Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

Réði hefndarfýsn gerðum fyrrum forstjóra FME?

Fyrir tæpum 30 árum var starfsmanni hjá stóru íslensku fyrirtæki með starfsemi í mörgum löndum sagt upp vegna erfiðleika í samskiptum hans við yfirmenn sína. Til að hefna sín fyrir uppsögnina greip þessi maður til þess úrræðis að reka hnífinn í bakið á starfsmönnum fyrirtækisins með því að fóðra helsta sorpblað landsins á trúnaðarupplýsingum og ósannindum um fyrirtækið, sem hann hafði starfað hjá. Með því kveikti hann þann eld, sem varð að mesta galdrabrennumáli 20. aldarinnar, og var kallað Hafskipsmálið.
 
Axel Kristjánsson, virtur lögmaður, sem þekktur er fyrir allt annað en að fara með fleipur, ritar athyglisverða grein í Morgunblaðið í morgun en ofangreind tilvitnun er úr henni. Maður rekur eiginlega upp stór augu við letsurinn. Hvað á maðurinn við? Um hvern er hann að tala?
 
Þessum manni, sem kveikti galdrabrennueldana forðum, tókst síðan að klifra eftir krókaleiðum upp í eitt af æðstu embættum ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J. og hefur verið áberandi í fjölmiðlum síðan í eftirliti með siðferði fjármálakerfisins.
Nú virðist svo, að ekki hafi honum tekist betur til en svo, að hann hefur notað stöðu sína til að hnýsast í einkamál annarra með atbeina þeirra, sem hann átti að halda á hinni vandrötuðu braut siðferðis í fjármálum. 
 
Á Axel hér við Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóra FME? Sé svo kann stjórn FME að hafa farið enn lengra aftur en til ársins 2001 til að finna ávirðingar á Gunnar? 
 
Það sem verst er eiginleg fyrir Gunnar er að málið vegna uppsagnar hans virðist engan enda vera að taka. Fleiri og fleiri blandast í málið. Núna Axel Kristjánsson og ekki síður Fréttablaðið í morgun. Í því fullyrðir Gunnar að Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, hafi komið gögnunm til Kastljóssins sem fór mjög óvægnum höndum um forstjórann þáverandi.
 
Svo virðist sem að í þessum ping-pong leik taki fleiri en tveir þátt. Ásakanir eru á alla bóga um leka úr Landsbankanum um persónuleg málefni Guðlaugs Þórs og líka Gunnars. 
 
Allt þetta mál ber þess merki að vera orðinn farsi. Fjármálaeftirlitinu er enginn greiði gerður með því að halda áfram málarekstrinum í fjölmiðlum og trúverðugleiki Gunnars Andersen fer óneitanlega hraðminnkandi eftir því sem fleiri gögn benda til þess að gerðum hans ráði beinlínis óslökkvandi hefndarfýsn. Annað fæ almenningur ekki séð eftir því sem fleiri upplýsingar verða til um þetta mál.
 


Þarf olnboga-, tilfinningalegt og praktískt rými

Skapti

Skapti Hallgrímsson, hinn skemmtilegi blaðamaður Morgunblaðsins í „höfuðstað Norðurlands“ ritar að venju frábæra grein í Moggann í morgun. Í henni telur hann upp þá sem koma til greina sem forsetaframbjóðendur vegna forsetakjörs þann 30. júní næstkomandi.

Því miður gleymir hann mér, sem er mjög alvarleg yfirsjón. Í gær átti ég nebbnilega notalega kvöldstund með bekkjarfélögum úr Hlíðarskóla 1965-68 er við voru níu til tólf ára. Og þarna, yfir frábæru matarborði hennar Kristínar Bladursdóttur, hrökk upp úr Dóru Axelsdóttur að ég ætti að bjóða mig fram sem forseta. Hún Dóra var nú afskaplega framsýn og skörp og með þessari áskorun sannar hún svo ekki verður um villst að engu hefur hún tapað á þeim fáu árum sem liðin eru.

Mig minnir að meira að segja einn eða tveir í samkvæminu hafi tekið undir áskorunina með mikilli hrifningu. Að sjálsögðu stóð ég upp (um leið fækkaði umtalsvert í boðinu, skil ekkert í því) og flutti langa, fróðlega og skemmtilega ræðu um forsetaembættið, stöðu þess og nauðsyn á breytingum. Um það bil þremur klukkustundum síðar lauk ég henni (var þá Kristín gestgjafi farin að sofa) með því að segja að ég mun hugsa málið framyfir helgi (fann þá úlpuna mína og læddist út). Þjóðin verður bara að bíða og skilja að þessi áskorun kemur notalega flatt upp á mig en ég þarf olnboga-, tilfinningalegt og praktískt rými til að hugsa minn gang. Væntanlega mun ég kalla saman blaðamannafund á tröppum Bessastaða, í það minnsta bekkjarfund í gömlu stofunni okkar í Hlíðaskóla, og tilkynna ákvörðun mína. 

Þegar upp er staðið er þetta ágætis innidjobb, felur í sér ferðalög og fjölda samkvæma og ríkið borgar mat, húsnæði og bús fyrir mann. Á móti kemur að minni tími gefst til að ganga á fjöll, leika golf, detta í'ða, fara á kvennafar, blogga, ... 


Ert'að djók'í mér?

Er Landsbankinn að gera at í manni? Hvernig eiga skuldarar að gera fyrirvara á greiðslum sínum? Flestir greiða greiðskuseðla í heimabankanum. Þar er ekkert pláss fyrir neinar athugasemdir eða fyrirvara.

Fari maður í banka og greiði hjá gjaldkera þá nægir eflaust af hvísla fyrirvaranum að honum ... Eða hvað? Best er líklega að deponera eða senda aðalbankastjóranum línu með hverri greiðslu. 


mbl.is Sendir áfram út óbreytta innheimtuseðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástþór á ekkert erindi í framboð en ...

Hafi einhverjir verið að spjalla um forsetaframboð Ástþórs Magnússonar þá hefur það ekki verið í spaugi. Maðurinn hefur ekkert fylgi til þessa embættis eftir að hafa reynt sig tvisvar við það fékk. Árið 1996 fékk hann 4.422 atkvæði, 2,7% af heild. Árið 2004 fékk hann 2.001 atkvæði, 1,9%.

ýmsir kunna að halda því fram að hann sé svo illa gefinn að hann átti sig ekki á því að hann eigi ekki nokkurn séns með framboði sínu. Aðrir vita betur, Ástþór er ekki að hugsa um embættið, hann veit að það er vonlaust. Hann getur þó haldið áfram að nota framboð til embættis forseta Íslands sér til framdráttar erlendis. Það hefur hann gert hingað til með góðum árangri eins og sjá má á heimasíðu Friðar 2000:

Peace 2000 has been awarded for its Santa aid flights to war torn areas done under a special permission of the UN Security Council, by the Gandhi Foundation, UNESCO and the Greek Orthodox Church who decorated its founder, Icelandic Presidential Candidate Thor Magnusson with their Holy Gold Cross for humanitarian work at a ceremony in memory of Mother Theresa and Princess Diana.  

Niðurstaðan er sú að þessi maður er ekki í vinsældarkosningu á Íslandi heldur í business í útlöndum. Sem frambjóðandi á Ástþór ekki nokkurn sjéns jafnvel þó hann skreyti sig með heimsþekktum nöfnum og kallar sig Thor Magnússon.


mbl.is Framboð til forseta í þriðja sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umferðin í Reykjavík

Þetta er það sem mér leiðist mest í umferðinni í Reykjavík:

  1. Fólk sem lullar á vinstri akrein eða hangir á henni langtímum saman, jafnvel frá Ánanaustum og upp í Grafarholt. Vinstri akrein er til framúraksturs. Ef allir myndu nota hana þannig gengi umferðin hraðar fyrir sig.
  2. Þeir sem aka á strætóakreinum til þess eins að komast nokkrum sekúndum fyrr á áfangastað
  3. Borgaryfirvöld sem gera ekkert í því að greiða fyrir umferðinni á álagstímum
  4. Fólkið sem leggur í bílastæðin við Sundlaugina í Laugardal en fer ekki þar í sund.
  5. Allt þetta fólk sem er fyrir mér í umferðinni Smile

 


Verjum fé til fyrirbyggjandi aðgerða

Mjög óvenjulegt er að útlendingar skilji hversu erfiðar aðstæður geta oft verið til leitar að fólki hér á landi. Ekki síður er óalgengt að fólk átti sig á því að björgunarsveitirnar eru reknar af samskotafé og í þeim starfi eingöngu sjálfboðaliðar. 

Miklu máli skiptir því að styrknum sem aðstandendur Daniels Markusar Hoij verði varið á réttan hátt, rétt eins og Landsbjörg ætlar að gera. Ég hefði þó talið betra að hluti hans yrði varið til fyrirbyggjandi aðgerðir. Fólk má ekki bíða skaða af því að ferðast um landið, það á að vera upplýst um hættur sem ferðalögum eru samfara. Það er grundvallaratriði.


mbl.is Færðu Landsbjörg minningargjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AGS skilur ekki tilfinningar aðeins Excelskjöl

forgangur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að fyrst kemur ríkið síðar, löngu síðar, borgararnir og fyrirtækin.

Þetta er röng aðferðarfræði og sést einna gleggst á Ísland og Grikklandi. Á báðum stöðum hefur þessi makalausi alþjóðasjóður ásamt ESB knúið fram gríðarlegt atvinnuleysi svo leysa megi fjárhag ríkisins.

Hin rétta aðferðarfræði er sú að hvetja til almennrar neyslu, ýta almenningi og fyrirtækjum út í fjárfestingar og framkvæmdir. Þannig verða til tekjustofnar fyrir ríkissjóð. Þeir hverfa með auknu atvinnuleysi, minni umsvifum í þjóðfélginu, minni fjármagnshreyfingum og fleiri aurum sem læstir eru inn í bankahvelfingum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þekkir ekki tilfinningar fólks enda sjást þær ekki á Excelskjölum eða reiknilíkönum. Starfsmenn sjóðsins þekkja ekki atvinnuleysi af eigin raun. Þetta er hálaunalið, skattlaust og leggja ekkert til, hvorki í heimalandi sínu né annars staðar.

Vísum Franek Rozwadowski, sendifulltrúa AGS á Íslandi og Julie Kozack, yfirmanni sendinefndarinnar AGS, úr landi. Eða það sem betra er, látum sérstakan saksóknara kyrrsetja skötuhjúin og sækjum þau til saka fyrir ómanneskjulegar aðgerðir gegn íslenskri þjóð. Tillögur sjóðsins hafa reynst stórhættulegar og hrakið fjölda fólks í atvinnuleysi og úr landi. Þær hafa þrengt svo mikið að þjóðinni að hún hefur aldrei verið nærri því að missa fullveldi sitt til ESB.


mbl.is Andvíg almennri skuldaniðurfærslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitíska forystu um skuldavandann vantar á þingi

Marinó G. Njálsson bendir á það á bloggi sínu að Samtök fjármálafyrirtækja reyna hvað þau geta til að tefja málið og leggja annan skilning í síðasta dóm hæstaréttar um gengistryggingu en dómurinn ætlar. Í þeim tilgangi hafi samtökin fengið álit frá lögfræðistofunni Lex þar sem ekki einu sinni getið um meginniðurstöðu dómsins um að óheimilt sé að leiðrétta vexti aftur í tímann.

Hið merkilegast er að nú hafa verið sendir út greiðsluseðlar sem byggja á ólögmætum vaxtaákvörðunum. Gera má ráð fyrir því að það eitt sé lögbrot enda byggir það ekki einhverju allt öðru en niðurstöðum hæstaréttar. Líklegast er skákað í því skjólinu, rétt eins og Þorsteinn Einarsson, hæstaréttarlögmaður, sagði á fundi Samtaka iðnaðarins að það taki eitt og hálft á að koma einkamáli í gegnum dómskerfið. Á meðan gefst framkvæmdavaldinu, Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu tækifæri til að gera almenningi einhvern óskunda til viðbótar.

Vandinn er sá að almenningur stendur frammi fyrir ríkisstjórn sem ekki ætlar sér að gera neitt í málunum og fjármálastofnunum sem þráast við í skjóli ríkisstjórnarinnar. Ef ekki væri fyrir hæstarétt væri stór hluti þjóðarinnar enn harðlæstur í verðtryggingunni. Hið eina sem nú vantar er vilja til  að klára málið. Dómar hæstaréttar eru tiltölulega skýrir en beðið er eftir pólitískri forystu frá löggjafarvaldinu. Það sárlega vantar. 


mbl.is Þarf að setja lög um flýtimeðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um pólitíska aðför og listina að standa uppréttur

Atkvæðagreiðslan á Alþingi í gær um frávísun á tillögu Bjarna Benediktssonar um afturköllun á málsókn gegn Geir H. Haarde fyrrum forsætisráðherra var athyglisverð. Í Morgunblaðinu í morgun birtist í morgun einstaklega fróðleg samantekt um afstöðu einstakra þingmanna og flokka til málsins.

Þar staldrar maður við þingmenn sem sögðu kusu gegn málarekstrinum í upphafi en hafa síðan viljað halda honum áfram þrátt fyrir fyrri afstöðu. Meðal þeirra eru Jóhanna Sigurðardóttir og Árni Páll Árnason. sú fyrrnefnda var í upphafi á móti en hefur síðan verið fylgjandi. Árni Páll sat núna hjá eftir að hafa kosið gegn málarekstrinum í tvígang. Össur Skarphéðinsson og Ásta R. Jóhannesdóttir hafa þó sýnt einstakt drenglyndi og ávallt kosið gegn ákæru á hendur Geir.

Undarlegast þykir manni sinnaskipti Sigmundar Ernis Rúnarssonar, þingmanni Norðausturkjördæmis. Í upphafi kaus hann gegn málrekstrinum, var fjarverandi í annað skiptið (sagðist þó ekki hafa breytt um skoðun) og í gær var hann fylgjandi. Staksteinar Morgunblaðsins fjalla um þingmannin og þar er ekkert ofsagt eins og sést hér:

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði frá því á sínum tíma að hann væri stoltur yfir þeirri ákvörðun sinni að greiða atkvæði gegn því að fjórir fyrrverandi ráðherrar yrðu dregnir fyrir landsdóm.

Um mitt ár í fyrra sagði hann einnig á bloggi sínu: „Geir Hilmari Haarde mælist rétt. Landsdómsmálið er pólitísk aðför að honum. Og hreinsun, finnst mér; kattahreinsun.

Þar sagði hann jafnframt að sú ákvörðun Alþingis að stefna einum manni fyrir dóm fyrir ábyrgðina á óförum landsins væri vægast sagt billeg og seint eða aldrei teldist hún stórmannleg. Hún væri röng og lítilmannleg.

Í janúar sl., þegar greidd voru atkvæði um frávísun á tillögu Bjarna Benediktssonar um niðurfellingu ákærunnar á hendur Geir H. Haarde, var Sigmundur Ernir erlendis en sagðist ella hefðu greitt atkvæði gegn frávísun og að hann mundi styðja tillögu Bjarna.

Í gær fékk hann tækifæri til að snúa við ákvörðuninni sem hann telur að sé „pólitísk aðför“ og „lítilmannleg“.

Þess í stað notaði hann atkvæði sitt til að ákærunni yrði haldið áfram.

Hvaða orð ætli Sigmundur Ernir Rúnarsson leggi til að verði notuð um þessa framgöngu hans? 

Jón Magnússon, lögmaður segir á bloggi sínu um sama mál:

Þegar þingsályktunartillagan, um að fallið yrði frá ákæru á hendur Geir H. Haarde, var tekin til afgreiðslu eftir fyrri umræðu á Alþingi lýsti Sigmundur Ernir Rúnarsson þingmaður stuðningi við tillöguna.

Stuðning gat Sigmundur þó ekki veitt nema í orði, þar sem hann var á ferðalagi í Afríkuríkinu, Burkina Faso.

Nafnið Burkina Faso var tekið upp sem nafn landsins þegar frjálsræðis- og framfaraviðhorf sigruðu nýlenduhugsun og undirlægjuhátt. Nafnið Burkina Faso þýðir  "Þar sem menn ganga uppréttir".

Við atkvæðagreiðslu um fráfall ákæru á hendur Geir heyrðist allt í einu skrýtið hljóð frá Sigmundi Erni sem hætti við að ganga uppréttur.  Nú brá svo við að  Sigmundur Ernir greiddi atkvæði með frávísun tillögunar sem hann sagðist styðja.

Sennilega eru sinnaskipti Sigmunar Ernis í beinu samhengi við það að á þingflokksfundum Samfylkingarinnar hafa félagar hans sagt honum að það væri ekki til siðs í Samfylkingunni að menn gengju uppréttir. Þeir yrði að beygja sig undir okið hvort sem þeim líkað betur eða verr. Sigmundur Ernir hlýddi eins og vel upp alinn kjölturakki sem aldrei gengur uppréttur.

Það gerðu líka þingmennirnir hugumstóru þeir Björgvin Sigurðsson, Árna Páli Árnasyni og Kristjáni L. Möller, sem treysta sér ekki heldur til að ganga uppréttir. 

Það er gott fyrir Jóhönnu að hafa hóp kjölturakka þegar hún þarf að smala köttum. 


Ódrengskapur Jóhönnu Sigurðardóttur

Forðum var það haft um skynsaman og vænan mann að hann væri drengur góður. Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður hefur starfað lengi í ríkisstjórn með Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra. Hún var meðal annars ráðherra í svokallaðri „hrunstjórn“.

Hvíli einhver ábyrgð á hruninu á forsætisráðherra gerir hún það líka á einstökum ráðherrum ríkisstjórnar hans. Jóhanna Sigurðardóttir er ekki drengur góður. Hún dregur eigin samherja undan ábyrgð og vísar henni alfarið á Geir H. Haarde.

Við Sjálfstæðismenn munum aldrei gleyma þessu ódrengskaparbragði hennar og margra annarra Samfylkingarþingmanna og Vinstri grænna sem í pólitískum leik leggja einn mann í einelti. 


mbl.is Jóhanna styður frávísun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband