, leið sem fæstir hafa farið af Fimmvörðuhálsi. 

Útgáfan 

Ekki eru allir tilbúnir til að gefa út gönguleiðabók. Kraftverk, markaðsstofa ehf., nýtt fyrirtæki, féllst þó á að gefa hana út.

Umbrot vann Helgi Sigurðsson, auglýsingateiknari. Hann er afskaplega vandaður og hefur mikla reglu á hlutunum. Helgi er raunar landsfrægur maður, þó hlédrægur sé. Hann teiknar skopmyndir í Morgunblaðið annan hvern dag og hefur fengið mikið lof fyrir beittan húmor sinn sem oftar en ekki er rammpólitískur þó Helgi segist persónulega vera ópólitískur.

Prentmet ehf. prentaði og gerir það afskaplega vel. Prentunin er djúp og góð og texti og myndirnar njóta sín til fullnustu. 

Til sölu 

Kraftverk, markaðsstofa ehf. ákvað að leggja ekki í umfangsmikla dreifingu á bókinni heldur einbeita sér að þremur þekktum stöðum; skrifstofu Útivistar, Hagkaup og Útilíf. Þetta eru allt þekkt fyrirtæki og allir eiga erindi þangað og því ekki úr vegi að grípa bókina um Fimmvörðuháls með. Hún kostar aðeins 2.985 krónur.

Að auki er hægt að panta hana á netfanginu fimmvorduhals@kraftverk.is og fá hana senda í póstkröfu.

Svo vonar maður bara að bókin seljist vel og standi undir sér. Þá er aldrei að vita nema maður kíki ofan í skúffurnar gluggamegin og finni þar efni í aðra. 


Stígagerð við Heljarkamb fyrir 20 árum

DSC_0173

Tuttugu ár eru nú síðan tíu manna hópur axlaði haka, skóflu, keðjur og fleira smálegt og lagði upp frá Básum í þeim göfuga tilgangi að laga gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls þar sem hún liggur um Heljarkamb.

Leiðin hafði alltaf verið frekar leiðinleg sunnanmegin við Heljarkamb. Að vísu var hún afar skemmtileg og eftirminnileg þeim sem gaman höfðu að ævintýrinu. Klönglast var niður hrjúfan klett, skriðið í gegnum gat sem á honum er, fetað hægt og rólega í angist, tiplað á fingurgómunum og blátám uns komið var niður undir klettinn og út á kambinn sjálfan. Þetta er örlítið stílfærð lýsing á aðferðunum en engu að síður vel við hæfi ...

Eftir að Útivist byggði skála á Fimmvörðhálsi þótti ekki mega bíða eftir því að þessi leið væri löguð. Hinir bjartsýnustu héldu því fram að mikil aukning yrði á næstu árum í ferðum yfir Hálsinn. Eldri félagar brostu kankvíslega að okkur, sumir ranghvoldu í sér augunum út af þessu mati okkar. Nóg um það. Fjölgun göngufólks varð miklu meiri en við áætluðum og má gera ráð fyrir því að á hverju ári fari hátt í fjörtíu þúsund manns yfir Hálsinn.

921000-7

Að forgöngu tveggja fararastjóra Útivistar, Óla Þórs Hilmarssonar og Reynis Þórs Sigurðssonar, hélt um tíu manna hópur upp frá Básum og á Heljarkamb. Þetta var í byrjun október 1992. Uppi á Morinsheiði snjóaði og hundslappadrífa var við Heljarkamb.

Valin var leið vestan við áðurnefndan klett sem var farartálminn. Þar var frekar bratt niður en hoggnar voru tröppur í móbergið. Járnteinar voru barðir niður í bergið og á þá var keðja fest. Lá hún niður með klettinum og undir honum, um það bil sextíu til sjötíu metra í allt.

Verkefnið var frekar einfalt og fljótunnið en gjörbreytti gönguleiðinni. Eftir þetta var öruggara að fara þarna um, ekki síst fyrir þá sem eru lofthræddir. 

921000-11

Efsta myndin var tekin í lok ágúst á síðasta ári. Þarna hefur nú myndast nokkuð traustur göngustígur. Keðjan er þarna enn, þeim til halds er á þurfa að halda, og veitir líklega ekki af.

Hinar tvær myndirnar voru teknar er vinnan við vegagerðina stóð sem hæst. Tveir járkarlar eru á neðri myndinni, Reynir Sigurðsson, verkstjórinn, stendur með járkarl í hönd og virðir fyrir sér verklag og aðstæður.

Ég man eftir því er þeir félagar Óli og Reynir sögðu mér frá fyrirhugaðri vinnuferð á Heljarkamb. Ég ætlaði nú varla að nenna að fara með, fannst tóm vitleysa að vera að breyta gönguleiðinni og ef það ætti að gera þyrfti stórtækari tæki en haka og skóflu. Þarna, eins og svo oft áður, hafði ég rangt fyrir mér. Það vissu félagar mínir og fannst ekkert meira tilvalið en að láta mig bera keðjurnar upp að Heljarkambi. Þær voru örugglega hátt í þrjátíu kíló, jafnvel hundrað eða meira ... og voru hreinlega að sliga mig. En ég sagði ekkert, bar mig eins og sönn hetja, vissi að þeir biðu eftir því að ég gugnaði. Hetjudáðin var þó þess valdandi að ég var með bakverk mörg ár á eftir ... minnir mig.


Kemur 90 milljarða króna halli ríkisins á óvart eða hvað?

Á síðasta ári nam halli á ríkissjóði 89,4 milljörðum króna eða liðlega 52 milljörðum króna hærri fjárhæð en samþykkt fjárlög gerðu ráð fyrir. Þegar Alþingi afgreiddi fjáraukalög fyrir árið 2011 voru liðlega 10 mánuðir liðnir af árinu. Þrátt fyrir það var reiknað með að hallinn yrði „aðeins” 46,4 milljarðar króna. Með öðrum orðum; aðeins nokkrum vikum fyrir lok ársins var fjármálastjórn ríkisins ekki betri en svo að halli ríkissjóðs var vanmetinn er nam liðlega 42 milljörðum króna.

Síðan kemur fjármálaráðherra og segir eins og ekkert sé sjálfsagðra að vitað hafi verið að um vanáætlun hafi verið að ræða. Þannig hafi verið ljóst að stór reikningur myndi falla á ríkissjóð vegna SpKef. En þar sem ekki hafi verið vitað hversu hár reikningurinn yrði, þá var í engu tekið tillit til hans! Í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins sagði ráðherra:

Það var samdóma álit manna að setja ekki inn ákveðna upphæð vegna þess að á þeim tíma bar mjög mikið í milli. Auk þess var á þessum sama tíma búið að ákveða að setja málið í gerðardóm. Þannig að niðurstaðan var sú að setja upphæðina ekki inn í fjárlög eða heimildina ekki inn í fjárlög eða fjáraukalög heldur setja þetta saman þegar gerðardómur væri fallinn.

Alls munu 20 milljarða króna falla á ríkissjóð vegna SpKef og fimm milljarðar að auki vegna vaxta, þar sem ríkissjóður mun taka lán til að standa við reikninginn. Þegar fjáraukalögin voru afgreidd 17. nóvember á liðnu ári var ljóst að SpKef-reikningurinn yrði a.m.k. 11 milljarðar. En framhjá því var litið og látið eins og allt væri í sóma.
 
Þannig skriftar Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, á vef sinn T24 um klúður ríkisstjórnarinnar vegna ríkisreiknings. Hversu mörg eru klúður, mistök og vitleysur sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir?
  • ESB umsóknin
  • Icesave, þjóðaratkvæðagreiðslan fyrri
  • Icesave, þjóðratkvæðagreiðsla seinni
  • Stjórnlagaráðskosningin, ógilding hennar
  • SpKef, leyfi til að starfrækja gjaldþrota banka
  • Fjáraustur í starfandi gjaldþrota banka
  • Loforðin um störf á Reykjanesi og Vestfjörðum
  • Loforðin „margt í pípunum“ um stóraukna atvinnu og nýsköpun
  • Osfrv.
Geta lesendur bætt hér við?

Stjórnarliðar klúðra þjóðaratkvæðagreiðslu

Ekki átta sig allir á því hvers vegna deilt er um dagsetningu á fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu um nokkrar greinar sem ríkisstjórnin ætlar að setja í nýja stjórnarskrá.

Í þingsályktun segir einfaldlega:

Þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram eigi síðar en 20. október 2012.

