Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012
Loksins tillaga um lækkun eldsneytisverðs
24.2.2012 | 09:50
Afleiðingar gríðarlegra hækkanna á bensíni eru alls staðar sjáanlegar enda hafa þær áhrif út um allt þjóðfélagið ekki síst á landsbyggðinni. Nú er ekki litið til ríkisstjórnar landsins um forystu í neinum málum heldur kemur hún frá stjórnarandstöðunni.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram á þingi tillögur um tímabundna lækkun á álögum ríkisins á eldsneyti. Gert er ráð fyrir að verði af þessu muni líterinn á bensíni og díselolíu lækka niður í 200 kr. pr. lítra. Þetta er umtalsverð lækkun úr tæplega 260 kr. og fólki munar um hana.
Um leið er áætlað að skatttekjur ríkisins minnki ekki heldur jafnvel aukist. Við hækkun á eldsneytiskostnaði er viðbúið að sala þess dragist saman og umferð á landinu minnki. Með lækkun er einfaldlega gert ráð fyrir að umferð aukist og því hagnist ríkisvaldið jafnvel meir en ef núverandi ástand haldist.
Og í ljósi þessa geri ég fastlega ráð fyrir því að þingflokur Sjálfstæðisflokksins taki næst pólitíska forystu í skuldamálum heimilanna.
Fyllerí á fjöllum hefur lengi viðgengist
23.2.2012 | 17:26
Svörtu sauðirnir hafa alltaf verið til. Það er vonlaust að verjast þeim. Fyrir um þrjátíu árum gekk ég ásamt félögum mínum yfir Sprengisand að vetrarlagi. Þegar við komum í skála FÍ í Nýjadal uppgötuvuðum við að mat hafði verið stolið úr birgðum okkar. Var þó allt vel merkt gönguhópi.
Sama gerðist eitt sinn á ferð yfir Vatnajökul. Frækinn hópur breskra ofurhuga sem þóttist hafa gengið fyrstur yfir Vatnajökul frá vestri til austurs rændi af okkur mat. Hins vegar nefndu þeir ekki ódæðið í heimildarmyndinni sem gerð var um ferð þeirra. Ófáar aðrar álíka sögur hefur maður heyrt um gripdeildir úr farangri göngufólks og annarra.
Eitt sinn kom ég með öðrum á gönguskíðum í Landmannalaugar. Þar var hópur frá ágætu fyrirtæki í skemmtiferð. Drykkjuskapurinn var með endemum mikill en við göngufólkið lögðumst engu að siður til hvílu uppi í herbergi í skálanu og gátum sem betur fer lokað að okkur. Þó heyrðum við um miðjan nótt að við glumdi mikill skellur. Kom þá í ljós að dauðadrukkinni stúlku hafði skrikað fótur í miðjum, bröttum stiganum og skall hún á gólfið fyrir neðan. Hún var vart með meðvitund en það var vegna drykkju ekki vegna fallsins. Þeir sem höfðu vit voru mjög óttaslegnir og héldu að hún hefði stórslasast en svo reyndist sem betur fer ekki. Hins vegar voru timburmenn stúlkunnar afskaplega slæmir daginn eftir og ekkert skildi hún í marblettum og eymslum hér og þar um kroppinn.
Í annað skipti man ég eftir vélsleðamanni, ungum strák, sem var að gera hosur sínar grænar fyrir einhverri yngismey í landmannalaugum. Fullur fór hann á vélsleðann, ók upp í hraunjaðarinn sem var auðvitað snævi þakinn. Hann náði ekki beygjunni efst uppi og þar stoppaði sleðinn og spólaði. Hann fór því af baki og reyndi að tosa afturenda sleðans til svo hann kæmist aftur niður. Ekki fer þó allt eins og ætlað er. Sleðinn tók að renna skáhalt niður og stefndi á kolrangan stað. Drengurinn reyndi hvað hann gat til að halda aftur af honum, en allt kom fyrir ekki. Þeir tveir runnu svo tveir í lest með vaxandi hraða niður, drengurinn hélt í endann og dróst á maganum uns sleðinn skall á nefið ofan í autt hverasvæði þarna fyrir neðan. Þótti flestum þetta hin mesta sneypuför og svo undarlega vildi til að daman varð skyndilega mjög afhuga drengnum.
Fyrir fjöldamörgum árum rauk einhver vélsleðamaður drukkinn upp úr lauginni í Landmannalaugum, skellti sér nöktum í vélsleðagallann og keyrði langleiðina upp í Veiðivötn. Þar ók hann fram af hengju, stórskemmdi sleðann og slasaði sig. Leið og beið uns félagar hans tóku að sakna mannsins og var þá kölluð út þyrla til leitar og björgunarsveitin Ingólfur sem var fyrir tilviljun í Veiðivötnum fór líka til leitar. Maðurinn fannst snemma morguns og var fluttur til byggða og mun hafa náð sér.
Hér eiga ekki við neinar alhæfingar og halda því fram að vélsleðamenn séu jeppamönnum verri eða öfugt. Staðreyndin er einfaldlega sú að sá tími er upp runninn að fjöldi fólks heldur að ótæpleg neysla áfengis eigi við á ferðalögum, sumar og vetur. Slíkt fólk eru sauðirnir sem ber að forðast. Vandinn er bara sá að jepparnir eru orðnir svo góðir og fullkomir og komast svo til allt. Það breytir því ekki að fjölmargir lítt til ferðalaga að vetrarlagi, treysta á bílinn en hafa enga þekkingu. Á móti kemur að fullur bílstjóri, þó öllu jafna sé vanur ferðalögum, er slæmur ferðamaður.
Síðast en ekki síst þarf að taka tillit til þeirra sem leggja það á sig að byggja og reka skála á hálendi landsins. Umgengni um þá versnar auðvitað eftir því sem drykkjuskapurinn magnast. Húsin og viðhald þeirra kosta Ferðafélag Íslands, Útivist og önnur félög og samtök gríðarlegar fjárhæðir. Slæm umgengni er mikil vanvirðing við óeigingjarnt starf þessara aðila og á ekki að líðast.
Svartir sauðir á hálendinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Valgerður hefur kyrrsett málið
23.2.2012 | 13:51
Nú er verið að hóta því að öll gögn sem varða landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, verði öllum aðgengileg á Þjóðskjalasafni, rétt eins og það sé einhver rök í lopatuði í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Verði pólitískum andstæðingum Geirs H. Haarde að góðu. Gögnin má geyma á Þjóðaskjalasafninu, get ekki ímyndað mér að nokkur leggist gegn því enda kemur það málinu ekkert við. Mestu skiptir að Alþingi fái að greiða atkvæði um þingsályktunartillöguna um niðurfellingu á málrekstrinum.
Munum svo að aðeins er ein vika til mánaðarmóta og málið verður flutt í Landsdómi 5. mars. Kyrrsetning Valgerðar og meirihlutanum á málinu er því að ansi áberandi.
Klára málið í næstu viku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Íhugar að taka eigið líf ...
23.2.2012 | 10:46
Þetta fólk, er iðulega orðalag þeirra sem ekki skilja vanda rúmlega 40% þjóðarinnar sem á í erfiðleikum eða getur hreinlega ekki staðið í skilum með íbúðarlán sín. Ótaldir eru þá þeir sem þegar hafa tapað íbúðum sínum með öllum þeim afleiðingum sem því fylgir oft.
Marinó G. Njálsson varar á bloggi sínu við sóttinni sem lagst hefur á þjóðina og dreift sér víða og má rekja til hrunsins. Hann segir:
Hættum að finna fyrir meðaumkun með fjármálafyrirtækjum sem ekki kunnu fótum sínum fjörráð. Tökum manngildi ofar auðgildum. Án viðskiptavina verða engin fjármálafyrirtæki.
Í athugasemdadálkinum tekur til máls sextug, fráskilin kona, móðir fjögurra uppkominna barna. Hún keypti sér íbúð við skilnað sinn árið 2005, átti helminginn, 10.000.000 króna. Greiðslur á mánuði áttu þá að vera fjörtíu þúsund á mánuði. Nú er hún atvinnulaus og þarf að borga áttatíu þúsund krónur á mánuði og lánið er komið í 18.000.000 króna. Og hún lýsir hrikalegri stöðu sinni og segir í lokin:
Aldrei skal ég leggjast uppá börnin mín enda hafa þau sko meir en nóg með sitt. Enda kannski fer best á því í þessu "jafnaðar þjóðfélagi" hennar Jóhönnu að maður klári þetta bara sjálfur frekar en að fara í biðröð á elliheimili eða líknadeild þegar þar að kemur.
Nú spyrja æ fleiri: Hvers konar þjóðafélag er það sem lætur það viðgangast að eignir fólks eru hirtar af því, síðan atvinnan og loks er því ýtt fram á ystu brún geðheilsu sinnar og telur að lausnaráðið sé það eitt að taka eigið líf?
Trúið mér, þessi kona er ekki sú eina sem þetta hugsar. Fleiri hafa farið þennan veg og það á enda.
Það er rétt sem Marinó G. Njálsson segir að sóttin er orðin hrikalega skæð og við þurfum að stemma stigu við henni. STRAX.
Ríkisstjórnin í jafnaðarþjóðfélagi hennar Jóhönnu hefur engar lausnir fyrir almenning. Engu að síður er pólitískur meirihluti fyrir breytingum á verðtryggingunni á Alþingi. Hversu lengi þarf almenningur að bíða? fram að næstu reglubundnum kosningum? Hvað mun sú bið þjóðfélagið?
Skilja stjórnmálamenn ekki hið grafalvarlega ástand?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Valgerður Bjarnadóttir- stundar klækjapólitík
23.2.2012 | 08:45
Saksóknari fyrir alþingis hefur rétt fyrir sér. Það er mikið virðingarleysi ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis getur ekki druslast til að afgreiða málið úr þingnefndinni. Hins vegar ber að horfa til þess að virðingarleysi ríkisstjórnarinnar og meirihluta hennar gagnvart lögum og hefðum er ekkert.
Um það var samið fyrir jól að þingsályktunartillaga Bjarna Benediktssonar um afturköllun ákærunnar á hendur Geir H Haarde, fyrrum forsætisráðherra færi til umræðu 20. janúar. Nú á að svíkja samkomulagið með því að láta málið daga uppi í þingnefnd.
Eftir að hafa tapað eftirminnilega í atkvæðagreiðslunni þennan dag ætlar ríkisstjórnarmeirihlutinn að hefna sín með því að láta málið daga uppi í þingnefndinni. Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, ætlar að sýna Alþingi og þjóðinni þá vanvirðingu. Hún og aðrir í ríkisstjórnarmeirihlutanum þora ekki að láta greiða atkvæði um málið. Skömm Valgerðar verður lengi uppi. Þetta eru stjórnmálin sem hún og félagar hennar iðka. Enn meiri mun skömm hennar verða er landsdómur mun vísa málinu gegn Geir H. Haarde frá eða sýkna hann. Þá verður hennar einna helst minnst fyrir klækjapólitík, ekki aðeins í þessu máli heldur mörgum öðrum.
Virðingarleysi við vinnu allra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
mbl.is endurnýtir fréttir frá visir.is
22.2.2012 | 10:24
Með frábærum mannskap ætti mbl.is ekki að þurfa að klúðra fréttaveitu sinni. Það á að vera ómögulegt en tekst samt. Nú birtir vefmiðillinn frétt sem hann hefur ekki getað fundið sjálfur og bendir á visir.is til nánari upplýsinga. Og ekki er um neina smáfrétt að ræða.
Þetta er ekki viðundandi árangur á fréttamiðli sem vill taka sig alvarlega. Er verið að benda okkur áskrifendum að Morgunblaðinu og lesendum mbl.is að við gætum allt eins þegið Fréttablaðið sem er ókeypis? Er ætlunin að spegla visir.is í framtíðinni?
Þetta er ekki boðlegt, Óskar!
Kaupþingsmenn ákærðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pólitíska forystu vantar í skuldamálum heimilanna
22.2.2012 | 09:14
Fyrir vikið hafa skuldalækkanir heimilanna í landinu einvörðungu að litlu leyti orðið á grundvelli aðgerða stjórnvalda. Langstærsti hluti þeirra skulda, sem hafa á annað borð verið afskrifaðar, var ólöglegur. Þar var því ekki um að ræða eiginlegar aðgerðir í þágu skuldugra heimila, sem stjórnvöld höfðu atbeina að. Fjármálastofnanir voru einfaldlega dæmdar til þess að bregðast við. Lánin sem áttu að koma til innheimtu voru ólögleg og verðminni en áður var talið.
Þetta er jú sama fólkið, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, sem gerði Ice-save-amningana árið 2009 og allir þekkja. Þeir hefðu kostað okkur mörg hundruð milljarða, en var afstýrt. Þess vegna er það auðvitað ofrausn að gera þær kröfur til núverandi stjórnvalda að þau hafi gengið almennilega frá málum þegar íslenska bankakerfið var endurreist. Þau klúðruðu þessu eins og svo mörgu öðru.
Betlistafurinn sem háir landsbyggðinni
21.2.2012 | 16:07
Jón Jónsson, menningarfulltrúi Vestfjarða er skynsamur maður og mælir oft rétt. Vandi landsbyggðarinnar er þó ekki þessi staðalímynd sem hann hefur raðað svo skemmtilega saman. Það sem háir of mikið byggðum landsins er betlistafurinn.
