Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

Davíð úthúðar bankamönnum með stóryrðum ...

Engar sögur ganga um illar draumfarir vegna yfirvofandi bankahruns, enginn spámaður stóð upp og flutti viðvörunarræður, engir spekingar vöruðu við hættu á bankahruni, engir stjórnmálamenn ræddu opinberlega þessa yfirvofandi hættu, enginn æsti sig nema Davíð Oddsson. Og svo kvartar Ingibjörg Sólrún yfir því að hann hafi úthúðað bankamönnum og útrásarliðinu með stóryrðum og slætti ... Er það ekki annars þannig sem umræðan í dag er um bankamennina og útrásarliðið?

Hvað myndi sómakær og heiðarlegur embættismaður gera þegar hann sér fram á banka- og efnahagshrun. auðvitað sleppir hann sér þegar hann horfir í augun á geðlitlu og hugmyndasnauðu fólki sem að öllu jöfnu ætti að láta hendur standa fram úr ermum. Hvað hefðir þú gert, lesandi góður, hefðir þú vitað um stöðu mála á þessum tíma?

Og Davíð Oddsson er gagnrýndur fyrir varnarðarorð sín, hann er gagnrýndur fyrir aðgerðir eigenda bankanna, manninum er eiginlega kennt um allt. Og núna er hann sagður hafa „tekið hamskipti“ á fundi með ráðherrum. Auðvitað átti hann að messa yfir þessu liði og brjóta í lokin fundarborðið. En ekkert haggaði Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra. Hvað átti Davíð að gera til að vekja hana?


mbl.is „Tók hamskiptum á fundi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmyndir um gjörbreytingu lands

Tæknigeta mannsins og afköst hans eru slík að það er ekkert því til fyrirstöðu að breyta grunngerð landsins. Okkur er í lófa lagið að taka niður heilu fjöllin og flytja „efnið“ (úr hverju eru fjöllin annars gerð?) eitthvurt annað. Það hefur raunar verið gert.

Við getum auðveldlega lokað dölum eða lægðum og fylla þá með vatni. Um leið getum við grafið okkur ofan í jörðina eða inn í fjöllin og búið þar til mikla sali þar sem listamenn flytja ódauðlega tónlist til dýrðar afrekum okkar. Allt þetta kallast víst framþróun.

Ég var svo heppinn hér á árum áður að geta farið með börnin mín um landið og sýnt þeim staði sem mér þykir vænt um. Er núna einmitt að að velta því fyrir mér hvort ég geti gert það sama fyrir barnabörnin mín eða verð ég of seinn. 

Hvers vegna í ósköpunum þurfum við að breyta landi og til hvers? Ég held að fólk þurfi ekki að skiptast í virkjunarsinna eða andstæðinga virkjanna til að átta sig á því að framtíðinni er stórkostleg hætta búin höldum við áfram að breyta því eftir smekk okkar. Er ekki til einhvað sem heitir réttur nýrra kynslóða til að njóta landsins eða er bara í lagi að sökkva landi eða flytja fjöll úr stað?

Þetta er svo ofboðslegur yfirgangur að minnir á andlitsbreytingar fræga fólks í eilífðri og tapaðri leit þess að útliti æskunnar. Breytingar á líkama fólks eru venjulega gerðar með samþykki viðkomandi en hver er umboðsmaður náttúru landsins?


mbl.is Vara við breyttri röð virkjana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeim varð ekki allt að gulli

MidasSkopmynd dagsins í Morgunblaðinu er af fyrrum bankstjórum Kaupþings sem eru búnir að keyra bíl sinn á ljósastaur. Annar þeirra heldur því fram að óhappið sé ljósastaurnum að kenna.

Höfundur myndarinnar er Helgi Sigurðsson hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir hárbeittar ádeilur sínar í skopmyndum sínum. Hann virðist vera fyrir smáatriðin, hann Helgi því á númeraplötu bílsins stendur „Midas“. Nafnið krefst smávægilegrar þekkingar til að geta skilið húmorinn í myndinni.

Midas var í grísku goðafræðinni konungur. Einn af grísku guðunum veitti honum eina ósk og óskaði hann þess að allt sem hann snerti yrði að gulli. Ekki varð þetta til þess að lífið yrði honum betra eða léttbærara. Hann snerti dóttur sína sem varð samstundis að gulli, matur varð að gulli, einnig drykkir og annað. Ágirndin bar skynsemina ofurliði.

Sagt var að hæfileikar stjórnenda bankamanna fyrir hrun væru slíkir að allt yrði þeim að gulli. Það reyndist rangt.


Saksóknari sýnir ekkert nýtt fyrir Landsdómi

Enn er beðið eftir þeim upplýsingum sem réttlæta eiga landsdóm gegn Geir H. Haarde. Ekkert hefur komið fram sem sýnir neitt annað en að stjórnvöld reyndu að snúa við því óhjákvæmilega. Að því var unnið af heilum hug.

Og andskotar Geirs héldu því fram innan þings sem utan að með landsdómsmálinu gæti hann fengið að hreinsa sig. Enn hefur hann ekki þurft þess, jafnvel ekki þó fyrrum bankastjóri Kaupþings byrsti sig í vitnastól. Geðsveiflur hafa bara alls engin áhrif á dómara.

Landsdómur getur ekki sakfellt á grundvelli þess sem fram þegar hefur komi, nema því aðeins að allt sem maður les og heyrir í fjölmiðlum sé tóm vitleysa. Að minnsta kosti hefur saksóknari Alþingis ekki enn getað sýnt fram á að ákæran hafi við eitthvað að styðjast. Og hvað ætti það eiginlega að vera? Það er ekki nóg að ákæra fyrir það eitt að einhver er pólitískur andstæðingur, jafnvel þó það hafi verið gert.


mbl.is Spáir 40% heimtum í þrotabúið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna þola þessar viðræður ekki sannleikann?

Sláandi upplýsingar koma fram í leiðara Morgunblaðsins í dag um aðlögunarviðræður Íslands og Evrópusambandsins. Ef til vill hafa þær koma fram í fréttum blaðsins en farið framhjá mér. Í leiðaranum segir:

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur haldið því fram að ástæða þess að viðræður um sjávarútvegsmál hefjast ekki sé að endurskoðun sé í gangi hjá Evrópusambandinu á sameiginlegu fiskveiðistefnunni. „Af þeim ástæðum er ESB ekki á þessu stigi í stakk búið að hefja viðræðurnar. Þannig að ég get ekki sagt til um það hvenær þær byrja,“ sagði Össur á nefndarfundi Alþingis í nóvember í fyrra.

Í sama streng tók Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands, í viðtali við Morgunblaðið í febrúar sl. Hann sagði Ísland hafa lagt áherslu á að „erfiðu kaflarnir“ yrðu opnaðir sem fyrst en ESB hefði sitt verklag. Sambandið væri ekki tilbúið til að opna sjávarútvegskaflann að sinni vegna endurskoðunar á sjávarútvegsstefnu þess.

Morgunblaðið leitaði til Stefans Füle, stækkunarstjóra ESB, til að fá fram afstöðu sambandsins og þá reyndist hún allt önnur en íslensk stjórnvöld hafa lýst. Spurður að því hvort bíða þyrfti eftir að endurskoðun ESB á fiskveiðistefnunni lyki áður en hægt væri að hefja viðræður um sjávarútvegsmál í tengslum við umsókn Íslands sagði Füle: „Nei, við þurfum ekki að bíða eftir endurskoðun fiskveiðistefnu ESB.

Skýrara gat það ekki verið, en þá stendur eftir spurningin um hver segir satt og hver ósatt. Íslensk stjórnvöld segjast vera að bíða eftir Evrópusambandinu, en sambandið segir að ekki standi á neinu sín megin. 

Er virkilega verið að fela eitthvað fyrir þjóðinni? Eða er hér um pólitískan leik, verið að bíða með þessa „erfiðu kafla“ þangað til betur árar í þjóðmálaumræðunni á Íslandi. Eða eins og Mogginn segir: „Hvers vegna þola þessar viðræður ekki sannleikann?“  


Ekkert nýtt, gjörsamleg óþörf réttarhöld

Fjölmiðlar hafa sagt vel og skilmerkilega frá réttarhöldum Landsdóms í máli Alþingis gegn Geir H. Haarde fyrrum forsætisráðherra. Raunar er óskiljanlegt að ekki skuli vera sjónvarpað eða útvarpað frá þessa sögufræga atburði. Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins segir af þessu tilefni á Evrópuvaktinni og flestir sem ég hef rætt við eru sammála honum:

Það er ótrúleg afdalamennska, að réttarhöldum fyrir landsdómi skuli ekki útvarpað og sjónvarpað. Sama þröngsýnin og olli því, að yfirheyrslur rannsóknarnefndar Alþingis fóru ekki fram fyrir opnum tjöldum.

Fólkið í landinu á kröfu á því að geta fylgzt með þessum réttarhöldum.

Sakborningurinn, Geir H. Haarde, ætti kröfu á því að réttrhöldunum yrði útvarpað og sjónvarpað.

Það er enn hægt að bæta úr þessu.

Það á að gera strax. 

Hitt er svo annað mál í réttarhöldunum hefur ekkert markvert komið fram sem setur sök á Geir H. Haarde. Allur vitnisburður bendir í eina átt. Ekki var hægt án bóta að hrófla við bönkunum. Þetta var eiginlega pattstaða.

Hitt vekur athygli mína, og eflaust margra annarra, hversu saksóknarar virðast vera bitlausir í spurningum sínum. Þeir spyrja almenns eðlis og vitni fá að ræða málin fram og til baka án þess að spurningum sé fylgt eftir. Raunar sannast það sem andskotar Geirs á þinginu sögðu að ekkert nýtt hefði komið fram í málinu. Þau orð og framganga saksóknara benda til þess að réttarhöldin séu gjörsamlega óþörf. Og hvernig hefði staðan verið ef öll þáverandi ríkisstjórn hefði verið saksótt fyrir Landsdómi. Það hefði nú verið meiri langavitleysan. Á móti hefur nú verið opinberað enn einu sinni að stjórnvöld höfðu miklar áhyggjur af ástandinu og mikið var unnið bak við tjöldin til að koma í veg fyrir hið óumflýjanlega. 

Komi ekkert nýtt fram við þessi réttarhöld liggur beinast við að sýkna Geir. Að öðrum kosti þurfa saksóknarar að benda á hvað forsætisráðherra hefði getað gert á árinu 2008. Og þá þurfa þeir að að sanna með óyggjandi hætti að þær aðgerðir hefðu komið í veg fyrir hrunið.

Hefðu slík ráð verið til kann að vera að fyrrverandi eigendur bankanna væru enn að stýra þeim. Eru það aðstæður sem við viljum miðað við allt sem fram er komið um þetta lið?

 


Málefnalegur eða skítlegur

Ómálefnaleg umræða kemur alltaf í kollinn á þeim sem hana stundar. Auðvelt er að viðhafa skítleg ummæli til ófrægingar. Þó furðulegt megi telja gengur slíkur málflutningur ansi oft upp. Sá sem um er rætt tapar stöðu sinni og verður framvegis illa þokkaður jafnvel þó rök hans í umræðunni séu traust og góð.

Enginn atar þá auri sem hann þekkir. Afar ólíklegt er að sá ausi á vefnum ómálefnalega úr reiðiskálum sínum yfir móður sína, föður, systkini, vini eða samstarfsfélaga. Auðveldara er að hatast við einhvern sem maður þekkir ekki nokkur deili á.

Ef til vill er alveg út í hött fyrir mig að vera með einhverjar svona orðaræður. Ég get þó ekki orða bundist. Mér gremmst þegar vegið er að fólki sem ég met mikils. Enn verra er að ég hafi þann í einhverjum metum sem heggur á þennan hátt.

Oft finnst mér gaman að lesa vefinn amx.is. Stundum finnst mér ummæli á honum fara algjörlega yfir velsæmismörk og oft er vanþekkingin mikil. Í gær mátti lesa eftirfarandi umfjöllun sem spannst upp vegna líkamsárásar á lögmannsstofu við Lágmúla í Reykjavík:

Að Marínó G. Njálsson telji það skiljanlegt að einhver fari vopnaður hnífi og risti menn á hol í Lágmúla í Reykjavík lýsir hugarheimi sem smáfuglarnir töldu að væri aðeins til í huga sjúkra manna. Marínó virðist þó ætla að sýna fram á annað.

Ég skil hreinlega ekki hvers vegna Marinó G. Njálsson er dreginn inn í þessa umræðu. Ég hef lesið ummæli hans um árásina í Lágmúla og var fyllilega sammála honum. Ég þekki manninn ekki persónulega en hef oft lesið bloggið hans og fullyrði að þar heldur á penna grandvar og góður maður. Það sem meira er hann er málefnalegur og hefur unnið mikið og þarft verk vegna skuldastöðu heimilanna í landinnu. Og betri baráttumann gegn vondri ríkisstjórn er vart hægt að hugsa sér.

Er það mat aðstandenda amx.is að þeir megi ofbjóða lesendum sínum með ómálefnalegri umfjöllun og jafnvel rangri? Er það réttlætanlegt að vefurinn geri sjálfan sig ómarktækann með umfjöllun sinni?

Þegar öllu er á botninn hvolft er líklegra skynsamlegra að vera málefnalegur, leita sér bandamanna gegn vondri ríkisstjórn frekar en að vera skítlegur til skemmtunar.

 


Krakað í sjávarútveginn með skóflu

Auðvitað má breyta íslenskum sjávarútvegi en það verður að gerast rólega. Það verður þó ekki gert með skóflu enda er atvinnulífið ekki moldarköggull. Þetta var gert hér fyrir hrun, fyrirtæki keypt, skuldsett og seld aftur á óheyrilegu verði, bankalán til kaupanna fylgdi jafnan. Þessi fyrirtæki áttu sér enga viðreisnar von í höndum nýrra eigenda, hversu mikill sem vilji þeirra var.

Ragnar Árnason, hagfræðingur, ritar grein í Morgunblaðið í morgun. Hann bendir á að samkeppnisstaða íslensks sjávarútvegs kunni að verða lakar haldi íslensk sjórnvöld áfram að veikja hann.

Við þær aðstæður er einungis tímaspursmál hvenær hinir erlendu samkeppnisaðilar ná að hrekja íslenska framleiðendur út af bestu mörkuðunum með undirboðum og öflugri markaðssetningu. Þá mun þróun liðinna ára snúast við. Í stað þess að þjóðin fái stöðugt hærra verð fyrir sjávarafurðirnar mun verðið fara lækkandi og okkar útflytjendur smám saman hrekjast út í lökustu markaðshornin. Framlag sjávarútvegsins til landsframleiðslu mun minnka að sama skapi. Okkur mun einfaldlega verða minna úr auðlindum sjávarins. Þjóðin í heild mun tapa.

Þessi orð Ragnars eru athyglisverð. Menn verða að hugas dæmið til enda, taka með í það sölu- og markaðsmál atvinnugreinarinnar. Hún þrífst á þeim og það er ekkert sem segir að sú staða sem sjávarútvegurinn er í dag á erlendum mörkuðum muni halda sér. Það er einmitt skoðun Ragnars sem segir í niðurlagi greinarinnar:

Sagan kennir okkur að búi stjórnvöld innlendum atvinnuvegum lakari samkeppnisskilyrði en atvinnuvegir annarra þjóða njóta er þess skammt að bíða að þessir atvinnuvegir lúti í lægra haldi í hinni alþjóðlegu samkeppni, dragist saman og visni. 


Snoppufríðar vilja til Bessastaða en hvað með hinar?

Snoppufríðar fjölmiðlakonur virðast á mikill rás til Bessastaða. Athygli vekur að hinar, þessar sem samkvæmt hefðbundinni (úreltri) viðmiðun teljast ekki snoppufríðar, eru í kyrrstöðu. Hvað veldur því að við almenningur teljum fallega fólkið miklu betur til þess fallið að vera forseti?

Nú er dálítið erfitt að halda áfram svona spjalli því lesandinn krefst þess án efa að skrifari nefni þær konur sem hann telur einhverra hluta vegna ekki snoppufríðar. Ég segi nú bara eins og Steingrímur Joð sagði, maður er sko ekki fæddur í gær og fellur ekki svo auðveldlega oní svoleiðis gryfju.

Lítum þó á að báðar fjölmiðladæturnar sem eru að hugsa málið, báðar hafa þær gert garðin frægan í sjónvarpi. Hvorug þeirra á „frægð“ sína úr útvarpi. Segir það ekki dálitla sögu?

Þekkt fjölmiðlafólk á einfaldlega mun meiri sjéns í framboðum en aðrir. Sú forgjöf er mikilvæg. Við kjósendur þurfum þó að hugað að öðru. Spyrjum hvað hugsanlegir frambjóðendur til embættis forseta Íslands leggja með sér annað en útlitið sem þegar nánar er að gáð skiptir ekki nokkru máli. 

 


Ánægjan að hafa stútað einum vesælum

Útilokað er að verja árásina á starfsmenn Lagastoða í gær. Ég held að enginn málstaður réttlæti ofbeldi af neinu tagi og því hlýtur maður að fordæma ofbeldið. En umræðan hefur fleiri hliðar og málavextir eru margir.

Í ljósi atburðarins er engu að síður nauðsynlegt að líta til verkefna lögmanna og hvernig þeir og kröfuhafar iðka sín störf. Fjöldi dæma eru um að þeir elti skuldara nær því út yfir gröf og dauða. Fyrir getuleysi, mistök, óheppni, vitleysisgang eða hver ástæðan hefur verið fyrir því að skuld var ekki greitt, er hefnt grimmilega. Tölvan á lögmannsstofunni gleymir engum. Hún minnir lögmanninn á að halda við kröfunni. Það kostar hann ekkert. Hann sendir bara kópi/peist bréf.

Dæmi eru frá gríðarlegri óhamingju og erfiðleikum vegna þess að lögmenn og kröfuhafar sýndu ekkert annað en hörku og óbilgirni. Í þessu sambandi má vitna til orða Marinós G. Njálssonar sem segir eftirfarandi í pistli á bloggi sínu:

Margoft er búið að biðja fjármálafyrirtækin og innheimtulögfræðinga þeirra um að sýna skilning, manngæsku og auðmýkt. Því miður hafa þessir aðilar ekki hlustað nægilega vel. 

Ég þekki persónulega dæmi þess að lögmenn og kröfuhafar opinberra stofnana eins og Lánasjóður íslenkra námsmanna hundelti skuldara þrátt fyrir gjaldþrot.

Og tuttugu árum eftir að krafan myndaðist, tíu árum eftir að skuldarinn fór í gjaldþrot hefur hann náð sér upp úr versta öldudalnum og eignast íbúð. Hver er þá fyrsti gesturinn sem bankar uppá? Jú, lögmaðurinn með hina fornu kröfu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Og þeir hirða íbúðina, kasta skuldaranum, án efa réttilega, aftur út í skógganginn. Og hvað fær Lánasjóðurinn og lögfræðingurinn fyrir vikið. Kannski ekkert nema ánægjuna að hafa stútað einum vesælum utangarðsmanni og þessir aðilar vita ekkert um að sá tók í kjölfarið líf sitt.

Ekki misskilja, lögmenn eru ekki verri en annað fólk. Sumt fólk metur hins vegar meira budduna sína en manngæsku og auðmýkt.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband