Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012
Niðurstöður FME lækka í hvert skipti
10.5.2012 | 13:42
Aldrei hefur Fjármálaeftirlitið haft áhyggjur af stöðu lánþega og afleiðingum hrunsins á efnahag þeirrra. Bankarnar skapa ekki grundvöllinn fyrir samfélaginu heldur fólkið í landinu og þau fyrirtæki sem það rekur.
Er ekki kominn tími til að fjárhagur almennings verði réttur við í stað þess að einblína á meintan hag bankanna og excelskjölin sem eiga að sýna fram á að fjármálafyrirtækin hafi ekki efni á að fara eftir dómi Hæstaréttar?
Dálítið undarlegt að því oftar sem FME reiknar út áhrif gengislánadómsins því lægri verður fjárhæðin í hvert skipti. Stofnunin verður endilega að halda áfram þessum gagnlegu útreikningum.
Heildaráhrifin gætu numið 145 milljörðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Framtíðin er Mogginn í iPad
10.5.2012 | 07:41
Pappírslaus dagblöð er framtíðin. Morgunblaðið tekur frumkvæðið hér á landi, kannar lítinn hluta markaðarins og ætlar síðan að fara á fullt í verkefnið reynast neyendur áhugasamir. Ég hef hvatt til þess að Mogginn fari þessa braut og að minnsta kosti skrifað tvo pistla um þetta.
Ég held að það séu nú að minnsta kosti komin sjö ár síðan ég hætti áskrift að Morgunblaðinu í pappir og hef síðan einungis lesið það í rafrænni útgáfu, pdf. Blaðið fæ ég alltaf með skilum, eldsnemma á morgnanna, hvar sem ég er staddur í heiminum, svo framarlega sem ég hef haft aðgang að tölvu.
Þá sjaldan sem ég tek pappírsdaglöð mér í hönd verður mér ávalt hugsað til þess kostnaðar sem fylgir prentun og umhverfismála. Með rafrænni útgáfu verður allt miklu einfaldara og þægilegra. Ég lít á bókasafnið mitt, þúsunda bóka sem hæglega gætu komist fyrir í einum iPad.
Þann 23. mars 2011, skrifaði ég stuttan pistil og í honum stóð:
Mogginn á að gera eins og sjónvarpsstöðvar sem bjóða upp á afruglara. Mogginn á að bjóða upp á iPad. Selja hann á góðu verði til áskrifenda. Til dæmis getur hann fylgt þriggja ára áskriftartilboði sem auðveldlega er hægt að útfæra nánar. Þannig fær Mogginn trygga áskrifendur og þeir fá iPad á góðu verði. Geta endurnýjað eftir t.d. þrjú ár og fengið nýja útgáfu af þessu fína tæki. Umhverfislega afar væn hugmynd.
Núverandi mbl.is á að þrengja niður í örstuttar fréttir og upplýsingar. Allar nánari og betri fréttir og upplýsingar eiga að vera á góðri netútgáfu og fyrir hana á að borga.
Og svo kemur rúsínan í pylsuendanum. Morgunblaðið á að hætta að koma út á prentuðu formi eftir t.d. þrjú ár. Hvers vegna að eyða pappír og fylgihlutum í prentaða útgáfu þegar hægt er að gera þetta miklu ódýrara, einfaldara og þægilegra, bæði fyrir útgefandann og neytandann?
Gaman að hafa spáð rétt. Óskar Magnússon útgefandi Morgunblaðsins virðist hafa farið nákvæmlega eftir því sem ég benti á.
iPad-tölva fylgir áskrift | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Skreið til Nígeríu
9.5.2012 | 21:53
Skreið á eftir bifreiðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hnúkurinn er ekki þrjár Esjur ...
9.5.2012 | 10:26
Ferðir á jökla eru ekki hættulegar sé leiðsögn góð og farið með gát. Mér sýnist að leiðsögumaðurinn hafi gert allt rétt. GPS tækið reyndist bilað og hann beið, líklega eftir að þoku eða snjókomu létti og hann sæi leiðina niður. Um síðir fann hann leiðina og allir komust klakklaust til baka.
Svona geta málin þróast, sem betur fer. Sá sem ætlar á fjöll, svo ekki sé talað um jökla, verður að gera sér grein fyrir því að aðstæður geta breyst. Öræfajökull getur verið erfiður og á Hvannadalshnúk er ekki hlaupið.
Flestir halda að gönguferð á Hnúkinn sé gríðarleg skemmtiferð í sól og blíðu, þannig eru alla vega margar frásögur af ferðum þangað. Sem betur fer.
Ég hef oft farið á Öræfajökul og man eftir því að hafa tvisvar þurft að snúa við vegna veðurs. Í fyrra skiptið var komin snælduvitlaus hríð þegar við vorum komin upp í um 1200 m hæð, rétt nýkomin á jökul. Þá var eiginlega ekkert um annað að ræða en að snúa við.
Í lok maí 2006 fór ég fyrir vinum og kunningjum upp, rétt eins og leiðsögumaðurinn, sem frá er sagt í fréttinni. Frábært veður var þangað til við komum upp á sléttu. Þá fór að snjóa og samstundist týndist okkur Hnúkurinn.
Við vorum með GPS tæki og þar að auki var ég með áttavita og hæðarmæli. Tækin brugðust okkur, batteríin tæmdust, og þá var ekkert annað að gera en að snúa við. Þá vorum við komin líklega hálfa leið að Hnúknum og orðið dálítið hvasst.
Ekki mátti seinna vera, förin okkar voru að hverfa í snjókomunni en við komust niður án nokkurra vandræða.
Viku síðar fór ég aftur upp. Þá voru hundruðir manna í fjallinu og frábært veður. Þá var eiginlega stórhættulegt að ganga á Hnúkinn. Þar var hver leiðangurinn á fætur öðrum, hver hópur bundinn saman, allir með ísexi í höndum og brodda á fótum en greinilegt var að margir kunnu ekkert á þessi stórhættulegu tæki. Skyndilega varð ég vitni að því að efsti maðurinn í einum hópnum datt og rann niður á næsta mann og svo koll á kolli. Allt gerðist þetta svo snögglega að engin gat beitt fyrir sig exi eða broddum eða þá að menn kunnu það ekki. einhverjir slepptu öxunum sem hefðu getað stórslasað fólk því þær eru festar við úlnliðinn. Broddarnir snéru niður og stefndu á næsta mann. Þarna hrundu niður tveir hópar, en sem betur fer meiddist enginn.
Þó gönguferðir á Hvannadalshnúk séu vinsælar þá ættu menn að hafa það hugfast að það er langt í frá að það sé eins og að fara þrisvar sinnum upp á Esju eins og vinsælt er að segja. Þá gleymist ótrygg veðráttan, sprungur, kafsnjór, skari og ekki síst breytingar á snjónum eftir því sem líður á daginn.
Efsta myndin er tekin úr seinni hrakningarferðinni á Hnúkinn: þa eru menn í þoku og bundnir saman eins og vera ber. þegar þarna var komið sögu snérum við til baka.
Næsta mynd er tekin viku síðar. Öngþveiti er í uppgöngunni á hnúkinn, að minnsta kosti þrír hópar eru að reyna að troða sér upp (eða niður).
Þriðja myndin er tekin í uppgöngunni sjálfri. Þrír göngumenn í brattri hlíðinni.
Fjórða myndin er tekin þegar ég var kominn niður, enn var fólk í hlíðinni ýmist á göngu upp eða niður.
Sátu föst í þrjár klukkustundir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lögmönnum þykir nóg komið
9.5.2012 | 09:20
Einn hæstaréttardómara ku vera skyldur Davíð Oddsyni, fyrrum forsætisráðherra, og illar tungur herma að hann hafi fengið starfið vegna frændseminnar. Maðurinn, Ólafur Börkur Þorvaldsson, er engu að síður sagður dugandi dómari, með mikla reynslu úr héraði og svona fræðilega séð hefur aldrei nokkur lögmaður sett neitt út á dóma hans eða framgöngu.
Illu tungurnar eru hins vegar samar við sig og halda áfram að gera lítið úr manninum. Mætir lögmenn hafa mótmælt þessu og lýst yfir því að nóg sé komið, gagnrýnendur skyldu líta á gjörðir mannsins ekki ættartengsl.
Sú umfjöllun tekur seint enda og birtist fyrir skömmu niðrandi umfjöllun um hæfni Ólafs Barkar í glansritinu Mannlífi. Umfjöllun þessi er óréttmæt og byggist ekki á málefnalegum forsendum. Álitsgjafarnir finna ekkert að störfum Ólafs Barkar, enda hefur Ólafur Börkur sinnt starfi sínu vel í Hæstarétti.
Hæfni Ólafs Barkar verður ekki dregin í efa. Hann hefur lagt sig fram í störfum sínum og unnið verk sín af stakri prýði. Um það eru allir sem til þekkja sammála. Þeir sem telja sig eiga sökótt við frænda hans ættu að láta við það að sitja að beina spjótum sínum að honum. Það er löngu kominn tími til að þeir láti af lítilmannlegum árásum á Ólaf Börk og starfsheiður hans.
Svona fallega rita nokkrir lögmenn í grein í Morgunblaðinu í morgun. Það verður þó að segjast sem er að kalsinn sem Ólafur eða aðrir finna lítillega fyrir í þjófélaginu í hans garð er ósköp eðlilegur. Minnipokamenn ráðast aldrei málefnalega á einn eða neinn, eru ekki vel að sér, ekki upplýstir eða áhugasamir um staðreyndir mála. Þess vegna verða menn eins og Ólafur að brynja sig fyrir hnútukasti eða einfaldlega leiða það hjá sér.
Þó það skipti ekki máli, get ég ekki orða bundist um orðalag í greininni: Þeir sem telja sig eiga sökótt við frænda hans ættu að láta við það að sitja að beina spjótum sínum að honum. Ferlega er þetta nú mikið hnoð svo ekki sé meira sagt.
Vandræði við Vífilsfell vegna lokanna
9.5.2012 | 00:56
Vel er gert fyrir þá sem vilja ganga á Þverfellshorn í Esju. Þar eru stór bílastæði og göngustígnum hefur dálítið verið viðhaldið, sérstaklega neðst. Þannig er það ekki alls staðar á höfuðborgarsvæðinu. Allir sem vilja ganga á Hengil vita hversu erfitt er að komast að Sleggjubeinaskarði þar sem margir vilja hefja gönguna, Orkuveitan tefur ferðalanga þar.
Vífilsfell er eitt af stórkostlegustu fjöllum sem ég þekki og kynnst hef ég þeim mörgum. Oftast var farið að norðausturhorni fjallsins og til þess var ekið veginn inn í Jósefsdal og lagt á litlu moldarbílastæði rétt við hornið. Vegurinn er nú orðinn ónýtur nema fyrir fjórhjóladrifsbíla og í þokkabót stendur á skilti við æfingasvæði mótorhjólamanna við Bolöldu vegurinn inn í Jósefsdal sé lokaður vegna bleytu. Stundum er það rétt, stundum ekki, veltur á tíðarfari. Gönguleiðina á fjallið hef ég merkt inn á ljósmyndina hér fyrir neðan.
Um daginn gat ég ekið inn í malarnámuna norðan við Vífilsfell og komist að norðausturuppgöngunni, raunar aðeins vestan við hefðbundinn stað, en komst inn á gönguleiðina eftir nokkurra mínútna göngu. Þessari leið hefur nú verið loka með stóreflis björgum og keðjum.
Oft fer ég aðra leið á fjallið og ek þá veginn inn í Bláfjöll og beygi síðan inn að gamalli malarnámu, legg þar bílnum og geng rétt rúman kílómetra að fjallinu, upp gil og síðan á tindinn.
Báðar þessar leiðir eru skemmtilegar og fínar og til nánari skýringar er meðfylgjandi kort.
Hér fyrir neðan er ljósmynd sem er tekin frá gönguleiðinni í fjallinu og horft niður á láglendið. Rauða óslitna línan hægra megin á myndinni merkir veginn inn í Jósefsdal og að bílastæðinu - sem var við uppgönguna. Vegurinn er ófær venjulegum bílum eins og áður sagði. Punktalínan sýnir gönguleiðina, annars vegar frá þessu gamla bílastæði og hins vegar frá malarnáminu norðan við fjallið. Báðar eru lokaðar eins og ég nefndi.
Hins vegar skil ég ekki hvers vegna ekki er álíka gott bílastæði gert við Vífilsfell og er við Esjurætur. Hvers vegna finnur enginn hjá sér hvöt til að laga göngustíginn upp norðausturhornið, upp á hásléttuna. Vífilsfell er í lögsagnarumdæmi Kópavogs og því liggur beinast við að hin ágæta bæjarstjórn þar samþykki nú að láta laga veginn að fjallinu, búa til gott bílastæði og gera eitthvað fyrir gönguleiðina.
Þriðja myndin er af malarnáminu norðan við fjallið en það er nú lokað öllum almenningi. Ferhyrningurinn er settur þar sem hægt að gera mjög gott bílastæði, raunar miklu betra en það sem er nær Jósefsdal.
Fjórða myndin er tekin í áðurnefndu gili sunnan við Vífilsfell, en þar er prýðileg uppganga, að vísu dálítið brött, en engu að síður auðveld.
Núna, meðan snjór er í gilinu, er gangan miklu léttari, en þegar hann hefur tekið upp koma í ljós klettar og krókaleiðir þarna sem tefja dálítið för.
Munum eftir að tvísmella á myndirnar til að stækka þær.
Svo þarf að taka á utanvegaakstri mótorhjólamanna á þessum slóðum, kem að því síðar.
Reykingar til ama fyrir nágranna
8.5.2012 | 16:18
Flestir gera sér grein fyrir þeim hættum sem fylgja reykingum. Færri og færri reykja því og nú vill reykingafólk eðlilega ekki reykja inni hjá sér. Því fer það út á svalir og reykir þar sínu heimili til þægðar. Fyrir hina er málið verra. Reykurinn læðist um og oftar en ekki inn hjá nágrönnum, þeim til mikils ama. með þessu er reykingafólk að leysa eigin vandamál á kostnað annarra.
Lausnin er bara ein, hætta að reykja.
Reykti margar sígarettur í einu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ríkisstjórn og fjármálafyrirtæki gegn Hæstarétti
8.5.2012 | 09:54
Er ekki mikilvægara að Alþingi einhendi sér í að stöðva innheimtu ólögmætra lána, í stað þess að þrasa út í eitt um nöfn á ráðuneytum?
Þetta segir Eygól Harðardóttir, alþingismaður, í pistli á Eyjunni. Undir það taka flestir en ekki ríkisstjórnin eða þingmeirihluti hennar, VG, Samfylkingin og Hreyfingin.
Fyrir rúmu ári dæmdi Hæstiréttur að gengistryggt húsnæðislán hjóna í Frjálsa fjárfestingarbankanum væri ólöglegt. Ári síðar, í febrúar á þessu ári, unnu sömu hjón annað mál fyrir Hæstarétti og var samkvæmt honum ólögmætt að reikna Seðlabankavexti á lánið aftur í tímann.
Munum að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið ærðust og misstu stjórn á rökhugsun sinni haustið 2010 eftir að Hæstiréttur hafði dæmt gengislánin ólögleg. Til að redda fjármálafyrirtækjunum ákváðu SÍ og FE að í stað ólöglegra gengistrygginga skyldu öll lán bera ákveðna vexti.
Þetta héldu stofnanirnar fram að væri gert vegna þess að Hæstirétti hefði láðst að segja til um hvað ætti að koma í stað gegnistrygginarinnar.
Hæstiréttur gleymdi hins vegar engu og ítrekaði, eins og áður sagði, á þessu ári að gengistrygging væri ólögleg og ekkert ætti að koma í stað hennar. Punktur.
Drómi nefnist félag sem tók yfir lán Spron og Frjálsa fjárfestingarbankans þegar þessi fyrirtæki fóru á hausinn. Ragnar Hall er lögmaður áðunefndra hjóna og hann hefur frá því að dómur gekk reynt að fá Dróma til að fara að lögum og dómi Hæstaréttar um gengislánin, en ekkert gengið.
Staðan er nú þannig að fjármálafyrirtæki landsins hafa ekkert gert og ganga þannig gegn dómi Hæstaréttar, koma sér hjá því að standa í skilum við lántaka. Sama hafði gerst með Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið. Þessar stofnanir gengu gegn dómi Hæstaréttar og sömdu sína eigin niðurstöðu á honum í hræðslubandalagi við fjármálafyrirtæki landsins. Og það var gert með fulltingi ríkisstjórnar Íslands, hinnar norrænu velferðarstjórnar.
Og á meðan heimilin í landinu eiga í gríðarlegum erfiðleikum leikur ríkisstjórnin sér að stjórnarskrármáli, nafnabreytingum á stjórnarráði, hrókerningum ráðherra, ESB umsókn og hótar atvinnulífinu ofursköttum.
Ég spyr, rétt eins og ég hef gert svo oft áður, er ekki kominn tími á þessa andsk... ríkisstjórn?
Og hvar er nú liðið sem áður barði í potta og pönnur þegar afleiðingin af verkum norrænnar velferðarríkisstjórnar er orðin meiri og alvarlegri en hrunið sjálft?
Ríkisstjórnin ætlar að brjóta stjórnarskránna
7.5.2012 | 08:51
Þau fiskveiðistjórnarfrumvörp sem Alþingi hefur nú til meðferðar eru stórskaðleg. Þau munu valda tjóni hjá fyrirtækjum, raska byggð, leiða til launalækkana hjá starfsfólki, draga úr þjóðhagslegri arðsemi og eru hörð atlaga að fjármálakerfinu. Á þetta hefur verið bent af fræðimönnum, endurskoðendum, fjármálafyrirtækjum, útvegsmönnum, sjómönnum, fiskverkendum og sveitarstjórnarmönnum og fjölmörgum alþingismönnum. Það er hryggilegt hve formælendur þessara frumvarpa taka þessum alvarlegu ábendingum af mikilli léttúð og kæruleysi.
Ofangrein tilvitnun er úr grein Einars Kristins Guðfinnssonar, alþingismanns, í Morgunblaðinu í morgun. Í henni rekur hann nokkur atriði sem benda tvímælalaust til þess að fiskveiðifrumvörpin brjóti á rétti samkvæmt stjórnarskránni. Þessi atriði eru:
- Þar sem skattlagningarvaldið verður samkvæmt stjórnarskrá ekki framselt til framkvæmdavaldsins verða allar forsendur álagningarinnar að vera skýrar. Þær skortir í frumvörpum ríkisstjórnarinnar.
- Frumvarpið um veiðiskattinn felur í sér framsal skattlagningarvalds, frá Alþingi til framkvæmdavaldsins.
- Hér er verið að vísa til þess að sérstakri nefnd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er falið mjög mikið vald til útfærslu á skattheimtunni.
- Stjórnarskráin leggur blátt bann við afturvirkri skattlagningu. Rökstutt hefur verið að regla veiðiskattsfrumvarpsins sé afturvirk.
- Bent hefur verið á að frumvörpin, verði þau lögfest, muni fela í sér mjög mikla rýrnun á verðmæti fyrirtækja í sjávarútvegi, um 100 til 145 milljörðum króna, um 38% frá núverandi virði.
- Slík skattlagning hlýtur að vera langt umfram það skattlagningarvald sem stjórnarskráin færir Alþingi.
- Af lestri umsagna verður það ráðið að frumvörpin tvö kunni að stangast a.m.k. á við fjórar greinar stjórnarskrárinnar, þ.e. 40. gr., 72. gr., 75. gr. og 77. gr.
Tíglar á Mars og móberg í Vífilsfelli
6.5.2012 | 18:34
Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, birtir á bloggi sínu í dag þessa mynd frá Mars. Þar má sjá hraun eða eitthvað annað alsett tíglum. Hann segir:
En það er fleira merkilegt á myndinni frá Mars. Eitt eru bólur á yfirborði, sem gætu verið gasbólur í hrauni, og hitt atriðið eru tíglarnir, sem einkenna allt yfirborðið. Þeir minna óneitanlega á það mynstur sem verður til á yfirborði vegns stuðlabergsmyndunar í hrauni.
Um leið og ég sá þessa mynd datt mér auðvitað í hug móberg skammt sunnan við tind Vífilsfells. Þar virðist móbergið hafa sprungið í tígla eða ferhyrninga af einhverjum ástæðum.
Engar gasbólur eru eðlilega í því heldur þúsundir skessukatla, líklega frá þeim tíma er jökull lá yfir og vatn rann um og slípaði móbergið til.
Mér fannst sláandi líkindi með þessum marstíglum og Vífilfellstíglunum. Ástæðan er kannski sú að um helgina hef ég dálítið gengið um svæðið mér til heilsubótar og hressingar eins og sagt er.
Takið eftir samræminu milli þessara tígla á efri myndinni og þeirra á neðri, sem þó líkjast meira púðum. Með þokkalegu ímyndunarafli gæti maður haldið að þetta væri af sama fyrirbrigðinu.
Þriða myndin er af skessukötlunum. Þeir myndast þegar straumvatn rennur um klappir og lítill eða stór steinn festist og snýst í holu og stækkar hana smám saman og dýpkar. Svona skessukatlar eru út um allt á þessu svæði, rétt eins og móbergið væri úr tómum osti.
Það merkilegast er að skessukatlar verða yfirleitt til í nokkurn vegin láréttu bergi, ef ekki sést á lögun þeirra hvernig bergið hefur legið.
Hérna eru hins vegar skessukatlarnir beint inn í berg sem getur verið lóðrétt. Kannski bendir það til þess að það hafi hreyfst verulega til síðan þeir mynduðust. Í það minnsta er lítið um rennandi vatn á þessum slóðum og því ekkert sem heldur áfram myndun þeirra.
Svo er ekki úr vegi fyrir lesendur að smella á myndirnar og stækka þær.