Lykilorðin eru hér „eigi síðar“. Meirihluti þingsins segir ekki að atkvæðagreiðslan eigi að fara fram 20. október. Einhver annar virðist eiga að ákveða hvenær atkvæðagreiðslan eigi að fara fram. Líklega er það innanríkisráðuneytið. Það telur sig hins vegar ekki bært að taka þessa ákvörðum enda hefur það ekki löggjafarvald með höndum.

Einhverjir telja þetta vera minniháttar galli og ekki ástæða til að gera veður út af svona „smámunum“. Þeir sem eru á þessari skoðun eru líklega á því að framkvæmdavaldið geti allt eins tekið að sér hluta af löggjafarvaldinu og sinnt því með sóma. Hinir eru þó til sem halda því fram að þrískiptin ríkisvaldsins eigi hér við eins og svo oft áður og engin ástæða til annars en að hafa skilin á milli eins skýr og hægt er.

Enn einu sinni kemur í ljós að meirihluti þingsins veður áfram og gerir ótal mistök og ætlast síðan til þess að framkvæmdavaldið lagfæri þau. Þetta er ávísun á ógildingu á þjóðaratkvæðagreiðslunni, fari hún fram, og fer þá vel.

Tvisvar hefur meirihluti þingsins tapað þjóðaratkvæðagreiðslum, einu sinni var framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu dæmd ógild og fari sem horfir verður sú næsta líka ógilt. Þriðju þjóðaratkvæðagreiðslunni mun svo meirihlutinn tapa og það verða þingkosningarnar á næsta ár.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritar stutta og hnitmiðaða grein í Morgunblaðið í morgun og segir eftirfarandi, og er óhætt að taka fyllilega undir með honum (feitletranir eru mínar): 

Lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna kveða skýrt á um það að það sé hlutverk Alþingis að ákveða kjördag fyrir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Það vald er ekki samkvæmt lögunum falið neinum öðrum innan stjórnkerfisins, hvorki innanríkisráðuneyti, landskjörstjórn né nokkrum öðrum aðila, sem að öðru leyti kemur að framkvæmd kosninga af þessu tagi.

Þegar lög kveða á um að Alþingi þurfi að ákveða eitthvað, þá er svo að sjálfsögðu átt við að Alþingi allt eða meirihluti þess taki slíka ákvörðun í atkvæðagreiðslu, en ekki t.d. forseti þingsins, forsætisnefnd eða skrifstofa þingsins. Ef ætlunin væri sú að fela einhverjum öðrum en Alþingi í heild ákvörðunarvald í þessum efnum þyrfti það að koma fram með skýrum hætti í lögum. 


Færeyingar mótmæla, ríkisstjórn Íslands þegir

Nú bregður einnig undarlega við í þessari deilu allri. Færeyingar mótmæla með formlegum hætti hótunum ESB en hvað gera Íslendingar. Ekki neitt nema hvað ráðherrar og þingmenn stjórnarliðsins reyna í lengstu lög að þræta fyrir að refsiaðgerðir séu á borðinu eða að makríldeilan tefji svokallaðar aðildarviðræður. Sjálf Damanaki sjávarútvegsstjóri játar samt allt fúslega og það liggur milli línanna að hún muni launa stimamjúkum Íslendingum og fyrirhuguðum þegnum sínum með nokkrum makrílprósentum.
 
Það að stórríki komist upp með að vera með hótanir er eitt og sér tilefni til formlegra mótmæla. Það er vitaskuld fáheyrt í samskiptum þjóða að hótunum um refsiaðgerðir sé ekki mótmælt. Fram til þessa hafa Íslendingar og Færingar staðið saman í að verja rétt sinn og hagsmuni í þessu máli. Það er því ódrengilegt ef að ESB sinnuð ríkisstjórn Íslands ætlar að skilja frændur vora Færeyinga eina eftir eftir í bardaganum.
 
Svo ritar Ragnar Arnalds á Vinstri vaktinni gegn ESB. Eins og svo oft áður hefur hann rétt fyrir sér. Þessi tilvitnun segir eiginlega allt sem segja þarf.

Kæst skata eða dauður hundur

bildeLas frétt á visir.is um sumarskötuveislu á Ísafirði. Fréttinni fylgdi þessi mynd sem ég leyfi mér að birta hér. 

Þar sem ég sá fyrst myndina hélt ég að hún væri af leyfunum af dauðum hundi eða einhverju alvarlegra. Síst af öllu af mat.

Ég er ekki beint hrifinn af kæstri skötu en þessi mynd hlýtur síst af öllu að vera lystaukandi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband