Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012
Kjötmarkaður í ráðherrabústaðnum
15.5.2012 | 15:04
Nei, nei. Hreyfingin er ekki að selja sig. Hún er einfaldlega að kanna hvort einhver spurn sé eftir áhugamálum hennar. Þess vegna sest hún við markaðsborðið og býður sig.
Þingmaður Hreyfingarinnar sagði eftirfarandi í viðtali við Fréttablaðið í dag:
Okkur finnst ekki góður bragur á því að ríkisstjórn sem var kosin í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar skuli ekki sinna þeim helstu málum sem hún var kosin út á, og voru helstu ástæður búsáhaldabyltingarinnar.
Og svo sagði hann:
Við teljum að sú ríkisstjórn hafi kannski ekkert með það að gera að sitja allt kjörtímabilið ef hún ætlar ekki að sinna þeim málum, þá á að gefa almenningi kost á að segja sína skoðun á því í kosningum.
Þingmaðurinn ætlar að laga það sem bæta þarf hjá ríkisstjórninni en gleymir því að það er ekki hans verk. Ríkisstjórnin er ómöguleg eins og þingmaðurinn segir sjálfur. Þess vegna er ekkert úr vegi að fella hana og efna strax til nýrra kosninga. Nema því aðeins að þessi sami þingmaður hafi áttað sig á því að ólíklegt er að hann eða aðrir þingmenn hreyfingarinnar nái aftur inn á þing. Þeir hafa verið litlu skárri en ríkisstjórnin.
Ójú, Hreyfingin er að selja sig. Hún sér ekki neina framtíð nema hún taki sig á. Þess vegna hafa undanfarna daga verið kjötmarkaður í ráðherrabústaðnum, seldir eru og keyptir þingmenn á fæti.
Atvinnuviðtöl í Ráðherrabústaðnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Jarðskjálftar í tveimur skriðjöklum á ólíkum tímum
15.5.2012 | 14:05
Kortið er frá Veðurstofu Íslands og sýnir jarðskjálfta í Mýrdalsjökli frá sjöunda til þrettánda maí. Þar er sáralítið að gerast eins og þeir vita sem fylgst hafa með.
Ég hef áður nefnt þessa jarðskjálfta sem eiga upptök sín í norðanverðum Tungnakvíslajökli. Á kortið hef ég dregið ramma utan um punktana á þeim slóiðum. Þar sem ég veit ekkert og kann varla neitt annað en að spyrja spurninga sem enginn svarar vil ég enn og aftur vekja athygli á þessu.
Þarna hafa verið viðvarandi skjálftar síðan menn föttuðu að líf gæti leyst í Kötlu og þá sérstaklega eftir að Eyjafjallajökull gaus. Ekki veit ég hvers konar skjálftar þetta eru, hvort þarna mælist eingöngu íshrun eða hvort tveggja, íshrun og hreyfingar undir ísnum.
Myndin sem hér fylgir með er tekin af Fimmvörðuhálsi og að upptökum Tungnakvíslajökuls, að vísu með miklu aðdrætti. Hana tók ég í september síðasta haust. Hann fellur þarna nokkuð bratt niður í Tungur og maður getur svo sem sagt sér að þegar hann skríður verði miklar hamfarir sem mælst geta á jarðskjálftamælum.
Þetta er svo sem eins og í aðdragandanum að gosinu í Eyjafjallajökli þegar miklir jarðskjálftar mældust í upptökum Steinsholtsjökuls. Þá vorum við margir leikmenn og kjánar í jarðfræði þess fullvissir að þar myndi gjósa. Auðvitað höfðum við rangt fyrir okkur.
Til gamans er hér jarðskjálftakort frá því 6. apríl 2010 og á því hafa punktarnir hlaðist upp við Steinsholtsjökuls. Stöðug aukning jarðskjálftavirkni og aðeins átta dagar í gos.
Allt hefur þetta einhver þýðingu sem gaman væri að fá túlkaða fyrir leikmenn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ríkisstjórnin lítur á Vestfirðinga sem annars flokks borgara
15.5.2012 | 09:09
- Hjúkrunarheimili er einn af þeim grundvöllum sem byggðir landsins standa á og ágætt að samstarf sé á milli þeirra. Þarf nokkuð að ræða það frekar?
- Þurfa ekki allar byggðir landsins rafmang, hvort heldur er í Reykjavík eða á Reykhólum? Þarf eitthvað að ræða það frekar?
- Hingað til hefur verið samstaða um jöfnun húshitunarkostnaðar. Er einhver ástæða til að ræða það frekar?
- Ofanflóðavaranir eru öryggismál. Þarf eitthvað að ræða það frekar?
- Vegaframkvæmdir eru líka grundvöllur sem byggðir landsins standa á. Þarf eitthvað að ræða það frekar?
- Sjálfsagt er að ungmenni geti sótt framhaldsskóla sem næst sinni heimabyggð? Þarf eitthvað að ræða það frekar?
- Atvinna skiptir öllu máli fyrir einstakling, fyrirtæki og þjóðfélag, atvinnuleysi er böl. Þarf eitthvað að ræða það frekar?
Ofangreint er tekið úr verkefnalista ríkisstjórnarinnar fyrir Vestfirði sem hún samþykkti á fundi sínum á Ísafirði 5. apríl 2011. Sjá fréttaskýringu í Morgunblaðinu á blaðsíðu 12 í dag.
Af örlæti sínu þóttist ríkisstjórnin fyrir ári vera að gefa Vestfirðingum það sem fólk á sumvesturhorni landins og miklu víðar telur sjálfsagða þjónustu og ræðir það ekkert frekar.
Þegar röðin er komin að Vestfirðingum segir ríkisstjórnin: Þar sem örlæti okkar er svo mikið í dag þá skulu ungmenni á Patreksfirði fá að stunda framhaldsskóla í heimabyggð sinni. Eldri borgarar á Reykhólum skulu fá að rétta þjónustu á hjúkrunarheimili. Og vegna þess að við erum í góðu skapi skulu snjóflóðavarnir efldar.
Verkefnalistinn var einungis yfirborðsmennska og skipti sáralitlu í byggðaþróun á Vestfjörðum.
Hið eina sem dugar er aðfjölga atvinnutækifærum á Vestfjörðum. Ekkert annað! Það sem gert er í atvinnumálum skilar sér margfalt í öðrum verkefnum.
Sú hugsun læðist að manni að ríkisstjórnin viti þetta og hugsi af sinni alþekktu skammsýni að ekki megi fjölga fólki á Vestfjörðum, því fylgi bara kostnaður. Auðvitað er það rétt - en skammsýn er þessi hugsun. Atvinna skapar verðmæti og verðmætaaukning veldur auknum skatttekjum. Þarf að stafa þetta ofan í vanhæfa ríkisstjórn.
Og nú er rúmt ár síðan ríkisstjórnin reyndi að lappa upp á hörmulega sjálfsímynd sína með ríkisstjórnarfundi á Ísafirði. Ekkert hefur gerst annað en að hún hyggst arðræna sjávarútvegsfyrirtæki á Vestfjörðum með skattheimtu sem byggir á veltu undir yfirskyni hins fallega orðs auðlindagjalds. Dettur Vestfirðingum eitt augnablik í hug að þessi skattheimta muni fjölga íbúum í landshlutanum?
Ámælisverðar framkvæmdir á Úlfarsfelli
15.5.2012 | 08:33
Samkvæmt myndum Morgunblaðisins af þessari framkvæmd kemur ekkert á óvart. Venjan er sú að verktökum er att á ósnortið land, vaðið er yfir mosa og gróður og svo segja menn að þetta lagist allt saman með tímanum. Fjandinn hafi það ... ekki á mannsaldri.
Víða um land má sjá svona framferði. Fæstir hugsa neitt um landið, mynduð eru sár í það sem stinga í augun um alla framtíð. Þannig var verklagið á Kolviðarhóli og Hellisheiði við gerð gufuaflsvirkjunarinnar. Orkuveitan hefur þar vaðið á skítugum skónum út um allt. Reykjavíkurborg kann sig ekki heldur og veitir framkvæmdaleyfi. Hugsar ekkert um almenning sem notar fjallið.
Það er rétt sem Ingimundur Stefánsson segir í þessari frétt. Framkvæmdin rýrir útivistargildi Úlfarsfells. Fjölmargir nota sér það til göngu sem getur tekið nokkuð vel á og þaðan er gríðargott útsýni. Látum vera að reisa þarna mastur en gera það á þennan hátt er ámælisvert.
Meðfylgjandi mynd var tekin af Úlfarsfelli, horft til Mosfells og Móskarðshnúka.
Vilja 40 metra mastur á tindinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pressan tekur afstöðu með ríkisstjórninni
14.5.2012 | 17:48
Mörgum hefur þótt nóg til um framsetninguna í herferð LÍÚ sem beinist gegn kvótafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þetta má m.a. lesa í færslum á samfélagsvefum. Boðskapurinn birtast víða og er með óvenjulegu sniði. Andrés Jónsson almannatengill segir að útgerðarmenn hafi gengið lengra í grasrótarherferð sinni en áður hafi sést hér á landi.
Stundum er það mér hulin ráðgáta hvers konar fréttamiðillinn pressan.is er. Sé hann fjölmiðill sem miðla á fréttum er ótækt út frá sjónarmiði blaðmennsku að byrja frétt á þann hátt sem gert er í dag undir fyrirsögninni Útgerðarmenn komnir í teppalagningu: Ganga lengra en áður hefur verið gert hérlendis, segir almannatengill. Enginn reyndur blaðamaður myndi samþykkja svona langa og klúðurslega fyrirsögn, en það er annað mál.
Upphaf fréttarinnar brýtur reglu. Sá sem skrifar svona er annað hvort að taka afstöðu eða hann kann ekkert til í blaðamennsku. Hvort tveggja er slæmt, þó er hið fyrrnefnda verra, því menn geta lært blaðamennsku en erfiðara er að læra að láta persónulega afstöðu liggja á milli hluta.
Eftir að auglýsingar um kvótamál ríkisstjórnarinnar hafa birst í nokkurn tíma lítur út fyrir að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafi áttað sig. Nú er lögð áhersla á að gera auglýsingarnar tortryggilegar, þeir sem taka þátt í þeim séu ekki með fullu ráði. Almannatengillinn Andrés Jónsson, flokksbundinn Samfylkingarmaður, er tekinn til vitnis um að þetta séu hreinlega ómögulegar auglýsingar, svona fræðilega séð.
Engum dettur í hug að landsbyggðin og miklu fleiri óttist þessa árás ríkisstjórnarinnar á lífskjör landsbyggðarinnar. Nei, alltaf þarf að gera fólkið sem starfar í sjávarútvegi og fiskvinnslu tortryggilegt. Þetta sé allt LÍU lygi. Svo virðist sem blaðamaður pressan.is sé þessarar skoðunar og tekur um leið afstöðu með ríkisstjórninni.
Rúv bregst illa við gagnrýni forsetans
14.5.2012 | 08:26
Þegar forseti Íslands sér ástæðu til að gagnrýna fréttaflutning Ríkisútvarpsins eru svörin undarleg. Páll Magnússon, útvarpsstjóri segir í viðtali í Morgunblaðinu í morgun:
Þessar ávirðingar forsetans eru tilhæfulausar og ómaklegar. Ég ætla að stilla mig um að hafa um þau önnur orð, a.m.k. opinberlega.
Og Óðinn Jónsson, fréttastjóri, segir:
Ólafur Ragnar Grímsson, verður bara að fá að ráða því hvernig hann hagar sinni kosningabaráttu.
Mér finnst þessi svör heldur snubbótt og yfirlætisleg miðað við að forsetinn hefur sett fram skýra gagnrýni. Í svörunum felst að Ríkisútvarpið skuldi engum skýringar. Ég hef lesið gagnrýn Ólafs og beið eftir svörum en fæ ekki þau önnur en að þetta sé bara tilhæfuslaus og ómakleg gagnrýni í kosningabaráttu.
Er það svo að í kosningabaráttu sé allt tilhæfulaust og ómaklegt? Eru frambjóðendur flokkaðir á sama bás í Ríkisútvarpinu og svokallaðir hagsmunaaðilar, þ.e. þeir sem eru gjörsamlega ómarktækir.
Þjóðin á rétt á betri og skilmerkilegri svörum frá Ríkisútvarpinu en þetta.
Hreyfingin til sölu, kostar eina tölu ...
13.5.2012 | 21:41
Tökum eftir einu. Ríkisstjórnin er í vandræðum vegna fjárlagafrumvarpsins í haust. Hún hefur ekki nægan þingstyrk til að ná fá það samþykkt. Miðað við sögu undanfarinnar ára kvarnast alltaf úr þingliði Vinstri grænna.
Til að styrkja stjórnarmeirihlutann hefur ríkisstjórnin keypt Hreyfinguna til að samþykkja fjárlögin en það kostar einhvers konar þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána.
Hreyfingin er til sölu eins og hún leggur sig. Hún er einnota, býður ekki fram í næstu kosningum og engin vissa fyrir því að núverandi þingmenn hennar verði á næsta þingi.
Stjórnarskrármál á hreyfingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Forsetinn lýsir starfsháttum ríkisstjórnarinnar
13.5.2012 | 13:01
Jæja, nú er það komið upp á yfirborðið, milliliðalaust. Allur þessi áróður gegn Davíð Oddssyni um yfirgang hans og hann hafi sniðgengið forsetann stenst ekki. Og það sem meira er andstæðar skoðanir Ólafs Ragnars og Davíðs komu ekki veg fyrir að þeir gætu átt ágæt samskipti.
Hvaða ályktanir má draga af viðtalinu við forsetann? Jú, forsætisráðherrann sættir sig ekki við að forsetinn hafi aðrar skoðanir, hún ætlast til að allir standi og sitji eins og hún vill. Gerist það ekki fer hún í fýlu og viðkomandi fer af jólakortalistanum ...
Þetta segir í raun ekkert um lunderni forsætisráherrans, það kemur málinu ekkert við. Aðalatriðið er að ríkisstjórnin kann ekki til verka. Hún veður áfram, hristir af sér þá þingmenn sem ekki reynast leiðitamir og kallar aðra öllum illum nöfnum.
Ríkisstjórnin tapaði Icesave málinu í tvígang í þjóðaratkvæðagreiðslum, hún rann á rassinn með stjórnlagaþingið, hún hefur fengið þjóðina upp á móti sér vegna skuldastöðu heimilanna, atvinnuvegina vegna stórhættulegrar aðfarar að vermætasköpun í sjávarútvegi og svo má lengi upp telja.
Á þingi eru þeir sem ræða málefnalega um lagafrumvörp sem ríkisstjórnin hefur lagt fram sagðir vera með málþóf. Fyrir nokkrum árum hét slíkt lýðræðislegur réttur þingmanna til að tjá sig.
Og í þokkabót stundar ríkisstjórnin hrossakaup, kaupir atkvæði þingmanna Hreyfingarinnar fyrir stuðning við einstök frumvörp.
Er ekki kominn tími til að losna við þessa ríkisstjórn í þingkosningum?
Segir Jóhönnu í herferð gegn sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Katla er að fara að gjósa!
12.5.2012 | 10:13
Eftir alla umræðuna í fyrra, spádóma, draumfarir og ætlanir jarðfræðinga stendur aðeins eitt eftir um Kötlu. Hún gýs einhvern tímann. Enginn veit hvenær. Þess vegna er fyrirsögn pistilsins bæði rétt og röng: Katla er að fara að gjósa. Að okkar tímatali er langt síðan hún gaus og þess vegna hlýtur hún að gjósa bráðlega, en samkvæmt jarðfræðilegu tímatali er afar stutt frá síðasta gosi og ekkert víst að það skipti nokkru máli.
Ég fylgist nokkuð reglulega með jarðskjálftayfirliti á vefsíðu Veðurstofunnar, skil þar fátt nema það eitt að í Mýrdalsjökli hafa litlar hræringar verið undarfarnar vikur og eiginlega frá því í byrjun árs. Segja má að ekkert þar bendi til Kötlugoss. Nema það komi bara óforvarendis.
Þær einu ályktanir sem ég get dregið af meðfylgjandi korti og öðrum álíka hjá Veðurstofunni eru þessir punktar við upptök Tungnakvíslajökuls, vestanmegin í Mýrdalsjökli. Þar eru alltaf viðvarandi skjálftar. Veðja á að þar gjósi næst. Svipað var uppi á teningnum þegar gaus í Eyjafjallajökli. Mikil skjálftavirkni var alltaf við Steinsholtsjökul, skriðjökul sem gengur norður úr honum. Auðvitað hafði ég rangt fyrir mér þá enda hef ég ekkert vit á þessu.
Hið eina sem ég hef vit á er að lesa pistla á bloggsíðu Haraldar Sigurðssonar, eldfjallafræðings. Hann sagði meðal annars í pistli á bloggsíðu sinni 21. desember 2011:
Við höfum oft heyrt það sagt, að Katla sé komin á tíma, að nú hljóti að fara að gjósa vegna þess að viss tími sé liðinn síðan síðasta stórgos var, árið 1918. Þetta er misskilningur. Reynslan sýnir, að eldgos eru yfir leitt það sem vísindin kalla stochastic process. Það er að segja: fyrri atburður eða tímalengd milli atburða hefur engin áhrif á tímasetingu næsta atburðar. Það fæst því engin spá að viti með því að mæla tíðni gosa og lengd goshlés. Hins vegar eru jarðeðlisfræðileg merki mikilvæg. Þau gera ekki spá mögulega, en þau mynda kerfi af upplýsingum, sem kunna að gefa viðvörun um yfirvofandi gos.
Ég leyfi mér sem leikmaður að trúa Haraldi betur en öllum spámönnum og draumafólki. Hins vegar er ég þess fullviss að Katla gjósi mjög bráðlega - tja ... nema hún gjósi ekki!
Ósannfærandi grein Halls Hallssonar
11.5.2012 | 09:03
Dómurinn er birtingarmynd átaka sem hafa átt sér stað í íslensku samfélagi undanfarin ár þar sem stjórnlynt fólk hefur hrifsað til sín völd. Mörk milli valdhafa og búrókratsins verða stöðugt óljósari; saksóknara, sem tók að sér pólitískt skítverk, var umbunað með skipan í embætti ríkissaksóknara; forseti Landsdóms fékk dúsu og situr til fimm ára sem forseti Hæstaréttar í stað tveggja; valdhafar gengu framhjá dómara sem hefði að öllu jöfnu átt að taka við embætti forseta Hæstaréttar og gerðu Markús að forseta og tryggðu setu hans í Landsdómi; og ekki bara það heldur festu þeir í sessi ákvæði sem tryggir Markúsi og vinum völd til þess að skipa vini sína í Hæstarétt.
Hallur Hallsson, fyrrverandi frétttamaður á RÚV, ritar grein í Morgunblaðið í dag undir fyrirsögninni Pólitískur drullupollur. Í greinni ræðir hann um niðurstöður Landsdóms vegna ákæru Alþingis á hendur Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra. Sem kunnugt er var Geir sýknaður af öllum alvarlegustu ákæruatriðum, öðrum var vísað frá en sekt gerð í atriði sem með góðum vilja má kalla formsatriði en ýmsir fræðimenn vilja halda því fram að um þetta atriði hafi Landsdómi skjöplast illilega.
Hallur er oft glöggur á pólitíkina en í þessari grein fer hann heldur illa með staðreyndir. Ég hygg að allir sem til þekkja telji þá sem sátu í Landsdómi vera sómafólk og unnið störf sín þar af dugnaði og skynsemi, jafnvel þó niðurstöðurnar séu ekki alls kostar þær sem búist var við. Það er ekki hægt að bera það á borð fyrir nokkurn mann að þar hafi einhver beinlínis ætlað sér að vera vondur við Geir, slíkt eru afar ósannfærandi rök ef rök skyldi kalla.
Það gengur síst af öll að ráðast með slíkum ávirðingum að hópi fólks eins og Hallur gerir. Persónulega þekki ég ekki Markús Sigurbjörnsson, forseta Hæstaréttar, en hann er talinn mikill fræðimaður og góður dómari. Hallur á að vita betur og hann á ekki að skrifa eins og götustrákur í vinstri grænum litum sem gerir lítið úr samfélagi okkar og stofnunum. Það er auðvitað rugl að halda því fram að Markús hafi þegið dúsu. Svona bull gerir ekkert annað en að draga úr virðingu fólks fyrir dómstólunum, verkefni sem öfgafullir vinstri menn hafa gert að ævistarfi sínu.
Sama á auðvitað við um saksóknara Alþingis sem gerir það sem fyrir hana er lagt. Hallur hefði allt eins getað ráðist á verjanda Geirs og haldið því fram að dómur um sekt hafi verið hans sök. Eflaust má halda því fram með ágætum rökum. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að þetta fólk hafi gert sitt besta til að komast að niðurstöðu í afskaplega leiðinglegu máli sem til var stofnað af vafasömum forsendum. Við sem erum ósátt við niðurstöðurnar í þessu eina atriði sem sekt var dæmd í þurfum að koma með bláköld rök, rétt eins og margir hafa sannarlega gert.
Svo má gagnrýna Hall Hallson fyrir að vaða úr einu í annað í grein sinni í leit sinni að stórkostlegum samsærum og leynimakki. Þetta verður allt svo ósannfærandi og leiðinlegt, ekkert dregur hann upp sem er nothæft í umræðunni í pottinum vegna þess að engin rök fylgja, aðeins dylgjur. Þannig eiga menn ekki að koma fram, síst af öllu ef þeir bera einhverja virðingu fyrir sjálfum sér.