Miðstýringarvaldið í Reykjavík hefur gert það að verkum að stýringin hefur horfið úr sveitarfélögunum til framkvæmdavaldsins sem í langflestum tilvikum er staðsett í Reykjavík.
Allflest sem skiptir landsbyggðina máli þarf að sækja til Reykjavíkur. Skattarnir streyma suður og þar eru ákvarðanirnar teknar.
Skiptir litlu hvað um er að ræða; samgöngumál, heilbrigðismál, dómsmál, kirkjumál, málefni atvinnuveganna og svo framvegis.
Gera menn sér grein fyrir því hvað það hefur til dæmis kostað Vestfirðinga að þurfa í sífellu að koma suður og betla, biðja eða krefjast fjár til vegamála?
Afleiðingin hefur einfaldlega orðið sú að ósjálfrátt telja fjölmargir íbúar á höfuðborgarsvæðinu að lífskjör séu afar slæm á Vestufjörðum og þar sem varla búandi vegna allra aðstæðna. Hér passar staðalímyndin hans Jóns svo ósköp vel; miðaldra karlinn með betlistafinn.
Á bak við þetta allt saman er þó staðreynd sem fæstir átta sig á nema þeir leggi á sig ferðir um landið. Víðast er byggðin blómleg þó margt bjáti vissulega á. Með nýjum kynslóðum verða til nýjar kröfum og viðmiðanir. Einu sinni var landsbyggðinni líkt við eina samfellda vertíð sem entist út árið. Þá var sagt að fólk iðkaði einfalt líf; vinna sofa, éta og fjölga sér (kannski ekki í þessari röð). Einhvern tímann var því svo bætt við að sem afþreyingu horfði fólk á vídeó.
Þetta er nú liðin tíð. Nú er stórkostleg menning á landsbyggðinni, rétt eins og starfstitill Jóns Jónssonar, Strandamanns, ber vitni um. Fólk vill menningu, fer í gönguferðir, hleypur til að styrkja sig, syndir, ræktar garðinn sinn, stundar skógrækt, ferðast innanlands sem og til útlanda. Lítið bara á hversu bæjarfélög á landsbyggðinni hafa breyst síðustu tuttugu árin.
Landsbyggðin stendur fyrir sínu en betlistafurinn skemmri óneitanlega mikið fyrir.
Fúlskeggjaður miðaldra karl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármagn í geymslu og engum til gagns
20.2.2012 | 09:28
Á Alþingi vantar pólitíska forystu til að lagfæra skuldastöðu heimilanna. Pólitísk samstaða þvert á stjórnmálaflokka virðist vera til staðar en enginn gerir neitt. Ríkisstjórnin hefur auðvitað brugðist enda er markmið hennar að skjalborg um fjárhagsstöðu fjármálastofnanna.
Illugi Gunnarsson, alþingismaður, ritar langa grein í Morgunblaðið í morgun. Greinin er nokkuð góð þó ekki sé ég fyllilega sammála öllu sem fram kemur í henni. Að hætti svo margra stjórnmálamanna fer hann mörgum orðum um fjölmargt, tiplar þó bara í kringum málið án þess að taka beina afstöðu. Það hefði hann svo sem getað gert, aðeins þurft að sagst t.d. vera á móti verðtryggingu húsnæðislána.
Illugi er greinilega ekki sá sem ætlar að taka forystu í málinu. Hann vill skoða vaxtabóta- og skattkerfið til að færa til fjámuni til illra staddar lántakenda. Það gengur alls ekki og er eiginlega engin lausn. Vandinn er ekki aðeins þeir sem eru illa staddir heldur einhliða uppgjör fjármálastofnana vegna hrunsins. Skuldararnir eru allir látnir taka ábyrgð á hruninu og skuldaeigendur mala gull.
Munum að með hruninu varð forsendubrestur á lánum tryggðum með verð- og gengistryggingum. Ekki er nokkur leið á að hægt sé að klína ástandinu á skuldara. Hins vegar er ljóst að fjármálastofnanir geta hæglega breytt ástandinu, aukið við verðbólgu sem veldur hækkun lána.
Sé ætlunin að brúka skattkerfið eða vaxtabætur eingöngu til að lagfæra stöðu fólks er afleiðingin eiginlega verri en engin. Illugi verður að skilja forsendubrestinn. Hann er til staðar hvort sem fólk getur eða getur ekki staðið í skilum með íbúðarlán sín eða önnur lán.
Svo er það önnur en skyld saga að samfélagið tapar ótrúlegum fjárhæðum vegna þess að tæpur helmingur þjóðarinnar á í fjárhagslegum erfiðleikum vegna húsnæðislána sinna. Það mætti segja mér að stór hluti atvinnuleysisins sé vegna þess að hagkerfið er stíflað. Peningar sem annars hefðu leitað út sem alls kyns greiðslur fyrir vörur og þjónustu eru nú geymdir í bönkum og lífeyrissjóðum engum til gagns.
Ótrúlega tilraun til að ræna heimili landsins
19.2.2012 | 19:51
Ofangreindar tölur sýna, ef rétt er reiknað, að Fjármálaeftirlit, Seðlabanki Íslands og tveir efnahags- og viðskiptaráðherrar stóðu fyrir ótrúlegri tilraun til að ræna heimili landsins (og fyrirtæki líka).
Vissulega lækkuðu dómar Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010 höfuðstóla lána með gengistryggingu lánin mikið, en hvers vegna þurfti að hækka vexti fyrir 1.1.2008 um 83,2 ma.kr. og aðra 67,6 ma.kr. til viðbótar til 30.9.2008?
Þetta eru 151,8 ma.kr. umfram það sem lántakar höfðu greitt í samræmi við heimsendar tilkynningar. Hver var tilgangurinn? Að færa "erlendum" kröfuhöfum peninga á silfurfati?
Marinó G. Njálsson er ekki einhver maður úti í bæ. Hann er einn af helstu sérfræðingum almennings í skuldamálum heimila og eftir nákvæma skoðun skrifaði hann ofangreint á bloggsíðu sína í gær. Þing og ríkisstjórn þurfa að gaumgæfa þessi orð Marinós mjög vel enda kominn tími til að líta á eitthvað annað en stöðu fjármagnsfyrirtækja.
Þó orð Marinós séu hrikalega mætti fólk skoða það sem sagt er í athugasemdunum við pistilinn. Þar tjá margir góðir menn sig og þeirra á meðal er Vilhjálmur Bjarnason. Eftir að hafa rakið hvernig 26 mkr. gengistryggða íbúðalánið hans frá 2005 hefur breyst segir hann:
Núna sjö árum seinna er sami bankinn og lánaði mér umrætt lán orðinn uppvís af því að hafa vitað allan tímann að það var óheimilt að lána með gengisbindingu. Einnig að nokkrum árum eftir að ég tók lánið þá fór bankinn að vinna gegn krónunni sem olli falli hennar og hækkunar verðbólgu sem jók virði lána þeirra sem að sama skapi varð þess valdandi að lánið mitt hækkaði um allt að 150%.
Og þetta:
Þessi sami banki, sem að vísu er búinn að fá að skipta um kennitölu og nafn ásamt því að fá að yfirtaka skuldina mína með allt að 60% afföllum að því skýrslur AGS segja til um, átti svo að fá að rukka mig um lægstu óverðtryggðu vexti seðlabankans alveg frá tökudegi lánsins um mitt ár 2005 þó ég hafi greitt þá gjalddaga samviskusamlega og sé með kvittanir fyrir því.
Saga Vilhjálms er ekki neitt einsdæmi. Tugþúsundir landsmanna eru staddir í sömu sporum og geta sig ekki hreyft vegna þess að ríkisstjórninn og fjármálastofnanirnar stóla á að almenningur viti ekkert og geri ekkert. Þessar stofnanir tóku hins vegar ekki með í reikninginn að fólki ofbýður og sumir leita til dómstólanna og þá fá þeir skellinn sem eiga hann skilinn.
Hæstiréttur er margsinnis búinn að hirta ríkisstjórn og Alþingi, þjóðin hefur sagt skoðun sína á t.d. Icesave og skoðanakannanir eru allar á einn veg, ríkisstjórnin er fallinn. Engu að síður heldur hún og naumur meirihluti hennar að einhver önnur mál sem mikilvægari en skuldastaða heimilanna. Ríkisstjórnin má reyna að breyta um umræðugrundvöll og taka upp á því allt í einu að spjalla um stjórnarskránna þegar skuldastaða heimilanna og atvinnuleysið er að drepa almenning.
En rétt eins og og Vilhjálmur Bjarnason segir er fólk búið að fá nóg. Nú þurfa stjórnmálamenn að fara að vinna fyrir kaupinu sínu annars er hætt við að búsáhaldabyltingin verði bara barnaleikur til móts við það sem framundan er.